Fimmtudagur 27.9.2012 - 09:58 - FB ummæli ()

Ramminn

Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða er komin aftur inn í þingið.

Þetta er mikilvægt mál sem á sér langan aðdraganda.  Eftir fyrstu umræðu sé ég ekki betur en að full ástæða sé til þess að vera nokkuð bjartsýnn á að sátt náist um málið.

Sátt einkennist reyndar oft af því að allir aðilar eru jafnósáttir. Þeir sem vilja fremur vernda, eins og ég og fleiri, setjum spurningamerki við að sum svæði eins og á Reykjanesskaga séu sett í virkjanaflokk.  Aðrir vilja fjölga í virkjanaflokki og horfa þá einkum til neðrihluta Þjórsár.

En svona er þetta. Maður verður að virða ferlið. Rammáætlun á sér langa sögu. Mjög margir hafa komið að gerð hennar. Fjölmargir hafa gefið álit sitt.  Svo er líka mikilvægt að minna sig á það, að Rammaáætlun lýsir ekki svarthvítri og endanlegri veröld. Áætlunin verður stöðugt endurskoðuð og nýting í mörgum tilvikum mun þarfnast talsvert meiri rannsókna jafnvel þótt svæði sé í nýtingarflokki.

Aðalatriðið er þetta: Hér er kominn ramminn. Plan. Grunnur til að standa á.

Mesta ólundin í sumum út af áætluninni virðist vera vegna neðri hluta Þjórsár. Þeir virkjunarkostir eru hafðir í biðflokki.  Biðflokkur merkir að of mörg vafaatriði þykja fyrir hendi sem þarft að skera úr um áður en tekin er afstaða um virkjun eða vernd.

Alls eru 31 virkjanakostur í biðflokki. Sextán eru í nýtingarflokki. Tuttugu í vernd.

Auðvitað takast á í þinginu mismunandi pólar hvað varðar umhverfismál.  Annars vegar höfum við þingmenn sem segjast sjá eftir hverjum þeim vatnsflaumi sem rennur óvirkjaður til sjávar.

Hins vegar höfum við þingmenn sem leggja áherslu á þá skyldu okkar sem íbúa þessa lands núna, að skila landinu með öllum sínum gæðum sem mest óspjölluðu til komandi kynslóða. Um þessi tengsl umhverfismála, sjálfbærni og mannréttinda er einmitt ágæt klausa í fyrirliggjandi tillögu Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Svona liggja línurnar nokkurn veginn, upp að því marki sem yfirleitt er hægt að tala um að línur liggi. (Veröldin er ekki svarthvít!).

En þá er ég semsagt í síðari hópnum.  Það hvort neðrihluti Þjórsár verður settur í nýtingarflokk eða hafður í biðflokki ákvarðast svo m.a. af því hvor hópurinn er stærri á þingi.

En annars finnst mér mikilvægasta málið hvað varðar orkunýtingu og auðlindastefnu vera þetta:  Við verðum að hætta að selja orkuna okkar svona ódýrt til stórkaupenda eins og við höfum gert.  Ef við ætlum að halda áfram að gera það — afhenda auðlinda nánast á silfurfati til álfyrirtækja í þágu handstýrðrar, staðbundinnar atvinnuuppbyggingar — ættum við ekkert að virkja meira.

Það er mín skoðun.

Við eigum að virkja hófsamlega. Láta náttúruna njóta vafans. Það er lykilatriði. Og 16 virkjunarkostir eru kappnóg. Mættu vera færri.

Svo eigum við að einbeita okkur að því að selja þá orku sem verður til sem hæstu verði. Við eigum líka að reyna að koma núverandi orkuframleiðslu í betra verð. Ég held að fjölbreyttur grænn iðnaður sé reiðubúinn að greiða mest, enda orkan okkar græn.

Landsvirkjun hefur kynnt þessa stefnu. Hana eigum við að styðja. Þetta er ærið verkefni.

Ef þetta tekst verður til umtalsverður beinn arður, tugir milljarða, sem opinberu orkufyrirtækin geta greitt í sameiginlega sjóði á ári hverju.

Þann pening eigum við svo að nota til að bæta skilyrðin í samfélaginu. T.d. greiða niður skuldir, lækka álögur, efla velferðarkerfið og samgöngur, svo að fjölbreytt atvinnulíf fái betur þrifist um land allt. Og mannlíf.

Þá yrði ég sáttari. Hið opinbera á að einbeita sér að því að skapa skilyrðin, svo fjölbreytt framtak einstaklinga og samtaka þeirra fái notið sín.  Margir segja þetta, en fáir boða þetta í raun.

