Föstudagur 3.11.2017 - 11:33 - Rita ummæli

Leik – grunn – og tónlistarskóli í nýjum stjórnarsáttmála

Allir flokkarnir sem buðu fram í aðdraganda nýafstaðinna kosninga til Alþingis voru sammála því að það þyrfti að styrkja menntakerfið og voru öll skólastig nefnd í því sambandi.

Nú þegar Katrín Jakobsdóttir leiðir stjórnarmyndunarviðræður flokka sem töluðu sérstaklega fyrir menntamálum við ég minna á eftirfarandi:

Sveitarfélögin í landinu reka leik- grunn- og tónlistarskóla. Verulega skortir á að kjör og starfsaðstæður þessara kennarahópa séu viðundandi.

Álag á kennara er óhóflegt og sýna gögn að kulnun í starfi og langtímaveikindi eru mest meðal kennara borið saman við aðrar háskólamenntaðar stéttir. Mestur er vandinn meðal leikskólakennara. Börn á leikskólum eru of mörg í hverju rými og of fáir kennarar starfa innan leikskólanna.

Kjarasamningar grunnskólakennara eru nú lausir og losna samningar tónlistarskólakennara næsta vor. Það liggur fyrir að ekki mun nást sátt um kjör þeirra og starfsaðstæður nema talsverð viðbót verði lögð til rekstrarins. Þá er ljóst að bættar aðstæður kennara og barna á leikskólum þolir enga bið.

Nú þegar ný ríkisstjórn er mögulega í fæðingu vil ég beina orðum mínum til þeirra sem skrifa nú nýjan stjórnarsáttmála.
Það er lykilatriði og hreinlega nauðsynlegt ef einhver sátt á að skapast um íslenskan vinnumarkað að sveitarfélögum í landinu verði gert kleyft að bæta kjör og starfsaðstæður kennara. Til þess verða þau að fá stuðning Alþingis til að rýmka tekjustofna sína.

Sveitarfélögunum er sniðinn þröngur stakkur þar sem Alþingi setur ramma um heimildir þeirra til að afla sér tekna. Framundan eru kjarasamningar við alla starfandi kennara sveitarfélaganna og eigi að skapast sátt um þá samninga þurfa sveitarfélögin að leggja meira fjármagn í rekstur leik- grunn- og tónlistarskóla.

Nú verður ný ríkisstjórn að standa við fyrirheit um stórsókn í menntamálum. Til þess að svo megi verða má ekki gleyma hlut sveitarfélaganna í menntakerfi landsins og verður Alþingi að tryggja sveitarfélögunum í landinu auknar heimildir til að afla sér tekna. Þar er brýnt að tryggja sveitarfélögum hlut í fjármagnstekjuskatti og veita þeim heimildir til að hækka útsvar. Það vil ég meðal annars sjá í nýjum stjórnarsáttmála.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.10.2017 - 22:27 - Lokað fyrir ummæli

Af launamálum kennara og annara opinberra starfsmanna

Það fór ekki hátt samkomulag BHM við samtök atvinnulífsins. Þar var skrifað undir samkomulag um allskonar réttindi þeirra félagsmanna BHM sem vinna fyrir almenna markaðinn.

 
„Kjarasamningur aðildarfélaga BHM og SA er ólíkur ýmsum öðrum kjarasamningum að því leyti að í honum er ekki samið um laun fyrir einstök störf eða starfsmenn. Launakjör eru hins vegar ákvörðuð í ráðningarsamningi milli vinnuveitanda og viðkomandi háskólamanns, og getur starfsmaður óskað árlega eftir viðtali við sinn yfirmann um breytingar á starfskjörum“

 
Þetta er auðvitað hið besta mál og fagna ég öllum kjara og réttindabótum launþega á atvinnumarkaði, sama hvert stéttarfélagið er og sama hver vinnuveitandinn er.

 
En það sem er eftirtektarvert við þetta samkomulag er hins vegar sú staðreynd að þegar samið er á almennum markaði má binda í samninga ýmis miðlæg réttindi er varðar orlof, veikindarétt, uppsagnarákvæði og fleira, en launaliðurinn er samkomulag hvers og eins við vinnuveitanda.

