Fimmtudagur 28.02.2013 - 12:15 - FB ummæli ()

Svona virkar Björt framtíð

Eitt það ánægjulegasta við að tala við fólk um Bjarta framtíð eru jákvæðu viðbrögðin sem við fáum þegar við útskýrum hvernig Björt framtíð virkar.

Þetta vita nefnilega ekki allir. Uppbygging Bjartrar framtíðar felur í sér algerlega nýja nálgun á stjórnmálastarf.

Björt framtíð er eitt félag á landsvísu með einni stórri stjórn.  Engin undirfélög eru í Bjartri framtíð. Þetta gerir það að verkum að fólk talar saman – t.d. höfuðborg og landsbyggð – og veit af hugðarefnum hvers annars.  Þetta er strax farið að virka mjög vel.

Í Bjartri framtíð eru tveir formenn. Annar kallast formaður (GS) og hinn stjórnarformaður (Heiða). Á milli þeirra er ákveðin verkaskipting, sem lesa má í lögum flokksins. Formennirnir skulu hafa samráð um öll stór mál og leysa hvorn annan af. Þeir teljast því jafnréttháir.  Þetta er líka farið að gefa mjög góða raun, eykur samráð og slær á leiðtogaræði.

Einungis tvö plögg liggja flokknum til grundvallar. Yfirlýsingin heitir annað. Hún var samþykkt á stofnfundi þann 4.febrúar 2012 og lýsir nálgun BF á stjórnmál.  Hitt plaggið heitir því fróma nafni Ályktun stjórnar Bjartrar framtíðar nr. 1, eða Ályktunin. Hún er grunnstefna flokksins.

Flokkurinn er byggður á skýrum gildum: BF er frjálslynt afl, grænt og alþjóðlega sinnað.  Hér er um liberalflokk að ræða, en ekki sósíaldemokratískan eða conservatívan.  Liberalflokkur hefur ekki verið til á Íslandi um nokkurt skeið, að mínu viti, ef þá nokkurn tímann í tærri mynd. Hér þarf því dálítið kynningarstarf. Liberalflokkar í Evrópu eru gjarnan mjög fylgjandi Evrópusamvinnunni, leggja ríka áherslu á umhverfismál og eru róttækir í mannréttindamálum.  Þannig flokkur er BF.  En með tvisti.

Tvistið felst í því hvernig við viljum stunda pólitík og hugsa hana alveg upp á nýtt. Líkt og Besti, sem er systurflokkur BF, hefur gert í Reykjavík. Þetta birtist m.a. í uppbyggingunni.  Svo haldið sé áfram:

Allir sem eru fylgjandi grunnplöggunum geta skráð sig til þátttöku í BF inni á vefsíðunni www.heimasidan.is   Þar fer málefnastarf BF fram allan sólarhringinn, allan ársins hring.  Þátttakendur á síðunni eru meðlimir í BF. Hægt er að afskrá sig hvenær sem er.

Við störfum nefnilega í anda Kennedy: Ekki spyrja hvað þjóðin getur gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir þjóðina.  Og í því felst líka frjálslyndið. Við viljum treysta fólki. Auka þátttöku fólks í stjórnmálum. Á þeirra ábyrgð. Við höfum öll skoðanir.

Þannig að: Þú leggur fram þínar hugmyndir inni á heimasidan.is, undir þínu nafni, og þær safna meðmælum. Eða ekki.  Ég hef lagt fram nokkrar. Sumar fá undirtektir. Aðrar ekki.

Það skemmtilega er, að þetta er byrjað að virka vel, eins og annað í störfum BF. Fjölmargar mjög góðar hugmyndir streyma nú inn, úr öllum áttum.  Hér er til dæmis ein.

Það er nefnilega allt að gerast.  Í næstu dögum mun svo stjórn Bjartrar framtíðar setja inn sérstakar kosningaáherslur inn á heimasidan.is. Já, og kynna víðar ef að líkum lætur.

Þið fylgist með því, eins og maðurinn sagði.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is