En um þetta allt saman — til hvers við virkjum og hvað við ætlum yfirhöfuð að fá út úr því — var lítið talað í þinginu í gær.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.9.2012 - 15:28 - FB ummæli ()

Ræða

Hér er ræðan mín frá því í gær, í umræðu um stefnuræðu. Hún var ekki skrifuð fyrirfram en mér sýnist snillingarnir í ræðuritun þingsins hafa náð þessu kórrétt niður eins og alltaf….

Frú forseti, góðir landsmenn. Í gærmorgun gekk ég yfir Austurvöll í erindagjörðum mínum og við mér blasti nokkuð sorgleg sjón. Hún gerði mig dapran í hjartanu. Það var búið að reisa járngirðingu, eða eigum við að segja járntjald, sem skar Austurvöll miðjan. Núna berjast bændur og björgunarsveitarmenn og íbúar saman við náttúruöflin fyrir norðan. Sá samtakamáttur ætti að vera okkur öllum áminning um það hversu mikilvægt það er að vinna saman, takast saman á við viðfangsefnin. Ég sendi þeim baráttukveðjur. Þessi járngirðing ætti hins vegar að vera okkur minnisvarði og áminning um akkúrat hið gagnstæða, minnisvarði um sundrunguna sem ríkir í samfélaginu, vantraustið, og hún ætti að vera okkur áminning um það að eitt mikilvægasta verkefni samtímans í íslenskum stjórnmálum og í íslensku þjóðfélagi er að koma á meira trausti, er að koma á sátt.

Mörgum hefur orðið tíðrætt um þetta. Síðast í gær talaði hæstvirtur forseti Íslands um traust. Það var um margt ágætt, en ég vil nota tækifærið hér og fjalla aðeins um þessa ræðu. Það er tvennt í þeirri ræðu sem ég var dálítið ósammála og vil gera athugasemdir við, annars vegar það að menn skuli telja það algjört aðalatriði, nánast meginatriðið eða jafnvel eina atriðið, í því verkefni að endurreisa traust í þjóðfélaginu að koma á betri vinnubrögðum á Alþingi. Ég held að verkefnið sé miklu margslungnara en svo.

Ég er alveg sammála því að birtingarmynd Alþingis má oft vera betri. Hér eru oft frekar vandræðalegir fundir og við þurfum að bæta vinnubrögðin. En það er mjög margt annað sem Alþingi gerir gott, eins og í nefndarstörfum til dæmis sem þarf að auglýsa betur. Í öllu falli er verkefnið viðameira.

Síðan kom einnig fram sú áhersla í ræðu hæstvirts forseta að sáttin verði á einhvern hátt skilyrt við vissa efnislega niðurstöðu í deilumálum, að sáttin verði að vera bundin við það að hér verði sem minnstar breytingar, ég túlkaði orð hæstvirts forseta þannig. Þetta held ég að sé reginmisskilningur. Ég held að það sé grundvallaratriði þegar við tökumst á við það verkefni að endurreisa sátt og traust í samfélaginu að ganga út frá því og taka það algjörlega sem gefinn hlut að við verðum ósammála. Í samfélaginu verða alltaf ólíkar skoðanir, það er útgangspunkturinn. Við ætlum ekki að útrýma ágreiningi, við ætlum að meðhöndla ágreininginn.

Það sem hefur valdið mér áhyggjum þau ár sem ég hef setið á þingi er það hversu erfiðlega það gengur að virða ferlana sem við ákveðum að setja mál í. Stór ágreiningsmál eru í ferli, jafnvel áratugaágreiningsmál, og mér sýnist það einhvern veginn vera bara mjög erfitt, sérstaklega í þessum sal og úti í samfélaginu líka, að reyna að halda þessu í ferli. Við erum að endurskoða stjórnarskrána, við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það yrði risastór ósigur í því verkefni að reyna að koma á trausti í samfélaginu ef þessi tvö ferli mundu einhvern veginn bara renna út í sandinn. Baráttan snýst um það að reyna að bera virðingu fyrir þessu ferli.