 
Með þessu almenna samkomulagi Bandalags háskólamanna blasir við sá aðstöðumunur sem er milli opinberra starfsmanna og launþega á almennum markaði.

 
Á almennum markaði fer minna fyrir miðlægri launasetningu og taxtar hafa ekkert gildi nema fyrir fáa. Laun eru allskonar og einhvernvegin og ráðast ekkert endilega af menntun og fyrri störfum.

 
Raunveruleiki opinberra starfsmanna er allt annar. Kjarasamningar opinberra starfsmanna ráða launasetningu þeirra og er lítið sem ekkert svigrúm til hækkana umfram lágsmarkstaxta.

 
Nú liggur fyrir að stórar stéttir opinberra starfsmanna eru alvarlega undirlaunaðar. Það er þess vegna sem Kennarasamband Íslands stóð ekki að rammasamkomulagi um launaþróun sem flestir aðilar hins almenna og opinbera markaðar skrifuðu undir haustið 2016.
Það er heilmikil skynsemi í því að setja ramma um launaþróun, ramma sem miðast við framleiðslugetu og hagvöxt samfélagsins á hverjum tíma.

 
En slíkur rammi mun aldrei halda ef stórir hópar háskólamenntaðra stétta eru innan hans kolrangt launasettir. Það er glórulaust að ætla að slíkur rammi haldi ef það á að raða td. kennurum, með 5 ára háskólamenntun að baki í neðstu sætin. Kennarasamband Íslands er til í að skoða það að taka far með SALEK vagninum ef okkur er úthlutað sæti á réttum stað. Það sæti þarf að vera miklu ofar en okkur var ætlað.

 
Nú hefur heilmikið verið rætt um menntamál og kjör kennara í yfirstandandi kosningabaráttu. Það er ágætis byrjun. En þeir flokkar sem taka við keflinu verða að skilja að forsenda þess að ná sátt á vinnumarkaði verður bætt launasetning opinberra starfsmanna og það verður þeirra að tjónka við ASÍ og standa með okkur sem fáum engu ráðið um okkar kjör umfram þau lágmörk sem samið er um í miðlægum kjarasamningi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.10.2017 - 11:50 - Rita ummæli

Áfram stelpur

Dagur kvenna er 24. október. Þennan dag árið 1975 lögðu konur niður störf og kom þá skýrt og greinilega í ljós að hlutur kvenna á vinnumarkaði var af þeirri stærðargráðu að þegar þær viku af sínum venjulega stað í einn dag lamaðist atvinnulíf landsmanna.

Þegar litið er til baka þessi rúmlega 40 ár hefur sem betur fer gríðarlega margt unnist í baráttu okkar fyrir jafnrétti kynjanna á öllum sviðum. Ömmur okkar og mömmur ruddu leiðina fyrir okkur sem yngri erum – það voru konurnar sem skoruðu samfélagið á hólm og fóru þetta á hnefanum.

Við kennarar tilheyrum kvennastétt. Rúmlega 80% okkar félagsmanna í KÍ eru konur. Meðal leikskólakennara er hlutfall kvenna hæst eða 96% og tæp 60% meðal framhaldsskólakennara og hefur farið vaxandi síðustu áratugi. Það er eins og karlar velji sér síður kennslu sem ævistarf en konur. Það hefur gengið betur að fjölga konum innan hefðbundinna karlastétta en fjölga körlum í kvennastéttum. Það gæti auðvitað átt sér margar orsakir en karlar sækja síður í lægra launuð störf og því miður eru kvennastéttirnar, umönnunarstéttirnar, enn sem komið er metnar lægra til launa. Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt með öllu og einnig að öll mótunarár barna og ungmenna séu það aðallega konur sem koma að kennslu þeirra og þar með félagsmótun.

Og jafnrétti er ekki bara í orði, það verður líka að vera á borði. Það er ekki bara sömu laun fyrir sömu vinnu, það er miklu meira en það. Jafnrétti er líka glíman við staðalímyndir og viðhorf, eða norm samfélagsins.

