Miðvikudagur 06.12.2017 - 20:26 - Rita ummæli

Dylgjur verðandi formanns KÍ – viðbót

.

Í aðdraganda þess að nýr formaður Kennarasambands Íslands var kosin mátti undirrituð þola frádæma skítkast og óhróður frá stuðningsmönnum nýkjörins verðandi formanns. Ég kaus að láta dylgjum og lygum ósvarað en vann þess í stað að framboði mínu á mínum forsendum, kynnti fyrir félagsmönnum sjálfa mig, áherslur mínar og talaði aldrei til mótframbjóðenda minna. Það hefði líklega ekki þótt smekklegt ef ég hefði farið að ræða gamla ásökun á hendur Ragnari um að misbjóða nemanda sínum enda hafði maðurinn farið mikinn í fjölmiðlum á sínum tíma að bera af sér sakir sem hann sagðist ekki hafa hugmynd um hverjar voru og taldi fullvíst að illa innrættur óvildarmaður bæri sökina.

Ég tapaði, varð fúl í einn dag en svo heldur lífið áfram. Nú aftur á móti berast mér upplýsingar um að á lokuðum spjallvefjum kennara séu þessir sömu aðilar enn við sama heygarðshornið. En núna á það að vera undan mínum rifjum runnið að ungur maður sakar verðandi formann KÍ um misnotkun. Ungur maður sem ég þekki ekki neitt, steig fram og sagði sögu sína. Og nú er því haldið fram af þessum sömu aðilum að slíkt hafi verið gert í þeim tilgangi að hafa áhrif á kosningu varaformanns sem stendur nú yfir en þessir sömu aðilar halda uppteknum hætti og ætla að koma Ásthildi Lóu Þórsdóttur stuðningsmanns og bandamanns Ragnars í sæti varaformanns við hlið hans.

Ég er nú búin að bíta í tunguna á mér undanfarna daga vitandi það að allt sem ég segi verður lesið í ljósi þess að ég tapaði fyrir Ragnari Þór. En það er ekki hægt að sitja undir þessu rugli lengur. Ragnar Þór og hans helstu stuðningsmenn reyna að klína þessu ömurlega máli á mig og stjórn KÍ.

Í pistli sínum frá 4. Desember segir hann því ósatt í málsvörn sinni.

https://stundin.is/blogg/maurildi/formannsstaan-i-ki/

A) Ragnar tjáir sig fyrst um þetta mál 14. Október þegar fyrrverandi starfsmaður Norðlingaskóla kemur fram í tengslum við metoo byltingu á Facebook. Þar kom í fyrsta sinn fram að á sínum tíma var ekki um nafnlausa ábendingu að ræða heldur kæru til lögreglu. Ragnar Þór lýsti yfir framboði sínu 2. Október. Svo það er ekki rétt sem Ragnar fullyrðir að hann hafi sett þetta allt upp á borð í upphafi síns framboðs.

B) Ragnar Þór tilkynnti aldrei stjórn KÍ um þetta mál þegar það kom upp á sínum tíma árið 2013. Hvorki til formanns KÍ eða stjórnar. Ekkert var fjallað um þetta mál á stjórnarfundum KÍ – það er ekki flóknara en fletta upp fundargerðum til að sjá það.

C) Þannig að þegar Ragnar fullyrðir að þetta mál hafi legið á borðinu í þeirri mynd sem það er í dag er það ósatt.

Ragnar talar um að hann hafi verið “hrottalega heiðarlegur” já það er líklega satt því kannski er óheiðarleikinn einmitt hrottalegur heiðarleiki. Ragnar Þór hikaði alla vega ekki við að bera á mig dylgjur og ósannindi.

Ég bið þá kennara sem þetta lesa að deila þessu á spjallþræði kennara af öllum skólastigum, okkur í stjórn KÍ er nefnilega meinaður aðgangur að flestum þeim síðum og okkur þar með ekki gefin kostur á að bera af okkur sakir.

 

Viðbót vegna viðbragða Ragnar þórs Péturssonar 8. desember:

https://stundin.is/blogg/maurildi/i-tilefni-af-fullyringum-guriar-arnardottir-formanns-ff/

Eins og kemur fram í bréfinu sem Ragnar birtir er það stimplað trúnaðarmál og beint til Félags Grunnskólakennara. Þar með auðvitað er innihald þess undir trúnaði og var ekki lagt fram í stjórn KÍ. Formaður FG fór hins vegar yfir beiðni um fjárstuðning á fundi stjórnar KÍ 17. október 2014 sem var efni bréfsins. Það var því enginn í stjórn KÍ sem var upplýstur um innihald bréfsins umfram það sem hafði verið fjallað um í fjölmiðlum af Ragnari sjálfum. Ragnari er auðvitað kunnugt um að erindum sem er beint til tiltekins aðildarfélags undir trúnaði er ekki vísað annað, hvorki til stjórnar eða annara aðildarfélaga. Svo annað hvort talar hann gegn betri vitund eða af vanþekkingu um uppbyggingu Kennarasambands Íslands.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is