Þriðjudagur 27.2.2018 - 17:37 - FB ummæli ()

Heimur án trúarbragða?!

Í athugasemd við grein sem ég skrifaði nýlega og fjallaði einkum um tilvist Guðs var mér bent á eina góða ástæðu fyrir því hvers vegna heiminum væri betur borgið án trúarbragða: Mannkynssagan! – sem sýnir að ekkert hefur stuðlað að meiri ófriði, drápum og hverskyns hörmungum en einmitt trúarbrögð.

Já, saga trúarbragða, þar á meðal kristinnar trúar, er sannarlega ekki að öllu leyti glæsileg. Það viðurkenni ég og skammast mín fyrir sem kristinn maður. Þrátt fyrir allt hið góða sem gert hefur verið og komið til leiðar í nafni kristinnar trúar er augljóst að í skjóli hennar hefur þrifist illska sem valdið hefur margvíslegri þjáningu. Ekki þarf annað en að hugsa til trúarofsókna, t.d. krossferða miðalda, og annars ofbeldis og óhæfuverka sem framin hafa verið í nafni kirkjunnar og kristinnar trúar. Og sem kristnum manni hryllir mér við því og tek undir með hverjum þeim sem fordæmir það.

Nú vil ég ekki tala máli annarrar trúar en minnar eigin. En enginn vafi leikur á því að þeir sem beita ofbeldi, ofríki eða stunda ofsóknir í nafni kristinnar trúar ganga þvert gegn orðum og boðskap Jesú sjálfs. Ofbeldi í nafni kristinnar trúar getur aldrei verið kristið. Það er því mikilvægt að gera greinarmun á kristindómi eða kristnu fólki annars vegar og boðskap Jesú og kristinni trú hins vegar. Það fer því miður ekki alltaf saman.

Að vera kristinn felur í sér að fylgja boðskap Jesú í orði og verki. Og Jesús talaði mjög skýrt gegn hverskyns ofbeldi og ofríki í sínu nafni. Þegar lærisveinninn Pétur greip til sverðsins til þess að vernda Jesú í Getsemanegarðinum sagði Jesús honum að leggja það frá sér með þeim orðum að sérhver sá sem sverði brygði mundi falla fyrir því. Jesús sagði líka fylgjendum sínum að leggja af hatur og óvild en elska óvini sína og biðja fyrir þeim. Og við Pílatus sagði hann að ríki sitt væri ekki af þessum heimi, ella hefðu fylgjendur hans barist. Með öðrum orðum lagði Jesús blátt bann við beitingu ofbeldis og ofríkis í sínu nafni.

Framganga kristins fólks, eins dapurleg og sorgleg og hún getur verið, er því enginn dómur yfir boðskap Jesú eða kristinni trú sem slíkri, heldur til vitnis um það sem getur búið í hjarta og huga mannsins. Og ef sagan (og kristin trú) segir okkur eitthvað er það að maðurinn er ófullkominn. En ef allir vöknuðu á morgun staðráðnir í því að fara eftir orðum Jesú um náungakærleika og laga líf sitt að þeim þá mundi margt breytast í heiminum. Og þegar hugsað er til alls þess fólks sem raunverulega og í einlægni hefur í gegnum aldirnar fylgt orðum Jesú og hrint þeim í framkvæmd, þá er raunin sú að framlag þess til mannúðar og menningar, lærdóms og lista í heiminum er ómetanlegt og verður ekki mælt – enda þótt guðleysingjar á borð við Richard Dawkins telja sig geta strokað út þeirra hlut í sögunni með nokkrum setningum í bók.

En í þessu samhengi hafa guðleysingjar líka tilhneigingu til að líta framhjá sögulegum þætti sinnar eigin lífsskoðunar. Það hefur vissulega verið gerð tilraun til þess að útrýma trúarbrögðum og koma á fót samfélagi sem byggir á guðlausri hugmyndafræði. Nægir þar að hugsa til Stalíns í Sovétríkjunum, Maós í Kína og Pol Pots í Kambódíu. En leiddi sú tilraun til hins fullkomna, upplýsta og framfarasinnaða samfélags þar sem umburðarlyndi og náungakærleikur var allt í öllu og illska, hörmungar og þjáningar heyrðu sögunni til? Nei, þvert á móti. Tugir og aftur tugir milljóna manna týndu lífinu í gúlaginu, í menningarbyltingunni og á vígvöllum rauðu khmeranna, og þegar yfir lauk reyndist 20. öldin, sem átti að marka endalok trúarbragða, vera blóðugasta öld mannkynssögunnar.

Aleksander Solzhenitsyn, sem komst lífs af úr gúlaginu, tók til orða með afdráttarlausum og ögrandi hætti:

„Ef ég væri í dag beðin um að koma eins skýrum orðum og mögulegt er að ástæðunni á bak við hina hörmulegu uppreisn sem gleypt hefur um 60 milljónir af fólkinu okkar, þá gæti ég ekki gert betur en að segja: Menn hafa gleymt Guði! Það er ástæðan fyrir öllu því sem hefur gerst. Og væri ég beðin um að greina megineinkenni gjörvallrar 20. aldarinnar gæti ég ekki sagt neitt sem væri réttara eða afdráttarlausara en það: Menn hafa gleymt Guði! Andspænis hinum vanhugsuðu væntingum síðastliðinna tveggja alda, sem hafa máð út mikilvægi okkar, og komið okkur hársbreidd frá kjarnorkudauða og annars konar dauða, getum við ekki lagt neitt til annað en einbeitna leit að hlýrri hönd Guðs, sem við höfum svo fljótfærnislega og af svo miklum sjálfbirgingshætti slegið á móti. Aðeins þannig getum við opnað augu okkar fyrir mistökum þessarar óheilla aldar með það að marki að leiðrétta þau. Það er ekkert annað að finna sem nokkuð hald er í: Sýn allra hugsuða Upplýsingarinnar til saman er einskis nýt þegar allt kemur til alls.“

Margir guðleysingjar gera sitt besta til að sýna fram á að ofbeldi, grimmd, stríð og þjáning sé kjarni kristinnar trúar og það eina sem beri henni vitni í sögunni. Á sama tíma loka þeir augunum fyrir sögu guðleysisins. Slíkt viðhorf er hins vegar eins sögulega rangt og það er fráleitt.

Kjarni kristinnar trúar er Jesús Kristur, sem kallaði hina hógværu, miskunnsömu, hjartahreinu og friðflytjandi sæla; sem hvatti sérhvern til að vera skjótan til sátta við andstæðing sinn og ekki rísa gegn þeim sem gerir sér mein, heldur elska óvin sinn eins og sjálfan sig og biðja fyrir ofsækjendum sínum.

Þótt trú eða vantrú hafa ekkert að gera með getu okkar til að lifa siðferðilega góðu lífi er vert að spyrja sig hvort sé líklegra til þess að efla manninn í viðleitni sinni til að skapa frið og samlyndi í heiminum, boðskapur á borð við þann sem Jesús flytur, eða boðskapur guðleysingja á borð við Richard Dawkins, sem leggur áherslu á að lífið og tilveran sé „einmitt eins og við má búast, ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun [þ.e. Guð], enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti.“

En hvert sem svar okkar er þá ber okkur að berjast gegn blindri hugmyndafræði sem tekur ofbeldi og ofríki í þjónustu sína, hvort heldur sú hugmyndafræði byggist á trú eða vantrú.

Flokkar: 20. öldin · Guðleysi · Guðstrú · Heimsskoðun · Kommúnismi · Kristin trú · Richard Dawkins · Trúarbrögð

Sunnudagur 25.2.2018 - 16:44 - FB ummæli ()

Í stuttu máli sagt

Trúmálaumræðan er fjölskrúðugur skógur og áhugaverður. Hér eru dæmi um staðhæfingar sem ekki er óalgengt að heyra – og örstuttar athugasemdir við þær!

Þú trúir ekki á Þór, Seif og alla hina guðina. Ég geng bara einu skrefi lengra en þú og hafna hinum kristna Guði!

Svokallaðir guðir á borð við Þór og Seif eru á engan hátt sambærilegir við Guð kristinnar trúar, eins hann kemur fram í Biblíunni. Þessir „guðir“ eru afleiðingar einhvers annars efnislegs veruleika. Guð Biblíunnar orsakaði allan hinn efnislega og náttúrulega veruleika, þ.e. alheiminn.

Vísindi hafa útskýrt allt (eða munu útskýra allt) og þau gera ekki ráð fyrir Guði!

Vísindi eru bundin af hinum efnislega og náttúrulega veruleika og geta eðli málsins samkvæmt ekki gert ráð fyrir Guði (það þýðir þó ekki að niðurstöður/vitnisburður vísinda gefi ekki góðar ástæður til að ætla  Guð sé til). En vísindi geta ekki heldur útskýrt allt, eða svarað öllum spurningum, t.d. spurningum um uppruna og siðferði svo dæmi sé tekið. Ennfremur eru til fleiri tegundir af útskýringum en hin vísindalega, eins og persónuleg útskýring. Guð keppir ekki við vísindi sem útskýring á uppruna alheimsins frekar en Henry Ford keppir við lögmál vélfræðinnar og eðlisfræðinnar sem útskýring á uppruna Ford T bílsins.

Vísindi og Guð eru andstæður!

Til eru dæmi um „guðsskilning“ sem er andvísindalegur, en það á ekki við hinn kristna skilning á Guði. Sumir „guðir“ hafa verið fundnir upp til að útskýra það sem við skiljum ekki, en þeir eiga ekkert skylt við kristna trú. Ef valið stendur á milli vísinda og „guðs“ þá er það ekki hinn kristni Guð sem um er að ræða. Guð kristinnar trúar er ekki að finna í þekkingarholum. Hann er á bak við allt, bæði það sem við vitum (m.a. í krafti vísinda) og það sem við vitum ekki. En ef við skilgreinum Guð fyrirfram sem þekkingarfræðilega uppfyllingu þá segir sig sjálft að valið stendur á milli Guðs og vísinda. Kristin trú hafnar slíkum skilningi og hefur alltaf gert það.

Þú getur ekki sannað tilvist Guðs!

Til eru ólíkar gerðir af „sönnunum“. Í ströngum vísindalegum eða stærfræðilegum skilningi er ekki hægt sanna tilvist Guðs. En enginn hugsandi kristinn einstaklingur heldur öðru fram. Fæst af því sem við vitum verður sannað í þeim skilningi. En „sönnun“ getur einnig verið fólgin í því að sýna fram á eitthvað umfram „skynsamlegan vafa“. Þá er um að ræða rök sem byggja á sennilegum forsendum (sem sóttar eru í þekkingu okkar, upplifun og reynslu) sem leiða röklega til niðurstöðu sem er líklegri en andstæða hennar. Rök fyrir tilvist Guðs eru af þeim toga.

Trú er að gangast við einhverju án nokkurra sannanna!

Kristin trú hefur alltaf snúist um sannanir, þ.e.a.s. vitnisburð og rök. Guðspjöllin voru skrifuð sem vitnisburður, eins og fram kemur í upphafi Lúkasarguðspjalls. Í lok Jóhannesarguðspjalls segir: En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni. (Jóh 20:31) Það er vinsælt hjá guðleysingjum að tala um trú sem viðhorf sem ekki byggist á sönnunum. Hið rétta er að trú er fólgin í trausti til þess sem við höfum góða ástæðu til að ætla að sé satt. Og það á við um kristna trú. Raunar trúa allir í þeim skilningi, óháð því hverju trúin beinist að, hvort sem það er tilvist Guðs eða hversdagslegir hlutir.

Trú er ranghugmynd. Ég mundi ekki trúa á Guð frekar en tannálfinn, jólasveininn eða hið fljúgandi spagettískrímsli!

Ég þekki fólk sem á fullorðinsaldri gekkst við tilvist Guðs. Ég hef aldrei hitt neinn sem á fullorðinsárum sannfærðist um tilvist tannálfsins. Upphrópanir á borð við þessa (sem Richard Dawkins og fleiri eru afar hrifnir af) eru ekki nothæfar til annars en að hæðast að trúuðu fólki. Stephen Hawking sagði eitt sinn: Trúarbrögð eru ævintýri fyrir fólk sem er hrætt við myrkrið. Einhver svaraði: Guðleysi er ævintýri fyrir fólk sem er hrætt við ljósið. Önnur eins ummæli minna á að staðhæfingar vísindamanna og vísindalegar staðhæfingar fara ekki alltaf saman. Og hvorugar þessara staðhæfinga sanna eitt né neitt. Á bak við þær er hin freudíska hugmynd um óskhyggju, þ.e. að við trúum bara því sem við viljum að sé satt. Og það má segja um guðstrú að því gefnu að Guð sé ekki til. En hið sama má segja um guðleysi að því gefnu að Guð sé til. En hvort Guð er til eða ekki er allt önnur spurning sem hefur ekkert með óskhyggju að gera til eða frá.

Siðferðilega er Biblían rit af verstu sort!

Margir guðleysingjar telja Biblíuna siðferðilega gjaldþrota. En burtséð frá því sem segja má um einstaka frásagnir Biblíunnar á hvaða grundvelli fella þeir slíka dóma? Sú niðurstaða sem Richard Dawkins dregur af guðleysi er flestum kunn: „Í alheimi blindra efnislegra lögmála náttúrunnar og erfðafræðilegrar fjölföldunar verða sumir hart leiknir en aðrir hafa heppnina með sér og þú finnur hvorki ástæðu á bak við það né réttlæti. Alheimurinn, eins og hann blasir við, er einmitt eins og við má búast, ef það er þegar öllu er á botninn hvolft engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“ Ef það er satt hvernig getur Dawkins þá fellt siðferðilega dóma um nokkurn skapaðan hlut? Hann segir að trú sé rót alls ills! En á sama tíma þurrkar hann með öllu út muninn á réttu og röngu, og raunar hina siðferðilegu vídd lífsins yfirleitt. Það er ekkert vit í því.

Ef allt á sér orsök þá hlýtur Guð að eiga sér orsök!

Ýmsir byggja guðleysi sitt á því að ef Guð er til þá hljóti hann að eiga sér orsök. En um leið og maður spyr „Hver skapaði Guð“ gerir maður ráð fyrir því að Guð sé þessháttar veruleiki sem á sér orsök. „Guðir“ sem eiga sér orsök, þ.e.a.s. eru búnir til, kallast venjulega skurðgoð og þeim eru undantekningalaust hafnað í Biblíunni og af kristinni trú. Eingöngu það sem verður til, þ.e. á sér upphaf, á sér orsök. Guð varð hins vegar aldrei til. Hann er hin eilífa og nauðsynlega orsök alls annars en sjálfs sín. Spurningin um orsök á bara við um það sem á sér upphaf og er því orsakanlegt. Í ljósi þess að alheimurinn er ekki eilífur er fyllilega eðlilegt og viðeigandi að spyrja hver orsakaði eða skapaði alheiminn. En sú spurning á ekki við þegar Guð er annars vegar.

Flokkar: Efi · Guð · Guðleysi · Guðstrú · Trúmál

Þriðjudagur 20.2.2018 - 16:14 - FB ummæli ()

Topp fimm ástæður fyrir því að trúa á tilvist Guðs! Nokkrum athugasemdum svarað

Trú og tilvist Guðs er umræðuefni sem hreyfir við mörgum, ekki síður þeim sem trúa að Guð sé ekki til. Í nýlegri grein sem birtist á Stundinni, Topp fimm ástæður fyrir því að trúa á tilvist Guðs, fór ég nokkrum orðum um grein Snæbjörns Ragnarssonar, Topp 5 ástæður fyrir því að við verðum að kljúfa Þjóðkirkjuna frá ríkinu. Í grein minni ræddi ég einkum síðustu ástæðuna sem Snæbjörn tilgreindi – þá að Guð sé ekki til. Lagði ég fram nokkrar röksemdarfærslur af heimspekilegum toga sem byggja á forsendum sem sóttar eru í þekkingu okkar á lífinu sem og reynslu okkar og upplifun af því og leiða til niðurstöðu sem bendir til þess að Guð sé til. Þó ekki sé um sannanir að ræða í vísindalegum skilningi þá er um að ræða gildar og áleitnar röksemdarfærslur sem margir af stærstu hugsuðum sögunnar hafa aðhyllst og staðið vörð um, allt frá dögum hinna forngrísku heimspekinga til margra þekktustu heimspekinga og vísindamanna dagsins í dag.

Ýmsar áhugaverðar athugasemdir voru lagðar fram við greininni sem vert er að skoða enda gefa þær tilefni til þess að bæta ýmsu við sem ekki var pláss fyrir í greininni sjálfri. Ég þakka fyrir þær og leyfi mér að svara nokkrum af þeim hér.

