Föstudagur 24.11.2017 - 15:21 - Rita ummæli

Áreitni og ofbeldi gagnvart konum

Mánaðarlega eru haldnir stjórnarfundir í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í dag var slíkur fundur sem boðaður var skv. venju með dagskrá. Í upphafi fundar lagði ég til að einn viðbótarliður yrði tekinn inn á dagskrá vegna þeirrar umræðu sem konur í stjórnmálum á Íslandi hafa komið af stað um kynferðislega og kynbundna áreitni af ýmsum toga. Margar af sögunum tengjast því miður sveitarstjórnarstiginu. Án efa eru mörg tilvik sem þar eru nefnd áfall fyrir marga og því mikilvægt að umræðan fari út í hvern krók og kima samfélagsins. Viðbrögðin verða að vera þau að við lærum af þessari umræðu og skiljum að upplifun hverrar og einnar konu er hennar eigin persónulega reynsla sem svíður undan og því eru röng viðbrögð að gera lítið úr slíkri upplifun eins og því miður hefur orðið vart við nú þegar.

Stjórn sambandsins bókaði um málið en þar kemur fram ánægja með frumkvæði kvenna í stjórnmálum, sveitarstjórnir hvattar til að taka þátt í umræðunni og tryggja að alls staðar sé stefna og viðbragðsáætlun vegna þessara mála enda sé þetta ólíðandi með öllu. Þá er bent á að stefna sambandsins getur gagnast sveitarfélögum sem fyrirmynd við að setja sér stefnu og samþykkt var að í nýju námsefni fyrir sveitarstjórnarmenn verði gert ráð fyrir fræðslu um kynferðislegt og kynbundið áreiti.

Bókunin:

,,Stjórn Samband íslenskra sveitarfélaga lýsir yfir ánægju með það frumkvæði sem konur í stjórnmálum á Íslandi hafa tekið undir merkjum „Í skugga valdsins“ og hvetur sveitarstjórnir landsins til að taka þátt í umræðu um kynferðisofbeldi og áreiti og hvernig koma megi í veg fyrir slíkt athæfi á vettvangi stjórnmála og á vinnustöðum sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að öll sveitarfélög setji sér formlega stefnu og viðbragðsáætlun vegna eineltis, ofbeldis og kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni enda er slík hegðun ólíðandi með öllu. Þau sveitarfélög sem ekki hafa gert slíkt eru hvött til að nýta sér sem fyrirmynd stefnu og viðbragðsáætlun sambandsins í þessu efni sem aðgengileg er á heimasíðu þess.
Stjórnin samþykkir einnig að málefnið verði tekið til sérstakrar umfjöllunar á landsþingi sambandsins á næsta ári og verði einnig hluti af því námsefni sem kennt verður á námskeiðum fyrir sveitarstjórnarmenn í kjölfar næstu sveitarstjórnarkosninga.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.11.2017 - 18:15 - Rita ummæli

Tuttugu ár frá yfirfærslu grunnskólans – hver er staðan?

Þessi leiðari birtist í nýjustu Sveitarstjórnarmálum í nóvember 2017:

Sveitarfélögin tóku við öllum rekstri grunnskólans af ríkinu árið 1996. Tuttugu ár eru ekki langur tími í skólasögu okkar og lætur e.t.v. nærri að þetta sé nálægt þeim árafjölda sem hvert okkar ver að jafnaði til skólagöngu á lífsleiðinni, frá upphafi leikskóla. Á þessum rúmu tveimur áratugum hafa hlutir þróast ótrúlega hratt en mjög skiptar skoðanir eru um árangurinn. Hörðustu gagnrýnendurnir álíta að skólakerfið sé hálf stjórnlaust og að sveitarstjórnir hafi alltof lítil áhrif á þróunina, auk þess sem námsárangri fari hrakandi og því réttast að ríkið taki yfir grunnskólastigið á ný. Þeir eru þó örugglega fleiri sem telja að sveitarfélögin hafi staðið vel undir þeirri ábyrgð sem sett var á herðar þeirra, þótt alltaf sé hægt að gera betur.