Svo segi ég að þetta sé margslungið viðfangsefni. Ég held að það að koma á trausti í samfélaginu snúi líka að því að takast á við mörg erfiðustu og stærstu viðfangsefnin í efnahagsmálum samtímans. Sjáið þið til, efnahagslíf sem er svona eins og okkar, ófyrirsjáanlegt, sem gerir það að verkum að við þurfum að hafa verðtryggð lán, sem gerir það að verkum að hvert einasta ófyrirsjáanlegt verðbólguskot eyðir verðmætum heimilanna, eyðir sparnaði heimilanna ófyrirsjáanlega. Er þetta ekki samfélag sem skapar vantraust? Þurfum við ekki að takast á við þetta til að geta útrýmt járngirðingunni? Tilviljanakenndur árangur út af þessu, þurfum við ekki að takast á við hann? Þurfum við ekki að takast á við óljós mörk stofnana, óljósan tilgang embætta eins og embætti forseta Íslands, ef við ætlum að byggja upp traust? Er það ekki þess vegna sem við erum að endurskoða stjórnarskrána? Þurfum við ekki að búa til sátt um auðlindanýtingu? Hefur ekki margoft verið lítil sátt um hana, er það ekki þess vegna sem við ætlum að taka til umfjöllunar rammaáætlun um nýtingu og vernd?

Það er til dæmis þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána í aðsigi. Okkur öllum verður að takast að sigrast á þessu verkefni í sameiningu líkt og björgunarsveitarmenn og bændur fyrir norðan. Ég held að það sé alveg lífsnauðsynlegt að þetta takist vegna þess að það er að hefjast uppgangur í samfélaginu. Ég held að þessir brestir í samfélaginu, sem stundum eru kallaðir sveigjanleiki, þessi ófyrirsjáanleiki allur sem leiðir til vantrausts, og þetta víðtæka vantraust sem ríkir í samfélaginu geri það að verkum að uppgangurinn gæti orðið okkur miklu erfiðari en kreppan.

Ég heiti því á alla landsmenn, okkur alla saman, að takast á við það verkefni að byggja upp traust í samfélaginu. Þá mögulega getum við fjarlægt einhvern daginn varanlega járngirðinguna á Austurvelli, sett hana á safn, kannski notað sem þvottagrind eða mögulega sauðfjárrétt fyrir norðan.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.8.2012 - 09:47 - FB ummæli ()

Er gott að vita ekki?

Það liggur fyrir að skoðanir á hugsanlegri aðild Íslendinga að Evrópusambandinu eru skiptar. (Þessi setning er það sem enskir kalla „understatement.“) Sjálfur hef ég átt í rökræðum um ESB í ótal eldhúsum, heitum pottum, vinnustöðum, sumarhúsum, skólastofum, leigubílum og guð má vita hvar síðan 1986 eða svo, með hléum. Oft hafa þessar rökræður verið tilfinningaþrungnar og markaðar alls kyns ásökunum á báða bóga um vanþekkingu, bjánaskap og svik við hinar fögrustu hugsjónir.

Nú hafa Íslendingar sótt um aðild, enda var meirihluti fyrir því á þingi. Samninganefndin er vel skipuð og viðræðurnar sjálfar hafa gengið vel.  Því er þó ítrekað haldið fram að viðræðurnar séu í raun aðlögun að sambandinu. Mér hefur ætíð fundist það skrýtinn málflutningur. Ef Íslendingar segðu nei við samningi, hvað myndi þá standa eftir sem breyting á íslensku samfélagi vegna viðræðnanna? Ef ekki er hægt að nefna neitt markvert sem svar við þessari spurningu, er varla hægt að tala um að viðræðurnar feli í sér aðlögun.

Staðreyndirnar koma í ljós

Viðræðurnar hafa haft eitt gott í för með sér: Staðreyndir hafa komið upp á yfirborðið. Það vantar ekki yfirlýsingarnar um það hvað ESB aðild muni fela í sér. Eftir því sem viðræðunum vindur fram kemur betur í ljós hvaða yfirlýsingar eru réttar og hverjar rangar.  Á tímabili var því til dæmis haldið fram að Íslendingar þyrftu að ganga í evrópskan her ef þjóðin gengi í sambandið. Nú er komið í ljós að það er auðvitað ekki rétt. Eins hefur stundum borið á yfirlýsingum um að ESB ásælist á einhvern hátt orkuauðlindir Íslendinga. En eftir að kaflinn um orkumál var opnaður hafa þær raddir að mestu þagnað. Fullyrt er að íslenskur landbúnaður muni bera skarðan hlut frá borði, en kaflinn um landbúnað bíður enn umfjöllunar. Sem og kaflinn um sjávarútveg.  Hvað reynist rétt og hvað rangt í þeim efnum á allt eftir að koma í ljós. Stærsta breytan sem mun ráða afstöðu flestra til Evrópusambandsaðildar á eftir að líta dagsins ljós: Samningurinn sjálfur.

