Sunnudagur 31.7.2011 - 16:30 - 6 ummæli

Kvennafangelsi Arnarholti?

Kvennafangelsið í Kópavogi er algjör skandall. Það er skelfilega vondur staður til að vista fanga því aðstaðan þar er nákvæmlega engin. Ekkert er þar um að vera, útisvæðið er smánarlega lítið og fyrir almannaaugum, læknisherbergið minnir á kústaskáp og það er enginn möguleiki fyrir konur sem afplána langa dóma að fá tilbreytingu er varðar húsnæðið – því ekkert annað fangelsi á Íslandi hýsir kvenfanga. Því er það svo að sé kona dæmd til áralangrar fangelsisvistunar þá bíður hennar fangelsið í Kópavogi og ekkert annað. Ekkert vægara úrræði, ekkert annað en sama húsið með sömu litlu göngunum og nánast engri tilbreytingu.

Það er margoft búið að benda íslenskum stjórnvöldum á að þetta fangelsi, sem og fangelsið í Hegningarhúsinu séu ómannúðleg en því miður þá höfum við ekki haft ráð á að taka á málunum.

Í gær heyrði ég af því að verið væri að „skjóta“ þætti Ragnars Bragasonar, Heimsenda, að Arnarholti á Kjalarnesi. Þar var um árabil rekin geðdeild en mér skilst að ekkert sé þar í dag. Væri ekki ráð að kanna hvort nýta megi húsið sem fangelsi? Kvennafangelsið í kópavogi var hreint ekkert reist sem fangelsi á sínum tíma og hentar afskaplega illa. Það sér það hver sem vill að það fer mjög illa saman að hafa stóran leikskóla við hliðina á fangelsi, hvar girðingar veita ekkert skjól. Fangarnir eiga rétt á því að verða ekki fyrir áreiti innan veggja fangelsis og því hentar það mjög illa að hafa þetta svona inni í byggð. Kjalarnes er svo nálægt borginni að það er ekkert óhentugt. Nú veit ég auðvitað ekkert hvort það hentar sem slíkt, en það hlýtur að vera skárra en hörmungin í Kópavoginum.

Datt svona í hug að henda hugmyndinni fram. Eins má velta fyrir sér hvort ekki megi nýta fleiri hús í þessum tilgangi… t.d. uppi á velli… þar sem herinn var og hét… hvernig er það – eru öll húsin þar í notkun?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.5.2011 - 09:27 - 6 ummæli

Ósannað að þú hefðir ekki samt …. seinna…. ef þú hefðir ekki núna…

Einhvern veginn á þennan veg rökstyðja Sjúkratryggingar Íslands synjun sína á endurgreiðslu vegna barns sem lenti í slysi og missti við það tvær framtennur í efri gómi og tvær að auki við aðgerðinar (samtals fjórar tennur fyrir framan jaxla eins og hin nýja reglugerð gerir ráð fyrir að sé nauðsynlegt til að fá endurgreiðslu).

Rökstuðningur þeirra fyrir því að taka ekki þátt í kostnaði vegna þessa hrikalega slyss er eftirfarandi:

Ekki er sannað að barnið hefði ekki samt þurft á tannréttingum að halda síðar meir þó hún hefði ekki lent í slysinu!

Í fyrsta lagi er þetta auðvitað algjör della. Lendi fólk t.a.m. í umferðarslysi þá getur það, miðað við þessi rök, átt von á að fá ekki út úr tryggingum sínum vegna þess að það hefði mögulega getað lent í slysi annars staðar?…. seinna?

Í öðru lagi er vert að benda á orð eins af sérfræðingum sem annast stúlkuna í bréfi sérfræðingsins til Sjúkratrygginga Íslands en þar segir orðrétt:

„Það er mitt mat að sennilega hefði XXX  ekki þurft tannréttingar ef hún hefði ekki lent í þessu slysi“. (tók út nafnið)

Þarna er um að ræða mat sérfræðings sem hitti barnið fyrst haustið 2007, stuttu eftir umrætt slys. Hún hefur því frá fyrsta degi, í 3 og hálft ár, annast hina slösuðu og veit manna best um hvað er að ræða. SÍ hefur aldrei hitt barnið en tekur engu að síður þá ákvörðun, þvert á álit sérfræðingsins, að synja um endurgreiðslu vegna þess að þau telja ósannað að hún hefði samt ekki þurft að fara í tannréttingar???

…. ég segi bara við SÍ…. mikill er sómi ykkar!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.4.2011 - 13:09 - 4 ummæli

Að hanga með leiðinlega gaurnum…

Að segja Nei við samningaleiðinni er eins og að neita að undirrita skilnaðarpappírana við leiðinlega gaurinn út af eignarhaldi á sjónvarpinu, en þurfa í staðinn að búa með honum næstu árin meðan þið hnakkrífist um búskiptin með aðstoð lögfræðinga.

Þetta er kannski ekki hinn endanlegi sannleikur í Icesavemálum en lýsir stöðunni líklega mun betur en sú dularfulla hugmynd að á kjörseðlinum þann 9. apríl verði tveir kostir; Annars vegar „Já“ og hinsvegar „Verði Icesavedeilan áfram óleyst mun hún bara hverfa af sjálfu sér“. Við getum svo sem staðið í lappirnar við spegilinn og sagt okkar eigin spegilmynd aftur og aftur og aftur að við skuldum engum neitt enda séu kröfur allra annarra „ólögvarðar“. Yfirgnæfandi líkur eru á því að spegillinn hvorki mótmæli né hreki heimatilbúin rök okkar og fyndna pistla. Þessi aðferð við að takast á við flókinn veruleika hefur bara einn megingalla: Á meðan við flytjum speglinum mál okkar er Eftirlitsstofnun EFTA að undirbúa málssókn gegn okkur fyrir tvö alvarleg brot gegn EES samningnum og sérfræðingar í Evrópurétti hafa satt að segja talsverðar áhyggjur af niðurstöðu slíks máls. Við getum líka prófað að uppnefna ESA og kalla stofnunina „handrukkara“en ólíklegt er að það dugi af því kjarni deilunnar er einmitt hvort kröfurnar séu e.t.v. lögvarðar með tilvísun í bæði EES samninginn og tilskipun ESB um innstæðutryggingar. Fari málið fyrir dómstóla gæti raunar bæst við krafa upp á 500 milljarða vegna ólögmætar mismununar sem er brot á einu af grundvallaratriðum EES samningsins. Þá gæti nú verið gott fyrir íkornana að eiga valíum að narta í.

