Mánudagur 29.5.2017 - 14:46 - Rita ummæli

Alvarleg tíðindi af kennurum

Virk starfsendurhæfingarsjóður birti í febrúar 2017 skýrslu um hvernig væri hægt að draga úr nýgengi örorku.

Hlutfallslega fleiri kennarar leita til Virk en aðrir háskólamenntaðir hópar. Fleiri kennarar glíma við kvíða, andlegt álag og vefjagigt en nokkur annar háskólamenntaður hópur. Reyndar eru kennarar og starfsfólk menntastofnana áberandi stór hluti af þeim sem leita eftir starfsendurhæfingu hjá Virk.

Ástæður þessa má meðal annars helst rekja til aukins álags í starfi kennarans, skort á stuðningi og þeirri upplifun að komast ekki yfir þau verkefni sem til er ætlast. Slíkt veldur streitu og hættu á kulnun í starfi.
Fréttatíminn greindi frá því í september 2016 að veikindi grunn- og leikskólakennara hjá Reykjavíkurborg hafi stóraukist frá árinu 2012. Mikil aukning hafi verið á bæði skamm- og langtímaveikindum stéttarinnar. Þannig hafi 37% aukning orðið á langtímaveikindum kennara frá árinu 2012.

Það eru grafalvarleg tíðindi þegar staðreyndir sýna að kulnun í starfi er mest meðal kennara. Álag á kennara í starfi er staðreynd og mest er álagið við kennslu yngri barna í leik- og grunnskóla.

Í dag þykir fínt í nútíma mannauðsstjórnun að bjóða starfsfólki upp á aukinn sveigjanleika í starfi, möguleika á að vinna heima og þannig samþætta vinnu og fjölskyldulíf sem dregur úr álagi og streitu. Rannsóknir sýna að þeir sem búa við sveigjanleika á vinnustað skila meiri afköstum og eru ánægðari í starfi.

Og á sama tíma og sveigjanleiki er aukinn á vinnumarkaði almennt hefur verið vaxandi tilhneiging til að niðurnjörva vinnutíma kennara. Forysta sveitarfélaganna sækist í að hafa sem mest forræði á vinnu kennara með þeim afleiðingum að vinnudagurinn dugar kennaranum ekki til að klára verkefni dagsins og undirbúa næsta dag.

Leikskólakennarar fá ekki þann nauðsynlega sveigjanleika í starfi til þess að undirbúa og skipuleggja kennslu í leikskólanum. Þeim er skammtaður of lítill tími til faglegs undirbúnings. Grunnskólakennarar þurfa sífellt að takast á við fleiri og fleiri verkefni. Í sumum tilfellum taka alls kyns teymisfundir, samskipti við heimili og aðrar skyldur utan kennslunnar allan tíma kennarans og lítið sem ekkert er eftir innan dagvinnumarka til að undirbúa kennslu næsta dags. Hægt og bítandi hefur verkefnum fjölgað án þess að nokkuð tillit sé tekið til þess innan vinnuramma kennara.

Í framhaldsskólanum hefur líka verið vaxandi tilhneiging til þess að setja fleiri verkefni á herðar kennara án þess að taka tillit til þess tíma sem þau taka. Framhaldsskólakennarar hafa sjálfir forræði yfir sínum vinnutíma að hluta og geta þá valið hvenær þeir undirbúa kennslu eða sinna námsmati. En til viðbótar við kennsluna og störf tengd henni færist nú í vöxt sérstök umsjón með ólögráða nemendum, aukin samskipti við heimili og teymisvinna tengd einstaka nemendum eða verkefnum.

Það vekur hins vegar athygli að streita og kulnun í starfi er heldur minni meðal framhaldsskólakennara sem gæti verið vísbending þess að enn sem komið er sé miðstýring starfsins minni.

Kennsla er á margan hátt lík starfi leikarans. Þú ert að koma fram fyrir framan aðra og gagnrýnendur eru kröfuharðir. Nemendur kvarta ef kennarinn á slæman dag og hann er hiklaust púaður niður ef illa gengur. Ekkert frekar en leikarinn getur staðið á sviði oft á dag svo árum skiptir er hægt að leggja of mikla kennslu á herðar kennarans án þess að eitthvað láti undan.

