Þriðjudagur 10.12.2013 - 18:24 - 4 ummæli

Að lyfta efninu. Rás 1

 

Stórfelldur niðurskurður ríkisstjórnarinnar á fjárframlögum til ríkisútvarpsins, og í framhaldi af því fjöldauppsagnir og niðurskurður á dagskrá, einkum á Rás 1, hefur valdið uppnámi í samfélaginu. Samfélagsmiðlar loga, ásakanir ganga á víxl, fjölmennur fundur í Háskólabíói undir yfirskriftinni „Okkar ríkisútvarp“ gagnrýndi þessar ráðstafanir harðlega og mótmælalistar með 10 000 undirskriftum eru afhentir ráðherrum. Af hverju öll þessi læti?

Sumir sem taka til máls láta reyndar í ljós undrun yfir því að ekki skuli hafa orðið svona mikið fjaðrafok þegar miklar uppsagnir áttu sér stað í öðrum fyrirtækjum undanfarin ár.  Ég kann ekki svarið við því. Sennilega hafa þó flestir gert sér grein fyrir að í þeirri efnahagslegu ládeyðu sem fylgdi hruninu, urðu fyrirtækin, þau sem lifðu hrunið af, að draga saman seglin vegna verkefnaskorts. Svo má ekki gleyma því að undanfarin ár hefur átt sér stað veruleg fólksfækkun á ríkisútvarpinu í tveimur lotum  vegna niðurskurðar.

Það eru örugglega nokkrar skýringar á uppnáminu núna. Sú augljósasta er að mörgum Íslendingum þykir vænt um ríkisútvarpið sitt og telja það gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Það heldur úti metnaðarfullum fréttastofum og fréttaskýringarþáttum, segir okkur frá samfélaginu sem við búum í, miðlar miklum fróðleik um allskonar tónlist, fjallar um bókmenntir, myndlist, leiklist og kvikmyndir, flytur fréttir af veðurfari á landi og miðum og fræðir okkur náttúru landsins og söguna sem býr í landslaginu.  Niðurskurðurinn núna útilokar að stofnunin geti gegnt þessu hlutverki svo sómi sé að. Við heyrum það og sjáum á hverjum degi síðustu tvær vikurnar.

Unnendum Ríkisútvarpsins þykir sérstaklega vænt um Rás 1. Helmingi starfsmanna þar er sagt upp. Það gleymist í umræðunni að Rás 1 er hvorki hús né tæki og tól. Hún er fyrst og fremst mannauður og ákveðið verklag, ákveðinn andi, áferð, hefð og sköpun. Einn hinna brottreknu starfsmanna rásarinnar, Gunnar Stefánsson, orðaði það ágætlega fyrir sína parta í ræðu sem hann hélt fyrir nokkrum árum. Hann sagðist leitast við í sinni dagskrárgerð að lyfta efninu en ekki sjálfum sér.

Það hefur líka sitt að segja að niðurskurðurinn og uppsagnirnar koma beint í kjölfarið á pólitískum hótunum nokkurra stjórnarliða gagnvart ríkisútvarpinu og hálfsturluðum hatursskrifum í forystugreinum Morgunblaðsins. Já, þetta gerist á sama tíma og búið er að magna upp ömurlega stemningu í samfélaginu þar sem liststarfsemi og heilbrigðiskerfi er skipað í andstæðar fylkingar, Þjóðleikhúsi og Landspítala, borg og landsbyggð, Íslandi og Evrópu. Við göngum nú í gegnum andlegt niðurlægingarskeið. Vonandi varir það ekki lengi.

Að mínu mati er komið fram það sem margir starfsmenn Ríkisútvarpsins óttuðust fyrir 7 árum þegar útvarpinu var breytt í einkahlutafélag í opinberri eigu. Ég fjallaði aðeins um það í grein sem ég skrifaði í Fréttablaðið fyrir nákvæmlega þremur árum á 80 ára afmæli Ríkisútvarpsins. Við breytinguna var útvarpsráð lagt niður en í þess stað skipaði Alþingi stjórn Ríkisútvarpsins ohf, sem virðist, þegar á reynir, ekki hafa neitt hlutverk annað en fylgjast með rekstrinum. Útvarpsstjóranum var hins vegar veitt alræðisvald yfir dagskrárstefnu og mannaráðningum. Það fyrirkomulag kallar á lóðrétta forstjórastjórnun en gott útvarp byggir, að mínu mati, fyrst og fremst á láréttu samráði dagskrárgerðarfólks um áherslur, áferð, efnistök og stefnu.

Önnur hætta og alvarlegri, sem núverandi fyrirkomulag felur í sér, var sú ákvörðun að afnema afnotagjöldin og hafa þess í stað nefskatt. Við það missti Ríkisútvarpið fjárhagslegt sjálfstæði. Upp frá því gat Alþingi tekið sér það vald að ráðskast með þennan skatt eins og það vill hverju sinni, jafnvel þótt í lögunum standi að skatturinn sé tekjustofn Ríkisútvarpsins. Við þessu var varað fyrir sjö árum.

