Þriðjudagur 23.04.2013 - 08:39 - FB ummæli ()

Stefna BF: Minni sóun

Í hinni skýru og afdráttarlausu stefnu Bjartrar framtíðar er eitt mál sett á dagskrá sem hinir flokkarnir hafa lítið talað um: Að minnka sóun í samfélaginu.

Hvað eigum við við?

Jú, t.d. þetta: Íslendingar vinna langa vinnudaga, enda harðduglegt fólk. En afköstin eru ekki í samræmi við það.  Eins og sagt er á hagfræðimáli, er framleiðni lág í þjóðfélaginu.  Með réttum aðgerðum er hægt að minnka vinnutíma og viðhalda sömu afköstum. Hér þarf mikið átak. Takmarkið er að sem flestir geti unnið við það sem þeir gera best, á fjölskylduvænum vinnutíma.  Það yrði óneitanlega æðislegt. Fjölbreytni í atvinnulífinu er að hluta til leiðin.

En svo erum við líka að tala um þetta: Í heilbrigðiskerfinu, sem er einhver stærsti útgjaldaliður ríkisins, er hægt að nýta mun betur fé, hæfileika og tíma, með réttri langtímahugsun. Fólki er beint í dýr úrræði sem henta ekki. Betri og ódýrari leiðir skortir, s.s. öfluga heilsugæslu og hjúkrunarrými. Forvarnir og lýðheilsumarkmið þurfa líka að vera mun ofarlegar á baugi. Nýr og betri Landsspítali, ef vel er að verki staðið, mun bæta nýtingu á tíma, hæfileikum og fé, öllum til heilla. BF styður því hann.

Skólakerfið er svo annað. Í huga Bjartrar framtíðar er það mikil sóun á hæfileikum ungs fólks og tíma starfsfólks, og opinberu fé, að svo margir nemendur í framhaldsskóla og háskóla hætti í námi.  Þetta er þjóðarmein. Þessu verður að mæta með því m.a. að leggja alla áherslu á fjölbreytni og ekki síður sveigjanleika. Það þarf að minnka áherslu á bóknám ennþá meira. Fjölbreytileikinn í námsleiðum má sín lítils ef fólk þarf samt að yfirstíga sömu hindranirnar í íslensku og stærðfræði í þeim öllum. Við megum ekki við því að hæfaleikaríkt ungt fólk flosni upp úr námi vegna slíkra hindrana.

Svo eru það fjárlögin.  Hvernig opinberu fé er varið þarf sífellt að vera gagnrýni háð. Björt framtíð vill að ríkisrekstur sé ekki umsvifamikill en árangursríkur. Við bendum t.d. á að á vegum ríkisins störfuðu um 700 nefndir árið 2009, sem kostuðu um milljarð. Eru þær allar nauðsynlegar?  Allt svona þarf að skoða vel.

Markmiðið um góða nýtingu og minni sóun er augljóst í tilviki auðlinda og umhverfismála.  Björt framtíð er grænn flokkur.  Við viljum að nýting auðlinda okkar sé ætíð sjálfbær og náttúran njóti vafans. Ekki síður er okkur umhugað um að auðlindanýtingin, eins og þær virkjanir sem þó eru fyrir hendi og verður mögulega ráðist í, skili góðum arði. Þar er pottur brotinn. Verulegum fjárhæðum væri hægt að skila inn í ríkiskassann á ári hverju með stefnubreytingu í þessum efnum.

Og umhverfið, maður, umhverfið.  Verum græn í gegn, segum við. Tölur benda til að Ísland sé mikið sóunarsamfélag. Við þurfum að endurnýta meira, ferðast um á umhverfisvænan hátt, tileinka okkur grænan lífsstíl.  Hér dugar ekkert minna en allsherjarvakning.

Og það er markmið Bjartrar framtíðar.

Farið ekki langt: Á morgun er það Stefna BF: Meiri stöðugleiki.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is