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur áherslu á að nálgast umræðu um skólamál á jákvæðan hátt. Við þurfum að bera virðingu fyrir því góða starfi sem fram fer í leikskólum og grunnskólum en við þurfum líka að hafa augun opin fyrir möguleikum til umbóta. Á skólaþingi sveitarfélaga, sem haldið er nú í nóvember, verður rætt um reynsluna af menntastefnunni um skóla án aðgreiningar. Á skólaþinginu verður einnig fjallað um skort á menntuðum kennurum, sem er vaxandi vandamál hér á landi.

Fyrir liggur ítarleg úttekt Evrópumiðstöðvar um skóla án aðgreiningar á framkvæmd stefnunnar ásamt tillögum að úrbótum sem ætlunin er að hrinda í framkvæmd, í góðu samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, sambandsins, Kennarasambands Íslands og annarra haghafa. Úttektin leiðir skýrt í ljós hve gríðarmiklu fjármagni er varið til skólastarfs og sérfræðiþjónustu á Íslandi. Þá sé einnig mikið fjármagn eyrnamerkt til starfsþróunar kennara og stjórnenda. Þetta fjármagn er hins vegar ekki nýtt á eins skilvirkan hátt og mögulegt væri. Úttektin er mikilvægt innlegg í umræðu um skólamál sveitarfélaga. Hún segir okkur m.a. að það verður að forgangsraða verkefnum í þágu nemenda og skapandi skólastarfs og viðurkenna fjölbreytileika og færni kennara, ekki síður en nemenda.

Framundan eru, enn einu sinni, kjaraviðræður við kennarafélögin. Af hálfu sambandsins er reynt að nálgast þær viðræður út frá þeirri forsendu að kjarasamningar þurfa að vera opnir, skiljanlegir öllum og síðast en ekki síst sveigjanlegir og ýta undir skapandi hugsun og útfærslu. Það léttir ekki vinnuálagi af kennurum að hækka bara launin eða fjölga yfirvinnutímum. Í síðasta kjarasamningi við Félag grunnskólakennara var samþykkt bókun um að skoða innleiðingu vinnumats í grunnskólum. Vinnumatið var innleitt með kjarasamningi árið 2014 og hefur það að markmiði að tryggja að kennsla og undirbúningur hafi forgang í störfum kennara og ná þannig betri sátt um starfsumhverfi kennara.

Sambandið vill þakka sveitarstjórnum og starfsmönnum sveitarfélaga í skólamálum fyrir það góða starf sem þau hafa sett í vinnu á grundvelli bókunarinnar. Sú vinna hefur skilað hverri sveitarstjórn mikilvægum upplýsingum, er byggja á samtölum við kennara og skólastjórnendur, um þau verkefni sem líkleg eru til þess að bæta starfsumhverfi og starfsanda og þar með skólastarfið allt. Sambandið hvetur sveitarstjórnir til þess að vinna skipulega með þessi gögn og grípa hvert tækifæri sem gefst til þess að halda á lofti því öfluga starfi sem fram fer í skólum landsins.

Halldór Halldórsson,
formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 22.10.2017 - 12:27 - Rita ummæli

Ekki láta blekkjast. Grein úr Morgunblaðinu

Ég skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu 21. október. Hún fjallar um húsnæðismálin og hvernig fólk þarf að varast blekkingar vinstri flokkanna um að þeir muni gera eitthvað í húsnæðismálum.

Veljum lausnir í húsnæðismálum og Sjálfstæðisflokkinn sem vinnur lausnarmiðað

Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á og setti í framkvæmd í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks nýtingu séreignasparnaðar til að greiða niður lán eða spara upp í útborgun húsnæðis. Það er skynsamleg leið þar sem fólk getur notað eigin sparnað og mótframlag launagreiðanda til að fjárfesta í húsnæði.

Nú erum við að ganga til kosninga enn eina ferðina, það er losarabragur á pólitíkinni og fólk er áttavillt. Öll hljótum við þó að vera sammála um að við viljum festu í landsstjórninni og ríkisstjórn sem endist kjörtímabilið. Því miður hafa samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í síðustu þremur ríkisstjórnum gefist upp með einhverjum hætti.