Spurningar hverfa ekki

Framtíðarsýn þeirra sem vilja hætta viðræðunum er forvitnileg. Fyrir þjóð sem er áhrifalaus þiggjandi yfigripsmikilla lagasetninga af hálfu ESB í gegnum samninginn um EES hlýtur það alltaf að verða áleitin spurning hvort ekki eigi að stíga skrefið til fulls, ganga í sambandið og fá sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Sú spurning mun ekki hverfa. Í hvert einasta skipti sem krónan fellur með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu, þannig að skuldir fólks stórhækka vegna verðtryggingar, munu spurningar um gjaldmiðilssamstarf við Evrópuþjóðirnar vakna aftur. Vaxandi ólund vegna gjaldeyrishafta mun hafa sömu áhrif sem og kostnaður almennings vegna hárra vaxta.

Ég telst til þeirra Íslendinga sem vilja komast til botns í þessu máli, langþreyttur á óupplýstum rökræðum í eldhúsum og heitum pottum. Evrópusamstarf hefur hingað til reynst þjóðinni farsælt. Ég tel að ESB aðild geti mögulega verið rökrétt næsta skref. Aðild gæti bætt lífskjör og gert Íslendinga að mikilvægum þátttakendum í samvinnu sjálfstæðra ríkja í Evrópu.  Ég leyfi mér að spyrja: Ef sá hluti þjóðarinnar fær að ráða ferðinni sem sér enga ástæðu til að kanna þennan möguleika til hlítar — til að komast að því hvað er rétt og hvað er rangt — og vill frekar halda áfram deilum á kaffistofum um þetta mál án niðurstöðu um ókomna framtíð, hvert verður þá hlutskipti okkar hinna?  Eigum við bara að vera kampakát með það? Alsæl í dýrtíðinni og óvissunni? Er gott að vita ekki neitt?

Birt í DV miðvikudaginn 15.ágúst

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.8.2012 - 10:44 - FB ummæli ()

Björt framtíð

Hér er grein eftir okkur Heiðu sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Um flokkinn:

Þótt Björt framtíð sé nýtt stjórnmálaafl er hún ekki jaðarframboð eða sérframboð. Hún er heldur ekki óánægjuframboð. Björt framtíð er frjálslynd og bjartsýn miðjuhreyfing sem er vonandi komin til að vera. Hún er miðflokkurinn sem vantar í íslensk stjórnmál. Hún er nýtt afl fyrir nýja tíma. Hún er stofnuð 4. febrúar 2012 af fólki úr öllum áttum sem vill sjá stjórnmálin breyta um stefnu, í átt til meiri yfirvegunar og skynsemi. Í átt til bjartari og traustari framtíðar. Björt framtíð fagnar lýðræðinu og möguleikanum sem í því felst fyrir okkur öll til þess að gera gagn. Hún er ánægjuframboð.

Björt framtíð mun ekki lofa gulli og grænum skógum né draga kanínur úr hatti. Við viljum stunda stjórnmál af ábyrgð. Mörg stærstu og mikilvægustu viðfangsefni þjóðarinnar eru vandmeðfarin og yfirgripsmikil. Úrlausn þeirra krefst samræðu margra einstaklinga. Þess vegna er það eitt af markmiðum Bjartrar framtíðar að innleiða traust í samfélaginu, hvers á öðru og á upplýstri samræðu okkar á milli. Þetta viljum við gera með því að byrja sjálf að treysta og vera sjálf traustsins verð.

Viðfangsefnin blasa við. Á Íslandi þarf meiri fjölbreytni. Samfélag er betra eftir því sem möguleikar fólks til þess að nýta hæfileika sína eru fleiri. Þess vegna höfðum við frumkvæði að gerð fjárfestingaáætlunar, sem ýtt hefur verið úr vör, þar sem áhersla er lögð á að efla vaxandi atvinnugreinar, aðrar en hinar hefðbundnu.

Ísland þarfnast líka stöðugleika. Sumir fagna sveiflunum. Við gerum það ekki. Við viljum skapa á Íslandi samfélag þar sem fólk getur keypt bíl og íbúð án þess að gerast spákaupmenn. Þar sem fólk borgar skaplega vexti í takti við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Við viljum að fólk geti gert plön fyrir sjálft sig og fyrirtæki sín.

Sveiflurnar eru afleitar fyrir smátt samfélag. Maður þekkir mann. Þeir sem eru inn undir afla, aðrir tapa. Tækifærin eru ekki jöfn. Björt framtíð vill skora klíkusamfélagið og sérhagsmunasamfélagið á hólm og innleiða fjölbreytt og stöðugt samfélag jafnari tækifæra, þar sem fagmennska borgar sig, þar sem rök halda, upplýsingar og menntun skiptir máli og þar sem erfiði einstaklinga endar í góðri uppskeru. Það er marghliða verkefni og metnaðarfullt.