Fyrir okkur, venjulegt kreppukreppt fjölskyldufólk sem sýpur daglega seyðið af áhættufíkn bankastjórnenda landsins, sem hefur ekki ferðast töluvert eftir hrun, sem þekkir fáa Íslendinga í erlendu viðskiptalífi og sem á útrásarvíkingum því lítið að þakka, skiptir mestu að meta áhættuna af þeim kostum sem við stöndum frammi fyrir 9. apríl. Við það mat er alveg sérlega óhjálplegt að lesa digurbarkalegar fullyrðingar um að það sé jafn öruggt að við munum vinna öll dómsmál og að þjóðin sé gjaldþrota verði fyrirliggjandi samningur samþykktur. Enginn sem mælir með samningnum, allra síst þeir lögfræðingar sem harðast töluðu gegn fyrri samningum, mótmæla því að í honum séu áhættuþættir. Lykilatriðið er að með samningnum erum við ekki bara að lágmarka áhættuna og kostnað ríkissjóðs heldur setja efnahagslega fyrirvara fari allt á allra versta veg. Það er heldur ekki útilokað að við vinnum dómsmálin fyrir EFTA dómstólnum. En fullyrðingar þess efnis að sú vegferð hafi þá þegar ekki kostað íslenskt atvinnu- og efnahagslíf neitt er barnaskapur. Matið er vissulega óvissu háð en er ólíklega lægra en líklegasti kostnaður af fyrirliggjandi samningi.

Aðalatriðið er að við verðum að treysta skynsemi fólks nóg til að ræða þetta mál öfgalaust. Hræðsluáróðurinn um öruggt þjóðargjaldþrot er álíka trúverðugur og að stilla dómstólaleiðinni upp sem fyrirfram unninni og nánast ókeypis fyrir íslenskt heimili og atvinnulíf. Veruleikinn sem við lifum í er ekki svartur og hvítur, framtíðin er óviss og verkefnið okkar kjósenda er að finna skynsamlegustu leiðina til að lágmarka áhættu og kostnað sem gæti fallið á komandi kynslóðir.

Þið vitið þá hvert þið megið troða leiðinlega gaurnum og fleiri dæmisögum um hann.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.3.2011 - 09:50 - 12 ummæli

Landbúnaður og ESB

Í fréttablaðinu í dag er merkileg grein eftir Þröst Haraldsson, sem nýverið lét af störfum sem ritstjóri Bændablaðsins. Ég tek mér það bessaleyfi að birta þessa grein hér, algjörlega án leyfis en í mjög svo góðum tilgangi. Þarna skrifar maður sem hefur vit á því sem hann er að segja – og ég vona að sem flestir lesi hana.

Íslenskir bændur og ESB

Þröstur Haraldsson blaðamaður og fyrrverandi ritstjóri Bændablaðsins
Þröstur Haraldsson blaðamaður og fyrrverandi ritstjóri Bændablaðsins

Þröstur Haraldsson skrifar:

Það var fróðlegt viðtalið sem Sigurjón Már Egilsson átti við ungan stjórnmálafræðing, Ingu Dís Richter, í þætti sínum Sprengisandi fyrir skömmu. Þar lýsti hún reynslu Finna af þátttöku í margvíslegum aðgerðum Evrópusambandsins til þess að ýta undir þróun í dreifbýli, jafnt á sviði atvinnumála sem félags- og búsetumála. Niðurstaða Ingu Dísar var sú að finnskir bændur yndu yfirleitt frekar glaðir við sitt í sínu dreifbýli og að íslenskir bændur og íslenskt samfélag gætu lært mikið af reynslu þeirra, hvort sem Ísland gerist aðildarríki ESB eður ei.

Inga Dís lýsir því í meistaraprófsritgerð sinni hvað hafi gerst í finnskum landbúnaði eftir að landið gekk í ESB. Þar varð umtalsverð fækkun bændabýla en þau sem eftir urðu eru stærri en áður svo heildarniðurstaðan er sú að nýting lands til ræktunar er svipuð og hún hefur lengi verið og framleiðsla hefur heldur aukist í flestum greinum. Og hún vitnar í framámenn í finnskum landbúnaði sem segja að þessi þróun sé alþjóðleg og hefði væntanlega orðið svipuð þótt Finnar hefðu staðið utan ESB.

Þetta hlýtur að vekja athygli íslenskra bænda sem merkilegt nokk hafa upplifað svipaða eða jafnvel öllu meiri fækkun og stækkun býla sinna á undanförnum árum. Það er svolítið erfitt um samanburð vegna ólíkra aðferða við tölfræðisöfnun en sé litið í Hagtölur landbúnaðarins kemur í ljós að þeim bændabýlum sem hafa greiðslumark í sauðfjárbúskap og/eða mjólkurframleiðslu fækkaði um nánast sömu prósentutölu – rúmlega 30% – og finnskum bændabýlum á árabilinu 1994 til 2004, fyrsta áratugnum eftir að Finnar gengu í ESB. Hins vegar kemur þessi breyting misjafnt niður á búgreinum og sé litið til mjólkurframleiðslu þá hefur fækkun framleiðenda orðið enn meiri hér á landi. Kúabú á Íslandi voru um 1.700 árið 1993 en um þessar mundir er mjólk framleidd á innan við 700 bæjum. Það er um það bil 60% fækkun. Kúnum hefur fækkað en þær framleiða meiri mjólk. Í Finnlandi hefur hægt á fækkun bændabýla en hér á landi blasir við að það er lítill grundvöllur fyrir öllum þeim sauðfjárbúum sem hér eru, nema sem aukagetu meðfram öðrum rekstri eða starfi bænda.