„Guð er vissulega til, en það er talsvert mikil fullyrðing að segja að hann eigi sér tilvist utan hugar hins trúaða. Tilvist Guðs „í raunheimum“ er með öllu ósannanleg og í hugum margra svo verulega ólíkleg að þarf talsvert meira en margtuggin rök guðfræðingsins. En ég giska á að hann hljómi sannfærandi í huga þeirra sem trúa, því fátt vantar trúuðum meira en réttlætingu trúar sinnar. Og auðvitað breytir skoðun trúaðra á tilvist Guðs engu um aðskilnað ríkis og kirkju, enda eru trúaðir í miklum minnihluta eins og fjölmargar kannanir sýna, og Þjóðkirkjan er á góðri leið með að gera sjálfa sig að jaðarfyrirbæri.“

Hér veltur mikið á því hvað átt er við með orðinu ósannanleg. Vissulega er tilvist Guðs ósannanleg ef sönnun er lögð að jöfnu við hundrað prósent vissu. En það er ekki áhyggjuefni, því slíkur þekkingarfræðilegur mælikvarði er ónothæfur. Nánast ekkert sem við teljum okkur vita er unnt að vita upp að því marki. Það er eingöngu á sviði stærfræði og rökfræði sem tala má um sannanir í slíkri merkingu. En til að röksemdarfærsla sé góð og sannfærandi þarf niðurstaðan alls ekki að vera hundrað prósent örugg heldur líklegri en andstæða hennar. Ef ósannanleg þýðir að ekki séu til gild rök sem benda til þess að Guð sé til þá er einfaldlega gengið út frá því fyrirfram og það án réttlætingar eða tilraunar til að rökstyðja þá fullyrðingu. Í raun virðist ofangreind athugasemd ekki fólgin í öðru en persónulegri sannfæringu guðleysingjans. Engin tilraun er gerð til að hrekja rök fyrir tilvist Guðs eða leggja fram rök gegn tilvist hans.

Hvað varðar þá staðhæfingu að trúað fólk sé mikill minnihlutahópur má velta vöngum yfir samanburðinum. Nýleg alþjóðleg könnun (sjá Oxford Handbook of Atheism) áætlar að fjöldi guðleysingja sé um 7% af fólksfjölda heimsins (og eru börn þá undanskilin). Samkvæmt nýlegri könnun Siðmenntar játa rétt tæplega 70% Íslendinga kristna trú. Samkvæmt sömu könnun trúa 61% aðspurðra á Guð. Þetta eru út af fyrir sig áhugaverðar tölur, og til eru ýmsar trúarlífskannanir sem áhugavert er að skoða. En niðurstöður kannana hafa ekkert með tilvist Guðs að gera. Jafnvel þótt hvert mannsbarn tryði á Guð þá þýddi það ekki að Guð væri til. Hið sama á við ef heimsbyggðin væri full af guðleysingjum. Það mundi ekki þýða að Guð væri ekki til.

„Hvaða guð? Það gleymdist að taka það fram.“ og „ … ef yfirnáttúrulegur veruleiki er eina svarið sem þú kemur auga á, af hverju þá Guð, af hverju ekki Fljúgandi Spagettískrímslið?“

Já, af hverju Guð? Guð er yfirnáttúrulegur veruleiki samkvæmt öllum hefðbundnum og eðlilegum skilningi á því hugtaki. Hugtakið Guð gæti ekki í nokkrum skilningi náð yfir náttúrulegan eða efnislegan veruleika af nokkru tagi.

Hvaða Guð? Þær röksemdafærslur sem ég lagði fram leiða í sameiningu líkum að því að til er yfirnáttúrulegur veruleiki handan tíma, rúms, efnis og orku sem ekki er orsakaður af neinu öðru heldur er til af hreinni nauðsyn, og er eilífur, rýmislaus, óefnislegur, óbreytanlegur og ótrúlega máttugur og persónulegur skapari alls annars, höfundur og hönnuður lífsins og grundvöllur og uppspretta algildra siðferðisboða og gilda.

Með þetta í huga gildir vitanlega einu hvaða heiti við gefum þessum veruleika. Ef einhver vill kalla hann fljúgandi spagettískrímsli fremur en Guð er það mér að meinalausu. En vandasamt er að sjá í hvaða skilningi slíkt viðhorf gæti flokkast undir guðleysi. Það væri afar undarlegt guðleysi í öllu falli.

Röksemdafærslurnar draga með öðrum orðum upp nokkuð almenna guðsmynd sem eingyðistrúarbrögð heimsins eiga sameiginlega. Til er Guð sem er orsök og grundvöllur alls veruleika utan sjálfs síns. Þó ekki sé hér um hinn þríeina Guð kristinnar trúar að ræða fellur ofangreind guðsmynd vissulega undir skilning Biblíunnar á Guði, þótt ýmislegt fleira sé sagt þar um Guð og eðli hans.

„Þörfin er að hafa einhvern annann til að kenna um það sem miður fer.“

Hér er látið að því liggja að trúin á Guð sé fólgin í einhverskonar sálfræðilegri þörf af einum eða öðrum toga. Margir hafa útskýrt þörf mannsins til að trúa á Guð eftir þeim leiðum og fara þar að dæmi Freuds og fleiri. Trú sé ekkert annað en óskhyggja til þess að létta okkur lífið og hjálpa okkur að sættast við eigin hverfulleika og erfiðleika í lífinu, eða eitthvað slíkt.

Og hvað ef svo er? Hvaða ályktanir drögum við af því? Að Guð sé ekki til? Að það sé óhugsandi að Guð sé til? Ef það er niðurstaðan þá er einfaldlega ekkert röklegt samhengi á milli hennar og forsendanna sem gengið er út frá. Og jafnvel þótt óskhyggja hefði eitthvað með það að gera hvers vegna fólk trúir á Guð (og ég neita því alls ekki að óskhyggja hafi eitthvað að segja þegar kemur að trú og vantrú) þá segir það alls ekkert um tilvist Guðs á hvorn veginn sem er. Það segir í besta falli eitthvað um það hvernig fólk er sálfræðilega innréttað.

Fólk finnur trú (og vantrú) eftir margbreytilegum leiðum og þar spilar margt inn í og hefur áhrif. En ef einhver telur sig geta ógilt guðstrú á þeirri forsendu að um óskhyggju sé að ræða eða einhverskonar sálfræðilega þörf af einum eða öðrum toga þá verður hinn sami uppvís að heldur bagalegri en algengri rökleysu. Nefnilega þeirri að reyna að hrekja eða ógilda viðhorf eða trú á grundvelli þess hvernig hún er tilkomin eða hvernig maður hefur tileinkað sér hana. Vandinn er að annað hefur einfaldlega ekkert með hitt að gera í neinum röklegum skilningi.

„… ef tilvist alheimsins útheimtir skapara, handan tíma og rúms, þarfnast tilvist slíkrar veru ekki útskýringar?“

Nei, svo er ekki! Á bak við þessa athugasemd er hin gamalgróna spurning Hver skapaði Guð. Hún byggir hins vegar á misskilningi. Heimsfræðirökin ganga ekki út frá því að allt sem til er eigi sér orsök og kalli þar af leiðandi á útskýringu. Eingöngu það sem verður til, þ.e. á sér upphaf, á sér orsök. Guð varð hins vegar aldrei til. Hann er ekki orsakaður af einhverju öðru og á sér því ekki upphaf. Hann er til af nauðsyn, sem þýðir að hann getur ekki átt sér orsök. Spurningin hver skapaði eða orsakaði Guð á því ekki við og er í raun merkingarlaus. Við gætum allt eins spurt hversu þung a moll nóta er. Spurningin um orsök á bara við um það sem á sér upphaf og er því orsakanlegt. Í ljósi þess að alheimurinn er ekki eilífur er fyllilega eðlilegt og viðeigandi að spyrja hver orsakaði eða skapaði alheiminn. En sú spurning á ekki við þegar Guð er annars vegar.

Við þetta má bæta að til þess að fallast á tiltekna útskýringu er alls ekki nauðsynlegt að geta útskýrt útskýringuna. Augnabliks íhugun sýnir það. Það er fyllilega eðlilegt og skynsamlegt að útskýra ævaforna leirmuni sem finnast í jörðu með því að vísa til einhvers hóps af fólki sem bjó þá til og notaði, enda þótt við vitum að öðru leyti ekkert um það fólk og getum með engu móti útskýrt veru þeirra og tilvist. Sú fullkomnunarárátta að hafna útskýringu nema hægt sé að útskýra sjálfa útskýringuna mundi gera það að verkum að ekkert yrði nokkurn tíma útskýrt. Það mundi líka gera út um vísindi.

„Ég held að þú og mjög margir misskiljið trúleysi, ég trúi ekki á guð, vegna þess að það er ekkert sem gefur tilefni til þess að trúa á guð … “

Já, þannig taka margir til orða í dag og fara þar að dæmi guðleysingja á borð við Richard Dawkins og fleiri. Með öðrum orðum er ég ekki guðleysingi af því að ég hafna því að Guð sé til heldur vegna þess að ekkert bendir að mínu mati til þess að Guð sé til. (Ég geng út frá því að með trúleysi sé átt við guðleysi.)

En með því er hin hefðbundnu merkingu hugtaksins guðleysi augljóslega skilgreind á nýjan hátt.

Það er vissulega röklegur munur á því segja „Ég trúi að Guð sé ekki til“ annars vegar og „Ég trúi ekki á Guð“ (af því að ekkert bendir til að hann sé til o.s.frv.) hins vegar. En misskilningurinn liggur að mínu mati hjá þeim sem kallar síðarnefnda viðhorfið guðleysi. Í réttri og hefðbundinni merkingu er guðleysi fólgið í því viðhorfi að Guð sé ekki til. Það felur ekki í sér vöntun á öðru viðhorfi, nefnilega því að trúa á Guð. Guðleysingi er sá sem fellst á þá staðhæfingu að Guð sé ekki til. Guðleysingi er í réttum skilningi sá sem hafnar því að Guð sé til. Með það í huga er síðarnefnda viðhorfið – Ég trúi ekki á Guð – ekki eiginlegt viðhorf sem er annað hvort rétt eða rangt, heldur miklu fremur lýsing á sálfræðilegu eða persónulegu hugarástandi viðkomandi, eins gott og gilt sem það annars er.

Eins og athugasemdin ber með sér halda margir guðleysingjar því fram að á meðan engar „sannanir“ liggi fyrir sem sýni fram á tilvist Guðs (og hvað telst til sannana er oftar en ekki þeirra að ákveða) þá sé eðlilegt að ganga út frá því að Guð sé ekki til. Í þeim skilningi er guðleysi nokkurskonar sjálfvirk eða sjálfgefin afstaða, og það er eingöngu hinn trúaði sem ber „sönnunarbyrðina“. Það er hans að sanna eða sýna fram á að Guð sé til. Þangað til er guðleysinginn sjálfur stikkfrír. En það er augljós misskilningur, því sá sem staðhæfir „Guð er ekki til“ gerir jafnmikið tilkall til þess að vita eitthvað og sá sem staðhæfir „Guð er til“. Guðleysinginn ber því sína eigin byrði þegar kemur að því að réttlæta þá staðhæfingu að Guð sé ekki til. Sá eini sem ekki þarf að réttlæta neitt er efahyggjumaðurinn sem segir „Ég veit ekki. Ég trúi ekki á Guð. Guð gæti verið til eða hann gæti ekki verið til. Ég hreinlega veit það ekki. Og þess vegna trúi ég ekki á Guð.“ Nú er ekkert athugavert við heiðarlega efahyggju, en betra er að kalla hlutina réttum nöfnum.

En í þessu ljósi verður kannski skiljanlegt hvers vegna mörgum guðleysingjum er í mun að þynna út viðhorf sitt og endurskilgreina það með þessum hætti. Ef litið er á guðleysi sem eiginlegt viðhorf, nefnilega það viðhorf að Guð sé ekki til, þá hljóta þeir að þurfa leggja fram rök sem réttlæta það. Vissulega gera sumir tilraun til þess, en margir gangast við því að ekki sé unnt að sanna að Guð sé ekki til. Af þeim sökum endurskilgreina þeir guðleysi og segja það einungis fólgið í því að „trú[a] ekki á guð, vegna þess að það er ekkert sem gefur tilefni til þess að trúa á guð … “ En slíkt viðhorf er ekki guðleysi í hefðbundnum skilningi. Í því er misskilningurinn fólginn.

„Áhugaverð grein þar sem forsendur fyrir röksemdarfærslum eru þó valdar eftir hentugleika höfundar. Þegar tilvist guðs er rökstudd með heimspekilegum vangaveltum má benda á að þetta fyrirbæri einkennist einnig af illsku, vanmætti og skeytingaleysi. Ýmist getur það ekki komið í veg fyrir þjáningar sköpunarverka sinna, stendur á sama um þær eða vill viðhalda þeim.“

Ekki veit ég hvað átt er við þegar sagt er að forsendur röksemdafærslanna séu valdar eftir hentugleika, eða hvaða þýðingu það á að hafa þegar kemur að gildi þeirra og niðurstöðu. Þær röksemdafærslur sem ég lagði fram eru svokallaðar aðleiðslur. Aðleiðsla er röksemdarfærsla sem leiðir óhjákvæmilega til sannrar niðurstöðu að því gefnu að forsendurnar eru sannar og reglum rökfræðinnar er fylgt. Með öðrum orðum getur niðurstaða aðleiðslu ekki verið ósönn ef forsendur hennar eru sannar. Hverjar eða hvaðan forsendurnar koma hefur ekkert að segja í því samhengi og hefur enga þýðingu. Dæmi um aðleiðslu er þessi útgáfa af heimsfræðirökunum:

(1) Allt sem verður til á sér orsök.
(2) Alheimurinn varð til.
(3) Alheimurinn á sér orsök.

Hér leiðir niðurstöðuna óhjákvæmilega og röklega af forsendunum. Og að því gefnu að forsendurnar eru sannar (óháð því hvaðan þær koma) getur niðurstaðan ekki verið ósönn.

Hvað seinni hluta athugasemdarinnar varðar þá verðskuldar hann mun lengra svar en unnt er að veita hér, enda þar um gríðarlega mikilvæga og vandmeðfarna spurningu að ræða.

Fyrir mörgum er illska og þjáning heimsins augljós staðfesting á því að Guð sé ekki til. Ég hef mikinn skilning á því og geri á engan hátt lítið úr þeirri afstöðu, enda hef ég ekki frekar en aðrir komist undan því að glíma við spurninguna um Guð og illskuna. Og hún er ekki einföld á neinn hátt.

Margir segja að algóður og almáttugur Guð mundi aldrei leyfa tilgangslausa illsku eða þjáningu. Og í ljósi allrar þeirrar tilgangslausu illsku og þjáningu sem fyrirfinnst í heiminum getur ekki verið að Guð sé til, a.m.k. ekki í hinum hefðbundna skilningi.

En í formlegum röklegum skilningi gengur þessi röksemdarfærsla ekki upp – og er það almennt viðhorf heimspekinga í dag. Á bak við hana er nefnilega að finna þá ósögðu staðhæfingu að ef eitthvað virðist tilgangslaust fyrir mér þá hljóti það að vera tilgangslaust í raun og veru. En það er of stórt stökk. Þótt við getum ekki séð eða komið auga á ástæðuna fyrir því að Guð leyfi einhverju að gerast þá þýðir það ekki að engin ástæða sé fyrir hendi. Sá sem heldur hinu gagnstæða fram hefur tekið á sig svo þunga sönnunarbyrði að hann getur með engu móti axlað hana. Í raun gerir hann tilkall til þekkingar sem einungis Guð getur búið yfir.

En þótt illska og þjáning feli ekki í sér röklega sönnun fyrir guðleysi þá þýðir það ekki að við getum lokað augunum eins og ekki sé um mikla og þunga áskorun að ræða fyrir trúað fólk. En guðleysingjanum hættir til að gleyma að hann stendur frammi fyrir sama vanda, þó með öðrum hætti sé: Hvaðan fékk hann þá hugmynd að þjáning, ranglæti, erfiðleikar og margvíslegar hörmungar og raunir eigi ekki að vera hluti af lífinu? Ef við erum ekkert annað en tilviljanakennt efni á valdi blindra náttúrulögmála og vélrænnar þróunar í tilgangslausum alheimi án merkingar hvað gæti þá verið eðlilegra en einmitt það? Á hvaða forsendum byggir guðleysinginn þá kröfu sína að tilgangslaus þjáning og illska geti ekki eða eigi ekki að vera til? C.S. Lewis spurði sig að þessu mitt í glímu sinni við guðleysið og trúna:

„Rökin mín gegn Guði voru þau að alheimurinn virtist svo grimmur og ranglátur. En hvernig hafði ég fengið þessa hugmynd um réttlæti og ranglæti? Maður segir ekki að lína sé bogin nema hafa einhverja hugmynd um hvað bein lína er … Hvað var ég að bera heiminn saman við þegar ég kallaði hann ranglátan … Ég hefði að sjálfsögðu getað gefið hugmyndina um réttlæti upp á bátinn með því að segja að hún var bara persónulegir dyntir í mér. En ef ég gerði það þá hefðu rökin mín gegn Guði einnig fallið um sig sjálf, því þau grundvölluðust á því að segja að heimurinn var í raun og veru ranglátur, en ekki bara að hann félli ekki að persónulegum duttlungum mínum … Guðleysi er því of einfalt.“

Hvernig getur guðleysinginn, með öðrum orðum, sagt að hinn náttúrulegi veruleiki sé raunverulega óréttlátur og uppfullur af illsku án þess að gera ráð fyrir einhverjum mælikvarða handan náttúrunnar sem hann grundvallar fullyrðingu sína á? Eins og Richard Dawkins viðurkennir er alheimurinn „einmitt eins og við má búast, ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun [þ.e. Guð], enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti.“ Með öðrum orðum er ekki hægt að tala um raunverulega illsku og óréttlæti ef Guð er ekki til og saga lífsins ekkert annað en saga efnis á valdi blindra lögmála. Raunveruleg illska og ranglæti passa ekki inn í guðlauan veruleika – eins og Dawkins áréttar. Þau geta aðeins verið til ef okkur er ætlað og skylt að lifa á vissan hátt, ef lífinu er ætlað að vera með tilteknum hætti. En guðlaus veruleiki býður ekki upp á þá forsendu.