Við viljum að Íslendingar allir njóti góðs af auðlindunum ásamt þeim sem nýta þær. Í arðinum af auðlindunum liggur besta og áþreifanlegasta tækifærið til þess að skapa hinn breiða grunn fyrir fjölbreytni sem okkur er tíðrætt um. Milljarðar geta nýst til þess að treysta velferðarkerfið, efla stuðning við nýsköpun og lækka álögur á fólk og fyrirtæki. Þannig vöxum við og döfnum.

Tvennt verður þó alltaf að liggja til grundvallar: Virðing fyrir umhverfinu og virðing fyrir mannréttindum. Björt framtíð er grænn flokkur. Allur vöxtur og öll velferð verður að byggja á jafnvægi. Við verðum að umgangast umhverfi okkar og náttúru þannig að komandi kynslóðir njóti góðs til jafns við okkur. Þannig tengjast í raun umhverfismál mannréttindum, eins og orðað er ágætlega í drögum að nýrri stjórnarskrá.
Hér hefur verið tæpt á grundvallaratriðum. Ályktun um þjóðfélagsmál, í stóru sem smáu, bíður umfjöllunar á væntanlegum stjórnarfundi. Við köllum hana Ályktun nr. 1. Svo opnum við einnig heimasíðu bráðum sem heitir Heimasidan.is. Þar ætlum við að hafa málefnastarfið. Við hvetjum fólk til þess að taka þátt.

Fátt er mikilvægara í lýðræðisríki en að fólk taki þátt. Ef stjórnmál eru leiðinleg, öfgar ráða ríkjum og niðurrif, er hætt við að fáir vilji taka þátt. Stjórnmál verða geislavirk. Svið fyrir fáa. Þetta hefur gerst á Íslandi. Því skyldi enginn gera lítið úr enn einu markmiði sem Björt framtíð hefur sett sér: Að gera stjórnmál skemmtileg, innihaldsrík og uppbyggileg.

Guðmundur Steingrímsson

Heiða Kristín Helgadóttir

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.5.2012 - 22:55 - FB ummæli ()

Mínar mínútur um ástandið

Hér er ræðan mín frá því í kvöld, á eldhúsdagsumræðum. Fjórar mínútur sléttar:

Frú forseti. Góðir landsmenn.

Sumir halda því fram að á Íslandi ríki sérstakir óvissutímar. Umræðan er líka stundum þannig hér í þessum sal að maður gæti dregið þá ályktun nánast á hverjum degi að Ísland sé alltaf um það bil að sökkva í sæ fyrir klukkan fimm. Slík eru gífuryrðin oft. Slíkar eru upphrópanirnar.

Mig langar að spyrja: Höfum við, sérstaklega í þessum sal — og kannski þjóðin öll — gleymt æðruleysinu? Erum við að missa hæfileikann til þess að takast á við spurningar af yfirvegun?

Ég upplifi þessa tíma ekki sem óvissutíma. Það blasa hins vegar við okkur stór og mikilvæg viðfangsefni. Eins og alltaf, þá verðum við með aðferðum lýðræðisins að taka afstöðu til þeirra. Það er ekkert nýtt í því.

Og allt er þetta knýjandi. Ég upplifi það til dæmis sem eitt af stærstu málum samtímans að reyna að tryggja þjóðinni meiri arð af auðlindum sínum. Við erum rík þjóð. En það er samt eins og við eigum aldrei peninga.  Arður af orkuauðlindunum og sjávarauðlindunum þarf nýtast okkur betur til þess að búa til gott og traust samfélag.  Og um þetta er deilt.

Við þurfum líka – og höfum alltaf þurft — meiri fjölbreytni í atvinnulífið. Nýkynnt fjárfestingaáætlun er stórt skref í þá átt að auka fjölbreytnina, með áherslu á skapandi greinar, rannsóknir, grænan iðnað, ferðaþjónustu. Hér er mikið í húfi.

Eitt viðfangsefni enn er hið klassíska efnahagslega stórmál, sem snýst um að koma á stöðugleika í fjármálunum. Skuldavandi heimilanna er afsprengi þessa eilífa íslenska efnahagsvanda.  Við verðum að koma á efnahagslegu jafnvægi til þess að geta haft á Íslandi eðlilegan lánamarkað. Þetta blasir við.