Byggðastefna sem virkar

Evrópusambandið hefur brugðist við þessari þróun með þeim hætti að breyta stuðningi sínum við bændur og aðra íbúa í dreifbýli. Í stað þess að veita bændum styrk út á tiltekið framleiðslumagn, svo sem lítra af mjólk eða kíló af kjöti, hafa styrkirnir verið færðir yfir á flatarmál ræktarlands og fjölda gripa. Þetta er meðal annars gert í ljósi þess að með stækkun býlanna hefur rekstur þeirra orðið betri og arðbærari og þar með minni ástæða til að styrkja framleiðsluna. Hluti stuðningsins hefur svo verið fluttur yfir í umhverfis- og orkumál, ekki kannski síst í ljósi þess að auknum stórrekstri í landbúnaði fylgir talsverður umhverfisvandi sem taka þarf á (úrgangur frá búfénaði, efnamengun af völdum áburðar og annarra efna sem landbúnaður notar, að ógleymdum gróðurhúsaáhrifunum).

En sá þáttur sem farið hefur hvað örast vaxandi hjá ESB eru styrkirnar sem Inga Dís fjallar um í ritgerð sinni. Þeim er ætlað að sporna gegn þeirri þróun sem við þekkjum mæta vel hér á landi. Fækkun bændabýla og aukin tæknivæðing í landbúnaði hefur leitt til þess að íbúum í sveitum landsins hefur fækkað mikið. Við það brestur grundvöllur ýmiss konar þjónustu, svo sem skóla, velferðarþjónustu og verslunar. Sveitirnar hafa dregist aftur úr þéttbýlinu sem ákjósanleg búsetusvæði og við það fækkar íbúunum enn frekar. Það er þessi vítahringur sem dreifbýlisþróunarstyrkjum ESB er ætlað að rjúfa og ef marka má reynsluna frá Finnlandi hafa þeir gagnast býsna vel í því að ýta undir allskyns aukabúgreinar og rekstur smærri fyrirtækja sem laða að sér vinnuafl og íbúa í sveitunum. Það má ýmislegt segja um þær aðgerðir sem ESB hefur gripið til í tímans rás en þessir styrkir eru sagðir vera það sem á ensku nefnist „success story“, aðgerðir sem duga.

Sennilega er það þessi þróun sem hefur gert það að verkum að flestir framámenn í finnskum landbúnaði hafa snúist frá heitri andstöðu við ESB og segjast nú vera hlynntir aðild Finna. Það gengur einfaldlega vel í finnskum landbúnaði þessi misserin og engin þörf á að dvelja lengur við þá erfiðleika sem aðild fylgdu í upphafi þegar bændum fækkaði ört.

Þröngt sjónarhorn

Höfum hugfast að þeim fækkaði hlutfallslega jafnört hér á landi. En hvað hefur verið gert til þess að mæta þeirri þróun? Við vitum öll að það hefur verið afar tilviljanakennt og ómarkvisst af hálfu hins opinbera og hagsmunasamtaka, þótt vitaskuld hafi duglegt fólk bjargað sér með einhverjum hætti – nú eða flutt á mölina.

Það er sorglegt að segja frá því en í röðum forystumanna Bændasamtakanna hefur gætt viðvarandi áhugaleysis á því að bregðast við þróuninni með öðrum hætti en þeim að standa vörð um hið hefðbundna styrkjakerfi í sauðfjár- og kúabúskap og að nokkru leyti grænmetisframleiðslu, auk tollverndar. Menn hafa tekið allt að því trúarlega afstöðu gegn aðild að ESB og safnað síðan rökum gegn henni en bægt frá sér og bændum öllu því sem telja má jákvætt við aðild eða það sem unnið gæti gegn neikvæðum afleiðingum aðildar á íslenskan landbúnað.

Röksemdir bændaforystunnar gegn ESB byggjast fyrst og fremst á útreikningum sem gerðir hafa verið á ýmsum tímum á því hver áhrif landbúnaðarstefnu ESB (Common Agricultural Policy – CAP) yrðu á íslenskan landbúnað daginn sem Ísland yrði aðili að ESB. Samkvæmt þeim myndi mjólkurframleiðsla dragast saman um helming, sala drykkjarmjólkur og annarrar ferskvöru héldist að mestu leyti vegna fjarlægðarverndar en sala og þar með framleiðsla á jógúrt, ostum og öðrum vörum með lengra geymsluþol drægist verulega saman eða legðist hreinlega af.

Hvað aðrar búgreinar áhrærir hljóða útreikningarnir á þann veg að framleiðsla á hvítu kjöti, alifuglum og svínum, legðist að heita má niður. Hins vegar yrðu áhrifin á sauðfjárrækt ekki merkjanleg, nema að innflutningur á ódýrara hvítu kjöti héldi áfram að draga úr lambakjötssölu innanlands (sú þróun hefur reyndar verið ansi hröð undanfarin ár). Garðyrkjan myndi standa breytingarnar af sér að verulegu leyti. Grænmetisframleiðsla hefur þegar gengið í gegnum afnám tollverndar og plumar sig vel en blómaframleiðsla gæti lent í kröggum andspænis evrópskum stórfyrirtækjum í blómaframleiðslu. Þar búast menn við að það sama gerist hér á landi og í Danmörku og Finnlandi, að hollensk fyrirtæki ryðji innlendum fyrirtækjum út af markaðnum.

Það sem vantar

Þetta er í grófum dráttum myndin sem Bændasamtökun draga upp af afleiðingum ESB-aðildar. Við hana má gera heilmiklar athugasemdir.

