Miðvikudagur 16.10.2013 - 11:59 - Rita ummæli

Missir á meðgöngu

Á morgun verður haldið málþing í Norræna húsinu undir yfirskriftinni „Þú komst við hjartað í mér“. Það eru samtökin Litlir englar sem standa að málþinginu en þar mun fagfólk fjalla um ýmsar hliðar missis á meðgöngu, auk þess sem minn elskulegi eiginmaður mun flytja erindi frá sjónarhóli foreldra. Málþingið er styrkt með fé sem við hjónin söfnuðum í Reykjavíkurmaraþoninu 2011. Dagskrá þingsins er nokkuð yfirgripsmikil en allir eru velkomnir og geta annað hvort setið þingið allt eða valið sér fyrirlestra til að hlýða á. Aðgangseyririnn er táknrænn og hugsaður til að styrkja frekara starf samtakanna ef fólk getur. Fólk má gjarnan skrá sig en það er ekki nauðsynlegt. Hér er dagskráin: Þú komst við hjartað í mér

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.5.2013 - 20:18 - 2 ummæli

Heilbrigðisráðherra?

Undanfarið hafa þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben setið og undirbúið stjórnarmyndun. Fátt hefur heyrst af viðræðum, nema þá helst frá formanni Sjálfstæðisflokksins og þá væntanlega um helstu áherslur hans í viðræðunum. Bjarni brýndi sitt fólk um síðustu helgi og ræddi staðfastur um skattalækkanir og lét kné fylgja kviði með því að upplýsa alþjóð um að veiðileyfagjaldið verði afnumið hið fyrsta. Er þar með eitt kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins uppfyllt og kjósendur hans hljóta að gleðjast. A.m.k. þar til mótvægisaðgerðir vegna skertra tekna ríkissjóðs sem af þessu augljóslega mun hljótast, koma í ljós. Falla nú öll vötn til Dýrafjarðar og umræðan hýtur að fara að snúast um hin svokölluðu „útgjaldaráðuneyti“. Ber þar velferðarráðuneytið langhæst, enda taka málaflokkar þess ríflega 40% af tekjum ríkisins til sín.

Bjarni hefur viðrað þá skoðun sína, ítrekað, að skipa þurfi sérstakan heilbrigðisráðherra. Hafandi starfað í velferðarráðuneytinu og raunar félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneytinu þar á undan, er ég ósammála formanni Sjálfstæðisflokksins um þetta. Ekki endilega að ekki megi skipa fleiri ráðherra í ráðuneyti velferðarmála, þeir eru fáir sem valdið geta þessu starfi, heldur þeirri nálgun að taka þurfi heilbrigðismálin sérstaklega út fyrir sviga. Þess þarf ekki. Raunar hefur samrekstur félags-og heilbrigðsmála gengið mjög vel og árangur sameiningar ráðuneytanna ótvíræður. Mér sýnist sem þarna sé Bjarni ekki að horfa til málaflokkanna sem í velferðarráðuneytinu eru, heldur einhvers annars sem ég átta mig ekki á. Skoða þarf verkefni ráðuneytisins í heild áður en þeim er skipt upp aftur. Hugsa til þess að miklar breytingar urðu við tilfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga og að til stendur að flytja málefni aldraðra til sveitarfélaganna líka. Slík verkefni krefjast sterkrar stjórnsýslu en ekki umróts í yfirbyggingu.  Mjög varhugavert er að skipta ráðuneytinu sjálfu upp, það er í raun ótrúlega lítið miðað við umfang verkefna, enda þótt þar sé úrvals starfsfólk. Sé vilji til þess að fjölga ráðherrastólum er rétt að fara yfir verkefni ráðuneytisins og skipta verkum með ráðherrum, en ekki skipta upp ráðuneytinu sjálfu. Undir velferðarráðuneytið heyra gríðarstórir málaflokkar og rekast misvel saman. Ekkert kallar á sérstakan heilbrigðisráðherra frekar en sérstakan almannatryggingamálaráðherra, vinnumálaráðherra eða húsnæðismálaráðherra. Allt kemur þetta þó til greina. Raunar má færa fyrir því rök að heilbrigðismálin séu þannig að þau teygja sig inn á flest svið og eiga því vel heima með öðru, t.d. félagsmálum og öldrunarmálum.

