Mánudagur 27.3.2017 - 17:49 - FB ummæli ()

Eldri borgarar geta líka verið hinsegin

Ég gerði málefni hinsegin eldri borgara að umtalsefni á Alþingi í dag, í sérstakri umræðu um umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

Fyrr á þessu ári stofnuðu Samtökin 78 sérstakan samstarfshóp um málefni eldri borgara. Kveikjan að stofnun hópsins var síaukinn þungi í umræðunni um að það vanti stórlega upp á fagþekkingu á málefnum hinsegin aldraðs fólks. Benda má á að í nýútgefinni starfsáætlun um málefni eldri borgara er ekki minnst orði á hinsegin fólk.

Sú kynslóð hinsegin fólks sem tók upphafsskrefin í harðri og oft erfiðri baráttu fyrir réttindum þess hóps hér á landi, kynslóð sem á ekki síst heiðurinn af því að Ísland hefur um skeið verið í fararbroddi þjóða þegar kemur að réttindum samkynhneigðra, er nú komin á efri ár. Þessi hópur hefur staðið í eldlínunni og man tímana tvenna. Það er sárara en tárum taki ef rétt er að innan hans séu einstaklingar sem eiga erfitt með að fóta sig þegar komið er á öldrunarheimili þar sem þar skortir fagþekkingu og almennan skilning á málefnum þeirra. Það er óásættanlegt að til séu dæmi um að eldri borgarar fari hreinlega aftur inn í skápinn, svo notað sé þekkt orðalag, þar sem þeir mæta ekki skilningi á nýju heimili.

Þrátt fyrir að vera baráttufólk í eðli sínu, eru hinsegin eldri borgarar ekki endilega allir í stakk búnir að fara á gamals aldri – enn og aftur – að vera með vesen, berjast fyrir réttindum sínum, sómasamlegum aðstæðum og því að almennt sé kynhneigð þeirra mætt með virðingu og skilningi.

Ég hvet alla þá sem koma að málefnum eldri borgara til að leggja eyrun við þegar starfshópurinn um málefni hinsegin eldri borgara fer af stað með fræðslu sína. Ég hvet reyndar alla til að hlusta – og læra.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.2.2017 - 23:28 - FB ummæli ()

Jafnrétti í Landsrétti

Alþingi hefur nú samþykkt breytingar á lögum um dómstóla sem gefur hæfisnefnd leyfi til að meta hæfi umsækjenda um dómarastöður við hinn nýja Landsrétt, rétt eins og aðra dómstóla. Það er ekki hægt að árétta nægilega mikið hversu mikilvægt það er, að í Landsrétt veljist hæfar konur jafnt sem hæfir karlar.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, sagði í ræðustól Alþingis þann 7. febrúar í svari við fyrirspurn Jón Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar: „Ég myndi hallast að því að lög sem almennt gilda í landinu gildi auðvitað um öll svið samfélagsins, þar með talið dómstóla.“ Þar var ráðherrann að ræða um jafnréttislög í tengslum við skipan dómara við Landrétt. Ég tek undir með ráðherra, að við hljótum að ganga út frá því að dómstólar og ráðherra sjálfur fari að jafnréttislögum þegar kemur að skipan dómara.

Mat á hæfi er að mörgu leyti huglægt og við slíkt mat er ekki óeðlilegt að fólk leiti í eigin reynsluheim, jafnt áþreifanlegan sem óáþreifanlegan. Það er einmitt af þeirri ástæðu sem mikil áhersla var lögð á að í umræddri hæfisnefnd yrðu sem jöfnust kynjahlutföll og nú sitja þar 3 konur og 2 karlar. Þessi staðreynd, til viðbótar við jafnréttislög, hlýtur að leiða til þess að við getum endanlega kvatt þá tíma þegar karllæg sjónarmið voru allsráðandi við ráðningar dómara. Og í kjölfarið þá tíma þegar þau sömu sjónarmið skinu í gegn í mörgum dómum.