Fyrir það fyrsta er ekki gert ráð fyrir neinum undanþágum frá eða aðlögun að CAP sem um gæti samist í aðildarviðræðum (nema kannski stuðningi við heimskautalandbúnað eins og Svíar og Finnar sömdu um á sínum tíma). Á það mun reyna í samningaviðræðunum en bændaforystan er fyrirfram búin að ákveða að slíkar undanþágur muni ekki hafa nein áhrif á heildarmyndina.

Í öðru lagi er ekki reiknað með að íslensk landbúnaðarframleiðsla njóti neinna þeirra styrkja sem nú eru veittir í krafti CAP en eru ekki tíðkaðir hér á landi. Þar ber kannski hæst kornrækt sem heur farið vaxandi hér á landi undanfarin ár. Í ESB mega bændur vænta þess að fá allt upp í 90.000 kr. í styrk á hvern hektara kornræktarlands en hér á landi er styrkurinn í mesta lagi 15.000 kr. og á honum er þak. Þetta gæti skipt verulegu máli fyrir kúabændur, svína- og kjúklingaræktendur sem nota mikið fóðurkorn.

Í þriðja lagi hefur bændaforystan ekki sýnt áhuga á að ræða þá miklu möguleika sem felast í því að á Íslandi eru einstakir búfjárstofnar (nautgripir, sauðfé, geitur, hestar, hænsni, hundar) sem hvergi eru til annars staðar.

Í fjórða lagi hefur bændaforystan afar lítinn áhuga á að ýta undir eða styðja við lífrænan landbúnað, þrátt fyrir að aðstæður hér á landi fyrir slíkan landbúnað séu mjög góðar. Það þarf í raun afar litlu að breyta til þess að verulegur hluti íslenskrar landbúnaðarframleiðslu standist þær kröfur sem gerðar eru til lífrænnar framleiðslu.

Í fimmta lagi hefur bændaforystan gætt þess að ræða sem minnst um þá möguleika sem felast í útflutningi á gæðaframleiðslu íslenskra bænda eftir að útflutningshömlum er aflétt. Sauðfjárbændur gætu til dæmis flutt út talsvert meira af kjöti þessi misserin en tollkvótar ESB heimila.

Í sjötta og síðasta lagi hefur ekki mátt nefna í Bændahöllinni þá styrki sem fjallað var um á Sprengisandi á dögunum, styrki til dreifbýlisþróunar.

Hálffullt eða hálftómt?

Ég ætla ekki að elta ólar við öll þau undarlegu rök sem bændaforystan hefur beitt í umræðunni, svo sem um aðlögunarferlið eða að ESB vilji íslenskan landbúnað feigan. Þau dæma sig sjálf. En þegar kemur að efnislegum rökum fer púðrið allt í að tíunda margvísleg mistök sem ESB hefur gert sig sekt um sem eru vissulega ekki til eftirbreytni. Þau mistök er hins vegar hægt að nota sem röksemdir í samningaviðræðum fyrir því að haga hlutunum öðruvísi hér á landi, enda engin ástæða til að endurtaka syndir fortíðarinnar. Mér sýnist að á nýafstöðum rýnifundi um landbúnaðarmál hafi þetta sjónarmið mætt góðum skilningi embættismanna ESB.

Bændur gætu því sem hægast prófað að athuga hvort ESB-glasið er hálffullt eða hálftómt. Sumt er vel gert í ESB rétt eins og á Íslandi, annað miður. Meðal þess sem hefur skilað umtalsverðum árangri er einmitt það sem rætt var um í upphafi greinarinnar. Því hefur verið haldið fram að eina byggðastefnan sem skipti máli hér á landi sé að standa vörð um stuðningskerfi landbúnaðarins. Þau rök halda engan veginn í samhengi við ESB-aðild. Bæði er sótt hart að þessu stuðningskerfi úr öðrum áttum en frá Brussel, einkum frá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), og svo dugar þetta stuðningskerfi afar lítið til að sporna við fólksfækkun í sveitum landsins, það sýnir sagan. Sennilega gætu íslenskir bændur sótt sér mun meiri og árangursríkari stuðning til Evrópusambandsins á báðum þessum vígstöðvum en íslenskir skattgreiðendur eru reiðubúnir að standa undir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.2.2011 - 15:05 - 20 ummæli

Er ég á listanum?

Áður en ég held lengra vil ég taka það fram að ég er yfirleitt hlynnt hverskonar undirskrifarsöfnunum og hópefli. Ég dáist yfirleitt að fólki sem lætur hugsjónir sínar drífa sig áfram. Þess vegna er ég líka hlynnt því þegar fólk sem ég er ekkert endilega sammála safnar saman skoðanasystrum sínum og bræðrum á svona lista.

Ég vil samt vera viss um að ég sé ekki sett á lista sem ég vil ekki vera sjálf á. Þess vegna spurði ég vefstjórann á kjósa.is hvort ég væri á listanum.

Nokkrum dögum síðar fékk ég eftirfarandi svar:

Góðan daginn Helga Vala og afsakaðu síðbúið svar.

Að höfðu samráði við Persónuvernd hafa umsjónarmenn vefsins kjosum.is
tekið upp það verklag að óska eftir staðfestingu persónuupplýsinga þess
aðila sem óskar eftir uppflettingu í gagnagrunni.  Þessi staðfesting
þarf að berast sem mynd eða skönnun á persónuskilríki þess sem um
uppflettingu biður, og gæta þarf þess að nafn og kennitala sé greinileg.

Við biðjum þá aðila sem sent hafa beiðni um uppflettingu en hafa ekki
svar fengið ennþá afsökunar og óskum þess að þeir sendi beiðni sem
uppfylli þessi skilyrði sem eru vegna persónuverndarsjónarmiða.  Við
munum svara öllum þeim tölvupósti sem hefur borist án þessara auðkenna
með þessum leiðbeiningum til áréttingar.  Einhvern tíma mun taka að
vinna úr þeim beiðnum sem berast og biðjum við fólk að sýna vefstjórum
biðlund.  Öllum beiðnum verður svarað í þeirri tímaröð sem þau berast.

