Föstudagur 12.11.2010 - 12:00 - 2 ummæli

Frjálst val um búseturéttarleið, eignarleið og leiguleið

Íslensk stjórnvöld eiga að  leggja áherslu á að landsmenn hafi raunhæft frjálst val um þrjár meginleiðir í húsnæðismálum. Búseturéttarleið, eignarleið og leiguleið.   Á það lagði ég áherslu í síðasta pistli.“Ö ryggi og jafnrétti í húsnæðismálum“

Mikilvægt er að hafa í huga að unnt er að samþætta leiguleið og búseturéttarleið innan húsnæðissamvinnufélaga, en núverandi búseturéttarfélög eru lögum samkvæmt húsnæðissamvinnufélög.

Í síðasta pistli boðaði ég nokkrar tillögur sem gætu orðið grunnur að faglegri umræðu um húsnæðismál í þeirri vinnu sem nú er að hefjast um framtíðarskipan húsnæðismála á  Íslandi.  Hér eru tillögurnar:

Núverandi vaxtabótakerfi og húsaleigubótakerfi verði lagt af en þess í stað sett á fót nýtt húsnæðisbótakerfi sem taki mið ef tekjum fólks, óháð búsetuformi og eignarhlut hverju sinni.

 • Félagslegum markmiðum um hóflegan húsnæðiskostnað lægri tekjuhópa verði fyrst og fremst mætt með niðurgreiðslu gegnum húsnæðisbótakerfi.

 • Félagslegum markmiðum um aðgengi að húsnæði verði náð í gegnum húsnæðissamvinnufélög með búseturétti eða tryggu leiguhúsnæði eftir atvikum

Sérstök áhersla verði lögð á uppbyggingu húsnæðissamvinnufélaga með búseturéttarformi.

Markmið slíkra félaga verði að tryggja öryggi og jafnrétti hvað varðar langtímabúsetu í sama húsnæðis.

Markmiðum í félagslegum húsnæðismálum verði fyrst og fremst náð innan slikra búseturéttarfélaga þar sem áhersla er lögð á blöndun.

 • Fyrstu kaupendum verði veitt lán til kaupa á búseturétti á lægstu mögulegu vöxtum. Afborganir af búseturéttarláni taki mið af tekjum hverju sinni á sambærilegan hátt og endurgreiðsla námslána.

 • Sveitarfélögum verði gefin kostur á að úthluta lóðum til húsnæðissamvinnufélaga með búseturétti á kostnaðarverði eða undir kostnaðarverðir gegn hlutdeild í búseturétti.
  • Sveitarfélög geti nýtt búseturétt sinn til úthlutunar á félagslegum forsendum. Ef búseturéttur sveitarfélags fullnægir þörf þess á félagslegum  íbúðum hafi sveitarfélagið heimild til að leigja umfram búseturétt.

 • Núverandi eigendum íbúðarhúsnæðis á almennum íbúðamarkaði verði gert kleift að leggja íbúðarhúsnæði sitt inn í húsnæðissamvinnufélög með búseturétti.
  • Áhvílandi lánum verði annars vegar breytt í lán til húsnæðissamvinnufélags og hins vegar í lán til eigenda til kaupa á búseturétti ef eignarhlutur dugir ekki fyrir búseturétti.
  • Afborgun búseturéttarhlutar taki mið af tekjum hverju sinni á sambærilegan hátt og endurgreiðsla námslána.
  • Áhvílandi lán umfram 110% af markaðsverði íbúðar verði afskrifað
 • Tryggt verði að ákveðið hlutfall íbúða í húsnæðissamvinnufélögum uppfylli kröfur um aðgengi fyrir hreyfihamlaða og henti sem þjónustuíbúðir aldraðra.
 • Samvinnufélögum með búseturéttarformi verði veitt heimild til útleigu ákveðins hluta íbúða án sölu búseturéttar.

 

Áfram verði haldið uppbyggingu leiguíbúða á almennum markaði og leiguíbúðum á vegum félagasamtaka með lánveitingum.

 • Kröfur til rekstrargrundvallar leigufélaga verði auknar.

 • Þak verði sett á mögulegan söluhagnað við sölu íbúða út úr leigufélögum.
  • Til dæmis 15% umfram stofnverð leiguíbúða
 • Mismunur á söluverði og hámarks söluhagnaðar renni inn í sjóð leigufélagsins sem aukning á eigin fé.  Hlutverk sjóðsins væri:
  • Að standa undir tímabundnum niðursveiflum á leiguverði
  • Að standa undir meiriháttar viðhaldi.
  • Að vera grunnur að kaupum á nýjum leiguíbúðum þegar eftirspurn eftir leiguíbúðum eykst eða markaðsverð á íbúðum á markaði er lágt.