Við afgreiðslu málsins á Alþingi vorum við þingmenn Viðreisnar gagnrýndir af hluta stjórnarandstöðunnar fyrir að taka ekki undir tillögu þeirra um að árétta enn frekar að ráðherra skyldi „gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt.“ Þar var það einfaldlega mat okkar að jafnréttissjónarmið við mönnun hæfisnefndar og jafnréttislög dygðu til. Ef svo reynist ekki vera þá þurfum við öll, hvar í flokki sem við stöndum, að endurskoða hvernig við nálgumst jafnréttismál!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.2.2017 - 18:04 - FB ummæli ()

Gamlir draugar komnir á stjá

Sjávarútvegurinn hefur staðið undir lífskjörum og aukinni hagsæld íslensku þjóðarinnar í gegnum tíðina og gerir enn. Breytingar á síðustu árum og áratugum hafa gert útgerðina að öflugri og sókndjarfri atvinnugrein. Sérstaða Íslands er ekki hvað síst fólgin í því að hér er sjávarútvegur ekki niðurgreiddur af almannafé. Sá árangur sem hefur náðst er verulega til eftirbreytni, bæði hér á landi hvað varðar aðrar atvinnugreinar og fyrir sjávarútveg annarra þjóða. Það er ekki tilviljun að þar hefur gjarnan verið leitað til Íslands eftir fyrirmyndum.

Við eigum að vera stolt af þessari sérstöðu og standa vörð um hana. Íslenskt samfélag hefur á undanförum áratugum fært ákveðnar fórnir til að gera sjávarútveginn samkeppnisfæran, sjálfbæran og óháðan beinni ríkisaðstoð. Það væri mikil eftirsjá að þessari sérstöðu. Þess vegna væri óráð að endurvekja gamla drauga og taka útgerðina út fyrir sviga í íslensku atvinnulífi þegar kemur að því að vinnuveitendur og launþegar semja um kaup og kjör.

 Mikilvæg kortlagning á áhrifum verkfallsins

Það er yfirlýst stefna stjórnvalda að aðilar á vinnumarkaði leysi kjaradeilur sín á milli án inngripa ríkisvaldsins. Opinberlega hafa bæði sjómenn og útvegsmenn tekið undir þetta sjónarmið. Ef marka má ónefnda heimildarmenn Morgunblaðsins er nú komið annað hljóð í strokkinn. Það væri áhugavert að heyra formlega í talsmönnum samningsaðila varðandi það hvort hér hafi átt sér stað stefnubreyting. Ef sú er raunin, hvað veldur? Af hverju er æskilegt að binda enda á verkfall með lagasetningu? Hvernig er rökstutt að það sé samfélagslegt verkefni að niðurgreiða launagreiðslur útgerðarinnar? Eru ekki brýnni verkefni sem bíða?

Verkfallið var orðið mánaðargamalt þegar nýr ráðherra tók við. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir setti vinnu í gang við að kortleggja áhrif verkfallsins og hefur kallað eftir tilnefningum í vinnuhóp frá velferðar- og sveitarfélagaráðuneytum, auk Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ASÍ og SA. Úttekt á áhrifum verkfallsins á byggðir, atvinnulíf og þjóðarhag almennt er stjórnvöldum mikilvæg til þess að fá yfirsýn yfir vandann. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að deiluaðilar; sjómenn og útvegsmenn, fái skýra mynd af afleiðingum verkfallsins vegna þess að ábyrgðin á lausn kjaradeilunnar er á þeirra herðum.

Það er merkilegt að sjá þingmann Framsóknarflokksins skjóta á ráðherra sem hefur í embætti sjávarútvegsráðherra í tæpan mánuð. Framsóknarflokkurinn fór með þennan málaflokk í þrjú og hálft ár, en sjómenn hafa verið samningslausir í 6 ár. Er ekki hér verið að kasta steinum úr glerhúsi? Og fyrir forvitni sakir, hverjar eru aðgerðirnar sem þingmaðurinn er að leggja til af hálfu stjórnvalda?

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is