Laugardagur 6.6.2009 - 11:08 - 8 ummæli

Sumarfrí

Húmbúkkið er farið í sumarfrí.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.5.2009 - 15:25 - Rita ummæli

Að gefa Reiki

Reiki er ein af mörgum svonefndum heilunaraðferðum. Hana má rekja til Mikao Usui sem var uppi á fyrri hluta 19. aldar. Usui var rektor kristins háskóla í Kyoto í Japan og má rekja upphaf meðferðarinnar til þess að nemendur Usui (sem voru sérstakir áhugamenn um trúmál) spurðu hann oft og iðulega af hverju enginn gæti læknað líkt og Jesú og Búdda gerðu þ.e. með höndunum einum saman. Í leit sinni að svörum við þessum áleitnu spurningum  endaði Usui í klaustri á Kurama fjalli í Japan þar sem hann stundaði hugleiðslu, bænir og föstun. Eftir 21 dag rann upp fyrir Usui (í miðju sveltinu) hvernig hægt væri að lækna annað fólk á svipaðan hátt og Jesú og Búdda gerðu forðum. Aðferðina nefndi hann Reiki. Orðið er komið úr tveimur japönskum orðum ,,Rei” sem þýðist sem ,,alheims-“ og ,,kí” sem þýðist ,,lífsorka”. Reiki þýðir því alheimslífsorka. Meðferðin gengur út á að meðferðaraðilinn tengir sig við hina svokölluðu alheimslífsorku og gefur sjúklingi hana með handayfirlagningu í þeirri von að sá sem orkuna hlýtur verði betri til heilsunnar. Sá sem gefur Reiki er því eins konar straumbreytir á milli orkunnar og þess sem hana þiggur.

 

Hvað er alheimslífsorka?

Alheimslífsorkan er samkvæmt þeim sem Reiki stunda, sú orka sem er öllum lífverum nauðsynleg til að lifa af. Þessi orka er alls staðar til en vandinn er að hana þarf að virkja og beina í réttar áttir, þ.e. í orkusvið líkamans. Sé henni beint í rétta átt getur hún losað um stíflur sem myndast hafa í líkamanum og við stíflulosunina nær sá stíflaði heilsu. Til að virkja þessa orku og leiðbeina henni fer fólk á námskeið í Reiki.

 

Hvernig nærðu sambandi við alheimslífsorkuna?

Meðferðaraðili þarf að fara á námskeið þar sem hann er stilltur inn á alheimslífsorkuna með ,,vígslu” sem felur í sér hreinsun á orkubrautum viðkomandi. Slík hreinsun gerir tilvonandi meðferðaraðila hæfann til að miðla orkunni. Þetta er gert vegna þess að Reikifólk trúir því að við höfum öll meðfædda eiginleika til heilunar en eftir því sem við eldumst þeim stíflaðri verða orkubrautir okkar vegna sjúkdóma og streitu. Því þarf að virkja og hreinsa orkubrautir þess sem vill gefa Reiki og heilunin verður áhrifaríkari. Ekki er skýrt (m.v. lýsingar Reikifólks) í hverju ,,vígslan” er fólgin. Þær móttökustöðvar  sem taldar eru mikilvægar hvað orkuflæði varðar eru: hvirfilstöð, ennisstöð, hálsstöð og hjartastöð. Þegar þessar stöðvar eru hreinsaðar, opnast rás fram í lófana sem svo gefur meðferðaraðila færi á að miðla orkunni. Þetta ferli er lykilatriði til að viðkomandi geti verið straumbreytir fyrir alheimsorkuna og þiggjandann.

 

Hvernig er þetta kennt?

Reiki er kennt á stuttum kvöld-og helgarnámskeiðum. Námskeiðunum er skipt í þrjú stig.

1) Grunnnámskeið þar sem orkubrautir viðkomandi eru samræmdar. Alheimslífsorkan er leidd um nemandann með röð að ,,vígslum”. Á þessu námskeiði er sérstaklega reynt að opna höfuðstöð, ennisstöð, hálsstöð, hjartastöð, og orkustöðvar í lófum. Eftir þetta námskeið getur viðkomandi stundað sjálfsheilun en hefur jafnframt leyfi til að heila vini og vandamenn.

2) Þetta er eins konar framhaldsnám í Reikifræðum. Kennslan fer fram með fleiri ,,vígslum” og kennslu í heilunartáknum (Reikifólk útskýrir þessa kennslu ekki frekar). Eftir þetta námskeið getur viðkomandi stundað allar þrjár gerðir Reiki þ.e. orkustöðvarmeðferð, afmörkuð meðferð og fjarheilun. Eftir þetta námskeið getur viðkomandi gefið sjálfum sér, öðrum einstaklingum, plöntum og dýrum Reiki.

3) Á þessu námskeiði lærir viðkomandi að gerast Reikimeistari. Eftir þetta námskeið getur viðkomandi kennt Reiki og þjálfað aðra.

 

Leið orkunnar samkvæmt Reikifólki er í gegnum höfuðstöð og hjartastöð og dælist svo út í hendur gefanda og til þiggjanda. Í meðferð liggur þiggjandinn á bekk og er fullklæddur. Meðferðin tekur 45-90 mín. Reikimeðferðaraðili leggur hendur sínar við líkama viðkomandi þó án þess að snerta líkama þiggjanda. Þessi handayfirlega fer fram eftir ákveðnu handstöðumynstri. Samkvæmt Reikifólki fæst þessi aðferð við grunnvandamál hvers og eins (þ.e. við hinar meintu stíflur í orkubrautum) en ekki er eytt tíma í að ráðast á eitt og eitt einkenni. Það eina sem þeir sem þiggjendur finna fyrir í Reikitímum er hiti, kuldi eða léttum stingjum þegar orkan flæðir og lækning (við stíflulosunina) fylgir í kjölfarið.

 

Í reikimeðferð er hægt að velja á milli þrenns konar meðferða:

1) Orkstöðvarmeðferð sem miðar að því að jafnvægisstilla líkamann og fyrirbyggja andleg og líkamleg mein. Oftast er miðað við að þetta fari fram nokkra daga í röð.

2) Afmörkuð meðferð. Þá er unnið (eins og nafnið gefur til kynna) með afmarkað svæði og orkubrautir.

3) Fjarheilun. Hér er alheimslífsorkunni beint til þiggjanda en hann þarf ekki að vera á staðnum. Samkvæmt Reikifólki hefur þessi orka fjórum sinnum hærri tíðni en venjuleg orka. Það eina sem þarf er nafn, heimilisfang, aldur og hvað eigi að vinna með og viðkomandi er send orkan!

 

Virkar þetta?

Samkvæmt Reikifólki hefur aðferðin gefist vel við: verkjum, streitu, kvíða, innkirtlavandamálum,  vandamálum tengdu ónmæmiskerfinu, eykur innsæi þess sem þiggur, afleiðingum MS-sjúkdóms, hjartavandamálum, krabbameini, kemur jafnvægi á orkustöðvar, er vöðvaslakandi, kemur á innri ró og eykur umburðarlyndi okkar, lagar æðaskemmdir og kemur í veg fyrir æðakölkun.

 

Hvað segja svo rannsóknir? Undirrituðum er kunnugt um eina samantekt þar sem rannsóknir á gagnsemi Reiki við ýmsum meinum eru kannaðar (Lee, Pittler og Ernst, 2008). Niðurstaða þeirrar rannsóknar er nokkuð afdráttarlaus. Höfundar komast að þeirri niðurstöðu að ekki eru neinar vísbendingar um að Reiki gagnist sem meðferð við nokkrum meinum andlegum eða líkamlegum! Annað sem þeir félagar benda á er að rannsóknir á Reiki og gagnsemi þess eru svo aðferðafræðilega gallaðar að nær engin leið er að draga neinar ályktanir t.d. litlar úrtaksstærðir, léleg tilraunasnið svo fátt eitt sé nefnt.

 

Auk lélegra rannsóknarniðurstaðna og fjarstæðukenndra lýsinga á þeim ferlum sem Reiki byggir á (sbr. lýsingar undirritaðs fyrr í þessum pistli) er eitt stórt vandamál eftir. Það er að hvorki Reikifólki né öðrum hefur tekist að sýna fram á alheimslífsorka sé til!

Því má í raun segja að þessi hugmyndafræði falli um sjálfa sig.

 

 

Af framansögðu má því ljóst vera að gagnsemi Reiki er í besta falli óskýr og versta falli algjörlega gagnslaus.

