Þriðjudagur 31.12.2013 - 10:38 - FB ummæli ()

Flökkugjöfin – Áramótagrein

I.

Þessi setning er höfð eftir góðum manni, hljómar eins og klisja en í henni eru djúp hyggindi: Stjórnmál eiga að snúast um framtíðina.

Þetta þýðir að stjórnmál eiga ekki að snúast um uppgjör við fortíðina, eins og þau gera alltof oft. Um það hver hafði rétt fyrir sér og hver rangt. Þau eiga heldur ekki að snúast um sífelld viðbrögð við því sem gerist í núinu. Í stjórnmálum eigum við að búa í haginn. Taka ákvarðanir sem skila ríkri uppskeru. Að hugsa ekki í árum, en öldum, eins og Klettafjallaskáldið orðaði það. Um það eiga stjórnmál að snúast.  Koma í veg fyrir hrun. Ekki bara bregðast við því.

Þess vegna heitir stjórnmálaflið sem við stofnuðum Björt framtíð.  Okkur er nokk sama um gamlar deilur, gamla flokka og gamlar átakahefðir á þingi.  Viðfangsefni okkar er 21.öldin. Framtíðin. Hvaða ákvarðanir er best að taka í dag svo að fólki líði betur á morgun?

Fyrir þá sem vilja helst bara hugsa um daginn í dag og finnst framtíðin vera of langt í burtu eru einkum þrjár ástæður til þess að vera þó sammála þessari nálgun:1) Ef ákvarðanir gærdagsins hefðu alltaf verið teknar með þessu hugarfari kæmi það okkur til góða í dag. 2) Trú á framtíðina, bjartsýni og góðar horfur leysir kraft úr læðingi sem bætir samfélagið hér og nú.  3) Mörg eigum við börn. Ákvarðanir okkar núna skipta máli fyrir þau fullorðin.

II.

 Björt framtíð starfar undir merkjum frjálslyndis. Græn gildi og mannréttindi eru okkur hjartans mál. Hér eru nokkur áríðandi verkefni af okkar sjónarhóli:

– Það þarf að sá fleiri fræjum í atvinnulífinu sem síðar verða spennandi alþjóðleg störf. Þess vegna hefur Björt framtíð lagt mikla áherslu á fjárfestingar í menntun, nýsköpun, rannsóknum, tækniþróun og alls konar skapandi greinum. Svoleiðis skilar sér, í frjórra mannlífi, betri horfum og meiri tekjum. Það er margsannað.

– Við þurfum auknar tekjur, til þess að greiða niður sameiginlegar skuldir, til þess að lækka álögur á fólk, til þess að fara í nauðsynleg viðhalds- og uppbyggingarverkefni.  Kraftmikið atvinnulíf í opnu markaðshagkerfi skiptir hér mestu máli en fleira þarf að koma til: Við eigum ekki að leigja auðlindir okkar á spottprís. Útgerðir þurfa að borga sanngjarnt verð fyrir veiðiréttinn, ferðamenn fyrir að njóta náttúrunnar og erlend stórfyrirtæki þurfa að borga fyrir orkuna. Virkjum lítið fyrir mikið, segjum við, fremur en mikið fyrir lítið.  Pössum upp á verðmæti okkar.

– Við þurfum öryggi.  Heilbrigðiskerfið, skólarnir, fjarskiptin, vegirnir, löggæslan. Allt þetta þarf að vera traust og varanlegt. Þess vegna hefur Björt framtíð sagt að það þurfi róttæka uppstokkun í ríkisrekstrinum og betri nýtingu fjármuna, hæfileika og tíma í þágu þess sem skiptir mestu máli. Það mun skila sér.

– Við þurfum að opna landið, ekki loka því. Í samvinnu sjálfstæðra ríkja í Evrópu getur Ísland orðið fullburða þátttakandi með aðgangi að stórum markaði, stöðugum gjaldmiðli og framsæknu samstarfi um mannréttindi, umhverfismál og lýðræðisleg gildi. Björt framtíð vill klára viðræðurnar við ESB og leyfa þjóðinni að kjósa um samninginn.

– Við þurfum stöðugt efnahagslíf til framtíðar. Það lækkar vexti og gerir verðtryggð lán óþörf, eykur kaupmátt og lækkar verðlag. Sumir vilja leiðrétta forsendubresti. Við viljum leiðrétta forsendurnar. Það er langstærsta hagsmunamálið fyrir heimilin. Stöðugleikinn kemur með meiri ábyrgð og aga í bókhaldi ríkisins og heimilanna, meiri útflutningstekjum og síðast en ekki síst: Gjaldmiðli sem er stöðugur án hafta.

– Við þurfum frelsi, frið og mannréttindi. Þetta er ekki innantómt hjal. Hópar fólks, eins og t.d. fatlað fólk, búa við stórskert mannréttindi. Það er ekki björt framtíð.  Jafnrétti kynjanna er líka lúmst viðfangsefni, stórt og yfirgripsmikið sem má ekki gleymast. Í þessu þarf Ísland að standa sig og vera jafnframt boðberi friðar, frelsis og mannréttinda annars staðar.

III.

Já, og stjórnmálin þurfa að batna. Það er forsenda skynsamlegra ákvarðana, sem er forsenda framfara. Þetta viðfangsefni hefur Björt framtíð sett á oddinn. Við viljum tileinka okkur sanngirni og yfirvegun. Við viljum vera málefnaleg.  Við viljum samráð, sem er ekki sprottið af málþófi á þingi heldur af því að samráð er gott og nauðsynlegt, til þess að ákvarðanir batni.  Sumir segja að við viljum að öll dýrin í skóginum séu vinir. Það er ekki rétt.  Við segjum hins vegar: Stjórnmál eru vettvangur fólks með ólíkar skoðanir. Reynum að nýta það sem kost, en ekki ókost. Ólík sýn er útgangspunkturinn, ekki sjúkdómur. Þetta þýðir t.d. að rökstudd gagnrýni á stjórnarmeirihlutann er eðlileg og nauðsynleg. Vík ég nú að henni.

IV.

Mér finnst eins og hlé hafi verið gert á flestu, undanfarið, er varðar skipulega viðleitni til þess að hugsa um morgundaginn. Við lifum á tímum þar sem eitt stærsta pólitíska málið kallast Leiðréttingin, sem er 150 milljarða viðbragð við því sem gerðist 2008. Semsagt: Stjórnmál fortíðarinnar.  Og það sem verra er: Að mestu fjármagnað með auknum byrgðum í framtíðinni. Peningar sem annars gætu nýst til að greiða niður opinberar skuldir, til arðbærra fjárfestinga og til nauðsynlegrar uppbyggingar, t.d. í heilbrigðiskerfinu, sem verður ekki frestað mikið lengur, munu renna í þetta verkefni.  Óumflýjanlegri fjárþörf til annarra hluta verður því að mæta öðruvísi, kannski með frekari niðurskurði til þróunarmála, heilbrigðismála, menntamála og nýsköpunar. Kannski hærri sköttum. Hver veit? Semsagt: Auknar byrgðar í framtíðinni.

Björt framtíð myndi ekki gera þetta svona. Við myndum einbeita okkur að því að hjálpa þeim heimilum sem virkilega þurfa aðstoð, bæði þeim sem skulda og þeim sem eru á leigumarkaði. Þar fyrir utan myndum við einbeita okkur að því að laga grundvöll allra heimila, bæta kjör, lækka verðlag og lækka vexti til langs tíma.  Ótal greiningar hafa verið gerðar á undanförnum árum á sóknarfærum Íslendinga, á því hvernig hægt er að bæta grundvöllinn. Á þeirri vinnu myndum við byggja.

Ég veit að á þingi, innan allra flokka, er fólk sem hugsar svona líka. Við munum halda áfram að leita samstarfs við það fólk — um að taka margar litlar og stórar ákvarðanir sem skila sér í betra mannlífi og bjartari horfum.

V.

 Einhvern tímann í aðventunni pakkaði kona í Reykjavík inn lítilli gjöf. Hún lét fyrsta fólkið sem kom í heimsókn til hennar með gjafir undir hennar tré fá þessa gjöf, með þeim orðum að það fólk skyldi láta næsta fólk sem kæmi til þeirra í heimsókn fá gjöfina, og þannig áfram, frá fjölskyldu til fjölskyldu. Sú fjölskylda sem stóð með gjöfina í höndum kl sex á aðfangadag mátti opna hana.

Þetta var svokölluð flökkugjöf.  Kannski er þetta gamall siður frá heimalandi konunnar, Thailandi. Ég veit það ekki. Hann er nýr fyrir mér. Um stundarsakir var gjöfin á mínu heimili. Svo komu gestir. Þá fór gjöfin í þeirra hendur. Allt var þetta okkur öllum til mikillar gleði og ánægju.

Þessi kona sendi gjöf út í samfélagið. Óeigingjarna gleði inn á heimili alls konar fólks. Hún pakkaði inn fallegum hlut í dag sem einhver annar naut á morgun. Þannig eiga góð stjórnmál að vera.

(Birtist líka sem áramótagrein í Mogga)

Gleðilegt ár!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.4.2013 - 13:22 - FB ummæli ()

Stefna BF: Minna vesen, meiri sátt

Markmið númer fjögur og fimm í hinni skýru og afdráttarlausu stefnu Bjartrar framtíðar eru markmiðin um minna vesen og meiri sátt.

Sumir hvá þegar við tölum um minna vesen. Er það ekki eitthvað grín?

Nei, aldeilis ekki. Þetta 320 þúsund manna samfélag er orðið of flókið.  Stofnanir vinna illa saman, samtal og samvinnu vantar milli ráðuneyta, sveitarfélög eru mörg og landinu er skipt upp eftir alls kyns línum, umdæmum og kjördæmum. Fólki er beint milli Heródesar og Pílatusar. Sótt er um vegabréf á einum stað. Það sótt á öðrum.

Þeim sem efast um að vesen sé til staðar ættu að heyra í Freyju Haraldsdóttur. Vesenið sem hún hefur lent í gagnvart opinberri þjónustu, við það að eiga sjálfstætt líf, er yfirgengilegt.

Margar þjóðir hafa gert átak í opinberri þjónustu. Raunar hafa sveitarfélög á Íslandi sumhver gert það líka. Björt framtíð vill t.d. setja alla þjónustu hins opinbera í eina rafræna gátt. Það er lítið vit í öðru.

