Fimmtudagur 11.11.2010 - 21:23 - Rita ummæli

Öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum

Öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum er kjölfestan í tilgangskafla núverandi laga um húsnæðismál:

 „Tilgangur laga þessara er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

1.gr. laga nr. 44/1998

Ég tel afar mikilvægt að í stefnumótun húsnæðismála til framtíðar sem nú er að hefjast í afar breiðum og fjölbreyttum vinnuhóp að áfram verði lagt til grundvallar að stjórnvöld tryggi það öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum  sem kveðið er á um í núverandi lögum.

Því miður hefur markmiði um öryggi og jafnrétti ekki verið náð þrátt fyrir oft á tíðum góða viðleitni stjórnvalda. Séreignastefna hefur verið ráðandi og þrátt fyrir aukna áherslu stjórnvalda á uppbyggingu faglegs leiguhúsnæðis á undanförnum árum er ljóst að langt er í land að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti á leigumarkaði.

Það sama á við um búseturéttarformið. Þótt búseturéttarformið hafi náð fótfestu, ekki hvað síst í búseturéttarfélögum eldri borgara, þá er enn langt í land að búseturéttarformið standi jafnfætis eignarforminu sem raunhæfur valkostur fyrir þorra almennings.

Mér finnst að húsnæðiskerfi landsmanna eigi almennt að byggja á þremur stoðum, eignarforminu, búseturéttarforminu og leiguíbúðaforminu.

En til að tryggja landsmönnum öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum er ljóst að stjórnvöld þurfi að styrkja verulega bæði búseturéttarformið og leiguformið. 

Stjórnvöld verða að leita raunhæfra leiða til þess að fjölskyldur sem nú eiga í erfiðleikum með að standa undir afborgunum af íbúðarhúsnæði sínu örugga leið inn í búseturéttarformið eða inn á tryggan leigumarkað.

Kaupleiguleið sú sem núverandi stjórnvöld leggja ofuráherslu á á fullkomlega rétt á sér í ákveðnum tilfellum, en aðrar leiðir, eins og leið húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttarformið er miklu vænlegri leið bæði fyrir fjölda einstakra fjöldskyldna og fyrir samfélagið í heild.

Í næsta pistli mun ég birta nokkrar tillögur að leiðum sem ég tel að geti orðið góður grunnur að faglegri umræðum um framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is