Það kann að vera að í einhvern tíma hafi ráðherrastarfið verið fínimannastarf, sem helst snérist um ráðherrabíla og veislur (ég reyndar efast um það), en síðustu ár hefur þetta svo sannarlega ekki verið þannig og menn mega hafa sig allan við og leggja nótt við dag. Það er mikilvægt að hafa yfirsýn yfir tengda málaflokka og áhrifavald á þá, svo kerfin vinni saman. Áhrifamáttur hagsmunaaðila, hvort heldur það eru sjúklingasamtök, heilbrigðisstéttir eða birgjar heilbrigðisþjónustunnar, er mikill. Sama má svo sem segja um aðra hagsmunahópa sem eiga mikið undir verkefnum ráðuneytisins.  Ráðherra og ráðuneyti hans verður að geta unnið með slíkum aðilum, en má ekki vera ofurseldur valdi þeirra.

Ég vil því hvetja menn til að íhuga vandlega með hvaða hætti verkefnum er skipt upp og ekki hvað síst af hverju.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.8.2012 - 13:06 - Rita ummæli

Mennsku skrímslin

Mennsku skrímslin eru verst. Engri annarri dýrategund í náttúrunni dettur í hug að níðast á sínum líkum með eins hugvitsamlegum hætti og manninum.

Í dag var eitt slíkt dæmt til þyngstu refsingar fyrir óhugnanlegustu glæpi síðari tíma á Norðurlöndum. Hann var ekki talinn ósakhæfur vegna geðrofs, heldur er gert að gjalda fyrir glæp sinn. Það mun vissulega vera niðurstaða sem hann vildi fremur og það væri í raun hugsanlega eina ástæðan til að dæma hann þannig.

Það var þó ekki niðurstaðan, heldur sú að maðurinn er dæmdur sakhæfur, hann hefur brjálaðar skoðanir en er ekki brjálaður og má vesgú sæta þeirri niðurstöðu.

Þetta er umhugsunarvert. Mér er ofarlega í huga umræða fljótlega í kjölfar þessa voðaverks um að svona gerðu bara brjálaðir menn, ekki væri hægt að tengja það pólitískum skoðunum þeirra. Norðmenn eru sumsé ekki á þeirri skoðun og hneigi ég mig fyrir því viðhorfi og niðurstöðu dómsins.

Nú er það alveg öruggt að sumir glæpamenn sem óhugnanleg voðaverk hafa framið hafa örugglega verið illa sjúkir á sínu geði. En ekki allir. Og það er það sem svo erfitt fyrir okkur hin. Fyrir okkur er óskiljanlegt að nokkur manneskja geti framið þvílík ódæðisverk en gengið um meðal okkar hinna, alist upp með okkur og deilt ýmsum kjörum. Þess vegna væri betra ef við gætum tekið skrímslin og stimplað þau ósakhæf. Þá eru þau ekki eins og við.

En þar er nú vandinn. Mestu skrímslin eru meðal okkar og við sjáum þau ekki – fyrr en of seint, stundum af því að við bara viljum ekki sjá það eða getum ekki trúað því.

Hroðalegustu voðaverk síðustu  aldar voru framin af venjulegu fólki. Ósköp venjulegum þjóðverjum og raunar fleirum sem héldu til vinnu að morgni og fóru svo heim að kvöldi og slökuðu á. Hér má t.d. sjá hressa SS-foringja skemmta sér og slaka á rétt fyrir utan Auschwitz, snemmsumars 1944.

Eftir vinnu. Takið eftir foringjanum káta.

Þetta eru einstakar myndir sem voru í eigu Karls Höecker, sem þá var nýkominn til starfa í Auschwitz. Fleiri myndir af honum og kátum samstarfsmönnum má m.a. finna hér.  Menn gerðu sér ýmislegt til dægrastyttingar eftir vinnu til að undirbúa sig fyrir verkefni morgundagsins. Sem sjá má hver voru hér:

 

Vinnudagur. Takið eftir foringjanum með stafinn.

 

Þetta eru sömuleiðis einstakar myndir, teknar af SS-foringjum við komu ungverskra gyðinga snemmsumars 1944. Linsan fylgir þessu ólánssama fólki frá komunni til Auschwitz og þar til yfir lauk. Talið er að foringinn hér að ofan sé einmitt Höecker og leitt að því líkum að myndirnar séu jafnvel teknar sömu dagana.

