Fimmtudagur 11.11.2010 - 11:10 - Rita ummæli

Þjóðin ákveði samband ríkis og þjóðkirkju

Kirkjan er afar mikilvægur þáttur í menningu og trúarlífi Íslendinga. Íslenska þjóðkirkjan er og verður þjóðkirkja í þeim skilningi að lunginn úr íslensku þjóðinni tilheyrir henni og þykir vænt um kirkjuna sína.

Að mínu viti á hin evangelíska lúterska kirkja ekki að vera ríkiskirkja enda hef ég talað fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju frá því fyrir fermingu. Kaus því að láta ferma mig í Óháða söfnuðinum sem er evangelísk lútersk kirkja utan þjóðkirkjunnar.

Ég hef því miklar efasemdir um 62. grein stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“

Ég sækist þó ekki eftir setu á stjórnlagaþingi til að breyta þessari grein stjórnarskrárinnar sérstaklega.

Mín skoðun er sú að þjóðin sjálf eigi að ákvarða tilhögun framtíðarsambands ríkis og þjóðkirkju í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef þjóðin kýs að þjóðkirkjan haldi stöðu sinni gagnvart ríkisvaldinu þá mun ég styðja þá niðurstöðu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is