 

 

 Ítarefni

 

http://skepticwiki.org/index.php/Reiki

http://frontpage.simnet.is/blikid//index.htm

http://www.lifsafl.is/index.php?option=com_content&view=article&id=13&Itemid=5

http://www.viskaoggledi.is/heilun/reiki.htm

http://www.vitund.is/vitund/reiki/reiki.asp?id=3

http://en.wikipedia.org/wiki/Reiki

 

 

Heimildaskrá

 

Lee, M.S., Pittler, M.H., og Ernst, E. (2008). Effects of of reiki in clinical practice: a systematic review of randomized clinical trials. International Journal of Clinical Practice, 62, 947-954.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.4.2009 - 20:53 - Rita ummæli

Viðtal í Visndaþættinum á Útvarpi Sögu

Á Útvarði Sögu er Vísndaþátturinn á dagskrá alla þriðjudaga frá kl. 17 til 18. Umsjónarmenn þáttarins eru Björn Berg Gunnarsson og Sævar Helgi Bragason. Í þættinum er fjallað um ýmislegt fróðlegt úr heimi vísindanna. Þann 17. mars síðastliðinn var Þórður Örn Arnarson, ritstjóri Húmbúkksins, í viðtali á þessari stöð. Í þættinum var fjallað um hómópatíu, the Secret og fleira. Það er hægt að hlusta á þáttinn með því að smella hér.


Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.4.2009 - 21:25 - Rita ummæli

Losnaðu við aukakílóin – Virkjaðu undirmeðvitundina

Hugbrot er fyrirtæki sem meðal annars gefur út dáleiðslugeisladiska sem eiga  að hjálpa fólki að láta drauma sína rætast auðveldlega og örugglega.  Til eru   geisladiskar sem eiga að hjálpa fólki að ná betri einbeitingu, auka sjálfstraust, missa aukakílóin og veita hlustandanum auðlegð og velmegun.  Útgefendur segja að árangur náist með að hlusta á diskinn einu sinni á dag í 21 dag og það sem betra er – árangur kemur í ljós þrátt fyrir vantrú á þessa aðferð.

Einn geisladiskurinn heitir „losnaðu við kílóin” og eins og nafnið gefur til kynna á hann að hjálpa hlustanda að missa hin mjög svo óæskilegu aukakíló.  Sagt er að læri maður að hugsa eins og grönn manneskja verði maður grannur til frambúðar.  Ástæður sem Hugbrotsmenn nefna fyrir því að megrunarkúrar skili sjaldnast árangri eru þær m.a. að þeir sem þurfa að losa sig við aukakíló kunna ekki að hugsa eins og grönn manneskja.  Þeir telja að undirmeðvitundin fái aldrei skilaboð hins meðvitaða huga um að nú sé megrun hafin.  Undirmeðvitundin hefur þó fengið þau skilaboð frá meðvitaða huganum að matarskortur verði á næstu misserum vegna yfirvofandi megrunar, sem verður til þess að fólk borðar yfir sig áður en megrun hefst.  Geisladiskurinn „losnaðu við kílóin” á samkvæmt höfundum að  hjálpa fólki að breyta þessari hugsun, eða öllu heldur bæta samskiptin milli meðvitundar og undirmeðvitundar.  Þetta er gert með því að senda skilaboð til undirmeðvitundarinnar.  Þessi skilaboð eru á geisladisknum og malla þau hægt og rólega inn í undirmeðvitundina við hlustun.  Mikilvægt er að sá sem ætlar að nýta sér diskinn til að losna við aukakíló taki ekki meðvitaða ákvörðun um að fara í megrun og alls ekki má hugsa um megrunina meðvitað.

 Ef lýsingar Hugbrotsmanna á árangri meðferðinnar eru réttar ætti eitt stærsta heilbrigðisvandamál vesturlanda, offita, fljótlega að heyra sögunni til.  Ríkisstjórnir myndu getað minnkað útgjöld sín til heilbrigðismála töluvert með því að senda slíkan disk til allra 13 ára og eldri og loka mætti hið snarasta öllum líkamsræktarstöðvum.  Hver vill púla og puða í leikfimisal og borða kál og próteinsjeika í öll mál þegar nóg er að hlusta á geisladisk 1 sinni á dag í 21 dag?

Þrátt fyrir að Hugbrotsmenn segi að ekki þurfa að trúa á „mátt” geisladiskana eru væntalega flestir sem gera það, því að ekki væru þeir að festa kaup á diskunum og hlusta á þá ef trúin væri engin.  Hvers vegna trúir fólk þessu þegar það hefur hvorki séð rannsóknir sem benda til þess að meðferðin virki né hafa heyrt lækna eða annað heilbrigðisstarfsfólk benda á meðferðina sem góðan kost við offituvandamáli?  Á heimasíðu Hugbrots, www.hugbrot.is, eru ótal reynslusögur þar sem fólk segir frá því að eftir að það hóf hlustun hafa kílóin farið að renna af þeim.  Niðurstaðan er sú að hlustunin hafi skilað árangrinum, ekki eitthvað annað.   Ef hins vegar heyrast sögur um takmarkaðan árangur er alltaf hægt að skella skuldina á að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um að fara í megrun og af þeim sökum hafi undirmeðvitundin fengið  skilaboð um að borða á sig gat vegna yfirvofandi hungursneyðar sem verður til þess að enginn árangur næst.  Sama hvað á dynur, meðferðin sjálf getur aldrei komið illa út; ef árangur næst er það meðferðin sem skilaði þeim árangri, en ef árangur lætur á sér standa er það vegna mistaka hlustandans.  Ef fólk notar ekki gagnrýna hugsun við mat á trúverðugleika meðferðarinnar þá er skiljanlegt að það pungi út 2500 kr. fyrir auðveldu lausninni á vandamálum sínum.

Eins og áður segir er mikilvægt að fólk taki ekki meðvitaða ákvörðun um að fara í megrun, um að missa nokkur kíló.  Það er þó akkúrat það sem það hlýtur að vera að gera þegar það kaupir diskinn, setur hann í geislaspilarann og byrjar að hlusta.  Varla ganga menn í svefni og kaupa diskinn, setja hann í og byrja að hlusta. Varla ráfar fólk óvart inn í búðina Betra líf og kaupir diskinn þegar ferðinni var í raun heitið í Skífuna til að kaupa nýja U2-diskinn.  Forsendan fyrir árangri hlustunarmeðferðarinnar er því brotin í upphafi.  Hins vegar er það að taka ákvörðun um að reyna að losa sig við spikið fyrsta skrefið í átt að árangri.   Ef sá árangur kemur í kjölfar hlustunar er hlustuninni þakkaður árangurinn, þrátt fyrir að forsenda árangurs hafi verið brotin. 

Þeir risaannmarkar sem hafa verið nefndir hér að ofan um megrunardiskinn eiga einnig við um aðra diska frá Hugbroti, því eru Hugbrotsdiskarnir húmbúkk.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.4.2009 - 16:55 - 8 ummæli

Viltu leika miðil?

Eftir Bjarka Þór Baldvinsson

Orðið skyggn (psychic) vísar til þess meinta eiginleika að geta numið upplýsingar sem eru huldar jarðlegum skilningsvitum. Oft felur það í sér að geta tjáð sig við hina látnu. Þeir sem telja sig vera skyggn fara í hlutverk miðla þegar þeir flytja skilaboð frá þeim framliðnu áfram til réttra aðila. Án þess að gruna þá sem telja sig vera skyggna um græsku þá eru aðrar og nærtækari skýringar til varðandi það hvernig miðlar virðast ljá fólki upplýsingar en að þeir séu beintengdir við andaheiminn.

Forer áhrif
Árið 1948 lagði sálfræðingurinn Bertram M. Forer persónuleikapróf fyrir nemendur sína og sagði við þá að þeir ættu hver og einn að fá persónuleikagreiningu útfrá því prófi. Þegar nemendurnir fengu sína greiningu var þeim gert að meta hversu vel greiningin ætti við þá á kvarðanum frá 0 (Mjög illa) til 5 (Mjög vel). Nemendurnir gáfu greiningum sínum meðaleinkunina 4.26. Að matinu loknu var þeim tjáð að þeir hefðu allir fengið sömu greininguna útfrá stjörnuspá sem var svohljóðandi:

Þú vilt að öðrum líki vel við þig og dáist að þér en samt ertu mjög gagnrýnin/n sjálfa/n þig. Þótt þú sért slakur/slök á vissum persónuleikaþáttum bætur þú það upp á öðrum sviðum. Þú býrð yfir þónokkurri getu sem þú hefur ekki nýtt þér. Þú virðist agaður/öguð og markviss en ert samt oft áhyggjufull/ur og óörugg/ur. Stundum ertu mjög efins um hvort þú hefur tekið réttar ákvarðanir eða breytt rétt. Þú vilt helst geta breytt til og valið milli valkosta og verður óánægð/ur þegar þér eru settar skorður og takmarkanir. Þú ert stolt/ur af því að vera sjálfstætt þenkjandi og ert ekki ginkeypt/ur fyrir skoðunum annarra án frekari sannanna á staðhæfingum þeirra. Þó hefur þú komist að því að það er þér ekki til framdráttar að vera of hreinskilin/n við aðra. Stundum ertu úthverf/ur, vingjarnleg/ur og félagslynd/ur og stundum innhverf/ur, var um þig og vilt helst vera ein/n. Þú hefur óraunhæfar væntingar gagnvart vissum markmiðum sem þig langar að ná (Feitletrun mín).

