Föstudagur 02.11.2012 - 09:18 - FB ummæli ()

Drepum á skítadreifurum – Stöðumat

I.

Ég ætla að byrja á því að lýsa tilfinningu.

Stundum finnst mér eins og þjóðin eigi sér einn skeinuhættan mótherja: Sig sjálfa. Mér virðist þjóðfélagsumræðan stundum taka á sig mynd sem verður eiginlega best lýst sem baráttu stórra hópa gegn betri lífskjörum.

Jónas Sigurðsson syngur í lagi sínu Baráttusöngur uppreisnarklansins á skítadreifurunum þessar athyglisverðu línur: „Að lokum þyrpist stóðið niður strætin á skítadreifurunum, til að mótmæla tækifærunum, sem okkur standa til boða.“

Nú veit ég ekki nákvæmlega hvað Jónas á við með þessum orðum. Þau höfða nokkuð sterklega til mín á köflum sem lýsing á samfélagsástandi. Hugmyndir sem hugsanlega geta leitt til stöðugri lífskjara og fleiri tækifæra, meiri og almennari velmegunar, eiga oft afskaplega erfitt með að ná eyrum fólks. Góður vilji nær illa í gegn. Honum er jafnvel mótmælt kröftuglega, án mikillar rökræðu eða nánari skoðunar.

Að minnsta kosti tvö stór viðfangsefni eru háð þessum annmörkum. Það virðist erfitt að skapa almennan hljómgrunn fyrir því að þjóðin njóti meiri arðs af auðlindum sínum. Hins vegar gengur bölvanlega að fá breiða samstöðu um það að skapa á Íslandi stöðugri efnahagsgrundvöll. Álitlegum tillögum að leiðum til þess að ná þessum tveimur grundvallarmarkmiðum er oft mætt af mikilli hörku. Fátt myndi þó auka hagsæld þjóðarinnar meira en góður árangur hvað þetta tvennt varðar, arðinn og stöðugleikann. Þetta eru einhver mikilvægustu verkefni næstu ára á Íslandi.

 

II.

Lagið hans Jónasar kom út á plötu sem var gefin út á því herrans ári 2007. Miðað við tíðarandann í bólunni er allt eins líklegt að hlustendum beri að líta baráttu téðs uppreisnarklans jákvæðum augum en ekki neikvæðum. Kannski voru tækifærin árið 2007 þess eðlis, blekkingarnar slíkar og sýndarveruleikinn, að þeim var best hafnað með skítadreifurum. Ég er ekki frá því.

En sitt er hvað, óraunveruleg gylliboð bóluáranna og nauðsynlegar lagfæringar á grundvelli samfélagsins, á kringumstæðum okkar og aðstæðum. Almennt séð er hið frjálslynda markmið í stjórnmálum, sem ég aðhyllist, þetta:

Hið opinbera á að skapa sem best skilyrði þannig að hið frjálsa og fjölbreytta framtak einstaklinga og samtaka þeirra fái notið sín. Fókusinn á að vera á það.

Það kann hins vegar að vera að hið sjúklega ástand góðærisáranna þar sem margir nutu gervivelmegunar, sem hvarf eins og dögg fyrir sólu, hafi gert margt fólk vantrúað á að það sé yfirleitt til eitthvað sem heitir velmegun, betri grunnur, tækifæri, möguleikar, farsæld eða hagsæld, eða hvað þetta heitir nú allt saman. Allt sé þetta frá skrattanum komið. Byggt á sandi. Öllu þessu beri að mótmæla með skítadreifurum.

En út úr svo níhilískum þankagangi verður þjóðin hins vegar að koma sér hið fyrsta, ef hún er sokkin þangað. Það er hægt að bæta samfélagið, það er hægt að skapa varanlegri betri kjör og traustari undirstöður, sem leiða til enn betra skólakerfis, betri samgangna, fjölbreyttara atvinnulífs, enn betra heilbrigðiskerfis. Við þurfum bara að vilja það.

Vera opin fyrir hugmyndum í þeim efnum.

Drepa á skítadreifurunum í bili.

Og pæla smá.

 

III.

Hvað er að?

Ég vil nefna þrjá hluti.

Í fyrsta lagi þetta með peningana. Mér finnst eins og þessi ríka þjóð eigi einhvern veginn aldrei pening, hvorki í góðæri né kreppu. Yfirleitt er flest fjársvelt.

Metnaðarfull og góð markmið í heilbrigðisþjónustu og í menntakerfinu sitja sífellt á hakanum. Vegir eru þvottabretti.

Þetta viðvarandi fjársvelti kann að eiga sér skýringar. Ein er auðvitað sú, að áríðandi er að gæta aðhalds í ríkisrekstri, en önnur er hugsanlega þessi, svo ég nefni mikilvægt dæmi: Við höfum virkjað orkuauðlindir okkar í stórum stíl en samt hefur Landsvirkjun einungis skilað smápeningum í ríkiskassann í beinan arð frá stofnun. Arðurinn af orkusölu til stórkaupenda fer að alltof djúgum hluta til kaupendanna sjálfra í gegnum of lágt orkuverð.

