Fimmtudagur 5.10.2017 - 16:23 - Rita ummæli

Flokkur fólksins – flokkur án menntastefnu

Ég sagði hér í minni fyrri fæslu að ég ætlaði að rýna áherslur stjórnmálaflokkana í menntamálum. Í dag er það Flokkur fólksins. Ég mun ekki eyða miklu bleki í þá yfirferð – því Flokkur fólksins hefur enga menntastefnu. Núll – ekkert.

Undirstaða þeirra samfélaga þar sem lífsgæði eru hvað mest er öflugt menntakerfi. Reyndar er sterk fylgni á milli framlaga hins opinbera til menntamála og hagsældar. Velferðin dettur nefnilega ekki af himnum ofan. Það er sama til hvaða þátta samfélagsins er litið, allt grundvallast það á menntun.  Það þarf að hlúa að einstaklingnum í samfélaginu sem leggur því lið og eykur þannig landsframleiðslu. Litla barnið sem gengur menntavegin frá leikskóla og fram á fullorðinsár þarf aðhald umhyggju og stuðning. Skólakerfið þarf að mæta þörfum barnanna á þeirra forsendum. Hvernig tekst til skiptir svo miklu máli. Hvernig skólarnir búa að börnum og ungmennum hefur svo mikið að segja um framlög þeirra til samfélagsins á fullorðins árum. Baráttan gegn brottfalli úr námi hefst strax í leikskóla. Menntakerfið er keðja og verður aldrei sterkara en veikasti hlekkurinn. Við þurfum öfluga háskóla sem útskrifa sérfræðinga framtíðarinnar sem leggja sitt af mörkum að skapa þjóðinni auðlegð sem er undirstaða velferðar. Ég virði baráttu Flokks fólksins fyrir betri kjörum almennings. Ég get tekið undir hvert orð sem í annars örstuttri stefnu flokksins stendur en sé ekki fyrir mér að flokkur sé trúverðugur sem hefur ekkert fram að færa um menntamál.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.9.2017 - 21:03 - Rita ummæli

Stefna stjórnmálaflokkanna í málefnum framhaldsskólans

Alveg óvænt er blásið til kosninga réttu ári eftir þær síðustu. Ég er að rýna í stefnuskrá þeirra framboða sem buðu fram í síðustu kosningum og leggja mat á efndir þeirra loforða sem lagt var af stað með haustið 2016 og varða framhaldsskólastigið. Auðvitað er nærtækast að byrja á fráfarandi ríkisstjórnarflokkum, þeir hafa verið í stöðu síðustu mánuði til þess að koma stefnumálum sínum til framkvæmda. Það er auðvitað eðlilegt að byrja á Sjálfstæðisflokknum sem fékk úthlutað menntamálaráðuneytinu að venju.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Á síðasta kjörtímabili afrekaði Sjálfstæðisflokkurinn að skerða nám á framhaldsskólastigi með því að stytta námstíma til stúdentsprófs úr 4 árum í 3 og samhliða takmarka aðgengi eldri nemenda að framhaldsskólanum. Reyndar skal því haldið til haga að þáverandi menntamálaráðherra lofaði því að það fjármagn sem myndi sparast við aðgerðina yrði ekki tekið út úr framhaldsskólanum heldur nýtt í uppbygginu innviða en flestir vita að framhaldsskólar landisins hafa búið við langvarandi fjársvelti sem hefur bitnað illilega á starfi þeirra og þá fyrst og fremst nemendum. Í aðdraganda síðustu kosninga hafði Sjálfstæðisflokkurinn á stefnuskrá sinni aukna skilvirkni og að fjölga sjálfstætt starfandi skólum. Slíkt lesist sem aukin einkavæðing í menntakerfinu. Við það hefur flokkurinn staðið sem kristallaðist í fyrirhugaðri einkavæðingu Fjölbrautarskólans í Ármúla. Líklega réðu tæknileg mistök og leki innan úr menntamálaráðuneytinu því að fyrirhuguð einkavæðing spurðist út áður en blásið var til atlögu og náðu starfsmenn og velunnarar skólans með öflugum málflutningi og aðgerðum að koma í veg fyrir að málið næði fram að ganga .. í bili. Á í fjárlagafrumvarpi næsta árs var fátt um þær efndir að styrkja rekstur framhaldsskólanna því þar mátti sjá áframhaldandi sparnað og hagræðingu og nú með því að láta framhaldsskólann gjalda þess sem sparaðist við styttinguna.

