Fimmtudagur 05.10.2017 - 16:23 - Rita ummæli

Flokkur fólksins – flokkur án menntastefnu

Ég sagði hér í minni fyrri fæslu að ég ætlaði að rýna áherslur stjórnmálaflokkana í menntamálum. Í dag er það Flokkur fólksins. Ég mun ekki eyða miklu bleki í þá yfirferð – því Flokkur fólksins hefur enga menntastefnu. Núll – ekkert.

Undirstaða þeirra samfélaga þar sem lífsgæði eru hvað mest er öflugt menntakerfi. Reyndar er sterk fylgni á milli framlaga hins opinbera til menntamála og hagsældar. Velferðin dettur nefnilega ekki af himnum ofan. Það er sama til hvaða þátta samfélagsins er litið, allt grundvallast það á menntun.  Það þarf að hlúa að einstaklingnum í samfélaginu sem leggur því lið og eykur þannig landsframleiðslu. Litla barnið sem gengur menntavegin frá leikskóla og fram á fullorðinsár þarf aðhald umhyggju og stuðning. Skólakerfið þarf að mæta þörfum barnanna á þeirra forsendum. Hvernig tekst til skiptir svo miklu máli. Hvernig skólarnir búa að börnum og ungmennum hefur svo mikið að segja um framlög þeirra til samfélagsins á fullorðins árum. Baráttan gegn brottfalli úr námi hefst strax í leikskóla. Menntakerfið er keðja og verður aldrei sterkara en veikasti hlekkurinn. Við þurfum öfluga háskóla sem útskrifa sérfræðinga framtíðarinnar sem leggja sitt af mörkum að skapa þjóðinni auðlegð sem er undirstaða velferðar. Ég virði baráttu Flokks fólksins fyrir betri kjörum almennings. Ég get tekið undir hvert orð sem í annars örstuttri stefnu flokksins stendur en sé ekki fyrir mér að flokkur sé trúverðugur sem hefur ekkert fram að færa um menntamál.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is