Það er gott að verðið sé lágt til almennings og almenningur njóti þannig arðs af auðlindunum. Um það er ekki deilt. Ef hins vegar orkuverðið til stórkaupenda væri töluvert hærra myndi umtalsverður arður skila sér í sameiginlega sjóði hér á landi, til eiganda fyrirtækisins sem er þjóðin öll. Þann arð væri hægt að nota til að bæta skilyrðin í samfélaginu t.d. með lægri sköttum, niðurgreiðslu skulda og til að taka á hinu viðvarandi fjársvelti sem háir framförum.

Sama gildir um arð af öðrum auðlindum þjóðarinnar. Honum hefur verið illa skipt. Mikilvæg skref hafa verið stigin í þá átt undanfarið að leiðrétta þá skekkju. Arðurinn af sjávarauðlindinni hefur runnið of mikið til þeirra sem eiga skipin en of lítið til eiganda auðlindarinnar, sem er þjóðin. Væntanlega myndu fáir vilja að arði af olíuvinnslu, ef olía fyndist í íslenskri lögsögu, yrði skipt á sama veg og eigendur boranna fengju arðinn mest allan en eigandi lindanna lítið sem ekkert.

Það er mikilvægt að þeir sem fjárfesta, afla og framleiða geti uppskorið ríkulega ef þeir standa sig vel. Arður getur hins vegar blessunarlega runnið í margar áttir í einu. Það geta margir fengið sneið af kökunni. Einhverjir vilja kannski hafa þetta svona og finnst í lagi að kökunni sé skipt á þann veg sem við þekkjum – eða kannski bara skipt einhvern veginn, og hverjum er ekki sama? – en mér finnst það ekki í lagi.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að ósanngjörn skipting arðs af auðlindum er vandamál fjölmargra þjóða sem eiga auðlindir. Ef ráðamenn þjóða taka þetta viðfangsefni ekki alvarlega – einhverra hluta vegna – geta þjóðir lent í þeirri stöðu að njóta ekki auðlinda sinna. Þær eru í raun verr settar en þjóðir með litlar sem engar auðlindir. Þetta er vel þekkt. Arðurinn rennur þá að mestum eða öllum hluta til annarra en þjóðarinnar, s.s. til erlendra fyrirtækja. Stundum er þetta kallað arðrán.

Ég vil ekki grípa svo sterkt til orða til að lýsa Íslandi. Skipting arðs af auðlindum Íslendinga er slæm, en hún á sér vissar ástæður. Svo horft sé aftur til orkumála: Þegar Íslendingar voru að hefja virkjun orkuauðlinda var nokkuð öðruvísi umhorfs en nú. Það þurfti að byggja upp raforkuflutningakerfi, innviðina fyrir raforkusöluna. Til þess að svo mætti verða gat verið skynsamlegt að leita stórra kaupenda til langs tíma, eins og var gert. Langtímaskuldbinding kaupendanna var metin til lækkunar á orkuverðinu. Auk þess var erfiðara áður fyrr að markaðssetja íslenska orku sem græna og umhverfisvæna. Eftirspurn eftir slíku var ekki nándar nærri eins mikil og nú.

Þessar aðstæður hafa breyst. Nú eru innviðirnir til. Ekki þarf að leggja jafnmikla áherslu á langtímaskuldbindingu kaupendanna. Og eftirspurn eftir grænni orku vex og vex, ekki síst í Evrópu.

Þessa breyttu stöðu þarf að nýta í þágu lands og þjóðar.

 

IV.

Munurinn á fisknum og orkunni er athyglisverður. Í tilviki fisksins hafa framleiðendur, eða seljendur, fengið mest af beinum arði og eigandi auðlindarinnar lítið. Í tilviki orkunnar eru framleiðslufyrirtæki í eigu þjóðarinnar, en ekki endilega auðlindin. Þá bregður svo við að kaupandinn fær mest. Skýringar eru einhverjar, en það er von að fólk spyrji: Hafa hagsmunagæslumenn almennings staðið sig?

Blessunarlega hefur verið unnið ötullega innan Landsvirkjunnar og annars staðar að löngu tímabærri stefnubreytingu hvað þetta varðar. Orkusölusamningar við stóriðju hafa verið teknir upp og endursamið um verðið á grunni breyttra forsenda. Það er gott mál.

Eitt er mikilvægt: Ekki þarf að virkja allt í botn. Við getum slakað á hvað það varðar. Áætlanir Landsvirkjunar ganga einfaldlega út á að fá sem hæst verð fyrir þá orku sem er og verður framleidd í samræmi við Rammaáætlun um nýtingu og vernd. Það er stefnubreytingin: Að horfa á orkuverðið, arðinn sem fæst, fremur en einblína á földa starfa sem skapast út af hverri verksmiðju- og virkjunarframkvæmd, eins og gert er t.d. í nýlegri – en gamaldags – skýrslu Íslandsbanka. Meira að segja er hægt að auka arðinn af núverandi orkuframleiðslu, eins og Hörður Arnarson hefur bent á. Umframorkunni sem nú er þegar fyrir hendi, en puðast út í buskann, er hægt að koma í gott verð.

Ef þessum áætlunum yrði haldið til streitu, og þær studdar á pólitíska sviðinu og úti í samfélaginu, gæti Landsvirkjun með tíð og tíma skilað yfir 100 milljörðum í ríkiskassann á ári hverju. [1] Það myndi muna um það. Hina breyttu hugsun sem svona stefnumörkun fylgir ætti að nýta til að kynna samhliða eina mjög svo byltingarkennda hugmynd í íslensku samhengi, vil ég meina.

