Mánudagur 22.04.2013 - 08:39 - FB ummæli ()

Stefna BF: Meiri fjölbreytni

Eitt af því sem ég er hvað stoltastur af varðandi Bjarta framtíð er hvað stefnan er skýr. Hún byggir á fimm markmiðum, sem við teljum að við þurfum að ná til þess að þjóðfélagið verði betra.  Nú ég ætla að fjalla um það fyrsta: Meiri fjölbreytni.

Björt framtíð telur að þjóðfélagið sé of einsleitt.  Það er engin tilviljun. Markvisst hefur verið unnið að einsleitni, í raun. Orkan er seld til álvera, nánast bara. Styrkir til landbúnaðar fara að mestu til tveggja greina. Og krónan styður einsleitni, en gerir nýjum greinum erfitt fyrir.

Hér þarf átak.

Björt framtíð telur að það sé vel hægt að gera eins og Finnar gerðu. Þeir efldu skapandi greinar og tækni- og hugverkageirann hjá sér til muna með heildstæðu plani. Það hefur aldeilis skilað sér.  Að auki ættum við að leggja sérstaka áherslu á grænan iðnað og ferðaþjónustu. Þar þurfa að verða til verðmætari störf.

Við ættum líka að efla sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki yfir höfuð. Björt framtíð leggur til að við tileinkum okkur stefnu ESB í þeim efnum. Hún ber yfirskriftina „Think small first“ og gengur út á að ráðist sé í margvíslegar mikilvægar aðgerðir til þess að efla þessi fyrirtæki, þar sem langflest fólk á almennum vinnumarkaði vinnur.

Og hver vill þetta ekki, gæti einhver spurt.  Ég veit það ekki. Ég veit bara þetta: Það er ekki verið að setja kraft í þetta.  Björt framtíð vill gera það.

Svo snýst fjölbreytni auðvitað ekki bara um atvinnulífið. Björt framtíð er frjálslyndur flokkur sem styður fjölbreytni á öllum sviðum mannlífsins. Við viljum meira alls konar. Þess vegna erum við m.a. málsvarar menningar. Alls konar menningar. Og svo haldið sé áfram:

Í skólakerfinu flosnar hæfileikaríkt ungt fólk upp úr námi vegna þess að að það getur ekki lært muninn á veikum og sterkum sögnum, svo dæmi sé tekið. Það gengur ekki. Brottfall úr skóla er vandi sem við verðum að taka mun alvarlegar. Sveigjanleiki og fjölbreytni í námsleiðum er svarið.

Í heilbrigðis- og velferðarkerfinu þarf að hugsa út fyrir rammann og skoða fjölbreyttari rekstrarform. Eitt dæmi um nýtt rekstrarform í velferðarþjónustu er NPA fyrir fatlað fólk. Björt framtíð vill svoleiðis. Það byggist á því að notandinn sjálfur fær féð til sín og ræður til sín aðstoðarfólk eftir sínum hentugleik. Þar með getur hann öðlast sjálfstætt líf, sem er mannréttindamál.

Og talandi um það.  Björt framtíð er róttæk í mannréttindamálum. Við tölum nefnilega ekki um fjölbreytni að því bara.  Í grunninn snýst frjálslynd stjórnmálastefna um það að fólk geti notið sín í samfélaginu hvernig sem fólk er. Á sínum forsendum. Að tækifærin til að njóta sín séu jöfn.

Hér eru ærin verkefni: Ég hef áður minnst á fatlað fólk. Það býr við skert tækifæri.  Innflytjendur búa líka við mismunun. Launamisrétti kynjanna er staðreynd sem verður að eyða.  Á milli umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra eftir skilnað ríkir mikill aðstöðumunur, sem kemur niður á börnum.  Svo aðkallandi dæmi séu tekin.

Þessu öllu þurfum við að breyta.

Það er markmið Bjartrar framtíðar.

Farið ekki langt: Á morgun er það Stefna BF: Minni sóun.

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is