Það er alveg ljóst að það þarf að vinda ofan af of miklu álagi í starfi kennara. Ábyrgð samningsaðila er mikil því það eru gríðarlega miklar fjárhæðir í húfi að koma í veg fyrir langtímaveikindi kennara svo ekki sé talað um örorku vegna kulnunar í starfi. Við óhóflegu álagi í kennarastéttinni verður að bregðast við samningaborðið og semja um meiri sveigjanleika og afmarka vandlega þau verkefni sem rúmast innan dagvinnumarka kennarans.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.2.2017 - 13:21 - Rita ummæli

Kennaraskortur – ókeypis ráð til stjórnvalda

Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að grípa til aðgerða vegna yfirvofandi kennaraskorts. Lítil aðsókn er í kennaranám og útskrifaðir kennarar skila sér ekki í kennslu. Það má skipa starfshópa hægri vinstri … en það er nú með kennara eins og lækna, með því að hækka laun og bæta starfsaðstæður verður hægt að gera starfið aðlaðandi og auka aðsókn.  Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.10.2016 - 13:27 - Rita ummæli

Í tilefni kvennafrídagsins – hugleiðingar miðaldra konu

Ég er hugsi yfir mörgu sem tengist jafnréttisbaráttunni, umræðunni henni tengdri og stöðunni í dag. Ég er hugsi yfir því að ég held að við sem yngri erum höfum tekið við keflinu af mæðrum okkar og hlaupið hægar í þessu boðhlaupi en þær. Dætur okkar mögulega eru sumar hverjar værukærar – kannski telja þær þetta baráttu fortíðarinnar en ekki framtíðarinnar og kannski er okkur sjálfum að einhverju leyti um að kenna.

Á sama tíma erum við samt að sjá hörku töffara meðal kvenna sem skora yfirlýst gildi samfélagsins á hólm. Free the nipple framtakið og druslugangan, þær segja feðraveldinu að fokka sér.

Þær hafa staðið vaktina þegar við hinar sofum, eða dottum eða gleymum okkur … í svo ótalmörgu sé ég mikilvægi fyrirmyndanna og mikilvægi þess að vera stöðugt meðvituð um þessi inngrónu gildi í samfélaginu að karlinn skaffi meðan konan sinnir heimilinu.

Vel klæddur karl á lúxusjeppa – er pottþétt í góðri stöðu. Vel klædd kona á lúxusjeppa er pottþétt gift einhverjum í góðri stöðu.

Og það er fleira en bara launamunurinn sem er óþolandi. Það er óþolandi að karlar séu ekki jafn lengi í fæðingarorlofi og konur og það er óþolandi að það skuli ekki vera sjálfsagt að karlar minnki við sig vinnu vegna barna og heimilis það er óþolandi að karlar vinni frekar yfirvinnu og þar með að karlar standi uppi með betri lífeyrisréttindi að lokinni starfsævi en konur.

Það er óþolandi að samfélagið hafi meira umburðarlyndi fyrir allskonar sem karlar gera. Konum er frekar ætlað að axla ábyrgð gjörða sinna þótt jafnvel karl í sambærilegri stöðu sé stikk. Við höfum séð konur svældar út af Alþingi fyrir sömu sakir og karlar sem sátu sem fastast enda tók samfélagið á þeim með silkihönskum. Konur eru valdagráðugar, karlar hafa metnað. Konur eru frekjur, karlar eru ákveðnir.

Við megum enn þola hrútskýringar og fordóma miðaldra karla sem telja sig allt vita og kunna, þeir eru aldir upp í því, ekkert endilega af mömmu og pabba heldur af gildum samfélagsins. Ungfrú Ísland stóð loksins með sjálfri sér. Konur verða að standa með sjálfum sér og spyrja sig í öllu sem þær gera hvort staðalímyndir karlasamfélagsins ráði för. Konur verða að spyrja sig stöðugt hvort orð þeirra og athafnir séu innan eða utan ramma karlasamfélagsins og þær eiga að gera athugasemdir við það ef orð og athafnir annarra falla undir gamaldags staðalímyndir.