Ekki náðist að sakfella Höecker, eða réttara sagt var hann náðaður. Hann lifði praktulega til ársins 2000 og var bankamaður lengst af. Engum datt þó í hug að efast um geðslag hans.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.7.2012 - 15:17 - 9 ummæli

Konungsdráp SUS

Þá er áhugverðu forsetakjöri lokið með endurkjöri sitjandi forseta sem getur unað við niðurstöðuna. Síðast þegar sótt var að sitjandi forseta hlaut hann ríflega 90% atkvæða þannig að auðvitað væri hægt að velta sér upp úr því. Eins er rétt að það var jú bara um þriðji hver kosningabærra manna sem kaus hann. Það er samt bara dáldið nett „lame“ að velta sér upp úr þessu. Ólafur Ragnar tók slaginn og hann vann ótvírætt. Það á enginn að reyna að gera lítið úr því, heldur fagna að lýðræðislegri niðurstöðu var náð og þjóðin kaus sér forseta.

Sjálf hef ég helst velt fyrir mér hvers vegna svo farsæll forseti kaus að berjast fyrir einu kjörtímabili enn, því ef vika er langur tími í pólitík, þá hljóta 34 ár (ÓRG settist á þing 1978) heil eilífð. Af hverju í ósköpunum steig hann ekki af stalli og til annarra starfa eins og hann var nú eiginlega búinn að segja í nýársávarpinu.

Ég kaupi ekki „-óvissu“-skýringuna enda var ekki annað að heyra á forsetanum í umræðunum á RÚV á föstudagskvöldið síðasta að hann hefði engar sérstakar áhyggjur á því lengur, allavega ekki ástæða til að ræða hana eitthvað. Þá er sagt að hann hafi ætlað sér starf á alþjóðavettvangi en ekki fengið. Síðan fékk hann jú fjölmargar áskoranir um að bjóða sig fram og ekki má gera lítið úr áhrifum þess, svoleiðis egó-kitl standast fáir. Ég held ekki að nokkuð af þessu hafi ráðið úrslitum um ákvörðunina, þó auðvitað séu þetta áhrifavaldar. Skýringin er einfaldlega sú að það var ein þúfa sem hann átti eftir að ryðja úr vegi til að verða ótvírætt mesti stjórnmálamaður Íslandssögunnar. Já, að þeim öllum meðtöldum sem löngu eru gengnir, Hannesi Hafstein, Jónasi frá Hriflu, Gunnar Thoroddsen og Ólafur Thors. Flesta samtíðarmenn sína í pólitík hefur hann lagt, Svavar, Jón Baldvin, Steingrím, Jóhönnu … svo það var bara einn eftir.

Ólafur Ragnar ætlar að skrifa söguna. Sjálfur. Hann ætlar ekki að fá einhvern vin sinn til að kaupa handa sér dagblað í aumkunarverðri tilraun til að endurskrifa söguna eins og sumir. Nei,ekki nóg með að hann muni skrifa söguna sjálfur, hann mun gera það með blóði helsta andstæðings síns. Það gerði hann endanlega með þvílíkum brávúr í gær þegar kjósendur Sjálfstæðisflokksins krýndu hann. Ólafur Ragnar, þessi sem þeir kölluðu gjarnan „skattmann“ og gaf (þáverandi) leiðtoga lífs þeirra umsögnina „skítlegt eðli“ .

Enginn kemst með tærnar þar sem hann hefur hælana, því hvað sem segja má um Davíð Oddsson og stjórnmálahæfileika hans, þá verður saga hans varla meira en neðanmálsgrein í umfjöllun um það hvernig Ólafi tókst að láta helstu andstæðinga sína éta úr lófanum á sér. Sjálfstæðismenn gerðu honum einfaldlega tilboð (óafvitandi) sem hann gat ekki hafnað. Átti ekki að hafna.

Og einhversstaðar út í Móa situr hnípinn ritstjóri sem er búinn að átta sig á þessu. Þögnin úr ritstjórnarherbergjum Morgunblaðsins er æpandi. Ekki orð. Ekki einu sinni stöku steinn. Svo er saltinu stráð í sárið með því að SUS héldu krýningarhátíðina í sjálfri Valhöll. Þetta er ekkert annað en konungsdráp í beinni.

Þetta er alvöru. Þetta er tær snilld.

Hversu snúnir sem fyrrum kjósendur/aðdáendur Ólafs Ragnars* eru út í hann, hljóta þeir að geta ornað sér við þetta. Fyrirsögn RÚV „Stuðningsmenn Ólafs Ragnars fagna í Valhöll“ er algerlega episk. Ég hélt að Ólafur eða bara Auddi og Sveppi hlytu hvað á hverju að ryðjast inn í salinn í anda Kutchers og afhjúpa plottið. En nei, það varð nú ekki. Hins vegar geta fyrri fylgismenn Ólafs verið þess fullvissir að það kemur að því. Þá verður hringnum lokað.