Þetta eru setningar sem vísa til ástands sem flestir hafa upplífað og geta samsamað sig við. Enn erfiðara er að neita slíkum fullyrðingum ef orð eins og stundum, oft, helst, þónokkur og vissum koma fyrir. Setningar fela líka oft í sér andstæðar merkingar eins og; „Oftast ertu góður en þú getur líka verið vondur“. Í þeim tilvikum er ógjörningur að neita fullyrðingunum án þess að ljúga.

Fólk telur almennar lýsingar eiga vel við sig því það fyllir sjálft upp í lýsingarnar með eigin minningum og hugsunum og lagar lýsingarnar þar með að lífi sínu, hegðun og reynslu. Lýsingarnar virðist því eiga betur við en raunin er. Þetta kallast huglæg staðfesting (subjective validation).

Frekari rannsóknir hafa leitt í ljós að einstaklingar gefa greiningunni hærri einkunn ef að þeir telja að greiningin eigi einungis við um sig, ef þeir trúa sérfræðivaldi matsmannsins og ef greiningin felur aðallega í sér jákvæða eiginleika.

Uppskrift af ágætum miðilsfundi
Kaldur lestur (cold reading)er safn aðferða sem allar miða að því að notfæra huglæga staðfestingu. Þetta eru aðferðir sem miðlar beita þegar þeir vita lítið um kúnna til þess að kúnninn finni sjálfur persónulega merkingu í því sem miðillinn er að segja, tjái miðlinum þá merkingu og fyllir þar með inn í eyðurnar eftir því sem líður á miðilsfundinn. Ef miðillinn hefur hinsvegar einhverja þekkingu á högum kúnnans og notar það á fundinum kallast það heitur lestur (hot reading). Ef þú vilt leika miðil en veist lítið um kúnnann eru eftirtaldar leiðir hentugar til að lesturinn geti orðið sem bestur:

Aðstæður
Hafðu miðilfundinn í herbergi sem lítur út fyrir að vera „ekta“. Til dæmis með því að bjóða kúnnanum að setjast í gamlan þægindastól, vera með bækur um miðla, skyggnigáfu og andleg málefni í bókaskáp og hafa milda lýsing í herberginu.

Kynning
Fáðu kúnnann í lið með þér með því að útskýra fyrir honum að gæði fundarins sé undir ykkur báðum komin. Við það verður kúnninn opnari og gengst frekar við því sem þú segir við hann. Segðu við kúnnann að þú búir yfir sérstökum hæfileikum sem flest allir hafa að einhverju leiti en að þú hafir ræktað þína hæfileika og getir því notað þá til að aðstoða aðra. Þú verður að réttlæta strax í byrjun það að lýsingar þínar munu ekki vera fullkomnar þar sem truflanir af mörgum toga geta átt sér stað. Talaðu rólega, brostu og haltu augnsambandi, helst þannig að hausinn halli í aðra hvora áttina meðan þú hlustar. Hafðu fótleggi saman en ekki krossa þá og ekki heldur handleggi.

Virtu kúnnann fyrir þér
Er kúnninn karl eða kona, mjór eða feitlaginn, hár eða lítill, gamall eða ungur, hvernig er talandi hans og líkamsstaða, í hvernig skapi er hann, hvernig er hann klæddur, er hann snyrtilegur eða sóðalegur, virðist hann vera ríkur eða fátækur, er hann fölur eða sólbrúnn, er hann með húðflúr, hringi eða aðra skartgripi o.s.frv. Allar vísbendingar sem þú getur fengið fyrst við að horfa á kúnnann getur þú notað þér á fundinum til dæmis með því að draga ályktanir um hversvegna hann er hjá miðli, hvað hann vilji fá útúr fundinum og hugsanlegt útlit og lunderni hins framliðna. En vertu samt tilbúinn til þess að endurmeta þær forsendur sem þú gefur þér útfrá útliti.

Veiddu svör
Hægt er að ná fram upplýsingum frá kúnnanum með því að dulbúa spurningar eins og um fullyrðingar sé að ræða. Þetta er gert með fullyrðingum sem geta átt við flesta og eru mjög loðnar eins og: „Þú hefur orðið fyrir missi“; „Það er einhver nákominn þér sem heitir Jón/Sigurður“; „Hafið tengist [látnum ættingja] á einhvern hátt“; „Það er skartgripur sem er þér og [ látnum ættingja] hjartfólginn“; „Maí tengist þér á einhvern hátt“; „Það er komin hérna manneskja og það er mjög bjart yfir henni, hún hlær mikið og syngur, þú þekkir hana“; „Ég finn fyrir einhverjum sem byrjar á M eða N“, o.s.frv. Eftir alhæfinguna er síðan spurt til dæmis: „Hljómar þetta rétt?“; „Skilur þú það?“; „Til hvers vísar það?“; „Tengir þú við þetta?“; „Hversvegna gæti þetta verið?“; „Hvernig gæti það tengst þér?“; „Hvernig gæti það tengst þínu lífi?“; „Skilurðu hversvegna mér finnst þetta?“, o.s.frv. Miðillinn gefur ramma með loðnum spurningum sem kúnninn fyllir upp í með svörum sínum. Þegar fiskað er eftir atriðum þarf miðillinn að vera meðvitaður um viðbrögð og svör kúnnans svo hann viti hvert eigi að leiða fundinn.

Skjóttu mörgum skotum
Önnur skyld aðferð sem reynist vel er að spyrja margra spurninga sem fela jafnvel í sér andstæður, til dæmis: „Afi þinn segir að þó þú sért agaður og markviss þá ert þú oft áhyggjufullur og óöruggur, hann segir að þú sért stundum mjög efins um hvort þú hefur tekið réttar ákvarðanir og veist stundum ekki í hvorn fótinn þú átt að stíga, kannast þú við það?“. Kúnninn svarar síðan játandi því sem hann telur að eigi við sig eins og: „Já, ég er mjög áhyggjufullur“, við ofangreindum spurningum.

Umorðaðu það sem áður var sagt
Þegar þú hefur náð upplýsingum frá kúnnanum getur þú beitt heitum lestri. Þú getur notfært þér það sem kúnni hefur sagt fyrr á fundinum, umorðað það og matreitt það aftur ofan í hann þannig að hann telji að þú hefur sjálfur fengið þær upplýsingar frá þeim látna. Við getum tekið dæmi með því að grípa inn í einn fund:

Miðill: Hversvegna finnst mér eins og þú hefur orðið fyrir missi?
Kúnni: Já…, ég missti nýlega afa minn
Miðill: Hann afi þinn tengist hafinu á einhvern hátt er það ekki?
Kúnni: Jú, hann vann lengi vel í síld á Siglufirði þegar hann var ungur og talaði oft um það þegar við hittumst í kaffi og ég fór oft með honum til Siglufjarðar, þar var alltaf svo gott veður. Það var besti tíminn í mínu lífi þegar ég fór með honum þangað.
Miðill: Já, hann virðist mikill um sig hann afi þinn og kvartar yfir eymslum í brjósti, kannastu við það?
Kúnni: uuhhh, nei ég veit ekki…
Miðill: Ég meina, það er eitthvað vont samband, hann var.., þó hann hafi verið sterkur maður þá finnst honum sárt að hafa farið, mér finnst eins og þið hafið verið mjög nánir
Kúnni: Jú, mjög nánir, mjög nánir
Miðill: Já hann segist sjá sérstaklega eftir að hafa farið frá þér, segir að þú sért svo duglegur og hláturmildur en hefur samt áhyggjur af því að þú ert á stundum svo sorgmæddur og það dragi úr þér, hljómar það rétt?
Kúnni: Ég hef nú verið atvinnulaus í nokkurn tíma núna og svo dó afi þannig að já ég hef fundið fyrir sorg
Miðill: Hann afi þinn segir þér að herða upp hugann, tækifærin eru að koma. Hann segir að þér muni aftur líða jafn vel og með honum á Siglufirði í gamla daga
Kúnni: Já, takk, það væri frábært
Miðill: Hann segir mér nefnilega að þér leið alltaf svo vel með honum á sumrin á Siglufirði
Kúnni: Það er rétt

Með því að einblína á staðhæfingar sem hafa fengið jákvæða svörun og gefa upp á bátinn þær sem hafa ekki gengið getur sá sem beitir köldum lestri náð fram því er virðist vera ótrúlega réttri mynd af kringumstæðum og vandamálum kúnnans. Hinsvegar er ekkert merkilegt sem hefur átt sér stað, kúnninn veitir miðlinum allskonar upplýsingar og fær síðan að heyra það sem hann vill heyra.