Ég er ekki að nenna því að bíða í 50 ár með að fá sömu laun og karlar. Spítum í lófana meðal annars með því að breyta viðmiðum samfélagsins og svo ótal margt stórt og smátt fellur þar undir. Við sjálfar, feður, bræður og synir verðum að gera þetta saman og samhliða þarf að styrkja kynjakvóta og skapalon um launajöfnun. Við verðum að fokka upp þessu feðraveldi af meiri krafti svo konur geti orðið flugþjónar á flatbotna skóm.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.10.2016 - 10:03 - Rita ummæli

Af launamálum opinberra starfsmanna og afskiptum ASÍ

Forseti ASÍ hefur látið hafa eftir sér að þegar forystufólk opinberu stéttarfélaganna féll frá vilyrði sínu um breytingar á lögum um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, hafi það falið í sér samningsbrot. Það má skilja á orðum hans þegar hann telur ríkið geta vísað málinu til úrskurðar félagsdóms.

Samkomulagið átti að ramma inn breytingar á umræddum lögum og þar vóg þyngst í okkar huga að tryggja óbreytt réttindi núverandi sjóðsfélaga. Það er auðvitað ekki boðlegt ef það á að breyta leikreglunum aftur í tímann. Lífeyrisréttindi í núverandi mynd eru eitthvað sem við opinberir starfsmenn höfum getað gengið að alla okkar starfsævi og taki kerfið breytingum getur það bara náð til framtíðar sjóðsfélaga líkt og síðast þegar grundvallarbreytingar voru gerðar á kerfinu árið 1996.

Hafi þetta verið samningsbrot þá væri samkomulagið ígildi kjarasamnings. Það getur auðvitað ekki verið því annars hefði, skv lögum þeirra stéttarfélaga sem að samkomulaginu stóðu þurft að bera það undir atkvæði félagsmanna.

Eftir stendur sú staðreynd að það er skynsamlegt til framtíðar að jafna kerfin. Það þarf að gera kerfið sjálfbært um það er ekki deilt. Lífeyristökualdur þarf að hækka í samræmi við hækkaða meðalævi. En það mun ekki verða gert í samkomulagi við opinbera starfsmenn nema réttindi núverandi sjóðsfélaga séu tryggð. Það hlýtur hver að sjá það sjálfur að við getum ekki kvittað upp á skerðingu okkar réttinda á sama tíma og lífeyrisréttindi á almennum markaði aukast.

Þetta mál þarf að vinna að loknum kosningum. Það þarf að vinna í sátt við þá sem hagsmuni hafa af málinu. Nýtt samningslíkan á að tryggja jöfnun launa á milli markaða og tryggja opinberum starfsmönnum launaskriðsbætur til jafns við almenna markaðinn.  Það er jafnframt skynsamlegt að halda launaþróun innan marka þess sem samfélagið þolir án þess að allt brenni upp í verðbólgu.  Kennarasamband Íslands og Bandalag háskólamanna treystu sér ekki til að taka þátt í því samningslíkani m.a. vegna þess að launasetning þessara hópa er óásættanleg innan þess ramma og laun þessara hópa þarf að hækka. Það er ekki gæfuleg byrjun og ekki til að hrífa okkur með í Salek vegferðina ef ASÍ ætlar að leggja stein í götu okkar opinberra starfsmanna í hvert sinn sem við náum árangri í samningaviðræðum eða stöndum á rétti okkar.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.7.2016 - 09:53 - Rita ummæli

Ekki er allt sem sýnist

Skýrslur Heildarsamtaka vinnumarkaðarins (SALEK) fjalla um launaþróun á vinnumarkaði frá árinu 2006. Í þriðju skýrslu SALEK hópsins ( Í kjölfar kjarasamninga) sem kom út nú nýverið kemur fram að laun framhaldsskólakennara hafi hækkað mest allra hópa á íslenskum vinnumarkaði, en frá árinu 2006 hafa regluleg laun framhaldsskólakennara hækkað um 85,9% á meðan laun heildarsafns allra aðila vinnumarkaðarins hafa hækkað um 78,6%.

Það er rétt að framhaldsskólakennarar náðu nokkrum árangri í síðustu kjarasamningum í kjölfar verkfalls og mjög erfiðra skipulagsbreytinga á vinnutímaramma. Mikilvægt er að hafa í huga að skýrslur SALEK-hópsins setja allar grunnlínur við árið 2006 burtséð frá því hvernig launaröðun mismunandi hópa er háttað. Skoðuð er launaþróun frá því ári og launavísitala allra hópa sett við 100 á árinu 2006, óháð reglulegum dagvinnulaunum. Hvernig laun einstakra hópa hafa þróast á 10 ára tímabili segir ekkert um hvernig launin standa í sambanburði við aðra hópa í dag. Sé sanngirni gætt þarf að líta lengra aftur en til ársins 2006 til þess að setja launaþróun framhaldsskólakennara í rétt samhengi.