Jafnréttisbaráttan á sér svo ótal marga anga, suma erum við minna meðvituð um en aðra. Vakningin #metoo, #höfumhátt, #freethenipple er sprottin frá róttækum ungum konum sem skora gamaldags gildi á hólm. Því það er meira en að segja það að slíta sig lausa frá þeim gildum sem manni eru innrætt frá blautu barnsbeini. Og þegar einhver hefur stigið fram og haft hátt, er það einhvern veginn svo augljóst hvað er rétt og hvað er rangt.

Í dag ætla ég að minnast allra þeirra frábæru karla sem hafa lagt okkur stelpunum lið og sem hafa tekið slagina með okkur. Þeim fer fjölgandi sem betur fer enda er þetta þeirra barátta líka.

En í dag tala ég til kvenna í kennarastéttinni. Af því það er dagurinn okkar í dag. Í dag heiðra ég minningu allra þeirra kvenna, lífs og liðinna, sem ruddu veginn fyrir okkur hinar. Í dag skulum við líka minnast þess að það eru við sem höldum á keflinu og það er okkar að koma dætrum okkar í mark.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.10.2017 - 17:35 - Rita ummæli

Hvernig búum við að börnum okkar?

Algengi þunglyndis meðal unglinga hefur aukist mikið síðustu ár. Íslenskar stúlkur á aldrinum 15 til 24 ára taka ríflega fjórum sinnum meira af þunglyndislyfjum en jafnaldrar þeirra í Danmörku. Sjálfsmorðstíðni drengja á aldrinum 10 til 19 ára er hvergi hærri á Norðurlöndunum en á Íslandi. Enginn hópur tekur eins mikið af ADHD-lyfjum og íslenskir drengir á aldrinum 10 til 14 ára.

Íslendingar slá líka öll met í notkun róandi lyfja og svefnlyfja og taka Íslendingar inn fimm sinnum meira af slíkum lyfjum en Danir.

Og það er þrefalt algengara að börn á leikskólaaldri fái tauga- og geðlyf en hinum norðurlöndunum.

Það er eitthvað að!

Það eru einhverjir samfélagslegir þættir sem velda þessum alvarlega vanda sem börn og ungmenni glíma við í dag. Það þarf auðvitað að leita orsakanna en nærtækast er að líta til þeirra aðstæðna sem börnin alast upp við.

Nemendur í leikskóla eru í allt of litlum rýmum. Börnin eru einfaldlega of mörg miðað við það rými sem þeim er ætlað. Það er heldur ekkert óalgengt að börn séu í leikskóla á milli 8 og 9 klukkustundir á dag. Yngstu nemendurnir í leikskólanum hafa þannig lengsta viðveru á hverjum degi og lengstan árlegan skólatíma af öllum OECD löndunum. Þetta hafa stjórnendur í leikskólum bent á í mörg ár en nú þegar við horfum á þessar hrópandi staðreyndir er ljóst að aðgerða er þörf.

Og skammtímasjónarmið ráða því miður allt of oft för. Fjárfesting í sterku menntakerfi er svo mikill sparnaður til framtíðar. Við þurfum að búa betur að börnunum okkar m.a. draga úr álagi vegna hávaða og stytta skóladaginn. Við þurfum að fækka börnum á hverri leikskóladeild og við eigum að efla stuðningsnet barna og ungmenna í grunn og framhaldsskólum. Efla náms og starfsráðgjöf og ekki síður tryggja félagslegan stuðning og sálfræðiráðgjöf á öllum skólastigum. Baráttan gegn brottfalli úr framhaldsskóla byrjar í leikskólanum. Þar má byrja að skima fyrir nemendum í brottfallshættu á seinni skólastigum.

Við þurfum að stytta vinnuvikuna og um leið vinnuviku allra barna og ungmenna. Við þurfum að fjölga samverustundunum heima við, allar rannsóknir sýna að styttri vinnuvika leiðir til meiri framlegðar í vinnu og bætir líðan allra.

Og þótt það kosti auðvitað að byggja fleiri leikskólabyggingar, fjölga menntuðum kennurum og fjölga sérfræðingum í stuðningsneti skólanna er það fjárfesting til framtíðar, álag á heilbrigðiskerfið mun til lengri tíma minnka, og sterkari heilbrigðari einstaklingar leggja meira til samfélagsins.