Það er afar athyglisvert að vinstri flokkarnir eru með tillögur í húsnæðismálum sem ganga út á að setja fjármagn inn í húsnæðiskerfið til viðbótar við það sem þegar er til staðar. Stærsti vandinn er í höfuðborginni. Þar eru vinstri flokkarnir í meirihluta og hafa verið lengi. Þessi flokkar hafa aukið á vandann með því að neita að úthluta lóðum utan þéttingarsvæði sem langflest eru miðsvæðis. Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum ítrekað lagt til meiri blöndun leiða. Þ.e. að úthluta lóðum austan Elliðaáa og á þéttingarsvæðum en það er fellt af hálfu meirihlutans. Og staðan er sú að nú vantar a.m.k. 5.000 íbúðir í Reykjavík og 9.000 íbúðir á landsvísu næstu þrjú árin.

Við sjáum flottar glærur hjá borgarstjóra og þykkan bækling með flottum ljósmyndum um uppbyggingu í Reykjavík. En hverjar eru staðreyndirnar? Skv. Hagstofunni eru 1.644 íbúðir tilbúnar frá árinu 2010. Og það eru alvarleg vandamál til staðar í Reykjavík þar sem fjölda fólks vantar húsnæði. Því miður er ekki hægt að búa í glærum en ef það væri hægt væri auðvitað enginn húsnæðisvandi.

Nú segjast vinstri flokkarnir sem eru í framboði til Alþingis geta leyst húsnæðismálin. En sagan segir okkur að þessir sömu flokkar hafa aukið á vandann í húsnæðismálum.

Þess vegna er skynsamlegt að kjósa flokk sem vinnur lausnarmiðað og hefur sögu sem staðfestir það. Þess vegna skulum við kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 11.10.2017 - 14:39 - Rita ummæli

Fólk vill eiga sína fasteign

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í síðustu viku (5. og 6. október sl.) var fjöldi áhugaverðra fyrirlestra. Einn þeirra var af hálfu Unu Jónsdóttur hagfræðings hjá Íbúðalánasjóði.

Það kom fram að hlutfall íbúa á leigumarkaði hefur farið hækkandi eða um 5% frá árinu 2006. Hins vegar var mjög áhugavert að skv. viðhorfskönnun Íbúðalánasjóðs hefur afstaða fólks gjörbreyst gagnvart leigumarkaði frá árinu 2011. Sjá má þetta á myndunum hér að neðan sem eru úr glærum Unu Jónsdóttur. Þarna má sjá að árið 2011 töldu 31% öruggt/líklegt að þau myndu leigja sér húsnæði. En árið 2017 er þetta hlutfall komið niður í 18,5%.

Annað áhugavert má lesa af seinni myndinni. Þar er spurt af hverju fólk hyggist vera á leigumarkaði. Árið 2017 eru bara tvær ástæður nefndar. Sú fyrri er fólk hafi ekki efni á því að kaup og síð síðari að það komist ekki í gegnum greiðslumat.

Þetta var allt öðruvísi árin 2011 og 2013. Þá nefndi fólk óvissu á húsnæðismarkaði/ í þjóðfélaginu (það var vinstri stjórn) og það nefndi að óhagkvæmt væri að kaupa, ódýrara að leigja, minni skuldbinding að leigja og fé hefði tapast í núverandi/fyrra húsnæði.

Smellið á myndina og ör til baka til að fara í textann aftur.

Smellið á myndina og ör til baka til að fara í textann aftur.

Þetta staðfestir mikilvægi þess að enn frekari áhersla verði lögð á séreignastefnuna. Fólk vill eiga sitt húsnæði sjálft. Síðustu breytingar á húsnæðislöggjöfinni bæta aðstöðu þeirra sem vilja vera á leigumarkaði. En það er markaðsbrestur út um allt land og á höfuðborgarsvæðinu vantar lóðir og betri aðferðir fyrir fyrstu kaupendur sérstaklega til að geta keypt sitt eigið húsnæði.