Mörg smá og millistór fyrirtæki kvarta yfir of flóknu rekstrarumhverfi.  Fjárfestar segja svipaða sögu: Of erfitt er að fá svör úr stjórnsýslunni. Bréfum er oft ekki svarað. Það þarf að gera átak í þessu.  Og almannatryggingakerfið er of flókið.

Fíllinn í herberginu, þegar talað er um minna vesen, er svo auðvitað gjaldeyrishöftin.  Fátt gerir fyrirtækjum jafnerfitt fyrir. Á Íslandi ríkir ekki opið markaðs- og samkeppnisumhverfi. Það er vesen.  Lykilatriðið í að afnema höftin er að efla traust á hagkerfinu. Það lýtur að öðrum markmiðum Bjartrar framtíðar: Um meiri stöðugleika, betri nýtingu fjármuna, meiri fjölbreytileika í atvinnulífinu og meiri tekjur af auðlindum.

Og meiri sátt. Traust er hrunið í samfélaginu. Það gerðist yfir langan tíma.  Fjölmiðlar hafa verið talaðir niður, háskólasamfélagið, stjórnmálamenn, atvinnulífið. Á milli þessara aðila þarf miklu meira samtal. Björt framtíð vill taka þetta verkefni mjög alvarlega. Traust milli manna og stofnana verður ekki til af sjálfu sér. Sátt er verkefni sem getur tekið mörg ár.

Við viljum líka virða lýðræðislegar ákvarðanir og reyna eftir fremsta megni að láta stefnumótun standa. Hringlandaháttur er alltof mikill á Íslandi. Í raun eru flest stærstu mál þjóðfélagsins í algjörri upplausn, viðræðurnar við ESB, bygging Landsspítala, nýting orkuauðlinda og endurskoðun stjórnarskrárinnar.  Það er ekki traustvekjandi.

Björt framtíð vill einbeita sér að því að gera störf Alþingis uppbyggilegri. Við erum þegar byrjuð. Í þessari kosningabaráttu höfum við talað af virðingu og sanngirni, og við höfum talað í markmiðum. Ekki loforðum. Þannig teljum við að stjórnmál verði heilbrigðari.

Svona vill Björt framtíð vinna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.4.2013 - 08:43 - FB ummæli ()

Stefna BF: Meiri stöðugleika

Hin prýðilega stefna Bjartrar framtíðar telur fimm afdráttarlaus markmið. Eitt þeirra hefur töluvert borið á góma í kosningabaráttunni, en það er markmiðið um meiri stöðugleika.

Efnahagslegur stöðugleiki á Íslandi yrði dásamlegur.  Vextir á húsnæðislánum myndu fara niður svo tugþúsundir spöruðust í heimilisbókhaldinu á mánuði, forsendur til að bæta kjör með launabótum og hagstæðara verðlagi yrðu allt aðrar og betri, fyrirtæki og heimili gætu gert áætlanir fram í tímann. Fjölbreytt atvinnulíf gæti loksins þrifist almennilega.

Efnahagslífið gæti orðið eins og best gerist erlendis.

Ég hef það á tilfinningunni að stór hluti þjóðarinnar hafi misst vonina um að markmiðinu um stöðugleika verði nokkurn tímann náð.  Umræðan ber þess nokkur merki. Of margir virðast hafa sætt sig við sveiflurnar, enda viðureignin við þær orðin langvarandi og árangurslítil. Sumir græða beinlínis á þeim.

Þess vegna eiga alls kyns hugmyndir um skyndilausnir og stundarfrið upp á pallborðið. En Björt framtíð er þver og þrjósk: Við megum ekki missa fókusinn. Við verðum að skapa stöðugleika til langs tíma. Aðeins þannig batna lífskjör okkar fyrir alvöru.

Við bendum á nokkur lykilverkefni:

Það þarf stóraukið samráð og samtal í þjóðfélaginu, milli stjórnvalda, atvinnulífsins, háskólageirans, almennings, félagasamtaka og annarra. Þetta verkefni má ekki vanmeta. Það hefur hins vegar verið vanmetið. Þjóðarsáttin árið 1990 snérist um þetta grundvallaratriði. Að fá fólk að sama borðinu. Það tók nokkur ár.

Í annan stað telur Björt framtíð að gjaldmiðillinn sé of lítill og skapi sveiflur. Seðlabankinn er sammála. Við viljum því klára aðildarviðræðurnar og vonumst til að samningurinn verði það góður að þjóðin geti samþykkt. Þá getum við farið í ERM II, gjaldmiðilssamstarf við Evrópu, sem undir eins skapar meiri stöðugleika. Seinna getum við tekið upp evru.

Þetta snýst um kringumstæður okkar. Lítum á: Bara ef Orkuveita Reykjavíkur, svo dæmi sé tekið, greiðir stór erlend lán, þá lækkar gengi krónunnar, verðbólga eykst og lánin okkar hinna fara upp.  Þetta eru óviðunandi. Á komandi kjörtímabili mun Landsbankinn þurfa að greiða ógnarstóra gjalddaga af skuldbindingum sem fara upp í Icesave reikninginn. Það mun líka skerða lífskjör okkar hinna, ef ekkert verður að gert.

En evran er ekki töfralausn. Mun fleira þarf til. Það þarf að auka verðmæti útflutnings og auka erlendar fjárfestingar og það þarf líka að fara mjög vel með opinbera fjármuni og stunda hófsemi og aga. Bæði tengist stefnumálum Bjartrar framtíðar sem ég fjallaði um í gær og í fyrradag: Markmiðunum um meiri fjölbreytni í atvinnulífinu og minni sóun.

Svona hugsar semsagt Björt framtíð. Í skýrum markmiðum um betra þjóðfélag.

Farið ekki langt: Á morgun er það Stefna BF: Minna vesen

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.4.2013 - 08:39 - FB ummæli ()

Stefna BF: Minni sóun

Í hinni skýru og afdráttarlausu stefnu Bjartrar framtíðar er eitt mál sett á dagskrá sem hinir flokkarnir hafa lítið talað um: Að minnka sóun í samfélaginu.

Hvað eigum við við?

Jú, t.d. þetta: Íslendingar vinna langa vinnudaga, enda harðduglegt fólk. En afköstin eru ekki í samræmi við það.  Eins og sagt er á hagfræðimáli, er framleiðni lág í þjóðfélaginu.  Með réttum aðgerðum er hægt að minnka vinnutíma og viðhalda sömu afköstum. Hér þarf mikið átak. Takmarkið er að sem flestir geti unnið við það sem þeir gera best, á fjölskylduvænum vinnutíma.  Það yrði óneitanlega æðislegt. Fjölbreytni í atvinnulífinu er að hluta til leiðin.

En svo erum við líka að tala um þetta: Í heilbrigðiskerfinu, sem er einhver stærsti útgjaldaliður ríkisins, er hægt að nýta mun betur fé, hæfileika og tíma, með réttri langtímahugsun. Fólki er beint í dýr úrræði sem henta ekki. Betri og ódýrari leiðir skortir, s.s. öfluga heilsugæslu og hjúkrunarrými. Forvarnir og lýðheilsumarkmið þurfa líka að vera mun ofarlegar á baugi. Nýr og betri Landsspítali, ef vel er að verki staðið, mun bæta nýtingu á tíma, hæfileikum og fé, öllum til heilla. BF styður því hann.

Skólakerfið er svo annað. Í huga Bjartrar framtíðar er það mikil sóun á hæfileikum ungs fólks og tíma starfsfólks, og opinberu fé, að svo margir nemendur í framhaldsskóla og háskóla hætti í námi.  Þetta er þjóðarmein. Þessu verður að mæta með því m.a. að leggja alla áherslu á fjölbreytni og ekki síður sveigjanleika. Það þarf að minnka áherslu á bóknám ennþá meira. Fjölbreytileikinn í námsleiðum má sín lítils ef fólk þarf samt að yfirstíga sömu hindranirnar í íslensku og stærðfræði í þeim öllum. Við megum ekki við því að hæfaleikaríkt ungt fólk flosni upp úr námi vegna slíkra hindrana.

Svo eru það fjárlögin.  Hvernig opinberu fé er varið þarf sífellt að vera gagnrýni háð. Björt framtíð vill að ríkisrekstur sé ekki umsvifamikill en árangursríkur. Við bendum t.d. á að á vegum ríkisins störfuðu um 700 nefndir árið 2009, sem kostuðu um milljarð. Eru þær allar nauðsynlegar?  Allt svona þarf að skoða vel.

Markmiðið um góða nýtingu og minni sóun er augljóst í tilviki auðlinda og umhverfismála.  Björt framtíð er grænn flokkur.  Við viljum að nýting auðlinda okkar sé ætíð sjálfbær og náttúran njóti vafans. Ekki síður er okkur umhugað um að auðlindanýtingin, eins og þær virkjanir sem þó eru fyrir hendi og verður mögulega ráðist í, skili góðum arði. Þar er pottur brotinn. Verulegum fjárhæðum væri hægt að skila inn í ríkiskassann á ári hverju með stefnubreytingu í þessum efnum.

Og umhverfið, maður, umhverfið.  Verum græn í gegn, segum við. Tölur benda til að Ísland sé mikið sóunarsamfélag. Við þurfum að endurnýta meira, ferðast um á umhverfisvænan hátt, tileinka okkur grænan lífsstíl.  Hér dugar ekkert minna en allsherjarvakning.

Og það er markmið Bjartrar framtíðar.

Farið ekki langt: Á morgun er það Stefna BF: Meiri stöðugleiki.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.4.2013 - 08:39 - FB ummæli ()

Stefna BF: Meiri fjölbreytni

Eitt af því sem ég er hvað stoltastur af varðandi Bjarta framtíð er hvað stefnan er skýr. Hún byggir á fimm markmiðum, sem við teljum að við þurfum að ná til þess að þjóðfélagið verði betra.  Nú ég ætla að fjalla um það fyrsta: Meiri fjölbreytni.

Björt framtíð telur að þjóðfélagið sé of einsleitt.  Það er engin tilviljun. Markvisst hefur verið unnið að einsleitni, í raun. Orkan er seld til álvera, nánast bara. Styrkir til landbúnaðar fara að mestu til tveggja greina. Og krónan styður einsleitni, en gerir nýjum greinum erfitt fyrir.