 

*Undirrituð hefur einu sinni áður kosið einstakling til embættis forseta Íslands. Það var Vigdís Finnbogadóttir árið 1988, árið sem ég fékk kosningarétt. Síðan þá hefur það verið mín einlæga skoðun að afnema eigi embættið. Í kjölfar mæðradagsviðtalsins við Ólaf Ragnar ákvað ég að skila ekki auðu að vanda, heldur kaus ég Þóru Arnórsdóttur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.5.2012 - 13:16 - Rita ummæli

Að sigra með lokuð augun

Í kvöld er júróvisjón eins og allir vita. Íslensku flytjendurnir munu stíga á stokk og flytja lag Grétu Salóme, ungrar og efnilegrar stúlku.

Talsvert hefur verið rætt og ritað um þessa keppni og þá staðreynd að hún er haldin í Azerbadjan þar sem mannréttindi eru svo sannarlega ekki ofarlega á lista stjórnvalda. M.a. var umræða um það hvort sviðsljósið á Bakú yrði til þess að athygli beindist að mannréttindabrotum stjórnvalda og þannig væri unnt að réttlæta það að keppnin er haldin í þessu landi. Um það leiti sem umræður fóru fram um þátttöku Íslands í keppninni og mannréttindabrot í Azerbajdjan kom hingað mannréttindastjóri Evrópuþingsins, Thomas Hammarberg og ég átti þess kost að hitta hann. Ég leyfði mér að bera fram þá spurningu hvort hann teldi það rétt mat að sviðsjósið gæti orðið til þess að bæta stöðu mannréttinda í Azerbajdjan. Hann tók því fjarri. Hann minnti á að eiginkona forsetans (eða forsætisráðherra) er framkvæmdastjóri keppninnar og það að land myndi draga sig úr keppninni vegna þessa væri mikill álitshnekkir fyrir stjórnvöld – sem eru reyndar meira og minna allir í sömu fjölskyldunni. Hins vegar væri sú staðreynd að keppnin færi þarna fram fremur álitin  mikil upphefð fyrir stjórnvöld og viðurkenning á stjórnarháttum. Þessar athugasemdir Hammarbergs virðast hárnákvæmar, eins og við mátti búast.

Það er þó ánægjulegt að a.m.k. einn keppandi og sá sigurstranglegasti, hefur séð ástæðu til að virða mannréttindabaráttuna viðlits, en sænski flytjandinn Loreen hitti mótmælendur og hlaut bágt fyrir.

Nú ætlar maður auðvitað ungu fólki eins og Grétu Salóme ekki mikla sigra í mannréttindum fyrir okkar hönd. Hún er að vanda sig við tónlistarflutninginn og leiðir ekki hugann að öðru, er bara komin til að taka þátt í lagakeppni“.

Ég leyfi mér þó að gera athugasemdir við þegar litið er vísvitandi í hina áttina. Það er vont, raunar afleitt.

Eða eins og Eurovisionspekingur Íslands nr. 1, Reynir Þór Eggertsson orðaði það svo snilldarlega í tilefni af ummælum Grétu, „það er betra að tapa með heiðri, en vinna með lokuð augun„.

Ég held með Svíþjóð

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.2.2012 - 15:41 - 3 ummæli

Þrautgóður á raunastund

Ég er sjómannsdóttir. Á frændur og vini sem sækja sjó. Hef þekkt fólk og þótt vænt um sem látist hefur í sjósköðum. Hafið gefur og hafið tekur er stundum sagt. Í gær var því síðarnefnda lýst. Í smáatriðum.

Kastljós RÚV sýndi eina mögnuðustu frásögn sem nokkru sinni hefur birst á skjám okkar landsmanna. Eiríkur Ingi Jóhannsson deildi þar með þjóð sinni lífsreynslu af hörmulegu sjóslysi og gerði það af þvílíkum þunga að enginn sem á horfði getur verið ósnortinn. Raunar skortir mann öll orð til að skrifa nokkuð um þessa reynslu Eiríks, það er engu við að bæta.