Þetta er ekki flókið sko.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.10.2017 - 11:58 - Rita ummæli

Lögbindum leikskólann

Það eru ekki allir sem átta sig á því að leikskóli er ekki lögbundið verkefni sveitarfélaganna. Það eru í sjálfu sér engar lagalegar hindranir gegn því að sveitarfélög hreinlega loki fyrsta skólastiginu. Sem betur fer dytti ekki nokkrum slík firra í hug en þrátt fyrir allt er mikilvægt að binda í lög skylduna til að reka fyrsta skólastigið. Það er mér til efs að allir frambjóðendur til Alþingis átti sig á þessu.

Þetta er prinsippmál og þetta er sjálfsagt mál – skólaganga barnanna okkar hefst í leikskóla. Hann er fyrsta skólastigið. Allar rannsóknir sýna að það skiptir máli hvernig við búum að börnunum fyrstu skólaárin, það hefur áhrif á velgengni þeirra síðar. Í leikskóla getum við t.d. byrjað að vinna gegn brottfalli úr námi á seinni skólastigum.

Það á auðvitað að vera bundin í lög sú skylda sveitarfélaganna að reka leikskóla. Og það þarf að tryggja sveitarfélögunum næga  tekjustofna til þess að reka skólana svo sómi sé af.

Hversu lengi ætlar samfélagið að láta fyrsta skólastigið vera olnbogabarn í menntakerfinu? Hvenær mun samfélagið átta sig á því hversu gríðarlega mikilvægt er að búa vel að börnum og kennurum í leikskólanum?

Í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur Kennarasamband Íslands ákveðið að bjóða til opins fundar um menntamál miðvikudaginn 18. október kl 16:30 í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Ég vænti þess að framboðin hafi svör á reiðum höndum. En þeim hefur verið boðin þátttaka í fundinum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.10.2017 - 16:23 - Rita ummæli

Flokkur fólksins – flokkur án menntastefnu

Ég sagði hér í minni fyrri fæslu að ég ætlaði að rýna áherslur stjórnmálaflokkana í menntamálum. Í dag er það Flokkur fólksins. Ég mun ekki eyða miklu bleki í þá yfirferð – því Flokkur fólksins hefur enga menntastefnu. Núll – ekkert.

Undirstaða þeirra samfélaga þar sem lífsgæði eru hvað mest er öflugt menntakerfi. Reyndar er sterk fylgni á milli framlaga hins opinbera til menntamála og hagsældar. Velferðin dettur nefnilega ekki af himnum ofan. Það er sama til hvaða þátta samfélagsins er litið, allt grundvallast það á menntun.  Það þarf að hlúa að einstaklingnum í samfélaginu sem leggur því lið og eykur þannig landsframleiðslu. Litla barnið sem gengur menntavegin frá leikskóla og fram á fullorðinsár þarf aðhald umhyggju og stuðning. Skólakerfið þarf að mæta þörfum barnanna á þeirra forsendum. Hvernig tekst til skiptir svo miklu máli. Hvernig skólarnir búa að börnum og ungmennum hefur svo mikið að segja um framlög þeirra til samfélagsins á fullorðins árum. Baráttan gegn brottfalli úr námi hefst strax í leikskóla. Menntakerfið er keðja og verður aldrei sterkara en veikasti hlekkurinn. Við þurfum öfluga háskóla sem útskrifa sérfræðinga framtíðarinnar sem leggja sitt af mörkum að skapa þjóðinni auðlegð sem er undirstaða velferðar. Ég virði baráttu Flokks fólksins fyrir betri kjörum almennings. Ég get tekið undir hvert orð sem í annars örstuttri stefnu flokksins stendur en sé ekki fyrir mér að flokkur sé trúverðugur sem hefur ekkert fram að færa um menntamál.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.9.2017 - 21:03 - Rita ummæli

