Fimmtudagur 11.01.2018 - 09:52 - Rita ummæli

Skipun dómara – hvað má gera betur?

Það má læra mikið af nýlegum skipunum dómara.  Fyrst og síðast hlýtur að vera augljóst að lögunum þarf að breyta. Skipun dómara VERÐUR að vera hafin yfir allan vafa.

Eins og lögin eru í dag, ber dómsmálaráðherra að skipa dómara skv. tilmælum hæfisnefndar.  Fylgi ráðherra mati hæfisnefndar ber honum ekki að leita samþykkis Alþingis. Þannig eru lögin.

 

En EF dómsmálaráðherra ákveður að ganga gegn tillögum hæfisnefndar, verður ráðherra að leggja slíka ráðstöfun fyrir Alþingi sem hefur síðasta orðið. Líklega er hér um varnagla að ræða til að tryggja að dómsmálaráðherra geti ekki skipað dómara af eigin geðþótta án málefnalegra sjónarmiða.

En … …

Dómstólasýslan skipar þrjá menn í nefnd um dómarastörf, einn tilnefndan af dómarafélagi Íslands, annan frá lagadeild íslensks háskóla og þann þriðja án tilnefningar.  Það er réttmæt gagnrýni í mínum huga að þarna sé ákveðin „kreðsa“ að velja í stéttina. Það hefur sýnt sig að mat nefndarinnar er sko alls ekki yfir gagnrýni hafið.  Það er ekki gott.

Það er heldur ekki gott ef dómsmálaráðherra gengur gegn mati nefndarinnar og skipar aðra en nefndin telur hæfasta. Hver svo sem rökin eru fyrir slíku vekur það tortryggni ef Alþingi samþykkir svo slíka ráðstöfun samkvæmt pólitískum línum meirihlutans í þinginu.

Nú höfum við fordæmi fyrir þessu. Dómsmálaráðherra sem gekk gegn áliti hæfisnefndar og lagði breyttar tillögur fyrir Alþingi. Samþykkið fékk ráðherra frá Alþingi þar sem þingmenn samstarfsflokkanna í ríkisstjórn lögðu henni lið.

Ekkert af þessu er gott.  Það er einfaldlega fráleitt að setja dómsmálaráðherra í slíka stöðu. Það er líka fráleitt að skipan dómara fylgi pólitískum línum Alþingis.  Það er líka vont ef ein stétt í landinu hefur allt að segja um það hverjir eru skipaðir dómarar.

Eins og staðan er núna er aðskilnaður framkvæmdavalds og dómsvalds ekki tryggður. En sá aðskilnaður er einn af hornsteinum lýðræðisins.

Það væri skynsamlegt að endurskoða lög um skipan dómara. Fjölga einstaklingum í matsnefndinni og kalla til liðs aðra en lögfræðinga og dómara. Þar gætu t.d. átt sæti tilteknir aðilar úr forystu íslensks samfélags. T.d. forseti ASÍ, Tveir þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu, Umboðsmaður Alþingis, bara svona til að nefna eitthvað. Niðurstaða hæfisnefndar sem er skipuð einstaklingum með breiðan bakgrunn og þekkingu sem skilar samdóma áliti til dómsmálaráðherra hlýtur að njóta meira trausts í samfélaginu. Alþingi ætti svo alltaf að fjalla um niðurstöðuna án sérstakrar aðkomu dómsmálaráðherra.

 

_____________________________________

Ég var í mjög áhugaverðu spjalli á Sprengisandi síðasta sunnudag 7. janúar. Sirrý Hallgrímsdóttir og Smári McCarthy sátu með mér þar sem við fórum yfir fréttir síðustu viku.

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP59958

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP59959

 

Þessi pistill fæddist í kjölfarið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is