Reynsla Eiríks er hrá og frásögnin því fersk. Í henni er ekkert dregið undan, engu hlíft, það hefur ekki snjóað yfir neitt og tíminn ekki snortið neitt. Sumir hafa í velvilja sínum velt þeirri spurningu upp hvort Eiríkur hafi verið tilbúin til að segja frá þessari þrautargöngu. Það veit ég ekkert um, en engum treysti ég betur til að meta það en þessum unga manni og ástvinum hans. Frásögn hans bar þó engin merki áfalladoða, þvílíkar voru tilfinningarnar sem þarna birtust – gleðin, sorgin, ástin, örvæntingin, vonin, hræðslan … þetta var þarna allt og Eiríkur leyfði okkur að finna fyrir þessu öllu með sér, öllu. Hráu og alvöru.

Ef til vill þolum við það einmitt misjafnlega vel. Það hefði verið miklu auðveldara fyrir okkur að horfa á viðtal eftir einhvern tiltekinn tíma, þegar hann væri búin að „jafna sig“ (!), „vinna úr“ og hvað það heitir nú fínt. Tíminn hefði dregið svolitla varnarhulu yfir þessa sáru reynslu, svo það hefði verið auðveldara að sitja undir frásögninni. Maður hefði legið uppí sófa með i-padinn og jafnvel bara „lækað“.  Í staðinn kom Eiríkur til okkar nákvæmlega þar sem hann er staddur í lífinu og sínu sorgarferli og bauð okkur skynja eitt augnablik allt þetta hafrót tilfinninga, þannig að maður sat sem bergnuminn og verður sennilega ekki samur. Hann ákvað að bera ekki harm sinn í hljóði, heldur gera eins og Job og deila með okkur reynslu sinni eiginlega í ljóði.

Eiríki vil ég þakka innilega fyrir frásögnina og ég óska honum og fjölskyldu hans velfarnaðar á þeirri þungu leið sem framundan er í eftirmála þessa hildarleiks. Ástvinum hinna látnu votta ég samúð mína og segi þeim að nöfn þeirra Einars, Gísla og Magga og örlög eru greypt í huga okkar sem á horfðu.

Stjórnendur Kastjólssins með Sigmar Guðmundsson í broddi fylkingar eiga heiður skilinn fyrir sína aðkomu að þessari frásögn. Vinnsla þess bar vott um virðingu og nærgætni eins og viðeigandi er. Þetta var í þágu þjóðar, þetta var Ríkisútvarp allra landsmanna.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.1.2012 - 14:13 - Rita ummæli

Konubrjóst 3.5

Minn góði vinur Pétur Tyrvingsson, sálfræðingur á Landspítalanum sendir mér dulítið tóninn í síðustu færslu sinni um stóra PIP-málið. Það er ótrúlega hressandi að fá gagnrýni úr þessari átt á aðgerðir ríkisvaldsins vegna þessa ömurðar máls, hverjum ég hef raunar svolitla aðkomu að þar sem ég hef meðfram húsmóðurstörfum í vesturbænum annan starfa*, eins og títt erum konur á þessari öld.

Helsta gagnrýnin sem hefur verið á aðgerðaráætlun stjórnvalda er reyndar sú að um einhverja aðgerðaráætlun sé yfirleitt að ræða. Lög um greiðsluþátttöku ríkisins vegna fegrunaraðgerða er afdráttarlaus – ekki er um greiðsluþátttöku að ræða og árið 2009 setti Ögmundur Jónasson, þáverandi heilbrigðisráðherra , reglugerð sem bætir enn í og kveður á um að ríkið komi heldur ekki að „tengdum aðgerðum“. Það þýðir að konur sem fram að þessu hafa þurft að láta fjarlægja leka púða hafa þurft að standa straum af þeim kostnaði sjálfar – jafnvel þó heilsubrestur hafa fylgt lekanum og hafi verið ástæða fjarlægingar.

Hvers vegna grípur þá ríkisvaldið til aðgerða núna, en lætur ekki konurnar bara um þetta? Það væri rökrétt niðurstaða ef einungis væri horft til nefndra laga og reglugerða. PIP-púðarnir eru ekki gölluð vara, þeir eru fölsuð vara. Töff lökk segja sumir, sækið bara á framleiðandann/innflytjandann etc. En við Pétur erum svo innilega sammála, að það er eiginlega bara fallegt, um að svoleiðis heilbrigðiskerfi viljum við ekki. Konurnar eiga ekki að þurfa að bíða eftir því að ná peningum út úr þessum framleiðanda og fjármagna þannig prívat aðgerð, frekar en að við ætlumst til að lungnakrabbasjúklingur sæki sér fé í sína meðferð til tóbaksframleiðanda