Stefna stjórnmálaflokkanna í málefnum framhaldsskólans

Alveg óvænt er blásið til kosninga réttu ári eftir þær síðustu. Ég er að rýna í stefnuskrá þeirra framboða sem buðu fram í síðustu kosningum og leggja mat á efndir þeirra loforða sem lagt var af stað með haustið 2016 og varða framhaldsskólastigið. Auðvitað er nærtækast að byrja á fráfarandi ríkisstjórnarflokkum, þeir hafa verið í stöðu síðustu mánuði til þess að koma stefnumálum sínum til framkvæmda. Það er auðvitað eðlilegt að byrja á Sjálfstæðisflokknum sem fékk úthlutað menntamálaráðuneytinu að venju.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Á síðasta kjörtímabili afrekaði Sjálfstæðisflokkurinn að skerða nám á framhaldsskólastigi með því að stytta námstíma til stúdentsprófs úr 4 árum í 3 og samhliða takmarka aðgengi eldri nemenda að framhaldsskólanum. Reyndar skal því haldið til haga að þáverandi menntamálaráðherra lofaði því að það fjármagn sem myndi sparast við aðgerðina yrði ekki tekið út úr framhaldsskólanum heldur nýtt í uppbygginu innviða en flestir vita að framhaldsskólar landisins hafa búið við langvarandi fjársvelti sem hefur bitnað illilega á starfi þeirra og þá fyrst og fremst nemendum. Í aðdraganda síðustu kosninga hafði Sjálfstæðisflokkurinn á stefnuskrá sinni aukna skilvirkni og að fjölga sjálfstætt starfandi skólum. Slíkt lesist sem aukin einkavæðing í menntakerfinu. Við það hefur flokkurinn staðið sem kristallaðist í fyrirhugaðri einkavæðingu Fjölbrautarskólans í Ármúla. Líklega réðu tæknileg mistök og leki innan úr menntamálaráðuneytinu því að fyrirhuguð einkavæðing spurðist út áður en blásið var til atlögu og náðu starfsmenn og velunnarar skólans með öflugum málflutningi og aðgerðum að koma í veg fyrir að málið næði fram að ganga .. í bili. Á í fjárlagafrumvarpi næsta árs var fátt um þær efndir að styrkja rekstur framhaldsskólanna því þar mátti sjá áframhaldandi sparnað og hagræðingu og nú með því að láta framhaldsskólann gjalda þess sem sparaðist við styttinguna.

Björt Framtíð:

Stefna Bjartar framtíðar fyrir síðustu kosningar var að styrkja rekstur framhaldsskóla landsins sem, eins og réttilega er bent á í stefnu flokksins „hafa búið við mjög þröngan kost undanfarin ár og eru raunar komnir að þolmörkum eftir viðvarandi niðurskurð. Staða skólanna margra hverra er orðin grafalvarleg og grípa þarf til aðgerða strax enda hlutfall útgjalda ríkisins til framhaldsskólastigsins undri meðaltali OECD ríkjanna“  Og flokkurinn var rétt farin koma sér fyrir við ríkisstjórnarborðið þegar hann kvittaði upp á fjárlög næsta árs með áframhaldandi niðurskurði í framhaldsskólanum. Hvergi er að sjá í þeirri áætlun sem og ríkisfjármálaáætlun til ársins 2021 að það eigi að bæta rekstur framhaldsskólanna. Á áætlun næstu fjögurra ára er gert ráð fyrir frekari hagræðingu og nákvæmlega ekki krónu ætlað að styrkja rekstur framhaldsskólanna, hvað þá að færa rekstur þeirra nær OECD ríkjunum eins og Björt framtíð lofaði fyrir síðustu kosningar.

Viðreisn:

Það verður að segjast eins og er að stefna Viðreisnar í málefnum leik, grunn og framhaldsskóla var lítt skiljanleg fyrir síðustu kosningar. Í stefnu flokksins er talað um samþættingu skólastiga frá leikskóla til framhaldsskóla og að stefnt skuli að sveigjanleika í starfsemi menntastofnana með sveigjanlegum námshraða.