Hún er þessi: Peninga má nýta til þess að byggja upp vinnumarkað, skapa betri skilyrði, borga skuldir, lækka skatta, auka fjölbreytni. Út um allt land. Með öðrum orðum: Það þarf ekki að nota auðlindina sjálfa til þess að skapa staðbundin störf, beint, heldur getur verið skynsamlegt að nota frekar peningana sem auðlindin skilar til að skapa góð skilyrði um land allt.

Umræðan um sæstreng til Evrópu er tærasta hugmyndin í þessum anda. Sæstrengur myndi skapa mestan arð, en lítið af beinum störfum. Hins vegar mætti nota arðinn til að skapa störf og bæta skilyrðin almennt. Engin ástæða er þó til að fara á límingunum hér, ef mönnum líkar ekki nákvæmlega þessi hugmynd. Fjölmargir aðrar leiðir eru til en sæstrengur þar sem mikill arður fæst og bein störf verða meira að segja líka til í ofanálag. Það er margt í mörgu.

Ég er á þessari línu. Ég tel þetta skynsamlega stefnumörkun. Ég tel að svona ættum við einnig að nálgast aðrar auðlindir í megindráttum. Láta þær skapa okkur sem mestan arð – á grunni sjálfbærrar nýtingar í sátt við náttúruna (lykilatriði) – en nota arðinn til þess að bæta skilyrðin fyrir einstaklinga og fyrirtæki um land allt. Til þess að auka fjölbreytnina. Til að bæta samfélagið.

Þetta mætir hins vegar andstöðu. Nýleg ályktun ofan úr Hólum í Hjaltadal um sæstreng sem arðrán er eitt dæmi. Kröfur um virkjanir í hvelli og orkusölu sama hvað það kostar, út af kreppu og atvinnuleysi, eins og ASÍ, SA og margir stjórnmálamenn virðast vilja, eru líka Þrándur í Götu þessara áforma og gætu gert út um þær. Hér þarf yfirvegun og staðfestu.

 

V.

Ástæður mótmæla gegn „tækifærunum sem okkur standa til boða“ kunna að vera margar. Í dæminu af Landsvirkjun er andstaðan af ýmsum toga. Sumir eru fullir grunsemda, eðlilega, þegar þeir heyra orðasambandið „hærra orkuverð.“ Það er mikilvægt að orkuverðið til almennings rjúki ekki upp þótt hærra verð fáist til stórkaupenda.

Aðrir fyllast þjóðernismóð þegar þeir heyra minnst á að „selja orkuna úr landi,“ eins og hugmyndin um sæstreng gengur t.d. út á. Þeir hinir sömu virðast hins vegar ekki hafa miklar áhyggjur af því þegar orkan er nánast gefin úr landi, eins og tíðkast hefur. Enn aðrir leggja einfaldlega á það mun meiri áherslu að orkusalan skapi störf á einhverjum tilteknum stað, en að hún skapi peninga. Ég hef heyrt þingmann halda því blákalt fram í pontu, þegar atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi bar á góma, að orkuverðið skipti ekki neinu máli. Það þyrfti bara að ráðast í dæmið. Byggja verksmiðju.

Aðalatriðið finnst mér vera þetta: Hér eru ógnarstórir hagsmunir í húfi. Mér finnst mikilvægt að Íslendingar séu upplýstir um möguleikana í stöðunni, viti að þetta er hægt og viti að hugmyndir í þessu veru – um að stórauka tekjur okkar allra af auðlindum okkar – eru raunhæfar. Of margir hins vegar rjúka upp of snemma – enn sem komið er – til að mótmæla áformum í þessa veru. Það leiðir til þess að ryk þyrlast upp í kringum málefnið og færri öðlast skýra sýn. Það er mikilvægt að fólki gefist ráðrúm til að hugsa. Velta fyrir sér. Spá.

Svo er líka alltaf nauðsynlegt að minna sig á eina höfuðvillu opinberrar umræðu sem mætti nefna svart/hvítu villuna. Þá er gengið út frá því að veröldin sé alltaf annað hvort svört eða hvít. Hún getur hins vegar verið bæði. Þó svo stefnumörkun Landsvirkjunar um sæstreng og annað, sem skilaði fé í kassann, gengi eftir er ekki þar með sagt að orkusala í þágu staðbundinnar atvinnuuppbyggingar heyrði sögunni til. Það yrði seint alveg þannig.

 

VI.

Klisjan sem stundum heyrist – en þó æ minna – um að allir vilji í raun og veru það sama í pólitík og enginn munur sé á stefnu flokkanna er vitaskuld röng. Ein ákvörðun um að selja alla orku sem eftir er til tveggja álvera til að skapa störf, eins og sumir vilja, gæti til að mynda gert að mestu út um langtímaáætlanir um skynsamlega orkunýtingu sem malaði þjóðinni umtalsverðar beinar tekjur um alla framtíð. Ég vil halda því fram að það geti brugðið til beggja vona. Næstu kosningar eru ógnarmikilvægar hvað þetta varðar. Lykilspurningin er þessi: Hverjum er best treystandi fyrir auðlindunum?