Velferðarráðuneytið kynnti aðgerðaáætlun sína 10. janúar og svipar henni til tilmæla nágrannalandanna, nema hvað hún er afdráttarlausari þar sem öllum konum er boðin skoðun og ráðgjöf þeim að kostnaðarlausu og ríkið mun taka þátt í kostnaði við fjarlægingu lekra púða. Afstaða annarra Evrópulanda eins og t.d. Bretlands tekur mið af því að PIP-púðar voru þar notaðir í læknisfræðilegum tilgangi (ekki fegrunarskyni) og Frakkar eru enn að íhuga fjarlægingu allra púða, burt séð frá ástæðum innsetninga þeirra og horfa þá til ábyrgðar sinnar sem vottunaraðila vörunnar inná markaðinn – sem vekur auðvitað spurningar um ábyrgð þeirra gagnvart öðrum konum (Icesave, einhver?). En það er annað mál.

Pétur er hins vegar óhress með að ekki sé hjólað í að fjarlægja púðana ekki seinna en strax, enda gengur hann út frá því að þeir séu eitraðir, eða amk að það sé ekki sannað að þeir séu ekki eitraðir. Þá gefur hann lítið fyrir málflutning minn, segir hann þvælu sem standist ekki læknisfræði, hagnýta rökfræði og bætir svo í með því að láta að því liggja að næst á dagskrá hjá mér hljóti að vera að votta þessa líka fínu púða.

Nú er það þannig að ýmislegt er kokkað í eldhúsinu mínu í vesturbænum. Það gildir þó ekki um þessi tilmæli og aðgerðaráætlunina eða rökin fyrir þeim. Það hef ég eftirlátið mér vísara fólki eins og ég fór yfir í pistli mínum um málið. Ég hvet lesendur til að skoða hann og þá hlekki sem ég vísa í – á þeim grundvallast ákvarðanir stjórnvalda í málinu, en ekki einhverju sem ég uppdikta meðan ég hræri í grjónagrautnum. Þá hef ég – ef mig skyldi kalla -ekki umboð en raunar því síður vilja til að gefa þessum fölsuðu púðum eitthvað heilbrigðisvottorð og raunar frábið mér þær aðdróttanir.

PIP-púðarnir eru fölsuð vara, sem hugsanlega rofna fremur en aðrir púðar („eðlileg tíðni“ rofs er um 1-2% en tölur frá 1-10% hafa sést, ekkert er þó staðfest) auk þess sem svo virðist sem lekinn geti valdið meiri óþægindum en lekar frá öðrum púðum, bólgumyndun og ertingu. Bresk og frönsk yfirvöld staðhæfa þó að þeir séu EKKI eitraðir.  Áhyggjur kvenna sem hafa þá eru þó afar skiljanlegar og mér finnast kröfur þeirra um þátttöku ríkisins í fjarlægingu þeirra fullkomlega eðlilegar, því það er þannig heilbrigðiskerfi sem höfum og við viljum hafa. Hins vegar viljum við að ákvarðanir sem teknar eru um líf og heilbrigði skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins séu teknar með yfirveguðum og skynsömum hætti sem byggja á bestu upplýsingum á hverjum tíma og mati á ástandi hverrar konu, en ekki tilfinningalegu uppróti  húsmóður í vesturbænum eða annarra. Eins og staðan er stendur aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda, en eins og margítrekað hefur verið er hún til til endurskoðunar.

Mig grunar að við Pétur munum skrifa Konubrjóst 4.0 saman.

*Höfundur er aðstoðarmaður Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.1.2012 - 23:29 - Rita ummæli

Enn um konubrjóst

Pétur Tyrvingsson hefur síðustu kvöld bloggað af talsverðri tilfinningu og innsæi um hið ömurlega mál sem upp hefur komið vegna PIP-brjóstapúða. Málið er margþvælt í fjölmiðlum, en sýn Péturs á málið hefur vakið athygli, því hún beinist m.a.  að sambandi lækna og sjúklinga sem þessa þjónustu þiggja (því lögum samkvæmt verður maður „sjúklingur“ í samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn) og hver ber hvaða ábyrgð í þessu sérkennilega máli. Því það er sérkennilegt, þar sem um er að ræða að innflytjandi (sem er reyndar læknir) flytur inn vöru í góðri trú og læknir (sem er reyndar innflytjandinn) kemur þeim fyrir í sínum skjólstæðingum, sömuleiðis í góðri trú. Svo kemur hið ótrúlega upp, varan reynist beinlínis fölsuð og þar sem málið er fordæmalaust eru viðbrögð í þeim löndum sem púðarnir hafa verið notaðir enn í mótun og tilmæli gilda „þar til ný gögn berast“. Framkvæmdastjórn Evrópuráðsins hefur brugðist við með því að  fela sérfræðinganefnd að gera áhættumat um PIP-púðana og er niðurstöðu að vænta í lok janúarmánaðar.