Það er næsta verkefni stjórnvalda. Þar þarf Sjálfstæðisflokkurinn að vera í stjórn svo eitthvað verði gert af viti í þessum málum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.10.2017 - 18:24 - Rita ummæli

Munu kosningarnar snúast um málefni?

Vonandi verður góð kosningaþátttaka 28. október nk. Ég óttast samt að það sé ákveðin kosningaþreyta í fólki og ætti það ekki að koma neinum á óvart. Auðvitað áttu fæstir von á því að kosið yrði núna, ekki ári eftir að loksins tókst að mynda ríkisstjórn í þessu landi. Og það endaði sem ríkisstjórn þriggja flokka eftir endalausar þreifingar þar sem margir þessara smærri flokka þorðu varla að mynda ríkisstjórn. Svo kom í ljós að Björt framtíð þorði ekki að vera í ríkisstjórn og Viðreisn fylgdi í kjölfarið.

Vonandi munu þessar kosningar snúast um málefni. Mér sýnist samt að hjá ansi mörgum snúist þetta um að reyna að klína einhverjum leiðindum á Sjálfstæðisflokkinn. Og þótt 25-30% segist ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í könnunum er umræða um að nú verði að halda flokknum utan ríkisstjórnar. Það er ólýðræðislegt og líka skaðlegt því það þarf flokk sem getur og þorir að vera í ríkisstjórn og fást við erfið mál.

Vonandi fær Sjálfstæðisflokkurinn góða kosningu í öllum kjördæmum. Þá er ólíklegra að við fáum stjórnarkreppu hér í marga mánuði.

Vonandi komast sveitarstjórnarkosningar sem fyrst á dagskrá. Þar er kosið á fjögurra ára fresti og ef meirihlutasamstarf rofnar er ekki kosið aftur heldur verða flokkarnir að mynda nýjan meirihluta. Kannski við ættum að taka slíkt fyrirkomulag upp varðandi Alþingi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.9.2017 - 20:09 - Rita ummæli

Klúðrið í kringum Orkuveituhúsið

Við vorum að ljúka fundi í borgarstjórn núna 5. september kl. 20:02. Á sama tíma eru karlalandslið Íslands og Úkraínu á Laugardalsvelli í fótbolta.

Á fundinum var mikil umræða um Orkuveituhúsið og bruðlið í kringum það hús sem nú hefur komið í ljós að er mjög illa farið.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um opinbera rannsókn vegna milljarða tjóns

á húsi Orkuveitu Reykjavíkur

Borgarstjórn samþykkir að fram fari opinber rannsókn vegna milljarða tjóns sem orðið hefur á
húsi Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi. Í þeirri rannsókn verði leitast við að leiða í ljós
orsakir tjónsins og hvaða lærdóm megi draga af málinu til framtíðar. Athugað verði hvernig
staðið var að byggingu hússins á sínum tíma og hvernig staðið hefur verið að viðhaldi þess
eftir að það var tekið í notkun. Meðal annars verði kannað hvernig pólitískar ákvarðanir voru
teknar um byggingu hússins og stækkun þess á framkvæmdatíma. Þá verði athugað hvernig
ákvarðanir voru teknar um einstaka þætti málsins, t.d. hönnun, byggingaraðferðir, efnisval
o.s.frv. Fjallað verði um orsakir þess að byggingarkostnaður fór langt fram úr áætlunum.
Einnig verði birtur heildarkostnaður við byggingu hússins og allur kostnaður vegna viðhalds
og endurbóta frá því það var tekið í notkun. Þá verði könnuð lagaleg staða Orkuveitunnar í
málinu og hugsanlegur bótaréttur vegna umrædds tjóns.

Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata vildi ekki samþykkja þessa tillögu okkar og vísaði henni inn í borgarráð með mótatkvæði okkar. Við lögðum fram þessa bókun:

Við leggjumst gegn tillögu borgarstjóra um að tillögu Sjálfstæðisflokksins, um opinbera rannsókn vegna milljarða tjóns á húsi Orkuveitu Reykjavíkur, verði vísað til borgarráðs. Borgarstjórn er ekkert að vanbúnaði að samþykkja slíka tillögu enda liggja fyrir margvíslegar upplýsingar sem kalla á að málið verði rannsakað í heild sinni. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna kýs hins vegar að tefja slíka rannsókn með því að vísa tillögunni til borgarráðs án haldbærrar ástæðu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 23.8.2017 - 10:30 - Rita ummæli

Sveitarstjórnarlög kveða á um málstefnu

Nokkur umræða er um stöðu íslenskunnar gagnvart enskunni og þá hættu sem tungumálið okkar kann að vera í. Sumir taka svo sterkt til orða að íslenskan muni hverfa sem tungumál. Við sjáum mikla tilhneigingu fyrirtækja í verslun og þjónustu til að nota ensk heiti. Flugfélag í innanlandsflugi breytir meira að segja nafni sínu úr íslensku Flugfélagi Íslands í Air Iceland connect. Þegar þetta er skrifað stendur risastór innkaupapoki á Lækjartorgi en honum er ætlað að auglýsa opnun H&M í Smáralind. Verslunarmiðstöðvar munu eiga erfiðara uppdráttur en áður vegna þess að internetið hefur opnað heiminn svo mikið að fólk verslar í gegnum netið þegar því sýnist og frá hinum ýmsu stöðum í heiminum.

Það er ekki að fara að breytast. Enskan verður áfram allsráðandi á internetinu og við sem og börnin okkar höfum aðgang að því. Við lokum ekki internetinu eins og gert var við Kanasjónvarpið á sínum tíma vegna mats þess tíma á því að áhrif enskunnar gætu verið skaðleg fyrir íslensk ungmenni og íslenskuna sjálfa.

En við getum gert betur hérna heima fyrir. Við getum verið stoltari af tungumálinu okkar. Skírt verslanir og þjónustufyrirtæki góðum íslenskum nöfnum og haft í huga að erlendir gestir okkar hafa áhuga á því sem íslenskt er. Þess vegna koma þessir gestir til Íslands.

Það er áhugavert að í núgildandi sveitarstjórnarlögum frá 2011 er kveðið á um málstefnu í 130 gr. (sjá hér neðst í greininni). Þetta ætti að nýtast sveitarfélögum og þá væntanlega ekki síst Reykjavík við að setja stefnu um merkingar og annað í borgarlandinu. Það má nefnilega gera miklu betur við að afmarka betur hvað er leyfilegt í svona merkingum og styrkja með því varnir íslenskunnar sem lifandi tungumáls sem við viljum og eigum að varðveita.

Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011
130. gr.
 Málstefna.
Sveitarstjórn mótar sveitarfélaginu málstefnu í samráði við Íslenska málnefnd og eftir atvikum málnefnd um íslenskt táknmál. Þar skal koma fram að öll gögn liggi fyrir á íslensku svo sem kostur er og gerð grein fyrir heimilum undantekningum á þeirri reglu. Þar skulu settar reglur um notkun íslensks táknmáls og íslensks punktaleturs í gögnum og starfsemi sveitarfélagsins. Enn fremur skal koma fram hvaða gögn liggja að jafnaði fyrir í erlendum málbúningi og hvaða tungumál þar er um að ræða. Þá skal þar setja reglur um rétt íbúa af erlendum uppruna til samskipta við stofnanir sveitarfélagsins á annarri tungu en íslensku.
Mál það sem er notað í starfsemi sveitarfélags eða á vegum þess skal vera vandað, einfalt og skýrt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 17.8.2017 - 13:31 - Rita ummæli

Ekki framboð í vor

Þessa fréttatilkynningu sendi ég frá mér í gær eftir viðtal á Stöð 2:

Fréttatilkynning

Halldór Halldórsson

oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Ég, undirritaður sem var kjörinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarmálunum í Reykjavík haustið 2013 og tók til starfa sem borgarfulltrúi eftir kosningar vorið 2014 hef ákveðið að gefa ekki kost á mér til setu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum.

