Fimmtudagur 07.02.2013 - 09:09 - FB ummæli ()

Ekki trúa öllu

Einu sinni sem oftar hlýddi ég á kvöldfréttir í útvarpinu á leið heim í bílnum fyrir nokkrum mánuðum. Fyrsta frétt vakti mig til umhugsunar. Hún fjallaði um það að formaður Sjálfstæðisflokksins hafði sagt að þingmenn Hreyfingarinnar væru einhverrar skoðunar. Ég man ekki nákvæmlega hverrar skoðunar. Það er aukaatriði.  Hitt fannst mér merkilegra: Af hverju var það yfirleitt fréttaefni hvað formaður Sjálfstæðisflokksins taldi að Hreyfingin héldi? Af hverju var ekki Hreyfingin einfaldlega spurð beint um skoðanir sínar?

Ítrekað í frásögnum af pólitík er verið að segja frá því hvað einhverjir telja að aðrir telji. Yfirlýsingar fólks um þankagang annarra, — hvaða skoðanir aðrir hafa, hvaða markmið aðrir hafa, hvaða ásetning, drauma og þrár aðrir hafa — rata daglega í fréttir, dægurmálaþætti, statusa, blogg og blaðamola.  Á kosningavori mun þetta færast í vöxt. Miðlarnir, netið, pottarnir munu fyllast af alls konar yfirlýsingum fólks um fólk.

Það sem mig langar til að segja við kjósendur er þetta:

Ekki trúa öllu.

Flókinn veruleiki

Það getur verið krassandi að heyra orðheppinn mann lýsa öðrum manni sem svona og svona. Að hann ætli sér greinilega þetta og hitt. Það getur verið hressandi að lesa kenningu, korn, status eða stein, um að þetta vaki greinilega fyrir þessum og að þessi vilji augljóslega gera þetta við þennan.

Ég útiloka ekki að í lýsingum fólks á öðru fólki geti leynst sannleikskorn, en mín reynsla segir að yfirleitt er flest svona úr lausu lofti gripið, stundum tær uppspuni en í besta falli hálfsannleikur (sem sumir segja verri en lygi). Raunveruleikinn er yfirleitt svo miklu, miklu flóknari en svo að hann rúmist í einum mola í blaði, fyrstu frétt á RÚV eða í þrjátíu sekúndna ummælum, grein eða bloggi eins manns um annan — hvað þá þegar augljóslega ríkir ekki velvilji þeirra á milli.

Greinagóðar, vel unnar lýsingar, skýringar og túlkanir á afstöðu stjórnmálamanna og flokka í margbreytilegri veröld eru sem betur fer mögulegar. En þær þurfa pláss. Tíma. Ég er að lesa eina bók um þessar mundir sem mér finnst vera þannig, um bandarísk stjórnmál. Vegna þess hve mikil heimildarvinna liggur að baki og hversu margir viðmælendur eru kallaðir til fær maður fljótt á tilfinninguna að hér sé um tiltölulega sanna lýsingu á atburðum, skoðunum, fyrirætlunum og þrám fólks í stjórnmálum að ræða. Og bókin, sem heitir Game Change,  virðist skrifuð af natni og með opnum og fordómalausum huga. Rannsakandi huga.

Það er skemmtilegt að lesa svoleiðis, að fá innsýn inn í raunverulegan þankagang fólks, vitnisburð um raunverulega atburði.

Leitið upplýsinga

Ég er ekki vongóður um að svona bók eða grein verði skrifuð um íslenska stjórnmálamenn og flokka fyrir kosningar. Við munum þurfa að búa við stutta mola og statusa hægri og vinstri. Þessi segir þetta um þennan.  Stjórnmálamenn í öllum flokkum munu þurfa að glíma við það með sínum einstaklingsbundnu aðferðum að skoðanir og fyrirætlanir sem þeir hafa alls ekki, verða eignaðar þeim. Í versta falli er þetta aðferðarfræði í pólitík. Að klína einhverju á annan. Láta hann neita því.  Við skulum bara kalla það klínu, svo búið sé til nýyrði. Sumir eru góðir í klínu.

Ekki trúa öllu, segi ég. Og mig langar að bæta við: Kynnið ykkur málin sjálf. Farið á heimasíður flokkanna. Lesið. Sendið þeim línu. Fáið svör. Nálgist sviðið með gagnrýnum huga. Ræðið málin. Í rólegheitum. Og svo þetta, sem er lykilatriði:

Kjósið það sem ykkur sýnist. Ekki það sem öðrum sýnist.

 

Greinin birtist í DV 6.febrúar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is