Föstudagur 19.04.2013 - 20:54 - FB ummæli ()

Við lofum engu

Sá sem talar í loforðum hefur yfirleitt slæma samvisku.  „Ég lofa að gera þetta aldrei aftur,“ er setning sem óþekkur krakki segir við foreldra sína eftir skammir eða einhver muldrar við maka sinn eftir að hafa farið hressilega yfir strikið í fertugsafmæli. Loforð eru þrautalending þess sem misst hefur traust. Yfirleitt endar loforðaflaumur á brostnum vonum, því heimurinn er ekki gerður fyrir loforð. Brostnar vonir leiða svo til enn minna trausts. Og enn meiri loforða.

Þannig er Ísland í dag.  Traust vantar í samfélagið. Viðbragð hefðbundinna stjórnmálaflokka er að lofa meiru. Það er þekkt samskiptaform milli kjósenda og stjórnmálamanna. Ný met hafa verið slegin: Að þessu sinni hefur kosningabaráttan mestmegnis verið um það hvað gera eigi við tæpa 300 milljarða sem algerlega er óvíst að séu á nokkurn hátt fastir í hendi. Semsagt: Frúin í Hamborg.

Fölsk mynd

Já, nei, svart og hvítt segi ég.  Björt framtíð tekur ekki þátt í þessu. Heilbrigð og yfirveguð manneskja lofar ekki. Maður segir: Þetta langar mig að gera.  Svona vil ég verða. Maður talar í markmiðum. Og ef maður er staðfastur, lærdómsfús, úrræðagóður og kann að beita sjálfan sig aga, þá nær maður markinu.  Með svona hugarfari fer maður í líkamsrækt, staðráðinn í því að byggja upp vöðvamassa. Maður lofar honum ekki.

Í stjórnmálum eru loforð einkar hættuleg því þau senda út þá fölsku mynd að stjórnmál snúist um það að stjórnmálamenn framkvæmi, einir, en aðrir þurfi ekki að gera neitt.  Það er óraunhæft. Enda leiðir loforðaflaumur yfirleitt á endanum til ásakana og afsakana. Aðrir vildu ekki framkvæma. Ekki stóð á mér. Eða annað vinsælt: Forsendur breyttust.

Þessi steppdans mun byrja strax í stjórnarmyndunarviðræðunum með tilheyrandi skítaglotti loforðafólks. Þannig getur þjóð haldið áfram hring eftir hring. Kollsteypu eftir kollsteypu. Forsendubrest eftir forsendubrest. Nema eitthvað gerist. Nema eitthvað breytist.

Skýrir valkostir

Fólk getur kosið hið óbreytta. Hið sama aftur. Eða kosið Bjarta framtíð. Valkostirnir eru nokkuð skýrir. Við segjum:  Breytum því algerlega hvernig við stundum pólitík. Gerum eins og við gerum í lífinu. Gerum eins og fyrirtæki gera. Setjum okkur markmið. Sammælumst um þau.  Höldum fókus. Ekkert hókus pókus. Verum þrjóskupúkar, Íslendingar, þegar kemur að þessum markmiðum. Verum ákveðin í því að gera ekki neitt nema það sem styður þessi markmið.

Svona vill Björt framtíð að Ísland verði:

1) Það þarf að auka fjölbreytni. Í atvinnulífinu geta nýjar greinar vaxið, eins og tækni- og hugverkageirinn og skapandi greinar, með réttum stuðningi. Það aflar okkur tekna án þess að ganga á umhverfið. Fleiri álver eru ekki skynsamleg.

2) Það þarf stöðugra efnahagslíf.  Gjaldmiðlinum okkar er ekki treyst. Hann sveiflast. Verðbólga fer upp. Lánin okkar eru þar af leiðandi dýr. Þessu er hægt að breyta, ef við viljum.

3) Við þurfum að nýta betur hæfileika okkar, tíma og peninga. Minnka sóun. Þetta er ekki bara verkefni í umhverfismálum, þar sem sóun er áþreifanlegt vandamál, heldur líka í skólamálum og heilbrigðismálum. Við beinum ungu fólki í nám sem það flosnar upp úr. Það er ótækt. Við beinum fólki í dýr úrræði í heilbrigðisþjónustu, á meðan önnur eru ódýrari og betri. Það er líka ótækt.

4) Það þarf að minnka vesenið í samfélaginu. Við þurfum að einfalda þjóðfélagið, bæta þjónustu hins opinbera við almenning, afnema höft og koma á opnu samkeppnis- og markaðsumhverfi.

5) Við þurfum meiri sátt. Þetta er verkefni sem verður að taka alvarlega. Það gengur t.d. ekki að skipta sífellt um kúrs í stórum verkefnum, eins og aðildarviðræðum við ESB, eða klára ekki önnur, eins og endurskoðun stjórnarskrárinnar. Og við verðum að tala meira saman. Stofnanir, félagasamtök, stjórnvöld, atvinnulífið. Það gerist ekki af sjálfu sér.

Vinnum í traustinu

Þessi nýja tegund af stjórnmálum, sem svo ágætlega var nefnd markmiðsstjórnmál — og tileinkuð Bjartri framtíð — í sjónvarpsþætti á dögunum, krefjast opins huga, góðs hjartalags, ábyrgðar og atorkusemi. En fyrst og síðast krefst þessi tegund stjórnmála þess af okkur öllum að við vinnum saman. Annars gerist lítið. Og samvinna krefst þess að við tölum við hvert annað af virðingu og sanngirni. Björt framtíð er því ekki að tala um Dýrin í Hálsaskógi þegar hún talar um sátt. Að allir eigi að vera vinir því það sé svo skemmtilegt. Nei. Málið snýst um hið einfalda grundvallaratriði að skítkast og dónaskapur gefur engum neitt. Ekkert þokast áfram með skætingi og leiðindum. Leiðindi, á þingi eða annars staðar, eru tímasóun.

Við viljum auka trú á framtíðina. Auka traust í samfélaginu. Það er ærið verkefni. Það verkefni varðar beinlínis budduna okkar, lífskjörin, því einn höfuðvandi íslensks efnahagslífs er skortur á trausti. Það eykur áhættu í fjármálalífinu. Það hækkar vexti. Það minnkar launaumslagið.

Að skapa traust á samfélagi og innan samfélags er alveg jafnerfitt verkefni og að skapa traust í lífinu yfir höfuð, milli fólks.  Lykilatriðið er að kunna að haga sér. Björt framtíð lofar þó því: Að haga sér eins og fullorðin manneskja. Nafnið á flokknum endurspeglar hlutverk hans. Hlutverkið er að setja þjóðfélaginu, í samvinnu við annað fólk, ásættanleg og raunhæf markmið sem gera Ísland betra og framtíðina bjarta, ef þeim er náð.  Næsta skrefið er að vinna að þessum markmiðum saman, sem flest, og hörfa ekki frá þeim.

Spurningin sem Björt framtíð sendir til kjósenda er einföld: Eruð þið með? Eigum við að gera þetta?

Birtist í DV, 19.apríl.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is