En sitt sýnist hverjum um lausnirnar. Þessi mál þarf einfaldlega að ræða, af yfirvegun. Þessi viðfangsefni sem við glímum við, eins og það að setja okkur nýja stjórnarskrá og að taka afstöðu til ESB-aðildar, krefjast þess síðan að við tökum meirihlutaákvörðun á einhverjum tímapunkti. Þann feril allan þurfum við að virða og hafa trú á. Og taka þátt í honum.

Frú forseti. Það er ekki rétt að ég sé þingmaður utan flokka. Ég tilheyri nýstofnuðu stjórnamálafli sem heitir Björt framtíð.  Það er frjálslyndur, alþjóðlega sinnaður, grænn og síðast en ekki síst yfirvegaður og afslappaður pólitískur vettvangur.  Okkur langar til þess að breyta pólitíkinni.  Gera hana meira eins og lífið er annars staðar. Víða þarf fólk að taka ákvarðanir og tala saman. Og merkilegt nokk: Það gengur víða mjög vel.

Stjórnmálin þurfa að breytast. Flokkspólitískur æsingur eins og hér ríkir alltof oft skilar engu. Hann kemur okkur bara í vont skap. Og þegar það er gott veður er fáránlegt að vera í vondu skapi.

Mig langar til að segja: Hættum þessu bara. Hættum því núna. Og það eru engir óvissutímar. Við erum bara fólk í samfélagi. Og við þurfum stundum að tala saman og taka ákvarðanir. Þannig er lífið.

Förum aftur til ársins 1951, þegar heimurinn var beinlínis í rúst eftir heila heimsstyrjöld. Þá gaf ungur maður út sína fyrstu ljóðabók.  Fyrstu línur þeirrar bókar eiga brýnt erindi við okkur alltaf, í glímu okkar við hefðbundin mannleg viðfangsefni, spurningar stjórnmálanna, stórar og smáar. Sigfús Daðason orti:

Mannshöfuð er nokkuð þungt
en samt skulum við standa uppréttir

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.5.2012 - 10:06 - FB ummæli ()

Áætlunin góða

Það kemur mér alls ekki óvart að sumir, eins og nú síðast ritstjóri Fréttablaðsins, skuli kalla fjárfestingaráætlunina sem kynnt var í síðustu viku kosningavíxil.

Það verður bara að hafa það.  Hefðbundin viðbrögð.

Ég sjálfur kom að gerð þessarar áætlunar og langar aðeins að útskýra hvað hér er á ferðinni. Í mínum huga er þetta áætlun um uppbyggingu nýrra og vaxandi atvinnugreina, minna atvinnuleysi, samgöngubætur og meiri fjölbreytni í húsnæðismálum. Semsagt: Beinhörð pólitík sem ég fyrir mitt leyti er reiðubúinn að tala fyrir. Og aðrir tala sjálfsagt gegn. Eða hvað?

Áætlunin byggir á mikilli vinnu þúsunda Íslendinga, í Sóknaráætlun 2020, nefnd um græna hagkerfið, innan skapandi greina og hugverkaiðnaðar. Rökstuddar tillögur um það hvernig best er að byggja upp nýjar atvinnugreinar liggja fyrir. Nú þarf bara að kýla á það. Áætlunin mun auka fjölbreytni í atvinnulífinu, auka hagvöxt, skapa tekjur.

Áætlunina á að fjármagna með hluta af auðlindagjöldum og hluta af sölu eignarhluta í bönkunum eða arði úr bankakerfinu, ef sala gengur ekki eftir. Í umræðunni hefur því verið haldið fram að hér sé verið að lofa peningum sem ekki eru til.

Að peningar hverfi, vegna þess að þeir voru ekki til, ættu Íslendingar að hafa lært að geti vel skeð, jafnvel á einum eftirmiðdegi. Þessir peningar sem áætlunin byggir á eru hins vegar ekki þannig. Þeir eru mjög til.

Ríkið á 41% hlut í bankakerfinu.  Ríkið fjárfesti í endurreisn þess. Bankasýslan hefur gert áætlun um sölu þessara eigna sem mun skila umtalsverðu fé í ríkissjóð ef vel tekst til. Ef sala verður ekki að veruleika mun ríkið engu að síður fá arðgreiðslur úr bankakerfinu í sinn hlut. Þetta fé mun fara í að borga niður skuldir, að langmestu leyti, en hluti fer í fjárfestingar samkvæmt áætluninni.