Fyrrnefnd regla gildir um allar þær beiðnir sem snúast að vinnslu
persónuupplýsinga, hvort sem um ræðir fyrirspurn um hvor viðkomandi
kennitala sé skráð eða ekki skráð, sem og fyrirspurnir um hversvegna
einstaklingur geti ekki skráð sína kennitölu.

Með afsökum vegna óþæginda,
Ábyrgðarmaður vefsíðu
Axel Þór Kolbeinsson

Þetta svar er algjörlega úti í hróa! Ég sendi þeim póst á netfangi mínum sem er kyrfilega merkt mér – og lítið mál að ganga úr skugga um hvort um mitt netfang er að ræða. Ef ég googla það  kemur nafnið mitt ítrekað upp – auk þess sem það er skráð á netfangalista þeirrar stofnanar sem nefnt er.

Af hverju þarf það að vera svona gríðarlega mikið mál fyrir Axel og hans félaga að ganga úr skugga um hvort mín kennitala er á listanum? Ég gaf upp kennitöluna og bað hann einfaldlega um að fletta henni upp.

Mér finnst þetta óhugsandi og þarf eiginlega að láta forsetann ganga úr skugga um þetta – best að senda honum línu…


Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.2.2011 - 17:53 - 6 ummæli

Ósanngjörn mamma

Þegar ég ræddi um það við forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, Steingrím Ara Arason, að það væri grundvallarmunur á því hvort farið yrði eftir nýju eða gömlu reglugerð um endurgreiðslu vegna tannslyss barna sagði hann mig vera ósanngjarna að stilla þessu svona upp.

Síðasta heimsókn dóttur minnar til tannlæknisins kostaði 25110. Þegar ég ræddi við Steingrím Ara var í gildi reglugerð 190/2010 sem heimilaði endurgreiðslu á 95% af kostnaði við aðgerð (nú 80%) og hefði endurgreiðslan þá hljóðað upp á 23854.

Dóttir mín fékk endurgreiddar 6210 krónur.

Veit ekki hver er ósanngjarn.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.1.2011 - 11:38 - 9 ummæli

Bláeygu börnin á Íslandi

Hlusta á vikulokin – hvar fram fer umræða um tölvuna sem fannst á Alþingi. Tölvuna sem plantað var þar í þeim tilgangi að því er virðist að skanna það sem fram fer í tölvukerfi Alþingis. Tölvuna sem búið er að útbúa á þann hátt að hún skilur engin merki eftir sig, ekkert IP númer, enginn eigandi og þegar slökkt er á gripnum þá er ekki rekjanlegt hvað fram fór.

Umræðan fór út í það að samfélagið væri óþolandi tortryggið.

Mér finnst þessi umræða brjálæðislega naív. Ef einhvers staðar í heiminum hefði fundist njósnagripur inni á þjóðþinginu væri það ekkert smáræðis mál, en hjá okkur tóku stjórnmálaflokkarnir á þessu með því að benda hver á annan og saka hvern annan um njósnir!

Mig langar til að benda á að hér varð bankahrun haustið 2008. Í kjölfarið hefur átt sér stað ýmiskonar breyting á lögum er varða fjármálagerninga, bankastofnanir, gjaldþrot og margt margt fleira. Það geta fjölmargir haft hagsmuni af því að vita fyrirfram hvaða reglur eru í pípunum til að geta brugðist við áður en reglurnar eru breyttar. Til að hafa nokkurs konar innherjaupplýsingar ef svo má segja – þ.e. upplýsingar sem aðrir hafa ekki – upplýsingar sem þú getur nýtt til að hagnast sjálfur – á meðan aðrir tapa.

En hvernig er brugðist við þessari njósnavél. Það er reynt að gera lítið úr þessu. Það er látið skipta máli hvar tölvan var niður komin – þ.e. hvort hún var í skrifstofuaðstöðu stjórnar eða stjórnarandstöðu – eins og það skiptir einhverju máli þegar um er að ræða innbrot í allt tölvukerfi þingsins.

Mér finnst þetta ekkert smámál eins og sjá má á skrifum mínum. Mér finnst þetta stórmál – og skil ekki af hverju það er ekki tekið á þessu af fullri alvöru.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.1.2011 - 10:15 - 11 ummæli

Ást er ábyrgð

Í dag fer fram útför móður minnar, Helgu Bachmann, frá Dómkirkjunni í Reykjavík. Af því tilefni langar mig að birta erindi um ástina, sem mamma mín flutti hjá Soffíu, félagi heimspekinema líkast til árið 1984. Þetta erindi er svo lýsandi fyrir hana, bæði fallegt og spruðlandi af húmor og á svo vel við í dag.

Ást er ábyrgð

Þegar sú hugmynd kom fram að ég talaði á þessu þingi var ég full efasemda og er enn, ég sagði það meira að segja hreint út við meðbræður mína sem tala hér í dag. – Hvaða erindi á ég á slíkt málþing með fræðingum af ýmsu tagi. Á ég að tala um ást í leikhúsi? Ást í bókmenntum? Geðlæknirinn í hópnum sagði þá: „Helga, kannski átt þú meira erindi en nokkur okkar.“ Ég hugsaði með mér, svona á góður geðlæknir að tala við fólk og sló til.

Nei, ég tala bara um ást eins og mér finnst hún vera, auðvitað. Að elska er eins og að tala um ást, það gerist ekkert fyrr en maður hefur tekið þá ákvörðun að hætta öllum tilraunum í þá átt að vera gáfulegur – sleppt öllum hégóma og sætst á að ganga fyrir drottinn á efsta degi – á nærskyrtunni einni klæða. Ég skal játa það strax að ég er frekar hlynnt því að að þessi heimsfræga tilfinning fái að halda lífi, það er sem sé mín reynsla að betra sé að búa við hana en án hennar – og tala ég þá bæði sem gefandi og þiggjandi eða neytandi – og í þessu eina tilfelli veit ég satt að segja ekki hvort sælla er að gefa en þiggja.