En ég sagðist ætla að nefna þrennt sem ég tel að þurfi að laga, þrátt fyrir marghliða mótmæli ýmiss konar gegn því. Hér er númer tvö: Fáir í pólitík virðast vilja takast á við þá lykilspurningu af einhverri dýpt, hvernig eigi að koma á varanlegum stöðuleika í íslensku hagkerfi. Ástæðurnar kunna að vera einfaldar. Hugsanlega er áhugaleysi um að kenna, enda eru sveiflur hagkerfisins af sumum taldar til mikilla bóta. Hins vegar er hugsanlegt að fólk nenni ekki í þessa umræðu. Hér er nefnilega „tækifærunum sem okkur standa til boða“ virkilega mótmælt með skítadreifurum, af krafti.

Ég ætla að demba mér beint í bununa hér og nú. Ástæðan fyrir því að íbúar þessa lands þurfa að greiða svo háa vexti af húsnæðislánum sínum og verðtryggingu í ofanálag er einfaldlega sú að fjármálakerfið treystir ekki krónunni. Skyldi engan undra: Hún hefur fallið í verði mörg þúsund falt frá upphafi, stundum hrunið. Stundum kippst til í stundarbrjálæði.

Út af þessu – háu vöxtunum og verðtryggingunni – þurfa Íslendingar að vinna miklu lengur fyrir eigin húsnæði heldur en aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Þetta er rótin að stritinu endalausa. Mig hefur lengi langað að sannreyna kenningu og lagði reyndar drög að því að skrifa um hana meistaraprófsritgerð í hagfræði. Kannski verður það einhvern tímann.

Kenningin er þessi: Stór hluti þjóðarinnar mun aldrei og hefur aldrei náð endum saman og mun ekki gera það nema eitthvað sé gert. Lánin eru of dýr. Og það sem meira er: Það má ekki hækka launin, því þá hækkar verðlagið, og þá hækka lánin. Við erum föst í gildru.

Við yrðum engu bættari með því einfaldlega að afnema verðtrygginguna. Vextirnir myndu þá hækka sem verðtryggingunni nemur og afborgarnir lánanna rjúka upp. Það yrði náðarhöggið fyrir aragrúa heimila. Þannig að ekki gengur það. Grundvöllinn þarf að laga. Sjálfar undirstöðurnar.

Kerfisgallinn í íslenska hagkerfinu birtist í verðbólguskotunum. Í verðbólguskotunum birtist ófyrirsjáanleikinn og óréttlætið. Þau éta upp eignir heimilanna, sparnað þeirra í húsnæði. Ógnarfjöldi Íslendinga hefur gengið í gegnum þær hremmingar nokkrum sinnum að sjá eign sína í íbúðinni hverfa í verðbólguskoti. Vegna þessa kerfisgalla í íslensku hagkerfi færist fjármagnið sífellt til á alls konar ósanngjarnan hátt og ógagnsæjan.

Hér er eitt dæmi: Þegar sveitarfélög eða stórfyrirtæki greiða niður erlendar skuldir á stórum gjalddögum veikir það krónuna því fjármagn streymir úr landi. Sig krónunnar hækkar svo aftur verðlag. Hærra verðlag hækkar innlendar skuldir heimilanna. Svona færast skuldirnar til. Frá einum til annars og fæstir átta sig á þessu eða vita sitt rjúkandi ráð. Semsagt: Eitt stórt fyrirtæki greiðir niður erlent lán. Allar skuldsettar fjölskyldur á Íslandi súpa seyðið.

Dæmin eru fleiri. Hrun krónunnar veldur verðbólguskoti. Það hækkar lán. Almenningi blæðir. Á sama tíma fara eigendur útflutningsfyrirtækja brosandi í bankann, því lægra gengi er gott fyrir þá (ef þeir eru ekki of skuldsettir). Margir sjá ástæðu til að samfagna, en óheilbrigðið í þessu myrkrahagkerfi er hins vegar æpandi. Hér færist fjármagn frá þeim mörgu til hinna fáu eftir leynistígum.

Og varla er þetta skynsamleg atvinnustefna, ef þetta væri þá stefna. Þeim atvinnugreinum sem öllu fremur þurfa stöðugt umhverfi til vaxtar, s.s. fyrirtæki í þekkingariðnaði og þjónustu – sem geta breikkað grundvöll hagkerfisins og skapað ný störf – gengur erfiðlega að koma undir sig fótunum í þessum kringumstæðum. Þær atvinnugreinar sem græða eru einkum sjávarútvegur og álframleiðsla. Báðar atvinnugreinarnar eru hins vegar bundnar takmörkunum eða kvótum í framleiðslu sinni. Þær framleiða því ekkert meira þótt gengið sé þeim hagstætt. Það verður bara til meiri arður hjá eigendunum. Enn og aftur: Fé færist frá mörgum til fárra.

Það er því varla glóra í þessu dæmi. Krónan er bjargvætturinn, segja sumir. Útflutningsatvinnugreinum gengur vel. En á sama tíma og þessi söngur er sunginn koma fulltrúar sveitarfélagsins Skagafjarðar á fund þingmanna kjördæmisins og draga upp dökka mynd. Fólkið er að fara úr byggðarlaginu. Nú? Er ekki blússandi uppgangur í sjávarútvegi og landbúnaði? Gengið hagstætt?

