Föstudagur 13.5.2016 - 11:25 - Rita ummæli

Atvinnulífið hornreka í borginni

Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum oft rætt um skort á skilningi á þörfum atvinnulífsins.  Þétting byggðar er oft eðlileg borgarþróun en um leið er þrengt að atvinnustarfsemi í borginni. Nýverið bókuðum við um þetta í umhverfis- og skipulagsráði og á dögunum barst bréf til borgarstjóra frá Félagi atvinnurekenda þar sem lýst er áhyggjum vegna þess að fyrirtæki sem þurfa að víkja úr grónum atvinnuhverfum (eins og í Vogahverfinu) fái engin svör varðandi nýja aðstöðu.

Vegna þessa lögðum við borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fyrirspurn/bókun í borgarráði 12. maí. Fyrirspurnin endar á beiðni um yfirlit yfir fáanlegar atvinnulóðir í borginni:

,,Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði 20. apríl sl. um að borgaryfirvöld hafi sýnt framtíðaratvinnusvæðum borgarinnar skeytingarleysi.

Félag atvinnurekenda hefur nýverið sent bréf til borgarstjóra þar sem lýst er áhyggjum yfir því að fyrirtæki sem þurfa að víkja úr grónum atvinnuhverfum fá engin svör varðandi nýja aðstöðu. Þau fáu svæði sem nefnd eru sem valmöguleikar fyrir plássfreka starfsemi fyrirtækja eru fá, lítil og úti í jöðrum borgarinnar. Stefnan um þéttingu byggðar er skynsamleg en hefur af hálfu borgaryfirvalda fyrst og fremst verið sett fram á forsendum þarfarinnar fyrir þróun íbúðabyggðar. Þarfir og hagsmunir atvinnulífsins hafa ekki verið í forgrunni, þótt það ætti að vera augljóst að borg þrífst ekki án öflugs atvinnulífs. Gera verður ráð fyrir þörfum þess í borgarskipulaginu ekki síður en þörfum borgarbúa fyrir íbúðarhúsnæði og gera verður ráð fyrir því, meðal annars vegna hagkvæmra samgangna, að atvinnustarfsemi sé ekki bara ýtt út á jaðra borgarinnar.

Áformuð er mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis í mörgum hverfum sem hafa hingað til hýst ýmsa atvinnustarfsemi. Reykjavíkurborg hefur ekki boðið upp á neina heildstæða kynningu gagnvart þeim sem verður bolað burt af svæðum sínum í nánustu framtíð. Það veldur óöryggi á meðal þeirra sem halda úti þeirri atvinnustarfsemi sem borgin ætti alla jafna að passa upp á að verði áfram í borginni.

Fyrirspurnum fyrirtækja um möguleika á öðrum lóðum hefur verið svarað illa eða ekki af hálfu borgarinnar sem verður að teljast ótæk vinnubrögð sem gætu haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér, með því að fyrirtækin í borginni hrekist í önnur sveitarfélög.

Óskað er eftir yfirliti yfir atvinnulóðir í borginni.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 10.5.2016 - 14:53 - Rita ummæli

Um vondan rekstur og lögbrot – úr ræðu v. ársreiknings 2015

Þetta er það helsta úr ræðu minni við síðari umræðu ársreiknings. Jú vissulega er þetta einhver lesning en þarna fer ég yfir mikilvæg atriði úr rekstrinum.

Stuttur útdráttur: ,,Þetta, ágætu borgarfulltrúar þýðir einfaldlega að áætlanir samþykktar af meirihluta Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna gera ráð fyrir lögbroti. Reykjavíkurborg er með það innbyggt í sínar áætlanir að reka sveitarfélagið með tapi í fimm ár samfleytt A og B hluta saman án OR. Þetta er brot á sveitarstjórnarlögum sem eru vitanlega meginlöggjöfin um sveitarfélögin í landinu.“

 

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2015
síðari umræða
Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Forseti, ágæta borgarstjórn.

Við fyrri umræðu fór ég fyrst og fremst yfir heildarútkomuna með samanburði við fyrri ár.
Núna við síðari umræðu skoða ég einstaka rekstrarliði á borð við þróun stöðugilda sem mikil áhrif hafa á rekstrarkostnaðinn og segja ákveðna sögu um hvort kerfið er að bólgna út eða ekki. Ég ætla líka að tala um rekstrarjöfnuð á þriggja ára tímabili sem fjallað er um í skýrslu endurskoðenda borgarinnar KPMG, þar er mjög alvarlegt mál á ferðinni sem við getum ekki leyft okkur að líta framhjá. Borgin eða öllu heldur meirihluti Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar hefur tekið ákvörðun um að brjóta sveitarstjórnarlög, meginlöggjöfina um rekstur sveitarfélaganna í landinu.