Svo eru það veiðileyfagjöldin.  Auðvitað eru þeir til á Íslandi sem vilja helst ekki innheimta nein veiðileyfagjöld. Vissulega er áætlunin sett fram í trausti þess að þannig sjónarmið verði ekki ofan á í samfélaginu.  Veiðileyfagjöldin eiga að endurspegla hlutdeild þjóðarinnar, eiganda sjávarauðlindarinnar, í auðlindinni.  Þau eru ekki skattlagning.  Þau eru réttlætismál, sem vonandi verður sem mest sátt um. Og fiskur verður áfram veiddur. Sjávarútvegsfyrirtæki munu áfram skapa atvinnu og auð.

Mér finnst skynsamlegt að taka hluta af þessu fé til þess að byggja upp traustara og fjölbreyttara samfélag með fleiri möguleikum fyrir alls konar fólk.

Það er mjög mikil björt framtíð í því.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.5.2012 - 12:26 - FB ummæli ()

Enn um þingið

Í síðustu færslu spáði ég því að pontan á þingi yrði hertekin út af viðvarandi valdabrölti nokkurra þingmanna. Það hefur ræst.

Nú er þörf á því að pæla pínulítið. Hugsa út fyrir rammann. Hvað er til ráða?

Það gengur ekki að hafa óstarfhæft þing. Eitt af því sem þarf að ræða opinskátt er einfaldlega það hvort það sé á nokkurn hátt í þágu lýðræðisins að einstaka þingmenn geti hagað sér svona: farið endalaust upp í pontu, í andsvör og ræður og sagt það sama aftur og aftur.

Ef þeir gerðu svona heima hjá sér yrði þeim fleygt út.

Verður ekki að takmarka þetta?  Önnur þjóðþing gera það. Af hverju ekki við?

Heimildir eru fyrir hendi í þingsköpum.  Þar segir, í 64.gr, að heimilt sé að gera tillögu um það í upphafi umræðu að binda umræðuna við vissa lengd.  Hvers vegna er það ekki gert?  Í umdeildum málum mætti gera tillögu um mjög ríflegan umræðutíma, nokkra daga, jafnvel vikur.

Yrðu þá ekki allir sáttir?

Á öllum öðrum fundum sem ég fer á, aðra en þingfundi, er sá háttur hafður á að fundarstjórinn stýrir umræðunum, lokar mælendaskrá og sér til þess að hún dragist ekki úr hófi.  Hvers vegna þykir þetta ekki líka eðlilegt á þingi?

Auðvitað veit ég svarið. Málþóf er tæki sem stjórnarandstaðan (á Íslandi) vill geta beitt. Allar svona takmarkanir myndu eyðileggja tækið.  En ég vil meina að tækið sé þegar ónýtt. Það er búið að ofnota það. Nú er það notað í alls konar málum, bara til þess að skapa sér stöðu, eins og að er kallað, undir þinglok.  Það gengur ekki.

Ef menn vilja ekki fara þessar leiðir mætti hugsa sér margt annað. Kannski þarf sá hluti þingheims sem er með sönsum og vill virkilega gera eitthvað gagn, einfaldlega að leigja Iðnó og hittast þar á meðan hinir kjafta?

Í Iðnó væri hægt að hittast með tölvurnar, fara yfir málin, ræða saman, leita lausna og skiptast á skoðunum í rólegheitum.  Svo þegar málþófsmenn eru búnir væri hægt að brokka yfir og klára málin formlega.

Ég segi svona.

Eitthvað þarf að gera.

Að lokum þetta:  Ég hvet til þess að fólk láti af alhæfingum um þingmenn. „Að allir séu ómögulegir“, að „allir séu í málþófi“, að „allir stundi argumentum ad hominem“ að „enginn kunni að ræða um efnisatriði máls“ etc etc. Skálkar þrífast í skjóli alhæfinga.  Það er jafnvel hluti af leiknum: Að ömurlegri háttsemi þeirra sé smurt á þingið allt. Allir fá skömmina.

Kannski þarf að stofna Samtök Alþingismanna gegn alhæfingum? Skammstafað: SAA.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.4.2012 - 10:13 - FB ummæli ()

Pontan og völdin

Talsvert er rætt um þinghaldið um þessar mundir. Það er skiljanlegt. Í hönd fer hefðbundið glundroðaástand. Eftir að hafa setið á þingi í smá tíma virðist mér þetta blasa við um þinghaldið almennt:

Á alþingi ríkir viðvarandi valdabarátta. Margir telja hana sjálfsagða enda sé þetta jú alþingi. Flokkar eigi að berjast um völd. Ég er ósammála þessari nálgun á stjórnmál.