Björt Framtíð:

Stefna Bjartar framtíðar fyrir síðustu kosningar var að styrkja rekstur framhaldsskóla landsins sem, eins og réttilega er bent á í stefnu flokksins „hafa búið við mjög þröngan kost undanfarin ár og eru raunar komnir að þolmörkum eftir viðvarandi niðurskurð. Staða skólanna margra hverra er orðin grafalvarleg og grípa þarf til aðgerða strax enda hlutfall útgjalda ríkisins til framhaldsskólastigsins undri meðaltali OECD ríkjanna“  Og flokkurinn var rétt farin koma sér fyrir við ríkisstjórnarborðið þegar hann kvittaði upp á fjárlög næsta árs með áframhaldandi niðurskurði í framhaldsskólanum. Hvergi er að sjá í þeirri áætlun sem og ríkisfjármálaáætlun til ársins 2021 að það eigi að bæta rekstur framhaldsskólanna. Á áætlun næstu fjögurra ára er gert ráð fyrir frekari hagræðingu og nákvæmlega ekki krónu ætlað að styrkja rekstur framhaldsskólanna, hvað þá að færa rekstur þeirra nær OECD ríkjunum eins og Björt framtíð lofaði fyrir síðustu kosningar.

Viðreisn:

Það verður að segjast eins og er að stefna Viðreisnar í málefnum leik, grunn og framhaldsskóla var lítt skiljanleg fyrir síðustu kosningar. Í stefnu flokksins er talað um samþættingu skólastiga frá leikskóla til framhaldsskóla og að stefnt skuli að sveigjanleika í starfsemi menntastofnana með sveigjanlegum námshraða.

Það er eins og fulltrúar Viðreisnar hafi ekki áttað sig á því að með setningu nýrra menntalaga árið 2008 var einmitt sett heimild til aukins sveigjanleika  milli skólastiga og nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu að slíkt næði fram að ganga. Sú sem fór fyrir menntamálum þegar þau lög vor samþykkt á Alþingi er einmitt ein af oddvitum Viðreisnar eins skrítið og það er nú. Og nýju menntalögin sem voru sett árið 2008 voru unnin í nokkru samstarfi við samtök sérfræðinga í menntamálum m.a. Kennarasamband Íslands. Í núverandi lög er miðað við sveigjanleika á milli skólastiga og nemendur hafa möguleika á að ljúka grunnskóla fyrr og menntaskóla hraðar en meðal nemendur. Að sama skapi er mikilvægt að þeir nemendur sem þess þurfa hafi lengri tíma til þess að ná tökum á náminu og útskrifast seinna en meðal nemandinn.

Það fara ekki alltaf saman orð og efndir eins og ég hef rakið hér fyrir ofan. Í næsta pistli mínum mun ég rýna stefnu þeirra flokka sem sátu í minnihluta þetta kjörtímabil og hvernig þeir hafa hagað málflutningi sínum á Alþingi tengdum málefnum framhaldsskólans.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.8.2017 - 13:56 - Rita ummæli

Starfsaðstæður kennara

 

Það er margt athyglisvert við þær sláandi niðurstöður að of mikið álag í starfi kennara valdi kulnun og vaxandi langtíma veikindum meðal stéttarinnar. Af háskólamenntuðum einstaklingum sem leita þjónustu Virk starfsendurhæfingar eru langflestir kennarar.

Og við nánari skoðun kemur í ljós að alvarlegust er staðan meðal leikskólakennara. Þeir eru langstærsti hópur kennara sem hrökklast úr starfi vegna álags eða lenda í langtímaveikindum. Næstir þar á eftir eru grunnskólakennarar og þá framhaldsskólakennarar.

