Föstudagur 26.04.2013 - 13:22 - FB ummæli ()

Stefna BF: Minna vesen, meiri sátt

Markmið númer fjögur og fimm í hinni skýru og afdráttarlausu stefnu Bjartrar framtíðar eru markmiðin um minna vesen og meiri sátt.

Sumir hvá þegar við tölum um minna vesen. Er það ekki eitthvað grín?

Nei, aldeilis ekki. Þetta 320 þúsund manna samfélag er orðið of flókið.  Stofnanir vinna illa saman, samtal og samvinnu vantar milli ráðuneyta, sveitarfélög eru mörg og landinu er skipt upp eftir alls kyns línum, umdæmum og kjördæmum. Fólki er beint milli Heródesar og Pílatusar. Sótt er um vegabréf á einum stað. Það sótt á öðrum.

Þeim sem efast um að vesen sé til staðar ættu að heyra í Freyju Haraldsdóttur. Vesenið sem hún hefur lent í gagnvart opinberri þjónustu, við það að eiga sjálfstætt líf, er yfirgengilegt.

Margar þjóðir hafa gert átak í opinberri þjónustu. Raunar hafa sveitarfélög á Íslandi sumhver gert það líka. Björt framtíð vill t.d. setja alla þjónustu hins opinbera í eina rafræna gátt. Það er lítið vit í öðru.

Mörg smá og millistór fyrirtæki kvarta yfir of flóknu rekstrarumhverfi.  Fjárfestar segja svipaða sögu: Of erfitt er að fá svör úr stjórnsýslunni. Bréfum er oft ekki svarað. Það þarf að gera átak í þessu.  Og almannatryggingakerfið er of flókið.

Fíllinn í herberginu, þegar talað er um minna vesen, er svo auðvitað gjaldeyrishöftin.  Fátt gerir fyrirtækjum jafnerfitt fyrir. Á Íslandi ríkir ekki opið markaðs- og samkeppnisumhverfi. Það er vesen.  Lykilatriðið í að afnema höftin er að efla traust á hagkerfinu. Það lýtur að öðrum markmiðum Bjartrar framtíðar: Um meiri stöðugleika, betri nýtingu fjármuna, meiri fjölbreytileika í atvinnulífinu og meiri tekjur af auðlindum.

Og meiri sátt. Traust er hrunið í samfélaginu. Það gerðist yfir langan tíma.  Fjölmiðlar hafa verið talaðir niður, háskólasamfélagið, stjórnmálamenn, atvinnulífið. Á milli þessara aðila þarf miklu meira samtal. Björt framtíð vill taka þetta verkefni mjög alvarlega. Traust milli manna og stofnana verður ekki til af sjálfu sér. Sátt er verkefni sem getur tekið mörg ár.

Við viljum líka virða lýðræðislegar ákvarðanir og reyna eftir fremsta megni að láta stefnumótun standa. Hringlandaháttur er alltof mikill á Íslandi. Í raun eru flest stærstu mál þjóðfélagsins í algjörri upplausn, viðræðurnar við ESB, bygging Landsspítala, nýting orkuauðlinda og endurskoðun stjórnarskrárinnar.  Það er ekki traustvekjandi.

Björt framtíð vill einbeita sér að því að gera störf Alþingis uppbyggilegri. Við erum þegar byrjuð. Í þessari kosningabaráttu höfum við talað af virðingu og sanngirni, og við höfum talað í markmiðum. Ekki loforðum. Þannig teljum við að stjórnmál verði heilbrigðari.

Svona vill Björt framtíð vinna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is