En hvað býður kristin trú upp á? Hvað hefur kristinn maður? Hann hefur krossinn. Hann hefur Jesú Krist. Þótt kristin trú gefi okkur ekki endanlegt svar við spurningunni hvers vegna Guð leyfir illsku og þjáningu þá minnir hún okkur á að Guð er ekki fjarlægur veruleiki sem stendur á sama um okkur. Nei, þvert á móti. Guði er svo umhugað um aðstæður okkar, þjáningu okkar og erfiði í lífinu að hann gekk sjálfur inn á vettvang lífins og gerðist maður, tók á sig þjáninguna, upplifði illskuna, og fórnaði sjálfum sér okkar vegna – á krossinum. Svo mikið elskar hann okkur. Guð kristinnar trúar er Guð sem þekkir illsku, þjáningu og dauða af eigin raun. Hann er Immanúel, Guð með okkur. Og kristinn maður hefur líka upprisuna, sem minnir á að illska, þjáning og dauði eru ekki grunnstef tilverunnar heldur aðeins skammvinn þrenging sem bliknar í samanburði við eilífa lífið sem í vændum er, þar sem dauði, harmur, og kvöl er ekki lengur til, svo gripið sé til orðalags Biblíunnar.

„Innihaldið í þessari langloku má nokkurnvegin taka saman í: Ef þú veist ekki hvernig eitthvað virkar, þá hlýtur Guð að vera á ferðinni. Sem er skelfileg fáfræði. Skyldu trúræknir skiptast í tvo hópa: þá sem vita hvernig sjónvarpið virkar (út frá tæknilegu sjónarhóli) og síðan þá sem vita ekki hvernig það virkar og líta því á sjónvarpið sem sönnun um tilvist Guðs?“

Það er ekki nýtt að heyra að trú sé fólgin í litlu öðru en fáfræði og þekkingarskorti af hálfu hins trúaða. Margir líta svo á að að Guð sé ekkert annað en uppfyllingarefni í takmarkaða þekkingu mannsins, þ.e.a.s. að við bendum á Guð til þess að útskýra það sem við vitum ekki eða skiljum ekki og finnum honum stað þar sem vísindaleg útskýring er ekki til staðar. Ef svo er þá er nokkuð ljóst að eftir því sem vísindi útskýra meira verður minna pláss fyrir Guð.

Í þessu samhengi er oft litið á röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs sem hálfgerðar yfirbreiðslur: Það er engin vísindaleg útskýring á x, þess vegna er Guð orsökin á bak við x. En það er augljóslega byggt á miskilningi. Heimsfræðirökin, sem minnst var á hér að ofan, eru gott dæmi. Þar er um að ræða heimspekilega röksemdafærslu. Vitnisburður vísinda (Miklahvellskenningin) er ekki notaður til að réttlæta staðhæfinguna „Guð er til“ (sem er ekki einu sinni niðurstaða röksemdarfærslunnar) heldur til að styðja aðra forsenduna í röksemdarfærslunni, að alheimurinn eigi sér upphaf (sem er trúarlega hlutlaus staðhæfing). Hér er því alls ekki verið að reyna að koma Guði fyrir í einhverri eyðu sem vísindunum hefur ekki tekist að fylla uppí. Þvert á móti hefur kenningin um Miklahvell verið staðfest aftur og aftur með athugunum. Hér er því ekki byggt á einhverju þekkingarleysi heldur vísað til vísindalegrar niðurstöðu til að réttlæta eða styðja trúarlega hlutlausa forsendu í heimspekilegri röksemdarfærslu sem leiðir til niðurstöðu sem hefur trúarlega þýðingu. Hér er því alls ekki um neina holu-uppfyllingar-rök, ef svo má að orði komast.

En burtséð frá þessu byggir mótbáran á bjöguðum skilningi á Guði, sem á ekkert skylt við Guð kristinnar trúar. Samkvæmt kristinni trú er Guð ekki bara einn hlutur við hlið annarra, ef svo má segja. Nei, hann er orsakavaldurinn, sá sem er á bak við tjöldin, ef svo má segja. Hann er á bak við það sem við vitum og það sem við vitum ekki. Hann er hinn persónulegi skapari sem hannaði alheiminn, setti honum lögmál sín, og viðheldur tilvist hans öllum stundum. Guð felur ekki í sér vísindalega útskýringu á því hvers vegna pláneturnar sem snúast í kringum sólina haldast á brautum sínum, eða hvers vegna kjarni atómsins helst saman og á sínum stað. En af hverju plánetur sem snúast eftir föstum brautum eru til, atóm, eða eitthvað yfirleitt sem unnt er að útskýra á vísindalegan hátt, – það er allt önnur spurning, sem er handan sjálfra vísindanna. Jafnvel þótt við hefðum fullkomna og tæmandi vísindalega útskýringu á eðli alheimsins og gangverki náttúrunnar þá mundi það með engum hætti útiloka tilvist orsakavalds á bak við alheiminn sem skapaði hann og hannaði – ekkert frekar en tæmandi vísindalegur skilningur á því hvernig Ford T bíll virkar útilokar tilvist Henry Ford sem hugsaði upp og hannaði sjálfan bílinn.

„Bendi á eina góða ástæðu sem ætti að duga til að eyða öllum trúarbrögðum. Þar á ég við mannkynssöguna. Ekkert hefur stuðlað að meiri ófriði í sögunni, meiri drápum á fólki og allskyns hörmungum þesssu fylgjandi en einmitt trúarbrögðin.“

Já, saga trúarbragða, þar á meðal kristinnar trúar, er sannarlega ekki að öllu leyti glæsileg. Það viðurkenni ég og skammast mín fyrir sem kristinn maður. Þrátt fyrir allt hið góða sem hefur verið gert og komið til leiðar í nafni kristinnar trúar er augljóst að í skjóli hennar hefur líka þrifist mikil illska sem valdið hefur margvíslegri þjáningu. Í því samhengi þarf ekki annað en að hugsa til trúarofsókna, t.d. krossferða miðalda, og annars ofbeldis og óhæfuverka sem framin hafa verið í nafni kirkjunnar og kristinnar trúar. Og sem kristnum manni hryllir mér við því og tek undir með hverjum þeim sem fordæmir það.

Nú vil ég ekki tala máli annarrar trúar en minnar eigin. En það er enginn vafi á því að þeir sem beita ofbeldi, ofríki eða stunda ofsóknir í nafni kristinnar trúar ganga þvert gegn orðum og boðskap Jesú sjálfs. Ofbeldi í nafni kristinnar trúar getur aldrei verið kristið. Það er því mikilvægt að gera greinarmun á kristindómi eða kristnu fólki annars vegar og boðskap Jesú og kristinni trú hins vegar. Þar er því miður ekki alltaf um eitt og hið sama að ræða.

Að vera kristinn felur í sér að fylgja boðskap Jesú í orði og verki. Og Jesús talaði mjög skýrt gegn hverskyns ofbeldi og ofríki í sínu nafni. Þegar lærisveinninn Pétur greip til sverðsins til þess að vernda Jesú í Getsemanegarðinum sagði Jesús honum að leggja það frá sér með þeim orðum að sérhver sá sem sverði brygði mundi falla fyrir því. Jesús sagði líka fylgjendum sínum að leggja af hatur og óvild en elska óvini sína og biðja fyrir þeim. Og við Pílatus sagði hann að ríki sitt væri ekki af þessum heimi, ella hefðu fylgjendur hans barist. Framganga kristins fólks, eins dapurleg og sorgleg og hún getur verið, er því enginn dómur yfir boðskap Jesú eða kristinni trú sem slíkri, heldur til vitnis um það sem getur búið í hjarta og huga mannsins. Og ef sagan (sem og kristin trú) segir okkur eitthvað er það að maðurinn er ófullkominn. En ef allir vöknuðu á morgun staðráðnir í því að fara eftir orðum Jesú um náungakærleika og laga líf sitt að þeim þá mundi margt breytast í heiminum. Og þegar hugsað er til alls þess fólks sem raunverulega og í einlægni hefur í gegnum aldirnar fylgt orðum Jesú og hrint þeim í framkvæmd, þá er raunin sú að framlag þess til mannúðar og menningar, lærdóms og lista í heiminum er ómetanlegt og verður ekki mælt – enda þótt guðleysingjar á borð við Richard Dawkins telja sig geta strokað út þeirra hlut í sögunni með nokkrum setningum í bók.

En í þessu samhengi hafa guðleysingjar líka tilhneigingu til að líta framhjá sögulegum þætti sinnar eigin lífsskoðunar. Því það hefur vissulega verið gerð tilraun til þess að útrýma trúarbrögðum og koma á fót samfélagi sem byggir á guðlausri hugmyndafræði. Nægir þar að hugsa til Stalíns í Sovétríkjunum, Maós í Kína og Pol Pots í Kambódíu. En hvernig gekk það? Leiddi sú tilraun til hins fullkomna, upplýsta og framfarasinnaða samfélags þar sem umburðarlyndi og náungakærleikur var allt í öllu og illska, hörmungar og þjáningar heyrðu sögunni til? Nei, þvert á móti. Tugir og aftur tugir milljóna manna týndu lífinu í gúlaginu, í menningarbyltingunni og á vígvöllum rauðu khmeranna, og þegar yfir lauk reyndist 20. öldin, sem átti að marka endalok trúarbragða, vera blóðugasta öld mannkynssögunnar.

Aleksander Solzhenitsyn, sem komst lífs af úr gúlaginu, tók til orða með afdráttarlausum og ögrandi hætti:

„Ef ég væri í dag beðin um að koma eins skýrum orðum og mögulegt er að ástæðunni á bak við hina hörmulegu uppreisn sem gleypt hefur um 60 milljónir af fólkinu okkar, þá gæti ég ekki gert betur en að segja: Menn hafa gleymt Guði! Það er ástæðan fyrir öllu því sem hefur gerst. Og væri ég beðin um að greina megineinkenni gjörvallrar 20. aldarinnar gæti ég ekki sagt neitt sem væri réttara eða afdráttarlausara en það: Menn hafa gleymt Guði! Andspænis hinum vanhugsuðu væntingum síðastliðinna tveggja alda, sem hafa máð út mikilvægi okkar, og komið okkur hársbreidd frá kjarnorkudauða og annars konar dauða, getum við ekki lagt neitt til annað en einbeitna leit að hlýrri hönd Guðs, sem við höfum svo fljótfærnislega og af svo miklum sjálfbirgingshætti slegið á móti. Aðeins þannig getum við opnað augu okkar fyrir mistökum þessarar óheilla aldar með það að marki að leiðrétta þau. Það er ekkert annað að finna sem nokkuð hald er í: Sýn allra hugsuða Upplýsingarinnar til saman er engin þegar allt kemur til alls.“

Margir guðleysingjar gera sitt besta til að sýna fram á að ofbeldi, grimmd, stríð og þjáning sé kjarni kristinnar trúar og það eina sem ber henni vitni í sögunni. Á sama tíma loka þeir augunum fyrir sögu guðleysisins. Slíkt viðhorf er hins vegar eins sögulega rangt og það er fráleitt.

Kjarni kristinnar trúar er Jesús Kristur, sem kallaði hina hógværu, miskunnsömu, hjartahreinu og friðflytjandi sæla; sem hvatti sérhvern til að vera skjótan til sátta við andstæðing sinn og ekki rísa gegn þeim sem gerir sér mein, heldur elska óvin sinn eins og sjálfan sig og biðja fyrir ofsækjendum sínum.

Það er því vert að spyrja sig hvort sé líklegra til þess að efla manninn í viðleitni sinni til að skapa frið og samlyndi í heiminum, boðskapur á borð við þann sem Jesús flytur, eða boðskapur guðleysingja á borð við Richard Dawkins, sem leggur áherslu á að lífið og tilveran sé „einmitt eins og við má búast, ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun [þ.e. Guð], enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti.“

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Kristin trú · Lífsskoðanir · Rök fyrir guðleysi · Rök fyrir tilvist Guðs · Tilvist Guðs · Trú · Trúarbrögð

Miðvikudagur 7.2.2018 - 01:04 - FB ummæli ()

Topp fimm ástæður fyrir því að trúa á tilvist Guðs! Svar til Snæbjörns Ragnarssonar og annarra guðleysingja

Í nýlegri og áhugaverðri grein sem birtist hjá Stundinni þann 24. janúar sl. tíundaði Snæbjörn Ragnarsson hverjar eru að hans mati Topp 5 ástæður fyrir því að við verðum að kljúfa Þjóðkirkjuna frá ríkinu. Grein Snæbjörns er til marks um þá gagnrýni og oft á tíðum andúð sem þjóðkirkjan og kristin trú almennt mætir í samfélagsumræðunni í dag. Ekki er þó ætlunin að kryfja þá umræðu til mergjar hér. En samtalið er mikilvægt og getur með góðum vilja verið gagnlegt og lærdómsríkt. Og margt af því sem Snæbjörn snertir á í sinni stuttu grein er þess virði að hugleiða.

Á meðal ástæðanna sem Snæbjörn nefnir eru (1) hræsni kirkjunnar sjálfrar, (2) óþarfa peningasóun og (3) fáránlegur klæðaburður kirkjufólks.

Um þetta má sjálfsagt margt segja.

Ef hræsni merkir misræmi á milli orða, sannfæringar og trúar annars vegar og framgöngu og gjörða hins vegar þá ætti ekki að koma neinum á óvart að hana er að finna innan kirkjunnar, þó vitaskuld í mismiklum mæli. Svo hefur alltaf verið og mun því miður alltaf vera að einhverju leyti. Sjálfur er ég á engan hátt undanskilin í þeim efnum. Það er af því að fólk er fólk, og kirkjan er ekki annað en hópur af fólki með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir. Þetta hefur verið ljóst frá upphafi. Það þarf ekki annað en að fletta í Nýja testamentinu til að sjá það, t.d. í lærisveinum Jesú, eða á meðal kristins fólks í Korintu, svo dæmi sé tekið, þar sem hver höndin var uppi á móti annarri. Vitaskuld eykur það ekki hróður kristins fólks þegar það verður uppvíst af hræsni. Og það eykur sannarlega ekki tiltrú fólks á boðskap kristinnar trúar. En hræsni sem slík einskorðast að sjálfsögðu ekki við kirkjuna, og er kirkjan almennt eða trúað fólk ekki í sérflokki þegar hún er annars vegar. Hræsni er sammannlegt fyrirbæri og í þeim efnum verður hver að líta sér næst, hvort sem maður er trúaður eða ekki. Kristið fólk er, og hefur alltaf verið, og mun alltaf verða, ófullkomið fólk á svo margvíslegan hátt – eins og allt fólk er. Raunar gengur kristin trú út frá því að svo sé. Og þó það megi vissulega gagnrýna kristið fólk og kirkju fyrir ýmislegt þá er það heldur óraunhæft að ætla að hún sé eitthvað annað og meira en mannleg í þessum efnum. En burtséð frá því er hræsni kristins fólks, eða mannlegir brestir þess og gallar almennt, enginn dómur yfir boðskap Jesú frá Nasaret. Kristið fólk, sem er af misjöfnu tagi, er eitt. Boðskapur Jesú er annað. Og enginn hefur tekið jafn skýrt og sterkt til orða gegn hræsni og hverskyns tvöfeldni og Jesús sjálfur gerði. Af því geta allir lært, óháð trú.

Það er heldur ekki gott þegar peningum er illa varið. Undir það má sannarlega taka. En vissulega eru ólíkar skoðanir um það hvað rétt er að verja peningum í og í hverju raunveruleg og varanleg verðmæti liggja. Þjónusta og starf kirkjunnar, þó það fari öllu jafna ekki hátt, er víðfeðmt, fjölbreytt og öllum opið. Það yrði allt of langt mál að gera grein fyrir öllu því blómlega starfi og þeirri mikilvægu þjónustu sem fram fer innan kirkjunnar árið um kring víðsvegar um landið. Vissulega sjá ekki allir gildi þess og ekki taka allir þátt í því. En það er engin ný frétt og ekki ætlunin að rökræða það sérstaklega hér. Ekki ætla ég heldur að fjölyrða um stöðu eða rekstur þjóðkirkjunnar almennt, eða þann grundvöll sem hann hvílir á. Margt skynsamlegt hefur verið ritað um samning ríkis og kirkju, svo dæmi sé tekið, sem ekki er þörf á að endurtaka hér. Þeir sem áhuga hafa á þeirri umræðu þurfa ekki að leita langt í þeim efnum.

Hvað varðar klæðaburð kirkjunnar fólks, djákna, presta og biskupa, verður hver og einn að hafa sínar skoðanir. Amma mín kenndi mér snemma að dæma engan af útlitinu, eða leggja mat á fólk út frá því hvernig það er til fara. „Hrósa engum manni fyrir hans fríðleika og fyrirlít engan sakir hans útlits“, sagði hún og vitnaði í Síraksbók (Viðeyjarbiblía var Biblían hennar!). Það er góð regla að lifa eftir.