Eðlilega bera framhaldsskólakennarar sig saman í launum við hópa ríkisstarfsmanna með sambærilega menntun og þá helst aðildarfélög BHM. Framhaldsskólakennarar hafa sömu menntun og aðrir háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn innan BHM í hinum ýmsu greinum til viðbótar við kennaramenntun sína. Það er því eðlilegt að laun framhaldsskólakennara séu að minnsta kosti á pari við félagsmenn í BHM. Langt aftur fyrir árið 2006 hafa framhaldsskólakennarar ekki staðið félögum sínum í BHM jafnfætis í launasetningu. Launaskrið er jafnframt ekkert innan þeirra raða, það þýðir lítið fyrir framhaldskólakennarann að biðja um launahækkun umfram miðlæga samninga – svo ekki sé nú talað um óunna yfirvinnu og annað sem hefur verið notað til að vega upp laun starfsmanna hjá hinu opinbera.

Séu laun framhaldsskólakennara sett í rétt samhengi miðað við daginn í dag er veruleikinn sá að í nóvember 2015 voru regluleg meðallaun fullvinnandi launamanna KÍ ríki enn tæpum 2% lægri en hjá félögum í BHM. Þetta þýðir að enn verða framhaldsskólakennarar að sækja á því betur má ef duga skal.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.9.2014 - 14:50 - Rita ummæli

Hvítbók menntamálaráðherra

 

Menntamálráðherra fundar nú víða um Hvítbók sína. Daglega eru nú haldnir fundir um innihald Hvítbókar og leitast við að svara spurningunni um hvernig við getum bætt menntun barna okkar.

Hvítbók var lengi í fæðingu og var loksins lögð fram nú í vor. Enginn höfundur eða ritstjóri er skráður ábyrgur fyrir Hvítbókinni og hvergi er vitnað beint í heimildir.

Í hvítbók eru sett fram eftirfarandi markmið;

  • Hlutfall þeirra sem ljúka prófi á tilsettum tíma fari upp í 60% árið 2018
  • Hlutfall þeirra sem ná grunnviðmiðum í lesskilningi PISA fari úr 79% í 90% árið 2018
  • Stytta nám til lokaprófs
  • Draga úr brotthvarfi
  • Breyta skipulagi starfsmenntunar
  • Nám til stúdentsprófs miðist við 3ja ára námstíma

Kennarasamtökin hafa ítrekað óskað eftir fundi með ráðherra til að ræða innihald Hvítbókar. Svo einkennilega sem það hljómar þá virðist ráðherra hafa kosið að sniðganga stéttar- og fagfélög kennara á öllum skólastigum.

Í Hvítbók eru reifaðar hugmyndir um grundvallarbreytingar á innihaldi náms til stúdentsprófs. Jafnframt er sá kostur nefndur sérstaklega að takmarka aðgengi 25 ára og eldri nemenda inn í framhaldsskólann.

Nýlega framlagt fjárlagafrumvarp styður við markmið Hvítbókar um skerðingu náms á framhaldsskólastigi og takmarkað aðgengi. Enn er skorið niður til framhaldsskólans og gert ráð fyrir 5% fækkun nemenda.

Svo virðist sem menntamálaráðherra sé þegar búin að taka ákvörðun um meginbreytingar á íslenska framhaldsskólastiginu. Slík ákvörðun hefur verið tekin í einhverju bakherberginu og óljóst hverjir voru þar viðstaddir. Að minnsta kostir var þar enginn fulltrúi Kennarasambands Íslands.

Hér hefur verið tekin pólitísk ákvörðun – án alls samráðs við fagstéttirnar sem best og gleggst þekkja skólastarf í landinu. Með allri virðingu fyrir fjölmörgu áhugafólki um nám og skólastarf – vill bara þannig til að kennarar vita betur í krafti menntunar sinnar og reynslu.