Rekstrarniðurstaða A-hluta, borgarsjóðs, var neikvæð um 13,6 makr. Áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 0,6 makr. Skatttekjur A-hluta voru 69,3 makr eða 0,6 makr yfir áætlun. Aðrar tekjur voru 15,6 makr eða 0,7 makr yfir áætlun. Launakostnaður var 49,2 makr og 1,1 makr yfir áætlun eða sama tala og tekjur hækka um. Við heyrum nefnilega að tekjur hafi ekki fylgt útgjöldum vegna hárra kjarasamninga. Hér fylgist þetta að á árinu 2015 og það verður að segjast að margt bendir til þess að tekjur muni hækka verulega á árinu 2016, ég gerði það að umtalsefni við fyrri umræðu að það ætti ekki að vera hægt að reka borgina með tapi með svona mikla tekjuaukningu. Þá gleymdi ég því að það er ætlun meirihlutans að reka borgina með tapi skv. áætlunum út árið 2017.

Mikil hækkun lífeyrisskuldbindingar skapar þetta mikla tap. En ef við skoðum reksturinn með því sem kallast gæti meðalgjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga, tökum frá þessa miklu sveiflu sem kemur árið 2015 vegna kjarasamninga og hækkunar lífaldurs þá er tapið engu að síður 1,3 makr. Þannig að A-hlutinn, allur reglulegur rekstur borgarinnar fjármagnaður með skatttekjum og þjónustugjöldum upp að vissu marki er ekki að standast áætlun og sýnir mun verri niðurstöðu en áætlanir gerðu ráð fyrir og mun verri niðurstöðu en hægt er að sætta sig við.

Veltufé frá rekstri A-hluta var 5,2 makr eða 5,7% af tekjum A-hluta á árinu 2015 sem var betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í útkomuspá ársins. Þetta var um veltufé frá rekstri. Þetta segir okkur að allar afsakanir vegna reiknaðra stærða fram og til baka hafa ekki svo mikið gildi. Það er ljóst að veltuféð þarf að vera a.m.k. 9% af tekjum en er bara 5,7%. Það þýðir að reksturinn skilar ekki nægum fjármunum til þess að greiða af lánum og borga fjárfestingar. Það þýðir skuldahækkun ár frá ári.

Skuldir A-hlutans aukast vitanlega ár frá ári þegar hallarekstur er viðvarandi. Frá 2013 til 2014 hækka skuldirnar í A-hlutanum úr 62 milljörðum kr. í 64,5 milljarða kr. eða um 2,5 milljarða og svo frá 2014 til 2015 hækka skuldir A-hlutans úr 64,5 milljörðum í 80,7 milljarða kr eða um 16,2 milljarðar kr. á einu ár.

Fjölgun stöðugilda heldur áfram eins og sjá á á þessari yfirlitsmynd. Þetta eru 212 stöðugildi frá 2010 þar af 34 milli áranna 2014 og 2015. Það er kostnaður upp á 1,5 milljarð kr. á ársgrundvelli.

Rekstrarjöfnuður á þriggja ára tímabili er skilgreindur í 64. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þar segir að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna bæði A og B hluta megi ekki vera á þriggja ára tímabili hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Það má ekki reka með tapi í þrjú ár eða lengur.
Í skýrslu KPMG endurskoðenda Reykjavíkurborgar segir þetta: ,,Viðmið um jafnvægi í rekstri eru skilgreind nánar í reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga nr. 502/2012. Reikningsskil Orkuveitu Reykjavíkur eru undanskilin við útreikning á rekstrarjöfnuði í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Rekstrarjöfnuður Reykjavíkurborgar 2013-2015 var neikvæður um 824 m.kr. Gangi fyrirliggjandi áætlanir eftir verður rekstrarjöfnuður A og B hluta sveitarfélagsins neikvæður næstu tvö árin og síðan jákvæður árin þar á eftir.“

Þetta, ágætu borgarfulltrúar þýðir einfaldlega að áætlanir samþykktar af meirihluta Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna gera ráð fyrir lögbroti. Reykjavíkurborg er með það innbyggt í sínar áætlanir að reka sveitarfélagið með tapi í fimm ár samfleytt A og B hluta saman án OR. Þetta er brot á sveitarstjórnarlögum sem eru vitanlega meginlöggjöfin um sveitarfélögin í landinu. Höfuðborgin sem ætti að vera fyrirmyndarsveitarfélagið í öllu er með allt niður um sig í rekstrinum og mun miðað við áætlanir meirihlutans í borginni brjóta sveitarstjórnarlög. Með þeim viðbrögðum að líkindum að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga fer af stað og mun krefja borgina skýringa á því hvað hér sé eiginlega um að vera.

