Fimmtudagur 26.10.2017 - 22:27 - Lokað fyrir ummæli

Af launamálum kennara og annara opinberra starfsmanna

Það fór ekki hátt samkomulag BHM við samtök atvinnulífsins. Þar var skrifað undir samkomulag um allskonar réttindi þeirra félagsmanna BHM sem vinna fyrir almenna markaðinn.

 
„Kjarasamningur aðildarfélaga BHM og SA er ólíkur ýmsum öðrum kjarasamningum að því leyti að í honum er ekki samið um laun fyrir einstök störf eða starfsmenn. Launakjör eru hins vegar ákvörðuð í ráðningarsamningi milli vinnuveitanda og viðkomandi háskólamanns, og getur starfsmaður óskað árlega eftir viðtali við sinn yfirmann um breytingar á starfskjörum“

 
Þetta er auðvitað hið besta mál og fagna ég öllum kjara og réttindabótum launþega á atvinnumarkaði, sama hvert stéttarfélagið er og sama hver vinnuveitandinn er.

 
En það sem er eftirtektarvert við þetta samkomulag er hins vegar sú staðreynd að þegar samið er á almennum markaði má binda í samninga ýmis miðlæg réttindi er varðar orlof, veikindarétt, uppsagnarákvæði og fleira, en launaliðurinn er samkomulag hvers og eins við vinnuveitanda.

 
Með þessu almenna samkomulagi Bandalags háskólamanna blasir við sá aðstöðumunur sem er milli opinberra starfsmanna og launþega á almennum markaði.

 
Á almennum markaði fer minna fyrir miðlægri launasetningu og taxtar hafa ekkert gildi nema fyrir fáa. Laun eru allskonar og einhvernvegin og ráðast ekkert endilega af menntun og fyrri störfum.

 
Raunveruleiki opinberra starfsmanna er allt annar. Kjarasamningar opinberra starfsmanna ráða launasetningu þeirra og er lítið sem ekkert svigrúm til hækkana umfram lágsmarkstaxta.

 
Nú liggur fyrir að stórar stéttir opinberra starfsmanna eru alvarlega undirlaunaðar. Það er þess vegna sem Kennarasamband Íslands stóð ekki að rammasamkomulagi um launaþróun sem flestir aðilar hins almenna og opinbera markaðar skrifuðu undir haustið 2016.
Það er heilmikil skynsemi í því að setja ramma um launaþróun, ramma sem miðast við framleiðslugetu og hagvöxt samfélagsins á hverjum tíma.

 
En slíkur rammi mun aldrei halda ef stórir hópar háskólamenntaðra stétta eru innan hans kolrangt launasettir. Það er glórulaust að ætla að slíkur rammi haldi ef það á að raða td. kennurum, með 5 ára háskólamenntun að baki í neðstu sætin. Kennarasamband Íslands er til í að skoða það að taka far með SALEK vagninum ef okkur er úthlutað sæti á réttum stað. Það sæti þarf að vera miklu ofar en okkur var ætlað.

 
Nú hefur heilmikið verið rætt um menntamál og kjör kennara í yfirstandandi kosningabaráttu. Það er ágætis byrjun. En þeir flokkar sem taka við keflinu verða að skilja að forsenda þess að ná sátt á vinnumarkaði verður bætt launasetning opinberra starfsmanna og það verður þeirra að tjónka við ASÍ og standa með okkur sem fáum engu ráðið um okkar kjör umfram þau lágmörk sem samið er um í miðlægum kjarasamningi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is