Sú vegferð sem virðist vera hafin í átt að meginbreytingum á íslensku skólakerfi – er ekki vænleg til farsældar ætli menn að hunsa ábendingar og ráðleggingar þeirra sem vita og kunna. Slíkt ferðalag verður ekkert annað ein sneypuför og minnisvarði um gamaldags vinnubrögð.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.9.2014 - 17:02 - Rita ummæli

Framhaldsskólarnir í fjárlögum 2015

Eins og svo margir í dag hef ég verið að rýna í fjárlagafrumvarp næsta árs.  Þar er ég að glöggva mig á þeirri mynd sem er dregin af framtíð framhaldsskólans í þeirri von að eitthvað rofi til í rekstri þeirra.

Því miður virðist ekki vera í farvatninu sá nauðsynlegi viðsnúningur sem þarf að eiga sér stað í rekstri skólanna frá því sem nú er.  400 milljóna viðbótarframlag til rekstrarins sem samið var um í kjarasamningunum í vor má sín lítils þegar annars staðar er skorið niður á sama tíma og gert ráð fyrir nemendafækkun langt umfram mannfjöldaspá.Þá er beinlínis talað um hagræðingu í frumvarpinu, með styttingu framhaldsskólanáms.  Í frumvarpinu er vísað í Hvítbók eins og leiðarvísi inn í framtíðina.

Fjárlagafrumvarp er rammpólitískt plagg, leiðarvísir stjórnvalda til næsta árs og ára.  En sé nú þegar búið að taka pólitíska ákvörðun um skerðingu náms á framhaldsskólastigi með tilheyrandi sparnaði í framhaldsskólunum er holur hljómur í marklausum yfirlýsingum um samráð og samtal við fagstéttirnar sem best og gleggst þekkja til.

 

Stjórn Félags framhaldsskólakennara hefur lýst sig reiðubúna til samstarfs um stefnumótun í menntamálum á grundvelli Hvítbókar.  Þau markmið sem eru sett fram í Hvítbók teljum við raunhæf en við höfum óskað eftir því að fá að koma að því að ákvarða leiðirnar sem við förum til að ná þeim markmiðum. Það liggur ekki fyrir hver skrifar Hvítbók.  Enginn ritstjóri fer fyrir verkinu.  Enginn úr fagstétt framhaldsskólakennara hefur verið spurður álits og þegar eftir því hefur verið spurt hafa svörin verið á þá leið að Hvítbók sé umræðugrundvöllur undir frekari stefnumótun í menntamálum á Íslandi.  Samráðið og samtalið sé framundan, við alla hlutaðeigandi.

 

Samt hefur teningunum þegar verið kastað með nýútkomnu fjárlagafrumvarpi.  Þar er talað um styttingu náms á framhaldsskólastigi og endurspegla rekstrartölur framhaldsskólanna áframhaldandi fjársvelti.  Einn sykurmoli bjargar ekki lífi sveltandi manns. Í fjárlögum er hvergi gert ráð fyrir fjármagni til stuðnings nemendum í brottfallshættu, nemendum með sértæka námserfiðleika og hvergi minnst á hærri framlög í námsráðgjöf. Verði ekki snúið af þessari leið í meðferð Alþingis á frumvarpinu er framundan áframhaldandi fjársvelti framhaldsskólanna og skerðing náms á framhaldsskólastigi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.5.2014 - 11:02 - Rita ummæli

Er þjóðarsátt um að halda niðri launum kennara?

Framhaldsskólakennarar gerðu kjarasamning á dögunum.  Þar var samið um leiðréttingu launa á grundvelli kjararannsókna sem sýna að framhaldsskólakennarar hafa dregist aftur úr öðrum stéttum m.t.t. launaþróunar.  Hvort heldur sem um er að ræða kaupmátt eða almenna launaþróun hafa framhaldsskólakennarar setið eftir í samanburði við aðrar starfsstéttir, bæði hjá hinu opinbera og ekki síður hinum almenna markaði.  Launaskrið er afar lítið hjá ríkisstarfsmönnum yfirleitt, við semjum um hámarkslaun upp á punkt og prik á meðan almenni markaðurinn semur um lágmarkslaun. Og launaskrið hjá framhaldsskólakennurum hefur ekkert verið undanfarin misseri þar sem framhaldsskólar landsins hafa verið svo fjársveltir að ekkert fjármagn hefur verið til ráðstöfunar inn í stofnanasamninga skólanna.

Og fram ti þessa hef ég setið á mér þegar á okkur framhaldsskólakennara er borið að hafa rofið þjóðarsátt um 2,8% launahækkun.  En þegar krafa flugmanna um nærri 30% launahækkun er réttlætt með því að elta þannig uppi laun framhaldsskólakennara fæ ég ekki orða bundist.

