Mánudagur 16.04.2018 - 11:47 - Rita ummæli

Hvernig hefur ’99 árgangnum gengið í námi?

Rúv hefur nú tekið til umfjöllunar áhrif styttingar námstíma til stúdentsprófs og í því sambandi var ég í heillöngu viðtali í gær um málið. Eins og venja er klippti fréttakona úr samtalinu þau atriði sem hún helst vildi koma á framfæri þann tíma sem henni var skammtaður í fréttatímanum.

http://www.ruv.is/frett/okkar-vidvaranir-virdast-hafa-att-rett-a-ser

Þetta er áhugavert efni og ályktaði Kennarasamband Íslands um málið á nýafstöðnu þingi samtakanna.

Nú er fyrsti heili árgangurinn að útskrifast úr 3ja ára kerfinu eftir að öllum skólum var gert að stytta námstíma í framhaldsskólum haustið 2015. Ég reyndar benti á það í viðtalinu (var því miður klippt út) að Kvennaskólinn og fleiri skólar hafi verið með styttri námstíma lengur. Við Kvennaskólann var m.a. gert stérstakt samkomulag um útfærsluna á sínum tíma og ólíkt almennu aðgerðinni haustið 2015 var málið unnið í samráði við Kennarasambandið og kennara skólans.

En það er samt sem áður sérlega áhugavert að skoða nú 1999 árganginn og hvernig honum reiðir af í frekara námi. Þar erum við með þverskurð nemenda á breiðari forsendum en afmarkaðan hóp nemenda eldri 3ja ára skóla eins og Kvennó.  Við gætum aldrei útilokað þá breytu að nemendasamsetning Kvennaskólans væri ekki  lýsandi fyrir þýðið í heild sinni. En nú þegar allur árgangurinn hefur nú farið í gegnum nýtt kerfi ætti sá hópur að endurspegla heildina marktækt.

Hvert hefur brottfall þessa árgangs verið?

Hvernig reiðir þessum einstaklingum af í frekara námi?

Er það mælanleg staðreynd að þau hafi frekar sett til hliðar íþróttaiðkun eða tónlistarnám vegna álags í reglulegu námi?

 

Kennarasamband Íslands hefur skorað á mennta- og menningarmálaráðherra að láta fara fram óháða heildarúttekt á styttingu námstíma til stúdentsprófs og reynist það raunin að nemendum reiðir verr af í nýju kerfi verður að taka málið til endurskoðunar í heild sinni.

 

Flokkar: Óflokkað

«

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is