Þetta er háalvarlegt mál kæru borgarfulltrúar, mál sem við getum ekki tekið af neinni léttúð eða gamansemi eða leyft okkur í ræðum hér á eftir að snúa út úr. Þetta er vandræðalegt fyrir meirihluta þeirra fjögurra flokka sem hér ætla að gera allt fyrir alla en gera fátt. Og vandræðagangur þeirra færist yfir á okkur í minnihlutanum því vitanlega talar fólk um borgarstjórn í heild sinni. En það sem verst er er það að þetta bitnar fyrst og síðast á borgarbúum sem munu sjá á eftir sífellt meiri fjármunum af sínum launatekjum til að redda fjárhag borgarinnar sem eykur skuldir sínar ár frá ári eins og við höfum séð með svo myndrænum hætti hér.

Mig langar að ítreka það sem ég nefndi við fyrri umræðu að starfsfólk okkar vinnur góð störf út um alla borg. Það er svo sannarlega ástæða til að þakka okkar góða starfsfólki sem heldur borgarrekstrinum gangandi. Það er á ábyrgð okkar kjörinna fulltrúa og þá fyrst og fremst þeirra sem ákváðu að mynda meirihluta að sjá til þess að reksturinn sé innan eðlilegra marka. Það er hann ekki.

Svona er þetta ágæta borgarstjórn. Ólíkt hafast stjórnendur að hjá Reykjavíkurborg og ríki. Borgin í taprekstri meðan tekjur hækka en ríkið í niðurgreiðslu skulda og að lækka skatta. Það er t.d. að koma lækkun á tryggingagjaldi sem mun lækka útgjöld sveitarfélag um 800 m.kr. á ársgrundvelli. Borgin er um 40% af því. Það munar um slíkt og undirstrikar að skattalækkanir eru mikilvægar.
Það eru tvö ár til kosninga þannig að líklegt er að borgarbúar þurfi að herða sultarólina áfram og þrauka fram á vorið 2018 og kjósa þá sem geta tekið á þessum rekstrarmálum Reykjavíkurborgar, þjónustu og öðrum þáttum sem hafa hreinlega drabbast niður í tíð þessa fjögurra flokka meirihluta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 4.3.2016 - 20:17 - Rita ummæli

Tilraunir á börnum

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld (4. mars) var talað við Þórarinn Guðnason lyflækni og sérfræðingur í hjartasjúkdómum. Hann sagði í viðtalinu að lykilatriðið í þessari umræðu sé að skaðleysi dekkjakurlsins hafi ekki verið sannað. Iðkendur verði að njóta vafans.

Í viðtalinu sagði hann m.a. þetta: ,,Ég hvet Reykjavíkurborg að taka strax á þessum málum og reyna að fá fjármagn í þetta. Það er engin ástæða til þess að halda áfram að gera þessa tilraun á börnunum okkar.“

Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum eftirfarandi tillögu fram í borgarstjórn 1. desember 2015:  ,,Borgarstjórn samþykkir sérstaka fjárveitingu til endurbóta á gervigrasvöllum í borginni að upphæð 151 milljón króna. Fjárveitinguna skal nota til að endurnýja velli, sem eru nú með kurl úr úrgangsdekkjum sem yfirborðs-fylliefni, en setja þess í stað viðurkennt gæðagras og efni, sem stenst ýtrustu umhverfis- og heilbrigðiskröfur. Ýmsir aðilar, t.d. Læknafélag Íslands, hafa ítrekað varað við notkun úrgangsdekkjakurls sem fylliefni á umrædda velli og bent á að í því séu efni sem geti verið skaðleg heilsu manna, ekki síst barna og ungmenna.“

Tillagan var felld af Pírötum, Vinstri grænum, Samfylkingu og Bjartri framtíð.

Samt lögðum við fram tillögur samhliða þessari um að fresta eða fella niður framkvæmdir þannig að sparnaður fyrir borgina skv. okkar tillögum hefði orðið 261 milljón króna. Þær tillögur voru líka felldar af þessum fjórum flokkum.