Það er grundvallar munur á launahækkun eða leiðréttingu launa starfsstéttar sem hefur mátt þola skerðingu á sínum kjörum umfram samanburðarhópa.

 

Og er það kannski málið?  Að til að halda virðingu sinni og starfsánægju þurfi flugmenn að viðhalda launaforskoti sínu á framhaldsskólakennara upp á tiltekna prósentu eða krónutölu?

 

Ef umræðan snýst um það hversu dýrt það er að læra til flugmanns, en þar hefur talan 15 milljónir verið nefnd, er ljóst að eitt stykki meistarpróf, kostar gott betur þegar tekið er tillit til tekjutaps vegna setu á skólabekk og námslána til framfærslu.

 

Ég óska flugmönnum alls hins besta og sjálfsagt eru þeir vel að hverri krónu sem þeir afla komnir.  En ég frábið mér að þurfa að horfa upp á hálaunastétt réttlæta launkröfur sínar og bera saman við leiðréttingu á kjarasamningi framhaldsskólakennara.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.3.2014 - 22:45 - Rita ummæli

Furðulegt háttarlag

Framhaldsskólakennarar ætla ekki að sætta sig við 2,8% tiboð ríkisins um launahækkun.  Menntamálaráðherra hefur sagt að laun ríkisstarfsmanna verði ekki hækkuð umfram laun á hinum almenna vinnumarkaði og með þeim orðum er hann að gefa í skyn að framhaldsskólakennarar vilji að óbreyttu hækka umfram aðrar stéttir í landinu.  Það er auðvitað gömul saga og ný að kennarar eru illa launaðir en okkur er vorkunn að vilja meira en aðrir í þessari lotu og fyrir því eru rök.

Í skýrslu heildarsamtaka vinnumarkaðarins sem kom út í október 2013 kemur skýrt fram að launaþróun framhaldsskólakennara frá 2006 hefur verið slakari en annara stétta og þarf því ekki að koma á óvart að kaupmáttarrýrnum framhaldsskólakennara er mest frá sama ári eða 6%.  Framhaldsskólakennarar hafa alla tíð borið laun sín saman við fagstéttir Bandalags háskólamanna og sýnir samanburður glögglega að nú munar 17% á okkur og kollegum okkar innan BHM.

Engin stétt hefur mátt þola aðra eins kjararýrnun frá árinu 2006 eins og framhaldsskólakennarar til viðbótar við sveltandi starfsumhverfi. Svo alvarlegur er fjárskorturinn í framhaldsskólunum að þrátt fyrir stækkandi hópa/bekkjarstærðir og skert námsframboð eiga margir framhaldsskólar ekki fyrir reikningum.

Og nú er nýjasta útspil Ríkisins að bjóða framhaldsskólakennurum hærri laun gegn því að samþykkja styttingu framhaldsskólans, ellegar verði ekki hvikað frá margumræddum 2,8%.  Það er ekkert smáræði sem á okkar herðar er lagt.  Við eigum semsagt að fjármagna eðlilega og löngu tímabæra launaleiðréttingu með því að slaka á faglegum kröfum til framhaldsskólans og fækka í starfsstéttinni.

Og menntamálaráðherra talar um að færa framhaldsskólann til nútímans sem þýðir þá að ráðherra finnst íslenskir framhaldsskólar gamaldags.  Þar er ég ósammála ráðherra og myndi gjarnan vilja fá tækifæri til þess að leiða hann og önnur skoðanasystkin hans í allan sannleika um það að á Íslandi eru reknir frábærir framhaldsskólar.  Og þeir eru nú þegar með þeim ódýrustu í OECD ríkjunum.  Hér er boðið upp á sveigjanlega framhaldsskóla þar sem nemendur geta lokið framhaldsskólaprófi á mismunandi tímum eða allt frá tveimur árum.

Ráðherra nefnir sem rök fyrir styttingu samanburð við önnur OECD ríki og vísar þar í meðaltöl.  Hann nefnir líka að stytting sé leið til að draga úr brottfalli.