Og hvað veldur? Það hefur komið fram að mikið álag í starfi, óviðunandi vinnuaðstæður og lítill stuðningur meðal yfirstjórnar séu helstu orsakavaldar langtímaveikinda og kulnunar í starfi. Skortur á sveigjanleika hefur líka verið nefndur og vaxandi álag vegna sífellt aukinna verkefna.

Rannsóknir sýna að það er beint samband milli álags og sveigjanleika í starfi. Aukin sveigjanleiki virðist draga úr streituvöldum í starfi. Það er gömul saga og ný að leikskólakennarar hafa allt of lítið svigrúm innan dagvinnumarka til þess að skipuleggja kennslu í leikskólum. Á þeirra herðum hvílir skipulagning á faglegu starfi í leikskólanum, stjórnun og mannaforráð og hafa þeir ekki haft nægilegt ráðrúm innan vinnutímarammans til þess að sinna því starfi. Oftlega eru þetta því verkefni sem bætast við daglega kennslu í skólunum.

Sótt hefur verið að grunnskólakennurum með kröfum um viðveru, alls kyns teymisfundir og önnur viðbótar verkefni hafa bæst við aðrar kennsluskyldur á undanförnum árum.
Framhaldsskólakennarar hafa í sífellt meira mæli sinnt umsjón með ólögráða nemendum, samskipti við foreldra og stuðningsnet nemenda fer vaxandi, allt tekur þetta tíma frá kennslunni og undirbúningi hennar.
Það er óumdeilt að það þarf að bæta starfsaðstæður kennara á öllum skólastigum. Það þarf að veita kennurum nægjanlegt rými innan dagvinnumarka til að sinna þeim ótal kennslutengdu verkefnum sem þeir sinna og gefa þeim rými til að sinna skyldum sínum. Það þarf að auka sveigjanleika í starfi kennara á öllum skólastigum samhliða því að gera laun þeirra samkeppnishæf.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.8.2017 - 12:26 - Rita ummæli

Meira um einkarekstur í grunnskólunum.

Í seinni fréttum RUV í gær er viðtal við Kristján Ómar Björnsson stofnanda grunnskólans NÚ og formann Samtaka sjálfstæðra skóla. Hanns segir engan kennaraskort við skólann. Jafnframt kemur fram í fréttinni að í flestum sjálfstætt starfandi skólum séu greidd hærri laun.

 

Á heimasíðu NÚ kemur fram að námsgjöld eru 15.900 kr á mánuði í 10 mánuði á ári.  Við skólann virðast starfa tveir kennarar og einn leiðbeinandi.  Semsagt þriðjungur þeirra sem starfa í kennslu eru leiðbeinendur.

Það þarf ekki að hafa frekari orð um þetta, það skýrir sig sjálft.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.8.2017 - 15:02 - Rita ummæli

Eiga einkaskólar og umbun að fjölga kennurum

Eiga einkaskólar og umbun að fjölga kennurum?

Formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vill fjölga einkareknum grunnskólum landsins til að draga úr kennaraskorti. Hún vill umbuna kennurum fyrir vel unnin störf og búa þannig til hvatningu og auka fjölbreytni í menntakerfinu. Hún vill breyta kjarasamningum kennara og auka þar ákvæði um hvatningu til þeirra sem gera vel/betur.

Það er tvennt sem ég hef við þetta að athuga.

Annars vegar vil ég benda á að fjármagn dettur ekki af himnum ofan þótt svo menntastofnanir séu færðar í einkarekstur. Sama krónan er notuð til að reka skóla hvort sem þeir eru í opinberum rekstri eða ekki. Það er ekkert ódýrara að reka einkaskóla og við má bæta að illa reknum einkaskóla er hvort eð er reddað af hinu opinbera ef reksturinn kemst í þrot. Við höfum dæmi um slíkt, bæði á leik- og grunnskólastiginu.

Í dag eru leik- og grunnskólar vanfjármagnaðir af sveitarfélögunum. Þannig hafa þeir verið lengi og laun kennara langt undir sambærilegum hópum háskólamenntaðra starfsmanna í opinbera geiranum. Einkaframtakinu munu ekki falla til aukakrónur til að hækka laun kennara bara sí svona. Menntun er ekki „bisness“ og má aldrei verða.