Það er eins og fulltrúar Viðreisnar hafi ekki áttað sig á því að með setningu nýrra menntalaga árið 2008 var einmitt sett heimild til aukins sveigjanleika  milli skólastiga og nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu að slíkt næði fram að ganga. Sú sem fór fyrir menntamálum þegar þau lög vor samþykkt á Alþingi er einmitt ein af oddvitum Viðreisnar eins skrítið og það er nú. Og nýju menntalögin sem voru sett árið 2008 voru unnin í nokkru samstarfi við samtök sérfræðinga í menntamálum m.a. Kennarasamband Íslands. Í núverandi lög er miðað við sveigjanleika á milli skólastiga og nemendur hafa möguleika á að ljúka grunnskóla fyrr og menntaskóla hraðar en meðal nemendur. Að sama skapi er mikilvægt að þeir nemendur sem þess þurfa hafi lengri tíma til þess að ná tökum á náminu og útskrifast seinna en meðal nemandinn.

Það fara ekki alltaf saman orð og efndir eins og ég hef rakið hér fyrir ofan. Í næsta pistli mínum mun ég rýna stefnu þeirra flokka sem sátu í minnihluta þetta kjörtímabil og hvernig þeir hafa hagað málflutningi sínum á Alþingi tengdum málefnum framhaldsskólans.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.8.2017 - 13:56 - Rita ummæli

Starfsaðstæður kennara

 

Það er margt athyglisvert við þær sláandi niðurstöður að of mikið álag í starfi kennara valdi kulnun og vaxandi langtíma veikindum meðal stéttarinnar. Af háskólamenntuðum einstaklingum sem leita þjónustu Virk starfsendurhæfingar eru langflestir kennarar.

Og við nánari skoðun kemur í ljós að alvarlegust er staðan meðal leikskólakennara. Þeir eru langstærsti hópur kennara sem hrökklast úr starfi vegna álags eða lenda í langtímaveikindum. Næstir þar á eftir eru grunnskólakennarar og þá framhaldsskólakennarar.

Og hvað veldur? Það hefur komið fram að mikið álag í starfi, óviðunandi vinnuaðstæður og lítill stuðningur meðal yfirstjórnar séu helstu orsakavaldar langtímaveikinda og kulnunar í starfi. Skortur á sveigjanleika hefur líka verið nefndur og vaxandi álag vegna sífellt aukinna verkefna.

Rannsóknir sýna að það er beint samband milli álags og sveigjanleika í starfi. Aukin sveigjanleiki virðist draga úr streituvöldum í starfi. Það er gömul saga og ný að leikskólakennarar hafa allt of lítið svigrúm innan dagvinnumarka til þess að skipuleggja kennslu í leikskólum. Á þeirra herðum hvílir skipulagning á faglegu starfi í leikskólanum, stjórnun og mannaforráð og hafa þeir ekki haft nægilegt ráðrúm innan vinnutímarammans til þess að sinna því starfi. Oftlega eru þetta því verkefni sem bætast við daglega kennslu í skólunum.

Sótt hefur verið að grunnskólakennurum með kröfum um viðveru, alls kyns teymisfundir og önnur viðbótar verkefni hafa bæst við aðrar kennsluskyldur á undanförnum árum.
Framhaldsskólakennarar hafa í sífellt meira mæli sinnt umsjón með ólögráða nemendum, samskipti við foreldra og stuðningsnet nemenda fer vaxandi, allt tekur þetta tíma frá kennslunni og undirbúningi hennar.
Það er óumdeilt að það þarf að bæta starfsaðstæður kennara á öllum skólastigum. Það þarf að veita kennurum nægjanlegt rými innan dagvinnumarka til að sinna þeim ótal kennslutengdu verkefnum sem þeir sinna og gefa þeim rými til að sinna skyldum sínum. Það þarf að auka sveigjanleika í starfi kennara á öllum skólastigum samhliða því að gera laun þeirra samkeppnishæf.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.8.2017 - 12:26 - Rita ummæli

Meira um einkarekstur í grunnskólunum.

Í seinni fréttum RUV í gær er viðtal við Kristján Ómar Björnsson stofnanda grunnskólans NÚ og formann Samtaka sjálfstæðra skóla. Hanns segir engan kennaraskort við skólann. Jafnframt kemur fram í fréttinni að í flestum sjálfstætt starfandi skólum séu greidd hærri laun.