Jú, jú. En þær greinar skapa ekki störf.

Þær skapa þá arð fyrir… tja hvern?

Þið afsakið: Hér er ég kominn grunsamlega nálægt því sem ég var einmitt að fjalla um hér áðan. Ósanngjarnri skiptingu á arðinum af auðlindunum.

En ég var búinn að tala um það.

 

VII.

Ég sé ekki betur en að ríflega 20 milljarðar muni renna beint úr ríkiskassanum á næsta ári bara vegna krónunnar.[2] Þetta fé verður tekið af striti og púli almennings, beint af skattfé, ofan á allt annað sem krónan kostar fólk í vöxtum og verðtryggingu.[3] Þennan krónukostnað má lesa út úr fjárlögum á ári hverju, en einhvern veginn segir aldrei neinn neitt.

Hundruð milljarða liggja í gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans og hann er fjármagnaður með lánum. Við þurfum gjaldeyrisvarasjóð til þess að verja krónuna, til þess að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli. Kostnaðurinn er þá þessi. Ríflega 20 milljarðar á næsta ári úr ríkissjóði. Fyrir þann pening mætti gera ótrúlega margt annað.

Auk þess er krónan bundin í höftum. Höft eru annað orð yfir skerðingu á frelsi. Íslendingar búa ekki við frjálsa fjármagnsflutninga vegna þess að krónunni er ekki treystandi. Hún myndi sökkva ef hún væri sett á flot, með tilheyrandi hörmungum. Óþolið út af þessu mun bara aukast hér á landi, spái ég.

Hver er þá lausnin? Ég sagðist ætla að demba mér í bununa. Ég kýli á það: Ef Ísland gengi í Evrópusambandið, með góðum samningi sem ég held að við ættum vel að geta landað, gæti þjóðin innan mjög skamms tíma hafið gjaldmiðilssamstarf við Evrópska seðlabankann í gegnum hið svokallaða ERM II. Það er fordyri evrunnar.

Þetta myndi þýða að Íslendingar yrðu aðilar að Evrópska seðlabankanum. Evrópski seðlabankinn myndi verja gengi íslensku krónunnar innan vissra vikmarka. Smám saman yrði óþarfi að halda úti digrum íslenskum gjaldeyrisvarasjóði. Tugmilljarða vaxtagreiðslur myndu þar með heyra sögunni til. Það yrði hægt að nota þá peninga í annað.

Frelsi yrði komið á í viðskiptum, engin gjaldeyrishöft lengur. Stöðugleikinn sem þarna fengist myndi lækka vexti og gera verðtrygginguna óþarfa. Í fyrsta skipti á Íslandi yrði hægt að að beina auðæfum þjóðfélagsins, með hærri launum og betri kjörum, til almennings án þess að lánin hækkuðu og snaran hertist um hálsinn. Við yrðum laus úr gildrunni.

Auk þess gætu fyrirtæki vaxið og dafnað. Stöðugt umhverfi er þeim flestum ómetanlegt. Erlendir fjárfestar – aðrir en einstaka sérvitringar – myndu fá aukinn áhuga. Fjölbreytnin í atvinnulífinu myndi því aukast. Það yrðu góð tíðindi fyrir íbúa landsins, ekki síst ungt fólk sem er búið að mennta sig í alls kyns greinum en bíður fjölbreyttari tækifæra.

Sanngirnin og réttlætið í samfélaginu myndi aukast. Fólk myndi fremur uppskera í kjölfar erfiðis síns og skapandi hugsunar, í stað þess að horfa á fé sitt hverfa til fárra í gegnum áðurnefnda leynistíga með ófyrirsjáanlegum og tilviljanakenndu móti, aftur og aftur.

En þetta er ekki hættulaust. Þegar vextir lækka getur hið langþreytta – en þó hamingjusama skv. könnunum – stritsamfélag mögulega dottið í lánafyllerí. Það var í raun það sem gerðist í aðdraganda hrunsins eða „skakkafallanna“ eins og sumir kalla það. Ódýr erlend lán urðu þjóðinni ofviða. Sama gerðist í grundvallaratriðum í Grikklandi. Þessari hættu yrðum við að sjálfsögðu að mæta. Ekkert er alveg þrautalaust. Auk þess er yfir höfuð alltaf vandasamt að bæta kjör, án þess að þensla myndist. Það verkefni yrði þó einfaldara.

Það er til mikils að vinna. Hið nýja samfélag sem nú risi með stöðugum gjaldmiðli yrði sterkara, fjölbreyttara og réttlátara. Fyrir almenning allan yrði um fullkomin tímamót að ræða. Í fyrsta skipti á Íslandi yrði hægt að gera plön sem héldu að einhverju ráði, hægt að kaupa bíl og íbúð án þess að vera dæmdur til að vera spákaupmaður, sveittur á efri vör út af striti og óvissu.

Almennt myndi ríkja minna vesen.

 

VIII.

Mér finnst ég heyra í skítadreifurunum.