Segðu kúnnanum það sem hann langar að heyra
Eins og komið hefur fram finnst fólki frekar að almennir jákvæðir eiginleikar eigi við sig. Þetta á líka við um jákvæðar afleiðingar sem kúnninn vill að verði að veruleika. Til að mynda getur þú sagt atvinnulausum manni að hinn framliðni segir honum að hafa ekki áhyggjur og að bjartari tíð er handan við hornið eða að hinn framliðni hafi alltaf þótt mikið til kúnnans koma. Galdurinn er að slá gullhamrana eða tjá hughreystandi orð í samhengi við framvindu fundarins.

Afsakanir
Þú hefur þegar undirbúið kúnnann með því að segja honum að lýsingin sé ekki 100% rétt. Ef kúnninn bendir á að þú hafir rangt fyrir þér þá getur þú sagt að atriðið hafi gerst fyrir þónokkru síðan og gefið í skyn að það sé honum að kenna að hann muni ekki eftir því eða að þetta sé eitthvað sem muni gerast í framtíðinni. Þú getur einnig skellt skuldinni á framgangsleysi fundarins á slæma tengingu við hina framliðnu. Það er hinsvegar best ef þú getur talið kúnnanum trú um að það sé hann sem þarf að gera betur til að finna tenginguna.

Kúnninn þarf alltaf að hjálpa til svo að miðilstörfin beri árangur
Það eru til mýmörg dæmi þess að miðlar „hitta“ ekki rétt. Það er, að þeir taki séns, gerast of sértækir og þurfi því að draga spurningar til baka eða breyta þeim til að geta haldið áfram. Þó slíkt komi endurtekið fyrir man fólk frekar eftir því sem miðillinn gerði „rétt“ en gleymir oft því þegar honum skjöplast. Hversvegna ætli það sé?

Þeir sem leita til miðla eru bæði sálrænt og fjárhagslega búnir að veðja á getu miðilsins því oftast nær trúa þeir á framliðna, getu miðilsins til að ná sambandi við þá og borga síðast en ekki síst fyrir fundinn. Þetta leiðir af sér staðfestingarskekkju (confirmation bias) þar sem kúnnar leita að þeim upplýsingum sem renna stoðum undir þá skoðun sína að miðillinn sé í raun að hafa samband við andaheiminn. Vegna valkvæmrar athygli (selective attention) hyggja kúnnarnir því mun frekar að þeim skiptum þegar miðillinn „hittir“ og gleyma því sem fór forgörðum á miðilsfundinum.

Það sem mestu máli skiptir þegar miðill stundar kaldan lestur er að kúnninn sé tilbúinn til þess tengja þá punkta sem miðillinn leggur fyrir hann og finna einhverja merkingu þar. Því sterkar sem kúnni vill þýðast miðlinum og skilja það sem hinn framliðni er að reyna að segja honum því meir reynir hann að finna merkingu í því sem miðillinn segir og verður þess þeim mun ánægðari með störf hans. Það eru dæmisögur (anecdotal evidence) þessa fólks sem mynda síðan grunn „sannanna“ um réttmæti krafta miðilsins.

En ekki er við þá að sakast. Miðilsfundir eru án efa mjög tilfinningaleg reynsla þar sem syrgjendur vilja og telja sig ná sambandi við þá sem þeim þykir vænt um. Þeir vilja huggun og öðlast hugarró. Það sem er hinsvegar bagalegt við þessa fundi er að hugsanlega eiga vörusvik sér stað gagnvart þeim sem syrgja.

Heimildir:
http://skepdic.com/coldread.html

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.3.2009 - 21:38 - 10 ummæli

Fylgni gefur ekki endilega til kynna orsakasamband

Maðurinn hefur eðlislæga tilhneigingu til að gera ráð fyrir því að ef tveir atburðir fara saman í tíma og rúmi, þá sé orsakasamband á milli atburðanna. Þessi tilhneiging býr líklega að baki því hugræna vélvirki sem gerir okkur kleift að læra af reynslunni og er í mörgu tilliti afar gagnleg í daglegu lífi. Ef við tökum dæmi af manni sem leggur lófann á heita eldavélahellu og brennir sig, þá er hann líklegur til að setja fyrri atburðinn (það er að leggja lófann á eldavélahelluna) í samband við síðari atburðinn, (það er brunann) og lærir í framhaldinu að forðast að snerta heitar eldavélahellur. Þessi tilhneyging til að tengja atburði saman með þessum hætti er augljóslega gagnleg og hefur líkast til stuðlað tegundin hefur lifað þróunarsögu dýrategundanna af til þessa. Vegna hennar lærum við að spá fyrir um atburð á grundvelli annarrar atburðar sem venjulega verður vart á undan og lærum þannig að sjá fyrir hættur og forðast þær.

En stundum drögum við mjög óheppilegar ályktanir um orsakasamband þar sem ekkert er. Þæmi um slíkt er til dæmis þegar maður fær kvíðakast, með miklum hjartslætti, svima og yfirliðstilfinningu, köfnunartilfinningu, svitakófi og fleiri óþægilegum líkamlegum einkennum. Það er algengt að kvíðasjúklingar af þessu tagi setjist á bekk, styðji sig við vegg eða forði sig úr þeim aðstæðum þar sem kvíðakastið byrjar. Kvíðinn líður hjá og viðkomandi telur sig hafa lært hvernig hann getur bundið enda á þessi hræðilega óþægilegu kvíðaköst. Það sem fólk sem þjáist af ofsakvíða sem þessum gerir sér yfirleitt ekki grein fyrir er að kvíðaköst líða alltaf hjá af sjálfu sér. Bætta líðan mætti því líklega skilja betur í ljósi aðhvarfs að meðaltali. En vegna þessarar tilhneigingar okkar til að tengja saman atburði sem fara saman í tíma og rúmi og gera ráð fyrir orsakasambandi þar á milli, þá lærir kvíðasjúklingurinn ranglega að þessar öryggisráðstafanir sem hann greip til hafi valdið því að kvíðinn leið hjá. Hann sér ekki bara tvo atburði fara saman í tíma og rúmi, heldur gerir hann ráð fyrir orsakasambandi. Hann mun í framhaldinu alltaf grípa til þessara öryggisráðstafana þegar hann fær kvíðakast, og lærir því aldrei sannleikann, það er að kvíði líður alltaf hjá og einkennin sjálf eru ekki hættuleg. Með því að grípa til þessara ráðstafana viðheldur hann því kvíðaköstunum til lengri tíma litið.

Við höfum áður á þessari síðu lagt áherslu á að vísindarannsóknir geta skorið úr um hvort tilteknar ákvarðanir, svo sem meðferð af einhverju tagi, geti haft tiltekin áhrif, svo sem bata, eða jafnvel skaða. Það sem þarf þó að hafa í huga þegar við kynnum okkur slíkar rannsóknir er að stundum er greint frá hárri tölfræðilegri fylgni án þess að hægt sé að fullyrða um orsakasamband. Ég ætla næst að fjalla örstutt um að hvaða leiti fylgni og orsakasamband eru merkingarlega óskyld hugtök og taka síðan tvö dæmi þar sem há fylgni og orsakasamband fer ekki saman.

 

Fylgni og orsakasamband eru merkingarlega ótengd hugtök

Þegar við tölum um orsök og afleiðingu erum við með nokkuð skýra hugmynd um að orsök komi á undan afleiðingunni og valdi því afleiðingunni á þann hátt að afleiðingin hefði aldrei att sér stað nema fyrir tilstuðlan orsakarinnar. Ef ég ýti á rofa á vegg og ljós kviknar í stofunni er til dæmis um slíkt orsakasamband að ræða. Með því að ýta endurtekið á rofann og verða vitni að því að ljósið kviknar og slokknar til skiptis göngum við úr skugga um að við getum haft áhrif á ljósið með því að stjórna rofanum. Stjórn af þessu tagi er til marks um orsakasamband. Rofinn hefur bein áhrif á ljósið, en fer ekki bara saman í tíma og rúmi. Vegna þess að það eru skýr tengsl milli þess hvort rofinn er inni eða úti annars vegar og hins vegar hvort ljósið er kveikt eða slökkt, þá er líka há fylgni milli þessara tveggja atburða. Hér fara orsakasamband og fylgni augljóslega saman, en það er ekkert nauðsynlegt að há fylgni lýsi orsakasambandi. Orsakasamband er þannig mjög sérstakt samband milli tveggja atburða þar sem annar atburðurinn veldur hinum. Fylgni lýsir engu öðru en því að atburðirnir hafa tilhneigingu til að fara saman, hver svo sem orsökin er. Til að skýra þetta er rétt að taka nokkur dæmi

 

Dæmi um lága fylgni en skýrt orsakasamband

Reykingar geta valdið krabbameini í lungum. Ég held að það treysi sér enginn til að draga þetta í efa. Þetta þykir nokkuð vel staðfest af fjölda rannsókna. Krabbamein er þó frekar sjaldgæfur sjúkdómur (að minnsta kosti ef borið er saman við kvefpestirnar sem ganga á veturna) og reykingar býsna algengar. Það fá ekki nálægt því allir reykingamenn krabbamein. Allur sá fjöldi reykingamanna sem ekki fær krabbamein lækkar tölfræðilega fylgni, en þegar reykingamaður fær krabbamein í lungu má nokkuð örugglega rekja það til þess að hann reykti. Orsakasambandið er skýrt þrátt fyrir lága fylgni.