Við þekkjum öll þessa frægu teiknimyndaseríu úr dagblöðum „Ást er o.s.f.v.“ Oftast er þetta frekar í léttum dúr og á að henta öllum – svona matreiðsla fyrir fjöldann – en ef reynt er að skyggnast á bakvið tjöldin er ljóst að innrætingin er fólgin í tillitssemi við hinn aðilann – þolandann. En það er bara alls ekki víst að sama tillitssemi henti öllum, eða m.ö.o. það sem er tillitssemi við einn er tillitsleysi við annan. Hér vil ég taka dæmi af eigin reynslu. Í blaðinu stóð: „Ást er að kreista tannkremstúpuna rétt.“ Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds, en ákvað samt að fela ekki blaðið, það var of lágkúrulegt. Sannleikurinn er nefnilega sá, eins og pólitíkusarnir segja, að fjölskylda mín, þ.e. eiginmaður og börn, kunna ekki að umgangast tannkremstúpu. Þau grípa gjarnan um hana miðja og láta gossa og gleyma síðan að skrúfa tappann á. Ég hef aldrei minnst á þetta einu orði öll þessi ár og kemur það ekki til af þolinmæði eða tillitssemi, heldur er þetta sprottið af hreinni eigingirni. Ég hef sem sé kvikindislega unun af að sjá um að halda túpunni í formi og rúlla henni nosturslega upp af hinni fullkomnu smámunasemi. Sem betur fór tók enginn eftir þessu í blaðinu eða skildi það ekki, því það er ekki allra að skilja tannkremstúpu.

Nóg um það. Ég kaus að kalla þennan pistil minn „Ást er ábyrgð“ og það er einfaldlega af því að mér finnst það. Ást fylgir ábyrgð. Sá sem elskar ber ábyrgð á þeim sem hann elskar. Hann á að fylgjast með honum og bera ábyrgð á honum og vernda hann ef nauðsyn krefur – eða eins og stendur í umferðarlögunum: „Bannað er að aka á skepnur á þjóðvegum nema brýna nauðsyn beri til, en gæta skal þó jafnframt ýtrustu varúðar“ – sem sagt, ekki angra hann nema brýna nauðsyn beri til o.s.f.v. Í rauninni væri gaman ef maður hefði tíma til að snúa umferðarlögunum upp á ástina, kannski gilda þar sömu lögmál.

Ég var að tala um ábyrgð. Móðir mín átti bróður, sem fluttist ungur til Kanada eins og títt var þá um Íslendinga. Hún frétti af honum til að byrja með og síðan ekki söguna meir í ein 20 ár. Allan þann tíma hafði hún skrifað honum reglulega og sent honum fréttir af systkinum og vinum án þess að hafa hygmynd um hvort bréfin kæmust til hans, eða hvort hann væri lífs eða liðinn. Hún bar ábyrgð. Nú,nú – loks fær hún bréf, þar sem hann þakkar henni alla tryggðina í gegnum tíðina, harmar að hún missti tvö elstu börnin sín í bernsku, segir allt gott af sínum högun en endar loks bréfið á þessum orðum: „Elsku Gunna mín, ég fer nú að hætta þessu pári, en alltaf eltir helvítis ógæfan mig, heldur að ég sé nú ekki giftur í ofanálag. Þinn elskandi Loftur.“ Þessi frændi minn var semsé efasemdarmaður eða „skeptíker“. Löngu seinna, þegar þau systkinin voru bæði um sjötugt og mamma hafði loks fengið hann til að fallast á að koma í heimsókn til Íslands, þá kom það í minn hlut að aka með hana og annan bróður til Keflavíkur að taka á móti Lofti og konunni hans. Þetta varð mér ógleymanleg ferð. Þau systkinin tvö í aftursætinu, hvíthærð og göfug, þögul eins og börn, á leiðinni út á flugvöll – greinilega ögn kvíðin og áhyggjufull.  – „hvernig yrði að hitta loks þennan bróður eftir 50 ár?“ – Þau báru ábyrgð. Við biðum í ofvæni eftir að sjá hann – ég kveið því mest að þekkja hann ekki – hafði aldrei séð hann. En viti menn, þarna kom hann út á tröppurnar úr vélinni og skyndilega eru þau orðin þrjú hvíthærð og göfug, hann stendur uppi í tröppu, þau tvö fyrir neðan og stara, – loks fyllast augu hans tárum, hann hristir hausinn og segir stundarhátt á vesturheimsku: „helvítis vitleysa er þetta“ og hverfur inn í vélina. Þá tóku þau á rás upp stigann og gómuðu hann ásamt konu hans, sem áður er getið, tróðu þeim í bílinn og þá voru allir glaðir. Við nánari athugun kom á daginn að drottningin, konan hans, var ekki frá Texas eða Síkagó heldur ættuð úr Þingeyjarsýslunni. Þegar hann fór sagði hann: „Nú get ég dáið glaður, af því Gunna lét mig koma heim.“ Og það gerði hann.

Það er margt líkt með skyldum og ég skil þennan frænda afar vel. Til að mynda hef ég einu sinni gengið í hjónaband og þegar ég vaknaði á brúðkaupsdaginn var ég með bullandi hita – 39 stig – það var ekkert að mér og ég fæ aldrei hita. Það kom á daginn að þetta var skelfingarhiti – hræðsla – við hvað – jú að þetta væri einhver vitleysa allt saman – ég væri ekki nokkur manneskja til að standa í þessu – það myndi ekki endast árið út. Hvað um það – við sögðum samt bæði já á réttum stað og erum ennþá að reyna, enda ekki liðin nema rétt 30 ár. Í mínu tilfelli heitir það þessvegna: „Ást er að hafa 39 stiga hita, en segja samt já.“

Hver er ég að tala um ást – leikmaður í ást – leikkona í ást – m.ö.o. ekki atvinnumaður í ást, það er sama hvað ég reyni að kalla þetta, það hljómar alltaf hálf gjálífislega.