Í öðru lagi vara ég eindregið við því að byggja inn einhverskonar hvatakerfi í kjarasamninga kennara, slíkt felur í sér að sumir kennarar fá meira borgað en aðrir á grundvelli frammistöðu, því eins og áður er sama krónan bara notuð einu sinni.

Og hvernig ætlum við að meta frammistöðu kennara? Á grundvelli einkunna? Á grundvelli líðanar nemenda? Fjölda nemenda? Og hvernig eigum við að meta þetta með tilliti til þess að nemendur eru alls konar og mismunandi og þurfa mismikinn tíma og þolinmæði kennarans? Eiga kennarar að kaupa sér vinsældir nemenda til þess að „jólabónusinn“ skili sér í hús?

Þetta er hættuleg hugmynd – álíka hættuleg og ef það ætti að byggja inn hvatakerfi fyrir lækna. Eiga læknar að fá greitt fyrir fjölda aðgerða sem þeir ná að ljúka á degi hverjum? Eða á að lækka þá í launum ef tiltekinn fjöldi sjúklinga fær sýkingu í kjölfar aðgerðar? Það var brugðist við læknaskorti vorið 2015 með því að hækka laun lækna myndarlega. Það virkaði. Auðvitað hafa starfsaðstæður mikið að segja en reynslan hefur sýnt að það eru launin sem hafa allt að segja um það hvernig gengur að manna stöður.

Það má svo sannarlega endurskoða kjarasamninga kennara, losa upp vinnuskylduna og auka frelsi kennara til að ráðstafa vinnutíma sínum. Það þarf að meta það aukna álag sem núverandi menntastefna felur í sér fyrir kennara, það þarf að meta þann gríðarlega tíma sem fer í samskipti við heimili, nemendur og stuðningsnet nemenda inn í grunnskólanum, allt meira og minna verk sem hefur verið bætt við vinnu kennara á undanförnum árum. Og fyrst og síðast þarf að hækka laun kennara og gera þau samkeppnishæf, það er fyrst og síðast það sem kemur raunverulega í veg fyrir að menntakerfinu blæði út.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.5.2017 - 14:46 - Rita ummæli

Alvarleg tíðindi af kennurum

Virk starfsendurhæfingarsjóður birti í febrúar 2017 skýrslu um hvernig væri hægt að draga úr nýgengi örorku.

Hlutfallslega fleiri kennarar leita til Virk en aðrir háskólamenntaðir hópar. Fleiri kennarar glíma við kvíða, andlegt álag og vefjagigt en nokkur annar háskólamenntaður hópur. Reyndar eru kennarar og starfsfólk menntastofnana áberandi stór hluti af þeim sem leita eftir starfsendurhæfingu hjá Virk.

Ástæður þessa má meðal annars helst rekja til aukins álags í starfi kennarans, skort á stuðningi og þeirri upplifun að komast ekki yfir þau verkefni sem til er ætlast. Slíkt veldur streitu og hættu á kulnun í starfi.
Fréttatíminn greindi frá því í september 2016 að veikindi grunn- og leikskólakennara hjá Reykjavíkurborg hafi stóraukist frá árinu 2012. Mikil aukning hafi verið á bæði skamm- og langtímaveikindum stéttarinnar. Þannig hafi 37% aukning orðið á langtímaveikindum kennara frá árinu 2012.

Það eru grafalvarleg tíðindi þegar staðreyndir sýna að kulnun í starfi er mest meðal kennara. Álag á kennara í starfi er staðreynd og mest er álagið við kennslu yngri barna í leik- og grunnskóla.

Í dag þykir fínt í nútíma mannauðsstjórnun að bjóða starfsfólki upp á aukinn sveigjanleika í starfi, möguleika á að vinna heima og þannig samþætta vinnu og fjölskyldulíf sem dregur úr álagi og streitu. Rannsóknir sýna að þeir sem búa við sveigjanleika á vinnustað skila meiri afköstum og eru ánægðari í starfi.

Og á sama tíma og sveigjanleiki er aukinn á vinnumarkaði almennt hefur verið vaxandi tilhneiging til að niðurnjörva vinnutíma kennara. Forysta sveitarfélaganna sækist í að hafa sem mest forræði á vinnu kennara með þeim afleiðingum að vinnudagurinn dugar kennaranum ekki til að klára verkefni dagsins og undirbúa næsta dag.