Mörg vitum við að valdabarátta, sé hún endalaus, setur flest í bál og brand. Fjölskyldur springa ef valdabarátta innan þeirra er viðvarandi, vinir hætta að talast við, JR hatar Bobby, fyrirtæki ganga illa og félagasamtök verða óstarfhæf. Sama gildir um alþingi. Viðvarandi valdabarátta, með tilheyrandi klækjum, skemmir og eitrar.

Valdabarátta kann að vera nauðsynleg en hún verður að eiga sér afmarkaðan tíma. Í stjórnmálum getur verið eðlilegt að hún fari fram í kosningum. Að kosningum loknum á hins vegar að taka við annars konar hugsunarháttur sem snýst meira um að leysa mál og verða að gagni, burtséð frá því hvernig valdabaráttan fór. Sama gildir annars staðar. Það gengur ekki, neins staðar í lífinu, að stunda valdabaráttu endalaust, alla daga og fram á nótt. Menn verða að kunna að haga sér.

Núna í lok þessa þings mun óstarfhæft alþingi að öllum líkindum birtast okkur enn á ný. Hópur þingmanna mun væntanlega setja sig á mælendaskrá í hverju máli á eftir öðru, tala mjög mikið og mjög oft.  Þörfin á endurtekningum verður mjög mikil.  Þeir sem eru sammála síðasta ræðumanni munu líka þurfa að segja það. Oft.

Mér virðist sem hópur þingmanna sé búinn að skilgreina bestu leiðina í áðurnefndri valdabaráttu. Þetta er gamalt trikk, en virkar vel: Að hertaka pontuna. Pontan á þingi er hliðið sem öll mál þurfa að fara í gegnum. Það þarf enga sérstaka kænsku til þess að sjá, að ef þú stjórnar hliðinu þá stjórnar þú miklu á þingi.

Semsagt: Þú færð völd.

Bingó.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.3.2012 - 18:20 - FB ummæli ()

Kjósum rafrænt um stjórnarskrána

Eins og við var að búast var ógerningur að koma þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá í gegnum þingið í tæka tíð í gærkvöldi.  Hún getur þar með ekki farið fram um leið og forsetakjörið í sumar.

Við hvert einasta skref í átt að nýrri stjórnarskrá er eins og viss hópur þingmanna skjóti upp kryppu og urri.

En hvað um það. Vitaskuld er það ekki úrslitaatriði fyrir málið að þjóðin segi álit sitt á stjórnarskrárdrögunum um leið og hún kýs forseta. Það hefði bara verið praktískt.

Það eru til aðrar og betri lausnir. Í dag kaus ég rafrænt um ýmis framfaramál í hverfinu mínu, Vesturbæ. Það var einfalt mál. Ég gaf upp lykilorðið sem ég nota á skattur.is og svo bara kaus ég og hafði gaman af.

Ég legg til að við kjósum svona um stjórnarskrármálið snemma í haust eða seint í sumar. Þjóðin fær spurningar og nokkra daga til þess að fara á netið og gefa upp afstöðu sína. Rafræn kosning. Lýðræðislegt framfaraskref.

Eins og í Reykjavík.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.2.2012 - 18:18 - FB ummæli ()

Svigrúmið

Það er svolítið skrýtið hvað það kemur mörgum sífellt á óvart að það skuli vera svigrúm í bankakerfinu.  Þetta hefur lengi legið fyrir. Eiginfjárhlutfall bankanna á að vera 16% samkvæmt tilmælum Fjármálaeftirlitsins. Það er hins vegar orðið nálægt 23%. Þarna liggur svigrúmið.

Mönnum reiknast svo til að þetta svigrúm sé um 150 milljarðar, plús mínus.

Það er mjög mikilvæg spurning, hvað eigi að gera — og hvað sé hægt að gera — við þetta svigrúm. Þá spurningu þarf að ræða af mikilli yfirvegun. Ekkert er alveg augljóst í þessu, finnst mér.

Um 40% af þessu fé tilheyrir ríkinu. Hluti af restinni getur runnið til ríkisins líka í gegnum skattlagningu. Þetta er semsagt að stórum hluta opinbert fé eða sameiginlegur sjóður. Þetta vill oft gleymast.

Spurningin blasir þá við, algerlega klassísk:

Hvernig á að nýta þessa peninga best, þannig að sem flestir njóti góðs af?

Pólitík á ekki að vera keppni í því að hafa rétt fyrir sér, sagði mér maður í sundi. Pólitík er spurning um að finna bestu leiðirnar. Í sameiningu.

Mér finnst margt til í því.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is