Nú veit ég ekki hvort Snæbjörn raðar ástæðum sínum eftir þýðingu og mikilvægi, en án þess að gera lítið úr öðru verð ég að viðurkenna að mér þykja tvær síðastnefndu ástæðurnar mun áhugaverðari en hinar fyrrnefndu: (4) Aukin þekking, annars vegar, einkum vísindaleg þekking, sem leyst hafi trúarbrögð af hólmi, og hins vegar að (5) Guð er ekki til, sem að mati Snæbjörns er „kjarni málsins“.

Nú vil ég ekki gera Snæbirni upp skoðanir af neinu tagi. En víst er að enginn skortur er á fólki sem telur að vísindin eigi (eða muni eiga) svar við öllum þeim spurningum sem hægt er eða vert er að spyrja. Þar skín í þá vísindahyggju sem alltof margir hafa gleypt við í dag, og það oftar en ekki án umhugsunar, þar sem þekking er einskorðuð við vísindalega þekkingu og sannleikurinn um lífið og tilveruna er lagður að jöfnu við eðlisfræðilegar formúlur. Vísindahyggja af slíkum toga er þó lítið annað en eftirstöðvar pósitívismans gamla, innistæðulausri heimspekistefnu frá fyrri hluta 20. aldar, þar sem gengið var út frá því að allt sem ekki var unnt að sannreyna í krafti vísinda væri með öllu merkingarlaust þvaður. En að því kom að einhver spurði hvort staðhæfingin „Þú skalt ekki trúa neinu öðru en því sem unnt er sanna í krafti vísinda“ væri staðhæfing sem unnt væri að sanna með vísindalegum hætti. Svarið var að sjálfsögðu nei.

Eins og eðlisfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Peter Medewar sagði er engin betri eða fljótlegri leið til að koma óorði á vísindi en að segja að þau eigi svar við öllum spurningum, og að þær spurningar sem þau svari ekki séu merkingarlausar. Augnabliks hugsun sýnir líka að vísindi eru takmörkuð, enda geta þau ekki svarað grundvallarspurningum er lúta að uppruna og merkingu tilverunnar, tilgangi lífsins og örlögum, eða hvað er gott og illt og rétt og rangt. Það minnir okkur á að vísindi spyrja takmarkaðra spurninga og geta ekki náð utan um eða útskýrt allt sem leitar á huga og hjarta mannsins eða er fólgið í reynslu hans og upplifun af lífinu.

Og á meðal þess, sem liggur handan þess er vísindin ná til, er vitaskuld spurningin um Guð.

„En Guð er ekki til“, staðhæfir Snæbjörn. Hann gerir þó enga tilraun til að færa rök fyrir staðhæfingu sinni (sem vitaskuld er ekki vísindaleg í eðli sínu heldur frumspekileg) heldur segist einfaldlega „aldrei [hafa] séð neitt sem bendir til þess að umræddur guð sé til“. Það hefur maður heyrt margoft áður. Nú veit ég ekki hvað teldist að mati Snæbjörns vera gild eða trúverðug ábending eða vísbending um tilvist Guðs. En hitt er rétt að hafa í huga að meint vöntun á slíkum vísbendingum er síður en svo vísbending um vöntun (þ.e.a.s. að Guð sé ekki til).

En bendir eitthvað til þess að Guð sé til? Er eitthvað að finna sem bendir til þess að ekki sé allt sem sýnist? Já, sannarlega. Og raunar fleira en eitt.

Hér eru fimm góðar ástæður fyrir því að við getum trúað á tilvist Guðs:

Tilvistin sjálf!

Burtséð frá öllu öðru er það staðreynd að eitthvað er til. Ég er til. Þú ert til. Umhverfið í kringum okkur er til. Alheimurinn er til. En hvers vegna er eitthvað til fremur en ekkert? Spurningarnar verða vart stærri eða dýpri. Hvaðan kemur tilvistin? Hún virðist á engan hátt sjálfsagður hlutur.

Ef ég dytti nú um bolta á morgungöngunni minni gæti ég velt vöngum yfir því af hverju boltinn var þarna og hvaðan hann kom. Ef göngufélagi minn segði mér að það væri alls enga útskýringu að finna á tilvist boltans mundi ég sennilega brosa út í annað af vantrú. Af engu kemur jú ekkert. Og það gildir einu hvort boltinn væri á stærð við epli, plánetu, stjörnuþoku, eða gjörvallan alheiminn. Stærð boltans mundi ekki breyta því að tilvist hans kallar á útskýringu.

Hið sama gildir um alheiminn, þ.e. gjörvallt tímarúmið og innihald þess. Eins og Platón minnti á fyrir löngu síðan hljótum að spyrja sömu spurningar um það og um allt annað. Hver orsök þess? Orsök alheimsins hlýtur að vera eitthvað sem er handan alheimsins sjálfs, handan tíma, rúms og efnis. Rétt eins og tilvist málverksins bendir til listamannsins bendir tilvistin sem slík til einhverrar orsakar, einhvers veruleika, handan hennar sjálfrar. Það bendir til þess að til sé einstök vera sem sker sig frá öllu öðru sem er til að því leyti að hún á sér ekki sjálf orsök en er orsök og uppspretta alls annars sem til er. Í ljósi þess að öll náttúruleg fyrirbæri eiga sér orsök hlýtur að vera til yfirnáttúrulegur veruleiki sem ekki er orsakaður af neinu öðru heldur er til af hreinni nauðsyn (annars kallaði hann á útskýringu) og er orsök alls annars.

En hvernig getur orsök sem er til af hreinni nauðsyn orsakað tilfallandi (þ.e. ónauðsynlegan) veruleika á borð við alheiminn. Eina svarið sem ég kem auga á er að álykta sem svo að orsakavaldurinn búi yfir vilja og geti í krafti hans ákveðið að skapa tilfallandi veruleika á borð við alheiminn. Með öðrum orðum að um sé að ræða persónulega og yfirnáttúrulega veru.

Upphaf alheimsins

En hvað með alheiminn? Hefur hann alltaf verið til, eða er hann eilífur? Hver hefur ekki horft upp fyrir sig og brotið heilann um það? Heimspekingurinn Bertrand Russel mælti á sínum tíma fyrir munn margra guðleysingja er hann sagði – það var raunar í frægri kappræðu um tilvist Guðs – að alheimurinn bara „væri“ og hefði sem slíkur alltaf verið til.

En hvernig má það vera? Ef þú biðir í óendanlega langri röð (þ.e. án upphafs og endis) þá kæmi eðli málsins samkvæmt aldrei röðin að þér. Í sama skilningi hefði dagurinn í dag (þ.e. núverandi augnablik) aldrei runnið upp ef óendanlega margir dagar (eða augnablik) þurftu að líða á undan honum – eins og raunin væri í eilífum alheimi. Með öðrum orðum hlýtur alheimurinn að eiga sér upphaf.

Sú ályktun nýtur nú ríkulegrar vísindalegrar staðfestingar í kenningunni um Miklahvell. Samkvæmt henni er alheimurinn alls ekki eilífur heldur varð hann til úr bókstaflega engu fyrir u.þ.b. 14 milljörðum ára. Með öðrum orðum á ekki bara allt efni og orka sér upphaf í Miklahvelli heldur beinlínis tíminn og rúmið sjálft. Fyrir Miklahvell var alheimurinn alls ekki til. Árið 2003 tókst þremur eðlisfræðingum beinlínis að sanna að sérhver alheimur sem hefur verið að þenjast út geti ekki verið eilífur heldur hafi hann orðið til og eigi sér því óumdeilanlegt upphaf.

Anthony Kenny orðaði vel vandann sem blasir við guðleysingjanum: „Fylgjandi kenningarinnar um Miklahvell, að minnsta kosti ef hann er guðleysingi, verður að trúa því að alheimurinn hafi orðið til af engu og vegna einskis.“

En hvaða vit er í því? Af engu kemur jú ekkert, eins og áður segir. Allt sem verður til á sér orsök. Líka alheimurinn! Og eðli málsins samkvæmt getur sú orsök ekki verið hluti af alheiminum sjálfum og hlýtur því að vera utan og ofan við tíma, rúm og efni. Hún getur ekki heldur átt sér orsök og hlýtur að vera eilíf, rýmislaus, óefnisleg, óbreytanleg og svo ótrú­lega máttug að hún gat skapað alheim­inn úr bókstaflega engu. Óháð því hvað við köllum slíka orsök þá erum hér við komin býsna langt frá guðleysinu.

Lífið sjálft

Lífið sjálft er annað sem bendir til þess að ekki sé allt sem sýnist. Ólíkt því sem áður var talið er nú vitað að tilkoma og þróun lífs í alheiminum er langt frá því að vera sjálfsagður hlutur. Raunar virðist það svo að hinar ótrúlega ströngu forsendur fyrir tilkomu lífs hafi með haganlegum og ótrúlega nákvæmum hætti verið komið fyrir strax í Miklahvelli. Það hefur verið nefnt „fínstilling“ alheimsins. Hún er fólgin í því að gildi hinna margvíslegu fasta náttúrunnar (t.d. heimsfastans, sterka og veika kjarnakraftsins, rafsegulkraftsins o.s.frv.), sem og upphafsástand alheimsins í Miklahvelli (t.d. upphaflegt óreiðumagn og útþennsluhraði alheimsins), fellur í hið ótrúlega smáa og þrönga bil sem gerir lífi kleift að koma fram og dafna. Með öðrum orðum mundi örminnsta breyting á þessum gildum gera tilkomu lífs óhugsandi.

Það virðist því sem alheimurinn hafi frá upphafi verið stilltur með nákvæmum hætti með það að marki að greiða fyrir tilkomu lífs.

Sem dæmi um þessa „fínstillingu“ má nefna að eðlisfræðingurinn P. C. Davies hefur reiknað út að breyting á styrk þyngdarkraftsins eða veika kjarnakraftsins um einn hluta af 10 í hundraðasta veldi hefði komið í veg fyrir lífvænlegan alheim. Heimsfastinn (sem er á bak við útþennslu alheimsins) er einnig óskiljanlega „fínstilltur“ upp að einum hluta af 10 í hundraðogtuttugasta veldi. Þá hefur eðlisfræðingurinn Roger Penrose reiknað út að líkurnar á því að hið lága óreiðumagn Miklahvells sé hrein tilviljun séu einn á móti 10 í tíunda veldi í hundraðtuttugastaogþriðja veldi (sem fyrir allt venjulegt fólk er óskiljanlega stór tala).

Francis Collins, sem leiddi kortlagninguna á genamengi mannsins, orðaði þetta vel:

„Þegar þú horfir á alheiminn út frá sjónarhóli vísindamannsins virðist sem alheimurinn vissi að við vorum væntanleg … Ef einhver einn af þessum föstum skeikaði um einn milljónasta hluta, eða jafnvel milljón milljónasta í sumum tilfellum, þá gæti alheimurinn ekki hafa tekið á sig þá mynd sem hann hefur gert. Efni hefði ekki getað bundist hvert öðru, stjörnuþokur hefðu ekki orðið til, ekki stjörnur, eða plánetur eða fólk.“

Við getum séð fyrir okkar fjöldann af skífum sem allar þurfa að vera stilltar af óskiljanlegri nákvæmni, hver og ein. Ef einni skífu skeikaði örlítið væri líf óhugsandi. En allar eru nákvæmlega rétt stilltar. Og líkurnar á því að svo sé eru svo óskiljanlega litlar að það verður ekki skrifað á einskæra tilviljun eða heppni. Í því samhengi biður heimspekingurinn John Leslie okkur að ímynda okkur mann sem dæmdur hefur verið til dauða fyrir glæp. Maðurinn er leiddur fram fyrir aftökusveit sem skipuð er 100 þaulæfðum og reyndum skyttum. Þær miða rifflunum beint í hjartastað á hinum dæmda manni og þegar skipunin er gefin hleypa þær af, allar sem ein. En þegar byssudrunurnar líða hjá gerir hinn dauðadæmdi maður sér grein fyrir því, sér til mikillar undrunar, að hann er enn á lífi. Enginn hafði hitt hann. Öll skotin geiguðu. Hvaða ályktun drögum við af því? Í ljósi þess hversu ótrúlega litlar líkur eru á því að allar skytturnar missi marks mundi okkur strax gruna að brögð væru í tafli og að skytturnar hafi skotið framhjá af ásetningi. Það væri fullkomlega óskynsamlegt að ætla annað. Og í ljósi þess hversu ótrúlega ólíkleg „fínstilling“ alheimsins er þá er það í sama skilningi fyllilega skynsamlegt að álykta að hún sé engin tilviljun heldur beri vitni um vilja og ásetning hönnuðar eða skapara.

Niðurstaða Arno Penzias, nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði, er eftirtektaverð í þessu samhengi. Að hans mati „leið[a vísindi] okkur fyrir sjónir einstakan atburð: Alheim sem skapaður var úr engu og er nákvæmlega stilltur á þau skilyrði sem nauðsynleg eru fyrir tilkomu lífs. Þegar litið er framhjá frámuna ólíklegri tilviljun má segja að athuganir nútímavísinda hreinlega beri vitni um guðlega fyrirætlun.“

Siðferðileg reynsla okkar og upplifun

Ef Guð er ekki til, og náttúruhyggjan gefur okkur rétta lýsingu á eðli veruleikans, í hvaða skilningi getum við þá talað um gott og illt, og rétt og rangt? Eru siðferðisgildi á borð við réttlæti, umburðarlyndi o.s.frv. hlutlæg og þar með hafin yfir persónulegar skoðanir og félagslegar venjur? Eða eru þau ekkert annað en tilviljanakenndur afrakstur þróunar og samfélagslegra skilyrðinga, og þar af leiðandi afstæð og háð persónulegum skoðunum og smekk hvers og eins?

Margir guðleysingjar benda réttilega á að ef Guð er ekki til þá höfum við engan grundvöll til að segja að eitthvað sé beinlínis rétt eða rangt, gott eða illt, í hlutlægum skilningi. Að mati Richard Dawkins er „Alheimurinn, eins og hann blasir við, … einmitt eins og við má búast, ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun [þ.e. Guð], enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“ Guðleysinginn og heimspekingurinn Alex Rosenberg er sammála. Í bók sinni The Atheist Guide to Reality spyr hann hver sé munurinn á réttu og röngu, góðu og illu, og svarar því blátt áfram að „það er enginn siðferðilegur munur þar á milli“. Samkvæmt því er enginn siðferðilegur munur á því að elska barn eða beita það ofbeldi. Að mati Rosenberg er „líf hvers og eins … merkingarlaust … og án siðferðilegs vægis þegar allt kemur til alls“. Hvatning hann er sú að við sættum okkur við það og „horf[umst] í augu við að siðferðileg tómhyggja er sönn“.

Að mínu viti er afar erfitt að komast undan þeirri niðurstöðu ef guðleysi er grunnforsendan, þ.e. ef Guð er ekki til, og alheimurinn er tæmandi lýsing á tilvistinni, og lífið og við sjálf erum í grunninn ekkert annað en tilviljunarkennt efni sem er skilyrt af blindum lögmálum náttúrunnar. Samkvæmt náttúruhyggjunni erum við jú ekkert annað en tiltölulega þróuð dýrategund í alheimi án merkingar og tilgangs, tilviljunarkennd aukaafurð tíma og efnis og að öllu leyti skilyrt af taugaboðunum í heilanum í okkur.

En hinu verður ekki neitað að að lífið hefur óneitanlega siðferðilega vídd sem ekki er hægt að smætta burt úr upplifun okkar og reynslu af lífinu. Á sama hátt og við sjáum og finnum fyrir veruleikanum í kringum okkur finnum við og sjáum að sumt í lífinu er raunverulega rétt eða rangt, í hlutlægum og algildum skilningi. Að misnota aðra manneskju er ekki siðferðilega hlutlaus verknaður. Hryðjuverkamaðurinn sem myrðir saklausar manneskjur, eða foreldrið sem misnotar barnið sitt, eða einræðisherrann sem skeytir engu um líf annarra, dansar ekki bara viljalaus í takt við erfðaefnið sitt. Nei, sumt er siðferðilega rétt eða rangt, gott eða illt, í algildri og hlutlægri merkingu. Og ef algilt siðferði getur ekki verið til ef Guð er ekki til þá blasir niðurstaðan við.

Skynsemi okkar og hugsun

Hefur þú spurt þig hversu áreiðanleg hugsun þín er? Er hún traustsins verð? Hvað með skynsemina? Er hún jafn skynsamleg og af er látið?

Samkvæmt náttúruhyggjunni á allt sér náttúrulegar og efnislegar orsakir. Veruleikinn er sem lokaðir kassi, og ekkert annað en efni sem lýtur blindum lögmálum náttúrunnar. Og þar erum við og hugsanir okkar ekki undanskildar. Hugsun okkar er ekki fólgin í öðru en taugaboðum í heilanum okkar, í rafboðum sem skjótast frá einum stað til annars. Í raun er það svo að enginn munur er á huga okkar eða hugsun og heila. Um er að ræða eitt og það sama. Og samkvæmt náttúruhyggjunni er heilinn jú ekkert annað en tilviljunarkennd afurð blinds og hugsunarlauss náttúlegs ferlis án nokkurs tilgangs og merkingar.

Í því ljósi hljótum við að spyrja hvaða ástæðu við höfum til að treysta hugsun okkar og skynsemi. Mundi einhver nota eða treysta á tölvu sem væri ekkert annað en tilviljunarkennd afurð blinds og hugsunarlauss náttúlegs ferlis án nokkurs tilgangs og merkingar? Nei. Rétt eins og efnafræðingurinn J. Haldane minnti á fyrir all löngu síðan, ef hugsun mín er ekki fólgin í öðru en atómum á hreyfingu í heilanum á mér – kerfi sem er afleiðing blinds náttúrulegs ferlis – af hverju ætti ég að trúa eða treysta nokkru sem hún segir mér, þar á meðal því að heilinn í mér samanstandi af atómum?