 

Á heimasíðu NÚ kemur fram að námsgjöld eru 15.900 kr á mánuði í 10 mánuði á ári.  Við skólann virðast starfa tveir kennarar og einn leiðbeinandi.  Semsagt þriðjungur þeirra sem starfa í kennslu eru leiðbeinendur.

Það þarf ekki að hafa frekari orð um þetta, það skýrir sig sjálft.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.8.2017 - 15:02 - Rita ummæli

Eiga einkaskólar og umbun að fjölga kennurum

Eiga einkaskólar og umbun að fjölga kennurum?

Formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vill fjölga einkareknum grunnskólum landsins til að draga úr kennaraskorti. Hún vill umbuna kennurum fyrir vel unnin störf og búa þannig til hvatningu og auka fjölbreytni í menntakerfinu. Hún vill breyta kjarasamningum kennara og auka þar ákvæði um hvatningu til þeirra sem gera vel/betur.

Það er tvennt sem ég hef við þetta að athuga.

Annars vegar vil ég benda á að fjármagn dettur ekki af himnum ofan þótt svo menntastofnanir séu færðar í einkarekstur. Sama krónan er notuð til að reka skóla hvort sem þeir eru í opinberum rekstri eða ekki. Það er ekkert ódýrara að reka einkaskóla og við má bæta að illa reknum einkaskóla er hvort eð er reddað af hinu opinbera ef reksturinn kemst í þrot. Við höfum dæmi um slíkt, bæði á leik- og grunnskólastiginu.

Í dag eru leik- og grunnskólar vanfjármagnaðir af sveitarfélögunum. Þannig hafa þeir verið lengi og laun kennara langt undir sambærilegum hópum háskólamenntaðra starfsmanna í opinbera geiranum. Einkaframtakinu munu ekki falla til aukakrónur til að hækka laun kennara bara sí svona. Menntun er ekki „bisness“ og má aldrei verða.

Í öðru lagi vara ég eindregið við því að byggja inn einhverskonar hvatakerfi í kjarasamninga kennara, slíkt felur í sér að sumir kennarar fá meira borgað en aðrir á grundvelli frammistöðu, því eins og áður er sama krónan bara notuð einu sinni.

Og hvernig ætlum við að meta frammistöðu kennara? Á grundvelli einkunna? Á grundvelli líðanar nemenda? Fjölda nemenda? Og hvernig eigum við að meta þetta með tilliti til þess að nemendur eru alls konar og mismunandi og þurfa mismikinn tíma og þolinmæði kennarans? Eiga kennarar að kaupa sér vinsældir nemenda til þess að „jólabónusinn“ skili sér í hús?

Þetta er hættuleg hugmynd – álíka hættuleg og ef það ætti að byggja inn hvatakerfi fyrir lækna. Eiga læknar að fá greitt fyrir fjölda aðgerða sem þeir ná að ljúka á degi hverjum? Eða á að lækka þá í launum ef tiltekinn fjöldi sjúklinga fær sýkingu í kjölfar aðgerðar? Það var brugðist við læknaskorti vorið 2015 með því að hækka laun lækna myndarlega. Það virkaði. Auðvitað hafa starfsaðstæður mikið að segja en reynslan hefur sýnt að það eru launin sem hafa allt að segja um það hvernig gengur að manna stöður.

Það má svo sannarlega endurskoða kjarasamninga kennara, losa upp vinnuskylduna og auka frelsi kennara til að ráðstafa vinnutíma sínum. Það þarf að meta það aukna álag sem núverandi menntastefna felur í sér fyrir kennara, það þarf að meta þann gríðarlega tíma sem fer í samskipti við heimili, nemendur og stuðningsnet nemenda inn í grunnskólanum, allt meira og minna verk sem hefur verið bætt við vinnu kennara á undanförnum árum. Og fyrst og síðast þarf að hækka laun kennara og gera þau samkeppnishæf, það er fyrst og síðast það sem kemur raunverulega í veg fyrir að menntakerfinu blæði út.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is