Miðvikudagur 24.04.2013 - 08:43 - FB ummæli ()

Stefna BF: Meiri stöðugleika

Hin prýðilega stefna Bjartrar framtíðar telur fimm afdráttarlaus markmið. Eitt þeirra hefur töluvert borið á góma í kosningabaráttunni, en það er markmiðið um meiri stöðugleika.

Efnahagslegur stöðugleiki á Íslandi yrði dásamlegur.  Vextir á húsnæðislánum myndu fara niður svo tugþúsundir spöruðust í heimilisbókhaldinu á mánuði, forsendur til að bæta kjör með launabótum og hagstæðara verðlagi yrðu allt aðrar og betri, fyrirtæki og heimili gætu gert áætlanir fram í tímann. Fjölbreytt atvinnulíf gæti loksins þrifist almennilega.

Efnahagslífið gæti orðið eins og best gerist erlendis.

Ég hef það á tilfinningunni að stór hluti þjóðarinnar hafi misst vonina um að markmiðinu um stöðugleika verði nokkurn tímann náð.  Umræðan ber þess nokkur merki. Of margir virðast hafa sætt sig við sveiflurnar, enda viðureignin við þær orðin langvarandi og árangurslítil. Sumir græða beinlínis á þeim.

Þess vegna eiga alls kyns hugmyndir um skyndilausnir og stundarfrið upp á pallborðið. En Björt framtíð er þver og þrjósk: Við megum ekki missa fókusinn. Við verðum að skapa stöðugleika til langs tíma. Aðeins þannig batna lífskjör okkar fyrir alvöru.

Við bendum á nokkur lykilverkefni:

Það þarf stóraukið samráð og samtal í þjóðfélaginu, milli stjórnvalda, atvinnulífsins, háskólageirans, almennings, félagasamtaka og annarra. Þetta verkefni má ekki vanmeta. Það hefur hins vegar verið vanmetið. Þjóðarsáttin árið 1990 snérist um þetta grundvallaratriði. Að fá fólk að sama borðinu. Það tók nokkur ár.

Í annan stað telur Björt framtíð að gjaldmiðillinn sé of lítill og skapi sveiflur. Seðlabankinn er sammála. Við viljum því klára aðildarviðræðurnar og vonumst til að samningurinn verði það góður að þjóðin geti samþykkt. Þá getum við farið í ERM II, gjaldmiðilssamstarf við Evrópu, sem undir eins skapar meiri stöðugleika. Seinna getum við tekið upp evru.

Þetta snýst um kringumstæður okkar. Lítum á: Bara ef Orkuveita Reykjavíkur, svo dæmi sé tekið, greiðir stór erlend lán, þá lækkar gengi krónunnar, verðbólga eykst og lánin okkar hinna fara upp.  Þetta eru óviðunandi. Á komandi kjörtímabili mun Landsbankinn þurfa að greiða ógnarstóra gjalddaga af skuldbindingum sem fara upp í Icesave reikninginn. Það mun líka skerða lífskjör okkar hinna, ef ekkert verður að gert.

En evran er ekki töfralausn. Mun fleira þarf til. Það þarf að auka verðmæti útflutnings og auka erlendar fjárfestingar og það þarf líka að fara mjög vel með opinbera fjármuni og stunda hófsemi og aga. Bæði tengist stefnumálum Bjartrar framtíðar sem ég fjallaði um í gær og í fyrradag: Markmiðunum um meiri fjölbreytni í atvinnulífinu og minni sóun.

Svona hugsar semsagt Björt framtíð. Í skýrum markmiðum um betra þjóðfélag.

Farið ekki langt: Á morgun er það Stefna BF: Minna vesen

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is