Hér þarf átak.

Björt framtíð telur að það sé vel hægt að gera eins og Finnar gerðu. Þeir efldu skapandi greinar og tækni- og hugverkageirann hjá sér til muna með heildstæðu plani. Það hefur aldeilis skilað sér.  Að auki ættum við að leggja sérstaka áherslu á grænan iðnað og ferðaþjónustu. Þar þurfa að verða til verðmætari störf.

Við ættum líka að efla sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki yfir höfuð. Björt framtíð leggur til að við tileinkum okkur stefnu ESB í þeim efnum. Hún ber yfirskriftina „Think small first“ og gengur út á að ráðist sé í margvíslegar mikilvægar aðgerðir til þess að efla þessi fyrirtæki, þar sem langflest fólk á almennum vinnumarkaði vinnur.

Og hver vill þetta ekki, gæti einhver spurt.  Ég veit það ekki. Ég veit bara þetta: Það er ekki verið að setja kraft í þetta.  Björt framtíð vill gera það.

Svo snýst fjölbreytni auðvitað ekki bara um atvinnulífið. Björt framtíð er frjálslyndur flokkur sem styður fjölbreytni á öllum sviðum mannlífsins. Við viljum meira alls konar. Þess vegna erum við m.a. málsvarar menningar. Alls konar menningar. Og svo haldið sé áfram:

Í skólakerfinu flosnar hæfileikaríkt ungt fólk upp úr námi vegna þess að að það getur ekki lært muninn á veikum og sterkum sögnum, svo dæmi sé tekið. Það gengur ekki. Brottfall úr skóla er vandi sem við verðum að taka mun alvarlegar. Sveigjanleiki og fjölbreytni í námsleiðum er svarið.

Í heilbrigðis- og velferðarkerfinu þarf að hugsa út fyrir rammann og skoða fjölbreyttari rekstrarform. Eitt dæmi um nýtt rekstrarform í velferðarþjónustu er NPA fyrir fatlað fólk. Björt framtíð vill svoleiðis. Það byggist á því að notandinn sjálfur fær féð til sín og ræður til sín aðstoðarfólk eftir sínum hentugleik. Þar með getur hann öðlast sjálfstætt líf, sem er mannréttindamál.

Og talandi um það.  Björt framtíð er róttæk í mannréttindamálum. Við tölum nefnilega ekki um fjölbreytni að því bara.  Í grunninn snýst frjálslynd stjórnmálastefna um það að fólk geti notið sín í samfélaginu hvernig sem fólk er. Á sínum forsendum. Að tækifærin til að njóta sín séu jöfn.

Hér eru ærin verkefni: Ég hef áður minnst á fatlað fólk. Það býr við skert tækifæri.  Innflytjendur búa líka við mismunun. Launamisrétti kynjanna er staðreynd sem verður að eyða.  Á milli umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra eftir skilnað ríkir mikill aðstöðumunur, sem kemur niður á börnum.  Svo aðkallandi dæmi séu tekin.

Þessu öllu þurfum við að breyta.

Það er markmið Bjartrar framtíðar.

Farið ekki langt: Á morgun er það Stefna BF: Minni sóun.

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.4.2013 - 20:54 - FB ummæli ()

Við lofum engu

Sá sem talar í loforðum hefur yfirleitt slæma samvisku.  „Ég lofa að gera þetta aldrei aftur,“ er setning sem óþekkur krakki segir við foreldra sína eftir skammir eða einhver muldrar við maka sinn eftir að hafa farið hressilega yfir strikið í fertugsafmæli. Loforð eru þrautalending þess sem misst hefur traust. Yfirleitt endar loforðaflaumur á brostnum vonum, því heimurinn er ekki gerður fyrir loforð. Brostnar vonir leiða svo til enn minna trausts. Og enn meiri loforða.

Þannig er Ísland í dag.  Traust vantar í samfélagið. Viðbragð hefðbundinna stjórnmálaflokka er að lofa meiru. Það er þekkt samskiptaform milli kjósenda og stjórnmálamanna. Ný met hafa verið slegin: Að þessu sinni hefur kosningabaráttan mestmegnis verið um það hvað gera eigi við tæpa 300 milljarða sem algerlega er óvíst að séu á nokkurn hátt fastir í hendi. Semsagt: Frúin í Hamborg.

Fölsk mynd

Já, nei, svart og hvítt segi ég.  Björt framtíð tekur ekki þátt í þessu. Heilbrigð og yfirveguð manneskja lofar ekki. Maður segir: Þetta langar mig að gera.  Svona vil ég verða. Maður talar í markmiðum. Og ef maður er staðfastur, lærdómsfús, úrræðagóður og kann að beita sjálfan sig aga, þá nær maður markinu.  Með svona hugarfari fer maður í líkamsrækt, staðráðinn í því að byggja upp vöðvamassa. Maður lofar honum ekki.

Í stjórnmálum eru loforð einkar hættuleg því þau senda út þá fölsku mynd að stjórnmál snúist um það að stjórnmálamenn framkvæmi, einir, en aðrir þurfi ekki að gera neitt.  Það er óraunhæft. Enda leiðir loforðaflaumur yfirleitt á endanum til ásakana og afsakana. Aðrir vildu ekki framkvæma. Ekki stóð á mér. Eða annað vinsælt: Forsendur breyttust.

Þessi steppdans mun byrja strax í stjórnarmyndunarviðræðunum með tilheyrandi skítaglotti loforðafólks. Þannig getur þjóð haldið áfram hring eftir hring. Kollsteypu eftir kollsteypu. Forsendubrest eftir forsendubrest. Nema eitthvað gerist. Nema eitthvað breytist.

Skýrir valkostir

Fólk getur kosið hið óbreytta. Hið sama aftur. Eða kosið Bjarta framtíð. Valkostirnir eru nokkuð skýrir. Við segjum:  Breytum því algerlega hvernig við stundum pólitík. Gerum eins og við gerum í lífinu. Gerum eins og fyrirtæki gera. Setjum okkur markmið. Sammælumst um þau.  Höldum fókus. Ekkert hókus pókus. Verum þrjóskupúkar, Íslendingar, þegar kemur að þessum markmiðum. Verum ákveðin í því að gera ekki neitt nema það sem styður þessi markmið.

Svona vill Björt framtíð að Ísland verði:

1) Það þarf að auka fjölbreytni. Í atvinnulífinu geta nýjar greinar vaxið, eins og tækni- og hugverkageirinn og skapandi greinar, með réttum stuðningi. Það aflar okkur tekna án þess að ganga á umhverfið. Fleiri álver eru ekki skynsamleg.

2) Það þarf stöðugra efnahagslíf.  Gjaldmiðlinum okkar er ekki treyst. Hann sveiflast. Verðbólga fer upp. Lánin okkar eru þar af leiðandi dýr. Þessu er hægt að breyta, ef við viljum.

3) Við þurfum að nýta betur hæfileika okkar, tíma og peninga. Minnka sóun. Þetta er ekki bara verkefni í umhverfismálum, þar sem sóun er áþreifanlegt vandamál, heldur líka í skólamálum og heilbrigðismálum. Við beinum ungu fólki í nám sem það flosnar upp úr. Það er ótækt. Við beinum fólki í dýr úrræði í heilbrigðisþjónustu, á meðan önnur eru ódýrari og betri. Það er líka ótækt.

4) Það þarf að minnka vesenið í samfélaginu. Við þurfum að einfalda þjóðfélagið, bæta þjónustu hins opinbera við almenning, afnema höft og koma á opnu samkeppnis- og markaðsumhverfi.

5) Við þurfum meiri sátt. Þetta er verkefni sem verður að taka alvarlega. Það gengur t.d. ekki að skipta sífellt um kúrs í stórum verkefnum, eins og aðildarviðræðum við ESB, eða klára ekki önnur, eins og endurskoðun stjórnarskrárinnar. Og við verðum að tala meira saman. Stofnanir, félagasamtök, stjórnvöld, atvinnulífið. Það gerist ekki af sjálfu sér.

Vinnum í traustinu

Þessi nýja tegund af stjórnmálum, sem svo ágætlega var nefnd markmiðsstjórnmál — og tileinkuð Bjartri framtíð — í sjónvarpsþætti á dögunum, krefjast opins huga, góðs hjartalags, ábyrgðar og atorkusemi. En fyrst og síðast krefst þessi tegund stjórnmála þess af okkur öllum að við vinnum saman. Annars gerist lítið. Og samvinna krefst þess að við tölum við hvert annað af virðingu og sanngirni. Björt framtíð er því ekki að tala um Dýrin í Hálsaskógi þegar hún talar um sátt. Að allir eigi að vera vinir því það sé svo skemmtilegt. Nei. Málið snýst um hið einfalda grundvallaratriði að skítkast og dónaskapur gefur engum neitt. Ekkert þokast áfram með skætingi og leiðindum. Leiðindi, á þingi eða annars staðar, eru tímasóun.

Við viljum auka trú á framtíðina. Auka traust í samfélaginu. Það er ærið verkefni. Það verkefni varðar beinlínis budduna okkar, lífskjörin, því einn höfuðvandi íslensks efnahagslífs er skortur á trausti. Það eykur áhættu í fjármálalífinu. Það hækkar vexti. Það minnkar launaumslagið.

Að skapa traust á samfélagi og innan samfélags er alveg jafnerfitt verkefni og að skapa traust í lífinu yfir höfuð, milli fólks.  Lykilatriðið er að kunna að haga sér. Björt framtíð lofar þó því: Að haga sér eins og fullorðin manneskja. Nafnið á flokknum endurspeglar hlutverk hans. Hlutverkið er að setja þjóðfélaginu, í samvinnu við annað fólk, ásættanleg og raunhæf markmið sem gera Ísland betra og framtíðina bjarta, ef þeim er náð.  Næsta skrefið er að vinna að þessum markmiðum saman, sem flest, og hörfa ekki frá þeim.

Spurningin sem Björt framtíð sendir til kjósenda er einföld: Eruð þið með? Eigum við að gera þetta?

Birtist í DV, 19.apríl.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.2.2013 - 12:15 - FB ummæli ()

Svona virkar Björt framtíð

Eitt það ánægjulegasta við að tala við fólk um Bjarta framtíð eru jákvæðu viðbrögðin sem við fáum þegar við útskýrum hvernig Björt framtíð virkar.