„Til að mótmæla tækifærunum sem okkur standa til boða.“

Beinn kostnaður við þetta fyrirkomulag, þennan kerfisgalla í íslensku hagkerfi sem ég hef nú lítillega fjallað um, er æpandi. Ósanngirnin er ömurleg. Andstaðan við hugmyndir eins og þær sem ég hef nú reifað er hins vegar megn. Það getur vel verið að til séu betri hugmyndir. Ég er ein eyru. Ég vil þó segja það strax: Að taka upp gjaldmiðil annars lands, eins og Kanada – þar sem við værum t.d. ekki aðilar að seðlabanka þess lands – finnst mér mjög óráðlegt.

Eitt á ég í öllu falli erfitt með að sætta mig við, og það er að krónan sé ekki rædd, en sé látin standa eins og bleikur fíll með partíhatt í herberginu á meðan allir aðrir mögulegir hlutir eru til umfjöllunar. Alls konar kanínur úr hatti – verð ég að segja – til þess fallnar að búa til einhvers konar piss-í-skó-mekanisma fyrir íslenskt samfélag birtast líka með reglulegu millibili og verða oft kosningamál. Flatar niðurfellingar lána, afnám verðtryggingar, bygging álvera strax.

Allt svona, að mínu viti, er til þess fallið að beina sjónum frá aðalatriðinu: Sjálfur grunnurinn er skakkur. Einhverja framtíðarsýn sem felur í sér viðgerð á þessum grunni, almennilega og varanlega, verða stjórnmálamenn að bera á borð fyrir kjósendur í næstu kosningum. Ég tel þetta sigurstranglegast, svo enginn velkist í vafa: Að fara inn í ERM II. Evran kæmi svo í kjölfarið.

Fólk getur verið ósammála þessu. Þá auglýsi ég eftir betri hugmyndum. Vísa ég þá jafnframt á bug ásökunum um landráð, svik við sjálfstæðið, uppgjöf í baráttunni gegn samsæri annarra þjóða og hvað þetta heitir nú allt saman, frussið sem bunar úr dreifurunum um leið og maður minnist á ESB.

 

IX.

Þá er það þriðja atriðið. Mörgum hefur orðið tíðrætt um skort á trausti í samfélaginu, um ósætti og sundrungu. Ástandið á Alþingi er iðulega nefnt sem dæmi. Ég er sammála því að bæta þarf vinnubrögðin þar. Mér finnst hins vegar mikil einföldun að halda því fram að verkefnið að byggja upp traust í samfélaginu snúi nánast eingöngu að þinginu. Sumir tala þó þannig. Þar á meðal forseti Íslands.

Þingið er afsprengi þjóðarinnar. Það sem er að í þinginu endurspeglar að stórum hluta það sem er að í grunni þjóðfélagsins. Til að laga þingið, umræðuna, vinnubrögðin og andrúmsloftið þarf að laga það sem er að í þjóðfélaginu. Sveiflurnar. Ófyrirsjáanleikann.

Þingið nýtur ekki fyllilega sannmælis í umræðunni. Vinnubrögð eru oft til fyrirmyndar, t.d. við meðferð mála í nefndum. Að sitja í velferðarnefnd á þessu kjörtímabili hefur verið góð og uppbyggileg reynsla. En þingið getur þó vissulega tekið sig taki. Um það hef ég skrifað.

Þingmenn gætu talað kurteislegar hver við annan í pontu og margir mættu tileinka sér meiri sanngirni og yfirvegun í málflutningi. Á þingi mættu ríkja betri fundarsköp, mjög svipuð þeim sem ríkja víðast hvar annars staðar á fundum í þjóðfélaginu og á þjóðþingum í Skandinavíu. Fólk á ekki að geta talað endalaust, aftur og aftur. Það verður að vera meginregla að meirahlutavilji ráði og þingmenn fái að greiða atkvæði, þótt samráð og samvinna sé alltaf af hinu góða. Ef þetta er bogið, þá er þingið skemmt.

Það sem er að þinginu, segi ég, er að mörgu leyti það sama og er að þjóðinni. Meinsemdin er lúmsk en hún er þarna samt. Hinn ótrausti grundvöllur, fjármagnsflutningarnir eftir leynistígunum, sveiflurnar ófyrirséðu og það allt; – þetta eru kjöraðstæður fyrir spillingu, óvandaða umræðu, ramma sérhagsmunagæslu, valdabrölt og klíkumyndun.

Sjáiði til. Mikill auður færist síendurtekið til í íslensku samfélagi, eins og ég hef lýst. Sem sagt: Einhverjir græða. Þeir sem græða vilja halda áfram að græða. Einn meginkosturinn við núverandi fyrirkomulag, fyrir suma, er að almenningur sér ekki vel hvernig þessir fjármagnsflutningar eiga sér stað. Ef nógu mörgum reyksprengjum er kastað inn í umræðuna er þessi veruleiki líklega flestum að fullu hulinn.

Í ofanálag er íslenskt samfélag lítið. Maður þekkir mann. Vitneskja um komandi sveiflur, staðbundna atvinnuuppbyggingu með lágu orkuverði og þar fram eftir götunum getur sett suma í betri stöðu en aðra. Lítið, ríkt sveiflusamfélag er þannig eitruð blanda. Ég minni á að í íslenskri viðskiptasögu eru stærstu skandalarnir samráð.