Það er hreinlega grátleg einföldun á máli sem þarfnast svo miklu meiri skoðunar.  Hvað með þá staðreynd að hér er verknámi ekki gert nægilega hátt undir höfði?  Hvað með þá staðreynd að framhaldsskólapróf felur í sér gríðarlega fjölbreyttni í OECD ríkjunum og þá sérstaklega í verk- og tækninámi og sértæku námi hverskonar.  Hvað með avinnuþátttöku ungmenna og vinnumarkaðsumhverfi? Atvinnuleysi meðal ungs fólks er víða hátt inna OECD ríkjanna eða allt upp í 40% í aldurshópnum undir 29 ára og í samanburði við Ísland ævintýralega hátt.  Það þarf að taka tillit til þessara þátta og finna skýringar á því hvers vegna ungmenni tolla ekki betur í framhaldsskólanum.  Gæti það verið einsleitni í námsframboði að kenna og viðhorfi almennings til annarskonar sérhæfingar og verknáms?

Það geta allir verið sammála um það að það þarf að finna leiðir til þess að draga úr brottfalli og hækka hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskólaprófi.  En leiðin er ekki að minnka innihald námsins því þá gætum við bara stytt námstímann niður í eitt ár.  Þannig myndi hlutfall ungmenna sem ljúka framhaldsskólaprófi á réttum tíma hækka um tugi prósenta með einu pennastriki.  Það er auðvitað eins og að drekka saltvatn við þorsta.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.1.2014 - 09:51 - Rita ummæli

Nokkur orð um styttingu námstíma til stúdentsprófs

Sú umræða er að verða háværari í samfélaginu að námstími til stúdentsprófs á Íslandi sé of langur í samanburði við nágrannalönd okkar. Ýmsir álitsgjafar og fastapennar á ritvellinum hafa tekið undir vangaveltur menntamálaráðherra og rennir mig í grun að leikmenn sem ekki þekkja til innan framhaldsskólans séu að draga ályktanir út frá röngum forsendum.

Á Íslandi er skólaganga frá grunnskóla til stúdentsprófs 14 ár á meðan umrædd viðmið á Norðurlöndunum eru 13 ár. ann rennir í grun hvers vegna umræða um styttingu er hávær þessi síðustu misseri, hér er tækifæri til að spara í skólakerfinu sem nemur heildarskostnaði heils skólaárs. Það er þó heldur verra að umræðan um málið er á villigötum, mikilvæg gögn vantar og heildarsamhengi skortir. Þá hafa sumir jafnvel beint spjótum sínum að framhaldsskólakennurum og sagt kjarasamninga þeirra standa í vegi fyrir eðlilegri skólaþróun.

Í umræðunni er að íslenskt skólakerfi sé með því dýrasta í OECD ríkjunum, íslenskir kennarar verji minni tíma með nemendum sínum en kollegar þeirra í nágrannalöndum okkar, brottfall úr framhaldsskóla sé meira á Íslandi en í OECD ríkjunum að meðaltali og Ísland sé í hópi landa eins og Ítalíu, Grikklands og Tyrklands þegar kemur að því hversu stórt hlutfall nemenda lýkur framhaldsskólaprófi.

Skoðum málið nánar og höfum staðreyndir á hreinu. Efnahags og framfarastofnunin OECD gefur árlega út skýrslu um stöðu menntamála í aðildarríkjum stofnunarinnar. Þar má nálgast lykiltölur og samanburð um ýmsa þætti er varðar menntun á öllum skólastigum. Þar t.d. kemur fram að kostnaður við hvern framhaldsskólanemanda á Íslandi er 16% lægri en í OECD ríkjunum að meðaltali. Ekki bara það, kostnaður við framhaldsskóla er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum.

Íslenskir framhaldsskólakennarar kenna nokkurn veginn jafnmargar klukkustundir á ársgrundvelli og flestir kollegar þeirra á Norðurlöndunum og það er ástæða til þess að nefna sérstaklega að danskir framhaldsskólakennarar kenna 30% færri klukkustundir á ári en þeir íslensku. Það vekur auk þess athygli að frá aldamótum hafa kenndar stundir íslenskra framhaldsskólakennara á ársgrundvelli aukist um 17%.

Og árlegur starfstími framhaldsskóla er mismunandi eftir löndum. Á Íslandi eru 35 kennsluvikur á ári, á meðan þær eru t.d. 42 í Danmörku og á öllum Norðurlöndunum er skólaárið lengra en það er á Íslandi. Svona mætti halda lengi áfram og benda á mismunandi uppbyggingu framhaldsskólans í OECD ríkjunum.