Þetta vita nefnilega ekki allir. Uppbygging Bjartrar framtíðar felur í sér algerlega nýja nálgun á stjórnmálastarf.

Björt framtíð er eitt félag á landsvísu með einni stórri stjórn.  Engin undirfélög eru í Bjartri framtíð. Þetta gerir það að verkum að fólk talar saman – t.d. höfuðborg og landsbyggð – og veit af hugðarefnum hvers annars.  Þetta er strax farið að virka mjög vel.

Í Bjartri framtíð eru tveir formenn. Annar kallast formaður (GS) og hinn stjórnarformaður (Heiða). Á milli þeirra er ákveðin verkaskipting, sem lesa má í lögum flokksins. Formennirnir skulu hafa samráð um öll stór mál og leysa hvorn annan af. Þeir teljast því jafnréttháir.  Þetta er líka farið að gefa mjög góða raun, eykur samráð og slær á leiðtogaræði.

Einungis tvö plögg liggja flokknum til grundvallar. Yfirlýsingin heitir annað. Hún var samþykkt á stofnfundi þann 4.febrúar 2012 og lýsir nálgun BF á stjórnmál.  Hitt plaggið heitir því fróma nafni Ályktun stjórnar Bjartrar framtíðar nr. 1, eða Ályktunin. Hún er grunnstefna flokksins.

Flokkurinn er byggður á skýrum gildum: BF er frjálslynt afl, grænt og alþjóðlega sinnað.  Hér er um liberalflokk að ræða, en ekki sósíaldemokratískan eða conservatívan.  Liberalflokkur hefur ekki verið til á Íslandi um nokkurt skeið, að mínu viti, ef þá nokkurn tímann í tærri mynd. Hér þarf því dálítið kynningarstarf. Liberalflokkar í Evrópu eru gjarnan mjög fylgjandi Evrópusamvinnunni, leggja ríka áherslu á umhverfismál og eru róttækir í mannréttindamálum.  Þannig flokkur er BF.  En með tvisti.

Tvistið felst í því hvernig við viljum stunda pólitík og hugsa hana alveg upp á nýtt. Líkt og Besti, sem er systurflokkur BF, hefur gert í Reykjavík. Þetta birtist m.a. í uppbyggingunni.  Svo haldið sé áfram:

Allir sem eru fylgjandi grunnplöggunum geta skráð sig til þátttöku í BF inni á vefsíðunni www.heimasidan.is   Þar fer málefnastarf BF fram allan sólarhringinn, allan ársins hring.  Þátttakendur á síðunni eru meðlimir í BF. Hægt er að afskrá sig hvenær sem er.

Við störfum nefnilega í anda Kennedy: Ekki spyrja hvað þjóðin getur gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir þjóðina.  Og í því felst líka frjálslyndið. Við viljum treysta fólki. Auka þátttöku fólks í stjórnmálum. Á þeirra ábyrgð. Við höfum öll skoðanir.

Þannig að: Þú leggur fram þínar hugmyndir inni á heimasidan.is, undir þínu nafni, og þær safna meðmælum. Eða ekki.  Ég hef lagt fram nokkrar. Sumar fá undirtektir. Aðrar ekki.

Það skemmtilega er, að þetta er byrjað að virka vel, eins og annað í störfum BF. Fjölmargar mjög góðar hugmyndir streyma nú inn, úr öllum áttum.  Hér er til dæmis ein.

Það er nefnilega allt að gerast.  Í næstu dögum mun svo stjórn Bjartrar framtíðar setja inn sérstakar kosningaáherslur inn á heimasidan.is. Já, og kynna víðar ef að líkum lætur.

Þið fylgist með því, eins og maðurinn sagði.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.2.2013 - 08:48 - FB ummæli ()

Stjórnarskrármálið er ekki dautt

Menn keppast við það um þessar mundir að lýsa því yfir að stjórnarskrármálið sé dautt. Ég er alls ekki sammála. Ég held að það hafi ratað í mjög mikla erfiðleika — sem voru fyrir löngu orðnir fyrirsjáanlegir — en það er ekki dautt. Nema fólk vilji.

Ein meinloka hefur grafið um sig: Margir virðast telja að þetta þing geti „klárað málið“, eins og það er orðað. Þetta er alls ekki rétt. Þetta þing getur alls ekki klárað málið og hefur aldrei getað. Það þarf nefnilega tvö þing til þess að breyta stjórnarskrá. Þannig eru reglurnar. Þess vegna hefur næsta þing úrslitavaldið um það hvort ný stjórnarskrá verður sett eða ekki. Þannig er það bara.

Við þingmenn Bjartrar framtíðar höfum því stungið upp á leið, sem tekur mið af þessu. Hún er þessi:

1. Gerum eina breytingu á stjórnarskránni að þessu sinni, sem lýtur að því að tímabundið verði leyft að breyta stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi breyting yrði síðan staðfest af nýju þingi nú í vor.

2. Samþykkjum þingsályktunartillögu á þingi fyrir kosningar, þar sem ferlið framundan er skilgreint. Hún gæti til dæmis falið í sér tímasetningu: Að Alþingi skuli leggja nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina í bindandi þjóðaratkvæði, í heild sinni, á 70 ára afmæli lýðveldisins þann 17.júní 2014.

Ég persónulega myndi telja það nokkuð fagran endapunkt á þessu flotta ferli. Myndi jafnvel vökna um augu.

Það sem er fengið með þessu, er að málið getur þannig eftir sem áður klárast endanlega á næsta þingi. Það er líka mikilvægt að næsta þing getur með þessu móti haldið áfram að vinna í málinu efnislega — sem mun þurfa — en verður þó bundið af ályktun Alþingis.

Þetta er semsagt leið. Hún er fær. Ef fólk vill.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.2.2013 - 09:09 - FB ummæli ()

Ekki trúa öllu

Einu sinni sem oftar hlýddi ég á kvöldfréttir í útvarpinu á leið heim í bílnum fyrir nokkrum mánuðum. Fyrsta frétt vakti mig til umhugsunar. Hún fjallaði um það að formaður Sjálfstæðisflokksins hafði sagt að þingmenn Hreyfingarinnar væru einhverrar skoðunar. Ég man ekki nákvæmlega hverrar skoðunar. Það er aukaatriði.  Hitt fannst mér merkilegra: Af hverju var það yfirleitt fréttaefni hvað formaður Sjálfstæðisflokksins taldi að Hreyfingin héldi? Af hverju var ekki Hreyfingin einfaldlega spurð beint um skoðanir sínar?

Ítrekað í frásögnum af pólitík er verið að segja frá því hvað einhverjir telja að aðrir telji. Yfirlýsingar fólks um þankagang annarra, — hvaða skoðanir aðrir hafa, hvaða markmið aðrir hafa, hvaða ásetning, drauma og þrár aðrir hafa — rata daglega í fréttir, dægurmálaþætti, statusa, blogg og blaðamola.  Á kosningavori mun þetta færast í vöxt. Miðlarnir, netið, pottarnir munu fyllast af alls konar yfirlýsingum fólks um fólk.

Það sem mig langar til að segja við kjósendur er þetta:

Ekki trúa öllu.

Flókinn veruleiki

Það getur verið krassandi að heyra orðheppinn mann lýsa öðrum manni sem svona og svona. Að hann ætli sér greinilega þetta og hitt. Það getur verið hressandi að lesa kenningu, korn, status eða stein, um að þetta vaki greinilega fyrir þessum og að þessi vilji augljóslega gera þetta við þennan.

Ég útiloka ekki að í lýsingum fólks á öðru fólki geti leynst sannleikskorn, en mín reynsla segir að yfirleitt er flest svona úr lausu lofti gripið, stundum tær uppspuni en í besta falli hálfsannleikur (sem sumir segja verri en lygi). Raunveruleikinn er yfirleitt svo miklu, miklu flóknari en svo að hann rúmist í einum mola í blaði, fyrstu frétt á RÚV eða í þrjátíu sekúndna ummælum, grein eða bloggi eins manns um annan — hvað þá þegar augljóslega ríkir ekki velvilji þeirra á milli.

Greinagóðar, vel unnar lýsingar, skýringar og túlkanir á afstöðu stjórnmálamanna og flokka í margbreytilegri veröld eru sem betur fer mögulegar. En þær þurfa pláss. Tíma. Ég er að lesa eina bók um þessar mundir sem mér finnst vera þannig, um bandarísk stjórnmál. Vegna þess hve mikil heimildarvinna liggur að baki og hversu margir viðmælendur eru kallaðir til fær maður fljótt á tilfinninguna að hér sé um tiltölulega sanna lýsingu á atburðum, skoðunum, fyrirætlunum og þrám fólks í stjórnmálum að ræða. Og bókin, sem heitir Game Change,  virðist skrifuð af natni og með opnum og fordómalausum huga. Rannsakandi huga.

Það er skemmtilegt að lesa svoleiðis, að fá innsýn inn í raunverulegan þankagang fólks, vitnisburð um raunverulega atburði.

Leitið upplýsinga

Ég er ekki vongóður um að svona bók eða grein verði skrifuð um íslenska stjórnmálamenn og flokka fyrir kosningar. Við munum þurfa að búa við stutta mola og statusa hægri og vinstri. Þessi segir þetta um þennan.  Stjórnmálamenn í öllum flokkum munu þurfa að glíma við það með sínum einstaklingsbundnu aðferðum að skoðanir og fyrirætlanir sem þeir hafa alls ekki, verða eignaðar þeim. Í versta falli er þetta aðferðarfræði í pólitík. Að klína einhverju á annan. Láta hann neita því.  Við skulum bara kalla það klínu, svo búið sé til nýyrði. Sumir eru góðir í klínu.

Ekki trúa öllu, segi ég. Og mig langar að bæta við: Kynnið ykkur málin sjálf. Farið á heimasíður flokkanna. Lesið. Sendið þeim línu. Fáið svör. Nálgist sviðið með gagnrýnum huga. Ræðið málin. Í rólegheitum. Og svo þetta, sem er lykilatriði:

Kjósið það sem ykkur sýnist. Ekki það sem öðrum sýnist.

 

Greinin birtist í DV 6.febrúar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.11.2012 - 09:18 - FB ummæli ()

Drepum á skítadreifurum – Stöðumat

I.

Ég ætla að byrja á því að lýsa tilfinningu.