Meinsemdin felst einnig í því að mestmegnis er þessi veruleiki ákaflega tilviljanakenndur, þótt leynistígarnir liggi ætíð í sömu átt. Auðvitað verður lífið alltaf tilviljunum háð og óvissa er hluti af kringumstæðum allra manna, ávallt og ævinlega. Þegar hins vegar heilt hagkerfi einkennist af sveiflum og sveiflum ofan – og þær eru jafnvel dásamaðar – er viðbúið að ýmislegt láti á sjá.

Það er ákaflega mikilvægt að í þjóðfélaginu ríki meiri von en minni til þess að einstaklingar geti uppskorið árangur fyrir erfiði sitt. Því minna sem utanaðkomandi og tilviljanakenndir þættir hafa áhrif á árangur fólks, því betra. Þetta er ekki í lagi á Íslandi.

Ég held til dæmis að tilviljanakenndur árangur eigi sinn þátt í því að brottfall úr framhaldsskólum er mjög algengt hér á landi. Spáum í það: Ef ungt fólk sér hámenntaða foreldra sína meira eða minna skuldum hlaðna, í fjárhagsvandræðum, þrátt fyrir alla vinnuna og menntunina, getur þá verið að lúmsk spurning um tilgang menntunar grafi um sig í ungum sálum? Getur líka verið að sveifluhagkerfið skapi kringumstæður þar sem þetta reddast-hugarfarið grasserar og ungu fólki er uppálagt að hugsa ekki til langs tíma heldur grípa gæsina meðan hún gefst, hoppa úr skóla og selja pizzur?

Vísbendingar um svona hugarfar eru víða í samfélaginu. Skýrslur eru skrifaðar með góðum niðurstöðum, en fáir virðast einhvern veginn hafa trú á því að niðurstöður þeirra verði einhvern tímann að veruleika. Standast áætlanir í þessum ólgusjó? Eitt stærsta og byltingarkenndasta skrefið í nýkynntri fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem ég og fleiri áttum nokkurn þátt í, var þetta: Áhersla er lögð á að nota, raunverulega, niðurstöður ýmissa skýrslna sem skrifaðar hafa verið undanfarið um uppbyggingu í skapandi greinum, grænu hagkerfi og fleiru. Öll vinnan er þarna. Hvers vegna ekki að nota hana?

Alltof oft er talið að tilgangslaust sé, nánast, að spá í framtíðina á Íslandi. Hún bara kemur. Það þótti til að mynda mikill brandari í augum margra stjórnmálamanna á 9. áratug síðustu aldar þegar þáverandi ríkisstjórn skipaði framtíðarnefnd svokallaða, til þess að vinna að áætlunum og spá fyrir um þróun mála. Hún var blásin af um leið og önnur ríkisstjórn tók við. Og talandi um áætlanagerð. Verðbólgumarkmið. Hvað er það?

Hið örgeðja þetta-reddast-hugarfar á sér vissulega sínar góðu hliðar. Ekki myndi ég vilja sjá þann eiginleika hverfa úr þjóðarsálinni að fullu. Sumir hafa þó dásamað þetta hugarþel fullmikið á undanförnum árum og kennt við víkinga. Dökka hliðin á þessum kringumstæðum er óréttlætið og ósanngirnin, skortur á fagmennsku og langtímahugsun. Víðtækt og marghliða vantraust hreiðrar um sig.

Það skyldi samt engan undra að einhverjum þyki vænt um þessi skilyrði og vilji viðhalda þeim. Of margir græða á þessu. Mig grunar að þeir hinir sömu ráði of miklu í íslensku samfélagi. Mér finnst ég heyra rödd þeirra á þingi. Í hjarta sínu eru þessir aðilar ekkert endilega svo áhugasamir um meiri stöðugleika. Umræðan um hina miklu aðlögunarhæfni íslenska hagkerfisins, sem er að mörgu leyti annað orð yfir hrun þess, er þessum þankagangi hagstæð og styður grunsemdir mínar. Sumir verða jafnvel ævareiðir ef einhver talar illa um krónuna. Það hringir viðvörunarbjöllum í mínum huga.

 

X.

Ég var ósammála forseta Íslands þegar hann gaf í skyn í þingsetningarræðu sinni þann 11. september síðastliðinn að sáttin í samfélaginu yrði á einhvern hátt að vera byggð á því að menn gættu hófs í lagasetningu. Sem sagt, ef ég skildi hann rétt: Að menn breyttu sem minnstu.

Hann sjálfur hefur lagst mjög gegn breytingum á stjórnarskránni. Átökin um frumvarp stjórnlagaráðs eru áhugaverð. Þau afhjúpa í mínum huga erfiðleikana sem eru fólgnir í því að glíma við þetta þriðja atriði sem ég ræði nú: Að koma á trausti og meiri sátt í samfélaginu.

Núgildandi stjórnarskrá er um margt óskýr. Það segir sitt að í síðustu forsetakosningum var ein meginspurningin til frambjóðendanna einfaldlega þessi: Hvað á forsetinn að gera? Hver er tilgangur embættisins? Enginn gat svarað þessu almennilega. Í öllu falli var þetta mjög á floti.

Í stjórnmálum, niðri á þingi, úti í viðskiptalífinu, geta menn gert sér mikinn mat úr gráum svæðum, óljósum skilgreiningum, ógagnsæjum ferlum, ef fólk er þannig innstillt á annað borð. Andstaðan við nýja stjórnarskrá hefur valdið mér heilabrotum á yfirstandandi þingi. Allt í einu rann upp fyrir mér ljós: Þeir sem vilja hafa þjóðfélagið svona eins og það er, vilja þeir nokkuð nýja og skýrari stjórnarskrá?