Leikskólakennarar fá ekki þann nauðsynlega sveigjanleika í starfi til þess að undirbúa og skipuleggja kennslu í leikskólanum. Þeim er skammtaður of lítill tími til faglegs undirbúnings. Grunnskólakennarar þurfa sífellt að takast á við fleiri og fleiri verkefni. Í sumum tilfellum taka alls kyns teymisfundir, samskipti við heimili og aðrar skyldur utan kennslunnar allan tíma kennarans og lítið sem ekkert er eftir innan dagvinnumarka til að undirbúa kennslu næsta dags. Hægt og bítandi hefur verkefnum fjölgað án þess að nokkuð tillit sé tekið til þess innan vinnuramma kennara.

Í framhaldsskólanum hefur líka verið vaxandi tilhneiging til þess að setja fleiri verkefni á herðar kennara án þess að taka tillit til þess tíma sem þau taka. Framhaldsskólakennarar hafa sjálfir forræði yfir sínum vinnutíma að hluta og geta þá valið hvenær þeir undirbúa kennslu eða sinna námsmati. En til viðbótar við kennsluna og störf tengd henni færist nú í vöxt sérstök umsjón með ólögráða nemendum, aukin samskipti við heimili og teymisvinna tengd einstaka nemendum eða verkefnum.

Það vekur hins vegar athygli að streita og kulnun í starfi er heldur minni meðal framhaldsskólakennara sem gæti verið vísbending þess að enn sem komið er sé miðstýring starfsins minni.

Kennsla er á margan hátt lík starfi leikarans. Þú ert að koma fram fyrir framan aðra og gagnrýnendur eru kröfuharðir. Nemendur kvarta ef kennarinn á slæman dag og hann er hiklaust púaður niður ef illa gengur. Ekkert frekar en leikarinn getur staðið á sviði oft á dag svo árum skiptir er hægt að leggja of mikla kennslu á herðar kennarans án þess að eitthvað láti undan.

Það er alveg ljóst að það þarf að vinda ofan af of miklu álagi í starfi kennara. Ábyrgð samningsaðila er mikil því það eru gríðarlega miklar fjárhæðir í húfi að koma í veg fyrir langtímaveikindi kennara svo ekki sé talað um örorku vegna kulnunar í starfi. Við óhóflegu álagi í kennarastéttinni verður að bregðast við samningaborðið og semja um meiri sveigjanleika og afmarka vandlega þau verkefni sem rúmast innan dagvinnumarka kennarans.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.2.2017 - 13:21 - Rita ummæli

Kennaraskortur – ókeypis ráð til stjórnvalda

Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að grípa til aðgerða vegna yfirvofandi kennaraskorts. Lítil aðsókn er í kennaranám og útskrifaðir kennarar skila sér ekki í kennslu. Það má skipa starfshópa hægri vinstri … en það er nú með kennara eins og lækna, með því að hækka laun og bæta starfsaðstæður verður hægt að gera starfið aðlaðandi og auka aðsókn.  Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.10.2016 - 13:27 - Rita ummæli

Í tilefni kvennafrídagsins – hugleiðingar miðaldra konu

Ég er hugsi yfir mörgu sem tengist jafnréttisbaráttunni, umræðunni henni tengdri og stöðunni í dag. Ég er hugsi yfir því að ég held að við sem yngri erum höfum tekið við keflinu af mæðrum okkar og hlaupið hægar í þessu boðhlaupi en þær. Dætur okkar mögulega eru sumar hverjar værukærar – kannski telja þær þetta baráttu fortíðarinnar en ekki framtíðarinnar og kannski er okkur sjálfum að einhverju leyti um að kenna.

Á sama tíma erum við samt að sjá hörku töffara meðal kvenna sem skora yfirlýst gildi samfélagsins á hólm. Free the nipple framtakið og druslugangan, þær segja feðraveldinu að fokka sér.

