Fimmtudagur 26.04.2012 - 10:13 - FB ummæli ()

Pontan og völdin

Talsvert er rætt um þinghaldið um þessar mundir. Það er skiljanlegt. Í hönd fer hefðbundið glundroðaástand. Eftir að hafa setið á þingi í smá tíma virðist mér þetta blasa við um þinghaldið almennt:

Á alþingi ríkir viðvarandi valdabarátta. Margir telja hana sjálfsagða enda sé þetta jú alþingi. Flokkar eigi að berjast um völd. Ég er ósammála þessari nálgun á stjórnmál.

Mörg vitum við að valdabarátta, sé hún endalaus, setur flest í bál og brand. Fjölskyldur springa ef valdabarátta innan þeirra er viðvarandi, vinir hætta að talast við, JR hatar Bobby, fyrirtæki ganga illa og félagasamtök verða óstarfhæf. Sama gildir um alþingi. Viðvarandi valdabarátta, með tilheyrandi klækjum, skemmir og eitrar.

Valdabarátta kann að vera nauðsynleg en hún verður að eiga sér afmarkaðan tíma. Í stjórnmálum getur verið eðlilegt að hún fari fram í kosningum. Að kosningum loknum á hins vegar að taka við annars konar hugsunarháttur sem snýst meira um að leysa mál og verða að gagni, burtséð frá því hvernig valdabaráttan fór. Sama gildir annars staðar. Það gengur ekki, neins staðar í lífinu, að stunda valdabaráttu endalaust, alla daga og fram á nótt. Menn verða að kunna að haga sér.

Núna í lok þessa þings mun óstarfhæft alþingi að öllum líkindum birtast okkur enn á ný. Hópur þingmanna mun væntanlega setja sig á mælendaskrá í hverju máli á eftir öðru, tala mjög mikið og mjög oft.  Þörfin á endurtekningum verður mjög mikil.  Þeir sem eru sammála síðasta ræðumanni munu líka þurfa að segja það. Oft.

Mér virðist sem hópur þingmanna sé búinn að skilgreina bestu leiðina í áðurnefndri valdabaráttu. Þetta er gamalt trikk, en virkar vel: Að hertaka pontuna. Pontan á þingi er hliðið sem öll mál þurfa að fara í gegnum. Það þarf enga sérstaka kænsku til þess að sjá, að ef þú stjórnar hliðinu þá stjórnar þú miklu á þingi.

Semsagt: Þú færð völd.

Bingó.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is