Í óljósu umhverfi er hægt að spila vel til valda, auðs og áhrifa. Þetta er það sem ég meina þegar ég segi að meinsemdir þingsins endurspegli meinsemd þjóðfélagsins. Niðri á þingi verð ég ítrekað var við einn rauðan þráð í málflutningi þeirra sem mér virðast einna helst vera á móti ýmsum grundvallarbreytingum í samfélaginu: Virðingarleysi fyrir ferlum. Ein höfuðbaráttan niðri á þingi snýst um það að leyfa þinginu sjálfu að virka eðlilega, gegn þeim sem ítrekað taka það í gíslingu. Að leyfa stórum og mikilvægum viðræðum við ESB að hafa sinn gang. Að leyfa stjórnarskrárferlinu að klárast. Öllu þessu er stefnt í upplausn, hvað eftir annað. Af hverju?

Ég veit það ekki. En ég er með kenningu:

Sjálf upplausnin með öllum sínum þægilegu gráu svæðum, duldum auð og völdum, skal varin hvað sem það kostar. Hún er of góð fyrir suma.

 

XI.

Eitt það ánægjulegasta sem ég hef fengist við er að eiga frumkvæði að því ásamt mörgu fólki, sem aðhyllist svipaða lífssýn, að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Það er flokkur með stórt hjarta. Við viljum að hann sé vettvangur fyrir fólk sem vill gera gagn. Að þessari hreyfingu hefur hópast fólk sem leggur mikla áherslu á mannréttindi, svigrúm til athafna, tjáningar og hugsunar, vill frjálst samfélag og fjölbreytt, er alþjóðlega sinnað, leggur áherslu á umhverfismál, skólamál, velferðarmál.

Öll þessi grundvallarmarkmið má lesa í skjali sem einfaldlega er kallað Ályktun stjórnar nr. 1. Annað skjal kallast Stjórnmálayfirlýsing. Það lýsir nálgun okkar á stjórnmál. Sú nálgun er kannski einna helst byggð á hugmyndinni um stjórnmál sem þjónustu. Þannig viljum við stunda stjórnmál. Við erum í þessu fyrir þjóðfélagið allt. Almenning.

Ég vona eftir þennan lestur að lesendur hafi öðlast einhverja tilfinningu fyrir því af hverju við heitum því nafni sem við heitum. Að fólki líði vel, – eða a.m.k. þokkalega – hafi trú á kringumstæðum sínum og upplifi að það sé tilgangur með athöfnum sínum og erfiði, fer eftir ýmsu. Sumt af því, ansi veigamikið að mínu mati, sem ég held að þurfi að vera í lagi, en er það ekki, hef ég rakið hér og nú.

Það er barátta í gangi í íslensku samfélagi. Með lagni, sanngirni, samræðu, virðingu og yfirvegun er hægt að leiða hana til lykta í sátt. Ég er sannfærður um það. Það skiptir miklu máli hvaða manneskjur munu stjórna ferðinni. Þær verða að taka þetta viðfangsefni alvarlega. Almenningur þarf líka, að mínu mati, að ganga meira í lið með sjálfum sér.

Við viljum stefna að fjölbreyttu þjóðfélagi sem gefur hverjum og einum tækifæri til að nýta styrkleika sína, axla ábyrgð sína og gefa lífi sínu og annarra sem mest innihald. Við viljum að stjórnmálin og við öll, í sameiningu, vinnum að því að skapa samfélag þar sem morgundagurinn er fullur af ögrandi tækifærum, tilgangi og kvíðalausri gleði.

Þá þurfa hlutir að vera í lagi.

Þess vegna heitum við því sem við heitum. Nafnið táknar markmið okkar:

Björt framtíð.

 

 

Greinin er skrifuð í sumarlok og birtist í tímaritinu Herðubreið á dögunum.[1] Sjá Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til 2035, unnið af GAM Management hf (GAMMA) fyrir Landsvirkjun í júní 2011. Í skýrslunni segir að arðgreiðslur gætu orðið frá 30 til 112 milljarðar króna á ári hverju, og skiptir þá raforkuverðið höfuðmáli.

[2] Áætlað er að vaxtagjöld í erlendum gjaldeyri verði rúmlega 23 milljarðar á árinu 2013. Það er nánast einungis vegna lána sem ríkissjóður hefur tekið til að styrkja gjaldeyrisforðann. Sú lántaka nemur um 395 milljörðum. Sjá frumvarp til fjárlaga 2013. Kostnaðurinn er þó í heildina hærri, því Seðlabankinn borgar líka vexti. Skv. svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar þingmanns um kostnað við Evrópusambandsaðild er árlegur kostnaður vegna gjaldeyrisforðans um 33 milljarðar. Svarið rekur þannig ágætlega þann margvíslega sparnað sem í raun myndi hljótast við aðild að ESB og er fróðleg lesning. Sjá: http://www.althingi.is/altext/140/s/0858.html

[3] Skv. útreikningum ASÍ kostar hver prósenta í vöxtum íslensk heimili um 15 milljarða króna á ári. 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is