Fimmtudagur 28.12.2017 - 15:02 - Rita ummæli

Biskupinn og íslenska þjóðkirkjan

Ég er ein tæplega 240 þúsund íslendinga sem er skráð í Þjóðkirkjuna. Til viðbótar eru þúsundir aðrir íslendingar sem tilheyra öðrum kristnum samfélögum. Við erum því sannarlega kristin þjóð, að minnsta kosti á blaði.

Við fjölskyldan eigum okkar barnatrú, við leitum til guðs þegar á móti blæs því þá er gott að eiga bakland í æðri mætti.

En þótt við eigum þetta góða samband við guð almáttugan get ég nú ekki sagt að ég sé kirkjurækin. Börnin voru skírð og fermd en utan einstaka brúðkaups og jarðafara mætum við almennt ekki í kirkju.

Þó brá svo við að um þessi jól fórum við tvisvar í messu í kirkjunni okkar, Lindakirkju.

Jólamessan kl 18 á aðfangadag var með hefðbundnu sniði og á annan í jólum mættum við í sveitamessu sem var sannkölluð veisla fyrir hug og hjarta. Þarna sátum við í andakt og hlustuðum á fallega tónlist, hugljúfa hugvekju prestanna okkar og sátum ögn nærri almættinu með hugsunum okkar. Einhvernvegin voru þessar stundir til þess að við fundum það fallega í sálinni, við fundum auðmýktina og þakklætið sem stundum gleymist í öllum látum hversdagsins.

Prestunum okkar í Lindakirkju hefur nefnilega tekist með eindæmum vel að færa kirkjustarfið til unga fólksins, með Óskar Einarsson og kór Lindakirkju sér til stuðnings. Popptónlist miðalda hefur vikið til hliðar fyrir nútímatónum og léttari tónlist sem höfðar frekar til yngra fólks. Og prestarnir okkar í Lindakirkju sinna starfi sínu af alúð, umhyggju og auðmýkt.

Og um allt land er magnað starf í gangi á vegum kirkjunnar þar sem prestarnir leggja sig fram um að laða fólk að kirkjunni, já hreinlega lokka okkur hálfheiðingjana í messu. Stuðningur við syrgjendur, fólk sem glímir við veikindi, erfiðleika og fátækt er mikilvægt hlutverk presta.

En það er svo dapurlegt að allt þetta góða starf gleymist þegar við fáum fréttir af biskipi sem þiggur milljón í dagpeninga fyrir að skrifa eitthvað tveggja blaðsíðna umburðabréf í útlöndum. Biskup sem telur ljótt að “stela gögnum” til að afhjúpa sannleikann. Biskup sem kvartar yfir lélegum launum og biskup sem kvartar yfir því oki sem á hana er lagt að borga 90.000 kr mánaðarleigu fyrir tæplega 500 fm hús á besta stað í miðbænum.

Því miður fækkar í þjóðkirkjunni þegar biskupinn yfir Íslandi hefur upp raust sína.

Árið 2013 var Agnes Sigurðardóttir gagnrýnd harkalega fyrir skort á stuðningi við baráttu hinsegin fólks. Frekar en næra það ófriðarbál með því að tjá mig opinberlega sendi ég henni tölvupóst með hugleiðingum mínum um framgöngu hennar og orðræðu. Minn guð er nefnilega fordómalaus og faðmur míns guðs er öllum opinn.
Agnes sá sér ekki fært að svara annars málefnalegum og réttmætum hugleiðingum mínum og ég var nær því en nokkruntíma að segja mig líka úr þjóðkirkjunni.

Það er svo mikilvægt fyrir kirkju sem á undir högg að sækja að forysta hennar sé hafin yfir allan vafa. Að ásýnd æðsta embættismanns guðs í þessu landi sé auðmýkt og fordómaleysi. Það má vel vera að biskup sé að vinna gott starf innan kirkjunnar sem fer hljótt. En út á við eru það þessi orð og verk sem móta skoðun samfélagsins á embættinu og kirkjunni.

Agnes segir sjálf að hún hafi ekki verið að fá jólabónus og kauphækkun fyrir þessi jól, heldur embættið. En embætti biskups yfir Íslandi verður aldrei stærra en sá einstaklingur sem embættinu sinnir. Og hvers vegna situr Agnes í embætti biskups? Vonandi vegna þess að hún telur kirkjuna betur setta en ekki með hana í embætti. En er umdeildur biskup það besta fyrir þjóðkirkjuna?  Kannski væri rétt af Agnesi að stíga til hliðar og fela öðrum að sinna þessu starfi, leyfa kirkjunni að njóta vafans og byggja að nýju upp traust og trú samfélagsins á þjóðkirkjuna. Það er allavega tilefni fyrir Agnesi að hugleiða núna hvernig hún vinnur kirkjunni okkar mest og best gagn. Með því að vera eða fara? Þar er efinn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is