Stundum finnst mér eins og þjóðin eigi sér einn skeinuhættan mótherja: Sig sjálfa. Mér virðist þjóðfélagsumræðan stundum taka á sig mynd sem verður eiginlega best lýst sem baráttu stórra hópa gegn betri lífskjörum.

Jónas Sigurðsson syngur í lagi sínu Baráttusöngur uppreisnarklansins á skítadreifurunum þessar athyglisverðu línur: „Að lokum þyrpist stóðið niður strætin á skítadreifurunum, til að mótmæla tækifærunum, sem okkur standa til boða.“

Nú veit ég ekki nákvæmlega hvað Jónas á við með þessum orðum. Þau höfða nokkuð sterklega til mín á köflum sem lýsing á samfélagsástandi. Hugmyndir sem hugsanlega geta leitt til stöðugri lífskjara og fleiri tækifæra, meiri og almennari velmegunar, eiga oft afskaplega erfitt með að ná eyrum fólks. Góður vilji nær illa í gegn. Honum er jafnvel mótmælt kröftuglega, án mikillar rökræðu eða nánari skoðunar.

Að minnsta kosti tvö stór viðfangsefni eru háð þessum annmörkum. Það virðist erfitt að skapa almennan hljómgrunn fyrir því að þjóðin njóti meiri arðs af auðlindum sínum. Hins vegar gengur bölvanlega að fá breiða samstöðu um það að skapa á Íslandi stöðugri efnahagsgrundvöll. Álitlegum tillögum að leiðum til þess að ná þessum tveimur grundvallarmarkmiðum er oft mætt af mikilli hörku. Fátt myndi þó auka hagsæld þjóðarinnar meira en góður árangur hvað þetta tvennt varðar, arðinn og stöðugleikann. Þetta eru einhver mikilvægustu verkefni næstu ára á Íslandi.

 

II.

Lagið hans Jónasar kom út á plötu sem var gefin út á því herrans ári 2007. Miðað við tíðarandann í bólunni er allt eins líklegt að hlustendum beri að líta baráttu téðs uppreisnarklans jákvæðum augum en ekki neikvæðum. Kannski voru tækifærin árið 2007 þess eðlis, blekkingarnar slíkar og sýndarveruleikinn, að þeim var best hafnað með skítadreifurum. Ég er ekki frá því.

En sitt er hvað, óraunveruleg gylliboð bóluáranna og nauðsynlegar lagfæringar á grundvelli samfélagsins, á kringumstæðum okkar og aðstæðum. Almennt séð er hið frjálslynda markmið í stjórnmálum, sem ég aðhyllist, þetta:

Hið opinbera á að skapa sem best skilyrði þannig að hið frjálsa og fjölbreytta framtak einstaklinga og samtaka þeirra fái notið sín. Fókusinn á að vera á það.

Það kann hins vegar að vera að hið sjúklega ástand góðærisáranna þar sem margir nutu gervivelmegunar, sem hvarf eins og dögg fyrir sólu, hafi gert margt fólk vantrúað á að það sé yfirleitt til eitthvað sem heitir velmegun, betri grunnur, tækifæri, möguleikar, farsæld eða hagsæld, eða hvað þetta heitir nú allt saman. Allt sé þetta frá skrattanum komið. Byggt á sandi. Öllu þessu beri að mótmæla með skítadreifurum.

En út úr svo níhilískum þankagangi verður þjóðin hins vegar að koma sér hið fyrsta, ef hún er sokkin þangað. Það er hægt að bæta samfélagið, það er hægt að skapa varanlegri betri kjör og traustari undirstöður, sem leiða til enn betra skólakerfis, betri samgangna, fjölbreyttara atvinnulífs, enn betra heilbrigðiskerfis. Við þurfum bara að vilja það.

Vera opin fyrir hugmyndum í þeim efnum.

Drepa á skítadreifurunum í bili.

Og pæla smá.

 

III.

Hvað er að?

Ég vil nefna þrjá hluti.

Í fyrsta lagi þetta með peningana. Mér finnst eins og þessi ríka þjóð eigi einhvern veginn aldrei pening, hvorki í góðæri né kreppu. Yfirleitt er flest fjársvelt.

Metnaðarfull og góð markmið í heilbrigðisþjónustu og í menntakerfinu sitja sífellt á hakanum. Vegir eru þvottabretti.

Þetta viðvarandi fjársvelti kann að eiga sér skýringar. Ein er auðvitað sú, að áríðandi er að gæta aðhalds í ríkisrekstri, en önnur er hugsanlega þessi, svo ég nefni mikilvægt dæmi: Við höfum virkjað orkuauðlindir okkar í stórum stíl en samt hefur Landsvirkjun einungis skilað smápeningum í ríkiskassann í beinan arð frá stofnun. Arðurinn af orkusölu til stórkaupenda fer að alltof djúgum hluta til kaupendanna sjálfra í gegnum of lágt orkuverð.

Það er gott að verðið sé lágt til almennings og almenningur njóti þannig arðs af auðlindunum. Um það er ekki deilt. Ef hins vegar orkuverðið til stórkaupenda væri töluvert hærra myndi umtalsverður arður skila sér í sameiginlega sjóði hér á landi, til eiganda fyrirtækisins sem er þjóðin öll. Þann arð væri hægt að nota til að bæta skilyrðin í samfélaginu t.d. með lægri sköttum, niðurgreiðslu skulda og til að taka á hinu viðvarandi fjársvelti sem háir framförum.

Sama gildir um arð af öðrum auðlindum þjóðarinnar. Honum hefur verið illa skipt. Mikilvæg skref hafa verið stigin í þá átt undanfarið að leiðrétta þá skekkju. Arðurinn af sjávarauðlindinni hefur runnið of mikið til þeirra sem eiga skipin en of lítið til eiganda auðlindarinnar, sem er þjóðin. Væntanlega myndu fáir vilja að arði af olíuvinnslu, ef olía fyndist í íslenskri lögsögu, yrði skipt á sama veg og eigendur boranna fengju arðinn mest allan en eigandi lindanna lítið sem ekkert.

Það er mikilvægt að þeir sem fjárfesta, afla og framleiða geti uppskorið ríkulega ef þeir standa sig vel. Arður getur hins vegar blessunarlega runnið í margar áttir í einu. Það geta margir fengið sneið af kökunni. Einhverjir vilja kannski hafa þetta svona og finnst í lagi að kökunni sé skipt á þann veg sem við þekkjum – eða kannski bara skipt einhvern veginn, og hverjum er ekki sama? – en mér finnst það ekki í lagi.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að ósanngjörn skipting arðs af auðlindum er vandamál fjölmargra þjóða sem eiga auðlindir. Ef ráðamenn þjóða taka þetta viðfangsefni ekki alvarlega – einhverra hluta vegna – geta þjóðir lent í þeirri stöðu að njóta ekki auðlinda sinna. Þær eru í raun verr settar en þjóðir með litlar sem engar auðlindir. Þetta er vel þekkt. Arðurinn rennur þá að mestum eða öllum hluta til annarra en þjóðarinnar, s.s. til erlendra fyrirtækja. Stundum er þetta kallað arðrán.

Ég vil ekki grípa svo sterkt til orða til að lýsa Íslandi. Skipting arðs af auðlindum Íslendinga er slæm, en hún á sér vissar ástæður. Svo horft sé aftur til orkumála: Þegar Íslendingar voru að hefja virkjun orkuauðlinda var nokkuð öðruvísi umhorfs en nú. Það þurfti að byggja upp raforkuflutningakerfi, innviðina fyrir raforkusöluna. Til þess að svo mætti verða gat verið skynsamlegt að leita stórra kaupenda til langs tíma, eins og var gert. Langtímaskuldbinding kaupendanna var metin til lækkunar á orkuverðinu. Auk þess var erfiðara áður fyrr að markaðssetja íslenska orku sem græna og umhverfisvæna. Eftirspurn eftir slíku var ekki nándar nærri eins mikil og nú.

Þessar aðstæður hafa breyst. Nú eru innviðirnir til. Ekki þarf að leggja jafnmikla áherslu á langtímaskuldbindingu kaupendanna. Og eftirspurn eftir grænni orku vex og vex, ekki síst í Evrópu.

Þessa breyttu stöðu þarf að nýta í þágu lands og þjóðar.

 

IV.

Munurinn á fisknum og orkunni er athyglisverður. Í tilviki fisksins hafa framleiðendur, eða seljendur, fengið mest af beinum arði og eigandi auðlindarinnar lítið. Í tilviki orkunnar eru framleiðslufyrirtæki í eigu þjóðarinnar, en ekki endilega auðlindin. Þá bregður svo við að kaupandinn fær mest. Skýringar eru einhverjar, en það er von að fólk spyrji: Hafa hagsmunagæslumenn almennings staðið sig?

Blessunarlega hefur verið unnið ötullega innan Landsvirkjunnar og annars staðar að löngu tímabærri stefnubreytingu hvað þetta varðar. Orkusölusamningar við stóriðju hafa verið teknir upp og endursamið um verðið á grunni breyttra forsenda. Það er gott mál.

Eitt er mikilvægt: Ekki þarf að virkja allt í botn. Við getum slakað á hvað það varðar. Áætlanir Landsvirkjunar ganga einfaldlega út á að fá sem hæst verð fyrir þá orku sem er og verður framleidd í samræmi við Rammaáætlun um nýtingu og vernd. Það er stefnubreytingin: Að horfa á orkuverðið, arðinn sem fæst, fremur en einblína á földa starfa sem skapast út af hverri verksmiðju- og virkjunarframkvæmd, eins og gert er t.d. í nýlegri – en gamaldags – skýrslu Íslandsbanka. Meira að segja er hægt að auka arðinn af núverandi orkuframleiðslu, eins og Hörður Arnarson hefur bent á. Umframorkunni sem nú er þegar fyrir hendi, en puðast út í buskann, er hægt að koma í gott verð.

Ef þessum áætlunum yrði haldið til streitu, og þær studdar á pólitíska sviðinu og úti í samfélaginu, gæti Landsvirkjun með tíð og tíma skilað yfir 100 milljörðum í ríkiskassann á ári hverju. [1] Það myndi muna um það. Hina breyttu hugsun sem svona stefnumörkun fylgir ætti að nýta til að kynna samhliða eina mjög svo byltingarkennda hugmynd í íslensku samhengi, vil ég meina.