Ef það er rétt, eins og Richard Dawkins og allir hinir náttúruhyggjusinnarnir halda fram, að við erum ekkert annað en afleiðing blinds og hugsunarlauss náttúrlegs ferlis, þá hafa þeir gefið okkur góða ástæðu til að efast um áreiðanleika vitsmuna okkar og hugsunar. Og þá höfum við góða ástæðu til að efast um allt sem hugsun okkar og vit vilja telja okkur trú um – og þar á meðal guðleysið sjálft, trúarjátning náttúruhyggjunnar! Hvaða ástæðu hef ég þá til að trúa því og treysta að náttúruhyggja sé sönn og að guðleysi gefi mér rétta mynd af eðli lífsins og tilverunnar?

Þegar kemur að því að útskýra hvers vegna alheimurinn er skiljanlegur og hvers vegna við höfum aðgengi að honum á áreiðanlegan hátt í gegnum hugsun okkar og vit (að minnsta kosti að hluta til), þá á guðstrú mun skynsamlegra svar en guðleysið. Ástæðan er að hvort tveggja, alheimurinn og hugsun okkar, er af sömu rót runnið. Hvort tveggja er afleiðing hugsunar og vits, skapandi orðs Guðs.

Hin tilvistarlega þýðing

Er hér um að ræða skotheldar sannanir fyrir tilvist Guðs sem allir ættu að beygja sig fyrir? Nei, vitaskuld ekki. Ef sönnun er lögð til jafns við fullvissu þá eru slíkar sannanir ekki í boði og hafa aldrei verið. En það á ekki frekar við spurninguna um Guð en flestallt annað. Fæst af því sem við teljum okkur vita verður sannað í þeim skilningi. Og þar er guðleysi að sjálfsögðu ekki undanskilið.

En er hér um að ræða áleitin rök á grundvelli skynsamlegra og sennilegra forsenda sem benda til þess að Guð er til? Að mínu mati, já. Og þau sýna að trúin á tilvist Guðs er langt í frá svik við skynsamlega og rökræna hugsun, eða á skjön við það sem við vitum og upplifum. Þvert á móti er lífið og tilveran með þeim hætti sem búast má við ef Guð er til, þvert á það sem guðleysingjar á borð við Richard Dawkins halda fram. Því í samanburði við guðleysi felur tilvist Guðs í sér betri útskýringu á tilvistinni, upphafi alheimsins, tilkomu lífsins, siðferðilegri reynslu okkar og upplifun af lífinu, og þeirri staðreynd að við getur treyst hugsun okkar og skynsemi. Með öðrum orðum fellur eðli lífsins og upplifun okkar af því betur að þeim veruleika þar sem Guð er til heldur en að guðlausum veruleika.

Eins og C.S. Lewis benti á getum við trúað á tilvist Guðs eins og við trúum á sólarupprásina. Ekki bara af því að við sjáum sólina heldur vegna þess að sólin sýnir okkur allt annað.

Þessi rök og vangaveltur verða þeim mun áleitnari í ljósi þeirrar myndar sem guðleysi dregur upp af eðli lífsins og tilverunnar. Eins og Richard Dawkins bendir á er hinn guðlausi veruleiki þegar allt kemur til alls ekki fólginn í öðru en blindu og miskunnarlausu tómlæti án nokkurs tilgangs. Þar er einfaldlega um rökræna niðurstöðu að ræða út frá forsendum guðleysisins og náttúruhyggjunnar. Lífið er ekkert annað en tilviljunarkennd aukaafurð blindrar þróunar. Það er engin sérstök ástæða fyrir lífinu, engin eiginleg ástæða fyrir tilvist okkar, eða tilvistinni yfirhöfuð. Það er engin hugsun á bak við lífið, ekkert vit, ekkert mark sem stefnt er að. Það er enginn tilgangur eða merking á bak við lífið þegar allt kemur til alls. Lífið og tilveran hefur ekkert gildi í sjálfu sér þegar allt kemur til alls. Við lifum, efnislega skilyrt og viljalaus, til þess eins að deyja í alheimi sem á endanum kemur sjálfur til með að breytast í lífvana myrkur og kulda án enda.

Guðstrú – ekki síst kristin guðstrú – dregur upp allt aðra mynd. Lífið er ekki óútskýranleg tilviljun án merkingar, gildis og tilgangs. Lífið, þar á meðal þú og ég, hugsanir okkar og orð, tilfinningar og gjörðir, eru ekki afleiðingar af hugsunarlausu efni og blindum lögmálum náttúrunnar. Nei! Þvert á móti bendir alheimurinn á, og endurspeglar, þá hugsun, það hugvit og þann vilja, sem teygir sig út fyrir það sem er tímanlegt, efnislegt og náttúrulegt, og allt á rót sína að rekja til. Og jafnvel þótt rökin með og gegn tilvist Guðs væru hnífjöfn – sem þau eru ekki, að mínu mati – hvers vegna ættum við að velja guðleysi fram yfir guðstrú? Hvers vegna ættum við að umgangast lífið á forsendum guðleysis?

Eins og Pascal benti á fyrir löngu síðan, sá sem veðjar á Guð hefur engu að tapa en allt að vinna.

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Náttúruhyggja · Rök fyrir tilvist Guðs

Þriðjudagur 23.1.2018 - 07:56 - FB ummæli ()

Trúir þú á skapara?

Áhugavert var að rekast á fyrirsögn á vefsíðu Iceland Magazine þess efnis að „0,0% fólks undir 25 ára trúir því að Guð skapaði heiminn.“

Með öðrum orðum enginn!

Fyrirsögnin er að vísu ekki alveg ný heldur er um að ræða tveggja ára gamla umfjöllun um könnun sem gerð var að beiðni Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, á lífsskoðunum og trú Íslendinga.

Þótt ekki sé um splunkunýja könnun er þetta áhugavert og þess virði að rýna svolítið í.

Í þriðju spurningu könnunarinnar var spurt: „Hvernig heldur þú að heimurinn hafi orðið til?“

Svarmöguleikarnir sem boðið var upp á voru eftirtaldir:

1. Heimurinn varð til í Miklahvelli!

2. Guð skapaði heiminn!

3. Veit ekki – Hef ekki skoðun!

4. Annað!

Fram kemur að 62% svarenda telur heiminn hafa orðið til í Miklahvelli. Einungis 18% telur að Guð hafi skapað heiminn.

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að samkvæmt svörum við annarri spurningu könnunarinnar, þar sem spurt er um trúarafstöðu, játa rétt um 70% svarenda kristna trú.

Án þess að draga sérstakar ályktanir út frá þessum tölum er áhugavert að velta upp þeirri spurningu hvort líta þurfi á kenninguna um Miklahvell og trúna á Guð sem skapara heimsins sem andstæður.

Með öðrum orðum hvort annað svarið útiloki hitt?

Kenningin um Miklihvell er sú viðtekna vísindakenning að alheimurinn hafi ekki alltaf verið til, eins og guðleysingjar héldu löngum fram, heldur hafi orðið til á tilgreindu augnabliki í fortíðinni.

Með öðrum orðum er hugtakið Miklihvellur notað um þann atburð sem markaði upphaf alls tíma, rúms, efnis og orku.

Og öll vísindaleg rök hníga að því að alheimurinn eigi sér upphaf.

Árið 2003 tókst stærfræðingnum Arvind Borde og eðlisfræðingunum Alan Guth og Alexander Vilenkin að sanna að sérhver alheimur sem hefur verið að þenjast út getur ekki átt sér eilífa fortíð heldur hljóti að vera takmarkaður í tíma og rúmi (þ.e. eiga sér upphaf).

Vissulega hafa komið fram kenningar í gegnum tíðina sem ganga út frá því að alheimurinn sé eilífur. En þær hafa ekki staðist tímans tönn og vísindalega rýni og athuganir.

Í því samhengi eru nýleg ummæli Vilenkins á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af 70 ára afmælis Stephen Hawkings lýsandi.

Á ráðstefnunni flutti Vilenkin erindi sjá þar sem hann reifaði þau heimsfræðilíkön sem lögð hafa verið fram í gegnum tíðina og færði rök fyrir því að „allt bendi til þess að alheimurinn eigi sér upphaf“.

Þetta er umhugsunarvert.

Að mati Vilenkin vega rökin fyrir upphafi alheimsins ekki þyngra en rökin með eilífum alheimi. Nei, öll rökin, að hans mati, benda til þess að alheimurinn eigi sér upphaf.

Hið sama kemur fram í afar áhugaverðri og nýlegri grein á vefsíðu Forbes eftir eðlis- og stjörnufræðinginn Ethan Siegel.

Í greininni sem heitir „Miklihvellur staðfestur enn á ný, nú af fyrstu atómum alheimsins“ fjallar Siegel um mælingar á magni léttra frumefna á upphafsmínútum alheimsins.

Samkvæmt kenningunni um Miklahvell mun tiltekið og nákvæmt magn þessara frumefna hafa orðið til á fyrstu mínútunum eftir Miklahvell.

Og nú hafa nýlegar athugnanir og mælingingar á þessum frumefnum staðfest að magnið er einmitt það sem kenningin um Miklahvell segir fyrir um.

Niðurlagsorð Siegel eru eftirtektaverð:

„Það sem kenningin segir að greina megi þremur til fjórum mínútum eftir Miklahvell, og það sem athuganir nú mörgum milljörðum árum síðar sýna, fellur svo ótrúlega vel saman að það verður aðeins skilið sem mögnuð staðfesting á þessari sigursælustu kenningu um alheiminn sem fram hefur komið. Miklihvellur útskýrir svo mikinn fjölda fyrirbæra, allt frá smæstu efniseindum alheimsins til víðfemustu stærða hans, að engin önnur tilgáta kemst þar nærri. Ef þú vilt skipta kenningunni um Miklahvell út verður þú að útskýra gríðarlegan fjölda ólíkra athugana, allt frá bakgrunnsgeislun alheimsins og útþennslu til fyrstu atóma hans. Aðeins Miklahvellskenningin gerir grein fyrir öllu þrennu, og nú með meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr.“

En í ljósi þess að alheimurinn á sér upphaf, að hann er ekki eilífur heldur varð til, hljótum við að að spyrja þeirrar spurningar sem óhjákvæmilegt er að að spyrja:

Hvers vegna?!

Hvers vegna varð alheimurinn til? Hvað orsakaði tilurð hans?

Ekki varð hann til úr engu án nokkurrar ástæðu?!

Nei, alheimurinn hlýtur að eiga sér orsök, rétt eins og allt annað sem verður til og á sér upphaf.

Hin klassíska heimspekilega röksemdarfærsla er jafn gild í dag og áður – en er þeim mun eftirtektarverðari og áhrifaríkari í ljósi nútímavísinda:

1. Allt sem verður til á sér orsök.

2. Alheimurinn varð til.

3. Alheimurinn á sér orsök.

Og eðli málsins samkvæmt getur sú orsök ekki verið hluti af alheiminum sjálfum.

Hún hlýtur að vera handan tíma, rúms, efnis og orku og alls hins náttúrulega veruleika sem við erum hluti af – enda ástæða þess að sá veruleiki varð til.

Hún er því í réttum skilningi yfirnáttúruleg, eilíf, rýmislaus, óefnisleg, óbreytanleg og svo ótrúlega máttug að hún gat skapað alheiminn úr bókstaflega engu.

Og færa má rök fyrir því að þessi orsök sé persónuleg og búi yfir vilja þar sem hún ákvað á tilgreindu augnabliki að skapa alheiminn.

Hvað sem slík orsök er kölluð er síður en svo óviðeigandi að kalla hana Guð.

Raunar er það býsna skynsamlegt.

Ummæli breska eðlisfræðingsins Arthur Eddingtons eru athyglisverð í þessu samhengi.

Að hans mati felur „upphaf alheimsins … í sér slíka erfiðleika að þeir eru óyfirstíganlegir nema við séum tilbúin að líta á það sem hreinlega yfirnáttúrulegt.“

Og undir það hafa margir vísindamenn tekið.

Margir vísindamenn trúa á tilvist Guðs, þ.e. skapara, einmitt vegna þess sem vísindi hafa leitt í ljós, m.a. um upphaf og eðli alheimsins.

Raunin er því sú að í stað þess að grafa undan biblíulegri sköpunartrú skýtur kenningin um Miklahvell mjög svo sterkum vísindalegum stoðum undir þá skynsamlegu sannfæringu kristins fólks frá upphafi að „Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð [þ.e. alheiminn]“ (1Mós 1.1).

Þegar spurt er um tilurð heimsins og boðið annars vegar upp á Guð sem orsök og Miklahvell hins vegar þá útilokar annað svarið því síður en svo hitt.

En hvers vegna gera þá sumir jafn skarpan greinarmun á guðlegri sköpun og Miklahvelli, eins og áðurnefnd könnun ber vitni um?

Ef til vill er það vegna sköpunarfrásögu Biblíunnar. Miklihvellur kemur þar hvergi beint við sögu svo sem von er.

Sköpunarfrásaga Biblíunnar er margslungin frásaga sem of sjaldan er lesin á eigin forsendum og í viðeigandi samhengi.

Þegar það er gert kemur í ljós að þar er ekki um tilraun að ræða til að útskýra tilurð alheimsins í vísindalegum skilningi í nútímamerkingu þess orðs.

Markmið sköpunarfrásögunnar er umfram allt að bera fram með hætti þess tíma sem hún var rituð á þá játningu að Guð er skaparinn, og að miðla þeirri sannfæringu að ástæða þess að alheimurinn er til er sú að Guð ákvað að skapa hann.

Hér er því alls ekki um andstæður að ræða, hvað þá mótsögn.

En þegar litið er svo á að Miklihvellur grafi undan kristinni sköpunartrú þá liggur vafalítið að baki því hið alltof algenga og misskilda viðhorf að trú og vísindi séu andstæður, og að vísindi eða vísindaleg þekking útiloki með einhverjum hætti guðstrú og hafi jafnvel afsannað tilvist Guðs.

Að valið standi á milli vísinda og trúarinnar á Guð.

En að stilla fólki upp við vegg og biðja það að velja á milli vísinda (Miklahvells) og Guðs (sköpunar) er líkast því að sýna manni Ford T bíl og biðja hann að velja á milli tveggja mögulegra útskýringa á tilurð bílsins.

Önnur útskýringin eru náttúrulögmálin, lögmál eðlisfræðinnar, vélfræðinnar, aflfræðinnar o.s.frv.

Hin útskýringin er Henry Ford sjálfur, maðurinn sem hugsaði upp og hannaði Ford T bílinn.

Það sjá allir að slíkir afarkostir eru fráleitir því hér er um tvær jafngildar útskýringar að ræða enda þótt ólíkar séu.

Báðar eru nauðsynlegar og réttar.

Við þurfum augljóslega hvort tveggja í senn vísindalega útskýringu á bílnum með tilliti til eðlisfræðilegra lögmála og persónulega útskýringu með tilliti til orsakavalds.

Þetta má sjá í margvíslegu samhengi.

Við getum tekið annað dæmi og spurt einfaldrar spurninga á borð við Hvers vegna sýður vatnið?

Þessari spurningu mætti svara í löngu og ítarlegu máli með því að gefa vísindalega útskýringu á suðu vatnins.

Í því samhengi mætti gera grein fyrir varmaleiðingu frá einum hlut til annars og hvernig varmaorka flyst frá hellunni yfir í pottinn með vatninu, og hvernig aukin hiti vatnsins eykur hreyfiorku vatnssameindanna sem gerir það að verkum að hluti vatnsins fer úr vökvaham yfir í gasham.

Svar á þessum nótum væri fyllilega rétt og viðeigandi.

En að segja: Vatnið sýður vegna þess að mér langaði í te, er einnig fyllilega rétt og jafngilt svar.

Önnur útskýringin er vísindaleg í eðli sínu, hin er persónuleg og vísar til orsakavalds.

Og hér er alls ekki um andstæðar útskýringar að ræða sem útiloka hvor aðra.

Þvert á móti gefur hin persónulega útskýring fyllri og dýpri skýringu á því sem á sér stað og hrinti af stað þeirri atburðarrás sem leiddi til suðu vatnsins.

Það sama á við um alheiminn og spurninguna um tilurð hans.

Vísindin rannsaka heiminn. Þau skoða úr hverju hann er gerður, hvers eðlis hann er og hvernig hann virkar.

Þegar vísað er til Guðs annars vegar og vísinda hins vegar til að útskýra alheiminnn er einfaldlega um að ræða útskýringar af ólíkum toga – sem þó er gjarnan ruglað saman.

Þegar alheimurinn er útskýrður með því að vísa til Guðs sem orsakavalds er um að ræða úskýringu af öðrum toga en hina vísindalegu útskýringu. Þær eru hins vegar ekki, eins við höfum seð, í mótsögn eða rekast hvor á aðra.

Henry Ford keppir ekki við lögmál eðlisfræðinnar sem útskýring á Ford T bíl frekar en Guð keppir við vísindi þegar kemur að því að útskýra alheiminn.