Það er áríðandi að viðbrögð stjórnvalda séu í samræmi við þær bestu upplýsingar sem eru um málið á hverjum tíma. Afstaða íslenskra yfirvalda er tekin með hagsmuni kvennanna og þá mögulegu heilsufarslegu ógn sem þessir púðar kunna að leiða af sér fyrir þær, burtséð frá þeim ástæðum eða aðstæðum sem réðu því að þær hafa nú þessar brjóstafyllingar. Í Svíþjóð og Noregi er þeim tilmælum beint til lækna sem aðgerðirnar hafa framkvæmt að þeir bjóði konum viðtal og skoðun. Komi upp grunur um leka á að ómskoða konuna og mælt er með því að lekir púðar séu fjarlægðir. Tilgreint er að ekki sér ráðlegt að fjarlægja púða sem ekki gefur nein einkenni, þar sem aðgerðin sjálf feli í sér meiri hættu en að halda heilum púðum. Gert er ráð fyrir að konur standi straum af þessum kostnaði sjálfar, enn sem komið er.

Þessi afstaða til þess hvenær fjarlægja eigi púðana kann að koma fólki á óvart, ef það hefur einungis lesið (annars ágætt) blogg Péturs eða viðbrögð formanns velferðarnefndar alþingis, sem bæði eru þeirrar skoðunar að fjarlægja eigi púðana úr öllum konum. Fyrir þessu eru þó læknisfræðilegar ástæður sem hér verða lauslega raktar og eðlilegt er að stjórnvöld fylgi, þó önnur sjónarmið kunni að vega þyngra hjá einstaklingum sem um málið fjalla.

Umræðan um PIP-púðana komst í hámæli þegar sérstök tegund krabbameins, s.k. ALCL, var tengd við þá. Rannsóknir í Frakkklandi og  Bretlandi hafa hins vegar útilokað þessi tengsl, og ekkert bendir til þess að þeir séu eitraðir (eins og Pétur orðar það), né eru aðrar ábendingar um skaðsemi þeirra sem gefa tilefni til að mæla með því að heilir púðar séu fjarlægðir. Áhættan af aðgerðinni (sem er umtalsvert inngrip og gerð í svæfingu) er þannig (ennþá) talin meiri en að kona hafi heila púða. Hins vegar er talið þó það sé ekki staðfest að  PIP-púðar séu sé  líklegri til að rifna og leka en aðrir púðar og ef það gerist þá sé meiri hætta á óþægindum, ertingu og bólgum og þá er ráðlegt að fjarlægja þá.

Að þessu virtu hefur velferðarráðuneytið í samvinnu við embætti landlæknis og Lyfjastofnun kynnt aðgerðaráætlun sína sem svipar til þeirra aðgerða sem nágrannalöndin hafa mælt með. Að tvennu leyti eru aðgerðir íslenskra stjórnvalda þó frábrugðin, þar sem öllum konum verður boðin skoðun og ráðgjöf þeim að kostnaðarlausu og greinist leki verða púðar fjarlægðir með greiðsluþátttöku ríkisins.

Viðbrögð stjórnvalda byggja á þeim upplýsingum sem eru fyrirliggjandi um PIP púðana á hverjum tíma. Íslensk stjórnvöld, heilbrigðisyfirvöld og eftirlitsstofnanir munu ef þörf krefur endurskoða aðgerðaáætlunina eftir því sem ástæða er til, komi fram nýjar upplýsingar um áhrif þeirra á heilsufar og bíða í því tilliti eins og aðrar Evrópu þjóðir niðurstöðu sérfræðinganefndarinnar sem nefnd var hér í upphafi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.10.2011 - 23:46 - 1 ummæli

Ábyrgð, stjórar og stjórnendur

Því miður horfum við enn á ný fram á niðurskurð til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana á fjárlögum ársins 2012, jafnvel þó framlög til málaflokksins séu aukin.