Það er enginn áhugi hjá meirihluta þessara fjögurra flokka í borgarstjórn á að láta börnin njóta vafans varðandi heilsuspillandi áhrif af dekkjakurlinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 15.10.2015 - 12:26 - Rita ummæli

Stækkun Úlfarsárdalshverfis

Í borgarráði í morgun var gerð samþykkt sem kemur til móts við stefnu okkar Sjálfstæðismanna í borgarstjórn.

Samþykktin er þessi: ,,Borgarráð samþykkir að deiliskipulag Úlfarsárdals verði endurskoðað í samræmi við forsendur Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um fjölgun íbúða og uppbyggingu og stækkun Úlfarsárdalshverfis og í samræmi við skipulagslýsingu fyrir breytingu á deiliskipulagi svæðisins.“

Þó sú viðbót við byggðina sem boðuð er samkvæmt þessu sé langt frá upphaflegum hugmyndum um allt að 28.000 íbúa byggð í Grafarholti og Úlfarsárdal þá er þetta skref í rétta átt og styrkir hverfið að mati okkar borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Af þessu tilefni lögðum við borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram þessa bókun:

,,Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja endurskoðun á stærð hverfisins í Úlfarsárdal. Sú stækkun er í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn sem ítrekað hefur bent á þörfina fyrir stærra Úlfarsárdalshverfi. Núverandi íbúar hverfisins gerðu ráð fyrir stærra hverfi þegar þeir fjárfestu í húsnæði. Stærra hverfi styður við öflugra íþróttafélag, meiri möguleika á allri þjónustu og það kemur til móts við mikla þörf fyrir ódýrara íbúðarhúsnæði í borginni. Stækkun hverfisins er því mikilvægur þáttur í því að gera ungu fólki auðveldara fyrir að koma sér þaki yfir höfuðið.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 20.9.2015 - 20:08 - Rita ummæli

Vandræðalegt og skrýtið

Nú er ljóst að beiðni mín fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina um aukafund í borgarstjórn hefur verið afgreidd. Aukafundurinn verður þriðjudaginn 22. september kl. 17:00.

Tillaga okkar sem við sendum kl. 13:00 í gær, laugardaginn 20. september er svona:
,,Borgarstjórn samþykkir að draga til baka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september 2015 um undirbúning og útfærslu á sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum.“

Tillaga meirihlutans, þ.e. Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Píraeta er svona:
,,Borgarstjórn samþykkir að draga tilbaka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september 2015 um undirbúning og útfærslu á sniðgöngu á ísraelskum vörum.“

Tillaga þeirra er sem sagt tillagan okkar sem við sendum í gær óbreytt. Það er auðvitað gott því þá hlýtur tillaga okkar að verða samþykkt. En tilraunir meirihlutans til að slá ryki í augu fólks með þessum æfingum er auðvitað bæði vandræðalegt og skrýtið.

Þau þurfa að hugsa sinn gang í þessum fjögurra flokka meirihluta því þetta er bara eitt dæmið af mörgum um að þau ráða ekki við stjórn borgarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 19.9.2015 - 14:46 - Rita ummæli

Beiðni um aukafund í borgarstjórn Reykjavíkur

Undirritaður fyrir hönd Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina hefur óskað eftir aukafundi í borgarstjórn Reykjavíkur í síðasta lagi þriðjudaginn 22. september.

Hér að neðan má lesa beiðnina, tillöguna og greinargerð.

Beiðni um aukafund:

Með tilvísan til 8. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar óska borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina eftir aukafundi í borgarstjórn sem allra fyrst og eigi síðar en þriðjudaginn 22.9. Beiðni þessi er lögð fram í þeim tilgangi að draga úr þeim skaða sem samþykkt borgarstjórnar hefur í för með sér fyrir viðskipti Íslands við önnur lönd.

Á aukafundinum verði eftirfarandi tillaga tekin til afgreiðslu:

Borgarstjórn samþykkir að draga til baka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september 2015 um undirbúning og útfærslu á sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum.

Greinargerð:

Tillaga þessi er lögð fram til að lágmarka þann skaða sem samþykkt meirihluta borgarstjórnar hefur haft í för með sér fyrir orðspor og viðskipti Íslands við önnur lönd. Þann 15. september 2015 ákvað meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir, eins og það er orðað í samþykkt borgarstjórnar.