 

Dæmi um háa fylgni án orsakasambands

Það er há fylgni milli skóstærðar og lestrargetu meðal barna á aldrinum fimm til tíu ára. Það er samt engin ástæða til að ætla að barn lesi betur við það eitt að fæturnir stækki. Barnið þarf að æfa sig í lestri og á meðan barnið æfir sig í að lesa tekur það út vöxt og þarf fljótlega að fá sér stærri skó.

 

Dæmi um að há fylgni skyrist af sameiginlegri orsök

Árið 2006 leiddi rannsókn í ljós að neikvæða fylgni milli brjóstastækkunar og krabbameins í brjóstum og jákvæða fylgni milli brjóstastækkunar og sjálfsvíga. Titill greinar þar sem greint er frá þessum niðurstöður gefur til kynna orsakasamband: „Breast implants lower cancer risk but boost suicides“ (brjóstastækkanir minnka áhættu á krabbameini en auka líkur á sjálfsvígum). Með þessu er verið að gefa í skyn að brjóstastækkun sé líkamlega holl en andlegri óholl. Titill greinarinnar er þannig villandi. Líklegri skýring, á lægri krabbameinstíðni meðal þeirra kvenna sem láta stækka á sér brjóstin, er að þær konur sem hafa efni á slíkum aðgerðum sé betur menntað, betur upplýst um hvað stuðlar að góðri heilsu, og því meðvitaðara um heilbrigða lifnaðarhætti, en þær konur sem hafa ekki efni á þessum rannsóknum. Það er því hærri félagsleg og efnahagsleg staða (socio-economic status) sem skýrir bæði það að konurnar hafa efni á aðgerðunum og fari almennt betur með líkamann sinn. Sjálfsvígin skýrast líklega frekar með því að þunglyndi sé algengara meðal þessarra kvenna en annarra. Konur sem þjást af lágu sjálfsmati eru þannig bæði líklegri til að vilja stækka á sér brjóstin og þróa með sér alvarlegt þunglyndi.

 

Ítarefni

http://en.wikipedia.org/wiki/Correlation_does_not_imply_causation

http://atheism.about.com/library/FAQs/skepticism/blfaq_fall_correlation.htm

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.3.2009 - 17:43 - 5 ummæli

Af hverju eru dæmisögur ekki nóg?

Gögn byggð á dæmisögum (anecdotal evidence) um góðan árangur aðferða óhefðbundinna lækninga við ýmsum meinum er býsna algeng. Gögn þessi eru af ýmsum toga og geta á köflum hljómað líkleg og trúverðug. Í þessum pistli verður farið stuttlega yfir það hvernig gögn sem byggjast á dæmisögum eru og af hverju ekki er nóg að einhver segi að eitthvað virki til að heilbrigðisstarfsfólk taki aðferðina uppá sína arma.

 

Hvað er dæmisaga?

Dæmisaga er lýsandi og stutt útskýring á atburðum eða orsakasamhengi. Í flestum tilvikum lýsir sá sem segir söguna atburðnum eins og hann hafi verið á staðnum, prófað það hann segir frá eða hafi vit á því sem lýst er. Sögurnar eru því gjarnan nýttar til að renna stoðum undir það sem verið er að frá t.d. meðferð.

 

Gögnum byggðum á dæmisögum má skipta í tvennt:

1.  Orðrómur eða sögusögn þar sem sannleiksgildi gagnanna er óljóst. Dæmi um slíkt gæti verið eftirfarandi setning: ,,…ég er alveg handviss um að þetta hafi verið afi minn heitinn sem talaði við mig þarna á föstudag. Hann var svo skýrmæltur….alveg eins og afi var og hann elti mig um….

2.  Gögn sem geta verið sönn en niðurstaðan sem dregin er af þeim þarf ekki nauðsynlega að fylgja þ.e. alhæft er útfrá ónógum gögnum. Dæmi um slíkt er: ,,….ég þekki konu sem reykir eins og skorsteinn, er við hestaheilsu og  er í alveg frábæru formi”. Vel má vera að þessi frásögn sé rétt en hún breytir því ekki að reykingar auka almennt líkur á lungna-og hjartavandmálum, sem hafa áhrif á heilsu fólks (e-ð sem byggt er á raunvísum gögnum).

 

Hvað eru raunvís gögn?

Ýmis viðmið eru til fyrir hvað telst raunvís gögn. Viðmiðin fara eftir því um hvaða vísindagrein (t.d. læknisfræði, eðlisfræði, efnafræði o.s.frv.) er verið að ræða um og hvaða undirgrein vísindagreinar verið er að fjalla um (t.d. geðlækningar, skurðlækningar, barnalækningar o.s.frv.). Hér er engöngu fjallað um raunvís gögn í meðferðarstarfi. Til glöggvunar á því hver skilgreining á raunvísum gögnum er, er gott að skoða viðmið deildar klínískra sálfræðinga í ameríska sálfræðingarfélaginu (American Psychological Association) fyrir gagnreyndar sálfræðimeðferðir (Chambless et. al., 1998).

Til að meðferð geti talist gagnreynd þarf hún að uppfylla eftirfarandi skilyrði (verulega einfaldað hér en áhugasömum er bent á greinar í ítarefni).

1.     Tvær millihóparannsóknir (between-group designs) sem uppfylla aðferðafræðilegar kröfur, þar sem árangur meðferðar er:

a.      betri en lyfleysa eða önnur meðferð.

b.      jafn góð og önnur gagnreynd meðferð með nægilega stóra úrtaksstærð.

2.      Ef árangur kemur fram í minnsta kosti 9 einstaklingsniðsrannsóknum (single-case designs) þar sem fram kemur:

a.      Skýrt og gott tilraunasnið og

b.      Samanburður við inngrip annarrar meðferðar.

3.      Rannsóknir þurfa að vera framkvæmdar með meðferðarhandbókum eða skýrri lýsingu á innihaldi meðferðar.

4.      Einkenni úrtaka þurfa að vera ljós.

5.      Árangur þarf að koma fram hjá að minnsta kosti tveimur rannsóknarhópum.

 

Af framansögðu má ljóst vera að gögn byggð á dæmisögum eru andstæða við raunvís gögn því að: a) Í dæmisögum er aðeins einn sem segir frá, gjarnan frá einu tilfelli. b) Í dæmisögum er sjaldan gerður samanburður við aðrar aðferðir, eingöngu er sagt að eitthvað virki. c) Ekki kemur fram endurtekinn árangur meðferðarinnar í dæmisögunni. d) Ekki er ljóst í hvaða samhengi hinn meinti árangur kom fram þ.e. í dæmisögum skortir lýsingar á aðferð eða aðstæðum, þátttakendum o.s.frv. e) Lýsingar á meðferðarhandbókum eða skýr lýsing á inngripum eru sjaldnast eða aldrei til staðar þegar dæmisögur eru sagðar.

 

Hverjir segja þá dæmisögur máli sínu til stuðnings?

Í meðferðarstarfi má í grófum dráttum má skipta þessum dæmisögum í tvennt:

1.  Fjálglegar yfirlýsingar meðferðaraðila sem stunda óhefðbundnar lækningar. Ágætt dæmi um slíkt eru yfirlýsingar á heimasíðum þeirra sem stunda höfuðbeina-og spjaldhryggsmeðferð. Skv. þeim er þessi meðferð gagnleg við nánast öllum þeim meinum sem mannfólkið glímir við, andlegum sem líkamlegum. Líkt og áður hefur komið fram hér á húmbúkk eru þessar fullyrðingar lítið annað en orðin tóm. Þrátt fyrir það er því haldið fram að höfuðbeina-og spjaldhryggsmeðferð sé árangursrík. Af hverju? J.E. Upledger (1995) einn af þremur upphafsmönnum höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferðar  svaraði gagnrýni efasemdarmanna eitt sinn svo: ,,….Jákvæðar frásagnir/sögur sjúklinga sem notið hafa höfuðbeina-og spjaldhryggsmeðferðar eru mikilvægari en rannsóknir byggðar á raunvísum gögnum þar sem ekki er hægt stjórna öllum breytum í þessum rannsóknum” (sjá í Green, Martin, Bassett og Kazanjian, 1999). M.ö.o. telur Upledger dæmisögur mikilvægari en raunvís gögn!