Þær hafa staðið vaktina þegar við hinar sofum, eða dottum eða gleymum okkur … í svo ótalmörgu sé ég mikilvægi fyrirmyndanna og mikilvægi þess að vera stöðugt meðvituð um þessi inngrónu gildi í samfélaginu að karlinn skaffi meðan konan sinnir heimilinu.

Vel klæddur karl á lúxusjeppa – er pottþétt í góðri stöðu. Vel klædd kona á lúxusjeppa er pottþétt gift einhverjum í góðri stöðu.

Og það er fleira en bara launamunurinn sem er óþolandi. Það er óþolandi að karlar séu ekki jafn lengi í fæðingarorlofi og konur og það er óþolandi að það skuli ekki vera sjálfsagt að karlar minnki við sig vinnu vegna barna og heimilis það er óþolandi að karlar vinni frekar yfirvinnu og þar með að karlar standi uppi með betri lífeyrisréttindi að lokinni starfsævi en konur.

Það er óþolandi að samfélagið hafi meira umburðarlyndi fyrir allskonar sem karlar gera. Konum er frekar ætlað að axla ábyrgð gjörða sinna þótt jafnvel karl í sambærilegri stöðu sé stikk. Við höfum séð konur svældar út af Alþingi fyrir sömu sakir og karlar sem sátu sem fastast enda tók samfélagið á þeim með silkihönskum. Konur eru valdagráðugar, karlar hafa metnað. Konur eru frekjur, karlar eru ákveðnir.

Við megum enn þola hrútskýringar og fordóma miðaldra karla sem telja sig allt vita og kunna, þeir eru aldir upp í því, ekkert endilega af mömmu og pabba heldur af gildum samfélagsins. Ungfrú Ísland stóð loksins með sjálfri sér. Konur verða að standa með sjálfum sér og spyrja sig í öllu sem þær gera hvort staðalímyndir karlasamfélagsins ráði för. Konur verða að spyrja sig stöðugt hvort orð þeirra og athafnir séu innan eða utan ramma karlasamfélagsins og þær eiga að gera athugasemdir við það ef orð og athafnir annarra falla undir gamaldags staðalímyndir.

Ég er ekki að nenna því að bíða í 50 ár með að fá sömu laun og karlar. Spítum í lófana meðal annars með því að breyta viðmiðum samfélagsins og svo ótal margt stórt og smátt fellur þar undir. Við sjálfar, feður, bræður og synir verðum að gera þetta saman og samhliða þarf að styrkja kynjakvóta og skapalon um launajöfnun. Við verðum að fokka upp þessu feðraveldi af meiri krafti svo konur geti orðið flugþjónar á flatbotna skóm.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.10.2016 - 10:03 - Rita ummæli

Af launamálum opinberra starfsmanna og afskiptum ASÍ

Forseti ASÍ hefur látið hafa eftir sér að þegar forystufólk opinberu stéttarfélaganna féll frá vilyrði sínu um breytingar á lögum um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, hafi það falið í sér samningsbrot. Það má skilja á orðum hans þegar hann telur ríkið geta vísað málinu til úrskurðar félagsdóms.

Samkomulagið átti að ramma inn breytingar á umræddum lögum og þar vóg þyngst í okkar huga að tryggja óbreytt réttindi núverandi sjóðsfélaga. Það er auðvitað ekki boðlegt ef það á að breyta leikreglunum aftur í tímann. Lífeyrisréttindi í núverandi mynd eru eitthvað sem við opinberir starfsmenn höfum getað gengið að alla okkar starfsævi og taki kerfið breytingum getur það bara náð til framtíðar sjóðsfélaga líkt og síðast þegar grundvallarbreytingar voru gerðar á kerfinu árið 1996.

Hafi þetta verið samningsbrot þá væri samkomulagið ígildi kjarasamnings. Það getur auðvitað ekki verið því annars hefði, skv lögum þeirra stéttarfélaga sem að samkomulaginu stóðu þurft að bera það undir atkvæði félagsmanna.