Hún er þessi: Peninga má nýta til þess að byggja upp vinnumarkað, skapa betri skilyrði, borga skuldir, lækka skatta, auka fjölbreytni. Út um allt land. Með öðrum orðum: Það þarf ekki að nota auðlindina sjálfa til þess að skapa staðbundin störf, beint, heldur getur verið skynsamlegt að nota frekar peningana sem auðlindin skilar til að skapa góð skilyrði um land allt.

Umræðan um sæstreng til Evrópu er tærasta hugmyndin í þessum anda. Sæstrengur myndi skapa mestan arð, en lítið af beinum störfum. Hins vegar mætti nota arðinn til að skapa störf og bæta skilyrðin almennt. Engin ástæða er þó til að fara á límingunum hér, ef mönnum líkar ekki nákvæmlega þessi hugmynd. Fjölmargir aðrar leiðir eru til en sæstrengur þar sem mikill arður fæst og bein störf verða meira að segja líka til í ofanálag. Það er margt í mörgu.

Ég er á þessari línu. Ég tel þetta skynsamlega stefnumörkun. Ég tel að svona ættum við einnig að nálgast aðrar auðlindir í megindráttum. Láta þær skapa okkur sem mestan arð – á grunni sjálfbærrar nýtingar í sátt við náttúruna (lykilatriði) – en nota arðinn til þess að bæta skilyrðin fyrir einstaklinga og fyrirtæki um land allt. Til þess að auka fjölbreytnina. Til að bæta samfélagið.

Þetta mætir hins vegar andstöðu. Nýleg ályktun ofan úr Hólum í Hjaltadal um sæstreng sem arðrán er eitt dæmi. Kröfur um virkjanir í hvelli og orkusölu sama hvað það kostar, út af kreppu og atvinnuleysi, eins og ASÍ, SA og margir stjórnmálamenn virðast vilja, eru líka Þrándur í Götu þessara áforma og gætu gert út um þær. Hér þarf yfirvegun og staðfestu.

 

V.

Ástæður mótmæla gegn „tækifærunum sem okkur standa til boða“ kunna að vera margar. Í dæminu af Landsvirkjun er andstaðan af ýmsum toga. Sumir eru fullir grunsemda, eðlilega, þegar þeir heyra orðasambandið „hærra orkuverð.“ Það er mikilvægt að orkuverðið til almennings rjúki ekki upp þótt hærra verð fáist til stórkaupenda.

Aðrir fyllast þjóðernismóð þegar þeir heyra minnst á að „selja orkuna úr landi,“ eins og hugmyndin um sæstreng gengur t.d. út á. Þeir hinir sömu virðast hins vegar ekki hafa miklar áhyggjur af því þegar orkan er nánast gefin úr landi, eins og tíðkast hefur. Enn aðrir leggja einfaldlega á það mun meiri áherslu að orkusalan skapi störf á einhverjum tilteknum stað, en að hún skapi peninga. Ég hef heyrt þingmann halda því blákalt fram í pontu, þegar atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi bar á góma, að orkuverðið skipti ekki neinu máli. Það þyrfti bara að ráðast í dæmið. Byggja verksmiðju.

Aðalatriðið finnst mér vera þetta: Hér eru ógnarstórir hagsmunir í húfi. Mér finnst mikilvægt að Íslendingar séu upplýstir um möguleikana í stöðunni, viti að þetta er hægt og viti að hugmyndir í þessu veru – um að stórauka tekjur okkar allra af auðlindum okkar – eru raunhæfar. Of margir hins vegar rjúka upp of snemma – enn sem komið er – til að mótmæla áformum í þessa veru. Það leiðir til þess að ryk þyrlast upp í kringum málefnið og færri öðlast skýra sýn. Það er mikilvægt að fólki gefist ráðrúm til að hugsa. Velta fyrir sér. Spá.

Svo er líka alltaf nauðsynlegt að minna sig á eina höfuðvillu opinberrar umræðu sem mætti nefna svart/hvítu villuna. Þá er gengið út frá því að veröldin sé alltaf annað hvort svört eða hvít. Hún getur hins vegar verið bæði. Þó svo stefnumörkun Landsvirkjunar um sæstreng og annað, sem skilaði fé í kassann, gengi eftir er ekki þar með sagt að orkusala í þágu staðbundinnar atvinnuuppbyggingar heyrði sögunni til. Það yrði seint alveg þannig.

 

VI.

Klisjan sem stundum heyrist – en þó æ minna – um að allir vilji í raun og veru það sama í pólitík og enginn munur sé á stefnu flokkanna er vitaskuld röng. Ein ákvörðun um að selja alla orku sem eftir er til tveggja álvera til að skapa störf, eins og sumir vilja, gæti til að mynda gert að mestu út um langtímaáætlanir um skynsamlega orkunýtingu sem malaði þjóðinni umtalsverðar beinar tekjur um alla framtíð. Ég vil halda því fram að það geti brugðið til beggja vona. Næstu kosningar eru ógnarmikilvægar hvað þetta varðar. Lykilspurningin er þessi: Hverjum er best treystandi fyrir auðlindunum?

En ég sagðist ætla að nefna þrennt sem ég tel að þurfi að laga, þrátt fyrir marghliða mótmæli ýmiss konar gegn því. Hér er númer tvö: Fáir í pólitík virðast vilja takast á við þá lykilspurningu af einhverri dýpt, hvernig eigi að koma á varanlegum stöðuleika í íslensku hagkerfi. Ástæðurnar kunna að vera einfaldar. Hugsanlega er áhugaleysi um að kenna, enda eru sveiflur hagkerfisins af sumum taldar til mikilla bóta. Hins vegar er hugsanlegt að fólk nenni ekki í þessa umræðu. Hér er nefnilega „tækifærunum sem okkur standa til boða“ virkilega mótmælt með skítadreifurum, af krafti.

Ég ætla að demba mér beint í bununa hér og nú. Ástæðan fyrir því að íbúar þessa lands þurfa að greiða svo háa vexti af húsnæðislánum sínum og verðtryggingu í ofanálag er einfaldlega sú að fjármálakerfið treystir ekki krónunni. Skyldi engan undra: Hún hefur fallið í verði mörg þúsund falt frá upphafi, stundum hrunið. Stundum kippst til í stundarbrjálæði.

Út af þessu – háu vöxtunum og verðtryggingunni – þurfa Íslendingar að vinna miklu lengur fyrir eigin húsnæði heldur en aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Þetta er rótin að stritinu endalausa. Mig hefur lengi langað að sannreyna kenningu og lagði reyndar drög að því að skrifa um hana meistaraprófsritgerð í hagfræði. Kannski verður það einhvern tímann.

Kenningin er þessi: Stór hluti þjóðarinnar mun aldrei og hefur aldrei náð endum saman og mun ekki gera það nema eitthvað sé gert. Lánin eru of dýr. Og það sem meira er: Það má ekki hækka launin, því þá hækkar verðlagið, og þá hækka lánin. Við erum föst í gildru.

Við yrðum engu bættari með því einfaldlega að afnema verðtrygginguna. Vextirnir myndu þá hækka sem verðtryggingunni nemur og afborgarnir lánanna rjúka upp. Það yrði náðarhöggið fyrir aragrúa heimila. Þannig að ekki gengur það. Grundvöllinn þarf að laga. Sjálfar undirstöðurnar.

Kerfisgallinn í íslenska hagkerfinu birtist í verðbólguskotunum. Í verðbólguskotunum birtist ófyrirsjáanleikinn og óréttlætið. Þau éta upp eignir heimilanna, sparnað þeirra í húsnæði. Ógnarfjöldi Íslendinga hefur gengið í gegnum þær hremmingar nokkrum sinnum að sjá eign sína í íbúðinni hverfa í verðbólguskoti. Vegna þessa kerfisgalla í íslensku hagkerfi færist fjármagnið sífellt til á alls konar ósanngjarnan hátt og ógagnsæjan.

Hér er eitt dæmi: Þegar sveitarfélög eða stórfyrirtæki greiða niður erlendar skuldir á stórum gjalddögum veikir það krónuna því fjármagn streymir úr landi. Sig krónunnar hækkar svo aftur verðlag. Hærra verðlag hækkar innlendar skuldir heimilanna. Svona færast skuldirnar til. Frá einum til annars og fæstir átta sig á þessu eða vita sitt rjúkandi ráð. Semsagt: Eitt stórt fyrirtæki greiðir niður erlent lán. Allar skuldsettar fjölskyldur á Íslandi súpa seyðið.

Dæmin eru fleiri. Hrun krónunnar veldur verðbólguskoti. Það hækkar lán. Almenningi blæðir. Á sama tíma fara eigendur útflutningsfyrirtækja brosandi í bankann, því lægra gengi er gott fyrir þá (ef þeir eru ekki of skuldsettir). Margir sjá ástæðu til að samfagna, en óheilbrigðið í þessu myrkrahagkerfi er hins vegar æpandi. Hér færist fjármagn frá þeim mörgu til hinna fáu eftir leynistígum.

Og varla er þetta skynsamleg atvinnustefna, ef þetta væri þá stefna. Þeim atvinnugreinum sem öllu fremur þurfa stöðugt umhverfi til vaxtar, s.s. fyrirtæki í þekkingariðnaði og þjónustu – sem geta breikkað grundvöll hagkerfisins og skapað ný störf – gengur erfiðlega að koma undir sig fótunum í þessum kringumstæðum. Þær atvinnugreinar sem græða eru einkum sjávarútvegur og álframleiðsla. Báðar atvinnugreinarnar eru hins vegar bundnar takmörkunum eða kvótum í framleiðslu sinni. Þær framleiða því ekkert meira þótt gengið sé þeim hagstætt. Það verður bara til meiri arður hjá eigendunum. Enn og aftur: Fé færist frá mörgum til fárra.

Það er því varla glóra í þessu dæmi. Krónan er bjargvætturinn, segja sumir. Útflutningsatvinnugreinum gengur vel. En á sama tíma og þessi söngur er sunginn koma fulltrúar sveitarfélagsins Skagafjarðar á fund þingmanna kjördæmisins og draga upp dökka mynd. Fólkið er að fara úr byggðarlaginu. Nú? Er ekki blússandi uppgangur í sjávarútvegi og landbúnaði? Gengið hagstætt?

Jú, jú. En þær greinar skapa ekki störf.