Það væri ennfremur fráleitt að halda því fram að í ljósi þess að við getum útskýrt með vísindalegum hætti hvernig Ford T bíll virkar að draga megi þá ályktun að Henry Ford hafi aldrei verið til.

Í raun er það svo að eftir því sem við skiljum alheiminn betur verður auðveldara að dásama hugvitssemi Guðs sem á bak við hann er.

Það sem gerir kristna guðstrú svo trúverðuga er einmitt hversu trúverðuga mynd hún dregur upp af lífinu og tilverunni og upplifun okkar af henni.

Í því samhengi komst C.S. Lewis afar vel að orði:

„Ég trúi á kristindóminn eins og ég trúi því að sólin hafi risið upp. Ekki vegna þess að ég sé hana, heldur af því að hennar vegna sé ég allt annað.“

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Heimsfræðirök · Miklihvellur · Sköpun · Tilvist Guðs

Mánudagur 18.12.2017 - 18:06 - FB ummæli ()

Heiðin jól og menningarlegt niðurrif kristinnar trúar

Ýmsir láta fyrirferðina í kristinni trú og kirkju á þessum tíma ársins fara fyrir brjóstið á sér. Í því samhengi er ekki óalgengt að vera minntur á það af gagnrýnendum og óvildarmönnum kristinnar trúar að jól séu heiðin hátíð sem eigi sér að öllu eða miklu leyti heiðnar rætur og hafi í núverandi mynd lítið með kristna trú að gera.

Hvort það eigi að fela í sér gagnrýni á kristna trú, eða rýra gildi kristinna jóla – að ekki sé talað um sannleiksgildi kristinnar trúar – hef ég þó aldrei almennilega skilið.

Enda vandséð hvernig svo ætti að vera.

Vissulega umgengst fólk jólin með ólíkum hætti í dag og misjafnt er hversu stóran sess kristin trú fær í jólahaldinu.

Þótt hið kristna inntak jólanna (meyfæðingin) eigi sér ekki heiðinn bakgrunn eða fyrirmynd er rétt að hátíðarhöld á þessum tíma árs (í seinni hluta desember) eiga sér sögu sem nær aftur fyrir tíma kristinnar trúar og kirkju. Í því samhengi er t.d. bent á vetrarsólstöðuhátíð norður-evrópubúa og sólarhátíð rómverja til heiðurs sólarguðinum og/eða guðsins satúrnus.

Það er einnig rétt að eitt og annað sem fyrrum tengdist vetrarsólstöðuhátíð norður-evrópubúa lifir áfram í hefðum sem tengjast jólunum eins og við þekkjum þau í dag.

Og hvað með það?!

Að hvaða leyti rýrir það gildi kristinna jóla?

Þýðir það að Jesús fæddist ekki í Betlehem? Fæddist hann kannski aldrei eftir allt saman?

Rýrir þetta yfirleitt með einhverjum hætti gildi kristinnar trúar, eða áreiðanleika frásagna guðspjallanna um líf, dauða og upprisu Jesú?

Að sjálfsögðu ekki!

Annað hefur ekkert með hitt að gera.

Jafnvel þótt kristin samfélög hefðu aldrei komið á fót hátíð þar sem fæðingar Jesú var minnst hefði það í engu breytt um gildi kristinnar trúar almennt.

Aðalatriðið er ekki hvenær kristið fólk ákvað að rétt væri að minnast fæðingar Jesú, og hvort sá dagur sem fyrir valinu varð var hinn rétti fæðingardagur (sem hann er nær örugglega ekki), eða hvort sá dagur hafi áður tengst heiðinni trúarhátíð.

Það sem máli skiptir er innihald hátíðarinnar sem slíkrar.

Orð á borð við jól hefur vissulega skírskotanir til ólíkra menningarheima á ólíkum tíma. En það er ekki nóg að horfa í orðið eitt. Hafa verður í huga inntak orðsins í ólíku samhengi.

Þegar kristin trú tók að breiðast út og festa sig í sessi í Rómarríki voru þar fyrir ýmsar framandi trúarhefðir og trúarhættir. Úr því varð til visst samspil þar sem kristin trú lagaði sig að framandi hefðum.

Á sama tíma og aðrir fögnuðu af öðrum ástæðum tók kristið fólk að minnast holdtekju Guðs sonar og komu hans inn í þennan heim.

Og það er ekki að undra að kristið fólk tók að fagna og minnast fæðingar frelsarans á þeim tíma ársins sem raun ber vitni.

Í hugum kristins fólks er Jesús „ljósið sem skín í myrkrinu“, eins og segir í Jóhannesarguðspjalli. „Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.“ (Jóh 1.9)

Í táknrænum skilningi var því afar viðeigandi að fagna komu Jesú á þessum tíma ársins, rétt um það leyti sem sólin er lægst á lofti og daginn fer aftur að lengja og birta yfir heimi.

Og eftir því sem kristin trú og kristnar trúarhefðir festu sig í sessi fjaraði óhjákvæmilega undan öðrum átrúnaði og trúarhefðum í rómverska heimsveldinu.

Ef til vill er gagnrýnin einmitt fólgin í því.

Í hinum meinta menningarlega ágangi kristinnar trúar á kostnað annarra hefða og trúarhugmynda.

Ýmsir eru þeirrar skoðunar í dag og líta á kristna trú sem óvin fjölmenningar og fjölhyggju, sem ryðja þurfi úr vegi svo að ólíkar hefðir fái að blómstra hlið við hlið.

Veruleikinn er þó sá að kristin trú, ólíkt t.d. veraldarhyggjunni og þeirri einstaklingshyggju sem henni fylgir, á mun auðveldara með að laga sig að og taka tillit til ólíkra menningarhefða en flestar aðrar lífsskoðanir.

Ólíkt trúarbrögðum á borð við íslam, hindúisma og búddisma, er kristin trú ekki landfræðilega afmörkuð við þann stað í heiminum sem hún rekur uppruna sinn til.

Upphaflega var kristin trú að miklu leyti sértrúarsöfnuður gyðinga með miðstöð í Jerúsalem. Síðar meir breiddist hún út á meðal heiðingja hins helleníska heims með miðjarðarhafssvæðið allt sem miðstöð. Þar á eftir tóku evrópubúar við kristinni trú, þar á meðal hinir svokölluðu barbarar Norður-Evrópu. Kristin trú varð ráðandi í Vestur-Evrópu og þar á eftir í Norður-Ameríku. Í dag er flest kristið fólk að finna í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu.

Og áður en langt um líður mun miðstöð kristinnar trúar að öllum líkindum vera að finna á suður- og austurhveli jarðar.

Útbreiðsla kristinnar trúar í Afríku og Kína undanfarna áratugi, svo dæmi sé tekið, á sér ekki sögulega hliðstæðu.

Um aldamótin 1900 er áætlað að kristið fólk í Afríku hafi verið um 9 milljónir talsins. Árið 2000 var fjöldi kristins fólks í álfunni um 400 milljónir og fer því hratt fjölgandi. Í kommúnistaríkinu Kína, sem opinberlega er guðlaust ríki, hefur kristnu fólki fjölgað gríðarlega á meðal allra þjóðfélagshópa, og gera áætlanir ráð fyrir því að innan 30 ára muni kristið fólk telja um þriðjung af kínversku þjóðinni sem telur um 1.5 milljarð manna.

Hvernig stendur á þessari gríðarlegu útbreiðslu kristinnar trúar og fjölgun kristins fólks á meðal ólíkra þjóða og menningarheima?

Svarið er menningarleg aðlögunarhæfni kristinnar trúar.

Vissulega er að finna grundvallandi játningu og boðskap í kristinni trú sem sameinar ólík kristin samfélög og kirkjur. En kristinni trú hefur alltaf fylgt mikið svigrúm og frjálsræði þegar kemur að formi og tjáningu trúarinnar og innihalds hennar.

Þetta kemur glöggt í ljós þegar litið er til þeirra ólíku mynda sem tjáning kristinnar trúar hefur tekið á sig á ólíkum stöðum í heiminum.

Eins og sagnfræðingurinn Andrew Walls minnir réttilega á hefur menningarleg fjölbreytni alltaf verið grundvallandi hluti af kristinni trú.

Í 15. kafla postulasögunnar er sagt frá fundi postulanna í Jerúsalem og þeirri niðurstöðu sem þeir sammæltust um, að heiðnu fólki sem tók kristna trú væri ekki skylt að ganga um leið gyðinglegri menningu á hönd, og gefa þar með eigin menningu upp á bátinn. Þvert á móti þurfti það að finna sína eigin leið og forsendur til að vera hellinistískt kristið fólk, og finna kristinni trúartjáningu sinni farveg innan eigin hefðar og menningar.

Með öðrum orðum er ekki til einhver ein, einsleit kristin menning (á borð við íslamska menningu), sem er einkennandi og lýsandi fyrir öll kristin samfélög og kirkjur.

Kristin trú er ekki trú sem lætur sig staðbundna menningu engu varða og leitast við að útrýma henni. Þvert á móti hefur kristin trú tekið á sig fjölbreyttari menningarlega mynd en nokkur önnur trúarbrögð.

Ef hinn svokallaði heiðni bakgrunnur jólanna ber vitni um eitthvað er það einmitt hversu móttækileg og opin kristin trú hefur verið fyrir öðrum og ólíkum hefðum og átt auðvelt með að laga sig að þeim.

Flokkar: Jól · Menning · Trúarbrögð · Trúarhefðir

Þriðjudagur 5.12.2017 - 08:16 - FB ummæli ()

Meyfæðingin

Gamalt og gott frá C.S. Lewis.

„Kraftaverk,“ sagði vinur minn. „Æi, láttu ekki svona. Vísindin hafa útilokað allt slíkt. Við vitum að náttúrunni er stjórnað af ákvðnum og fastsettum lögmálum.“

„Hefur fólk ekki alltaf vitað það?“ sagði ég.

„Hamingjan sanna, nei!“ sagði hann. „Taktu sögu eins og meyfæðinguna sem dæmi. Við vitum að slíkt gæti ekki gerst. Við vitum að sæði karlmanns verður að koma við sögu.“

„En sjáðu nú til,“ sagði ég. „Jósef …“

„Jósef! Hver er það?“ spurði vinur minn.

„Hann var eiginmaður Maríu. Ef þú lest frásöguna í Biblíunni þá sérðu að þegar hann komst að því að unnusta hans var þunguð ákvað hann að hætta við giftinguna. Hvers vegna gerði hann það?“

„Mundu ekki flestir gera það?“

„Jú, flestir mundu gera það,“ sagði ég, „að því gefnu að þeir þekktu til lögmála náttúrunnar. Það er að segja, að því tilskildu að þeir vissu að kona eignast venjulega ekki börn nema hún hafi verið með manni. En samkvæmt þinni kenningu þá vissi fólk í gamla daga ekki að náttúran fylgir ákveðnum lögmálum. Það sem ég er að benda á er að frásagan sýnir að Jósef þekkti þetta lögmál rétt eins og ég og þú.“

„En hann trúði jú síðar á meyfæðinguna, ekki satt?“

„Jú, vissulega. En en hann gerði það ekki vegna einhvers misskilnings í sambandi við það hvernig börn verða til samkvæmt hefðbundnu ferli náttúrunnar. Hann trúði á meyfæðinguna sem eitthvað yfir-náttúrulegt. Hann vissi að náttúran fylgir ákveðnum reglubundnum lögmálum. En hann trúði því líka að til væri eitthvað handan náttúrunnar sem getur haft áhrif á gang hennar – utan frá, svo að segja.“

„En nútímavísindi hafa sýnt að ekkert slíkt er til.“

„Er það,“ sagði ég. „Hvaða vísindi?“

„Tja, það er nú spurning um smáatriði,“ sagði vinur minn. „Ég man það nú ekki svona í svipinn.“

„En gerir þú þér ekki grein fyrir því,“ sagði ég, „að vísindin geta aldrei sýnt fram á annað eins?“

„Hvers vegna í ósköpunum ekki?“

„Vegna þess að vísindin rannsaka náttúruna. Spurningin er hins vegar  hvort til sé eitthvað handan náttúrunnar – eitthvað fyrir utan hana. Hvernig gætir þú komist að því með því að skoða náttúruna?“

„En er ekki ljóst að gangverk náttúrunnar verður að að fylgja ákveðnum lögmálum? Ég meina, lögmál náttúrunnar segja okkur ekki aðeins hvernig hlutir gerast, heldur hvernig þeir hljóta að gerast. Enginn máttur gæti mögulega breytt því.“

„Hvað áttu við?“

„Sjáðu til,“ sagði hann. „Gæti þetta eitthvað fyrir utan sem þú talar um gert tvo og tvo að fimm?“

„Ja, nei,“ sagði ég.

„Allt í lagi,“ sagði hann. „Ég held að lögmál náttúrunnar séu í raun eins og tveir plús tveir eru fjórir. Hugmyndin um ad breyta því er fráleit, rétt eins og hugmyndin um að breyta lögmálum stærfræðinnar.“

„Bíddu nú augnablik,“ sagði ég. „Segjum að þú látir krónu í skúffu í dag og aðra krónu í sömu skúffu á morgun. Segja lögmál stærfræðinnar að þú finnir tvær krónur í skúffunni næsta dag?

„Að sjálfsögðu,“ sagði hann, „svo lengi sem enginn hafi átt við skúfuna þína.“

„Ah, það er einmitt málið,“ sagði ég. „Lögmál stærfræðinnar geta með algjörri nákvæmni sagt þér hvað þú finnur, að því gefnu að ekkert annað hafi þar áhrif á. Hafi þjófur komist í skúffuna þá verður niðurstaðan auðvitað önnur. En þjófurinn braut ekki lögmál stærfræðinnar – aðeins hegningarlögin í landinu. Nú, er því ekki eins farið með lögmál náttúrunnar? Segja þau ekki hvað muni gerast svo lengi sem þau fái að hafa sinn gang?“

„Hvað meinar þú?“

„Ja, ef ýtt er við billjardkúlu með tilteknum hætti sem liggur á sléttum fleti þá segja lögmál náttúrunnar fyrir um hreyfingu hennar – en aðeins að því gefnu að enginn grípi inní. Ef einhver tekur upp kjuða og ýtir kúlunni í aðra átt, eftir að hún var komin á hreyfingu, tja, þá kemstu ekki að þeirri niðurstöðu sem vísindamaðurinn spáði fyrir um.“

„Nei, auðvitað ekki. Hann getur ekki tekið þannig brögð með í reikninginn.“

„Einmitt. Og með sama hætti, skyldi nú eitthvað vera til handan náttúrunnar sem gripi inn í, þá mundi sá atburður sem vísindamaðurinn sá fyrir ekki fylgja. Það er það sem við köllum kraftaverk. Í vissum skilningi væri ekki um brot á lögmálum náttúrunnar náttúrunnar að ræða. Lögmálin segja þér hvað gerist ef ekkert skiptir sér af þeim. Þau geta ekki sagt þér hvort eitthvað muni grípa inní. Ég meina, stærfræðingurinn getur ekki sagt þér hversu líklegt það er að einhver skipti sér af krónunum í skúfunni minni. Rannsóknarlögregla kæmi að betri notum. Eðlisfræðingurinn getur ekki sagt þér hversu líklegt það er að ég taki upp kjuða og skemmi tilraunina hans með billjardkúluna. Þú ættir frekar að spyrja sálfræðing. Og ekki er það vísindamaðurinn sem getur sagt þér hversu líklegt það er að náttúran verði fyrir áhrifum að utan. Þú verður að fara til heimspekingsins.“

„Þetta er nú allt frekar smásmugulegt,“ sagði vinur minn. „Sjáðu nú til. Mótbáran ristir í raun miklu dýpra. Öll sú mynd sem vísindin draga upp af alheiminum sýnir hverskonar þvæla það er að trúa því að sá Máttur sem er á bak við hann gæti haft minnsta áhuga á okkur, örsmáum verum sem sniglast um á einhverri plánetu sem engu máli skiptir. Hitt var svo augljóslega fundið upp af fólki sem trúði á flata jörð þar sem stjörnurnar voru aðeins í kílómetra fjarlægð eða svo.“

„Hvenær trúði fólk því?“

„Hva, þeir gerðu það, allir þessir fornu kristnu menn sem þú ert alltaf að tala um. Bóeþíus og Ágústínus, Tómas Akvínas, Dante og hvað þeir heita nú allir.“

Því miður,“ sagði ég. „Þetta er eitt af fáum viðfangsefnum sem ég veit eitthvað um.“

Ég teygði mig upp í hillu. „Sjáðu þessa bók,“ sagði ég. „Almagest eftir Ptólemæos. Þú þekkir hana?“

„Já,“ sagði hann. „Þetta var grundvallarrit um stjörnufræði sem var notað allar miðaldir.“

„Jæja, lestu þetta,“ sagði ég, og benti á fimmta kafla í fyrstu bók.

„Í afstöðu sinni,“ las vinur minn nokkuð hikandi er hann klóraði sig fram úr latínunni, „til fjarlægða að fastastjörnum hefur jörðin enga merkjanlega stærð og verður því að skoðast sem stærfræðilegur punktur.“

Á eftir fylgdi stutt þögn.

„Vissu þeir þetta í alvöru þá?“ sagði vinur minn. „En … engin bók um sögu vísinda … ekkert nútíma alfræðirit minnist á það.“

„Einmitt,“ sagði ég. „Ég læt þig um að velta vöngum yfir ástæðunni fyrir því. Það er engu líkara en að einhverjum hafi verið í mun að þagga það niður – ekki satt?! Hvers vegna skyldi það vera?“

Enn og aftur fylgdi stutt þögn.