 

Grunnur verði lagður að átaki í aðgengismálum og almennum endurbótum með heimild til Íbúðalánasjóðs að veita endurbótalán sem séu afborgunarlaus fyrstu  3 til 5 árin.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

 • Sæll Hallur þú skrifar mikið um húsnæðismál enda hefur þú komið að þeim málum. Lengi hefur það viðgengist hér á landi að fólk hefur lagt á sig töluverða vinnu og erfiði að koma sér upp eigin þaki yfir höfuðið. Séreignakerfið hefur verið ráðandi hér á landi sem er mjög gott en auk þess hefur verið rekið félagslegt íbúðakerfi sem ætlað er þeim sem standa höllum fæti eða hafa lítil fjárráð. Nú stíga ýmsir postular á stokk og tala um að séreignakerfið sé gengið sér til húðar og gerð er krafa um að „boðið sé upp á fjölbreittni í húsnæðismálum, leiguíbúðir af ýmsum stærðum og búseturéttaríbúðir“. þeir sem gera kröfu um aukið framboð leigu-eða búsetaréttaríbúða vilja í flestum tilvikum leggja minna á sig til að koma þaki yfir höfuðið og borga minna mánaðarlega en ef um séreign væri að ræða. þetta fólk talar um að það “ eigi rétt“ á að velja sér lífsstíl. Gott og vel, EN HVER Á ÞÁ AÐ BORGA MISMUNINN ? Það gleymist alltaf í allri þessari kröfugerð um fleiri leiguíbúðir og búseturéttaríbúðir að ef þeir sem þar ætla að búa vilja borga minna en ef um eigin eigin íbúð væri að ræða þá þarf einhver annar að borga. Hver ? Það er enginn annar til að niðurgreiða húsnæðiskostanað en skattgreiðendur, Þessu fólki ( ég er ekki að tala um félagslega kerfið sem ætlað er fátæku fólki ) finnst sem sagt sjálfsagt að þeir sem byggja sjálfseignaríbúðir borgi hærri skatta til að greiða niður húsnæðiskostnað fyrir þá sem telja tíma sínum og peningum illa varið í að eiga einin íbúðir. Hinn kosturinn er auðvitað að íbúðir séu byggðar og leigðar af fyrirtækjum sem byggja og leigja til að hagnast á framkvæmdinni. Það er allt í lagi ef fólk vill leigja á þeim kjörum og með því álagi sem byggingaraðili vill fá fyrir kostnaði og hagnaði. Bara ekki fara fram á að við hin borgum meiri skatta til að greiða niður húsaleiguna með auknum leigubótum.
  Hafðu þetta í huga Hallur og hugleiddu hvort það sé réttlæti í því að þeir sem leggja á sig að kaupa eigin íbúð greiði að auki niður leigu fyrir hina sem heldur vilja sitja á kaffihúsi og spjalla frekar en vinna og borga það sem hlutirnir kosta raunverulega.

 • Hallur Magnússon

  Heiða!

  Mikið þakka ég þér fyrir þetta innlegg!

  Málið er að allt of margir sem tjá sig um húsnæðismál tala eins og að það sé unnt að lækka stofnkostnað húsnæðis einungis með því að kalla húsnæðið einhverjum sérstökum nöfnum – eins og kaupleigu, félagslegt húsnæði, búseturéttarhúsnæði og svo framvegis.

  Kjarni málsins er nákvæmlega það sem þú segir!!!

  „Það gleymist alltaf í allri þessari kröfugerð um fleiri leiguíbúðir og búseturéttaríbúðir að ef þeir sem þar ætla að búa vilja borga minna en ef um eigin eigin íbúð væri að ræða þá þarf einhver annar að borga“

  Eftir að hafa nánast helgað mig húsnæðismálum í áratug, þá tel ég mig hafa gott innsæji í þann málaflokk.

  Ég tel mig vita hvað við getum gert og hvað ekki. Það sem þú ert að lesa núna eftir mig er ákveðin grunnur sem ég set fram sem umræðugrunn sem við þurfum að þróa áfram. Ég er búinn að þróa þessa hugmyndir í mínum ranni – og ég er búinn að kanna mismundandileiðir til fjármögnunar og skipulagningar húsnæðismála.

  Þar hef ég meðal annars – reynslu minnar vegna – tekið tillit til skyldna okkar vegn EES samningsins. Einnig kannað kosti búseturéttarformsins til að lækka stofnkostnað íbúa í íbúðarhúsnæði – reyndar á kostnað byggingarverktaka í þenslu – en á móti sem stuðing við byggingariðnaðinn í kreppu.

  En einhvers staðar verðum við að hefja umræðuna – og það sem ég legg nú til málanna er hugsað sem grunnur að skynsamlegri umræðu um húsnæðismál þar sem fókusinn er á lausnir framtíðar. Ég hef mínar skoðanir um áframhaldið umfarm það sem hér kemur fram – en mér dettur ekki í hug að mín niðurstaða sé sú eina rétt – en vil leggja mínar hugmyndir og lausnir fram þegar umræðan hefur þróast.

  En enn og aftur – takk fyrir afar gott og skynsamlegt innlegg!

Rita ummæli

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is