Þær skapa þá arð fyrir… tja hvern?

Þið afsakið: Hér er ég kominn grunsamlega nálægt því sem ég var einmitt að fjalla um hér áðan. Ósanngjarnri skiptingu á arðinum af auðlindunum.

En ég var búinn að tala um það.

 

VII.

Ég sé ekki betur en að ríflega 20 milljarðar muni renna beint úr ríkiskassanum á næsta ári bara vegna krónunnar.[2] Þetta fé verður tekið af striti og púli almennings, beint af skattfé, ofan á allt annað sem krónan kostar fólk í vöxtum og verðtryggingu.[3] Þennan krónukostnað má lesa út úr fjárlögum á ári hverju, en einhvern veginn segir aldrei neinn neitt.

Hundruð milljarða liggja í gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans og hann er fjármagnaður með lánum. Við þurfum gjaldeyrisvarasjóð til þess að verja krónuna, til þess að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli. Kostnaðurinn er þá þessi. Ríflega 20 milljarðar á næsta ári úr ríkissjóði. Fyrir þann pening mætti gera ótrúlega margt annað.

Auk þess er krónan bundin í höftum. Höft eru annað orð yfir skerðingu á frelsi. Íslendingar búa ekki við frjálsa fjármagnsflutninga vegna þess að krónunni er ekki treystandi. Hún myndi sökkva ef hún væri sett á flot, með tilheyrandi hörmungum. Óþolið út af þessu mun bara aukast hér á landi, spái ég.

Hver er þá lausnin? Ég sagðist ætla að demba mér í bununa. Ég kýli á það: Ef Ísland gengi í Evrópusambandið, með góðum samningi sem ég held að við ættum vel að geta landað, gæti þjóðin innan mjög skamms tíma hafið gjaldmiðilssamstarf við Evrópska seðlabankann í gegnum hið svokallaða ERM II. Það er fordyri evrunnar.

Þetta myndi þýða að Íslendingar yrðu aðilar að Evrópska seðlabankanum. Evrópski seðlabankinn myndi verja gengi íslensku krónunnar innan vissra vikmarka. Smám saman yrði óþarfi að halda úti digrum íslenskum gjaldeyrisvarasjóði. Tugmilljarða vaxtagreiðslur myndu þar með heyra sögunni til. Það yrði hægt að nota þá peninga í annað.

Frelsi yrði komið á í viðskiptum, engin gjaldeyrishöft lengur. Stöðugleikinn sem þarna fengist myndi lækka vexti og gera verðtrygginguna óþarfa. Í fyrsta skipti á Íslandi yrði hægt að að beina auðæfum þjóðfélagsins, með hærri launum og betri kjörum, til almennings án þess að lánin hækkuðu og snaran hertist um hálsinn. Við yrðum laus úr gildrunni.

Auk þess gætu fyrirtæki vaxið og dafnað. Stöðugt umhverfi er þeim flestum ómetanlegt. Erlendir fjárfestar – aðrir en einstaka sérvitringar – myndu fá aukinn áhuga. Fjölbreytnin í atvinnulífinu myndi því aukast. Það yrðu góð tíðindi fyrir íbúa landsins, ekki síst ungt fólk sem er búið að mennta sig í alls kyns greinum en bíður fjölbreyttari tækifæra.

Sanngirnin og réttlætið í samfélaginu myndi aukast. Fólk myndi fremur uppskera í kjölfar erfiðis síns og skapandi hugsunar, í stað þess að horfa á fé sitt hverfa til fárra í gegnum áðurnefnda leynistíga með ófyrirsjáanlegum og tilviljanakenndu móti, aftur og aftur.

En þetta er ekki hættulaust. Þegar vextir lækka getur hið langþreytta – en þó hamingjusama skv. könnunum – stritsamfélag mögulega dottið í lánafyllerí. Það var í raun það sem gerðist í aðdraganda hrunsins eða „skakkafallanna“ eins og sumir kalla það. Ódýr erlend lán urðu þjóðinni ofviða. Sama gerðist í grundvallaratriðum í Grikklandi. Þessari hættu yrðum við að sjálfsögðu að mæta. Ekkert er alveg þrautalaust. Auk þess er yfir höfuð alltaf vandasamt að bæta kjör, án þess að þensla myndist. Það verkefni yrði þó einfaldara.

Það er til mikils að vinna. Hið nýja samfélag sem nú risi með stöðugum gjaldmiðli yrði sterkara, fjölbreyttara og réttlátara. Fyrir almenning allan yrði um fullkomin tímamót að ræða. Í fyrsta skipti á Íslandi yrði hægt að gera plön sem héldu að einhverju ráði, hægt að kaupa bíl og íbúð án þess að vera dæmdur til að vera spákaupmaður, sveittur á efri vör út af striti og óvissu.

Almennt myndi ríkja minna vesen.

 

VIII.

Mér finnst ég heyra í skítadreifurunum.

„Til að mótmæla tækifærunum sem okkur standa til boða.“

Beinn kostnaður við þetta fyrirkomulag, þennan kerfisgalla í íslensku hagkerfi sem ég hef nú lítillega fjallað um, er æpandi. Ósanngirnin er ömurleg. Andstaðan við hugmyndir eins og þær sem ég hef nú reifað er hins vegar megn. Það getur vel verið að til séu betri hugmyndir. Ég er ein eyru. Ég vil þó segja það strax: Að taka upp gjaldmiðil annars lands, eins og Kanada – þar sem við værum t.d. ekki aðilar að seðlabanka þess lands – finnst mér mjög óráðlegt.

Eitt á ég í öllu falli erfitt með að sætta mig við, og það er að krónan sé ekki rædd, en sé látin standa eins og bleikur fíll með partíhatt í herberginu á meðan allir aðrir mögulegir hlutir eru til umfjöllunar. Alls konar kanínur úr hatti – verð ég að segja – til þess fallnar að búa til einhvers konar piss-í-skó-mekanisma fyrir íslenskt samfélag birtast líka með reglulegu millibili og verða oft kosningamál. Flatar niðurfellingar lána, afnám verðtryggingar, bygging álvera strax.

Allt svona, að mínu viti, er til þess fallið að beina sjónum frá aðalatriðinu: Sjálfur grunnurinn er skakkur. Einhverja framtíðarsýn sem felur í sér viðgerð á þessum grunni, almennilega og varanlega, verða stjórnmálamenn að bera á borð fyrir kjósendur í næstu kosningum. Ég tel þetta sigurstranglegast, svo enginn velkist í vafa: Að fara inn í ERM II. Evran kæmi svo í kjölfarið.

Fólk getur verið ósammála þessu. Þá auglýsi ég eftir betri hugmyndum. Vísa ég þá jafnframt á bug ásökunum um landráð, svik við sjálfstæðið, uppgjöf í baráttunni gegn samsæri annarra þjóða og hvað þetta heitir nú allt saman, frussið sem bunar úr dreifurunum um leið og maður minnist á ESB.

 

IX.

Þá er það þriðja atriðið. Mörgum hefur orðið tíðrætt um skort á trausti í samfélaginu, um ósætti og sundrungu. Ástandið á Alþingi er iðulega nefnt sem dæmi. Ég er sammála því að bæta þarf vinnubrögðin þar. Mér finnst hins vegar mikil einföldun að halda því fram að verkefnið að byggja upp traust í samfélaginu snúi nánast eingöngu að þinginu. Sumir tala þó þannig. Þar á meðal forseti Íslands.

Þingið er afsprengi þjóðarinnar. Það sem er að í þinginu endurspeglar að stórum hluta það sem er að í grunni þjóðfélagsins. Til að laga þingið, umræðuna, vinnubrögðin og andrúmsloftið þarf að laga það sem er að í þjóðfélaginu. Sveiflurnar. Ófyrirsjáanleikann.

Þingið nýtur ekki fyllilega sannmælis í umræðunni. Vinnubrögð eru oft til fyrirmyndar, t.d. við meðferð mála í nefndum. Að sitja í velferðarnefnd á þessu kjörtímabili hefur verið góð og uppbyggileg reynsla. En þingið getur þó vissulega tekið sig taki. Um það hef ég skrifað.

Þingmenn gætu talað kurteislegar hver við annan í pontu og margir mættu tileinka sér meiri sanngirni og yfirvegun í málflutningi. Á þingi mættu ríkja betri fundarsköp, mjög svipuð þeim sem ríkja víðast hvar annars staðar á fundum í þjóðfélaginu og á þjóðþingum í Skandinavíu. Fólk á ekki að geta talað endalaust, aftur og aftur. Það verður að vera meginregla að meirahlutavilji ráði og þingmenn fái að greiða atkvæði, þótt samráð og samvinna sé alltaf af hinu góða. Ef þetta er bogið, þá er þingið skemmt.

Það sem er að þinginu, segi ég, er að mörgu leyti það sama og er að þjóðinni. Meinsemdin er lúmsk en hún er þarna samt. Hinn ótrausti grundvöllur, fjármagnsflutningarnir eftir leynistígunum, sveiflurnar ófyrirséðu og það allt; – þetta eru kjöraðstæður fyrir spillingu, óvandaða umræðu, ramma sérhagsmunagæslu, valdabrölt og klíkumyndun.

Sjáiði til. Mikill auður færist síendurtekið til í íslensku samfélagi, eins og ég hef lýst. Sem sagt: Einhverjir græða. Þeir sem græða vilja halda áfram að græða. Einn meginkosturinn við núverandi fyrirkomulag, fyrir suma, er að almenningur sér ekki vel hvernig þessir fjármagnsflutningar eiga sér stað. Ef nógu mörgum reyksprengjum er kastað inn í umræðuna er þessi veruleiki líklega flestum að fullu hulinn.

Í ofanálag er íslenskt samfélag lítið. Maður þekkir mann. Vitneskja um komandi sveiflur, staðbundna atvinnuuppbyggingu með lágu orkuverði og þar fram eftir götunum getur sett suma í betri stöðu en aðra. Lítið, ríkt sveiflusamfélag er þannig eitruð blanda. Ég minni á að í íslenskri viðskiptasögu eru stærstu skandalarnir samráð.

Meinsemdin felst einnig í því að mestmegnis er þessi veruleiki ákaflega tilviljanakenndur, þótt leynistígarnir liggi ætíð í sömu átt. Auðvitað verður lífið alltaf tilviljunum háð og óvissa er hluti af kringumstæðum allra manna, ávallt og ævinlega. Þegar hins vegar heilt hagkerfi einkennist af sveiflum og sveiflum ofan – og þær eru jafnvel dásamaðar – er viðbúið að ýmislegt láti á sjá.