Skrifað stendur: „ Sá sem ekki hefur elskað, stendur í skuld við drottinn.“ Við getum eins snúi kröfunni við – er það ekki?  Aumur er ástlaus maður, en hvert á hann að snúa sér með reikninginn?

Yngsta dóttir mín sýnir mér ástúð þegar hún límir  miða yfir rúmið mitt, sem á stendur: „Við reykjum ekki hér.“ Á jólunum gaf hún mér svo flottan kveikjara í jólagjöf. Þar er ég komin að þeirri tegund ástar, sem mér finnst hvað viðkvæmust tilfinning, það er hin svokallaða móðurást, sú marglofaða, rómaða og á stall setta ást. Ég man ekki hvort við fjórmenningar, sem vitnum hér lofuðum að hafa litlar sem engar tilvitnanir en ef svo var þá ætla ég að brjóta af mér einu sinni. Ég mun ekki vitna í stórskáld eða þjóðskáld, heldur finnst mér við hæfi að vitna í aldamótaskáld, sem er óþekktur og hét Jón Jónsson, stúdent. Hann kvað:

Guð skapaði himinn og jörð
Akureyri og Hafnarfjörð
Dimmt er yfir djúpinu
En alltaf er ljós í eldhúsglugganum hjá mömmu.

Af þessu má draga lærdóm. Mæður skyldu varast að fá of sterka óðalshvöt eða eigna sér fyrsta veðrétt í afkvæmum sínum. Það getur valdið miklum óþægindum og vitleysu, þar sem móðirin verður að lokum eins og einhver leiðinda vetrarhjálp, sem allt almennilegt fólk skammast sín fyrir að þiggja. Nei við skulum fara varlega í sakirnar, það er allt í lagi með ljósið í glugganum, en ef það er kertaljós skal gæta þess að það kveiki ekki í gluggatjöldunum.

Ást er ábyrgð. Ástin verður ekki skýrð frekar en annað það dýrmætasta í lífinu, það er listin og trúin. Nei, ást er ekki að kreista tannkremstúpuna rétt, ást er að kreista tannkremstúpuna vitlaust. Frekar skal kreista manninn sinn rétt, þegar hann vill það sjálfur en gæta jafnframt ýtrustu varúðar, nema brýna nauðsyn beri til annars.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.12.2010 - 19:57 - 3 ummæli

Sjúkratryggingar Íslands brjóta enn á lítilli stúlku.

Sjúkratryggingum Íslands er skylt að fara að lögum og reglum. Því miður þá virðist eitthvað verulega mikið vera að í þessari stofnun og þetta segi ég þrátt fyrir að kvartað hafi verið undan neikvæðri umræðu minni um stofnunina á opinberum vettvangi. Mér ber skylda til að gæta hagsmuna dóttur minnar í hvívetna og því get ég ekki orðið við beiðni um mildari umræðu um þessa stofnun. Hana verður beiðandi að fá annars staðar…

Tannlæknasvið SÍ fékk það verkefni að meta hvort litla stúlkan mín sem lenti í slysi með skelfilegum afleiðingum ætti rétt á endurgreiðslu úr tryggingakerfinu okkar í samræmi við reglugerð sem sett var um endurgreiðslu vegna alvarlegra slysa.

Áður en ég held lengra ætla ég að sýna ykkur reglugerðarákvæðið sem um er að ræða – en því var breytt eftir ósköpin í fjölmiðlum í sumar – en er þó enn þannig að það á að koma til móts við þau börn sem lenda í alvarlegum tannslysum:

16. gr.

Mjög alvarlegar afleiðingar slysa.

Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga tekur til kostnaðar vegna nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga hins sjúkratryggða vegna mjög alvarlegra afleiðinga slysa, sem jafna má til þeirra tilvika sem tilgreind eru í 15. gr. (t.d. vöntunar fjögurra eða fleiri fullorðinstanna, framan við endajaxla. [innsk.HVH]) Skilyrði er að bætur þriðja aðila, þar með talið vátryggingafélaga, fáist sannanlega ekki greiddar og slysatryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar bæti ekki kostnað [tvöfalda heilbrigðiskerfið].

Því miður þá neyðist ég til að segja framkvæmdasöguna, svo fyrir viðkvæma er líkast til best að hætta hér.

Dóttir mín missti báðar fullorðinsframtennur sínar í efri góm í slysinu. Það er ekki hægt að setja pinna upp með nýjum tönnum eins og gert er hjá fullorðnu fólki, því stúlkan er að vaxa. Kosturinn við ungan aldur stúlkunnar er sá að hægt var að nota hennar eigin tennur í uppbygginguna, og eftir því höfum við beðið í þrjú ár. Þegar þessar tennur, svokallaðir fjarkar í neðri góm voru tilbúnir, þá var kominn tími til að flytja þær. En þá vantaði beinið, því það rýrnar ef engar eru tennurnar. Þess vegna þurfti, áður en hægt var að flytja tennur að flytja bein af öðrum stað í höfði stúlkunnar upp í munninn hennar, þvínæst voru teknar tennur úr neðri góm. Þetta tókst sem betur fer eins vel og hægt var að leyfa sér að vona, enda tannlæknirinn, Guðmundur Á Björnsson greinilega mjög mikill fagmaður. Þegar ljóst var orðið að þetta hafði tekist vel, þá voru „fjarkarnir“ í efri góm fjarlægðir úr munni barnsins, því það gengur ekki að hafa þá bara uppi en ekki niðri (segja fræðingarnir því þá verður bitið skakkt með tilheyrandi vandræðum) Þar með voru fjórar tennur farnar úr munni barnsins auk beinflutnings.Volá… fyrir fagnefnd tannlækna sem hafði náð að breyta reglugerðinni á árinu svo nú verða fjórar tennur að vera farnar… ekki nægir að þær séu bara tvær!