 

2.  Persónulegar skoðanir/upplifanir/frásagnir einstaklinga á ákveðinni meðferð. Oftast nær eru þetta einstaklingar sem notið hafa eða heyrt af þjónustu óhefðbundinna lækninga og telja þær árangursríkar. Dæmi um slíkt er eftirfarandi: ,,…veistu hvað, sonur vinkonu minnar  var alltaf mikill óþekktargemsi, var greindur með ADHD, mótþróaþrjóskuröskun, reiðivandamál og fleira. Foreldrar hans  réðum ekkert við hann og honum var vísað úr skóla minnsta kosti 6 sinnum. Svo var mömmu hans  bent á í saumaklúbbnum að fara með hann til höfuðbeina-og spjaldhryggsjafnara. Hann fór í 8 skipti og er miklu betri, eitthvað sem enginn hefði trúað….”.

 

 

Af hverju er dæmisögur ekki nægilegar?

Til átta sig á af hverju dæmisögur eru ekki nægileg gögn fyrir árangri meðferða er nauðsynlegt að átta sig á hvað getur haft áhrif á sjúkdóma og framgang þeirra annað en innrip fagfólks. Hér eru nokkur dæmi:

1.      Líkaminn læknar sig sjálfur. Rösklega helmingur allra veikinda sem kvelur fólk, læknast af sjálfu sér (Gilovich, 1995). Ef svo væri ekki hefðu forfeður okkar varla lifað af. Hvernig fóru þeir að fyrir bólusetningar, sýklalyf eða skurðaðgerðir? Ef meðferð skal kallast gagnreynd þarf því hlutfall þeirra sem hlutu meðferðina að vera marktækt hærra en þeirra sem enga meðferð fengu því líkaminn sér í sumum tilfellum um lækninguna sjálfur.

2.      Sjúkdómar ganga í bylgjum. Bara við það eitt að fá greiningu á alvarlegum sjúkdómi þýðir ekki að frá greiningu fari hann stigversnandi. Þvert á móti ganga sjúkdómar gjarnan í bylgjum þar sem einkennin versna og skána svo um stund. Mikilvægt er að vita að fólk leitar gjarnan óhefðbundinna lækninga eða aðferða sem byggðar eru á dæmisögum þegar allar aðrar aðferðir hafa komist í þrot. Því eru líkur á því að þegar alvarlega veikur einstaklingur sem leitar sér hjálpar með óhefðbundnum lækningum skáni í kjölfarið þrátt fyrir að sú meðferð sem hann nýtti sér sé gagnslaus.

3.      Lyfleysiáhrif. Í góðum pistli sínum fjallaði Þórður Örn Arnarson um lyfleysu og lyfleysuáhrif á veikindi vegna væntinga sjúklings.

4.      Staðfestingarvillan. Hafrún Kristjánsdóttir fjallaði skilmerkilega í pistli sínum um staðfestingarvillu og hvernig áhrif hún hefur á mat fólks á hluti, aðferðir eða kenningar sem það trúir á.

5.      Tölfræðilegt aðhvarf. Pétur Maack Þorsteinsson útskýrði ýtarlega í pistli sínum hvernig aðhvarf að meðaltali skýrir út versnun sjúkdóma og sjálfkvæman bata.

6.      Líkamleg einkenni sem eru í raun sálfræðileg. Í sumum tilfellum má bæta líðan einstaklinga með stuðningi, hrósi og samúð. M.ö.o. eru sum líkamleg einkenni sem hverfa við það eitt að hlustað sé á mann, manni veitt athygli og gott viðmót. Undirritaður er ekki mjög kunnugur mannasiðum þeirra sem stunda óhefðbundnar lækningar eða aðferðir sem byggðar eru á dæmisögum. Hins vegar á ég mjög bágt með að trúa því að meðferðaraðilar, hvort sem er hefðbundnir eða óhefðbundnir séu höstugir, skilningssljóir og leiðinlegir við sjúklinga sína.

7.      Minnkuð einkenni eða lækning? Eitt af því sem einkennir óhefðbundnar lækningar eða aðferðir sem byggðar eru á dæmisögum er óskýr mælikvarði á árangur. Því er líklegt að ef e-r breyting verði á einkennum (t.d. vegna tölfræðilegs aðhvarfs, bylgjukenndu eðli sjúkdóma, sjálfkvæms bata eða einhvers annars) þá sé inngripinu sem síðast var beitt þakkað fyrir.

8.      Rétt greining? Í sumum tilfellum (blessunarlega er þetta fátítt) fær sjúklingar ranga greiningu. Sú meðferð sem beitt er (hefðbundinni eða óhefðbundinni) er því líklega gagnslaus en getur í sumum tilfellum leitt til þess að viðkomandi líður betur um stund útaf einhverjum af þeim 7 liðum sem taldir eru upp hér að framan.

 

Í liðum 1-8 hér að ofan eru taldar upp ástæður þess að bati eigi sér stað eða versnun þrátt fyrir að inngripið komi þar hvergi nærri. Af þessum ástæðum má ljóst vera að ekki er nóg að einhver segist hafa liðið betur vegna einhverrar meðferðar því ýmsar aðrar ástæður en inngripið gætu hafa átt þátt í bata eða versnun. Aðferðina verður því að prófa eftir ákveðnum reglum til að álykta megi að hún sé gagnleg.

 

Fyrir utan það að margt annað en inngripið sjálft geti haft áhrif á sjúkdóma og því þurfi að rannsaka inngripin sérstaklega, hefur Baldur Heiðar Sigurðsson skrifað góðan pistil um sönnunarbyrði og hverjir beri hana útfrá tölfræðilegu, praktísku og siðferðilegu sjónarmiði. Bent er hér með á þann pistil og þá sér í lagi umfjöllun Baldurs um tölfræðilega ástæður að athuga þurfi meðferðarform sérstaklega með rannsóknum.

 

Að lokum: 

 Jónas vaknar einn daginn með mikla verki í miðju brjóstinu. Hann reynir að þrjóskast við en um kvöldmatarleitið gefst hann upp og fer á Læknavaktina. Hann er sendur beint af Læknavaktinni á bráðamóttöku. Á bráðamóttöku hittir hann hjúkrunarfræðing sem spyr hans alls kyns spurninga því næst deildarlækni og svo sérfræðing í meltingarsjúkdómum. Þessir þrír fræðingar koma sér saman um að leggja Jónas inn þar sem eftir skoðanir kemur í ljós að hann er með meinvörp í maga. Daginn eftir hittir Jónas sérfræðing í krabbameinslækningum sem segir honum að besta meðferðin við meininu byggð á gagnreyndum rannsóknum sé skurðaðgerð og lyfjameðferð í kjölfarið. En sérfræðingurinn er ekki hættur. Hann segir Jónasi að jafnframt af annarri aðferð. Hún heiti DNA-heilun. Hann hafi heyrt að tengdamóðir vinar síns hafi greinst með krabbamein í maga nýverið. Hún þáði ekki hefðbundna læknismeðferð heldur fór til DNA-heilara og eftir því sem næst verður komist er hún ekki veik lengur. Jónas spyr forviða hvort sérfræðingurinn viti til hvort þetta virki því skurðaðgerð og lyfjameðferð geti verið óþægileg. Sérfræðingurinn segist ekki viss en hann hafi þó heyrt af þessu tilviki þar sem einstaklingurinn greindist með krabbamein, fór í DNA-heilun og hefur ekki sést á sjúkrahúsi síðan.

 

Miðað við það sem komið hefur fram í þessum pistli, hvora meðferðina myndir þú ráðleggja Jónasi að þiggja?

 

 

Heimildir

Chambless, D.L., Baker, M., Baucom, D.H., Beutler, L.E., Calhoun, K.S., et. al. (1998). Update on empirically validated therapies, II. The Clinical Psychologist, 51, 3-16.

Green, G., Martin, C.W., Bassett, K., og Kazanjian, A. (1999). A systematic review of craniosacral therapy: biological plausibility, assessment reliability and clinical effectiveness. Complementary Therapies in Medicine, 7, 201-207.

Gilovich, T. (1995). Ertu viss? Brigðul dómgreind í dagsins önn (Þýð. Sigurður J. Grétarsson). Reykjavík: Heimskringla.

 

Ítarefni

1) Heimasíða klínískra sálfræðinga hjá ameríska sálfræðingafélaginu:

http://www.apa.org/divisions/div12/journals.html

2) Greinar um gagnreyndar sálfræðimeðferðir:

Chambless, D.L., og Hollon, S.D. (1998). Defining empirically supported therapies. Journal of Consulting and Clinical Psychology, 66, 7-18

Chambless, D.L., og Ollendick, T.H. (2001). Empirically supported psychological interventions: Controversies and evidence. Annual Review og Psychology, 52, 685-716.