Mér finnst reyndar að margt hafi tekist ágætlega til í sjónvarpinu undanfarin misseri: Landinn, Kiljan Útsvar, Orðbragð eru dæmi um frábæra, alíslenska sjónvarpsþáttagerð. Og þótt mér finnist stjórnunaraðferðir útvarpsstjórans Páls Magnússonar ekki mjög farsælar tel ég að hann hafi staðið sig vel í því að verja Ríkisútvarpið fyrir trylltum pólitískum ofsóknum sem eiga sér varla fordæmi á Vesturlöndum.

Auðvitað er Rás 1 ekki hafin yfir gagnrýni frekar en annað. Hún er ekki heilög. Hún er vissulega eldgömul en hún er ekki gömul amma. Hún þarf að vera síung, á sinn sérstaka hátt, skörp, skapandi og sprelllifandi. Til þess þarf mannauð. Niðurskurður og mannfækkun á Rás 1 er atlaga að menningunni í landinu. Menning er það að gera vel, eins og oft hefur verið bent á. Við hljótum að hafa efni á því. Við verðum að rífa okkur upp úr lágkúrunni og andleysinu. Rás 1 getur hjálpað okkur til þess. Það má ekki eyðileggja hana. Útvarpsstjórinn hefur ekki leyfi til þess. Ríkisstjórnin hefur ekki umboð til þess.

PS. Að gefnu tilefni bæti ég við þeirri athugasemd, svo það sé alveg skýrt, að ég tel að Páll Magnússon útvarpsstjóri sé ábyrgur fyrir atlögunni gegn Rás 1. 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • Afhverju þarf Rás 1 að vera með fleiri dagskrárliði nú en fyrir 40 árum þegar ekkert annað var í boði á Íslandi?

  Síðan ætti ríkisútvarp að halda sér frá pólitískri þáttagerð eins og Víðsjá og Speglinum nema öll sjónarmið njóti sannmælis.

 • Nú er endalaust talað um forgangsröðun.

  Forgangsröðun stjórnenda útvarpsins er mér óskiljanleg. Ég fæ engan botn í þá ákvörðun að rústa Rás 1.

  Ég er sammála ýmsu því sem fram kemur fram í þessari grein. Ég reyndar skil ekki hvernig hægt er að hrósa útvarpsstjóra í ljósi þess að hann ákveður að rústa Rás 1.

  Ég fæ heldur ekki skilið að nokkur maður sem horft hefur á erlent sjónvarp geti talið þætti á borð við Kiljuna, Landann og Útsvar boðlega hvað þá góða.

  Í mínum huga eru allir þessir þættir afleitir.

  En smekkur manna er víst misjafn eins og kröfurnar sem þeir gera.

  Mér finnst að landsmenn geti gert kröfu um boðlegt efni þegar þeir eru þvingaðir til að greiða sérstakan skatt til að standa undir ríkisútvarpi.

  Sú ákvörðun að láta niðurskurð skella á Rás 1 af fullum þunga í stað t.d. sjónvarpsins og yfirstjórnar þessa batterís mun gera að verkum að þess stofnun verður enn ófærari en áður um að sinna skyldum sínum að lögum.

  Þarna hefur eitthvað farið hrikalega úrskeiðis.

 • Skúli Víkingsson

  Það eru því miður ekki allir sem „lyfta efninu“ eins og Gunnar Stefánsson gerir. Þáttastjórnendur troða sér iðulega í forgrunn. Menningarhlutverk Roof er einkum rækt á Rás 1, en þar er samt meira talað um bókmenntir, listir, tólist o.þ.h. en að verkin sjálf fái notið sín. Tónlist er í útrýmingarhættu. Á Rás 1 eru heilu dagarnir þar sem engin músík er nema dægurmúsík, sem hefur samt Rás 2 nokkuð óskipta. Hvað er pop frá Malí („Til allra átta“) eða rabb um dægurmúsík fyrri ára („Albúmið“) að gera á Rás 1. Í æsku hlustaði ég af athygli og unun á útvarpsleikrit. Í seinni tíð hafa þau orðið sérvizku að bráð og sjaldan að maður hafi úthald í að hlusta. Þetta á reyndar allt of oft við leikhúsin líka að leikstjórar „lyfta ekki efninu“ heldur klína sér í forgrunn með afskræmingu leikverka.

 • Rósa, ég kann nokkur tungumál og get horft á sjónvarpsefni frá flestum heimshornum. Nefndu nokkra erlenda þætti sem þér þykir vera til fyrirmyndar eða betri en Kiljuna og Landann.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is