Ákvörðunin var tekin nú í ágúst þegar horft var úr ákveðinni fjarlægð úr sumarfríinu á fortíð og framtíð. Framundan er mikilvæg ákvarðanataka grasrótar Sjálfstæðisflokksins í borgarmálunum og sanngjarnt að mínu mati að afstaða mín sem núverandi oddvita til framboðs eða ekki framboðs liggi fyrir áður en þessi tilhögun framboðsmála er ákveðin.

Borgarmálin eru skemmtilegur vettvangur en það er svo ótal margt annað áhugavert sem undirritaðan langar að fást við. Tíminn líður mjög hratt og eftir 24 ár á sveitarstjórnarvettvangi, sem kjörinn fulltrúi lengst af, er ágætt að láta staðar numið á þeim vettvangi og snúa sér að öðru. Reynsla mín úr atvinnulífi og af sveitarstjórnum sem og í fjölmörgum alþjóðlegum verkefnum mun nýtast við ný og spennandi störf.

Mér er efst í huga þakkir til stuðningsmanna minna sem hafa verið mér mikilvægir í gegnum tíðina. Ég er þakklátur fyrir þær yfirlýsingar sem mér hafa borist að undanförnu um stuðning og þakkir. Ég hugsa mikið til minna stuðningsmanna þegar þessi ákvörðun er tekin.

Ég geri ráð fyrir að verða að störfum sem borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn þar til nýkjörin borgarstjórn tekur við í júní 2018. Kjósendur kusu mig til 4 ára og hyggst ég sinna því verkefni sem mér var falið.

Reykjavík 16. ágúst 2017

Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 15.6.2017 - 14:26 - Rita ummæli

Skulduga Reykjavík

Ég held áfram að tala um fjármál, rekstur og skuldir Reykjavíkurborgar þó margir haldi því fram að íbúar sveitarfélaga hafi almennt ekki áhuga á þessum málum.

Það held ég að sé ekki rétt. Ég held að íbúar geri frekar ráð fyrir því að þeir geti treyst kjörnum fulltrúum til að standa í ístaðinu varðandi reksturinn og að þeir sökkvi sínu sveitarfélagi ekki í skuldir. Það gera allir sér grein fyrir því að heilbrigður rekstur sé lykillinn að því að sveitarfélagið geti veitt almennilega þjónustu og að hægt sé að lækka það sem íbúar/skattgreiðendur þurfa að láta af hendi.

Sá hugsunarháttur að endalaust sé hægt að fara í vasa skattgreiðenda er áberandi hjá vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Borgin er miklu skuldugri en margir halda og hef ég ítrekað bent á það allt kjörtímabilið.

Þessi frétt Morgunblaðsins frá 14. júní útskýrir ágætlega hvernig Reykjavíkurborg er í raun með undanþágu í sveitarstjórnarlögum frá því að birta raunverulega skuldastöðu. Heildarskuldir borgarinnar eru 186,7% af tekjum en mega ekki vera meira en 150%.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 9.6.2017 - 15:52 - Rita ummæli

Fasteignaskattar hækka mikið í Reykjavík

Álagning fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði er ákveðin prósenta (%) á fasteignamat viðkomandi eignar. Þetta mat hefur hækkað mikið og mun hækka frá og með 1. janúar 2018.

Búið er að leggja á fasteignaskatt fyrir árið 2017 en meðaltalshækkun á höfuðborgarsvæðinu 2018 verður 14,5%.

Þess vegna lagði ég fram þessa tillögu í borgarráði í gær (9. júní) fh. okkar borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

,,Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að nú þegar verði hafin vinna við að undirbúa lækkun fasteignaskatta hjá Reykjavíkurborg vegna hækkunar fasteignamats langt umfram eðlilega verðlagsþróun. Nýtt fasteignamat tekur gildi 1. janúar 2018 þar sem meðalhækkun á höfuðborgarsvæðinu er 14,5%. Miða skal við að Reykjavíkurborg leggi lægri skattprósentu en nú er í gildi á nýtt og hærra fasteignamat til að draga úr skattbyrði borgarbúa.“

Hér fyrir neðan er svo frétt Morgunblaðsins um þetta mál.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is