Utanríkisráðuneytinu, sendiskrifstofum Íslands erlendis og Íslandsstofu hefur af þessu tilefni borist verulegur fjöldi fyrirspurna um afstöðu stjórnvalda til samþykktar borgarstjórnar. Þá hafa ferðaþjónustuaðilar lýst yfir áhyggjum sínum vegna málsins og þegar hefur orðið vart við afpantanir ferða.

Sveitarstjórnir eru eins og önnur stjórnvöld bundin af lögum. Í því felst að Reykjavíkurborg verður að haga stjórnsýslu sinni í samræmi lög og að ákvarðanir hennar mega ekki fara í bága við þau, þ. á m. lög um opinber innkaup, þar sem óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum.

Samþykki Reykjavíkurborg að breyta innkaupastefnu sinni með bindandi hætti þannig að ísraelskir birgjar skuli sniðgengnir, samræmist það hvorki íslenskum lögum né ákvæðum í alþjóðlegum skuldbindingum alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup, sem Ísland er aðili að og Reykjavíkurborg og önnur sveitafélög eru bundin af.

Utanríkisráðuneytið áréttar að ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur er ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og er heldur ekki til marks um tengsl Íslands og Ísraels.

Samþykkt meirihluta borgarstjórnar var því vanhugsuð og hefur þegar haft í för með sér afleiðingar til skaða fyrir íslenska þjóð.

Halldór Halldórsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 1.9.2015 - 16:59 - Rita ummæli

Vandræði í rekstri Reykjavíkurborgar

Á borgarstjórnarfundi í dag (1. september) var að beiðni Sjálfstæðisflokksins umræða um hálfsársuppgjör Reykjavíkurborgar.

Það fór ég yfir rekstrarvandann en frá janúar til júní er borgin (A-hluti) rekin með 3ja milljarða kr. tapi. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 1,8 milljarða kr. tapi. Veltufé frá rekstri er 1,4% sem er rosalega lágt og veldur því að skuldir borgarinnar aukast verulega ár frá ári.

Myndirnar hér að neðan segja meira en mörg orð. Smellið á myndirnar til að sjá þær í stærri upplausn.

graf1 graf2

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 28.8.2015 - 08:02 - Rita ummæli

Borgin er illa rekin

Á fundi borgarráðs 27. ágúst var lagt fram 6 mánaða uppgjör fyrir A og B hluta Reykjavíkurborgar. Þ.e. borgarsjóð og fyrirtæki.

Í stuttu máli er reksturinn í mjög alvarlegri stöðu. Skatttekjur duga ekki fyrir rekstri borgarinnar. Ef þetta væri einungis að koma fram núna væri maður rólegri en svona er þetta búið að vera síðan Besti flokkurinn og Samfylking mynduðu meirihluta árið 2010 að undanteknu einu ári. Reksturinn er búinn að versna stöðugt hjá þessum meirihluta. Og núna á hálfu ári er tapið rúmir þrír milljarðar. Þrjú þúsund milljónir eða 700.000 kr. á hverjum einasta klukkutíma frá 1. janúar til 30. júní 2015.

Við borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum fram þessa bókun við framlagningu 6 mánaða uppgjörsins:

,,Alvarleg staða á rekstri Reykjavíkurborgar

Uppgjör fyrir rekstur fyrstu 6 mánuði ársins 2015 sýnir að áfram er mikið tap á A-hluta Reykjavíkurborgar eða sem nemur rúmum 3 milljörðum króna sem er næstum tvöfalt meira tap en reiknað var með í fjárhagsáætlun. Staðan er því orðin mjög alvarleg sem er því miður í samræmi við viðvaranir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum.

Veltufé frá rekstri A-hluta sem er það fjármagn sem reksturinn skilar í peningum er 1,4% af rekstrartekjum en þarf að lágmarki að vera 9% miðað við greiningu fjármálaskrifstofu í tengslum við ársreikning 2014.

Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar segir í skýrslu sinni að þessi slæma niðurstaða kalli á viðbrögð í fjármálastjórn borgarinnar. Mikill þungi er í þeim orðum fjármálaskrifstofunnar og undirstrikar þörf þess að markviss vinna verði sett strax af stað við að taka á rekstrarvandamálum Reykjavíkurborgar. Við afgreiðslu ársreiknings ársins 2014 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að slík vinna færi strax af stað.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 18.5.2015 - 20:59 - Rita ummæli