Stjórnendur og starfsfólk stofnana hafa mætt þessari þröngu stöðu af yfirvegun og útsjónarsemi í flestum tilvikum. Eru þar stjórnendur og starfsfólk Landspítala þar fremstir meðal jafningja. Þar hefur verulega þrengt að í rekstrinum eins og víðar, en það hefur viljað skjólstæðingum og starfseminni til happs að aðgerðum hefur verið stýrt af fagfólki sem gjörþekkir starfsemina og er starfi sínu vaxið. Sjálfstæði stofnana og stjórnenda er sjaldan mikilvægara en einmitt þegar erfiðar ákvarðanir þarf að taka. Þá nýtist þekking þess best og stjórnvöld eiga að geta reitt sig á að stjórnendur heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa missi aldrei sjónar á megintilgangi þeirra, að þjóna veiku fólki samkvæmt þeim  lögum um það gilda; að veita fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma. Stjórnvöld bera alltaf ábyrgð á því fjármagni sem veitt er til þjónustunnar og þeirra takmarkana sem þær ákvarðanir geta leitt af sér. Það er þó alltaf skynsamlegast að eftirláta stjórnendum útfærslu þjónustunnar, enda gera áðurnefnd lög beinlínis ráð fyrir því. Nú kann að vera að einhverjir hafi misst af því að ný lög um heilbrigðisþjónustu hafa tekið gildi og aðrir ekki áttað sig á innihaldi þeirra, en þar segir m.a.;

Forstjóri ber ábyrgð á að stofnun sem hann stýrir starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf skv. 3. mgr. Forstjóri ber ábyrgð á þeirri þjónustu sem stofnunin veitir og að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

Þetta firrir ráðamenn að sjálfsögðu engri ábyrgð á þeim ramma sem þeir skapa starfseminni og þeim ber að hlusta eftir áhyggjum starfsfólks og varnaraðarorðum ábyrgra stjórnenda. „Blast from the past“ getur verið verulega upplýsandi og jafnvel áhugavert (að kosningaraunum frátöldum), en ég á von á að flestum stjórnendum sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sé innanbrjósts eins og þeim sem ég hitti í dag og sagði „það ætla ég að vona að sá tími sé liðinn að maður eigi von á ráðherra inn á gólf til sín sem vill ráða hvernig við stillum upp tækjakosti og vill handstýra hverjum einasta starfsmanni. Til þess var ég ráðin(n)“.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 3.8.2011 - 16:09 - Rita ummæli

Hlaupið til góðs

Þegar barn er í vændum eru flestir foreldrar og aðstandendur afskaplega spenntir og tilhlökkunin mikil. Eftirvæntingin er áþreifanleg og öllum hlakkar til að taka þátt í framtíð þessa nýja einstaklings, móta hann, styrkja og njóta.

Þegar litla barnið sem allar þessar vonir og væntingar voru bundnar við fæðist andvana eða of snemma til að eiga sér lífsvon, þyrmir að vonum yfir foreldra og aðra ástvini, um leið og heil framtíð verður að engu. Eftir sitja foreldrarnir með brostnar vonir, tóma vöggu og þunga sorg sem engin vel valin orð ná utanum. Verkefnið framundan er að ná að fóta sig aftur í óendanlega tómlegri tilverunni.

Þann 20 ágúst n.k. eru liðin rétt 16 ár frá því að okkur hjónum fæddist lítill fullkomlega skapaður, en andvana drengur. Þann sama dag verður Reykjavíkurmaraþonið hlaupið og þessi skemmtilegi árvissi atburður gefur þeim sem vilja tækifæri til að safna áheitum fyrir góð málefni og hlaupa þannig til góðs. Við hjónin höfum því ákveðið að hlaupa heilt maraþon í boðhlaupi þennan dag og hyggjumst safna áheitum fyrir samtökin „Litlir englar“.

Samtökin Litlir Englar eru ætluð þeim sem að hafa misst börn sín í móðurkviði í fæðingu eða stuttu eftir fæðingu sem og þeim sem að þurfa að binda enda á meðgönguna vegna alvarlegs fæðingargalla barns síns. Samtökin halda úti heimasíðu þar sem fólk leitar stuðnings í reynslu hvers annars, miðlar ráðgjöf og þekkingu.

Það væri okkur mikið gleðiefni ef einhverjir sjá sér fært að styrkja þetta litla félag, sjá: http://hlaupastyrkur.is/hlaupid/keppandi?cid=3390

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is