Ég ætla ekki að lýsa fyrir ykkur öllum hliðaraðgerðum sem hún hefur þurft að vera í vegna þessa – en nægir að nefna spangir, góm, beisli, uppbyggingu jaxla svo hún bíti ekki í sárið, aftur spangir, aftur svæfing…..

Fagnefnd tannlækna hefur nú úrskurðað að afleiðingar vegna slyss dóttur minnar séu ekki nógu alvarlegar til að hún njóti endurgreiðslu í samræmi við reglugerðarákvæðið!

Vitiði… mig langar ekkert til að vera hérna lengur þegar svona fólk fær að stjórna málum. Það eru settar reglur til að verja lítil börn sem lenda í slysum, en því miður þá er bara ekkert farið eftir þessum reglum. Ég veit ekki hvað ég hef eytt mörgum vinnustundum bara í það að slást við þessa stofnun. Stofnun sem ákveður að einn liður í aðgerð komist undir ákvæði reglugerðarinnar en annar ekki. Það er ekkert í reglugerðinni sem segir að fagnefndin eigi að flokka aðgerðirnar eftir eigin höfði. Það er talað um nauðsynlegar tannlækningar og tannréttingar.

Líkast til verður mitt fyrsta mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál dóttur minnar gegn íslenska ríkinu – og vitiði – mér finnst kröftum mínum vel varið í að berjast eins og ljón fyrir réttindum hennar. En eftir að við vöktum athygli á þessu óréttlæti þá stoppaði hvorki síminn né dyrabjallan Fjöldi foreldra og tannlækna hvatti okkur til dáða – fólk sem í gegnum tíðina hefur horft á fagnefnd tannlækna með yfirtannlækninn alsráðandi í broddi fylkingar neita holgóma börnum með skarð í vör eða börnum sem hafa lent í slysi um aðstoð.  Skömm þessara alsráðandi aðila er mikil.

Að lokum er vert að segja frá því (fyrir þá sem enn eru að lesa) að kæra dóttur minnar vegna synjunar SÍ frá því í september í fyrra hefur enn ekki verið afgreidd frá úrskurðarnefnd almannatrygginga því Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki enn séð sér fært að afhenda nefndinni gögn málsins…. Því verðum við líkast til að kæra aftur og vonast til þess að nefndin fái núna umbeðin gögn.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.11.2010 - 21:34 - 11 ummæli

Sjálfstæðisflokkurinn víst í framboði til Stjórnlagaþings!!!

Endur fyrir löngu hófu sjálfstæðismenn að senda mér tölvupóst á netfang mitt – á hotmail – og þar er ég ávörpuð ýmist kæri sjálfstæðismaður eða kæri heimdellingu.

Gerði nokkrar tilraunir í denn til að láta skrá mig út, án árangurs, hef ekkert sinnt því árum saman heldur tek bara við þessu….

Í dag fékk ég svo póst þar sem sjá má línuna frá Valhöll:

Eftirfarandi er listi fólks í framboði til stjórnlagaþings með hógværar skoðanir á breytingum stjórnarskrár.

Listinn var settur saman með það að markmiði að kynna frambjóðendur sem sýna myndu skynsemi við framkvæmd þess stóra verkefnis sem framundan er á stjórnlagaþinginu.

Frambjóðendum er raðað í stafrófsröð og er það kjósenda að forgangsraða á lista

 Nafn                                                                     númer

Brynjólfur Sveinn Ívarsson  9035
Elías Blöndal Guðjónsson     7759
Elías Theodórsson 4393
Frosti Sigurjónsson               5614
Garðar Ingvarsson                            4063
Gísli Kristjánsson       7583
Grímur Sigurðsson                            7946
Guðbrandur Ólafsson           6857
Guðmar Ragnar Stefánsson 2985
Guðmundur B. Friðriksson               6065
Gunnar Þórðarson                3656
Halldór Jónsson                                 5097
Inga Lind Karlsdóttir            8749
Jón Axel Svavarsson                          9959
Karen Elísabet Halldórsdóttir          6615
Lára Óskarsdóttir 6406
Loftur Már Sigurðsson          6274
Magnús Ingi Óskarsson        3359
Magnús Thoroddsen            5405
Ólafur Sigurðsson                             8848
Patricia Anna Þormar           8947
Pawel Bartoszek                                9563
Sigurður Aðalsteinsson                     5592
Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir 4932
Skafti Harðarson                               7649
Vignir Bjarnason       6505
Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson           7418
Þorsteinn Arnalds                 2358
Þorsteinn Hilmarsson                       3678
Þorvaldur Hrafn Yngvason              5372

 

Kjörið er að prenta þetta blað út og taka með á kjörstað.

Kveðja,

Áhugafólk um hógværar og skilvirkar breytingar á stjórnarskrá.

Það er augljóst að þarna er maskínan, sem svo vel er lýst í bókinni um Gunnar Thoroddsen að störfum. Með þessari viðurstyggilegu aðferð er ætlunin að hafa áhrif, svo um munar, á lýðræðislegan rétt einstaklinga til að velja sjálft fólk á stjórnlagaþingið.

Fyrir þá sem aðhyllast svona vinnubrögð, er auðvitað sjálfsagt að verða við þessari beiðni út Valhöll.

Fyrir okkur hin… jah… við vitum amk hvaða fólk á ekki að kjósa.

p.s. vekur athygli mína að sjallar mæla bara með 5 konum en 25 körlum inn á stjórnlagaþingið… enda aðhyllast þeir það að fólk sé valið eftir „hæfileikum“ en ekki kyni… múha

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is