Sunnudagur 27.05.2012 - 23:20 - FB ummæli ()

Heilagur andi og rauða spjaldið

Ég fór vestur á Hellisand í dag í fermingu. Ræða prestsins unga vakti með mér vangaveltur um hvar og hvernig okkur tókst að skola af okkur þeim gildum sem komu fram í ræðu hans. Guð gerði sáttmála við sína útvöldu þjóð og gaf henni boðorðin tíu. Ísrael í dag virðist geyma þau á mjög afviknum stað því þau virðast ekki móta stefnu þeirra gagnvart Palestínumönnum.

Reyndar á Guð ekki einn um sárt að binda þegar kemur að vanefndum á sáttmálum. Ég hitti nefnilega góðan og gegnan Sjálfstæðismann í veislunni. Hann benti mér á að á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefði verið samþykkt að það væri forgangsverkefni að afnema verðtrygginguna. Ekkert bólaði á slíku hjá þingflokki hans. Annað sem hann benti mér á var að á vegum Sjálfstæðisflokksins hefði það verið samþykkt í þrígang að ljúka aðildarviðræðum við ESB. Honum fannst þingmenn sínir ganga í berhögg við samþykkta stefnu flokksmanna.

Ég hlustaði á atkvæðagreiðsluna á Alþingi þegar greidd voru atkvæði um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýju stjórnarskránna. Ég tók eftir því að Eygló Harðrdóttir rökstuddi alltaf atkvæði sitt með vísun í stefnu og eða samþykktir Framsóknarflokksins. Mér fannst samt sem áður að oftast greiddi hún atkvæði á annan hátt en hinir Framsóknarmennirnir.

Nú ég þarf ekki að fjölyrða um stefnu Steingríms og Jóhönnu sem hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar þau voru sest í stólana.

Sjálfstæðismaðurinn fyrir vestan var kominn að þeirri niðurstöðu að litlu skipti hvað almennir flokksmenn ákveddu. Fjórflokkurinn á Alþingi virtist lifa sínu eigin lífi og algjörlega án tengsla við stefnur sínar eða hugsjónir. Það virðist eins og þingmenn fjórflokksins fyllist heilögum anda við að taka sæti á Alþingi og verði hreinlega uppnumdir, a.m.k. virðast þeir fá skoðanir sínar frá einhverjum æðri máttarvöldum, öðrum en flokksmönnum sínum.

Niðurstaða Sjálfstæðismannsins fyrir vestan er að í raun væri um einn þingflokk að ræða, ekki fjóra, sem skippt væri upp í fjórar deildir.

Hver er Guð þingmanna? Á hvaða hátt getum við veitt þingmönnum okkar aðhald eða gefið þeim rauða spjaldið þegar það á við?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is