Það er ákaflega mikilvægt að í þjóðfélaginu ríki meiri von en minni til þess að einstaklingar geti uppskorið árangur fyrir erfiði sitt. Því minna sem utanaðkomandi og tilviljanakenndir þættir hafa áhrif á árangur fólks, því betra. Þetta er ekki í lagi á Íslandi.

Ég held til dæmis að tilviljanakenndur árangur eigi sinn þátt í því að brottfall úr framhaldsskólum er mjög algengt hér á landi. Spáum í það: Ef ungt fólk sér hámenntaða foreldra sína meira eða minna skuldum hlaðna, í fjárhagsvandræðum, þrátt fyrir alla vinnuna og menntunina, getur þá verið að lúmsk spurning um tilgang menntunar grafi um sig í ungum sálum? Getur líka verið að sveifluhagkerfið skapi kringumstæður þar sem þetta reddast-hugarfarið grasserar og ungu fólki er uppálagt að hugsa ekki til langs tíma heldur grípa gæsina meðan hún gefst, hoppa úr skóla og selja pizzur?

Vísbendingar um svona hugarfar eru víða í samfélaginu. Skýrslur eru skrifaðar með góðum niðurstöðum, en fáir virðast einhvern veginn hafa trú á því að niðurstöður þeirra verði einhvern tímann að veruleika. Standast áætlanir í þessum ólgusjó? Eitt stærsta og byltingarkenndasta skrefið í nýkynntri fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem ég og fleiri áttum nokkurn þátt í, var þetta: Áhersla er lögð á að nota, raunverulega, niðurstöður ýmissa skýrslna sem skrifaðar hafa verið undanfarið um uppbyggingu í skapandi greinum, grænu hagkerfi og fleiru. Öll vinnan er þarna. Hvers vegna ekki að nota hana?

Alltof oft er talið að tilgangslaust sé, nánast, að spá í framtíðina á Íslandi. Hún bara kemur. Það þótti til að mynda mikill brandari í augum margra stjórnmálamanna á 9. áratug síðustu aldar þegar þáverandi ríkisstjórn skipaði framtíðarnefnd svokallaða, til þess að vinna að áætlunum og spá fyrir um þróun mála. Hún var blásin af um leið og önnur ríkisstjórn tók við. Og talandi um áætlanagerð. Verðbólgumarkmið. Hvað er það?

Hið örgeðja þetta-reddast-hugarfar á sér vissulega sínar góðu hliðar. Ekki myndi ég vilja sjá þann eiginleika hverfa úr þjóðarsálinni að fullu. Sumir hafa þó dásamað þetta hugarþel fullmikið á undanförnum árum og kennt við víkinga. Dökka hliðin á þessum kringumstæðum er óréttlætið og ósanngirnin, skortur á fagmennsku og langtímahugsun. Víðtækt og marghliða vantraust hreiðrar um sig.

Það skyldi samt engan undra að einhverjum þyki vænt um þessi skilyrði og vilji viðhalda þeim. Of margir græða á þessu. Mig grunar að þeir hinir sömu ráði of miklu í íslensku samfélagi. Mér finnst ég heyra rödd þeirra á þingi. Í hjarta sínu eru þessir aðilar ekkert endilega svo áhugasamir um meiri stöðugleika. Umræðan um hina miklu aðlögunarhæfni íslenska hagkerfisins, sem er að mörgu leyti annað orð yfir hrun þess, er þessum þankagangi hagstæð og styður grunsemdir mínar. Sumir verða jafnvel ævareiðir ef einhver talar illa um krónuna. Það hringir viðvörunarbjöllum í mínum huga.

 

X.

Ég var ósammála forseta Íslands þegar hann gaf í skyn í þingsetningarræðu sinni þann 11. september síðastliðinn að sáttin í samfélaginu yrði á einhvern hátt að vera byggð á því að menn gættu hófs í lagasetningu. Sem sagt, ef ég skildi hann rétt: Að menn breyttu sem minnstu.

Hann sjálfur hefur lagst mjög gegn breytingum á stjórnarskránni. Átökin um frumvarp stjórnlagaráðs eru áhugaverð. Þau afhjúpa í mínum huga erfiðleikana sem eru fólgnir í því að glíma við þetta þriðja atriði sem ég ræði nú: Að koma á trausti og meiri sátt í samfélaginu.

Núgildandi stjórnarskrá er um margt óskýr. Það segir sitt að í síðustu forsetakosningum var ein meginspurningin til frambjóðendanna einfaldlega þessi: Hvað á forsetinn að gera? Hver er tilgangur embættisins? Enginn gat svarað þessu almennilega. Í öllu falli var þetta mjög á floti.

Í stjórnmálum, niðri á þingi, úti í viðskiptalífinu, geta menn gert sér mikinn mat úr gráum svæðum, óljósum skilgreiningum, ógagnsæjum ferlum, ef fólk er þannig innstillt á annað borð. Andstaðan við nýja stjórnarskrá hefur valdið mér heilabrotum á yfirstandandi þingi. Allt í einu rann upp fyrir mér ljós: Þeir sem vilja hafa þjóðfélagið svona eins og það er, vilja þeir nokkuð nýja og skýrari stjórnarskrá?

Í óljósu umhverfi er hægt að spila vel til valda, auðs og áhrifa. Þetta er það sem ég meina þegar ég segi að meinsemdir þingsins endurspegli meinsemd þjóðfélagsins. Niðri á þingi verð ég ítrekað var við einn rauðan þráð í málflutningi þeirra sem mér virðast einna helst vera á móti ýmsum grundvallarbreytingum í samfélaginu: Virðingarleysi fyrir ferlum. Ein höfuðbaráttan niðri á þingi snýst um það að leyfa þinginu sjálfu að virka eðlilega, gegn þeim sem ítrekað taka það í gíslingu. Að leyfa stórum og mikilvægum viðræðum við ESB að hafa sinn gang. Að leyfa stjórnarskrárferlinu að klárast. Öllu þessu er stefnt í upplausn, hvað eftir annað. Af hverju?

Ég veit það ekki. En ég er með kenningu:

Sjálf upplausnin með öllum sínum þægilegu gráu svæðum, duldum auð og völdum, skal varin hvað sem það kostar. Hún er of góð fyrir suma.

 

XI.

Eitt það ánægjulegasta sem ég hef fengist við er að eiga frumkvæði að því ásamt mörgu fólki, sem aðhyllist svipaða lífssýn, að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Það er flokkur með stórt hjarta. Við viljum að hann sé vettvangur fyrir fólk sem vill gera gagn. Að þessari hreyfingu hefur hópast fólk sem leggur mikla áherslu á mannréttindi, svigrúm til athafna, tjáningar og hugsunar, vill frjálst samfélag og fjölbreytt, er alþjóðlega sinnað, leggur áherslu á umhverfismál, skólamál, velferðarmál.

Öll þessi grundvallarmarkmið má lesa í skjali sem einfaldlega er kallað Ályktun stjórnar nr. 1. Annað skjal kallast Stjórnmálayfirlýsing. Það lýsir nálgun okkar á stjórnmál. Sú nálgun er kannski einna helst byggð á hugmyndinni um stjórnmál sem þjónustu. Þannig viljum við stunda stjórnmál. Við erum í þessu fyrir þjóðfélagið allt. Almenning.

Ég vona eftir þennan lestur að lesendur hafi öðlast einhverja tilfinningu fyrir því af hverju við heitum því nafni sem við heitum. Að fólki líði vel, – eða a.m.k. þokkalega – hafi trú á kringumstæðum sínum og upplifi að það sé tilgangur með athöfnum sínum og erfiði, fer eftir ýmsu. Sumt af því, ansi veigamikið að mínu mati, sem ég held að þurfi að vera í lagi, en er það ekki, hef ég rakið hér og nú.

Það er barátta í gangi í íslensku samfélagi. Með lagni, sanngirni, samræðu, virðingu og yfirvegun er hægt að leiða hana til lykta í sátt. Ég er sannfærður um það. Það skiptir miklu máli hvaða manneskjur munu stjórna ferðinni. Þær verða að taka þetta viðfangsefni alvarlega. Almenningur þarf líka, að mínu mati, að ganga meira í lið með sjálfum sér.

Við viljum stefna að fjölbreyttu þjóðfélagi sem gefur hverjum og einum tækifæri til að nýta styrkleika sína, axla ábyrgð sína og gefa lífi sínu og annarra sem mest innihald. Við viljum að stjórnmálin og við öll, í sameiningu, vinnum að því að skapa samfélag þar sem morgundagurinn er fullur af ögrandi tækifærum, tilgangi og kvíðalausri gleði.

Þá þurfa hlutir að vera í lagi.

Þess vegna heitum við því sem við heitum. Nafnið táknar markmið okkar:

Björt framtíð.

 

 

Greinin er skrifuð í sumarlok og birtist í tímaritinu Herðubreið á dögunum.[1] Sjá Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til 2035, unnið af GAM Management hf (GAMMA) fyrir Landsvirkjun í júní 2011. Í skýrslunni segir að arðgreiðslur gætu orðið frá 30 til 112 milljarðar króna á ári hverju, og skiptir þá raforkuverðið höfuðmáli.

[2] Áætlað er að vaxtagjöld í erlendum gjaldeyri verði rúmlega 23 milljarðar á árinu 2013. Það er nánast einungis vegna lána sem ríkissjóður hefur tekið til að styrkja gjaldeyrisforðann. Sú lántaka nemur um 395 milljörðum. Sjá frumvarp til fjárlaga 2013. Kostnaðurinn er þó í heildina hærri, því Seðlabankinn borgar líka vexti. Skv. svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar þingmanns um kostnað við Evrópusambandsaðild er árlegur kostnaður vegna gjaldeyrisforðans um 33 milljarðar. Svarið rekur þannig ágætlega þann margvíslega sparnað sem í raun myndi hljótast við aðild að ESB og er fróðleg lesning. Sjá: http://www.althingi.is/altext/140/s/0858.html

[3] Skv. útreikningum ASÍ kostar hver prósenta í vöxtum íslensk heimili um 15 milljarða króna á ári. 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is