Eftir stendur sú staðreynd að það er skynsamlegt til framtíðar að jafna kerfin. Það þarf að gera kerfið sjálfbært um það er ekki deilt. Lífeyristökualdur þarf að hækka í samræmi við hækkaða meðalævi. En það mun ekki verða gert í samkomulagi við opinbera starfsmenn nema réttindi núverandi sjóðsfélaga séu tryggð. Það hlýtur hver að sjá það sjálfur að við getum ekki kvittað upp á skerðingu okkar réttinda á sama tíma og lífeyrisréttindi á almennum markaði aukast.

Þetta mál þarf að vinna að loknum kosningum. Það þarf að vinna í sátt við þá sem hagsmuni hafa af málinu. Nýtt samningslíkan á að tryggja jöfnun launa á milli markaða og tryggja opinberum starfsmönnum launaskriðsbætur til jafns við almenna markaðinn.  Það er jafnframt skynsamlegt að halda launaþróun innan marka þess sem samfélagið þolir án þess að allt brenni upp í verðbólgu.  Kennarasamband Íslands og Bandalag háskólamanna treystu sér ekki til að taka þátt í því samningslíkani m.a. vegna þess að launasetning þessara hópa er óásættanleg innan þess ramma og laun þessara hópa þarf að hækka. Það er ekki gæfuleg byrjun og ekki til að hrífa okkur með í Salek vegferðina ef ASÍ ætlar að leggja stein í götu okkar opinberra starfsmanna í hvert sinn sem við náum árangri í samningaviðræðum eða stöndum á rétti okkar.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.7.2016 - 09:53 - Rita ummæli

Ekki er allt sem sýnist

Skýrslur Heildarsamtaka vinnumarkaðarins (SALEK) fjalla um launaþróun á vinnumarkaði frá árinu 2006. Í þriðju skýrslu SALEK hópsins ( Í kjölfar kjarasamninga) sem kom út nú nýverið kemur fram að laun framhaldsskólakennara hafi hækkað mest allra hópa á íslenskum vinnumarkaði, en frá árinu 2006 hafa regluleg laun framhaldsskólakennara hækkað um 85,9% á meðan laun heildarsafns allra aðila vinnumarkaðarins hafa hækkað um 78,6%.

Það er rétt að framhaldsskólakennarar náðu nokkrum árangri í síðustu kjarasamningum í kjölfar verkfalls og mjög erfiðra skipulagsbreytinga á vinnutímaramma. Mikilvægt er að hafa í huga að skýrslur SALEK-hópsins setja allar grunnlínur við árið 2006 burtséð frá því hvernig launaröðun mismunandi hópa er háttað. Skoðuð er launaþróun frá því ári og launavísitala allra hópa sett við 100 á árinu 2006, óháð reglulegum dagvinnulaunum. Hvernig laun einstakra hópa hafa þróast á 10 ára tímabili segir ekkert um hvernig launin standa í sambanburði við aðra hópa í dag. Sé sanngirni gætt þarf að líta lengra aftur en til ársins 2006 til þess að setja launaþróun framhaldsskólakennara í rétt samhengi.

Eðlilega bera framhaldsskólakennarar sig saman í launum við hópa ríkisstarfsmanna með sambærilega menntun og þá helst aðildarfélög BHM. Framhaldsskólakennarar hafa sömu menntun og aðrir háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn innan BHM í hinum ýmsu greinum til viðbótar við kennaramenntun sína. Það er því eðlilegt að laun framhaldsskólakennara séu að minnsta kosti á pari við félagsmenn í BHM. Langt aftur fyrir árið 2006 hafa framhaldsskólakennarar ekki staðið félögum sínum í BHM jafnfætis í launasetningu. Launaskrið er jafnframt ekkert innan þeirra raða, það þýðir lítið fyrir framhaldskólakennarann að biðja um launahækkun umfram miðlæga samninga – svo ekki sé nú talað um óunna yfirvinnu og annað sem hefur verið notað til að vega upp laun starfsmanna hjá hinu opinbera.

Séu laun framhaldsskólakennara sett í rétt samhengi miðað við daginn í dag er veruleikinn sá að í nóvember 2015 voru regluleg meðallaun fullvinnandi launamanna KÍ ríki enn tæpum 2% lægri en hjá félögum í BHM. Þetta þýðir að enn verða framhaldsskólakennarar að sækja á því betur má ef duga skal.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is