Fimmtudagur 21.02.2013 - 08:48 - FB ummæli ()

Stjórnarskrármálið er ekki dautt

Menn keppast við það um þessar mundir að lýsa því yfir að stjórnarskrármálið sé dautt. Ég er alls ekki sammála. Ég held að það hafi ratað í mjög mikla erfiðleika — sem voru fyrir löngu orðnir fyrirsjáanlegir — en það er ekki dautt. Nema fólk vilji.

Ein meinloka hefur grafið um sig: Margir virðast telja að þetta þing geti „klárað málið“, eins og það er orðað. Þetta er alls ekki rétt. Þetta þing getur alls ekki klárað málið og hefur aldrei getað. Það þarf nefnilega tvö þing til þess að breyta stjórnarskrá. Þannig eru reglurnar. Þess vegna hefur næsta þing úrslitavaldið um það hvort ný stjórnarskrá verður sett eða ekki. Þannig er það bara.

Við þingmenn Bjartrar framtíðar höfum því stungið upp á leið, sem tekur mið af þessu. Hún er þessi:

1. Gerum eina breytingu á stjórnarskránni að þessu sinni, sem lýtur að því að tímabundið verði leyft að breyta stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi breyting yrði síðan staðfest af nýju þingi nú í vor.

2. Samþykkjum þingsályktunartillögu á þingi fyrir kosningar, þar sem ferlið framundan er skilgreint. Hún gæti til dæmis falið í sér tímasetningu: Að Alþingi skuli leggja nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina í bindandi þjóðaratkvæði, í heild sinni, á 70 ára afmæli lýðveldisins þann 17.júní 2014.

Ég persónulega myndi telja það nokkuð fagran endapunkt á þessu flotta ferli. Myndi jafnvel vökna um augu.

Það sem er fengið með þessu, er að málið getur þannig eftir sem áður klárast endanlega á næsta þingi. Það er líka mikilvægt að næsta þing getur með þessu móti haldið áfram að vinna í málinu efnislega — sem mun þurfa — en verður þó bundið af ályktun Alþingis.

Þetta er semsagt leið. Hún er fær. Ef fólk vill.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is