3) Almennt um gögn byggð á dæmisögum:

http://en.wikipedia.org/wiki/Anecdotal_evidence

http://skepticwiki.org/index.php/Anecdotal_evidence

http://www.csicop.org/si/9709/beyer.html

 

 

 

Flokkar: Vísindi

Mánudagur 23.3.2009 - 23:41 - 5 ummæli

Lyfleysur og lyfleysuáhrifin

Þegar sjúklingum eru gefin lyf sem innihalda engin virk efni verða sjúklingarnir oft fyrir einhverjum áhrifum. Þessi áhrif eru kölluð lyfleysuáhrifin (placebo effect) og lyfin lyfleysur (placebo). Lyfleysuáhrifin stjórnast þá af væntingum sjúklingsins eða einhverju öðru en meðferðinni sjálfri. Lyfleysur eru yfirleitt í formi lyfja (yfirleitt eru notaðar sykurtöflur) en geta verið á öðru formi. Þar má nefna gerviskurðaðgerðir (þar sem sjúklingurinn er skorinn og það er saumað fyrir og ekkert annað gert) eða gervi sálfræðimeðferð (þar sem engum inngripum er beitt).

 

Lyfleysuáhrifin stjórnast að hluta til af væntingum sjúklinga. Það eru ýmsir þættir sem virðast gera meðferðina trúverðugri í augum sjúklinga og hafa áhrif á það hversu mikil lyfleysuáhrifin eru. Til dæmis virka ákveðnir litir á töflunum betur en aðrir. Þegar lyfleysur eiga að vera örvandi virkar best að hafa þær gular, rauðar eða appelsínugulur. Þegar lyfleysur eiga að standa fyrir þunglyndislyf virkar betur að hafa þær blár, grænar eða fjólubláar. Lyfleysur virka betur ef töflurnar eru stærri og ef þú þarft að taka fleiri. Ef þær eru merktar með lógói virka þær betur en ef þær eru ekki merktar. Eftir því sem þær eru dýrari virka þær betur. Sprautur virka betur en töflur. Svona mætti lengi telja (sjá til dæmis hér).

 

Það er þó ýmislegt fleira sem getur haft áhrif á útkomu meðferðar heldur en væntingar. Flestir sjúkdómar þróast á einhvern hátt og margir þeirra eru þannig að fólki batnar sjálfkrafa. Kvef batnar til dæmis yfirleitt sjálfkrafa nokkuð fljótlega og hefur lítið að gera með það hvað ég geri í því. Þunglyndi kemur í lotum og það er mjög líklegt að þunglyndið lagist að einhverju leiti stuttu eftir að það er verst.

 

Kienle og Kiene (1997) vilja meina að nánast alltaf sé hægt að útskýra lyfleysuáhrifin með einhverju öðru en lyfleysunni. Þeir tóku fyrir klassíska rannsókn Beecher (1955) á lyfleysuáhrifunum. Beecher komst að þeirri niðurstöðu að lyfleysur hefðu mjög mikil áhrif og kallaði (réttilega) eftir tvíblindum rannsóknum. Kienle og Kiene komust hins vegar að því að lyfleysuáhrifin voru yfirleitt vegna: náttúrlegs gangs sjúkdómsins, viðbótarmeðferðar, skekkju hjá matsmönnum, eitrunaráhrifa fyrri meðferðar, skekkju í mati sjúklings (t.d. kurteisi), mælingarnar komu málinu oft ekki við, stundum var hreinlega ekki gefin lyfleysa, svörin voru oft afturvirk, eða tilvitnanir voru hreinlega rangar.

 

Kienle og Kiene draga þá ályktun að það sé í raun ekki rétt að halda því fram að til séu einhvers konar lyfleysuáhrif, heldur séu þau goðsaga. Áhrifin eru ekki af lyfleysunni heldur vegna annarra þátta. Við getum kallað þetta ósérhæfða þætti, en það hjálpar okkur sennilega ekki mikið að breyta um orð. Það er alltaf eitthvað sem veldur árangrinum, við vitum bara ekki alltaf nákvæmlega hvað það er.

 

Hróbjartsson og Gøtzsche (2001) gerðu aðra merkilega rannsókn á lyfleysuáhrifunum. Þeir athuguðu hvort einhver munur væri á árangri af lyfleysumeðferð og engri meðferð í 114 áður útgefnum rannsóknum. Þegar breyturnar sem voru skoðaðar gátu tekið tvö gildi (t.d. er sjúklingurinn þunglyndur eða ekki, reykir sjúklingurinn eða ekki) hafði lyfleysa ekki meiri áhrif heldur en engin meðferð. Þegar huglæg fyrirbæri og sársauki voru mæld á samfellu (t.d. hversu mikið var þunglyndið, hversu mikill var sársaukinn) hafði lyfleysan hins vegar einhver áhrif. Hins vegar minnkaði árangurinn eftir því sem úrtakið var stærra. Þar að auki skiluðu lyfleysurnar engum árangri þegar kom að hlutlægum mælingum. Ástæðan fyrir því að rannsóknir með smærra úrtaki skiluðu meiri árangri en rannsóknir með stærra úrtaki gæti hæglega verið sú að þær smáu rannsóknir sem sýna ekki árangur hafi ekki verið birtar (sjá til dæmis file drawer problem og publication bias). Það virðist vera að því meiri stjórn sem er á tilraunaaðstæðum því minni (ef einhver) eru lyfleysuáhrifin.

 

Þannig að því færri utanaðkomandi þættir sem hafa áhrif því minni eru þessu svokölluðu lyfleysuáhrif. Gervivísindamenn eins og hómópatar byggja sínar lækningar eingöngu á þessum áhrifum. Þeir eru þá í besta falli að sóa tíma og peningum fólks, en í versta falli að gefa því falsvonir og jafnvel eyðileggja fyrir þeim aðra meðferð þar sem fólk getur hætt að þiggja meðferð ef það heldur að það hafi fengið bót á meinum sínum. Þetta er grafalvarlegt mál sérstaklega þegar kemur að alvarlegum sjúkdómum. Það hefur hingað til engum tekist að lækna krabbamein á háu stigi, lunga sem er fallið saman, HIV eða aflimun með lyfleysum og það er ekki líklegt að einhver geri það í bráð.

Flokkar: Vísindi

Laugardagur 21.3.2009 - 01:37 - 5 ummæli

Staðfestingavillan – Hví er trúað á Húmbúkk?

Í gegnum tíðina hafa alls konar furðufyrirbæri litið dagsins ljós, fyrirbæri sem átt hafa að hjálpa okkur að lifa betra lífi á einn eða annan hátt.    Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun á t.d. að geta hjálpað fólki við nánast hvað sem er og talnaspekin á að geta hjálpa okkur að „skilja okkur sjálf“ og framtíðina betur.  Margoft hefur verið sýnt fram á það með afskaplega skýrum hætti  að höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun er gagnslaus í besta falli og að talnaspeki getur ekki sagt okkur eitt né neitt um neitt.  Þrátt fyrir það er fullt af fólki, skynsömu fólki, sem trúir því að höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og talnaspeki sé eitthvað sem byggjandi er á.  Hvernig má það vera?  Hér verður reynt að varpa ljósi á hvers vegna skynsamt fólk trúri hvers kyns húmbúkki.

Staðfestingavilla (Confirmation bias) er hugtak sem vísar til þess að leita að upplýsingum og vísbendinum sem staðfesta þá trú eða kenningu sem maður hefur, en líta framhjá eða leiða hjá sér upplýsingar og vísbendingar sem ganga gegn þeirri kenningu eða trú.  Með öðrum orðum: Sá sem gerir staðfestingavillu leitar eftir því sem staðfestir kenninguna sem hann hefur en reynir lítið sem ekkert til þess að hrekja hana. 

Tökum dæmi:

Gunnlaugur getspaki hefur mikla trú á því að Hermann hárfagri talnaspekingur geti sagt honum heilmikið um framtíðina.  Gunnlaugur fer því einu sinni í mánuði til Hermanns og er í 60 mín. í senn.  Eftir því sem mánuðirnir líða styrkist Gunnlaugur í trú sinni á talnaspekina og þeim aðferðum sem Hermann notar.  Gunnlaugur hefur nefnilega tekið eftir því að Hermann hefur oftar en einu sinni haft rétt fyrir sér.  Hermann t.d. spáði því að nákominn ættiingi myndi veikjast á árinu og það kom á daginn.  Hermann spáði líka að því að Gunnlaugur myndi hafa áhyggjur af peningamálum.  Gunnlaugur hafði töluverðar peningaáhyggur í janúar. 

Gunnlaugur sem sagt tekur eftir öllu því sem mögulega má túlka á þann hátt að Hermann hafi haft rétt fyrir sér en lítur framhjá þeim fjölmörgu skiptum sem Hermann hefur rangt fyrir sér. Vegna þessa verður Gunnlaugur sannfærðari um hæfileika Hermanns og ágæti talnaspekinnar í hvert sinn sem hann fer í tíma til Hermanns, jafnvel þótt Hermann hafi ótrúlega oft rangt fyrir sér.  Gunnlaugur man bara eftir og tekur bara eftir þeim tilfellum sem eru í samræmi við trú hans á spekina og spekinginn.