Harður áfellisdómur

Ömurleg niðurstaða í  nýrri skýrslu Innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar um yf­ir­töku Strætó á ferðaþjónustu fatlaðs fólks kemur því miður ekki á óvart. Í skýrslunni kemur fram samkvæmt fjölmiðlum að stjórn­un breyt­ing­anna á ferðaþjón­ustu fatlaðs fólks eft­ir að hin raun­veru­lega innleiðing átti að hefjast hafi mis­far­ist verulega. Yf­ir­um­sjón með breyt­ing­un­um var ekki á hendi eins ákveðins aðila sem samræmdi alla fleti breyt­ing­anna, bæði þá sem sneru að not­end­um ferðaþjón­ust­unn­ar, starfs­mönn­um ferðaþjón­ustu fatlaðs fólks, starfs­mönn­um vel­ferðarsviða sveit­ar­fé­lag­anna og starf­semi Strætó bs. Þá kemur fram hörð gagnrýni á að starfsfólki með reynslu skuli hafa verið sagt upp og að byrjað hafi verið um áramót í stað þess að byrja að vori eða sumri til.

Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum til 20. janúar í borgarstjórn að Innri endurskoðun yrði falið að gera úttekt á öllu málinu.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn 20. janúar
Mikilvægt er að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið með breytingum á ferðaþjónustu fatlaðra og greina sem flesta þætti þess máls. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar er falið að leggja mat á útboðsferli og skilmála vegna útboðs fyrir ferðaþjónustu fatlaðra. Útboðið verði skoðað í heild sinni. Lagt verði til dæmis mat á hvort tími sem gefinn var til fjárfestingar hafi verið fullnægjandi, reynsla bílstjóra og annars starfsfólks hafi verið nægilega hátt metin og hvort gefinn hafi verið nægilegur tími til þjálfunar þess. Þá verði skoðað hvort svigrúm Strætó bs. við mat á þátttakendum í útboðinu hafi verið nægilegt.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 12.5.2015 - 18:57 - Rita ummæli

Rekstrartap A-hluta borgarinnar

Við vorum að ljúka borgarstjórnarfundi þar sem ársreikningur borgarinnar fyrir árið 2014 var til síðari umræðu og staðfestingar.

Ársreikningur ársins 2014 sýnir 2,8 milljarða króna tap A-hluta Reykjavíkurborgar sem er öll meginstarfsemi Reykjavíkurborgar.

Í skýrslu Fjármálaskrifstofu borgarinnar segir um þennan taprekstur að mikilvægt sé að bregðast við. Undir það taka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins með tillögu sinni um að farið verði í rekstrarhagræðingu og í framhaldi af árangri í því verði farið í lækkun útsvars í áföngum. Meirihlutinn samþykkti að vísa tillögunni til borgarráðs til úrvinnslu. Það var stutt af fulltrúum allra flokka í borgarstjórn.

Á fundinum fór ég sérstaklega yfir þróun stöðugilda hjá borginni 2010-2014 þar sem fjölgunin er skv. þeim gögnum sem ég fékk frá borginni 675 stöðugildi á þessu tímabili. Hluti af því er verkefnaflutningur málefna fatlaðs fólks frá ríkinu 404 stöðugildi og 93 stöðugildi vegna atvinnuátaksverkefna. Þá er óútskýrð fjölgun stöðugilda 178 alls sem kosta borgina rúman milljarð ef stöðugildið kostar með öllum launatengdum kostnaði 5,8 m.kr. á ári.

Í skýrslu Fjármálaskrifstofu segir um veltufé frá rekstri sem er einungis 5% á árinu 2014 að lágmarkið vegna skuldastöðu A-hluta borgarinnar sé 9%. Þetta eru þung viðvörunarorð til Pírata, VG, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar sem skipa meirihlutann. (Sjá mynd)

Þegar rekstur A-hluta er skoðaður frá árinu 2002 má sjá að í tíð vinstri meirihluta 2002-2006 er taprekstur öll árin. Árin 2007-2010 er Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta og þá er jákvæð afkoma öll árin. Vinstri meirihluti tekur svo við vorið 2010 og eftir það er aftur taprekstur á A-hluta að frátöldu árinu 2013 sem verður að segjast að sé undantekningin sem sannar þá reglu að í tíð vinstri meirihluta við stjórn Reykjavíkurborgar er taprekstur á A-hluta. (Sjá mynd)

Samt er útsvar Reykjavíkurborgar í hámarki öfugt við nágrannasveitarfélögin sem flest hafa dregið úr álögum á íbúa sína.

Veltufe_2002_2014_arsreikn_2014 Rekstur_A_hluta_2002_2014_arsreikn_2014

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is