En þá komum við að því sem skiptir ekki hvað síst máli en það er mismunandi menning innan þeirra landa sem við kjósum að bera okkur saman við. Atvinnuþátttaka framhaldsskólanema er nefnilega mjög mikil á Íslandi og skipta vinnandi hendur framhaldsskólanemenda verulegu máli í íslensku atvinnulífi yfir sumartímann. Á Íslandi flykkjast framhaldsskólanemendur á atvinnumarkaðinn á vorin og leysa af í hinum ýmsu störfum, svo ekki sé talað um sívaxandi ferðaþjónustu á Íslandi sem að hluta til er mönnuð af framhaldsskólanemendum yfir sumartímann.

Það er ekki eðlilegt að handpikka út einstaka þætti á hátíðis- og tyllidögum og benda á til samanburðar eigi það að styðja við fyrirfram ákveðna niðurstöðu eins og t.d. styttingu námstíma til stúdentsprófs. Einföld stytting úr fjórum árum í þrjú að öðru óbreyttu getur engan veginn átt sér stað án þess að skerða innihaldið. Stúdentspróf er nefnilega ekki bara undirbúningur fyrir háskólanám, það felur í sér undirbúning einstaklinga fyrir líf og starf í lýðræðissamfélagi og er þáttur í því að auka víðsýni og almenna þekkingu.

Með þessu greinarkorni er ég ekki að slá hugmyndir um styttingu námstíma til stúdentsprófs út af borðinu, ég er einfaldlega að benda á ef við ætlum að feta í spor frænda okkar, t.d. í Danmörku eins og oft hefur verið nefnt í umræðunni, verður að skoða uppbyggingu skólakerfisins í heild sinni. Ef við ætlum okkur að stytta námstíma til stúdentsprófs um eitt ár, verðum við einfaldlega að lengja skólaárið svo innihaldið skerðist ekki. Og það er engin smáræðs breyting.

Erum til tilbúin til þess að lengja skólaárið um 7 vikur á ári? Það er ekki einkamál kennara, nemenda, foreldra eða ráðherra, það er stór efnahagsleg aðgerð sem hefur áhrif á íslenskt hagkerfi og varðar samfélagið allt. Nemendur hafa þannig færri bjargir um fjármögnun framhaldsskólanámsins (sem kostar því miður allt of mikið á Íslandi) með íþyngjandi efnahagslegum áhrifum á íslensk heimili. Hverjir eiga þá að ganga í sumarstörfin ef framhaldsskólanemendur eru uppteknir á skólabekk út júní og ágúst?

Það er ekki mitt að svara þessum spurningum, það verðum við gera saman sem samfélag. Ég geri ekki ráð fyrir að framhaldsskólakennarar muni standa í vegi fyrir slíkum breytingum frekar en hver annar, en auðvitað mundi vikuleg kennsluskylda þeirra lækka samhliða lengingu skólaársins þar sem vinna þeirra myndi dreifast yfir lengri tíma. Þetta eru allt tæknilegar útfærslur og leysanlegar með samkomulagi.

Ég vil hins vegar benda á þá staðreynd að í íslenskum framhaldsskólum er veitt fyrirtaksþjónusta fyrir lítinn pening. Námstími til stúdentsprófs er sveigjanlegur í anda einstaklingsmiðaðrar nálgunar þar sem nemendur geta lokið stúdentsprófi á styttri eða lengri tíma, allt eftir getu og vilja hvers og eins. Framhaldsskólakennarar eru ekki dragbítar á skólaþróun með skýrt afmörkuðum kjarasamningum. Um allt má semja. En framhaldsskólakennarar munu aftur á móti standa vörð um gæði og innihald íslenska stúdentsprófsins af einurð og hörku. Framhaldsskólakennarar vita einfaldlega betur en sjálfskipaðir sérfræðingar í málefnum framhaldsskólans, því það að hafa setið á skólabekk gerir menn ekkert að sérfræðingum í skólamálum, frekar en sá sem hefur farið í uppskurð verður sérfræðingur í skurðlækningum.

Ég skora á ráðamenn og íslenskt samfélag að fjalla um þessi mál af yfirvegun og sanngirni, vanda til verka og það sem mestu skiptir að fara rétt með staðreyndir.

birt á vísi.is 14. janúar

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is