Staðfestingavillan og föstudagurinn 13.

Fjölmargir trúa því að föstudagurinn 13. sé mikill óhappadagur. Fólk, skynsamt fólk, telur að líkurnar á því að slys verði séu meiri á föstudaginn 13. en á öðrum dögum.  Margtoft hefur verið sýnt fram á að svo er ekki.  Slys eru ekki fleiri, óhöpp eru ekki fleiri á föstudaginn 13 en á öðrum dögum.  Af hverju viðgengst þessi tilrtú?.  Auðvelt er að sjá hvernig staðfestingavillan á þar hlut að máli.  Ef við trúum því að föstudagurinn 13 sé óhappadagur tökum við eftir öllum slysafréttum frá þessum dögum og öllum þeim óhöppum sem við sjálf lendum í.  Þau tilvik notum við sem sönnun þess að föstudagurinn 13 sé einkar slæmur dagur.  Við hins lítum ekki svo á að ef ekkert óhapp og ekkert slys í okkar nærumhverfi á sér stað þann daginn að um sé að ræða vísbendingu um það að föstudagurinn 13. sé hvorki betri né verri en aðrir dagar.

 

Staðfestingavillan og vísindin

Staðfestingavilla er eitthvað sem allir gera og það oft fyrir æviskeiðið. Það er okkur eðlislægt. Við eigum auðveldra með að taka eftir því sem staðfestir þá skoðun okkar en því sem mælir gegn henni.  Af þeim sökum drögum við ansi oft rangar ályktanir, við trúm því að eitthvað virki sem gerir það alls ekki, við teljum eitthvað vera staðreynd sem er í rauninni bara bull.  Í vísindrannsóknum er tekið tillit til þessa. Gögnum er safnað kerfisbundið, notuð er ákveðin aðferðafræði til þess að koma í veg fyrir að staðfestingavilla sé gerð. Meðal annars þess vegna er eina leiðin til þess að komast að því hvort tiltekin aðferð eða meðferð sé gagnleg sú að gera vísindarannsóknir.  Jákvæðar reynslusögur duga ekki til þess að sýna fram á ágæti meðferða og aðferða.

Ljúkum þessu á orðum Michael Shermer úr Scientific American frá árinu 2002.

Smart people believe weird things because they are skilled at defending beliefs they arrived at for nonsmart reasons.

 

 

 

Flokkar: Vísindi

Miðvikudagur 18.3.2009 - 21:59 - Rita ummæli

Aðhvarf að meðaltali og sjálfkvæmur bati

Strangt til tekið er aðhvarf að meðaltali regla eða lögmál í tölfræði sem lýsir sambandi óháðra mælinga úr sömu dreifingu (safni mælinga). Ef dreifing hefur verið skilgreind sem endanlegur fjöldi eða safn mælinga er hægt að reikna meðaltal hennar. Aðhvarf að meðaltali er þá lýsing á því að ef mæling úr safninu er mjög langt frá meðaltali þess er líklegt að næsta mæling sem við gerum verði nær meðaltalinu. Þetta lögmál gildir í raun um öll mælanleg fyrirbæri: Í kjölfar öfga kemur annað dæmi sem er hóflegra – það liggur nær meðaltali.

Þetta litla lögmál lætur ekki mikið yfir sér og það er máske einmitt þess vegna sem að okkur hættir til að gleyma því.   Beiting þess hefur í för með sér að í hvert sinn sem við sjáum niðurstöður mælinga sem liggja langt frá meðaltali (einnig nefnd frávik eða útlagar) ættum við að gera ráð fyrir því að næsta niðurstaða verði nær meðalatalinu, hún hverfur til meðaltals.  Þetta má líka orða á þann hátt að í kjölfar mælingar sem er á einhvern hátt ódæmigerð er líklegt að komi mæling sem er dæmigerðari.  

Dæmi:
Gefum okkur að tiltekinn íslenskunemi sé þokkalegur námsmaður og hafi því 7,5 í meðaleinkunn í íslensku.  Ef haldin eru mánaðarleg könnunarpróf yfir veturinn ætti meðaleinkunnin að standa saman af níu könnunarprófum sem saman gefa meðaltalið 7,5.  Segjum að það gerist á janúarprófinu að okkar maður fái 9,5.  Við þetta er ekki óeðlilegt að umhverfið (kennari, foreldrar, félagar) og hann sjálfur  taki að gera auknar kröfur til hans.  Það verða þeim öllum því vonbrigði þegar hann stendur sig ekki eins vel á febrúarprófinu.  Þó hefur ekkert gerst annað en aðhvarf að meðaltali, næsta einkunn verður nær meðaltalinu en 9,5.  Hið sama mun gerast með öfugum formerkjum í kjölfar lakasta stöðuprófsins hans. Ef lægsta einkunnin hans yfir veturinn er til dæmis 5,0 er ljóst að hann mun bæta sig strax í næsta prófi á eftir. 

Annað dæmi um aðhvarf að meðaltali og öllu þekktara er Sports Illustrated bölvunin – The Sports Illustrated Cover Jinx.   The Sports Illustrated Cover Jinx gengur í stuttu máli út á þá trú að því fylgi bölvun fyrir íþróttamann ef hann kemst á forsíðu þessa víðlesna tímarits.  Það gefur augaleið að til að komast á forsíðu íþróttatímarits sem lesið er af 23 milljónum manna vikulega þurfa íþróttamenn að ná framúrskarandi góðum árangri.  Það er að segja, árangri sem er jafnvel betri en sá árangur sem viðkomandi er líklegur til að ná annars.  Með öðrum orðum komast menn á forsíðu SI með því að fara fram úr væntingum.  Það sem gerist svo í kjölfar árangurs sem verðskuldar forsíðumynd á SI er að árangur færist nær því sem líklegra mætti teljast; það verður aðhvarf að meðaltali sem margir túlka sem afturför.

Í báðum dæmunum hér að ofan er tiltekið hvernig fólki hættir til að túlka samband eða leita að orsök þar sem ekkert hefur gerst annað en aðhvarf að meðaltali.  Við förum flest að leita að orsök þar sem engin er, sambandi þar sem er ekkert samband.  Þessi leit að skýringum á það til að leiða okkur á villigötur líkt og í dæminu um Sports Illustrated bölvunina.  Þarna hafa væntingar þess sem reynir að útskýra ástandið mikið að segja.

Sjálfkvæmur bati
Sjálfkvæmur bati er annað dæmi um aðhvarf að meðaltali.  Flest erum við svo lánsöm að búa við góða heilsu, það má segja að við séum að jafnaði heilbrigð.  Ein leið til að líta á veikindi er þá að horfa þannig á að þau séu frávik frá meðaltalsástandinu heilbrigði.  Flestir eru jafnframt svo lánsamir að búa yfir nokkuð sterku ónæmiskerfi.  Þegar sýkill ræðst á líkamann bregst ónæmiskerfið við með svo skjótum og öflugum hætti að oftast verðum við þess ekki einu sinni vör.  Í öðrum tilfellum, til dæmis þegar við fáum flensu eða kvef, tekur það ónæmiskerfið nokkra daga að vinna bug á sýklinum.  Á þeim tíma er líklegt að við höfum hita og séum slöpp.  Fæstum líkar það ástand svo að við bregðumst við, tökum til okkar ráða.  Sumir taka sólhatt aðrir C-vítamín og einhverjir þamba vatn.  Aðferðirnar eru óteljandi en allir losna þó við kvefið – á endanum.  Það er svo komið undir þeim skýringum sem við sjálf aðhyllumst hverju við eignum batann.

Sjálfkvæmur bati verður í fleiri sjúkdómum en kvefi og flensu.  Þannig er gangur þunglyndis yfirleitt sá að það skiptast á sjúkdómstímabil og tímabil þar sem sjúklingnum líður betur og er þá talað um að hann sé í sjúkdómshléi.  Þetta gerist jafnvel þó að engin meðhöndlun eigi sér stað.  Þegar við metum árangur af meðferð, hvort sem að um er að ræða þunglyndismeðferð með lyfjum eða viðtölum, kvefmeðferð eða jafnvel íslenskukennslu* höfum við ævinlega þá ábyrgð að sýna sjálf fram á að aðferðin sem við veljum að nota hafi í för með sér betri árangur en hægt er að skýra með sjálfkvæmum bata eða aðhvarfi að meðaltali.

*Hér er hugtakið meðferð notað mjög víðtækt um allt það sem hefur áhrif á eða breytir líðan eða frammistöðu.

Heimildir:

Trochim, William M. The Research Methods Knowledge Base, 2nd Edition. Internet WWW page, at URL: http://www.socialresearchmethods.net/kb/> (version current as of October 20, 2006).

Wikipedia.org:   http://en.wikipedia.org/wiki/Sports_Illustrated_Cover_Jinx

Flokkar: Vísindi

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is