„En burtséð frá því,“ sagði ég, „þá getum við núna orðað vandamálið á réttan hátt. Venjulega heldur fólk að vandamálið sé hvernig koma megi heim og saman því sem við vitum um stærð alheimsins í dag og okkar hefðbundnu trúarviðhorfum. En í raun er það alls ekki vandamálið. Í raun er vandamálið þetta: Hin gríðarmikla stærð alheimsins og lítilvægi jarðarinnar hafa verið þekkt um aldir. Enginn lét sig dreyma um að það hefði eitthvað með trúarbrögð að gera. En allt í einu, fyrir minna en hundrað árum, er því telft fram sem rökum gegn kristinni trú. Og þeir sem gera það passa vel upp á að segja sem minnst um þá staðreynd að menn vissu þetta löngu áður. Eruð þið guðleysingjar ekki undarlega grandalaust fólk?“

C.S. Lewis.

* * * *

Grein Lewis heitir upprunalega „Faith and Science“ og birtist fyrst í The Coventry Evening Telegraph 3. janúar 1945.

Flokkar: C.S. Lewis · Jól · Kraftaverk · Meyfæðingin · Trú · Vísindi

Laugardagur 2.12.2017 - 16:25 - FB ummæli ()

Að efast um efa sinn

Ég þekki marga mæta guðleysingja sem gaman og gefandi er að skiptast á skoðunum við. Slík samtöl geta tekið á sig ýmsar og ólíkar myndir en eru samt undantekningarlaust auðgandi og kenna mér alltaf eitthvað nýtt – um sjálfan mig og aðra, og lífið og tilveruna.

Það kemur vitanlega fyrir að slík samskipti og skoðanaskipti verði krefjandi og ekki eins uppbyggileg og til stóð. Að sumu leyti er það skiljanlegt því þegar við ræðum um trú okkar (hvort sem er guðstrú eða guðleysi) ræðum við um leið um grundvöll lífsskoðunar okkar og þá forsendu sem mótar viðhorf okkar að öðru leyti.

Og hana gefum við ekki auðveldlega upp á bátinn.

Gott og gefandi samtal um trú og lífsskoðanir er ekki síst fólgið í því að við leyfum okkur að horfast í augu við spurningar okkar og efa.

Óháð því hverju við trúum (eða ekki trúum) er engin ónæmur fyrir efa.

Og þar er ég ekki undanskilinn.

Trúað fólk sem afrækir efa sinn, kæfir hann, eða neitar að horfast í augu við hann, getur staðið berskjaldað frammi fyrir erfiðleikum og áskorunum lífsins – hvort sem þær birtast í persónulegum áföllum eða áleitnum spurningum frá hugsandi og vel gefnum efahyggjumanni eða guðleysingja.

Aðeins með því að viðurkenna og glíma við spurningar okkar og efasemdir, og þær móbárur við kristinni trú sem verða á vegi okkar, getum við styrkt trú okkar og grundvallað hana á öðru en uppeldi, hefð eða venju. Það mun einnig gera okkur skilningsríkari og mýkri gagnvart öðrum sem glíma við efasemdir eða aðhyllast önnur viðhorf en við sjálf.

En á sama hátt og trúað fólk ætti að leita að ástæðum og rökum fyrir trú sinni ættu guðleysingjar að opna betur augun fyrir þeirri tilteknu trú sem er að finna á bak við vantrú þeirra og efasemdir. Því í öllum efa, hversu sjálfgefinn sem hann kann að virðast, er fólgin tiltekin trú.

Við getum ekki efast um trú A nema á grundvelli trúar B. Ef einhver efast um kristna trú á þeim forsendum að engin ein trú getur verið sú eina rétta, svo dæmi sé tekið, verður maður að átta sig á því að slík staðhæfing er í eðli sínu trúarlegs eða heimspekilegs eðlis. Og af hverju ætti maður að trúa henni? Hún er alls ekki sjálfgefin.

Sá sem vill vera heiðarlegur í efa sínum gagnvart kristinni trú gengst við þeirri trú sem efi hans hvílir á og spyr sig hvaða ástæður liggja henni til grundvallar, hvers vegna hann gengst við henni og hvernig hann veit að sú trú er rétt og sönn.

Sá sem krefst ríkari réttlætingar fyrir kristinni trú en sinni eigin trú er ekki samkvæmur sjálfum sér. Engu að síður er það oftar en ekki tilfellið hjá mörgum guðleysingjum.

En ef guðleysingjar gangast við þeirri trú sem þeir grundvalla efasemdir sínar um kristna trú á, og gera jafn ríka kröfu um sönnun fyrir þeirri trú og þeir ætlast til af kristnu fólki varðandi þeirra trú, þá er óvíst að þeir telji efa sinn standa á jafn traustum grunni og áður.

Það ætti í öllu falli að vera áleitið umhugsunarefni.

Flokkar: Efi · Guðleysi · Guðstrú · Trú

Föstudagur 1.12.2017 - 16:12 - FB ummæli ()

Frekari vangaveltur um siðferði

Þingmaðurinn og píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson sendi mér afar áhugavert svar við vangaveltum mínum um siðferði í gegnum facebook-síðu mína. Einnig tóku þar nokkrir aðrir til máls og gerðu grein fyrir skoðunum sínum.

Ég þakka Helga Hrafni fyrir vangaveltur sínar. Svar mitt til hans var á þessa leið:

* * *

Það er rétt skilið hjá þér að ég geri greinarmun á tilvist Guðs annars vegar og trú á Guð hins vegar. Hér er um grundvallarmun að ræða sem nauðsynlegt er að hafa í huga, því eins og áður er nefnt snýst umræðan ekki um það hvort við verðum að trúa á Guð, eða vera yfirleitt trúuð í einum öðrum skilningi, til að geta tileinkað okkur viss siðferðisgildi og lifað siðferðilega góðu lífi. Þess þurfum við ekki.

Umræðan snýst ekki heldur um það hvort hægt sé að smíða kenningu um siðfræði án þess að vísa til Guðs. Ef gengið er út frá því að maðurinn hafi gildi í sjálfum sér býst ég við að ég sem trúaður maður gæti skrifað undir margt í slíkri kenningu.

Nei, grundvallar spurningin er þessi: Ef Guð er ekki til eru þá hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð til?

Er að finna grundvöll eða útskýringu á því hvers vegna sumt er gott fremur en slæmt, rétt fremur en rangt, og hvers vegna okkur ber að gera eitt fremur en annað?

Spurningin snýst sum sé um nauðsyn Guðs sem grundvöll hlutlægs siðferðis, ekki um nauðsyn þess að trúa á Guð í einni merkingu eða annarri.

(Mikilvægi þess að undirstrika þennan greinarmun kemur skýrt fram þegar maður les athugasemd á borð við þessa frá Járngrími nokkrum Michaelsen:

„Það fer vægast sagt í taugarnar á mér hvað margir láta sem kristni sé nauðsynleg í kærleik eða að það séu einhver tengsl þar á milli sem er vægast sagt fáránlegt. Það er margt gott fólk kristið, en ekki er allt kristið fólk gott fólk … Trú er fallegur hlutur fyrir þann sem trúir og getur fært honum margt. En mér finnst það mjög rangt að halda framm að ein trú sé merkari en önnur eða betri … Það er bæði gott og vont fólk allstaðar, öllum trúarbrögðum og stofnunum. En engin trúarbrögð eða stofnun býr til gott fólk.“

Þótt segja má eitt og annað um um þessa athugasemd ætti að vera ljóst að ég held því hvergi fram að kristni eða kristin trú eða trúarbrögð yfirleitt séu nauðsynleg til að fólk geti tileinkað sér gott siðferði.)

Þú segir í lok svars þíns að þú sjáir „nákvæmlega ekki neitt í trúarbrögðum, eða við tilvist guðs, sem hjálpar mér að ýmist skilja eða kunna að meta [siðferðis]gildi.“

En um það snýst röksemdafærslan heldur ekki.

Hvað sem okkur kann að finnast um trúarbrögð, og hvort eða að hve miklu leyti við skiljum eða kunnum að meta siðferðisgildi sem slík er aukaatriði. Eins og áður sagði er spurningin þessi: Ef Guð er ekki til eru þá hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð til?

Þú ert mjög skýr í málflutningi þínum og lýsir umbúðalaust þeirri skoðun þinni að siðferði er ekki hlutlægt í neinum skilningi heldur sé það að öllu leyti huglægt og afstætt.

Það er ekki ýkja algengt í heimspekilegu samhengi að heyra slíka játningu. Langflestir heimspekingar og siðfræðingar – og guðleysingjar – , eru ekki tilbúnir að ganga afstæðishyggju og/eða tómhyggju alfarið á hönd og reyna því að finna hlutlægu siðferði stað innan veraldlegrar lífsskoðunnar sinnar með einum eða öðrum hætti. Allflestir, leyfi ég mér að segja, líta svo á að siðferði sé að einhverju leyti algilt, að hægt sé að benda á eitthvað sem segja má að sé rétt eða rangt í hlutlægum skilningi, óháð skoðunum okkar.

Enda verður fljótt vandlifað að öðrum kosti.

En með hliðsjón af guðleysi verður ekki hjá niðurstöðu þinni komist, að mínu mati.

Það sem við köllum siðferðisgildi og siðferðisboð er þá ekkert annað en hegðunarmynstur sem okkur er innrætt í gegnum líffræðilega þróun og samfélagslegar skilyrðingar. Rétt eins og apar hegða sér á vissan hátt sem kemur hópnum vel, höfum við í gegnum þróun tileinkað okkur ákveðið hegðunarmynstur sem kemur okkur og afkomu okkar vel.

Í þeim skilningi er ég sammála þér.

Ef Guð er ekki til þá er siðferði bara aukaafurð líffræðilegrar þróunar og samfélagslegra skilyrðinga, eins og þú bendir á. Siðferði er þá ekkert annað en „hálfnáttúrulegt, hálfmanngert, afstætt fyrirbæri.“

Það sem telst gott og illt og rétt og rangt er háð skilningi okkar og skoðunum okkar á því.

(Ég get því „vel ímyndað [mér] að samkennd og fórnfýsi gæti átt séð lífræðilegar stoðir“, eins og Hákon Helgi Leifsson spyr mig að í athugasemd á facebook-síðu minni.

Að gefnu guðleysi get ég ekki ímyndað mér mikið annað.

En ég get ekki séð í hvað skilningi slíkt heðunarmynstur væri hlutlægt og lýsandi fyrir eitthvað sem er rétt í þeim skilningi og þar með bindandi.)

Í þessu samhengi virðist þú helst gera sameiginlegan skilning samfélagsins að mælikvarða þess sem telst vera innan eða utan siðferðilegra marka.

En hvernig getur eitthvað verið innan eða utan siðferðilegra marka, ef siðferði er afstætt og „ … ekki háð beinu yfirvaldi í sjálfu sér“, eins og þú segir?

Hver dregur línuna?

Samfélagið, segir þú. En það gerir ekki eitt rétt og annað rangt í eiginlegum skilningi.

Og hvað leiðir slíkur skilningur af sér?!

Var þá ekkert rangt við þrælahald fyrri tíma? Hvað með krossferðirnar á miðöldum? Hvað með þau samfélög sem hafa stundað mannsfórnir og mannsát? Var ekkert beinlínis rangt við það? Það er ekki að sjá að við höfum nokkurn grundvöll til að segja að svo hafi verið. Eins og ég skil málflutning þinn var það raunar siðferðilega rétt vegna þess að tiltekin samfélög sammæltust um það. Og það mundi vera rétt í dag ef tiltekin samfélög tækju annað eins upp.

Eða af hverju er skoðun eins samfélags æðri skoðun annars. Nú eða skoðun eins manns æðri skoðun annars? Siðferði er jú „ekki háð beinu yfirvaldi í sjálfu sér“.

Er þá enginn hlutlægur siðferðilegur munur á því að elska náunga sinn eða éta hann, eða að annast um nýfætt barn eða bera það út til að deyja?! Er það eina sem greinir siðferðilegt gildi þessara ólíku gjörða skoðanir svo og svo margra einstaklinga. Svo er að skilja, því hér er einfaldlega um ólíkar samfélagslegar venjur að ræða. Það má segja að ein sé frumstæðari en önnur. En að segja að önnur sé hinni siðferðilega æðri eða óæðri virðist ekki hafa neina merkingu.

Það má vitanlega segja að margt sem samfélög fyrri tíma ástunduðu er álitið siðferðilega rangt í dag. En það þýðir á engan hátt að einhver hafi beinlínis gert eitthvað rangt áður fyrr. Eða að einhver geri beinlínis eitthvað rétt í dag. Breyttar samfélagslegar venjur vitna ekki um neitt annað en breytilegar skoðanir. Og sú breyting hefur enga sérstaka siðferðilega vídd.

Ég fæ ekki séð hvernig unnt er að komast hjá annarri eins siðferðilegri ringulreið (svo vægt sé til orða tekið) á grundvelli þess viðhorfs sem þú lýsir.

En út frá forsendu guðleysis er niðurstaða þín rökrétt.

Í vissum skilningi verður því auðvitað ekki mótmælt að siðferðisgildi „breytast frá einum tíma til annars … eftir tíðaranda, þörfum samfélags og lærdóms fólks“, eins og Helgi Hrafn nefnir.

Þegar horft er yfir söguna hefur manninum sem betur fer farið fram í siðferðilegum efnum. Að sumu leyti hefur honum farið aftur. Þannig mun það sjálfsagt alltaf verða.

En það að siðferðileg framþróun sé möguleg sýnist mér einmitt vera til marks um að til eru algild siðferðisgildi, eða siðferðilegur mælikvarði, sem gefur okkur grundvöll til þess að segja að eitthvað hafi þokast áfram í siðferðilegum efnum, að skilningur okkar á því sem er rétt og rangt endurspegli nú betur þann mælikvarða en áður var.

Segjum sem svo að ég biðji tvo listamenn að mála fyrir mig mynd af Herðubreið. Eina mögulega leiðin til að gera upp á milli myndanna, t.d. meta hvor þeirra svipar meira til Herðubreiðar, er ef fjallið Herðubreið er raunverulega til.

Án algilds siðferðis, eða mælikvarða, grundvallar, hefur það enga þýðingu að tala um siðferðilega framþróun eða afturför.

Að skilningur okkar á siðferði breytist frá einum tíma til annars, m.a. vegna reynslu okkar af lífinu og breytilegum aðstæðum okkar, leiðir nefnilega ekki af sér að siðferði sé ekki að einhverju leyti, eða geti að engu leyti verið, hlutlægt.

Í sama skilningi hefur skilningur okkar á hinum efnislega veruleika breyst í gegnum aldirnar eftir því sem við höfum viðað að okkur betri þekkingu á honum. En það þýðir vitaskuld ekki að veruleikinn sem slíkur og eðli hans hafi tekið breytingum.

Einmitt þvert á móti.

Þú hefur ekki sýnt fram á að svo sé, að mínu mati.

Hvað varðar aðra forsendu röksemdarfærslunnar, að algild siðferðisgildi og siðferðisboð eru til, virðist þú líta svo á hún grundvallist í einhverjum skilningi á fyrirframgefinni skilgreiningu. Þú virðist líta svo á að tilvist Guðs verði naðsynleg vegna þess að ég hafi skilgreint siðferði sem hlutlægan veruleika. Þú segir að í þessu sé fólginn grundvallarrökstuðningurinn fyrir málflutningi þínum.

Ef hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð geta ekki verið til án Guðs, þá leiðir veruleiki þeirra nauðsynlega til þeirrar niðurstöðu að Guð sé til.

Það er jú röksemdafærslan.

En það er miskilningur að ætla að réttlætingin fyrir þeirri forsendu að til eru hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð sé sú fyrirframgefna skilgreining að siðferði sé hlutlægt. Það fæli í sér augljósa rökleysu.

Nei, réttlætingin fyrir tilvist algildra siðferðisgilda og siðferðisboða er siðferðileg upplifun okkar og reynsla.

Í gegnum skynjun mína (skilningarvit) veit ég að hinn efnislegi veruleiki í kringum mig er raunverulegur. Á meðan ekki er hægt að sýna fram á annað eða leggja fram rök sem tekur skynjun minni á og reynslu minni af hinum efnislega veruleika fram þá hef ég enga ástæðu til að vantreysta skynjun minni og reynslu.

Hið sama gildir um siðferðilega skynjun okkar og reynslu.

Á meðan ekki er hægt að leggja fram rök sem tekur henni fram hef ég enga ástæðu til að vantreysta því sem siðferðileg skynjun mín, upplifun og reynsla segir mér, nefnilega að sumt er siferðilega rétt og rangt, gott og illt, í hlutlægum skilningi.

Til dæmis að það sé siðferðilega hlutlægur munur á því að annast um ungabarn eða bera það út.

En þýðir það að siðferðileg skynjun okkar og reynsla sé eða hljóti að vera óskeikul? Að hið siðferðilega rétta og ranga, góða og illa, liggi alltaf í augum uppi? Að ekki séu til siðferðileg álitamál sem vandasamt er að útkljá? Að ekki séu til siðferðilega grá svæði?

Þú virðist líta svo á.

En það er engin ástæða að ætla það eftir því sem ég best fæ séð. Tilvist algilds siðferðis krefst ekki óskeikullar siðferðilegrar skynjunar eða fullkomins siðvits.

