Laugardagur 21.03.2009 - 01:37 - 5 ummæli

Staðfestingavillan – Hví er trúað á Húmbúkk?

Í gegnum tíðina hafa alls konar furðufyrirbæri litið dagsins ljós, fyrirbæri sem átt hafa að hjálpa okkur að lifa betra lífi á einn eða annan hátt.    Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun á t.d. að geta hjálpað fólki við nánast hvað sem er og talnaspekin á að geta hjálpa okkur að „skilja okkur sjálf“ og framtíðina betur.  Margoft hefur verið sýnt fram á það með afskaplega skýrum hætti  að höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun er gagnslaus í besta falli og að talnaspeki getur ekki sagt okkur eitt né neitt um neitt.  Þrátt fyrir það er fullt af fólki, skynsömu fólki, sem trúir því að höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og talnaspeki sé eitthvað sem byggjandi er á.  Hvernig má það vera?  Hér verður reynt að varpa ljósi á hvers vegna skynsamt fólk trúri hvers kyns húmbúkki.

Staðfestingavilla (Confirmation bias) er hugtak sem vísar til þess að leita að upplýsingum og vísbendinum sem staðfesta þá trú eða kenningu sem maður hefur, en líta framhjá eða leiða hjá sér upplýsingar og vísbendingar sem ganga gegn þeirri kenningu eða trú.  Með öðrum orðum: Sá sem gerir staðfestingavillu leitar eftir því sem staðfestir kenninguna sem hann hefur en reynir lítið sem ekkert til þess að hrekja hana. 

Tökum dæmi:

Gunnlaugur getspaki hefur mikla trú á því að Hermann hárfagri talnaspekingur geti sagt honum heilmikið um framtíðina.  Gunnlaugur fer því einu sinni í mánuði til Hermanns og er í 60 mín. í senn.  Eftir því sem mánuðirnir líða styrkist Gunnlaugur í trú sinni á talnaspekina og þeim aðferðum sem Hermann notar.  Gunnlaugur hefur nefnilega tekið eftir því að Hermann hefur oftar en einu sinni haft rétt fyrir sér.  Hermann t.d. spáði því að nákominn ættiingi myndi veikjast á árinu og það kom á daginn.  Hermann spáði líka að því að Gunnlaugur myndi hafa áhyggjur af peningamálum.  Gunnlaugur hafði töluverðar peningaáhyggur í janúar. 

Gunnlaugur sem sagt tekur eftir öllu því sem mögulega má túlka á þann hátt að Hermann hafi haft rétt fyrir sér en lítur framhjá þeim fjölmörgu skiptum sem Hermann hefur rangt fyrir sér. Vegna þessa verður Gunnlaugur sannfærðari um hæfileika Hermanns og ágæti talnaspekinnar í hvert sinn sem hann fer í tíma til Hermanns, jafnvel þótt Hermann hafi ótrúlega oft rangt fyrir sér.  Gunnlaugur man bara eftir og tekur bara eftir þeim tilfellum sem eru í samræmi við trú hans á spekina og spekinginn.

Staðfestingavillan og föstudagurinn 13.

Fjölmargir trúa því að föstudagurinn 13. sé mikill óhappadagur. Fólk, skynsamt fólk, telur að líkurnar á því að slys verði séu meiri á föstudaginn 13. en á öðrum dögum.  Margtoft hefur verið sýnt fram á að svo er ekki.  Slys eru ekki fleiri, óhöpp eru ekki fleiri á föstudaginn 13 en á öðrum dögum.  Af hverju viðgengst þessi tilrtú?.  Auðvelt er að sjá hvernig staðfestingavillan á þar hlut að máli.  Ef við trúum því að föstudagurinn 13 sé óhappadagur tökum við eftir öllum slysafréttum frá þessum dögum og öllum þeim óhöppum sem við sjálf lendum í.  Þau tilvik notum við sem sönnun þess að föstudagurinn 13 sé einkar slæmur dagur.  Við hins lítum ekki svo á að ef ekkert óhapp og ekkert slys í okkar nærumhverfi á sér stað þann daginn að um sé að ræða vísbendingu um það að föstudagurinn 13. sé hvorki betri né verri en aðrir dagar.

 

Staðfestingavillan og vísindin

Staðfestingavilla er eitthvað sem allir gera og það oft fyrir æviskeiðið. Það er okkur eðlislægt. Við eigum auðveldra með að taka eftir því sem staðfestir þá skoðun okkar en því sem mælir gegn henni.  Af þeim sökum drögum við ansi oft rangar ályktanir, við trúm því að eitthvað virki sem gerir það alls ekki, við teljum eitthvað vera staðreynd sem er í rauninni bara bull.  Í vísindrannsóknum er tekið tillit til þessa. Gögnum er safnað kerfisbundið, notuð er ákveðin aðferðafræði til þess að koma í veg fyrir að staðfestingavilla sé gerð. Meðal annars þess vegna er eina leiðin til þess að komast að því hvort tiltekin aðferð eða meðferð sé gagnleg sú að gera vísindarannsóknir.  Jákvæðar reynslusögur duga ekki til þess að sýna fram á ágæti meðferða og aðferða.

Ljúkum þessu á orðum Michael Shermer úr Scientific American frá árinu 2002.

Smart people believe weird things because they are skilled at defending beliefs they arrived at for nonsmart reasons.

 

 

 

Flokkar: Vísindi

«
»

Ummæli (5)

 • Pétur Maack Þorsteinsson

  Við þetta má svo bæta Hafrún að 13. dag síðustu tveggja mánaða bar upp á föstudag! Hvernig gekk hjá þér?

 • Eitt skýrasta dæmi um þetta á Íslandi eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Trúa áróðursmaskínu flokksins sem klifar stöðugt á lygaáróðri sínum. 🙂

 • Hvernig er það dæmi um staðferstingarvillu?

 • Hafrún Kristjánsdóttir

  Pétur það gekk bara fínt þessa daga, klessti ekki á staur en gerði það áðan og í dag er laugardagurinn 21.

  Pjotr þú verður að skýra betur hvernig það er dæmi um staðfestingavillu.

 • Björn Ómarsson

  Skemmtileg grein og mikilvægur punktur.

  Persónulega er ég meira fyrir enska hugtakið Confirmation Bias til að lýsa þessari villu, því það er meyra lýsandi. Við erum forrituð til að leita uppi gögn sem staðfesta þær skoðanir sem við höfum myndað. Sálfræðingurinn Daniel Gilbert orðaði þetta skemmtilega þegar hann sagði að Augun og heilinn hafi gert með sér samkomulag: heilinn túlkar það sem augun sjá, með því skilyrði að augun sjái það sem heilinn vill túlka.

  (eða eitthvað í þá áttina, þetta er úr bókinni Stumbling on happiness, sem ég las fyrir þónokkru)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is