Fimmtudagur 19.01.2012 - 23:29 - Rita ummæli

Enn um konubrjóst

Pétur Tyrvingsson hefur síðustu kvöld bloggað af talsverðri tilfinningu og innsæi um hið ömurlega mál sem upp hefur komið vegna PIP-brjóstapúða. Málið er margþvælt í fjölmiðlum, en sýn Péturs á málið hefur vakið athygli, því hún beinist m.a.  að sambandi lækna og sjúklinga sem þessa þjónustu þiggja (því lögum samkvæmt verður maður „sjúklingur“ í samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn) og hver ber hvaða ábyrgð í þessu sérkennilega máli. Því það er sérkennilegt, þar sem um er að ræða að innflytjandi (sem er reyndar læknir) flytur inn vöru í góðri trú og læknir (sem er reyndar innflytjandinn) kemur þeim fyrir í sínum skjólstæðingum, sömuleiðis í góðri trú. Svo kemur hið ótrúlega upp, varan reynist beinlínis fölsuð og þar sem málið er fordæmalaust eru viðbrögð í þeim löndum sem púðarnir hafa verið notaðir enn í mótun og tilmæli gilda „þar til ný gögn berast“. Framkvæmdastjórn Evrópuráðsins hefur brugðist við með því að  fela sérfræðinganefnd að gera áhættumat um PIP-púðana og er niðurstöðu að vænta í lok janúarmánaðar.

Það er áríðandi að viðbrögð stjórnvalda séu í samræmi við þær bestu upplýsingar sem eru um málið á hverjum tíma. Afstaða íslenskra yfirvalda er tekin með hagsmuni kvennanna og þá mögulegu heilsufarslegu ógn sem þessir púðar kunna að leiða af sér fyrir þær, burtséð frá þeim ástæðum eða aðstæðum sem réðu því að þær hafa nú þessar brjóstafyllingar. Í Svíþjóð og Noregi er þeim tilmælum beint til lækna sem aðgerðirnar hafa framkvæmt að þeir bjóði konum viðtal og skoðun. Komi upp grunur um leka á að ómskoða konuna og mælt er með því að lekir púðar séu fjarlægðir. Tilgreint er að ekki sér ráðlegt að fjarlægja púða sem ekki gefur nein einkenni, þar sem aðgerðin sjálf feli í sér meiri hættu en að halda heilum púðum. Gert er ráð fyrir að konur standi straum af þessum kostnaði sjálfar, enn sem komið er.

Þessi afstaða til þess hvenær fjarlægja eigi púðana kann að koma fólki á óvart, ef það hefur einungis lesið (annars ágætt) blogg Péturs eða viðbrögð formanns velferðarnefndar alþingis, sem bæði eru þeirrar skoðunar að fjarlægja eigi púðana úr öllum konum. Fyrir þessu eru þó læknisfræðilegar ástæður sem hér verða lauslega raktar og eðlilegt er að stjórnvöld fylgi, þó önnur sjónarmið kunni að vega þyngra hjá einstaklingum sem um málið fjalla.

Umræðan um PIP-púðana komst í hámæli þegar sérstök tegund krabbameins, s.k. ALCL, var tengd við þá. Rannsóknir í Frakkklandi og  Bretlandi hafa hins vegar útilokað þessi tengsl, og ekkert bendir til þess að þeir séu eitraðir (eins og Pétur orðar það), né eru aðrar ábendingar um skaðsemi þeirra sem gefa tilefni til að mæla með því að heilir púðar séu fjarlægðir. Áhættan af aðgerðinni (sem er umtalsvert inngrip og gerð í svæfingu) er þannig (ennþá) talin meiri en að kona hafi heila púða. Hins vegar er talið þó það sé ekki staðfest að  PIP-púðar séu sé  líklegri til að rifna og leka en aðrir púðar og ef það gerist þá sé meiri hætta á óþægindum, ertingu og bólgum og þá er ráðlegt að fjarlægja þá.

Að þessu virtu hefur velferðarráðuneytið í samvinnu við embætti landlæknis og Lyfjastofnun kynnt aðgerðaráætlun sína sem svipar til þeirra aðgerða sem nágrannalöndin hafa mælt með. Að tvennu leyti eru aðgerðir íslenskra stjórnvalda þó frábrugðin, þar sem öllum konum verður boðin skoðun og ráðgjöf þeim að kostnaðarlausu og greinist leki verða púðar fjarlægðir með greiðsluþátttöku ríkisins.

Viðbrögð stjórnvalda byggja á þeim upplýsingum sem eru fyrirliggjandi um PIP púðana á hverjum tíma. Íslensk stjórnvöld, heilbrigðisyfirvöld og eftirlitsstofnanir munu ef þörf krefur endurskoða aðgerðaáætlunina eftir því sem ástæða er til, komi fram nýjar upplýsingar um áhrif þeirra á heilsufar og bíða í því tilliti eins og aðrar Evrópu þjóðir niðurstöðu sérfræðinganefndarinnar sem nefnd var hér í upphafi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is