Skynjun okkar á hinum efnislega veruleika í kringum okkur er ekki óskeikul. Skynjun okkar getur avegaleitt okkur. En það gefur okkur ekki tilefni til þess að vantreysta henni að öllu leyti eða líta svo á að hún sé óáreiðanleg. Slíkt væri fráleitt. Til þess þyrftu að liggja fyrir afar, afar sterk rök. Svo sterk að þau vega þyngra en samanlögð skynjun okkar og reynsla af veruleikanum í kringum okkur.

Hið sama gildir um siðferðilega skynjun okkar og reynslu.

Á sama hátt og skynjun okkar og reynsla af veruleikanum í kringum okkur réttlætir trú okkar á tilvist hlutlægs efnislegs veruleika réttlætir siðferðileg skynjun okkar og reynsla þá trú okkar að til séu siðferðisgildi og siðferðisboð sem birtast okkur sem hlutlægur veruleiki.

Og rétt er að nefna líka að spurningin um uppruna siðferðis, eða hvernig við tileinkum okkur siðferðisgildi, grefur ekki undan siðferðilegri skynjun okkar og reynslu.

Jafnvel þótt maðurinn tileinki sér siðferðisgildi fyrir tilstilli hægfara þróunar og félagslegra skilyrðinga gefur það augljóslega ekki tilefni til að vantreysta gildi siðferðilegrar reynslu okkar, enda hefur uppruni trúar eða viðhorfs ekkert með réttmæti eða sannleika þeirrar trúar eða þess viðhorfs að gera.

Það kann vel að vera að siðferðileg þekking eigi sér margar og ólíkar uppsprettur: Skynsemi, röklegt innsæi, íhugun á gildi mannsins, uppeldi, jafnvel guðlega opinberun. En spurningin hvernig við komumst til þekkingar á eða tileinkum okkur siðferðisgildi er ekki hluti af röksemdafærslunni og hefur ekkert með hana að gera.

Til að ljúka máli mínu:

Ef Guð er ekki til þá höfum við góða ástæðu til að ætla að algild siðferðisgildi og siðferðisboð séu ekki til, og að gjörðum okkar fylgi engin ábyrgð í siðferðilegum skilningi. Tilhugsunin um slíkan veruleika er sannarlega hryllilegur. Ef við lítum svo á að algild siðferðisgildi og siðferðisboð séu til, sem virðist fullkomlega skynsamlegt að gera í ljosi siðferðilegrar reynslu okkar og upplifunar af lífinu, þá höfum við tilefni til að trúa því að Guð sé til, og að náttúruhyggja gefi okkur ekki rétta mynd af eðli lífsins og mannsins.

Virðingarfyllst og með kærri kveðju.

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Náttúruhyggja · Rök fyrir guðleysi · Rök fyrir tilvist Guðs · Siðferði

Laugardagur 25.11.2017 - 22:37 - FB ummæli ()

Vangaveltur um siðferði

Nýleg stöðufærsla á facebook-síðu Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns og pírata, vakti athygli mína.

Þar segir Helgi:

„Kærleikur og umburðarlyndi eru gildi sem standa á eigin fótum. Það á ekki að þurfa yfirnáttúruleg fyrirbæri, loforð um himnaríki eða hótun um vítisvist til þess að fólk tileinki sér þau.“

Þetta er umhugsunarvert.

Nú veit ég ekki að öllu leyti hvað hér er átt við, en ekki þykir mér ósennilegt að það sé í grundvallaratriðum það að öll getum við verið góð án þess að trúa á Guð.

Með öðrum orðum að við getum öll tileinkað okkur þau gildi sem siðferðilega gott líf byggist á óháð því hverju við trúum um Guð eða yfirnáttúrulegan veruleika.

Því er ég hjartanlega sammála!

Við þurfum alls ekki á trú að halda til þess að vera góðar manneskjur eða til að skilja muninn á góðu og illu, og réttu og röngu. Gildi á borð við kærleika og umburðarlyndi, réttlæti og jafnrétti er ekki einkaeign sumra heldur sammannlegur sjóður okkar allra.

Og það er afskaplega dapurlegt þegar trúað fólk lætur annað í veðri vaka.

Raunar er ég ekki í vafa um að margir guðleysingjar hafa lifað siðferðilegra betra lífi en ég hef gert eða mun gera.

En í hvaða skilningi standa siðferðisgildi á borð við kærleika og umburðarlyndi á „eigin fótum“?

Að mínu mati er eitt að segja að við getum verið góð án þess að trúa á Guð. Annað er að segja að við getum verið góð án Guðs.

Á því tvennu er mikill munur.

Spurningin hvort við getum verið góð án Guðs hefur ekkert með trúarviðhorf að gera, hvorki trú né vantrú, heldur eðli siðferðisgilda og grundvöll þeirra.

Hvað þýðir það að segja að eitthvað sé beinlínis rétt eða rangt, gott eða illt? Í hvaða skilningi eða merkingu getum við sagt að svo sé?

Það er afar áhugaverð heimspekileg spurning sem vert er að velta vöngum yfir. Og sú spurning hefur leitað á hugsandi fólk allt frá dögum forngrísku heimspekinganna.

Eru siðferðisgildi á borð við réttlæti, góðmennsku, umburðarlyndi o.s.frv. ekkert annað en félagslegar venjur sem breytast frá einum tíma til annars? Grundvallast þau á persónulegri skoðun og smekk hvers og eins? Eru þau fólgin í meirihlutavilja samfélagsins á hverjum tíma? Eða geðþótta valdhafanna?

Eða eru siðferðisgildi í einhverjum skilningi hlutlæg, algild, og bindandi fyrir alla, hafin yfir persónulegar og ólíkar skoðanir og félagslegar venjur?

Hver er grundvöllurinn sem siðferðisgildi og siðferðisboð hvíla á?

Richard Dawkins, sá þekkti og áhrifamikli guðleysingi, svarar þeirri spurningu umbúðalaust í lýsingu sinni á guðlausum veruleika:

„Í alheimi blindra efnislegra lögmála náttúrunnar og erfðafræðilegrar fjölföldunar verða sumir hart leiknir en aðrir hafa heppnina með sér, og þú finnur hvorki ástæðu á bak við það né réttlæti. Alheimurinn, eins og hann blasir við, er einmitt eins og við má búast, ef það er þegar öllu er á botninn hvolft engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“

Að gefnu guðleysi sýnist mér erfitt að mæla gegn því sem Dawkins segir. Hér virðist um rökrétta niðurstöðu að ræða út frá gefnum forsendum.

Ef alheimurinn, hinn náttúrulegi veruleiki tíma, rúms, efnis og orku, raunverulega er tæmandi lýsing á því sem til er, ef lífið og við sjálf erum í grunninn ekkert annað en tilviljunarkennt efni sem lýtur, og er skilyrt af, blindum lögmálum náttúrunnar, í hvaða skilningi getum við sagt að eitthvað sé beinlínis rétt eða rangt?

Það er áleitin spurning.

Margir sem rekja guðleysi til sinna röklegu lykta taka undir með Dawkins. Að út frá forsendum náttúruhyggjunnar blasi við að allt tal um hlutlægt, algilt og bindandi siðferði sé innihaldslaus sjálfsblekking.

Vísindaheimspekingurinn Michael Ruse bendir á þetta:

„Siðferði, rétt eins og hendur okkar, fætur og tennur, er líffræðileg aðlögun. Sem skynsamlegar og merkingabærar staðhæfingar um eitthvað hlutlægt er siðferði blekking. Ég ber virðingu fyrir því að sá sem segir: Þú skalt elska náunga þinn eins sjálfan þig, trúi því að hann vísi til einhvers handan sjálfs sín. Slík tilvísun er þó fullkomlega innistæðulaus. Siðferði er ekkert annað en stuðningur við afkomu okkar og fjölgun … hverskonar dýpri merking er tálsýn.“

Og með þetta í huga hljótum við að velta vöngum hvort maðurinn hafi þá eitthvað sérstakt eða hlutlægt gildi í sjálfum sér í siðferðilegum skilningi – eða hvaða skilningi sem er.

Af hverju ber honum siðferðileg skylda til að gera eitt umfram annað?

Í guðlausu ljósi náttúruhyggjunnar erum við ekkert annað en tiltölulega þróuð dýrategund í alheimi án merkingar og tilgangs, tilviljunarkennd aukaafurð tíma og efnis á valdi blindra náttúrulögmála og að öllu leyti skilyrt af taugaboðunum í heilanum í okkur.

Það eina sem bíður okkar allra er hið sama og bíður alls alheimsins.

Að verða að engu.

Og rétt eins og önnur dýr „dönsum við í takt“ við erfðaefnið okkar.

Það sem Dawkins, Ruse og aðrir benda á, er að ef guðleysi lýsir veruleikanum eins og hann er þá eru siðferðisgildi og siðferðisboð í hlutlægri merkingu ekki til. Guðleysi rúmar það einfaldlega ekki.

Nietzsche, sem á sínum tíma boðaði dauða Guðs, benti á hið sama. Án Guðs eru siðferðisgildi og siðferðisboð tilviljunarkennd aukaafurð þróunar og félagslegrar skilyrðingar og benda ekki til neins sem okkur er skylt að taka tillit til.

Að mínu viti er afar erfitt að komast undan slíkri niðurstöðu ef guðleysi er grunnforsendan.

Eins og efahyggjumaðurinn David Hume lagði áherslu á er náttúran einfaldlega það sem er. Það hefur hins vegar ekkert að gera með það sem okkur finnst að ætti að vera. Við komumst ekki frá því sem er til þess sem ætti að vera. Guðleysi getur ekki brúað fjarlægðina þar á milli.

Að mati líffræðingsins og guðleysingjans William Provine er því einfaldlega „ekki til neitt innbyggt siðferðislögmál. Alheimurinn lætur sig okkur engu varða og líf okkar hefur enga merkingu eða tilgang þegar öllu er á botninn hvolft“.

Erum við þá ekki ofurseld afstæðishyggjunni, þar sem allt (eða ekkert) er rétt og rangt og siðferðilegar staðhæfingar ekki fólgnar í öðru en félagslegum skilyrðingu og persónulegum skoðunum og smekk.

Heimspekingurinn og guðleysinginn Alex Rosenborg gengst við því. Í bók sinni The atheist guide to reality svarar hann nokkrum af stærstu spurningum lífsins á skýran og hnitmiðaðan hátt:

„Er Guð til? Nei

Hvert er eðli lífsins? Það sem eðlisfræðin segir að það sé.

Hver er tilgangur alheimsins? Enginn.

Hvers vegna er ég hér? Fyrir hreina heppni.

Er til sál? Ertu að grínast?

Er til frjáls vilji? Ekki möguleiki.

Hver er munurinn á réttu og röngu, góðu og illu? Það er enginn siðferðilegur munur.“

Niðurstaða Rosenborg er eftirfarandi: „Ef maður vill vera guðleysingi verður maður að sætta sig við níhílisma upp að vissu marki … en sem betur fer er alltaf til prósak.“

Slíkt viðhorf til lífsins hljómar afar ófullnægjandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og fullkomlega óraunhæft í praktískum skilningi.

Dostojevskí dró þetta allt saman á áleitinn hátt í bók sinni Karamazov bræðurnir:

„Ef Guð er ekki til er allt leyfilegt.“

Þannig er veruleikinn þegar öllu er á botninn hvolft. Samkvæmt náttúruhyggjunni!

En er þetta öll sagan?

Svarar þetta til upplifunar okkar og reynslu af lífinu?

Nei!

Djúpt innra með okkur vitum við, sjáum við og finnum, að lífið hefur óneitanlega siðferðilega vídd sem verður ekki hafnað eða útskýrð á einfaldan hátt í krafti smættunarhyggju.

Á sama hátt og við sjáum og finnum fyrir veruleikanum í kringum okkur finnum við og sjáum við að sumt í lífinu er raunverulega rétt eða rangt, í hlutlægum og algildum skilningi.

Er það upplifun sem okkur ber að horfa framhjá sem ranghugmynd.

Nei!

Siðferðilegt innsæi okkar virðist ekki aðeins minna á hvað er rétt og gott að gera (eða láta vera að gera) heldur að til sé siðferðilegur mælikvarði, óháður skoðunum okkar, breytni og menningar- og samfélagsbundnum aðstæðum, sem við m.a. notum til að leggja mat og dóm á skoðanir og gjörðir annarra , ekki síst þeirra sem eru okkur ósammála. Á þeim grunni ýmist lofum við fólk og gjörðir þeirra, eða gagnrýnum, og jafnvel fordæmum.

En ef öll siðferðisgildi eru afstæð í eðli sínu þá hefur slíkt ekkert upp á sig og er með öllu þýðingarlaust og í raun án innihalds.

En við gerum það engu að síður!

Hvers vegna?

Vegna þess að við vitum að hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru til. Sú vissa er okkur eins eðlislæg og vera má.

Þegar ég segi að helförin var siðferðilega röng lýsi ég ekki bara persónulegri skoðun minni eða huglægu mati, sem kann eða kann ekki að ganga gegn skoðunum annarra. Að kerfisbundin útrýming 6 milljóna manna var siðferðileg ómennska í sinni verstu mynd veltur ekki á því hverjir eða hversu margir eru mér sammála. Helförin var, er og mun alltaf vera, siðferðilega röng – jafnvel þótt nasistarnir sem hrintu henni í framkvæmd töldu hana rétta, jafnvel þótt hún var þýsku valdhöfunum þóknanleg og féll að mörgu leyti að tíðarandanum.

Að misnota manneskju, að beita hana ofbeldi, unga eða gamla, er ekki siðferðilega hlutlaus verknaður. Það er ekki bara eitthvað sem ekki þjónar hag samfélagsins og er þess vegna litið hornauga.

Eins og einn heimspekingurinn sagði: Sá sem telur það ásættanlegt að pynta barn hefur jafn rangt fyrir sér og sá sem segir að tveir plús tveir eru fimm.

Hvernig getum við tekið undir það að hryðjuverkamaðurinn sem myrðir saklausar manneskjur, eða foreldrið sem misnotar barnið sitt, einræðisherrann sem skeytir engu um líf og heilsu landa sinna, dansi bara í takt við erfðaefnið sitt?!

Væri það til marks um siðferði sem stendur á eigin fótum?

Nei, það væri til marks um siðferðilega uppgjöf, endalok siðferðisins, að mínu mati.

En er það veruleikinn sem við lifum í?

Er ekki annað og meira á bak við lífið en svo?

Hvað með hryllinginn sem viðgekkst í Sovjétríkjunum undir ógnarstjórn Stalíns? Hvað með fjöldamorðin í Kambódíu. Hvað með Rúanda? Sebrenika? Hvað með Sýrland? Hvað með ríki íslams?

Er þetta bara dæmi um fólk sem viljalaust og án ábyrgðar dansaði í takt við erfðaefnið sitt?

Er það skynsamlegasta skoðunin þegar öllu er á botninn hvolft?

Er það skilningur okkar á lífinu og upplifun okkar af því, af okkur sjálfum og öðrum? Rúmar lífið ekki siðferðilega vídd yfirleitt? Er siðferðiskennd okkar og vitund hrein blekking? Er eðli lífsins slíkt að það er með öllu merkingarlaust?

Er ekki annað á bak við lífið en „blint miskunnarlaust tómlæti“? svo gripið sé til orða Dawkins.

Svari því hver fyrir sig.

Ég held þó að við höfum öll tilhneygingu til að svara þeirri spurningu neitandi.

Einmitt vegna þess að hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru til. Við upplifum það dag hvern og staðfestum í gegnum orð okkar og breytni.

Og þá hljótum við að spyrja hvað útskýrir það?!

Hver er grundvöllur þess?!

Hvort felur í sér skynsamlegri útskýringu á siðferðilegu innsæi okkar og upplifun, Guð eða tilviljunarkennt efni á valdi blindra náttúrulögmála?

En burtséð frá því hvernig við svörum þeirri spurningu þá liggja forsendurnar fyrir.

Ef Guð er ekki til þá eru hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð ekki til!

Hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru til!

Þessar forsendur hljóma einkar sennilegar, að mínu mati, að minnsta kosti sennilegri en andstæða þeirra.

Og niðurstaðan sem leiðir af þessum tveimur forsendum er röklega séð óhjákvæmileg.

Ef alheimurinn var skapaður af Guði sem í eðli sínu er góður, kærleiksríkur og réttlátur, þá höfum við í senn traustan grundvöll fyrir og skynsamlega útskýringu á siðferðilegu innsæi okkar sem minnir okkur á að sumt er raunverulega rétt og rangt og gott og illt, í hlutlægum skilningi.

Við þurfum vissulega ekki að trúa á Guð til þess að vita það.

Og þá þekkingu getur fólk tileinkað sér á ólíkan hátt og eftir ólíkum leiðum.

En við getum engu að síður vitað það vegna þess að þegar allt kemur til alls er uppruna okkar og alheimsins að finna í einum og sama veruleikanum, Guði.

Ef tiltekin forsenda (að Guð er ekki til) leiðir til niðurstöðu sem maður veit að er ekki rétt (að hlutlæg siðferðisgildi og siðferðisboð eru ekki til) hvers vegna ætti maður þá ekki að endurskoða þá forsendu?

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Heimsmynd · Heimspeki · Náttúruhyggja · Siðferði

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is