Þriðjudagur 26.09.2017 - 21:03 - Rita ummæli

Stefna stjórnmálaflokkanna í málefnum framhaldsskólans

Alveg óvænt er blásið til kosninga réttu ári eftir þær síðustu. Ég er að rýna í stefnuskrá þeirra framboða sem buðu fram í síðustu kosningum og leggja mat á efndir þeirra loforða sem lagt var af stað með haustið 2016 og varða framhaldsskólastigið. Auðvitað er nærtækast að byrja á fráfarandi ríkisstjórnarflokkum, þeir hafa verið í stöðu síðustu mánuði til þess að koma stefnumálum sínum til framkvæmda. Það er auðvitað eðlilegt að byrja á Sjálfstæðisflokknum sem fékk úthlutað menntamálaráðuneytinu að venju.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Á síðasta kjörtímabili afrekaði Sjálfstæðisflokkurinn að skerða nám á framhaldsskólastigi með því að stytta námstíma til stúdentsprófs úr 4 árum í 3 og samhliða takmarka aðgengi eldri nemenda að framhaldsskólanum. Reyndar skal því haldið til haga að þáverandi menntamálaráðherra lofaði því að það fjármagn sem myndi sparast við aðgerðina yrði ekki tekið út úr framhaldsskólanum heldur nýtt í uppbygginu innviða en flestir vita að framhaldsskólar landisins hafa búið við langvarandi fjársvelti sem hefur bitnað illilega á starfi þeirra og þá fyrst og fremst nemendum. Í aðdraganda síðustu kosninga hafði Sjálfstæðisflokkurinn á stefnuskrá sinni aukna skilvirkni og að fjölga sjálfstætt starfandi skólum. Slíkt lesist sem aukin einkavæðing í menntakerfinu. Við það hefur flokkurinn staðið sem kristallaðist í fyrirhugaðri einkavæðingu Fjölbrautarskólans í Ármúla. Líklega réðu tæknileg mistök og leki innan úr menntamálaráðuneytinu því að fyrirhuguð einkavæðing spurðist út áður en blásið var til atlögu og náðu starfsmenn og velunnarar skólans með öflugum málflutningi og aðgerðum að koma í veg fyrir að málið næði fram að ganga .. í bili. Á í fjárlagafrumvarpi næsta árs var fátt um þær efndir að styrkja rekstur framhaldsskólanna því þar mátti sjá áframhaldandi sparnað og hagræðingu og nú með því að láta framhaldsskólann gjalda þess sem sparaðist við styttinguna.

Björt Framtíð:

Stefna Bjartar framtíðar fyrir síðustu kosningar var að styrkja rekstur framhaldsskóla landsins sem, eins og réttilega er bent á í stefnu flokksins „hafa búið við mjög þröngan kost undanfarin ár og eru raunar komnir að þolmörkum eftir viðvarandi niðurskurð. Staða skólanna margra hverra er orðin grafalvarleg og grípa þarf til aðgerða strax enda hlutfall útgjalda ríkisins til framhaldsskólastigsins undri meðaltali OECD ríkjanna“  Og flokkurinn var rétt farin koma sér fyrir við ríkisstjórnarborðið þegar hann kvittaði upp á fjárlög næsta árs með áframhaldandi niðurskurði í framhaldsskólanum. Hvergi er að sjá í þeirri áætlun sem og ríkisfjármálaáætlun til ársins 2021 að það eigi að bæta rekstur framhaldsskólanna. Á áætlun næstu fjögurra ára er gert ráð fyrir frekari hagræðingu og nákvæmlega ekki krónu ætlað að styrkja rekstur framhaldsskólanna, hvað þá að færa rekstur þeirra nær OECD ríkjunum eins og Björt framtíð lofaði fyrir síðustu kosningar.

Viðreisn:

Það verður að segjast eins og er að stefna Viðreisnar í málefnum leik, grunn og framhaldsskóla var lítt skiljanleg fyrir síðustu kosningar. Í stefnu flokksins er talað um samþættingu skólastiga frá leikskóla til framhaldsskóla og að stefnt skuli að sveigjanleika í starfsemi menntastofnana með sveigjanlegum námshraða.

Það er eins og fulltrúar Viðreisnar hafi ekki áttað sig á því að með setningu nýrra menntalaga árið 2008 var einmitt sett heimild til aukins sveigjanleika  milli skólastiga og nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu að slíkt næði fram að ganga. Sú sem fór fyrir menntamálum þegar þau lög vor samþykkt á Alþingi er einmitt ein af oddvitum Viðreisnar eins skrítið og það er nú. Og nýju menntalögin sem voru sett árið 2008 voru unnin í nokkru samstarfi við samtök sérfræðinga í menntamálum m.a. Kennarasamband Íslands. Í núverandi lög er miðað við sveigjanleika á milli skólastiga og nemendur hafa möguleika á að ljúka grunnskóla fyrr og menntaskóla hraðar en meðal nemendur. Að sama skapi er mikilvægt að þeir nemendur sem þess þurfa hafi lengri tíma til þess að ná tökum á náminu og útskrifast seinna en meðal nemandinn.

Það fara ekki alltaf saman orð og efndir eins og ég hef rakið hér fyrir ofan. Í næsta pistli mínum mun ég rýna stefnu þeirra flokka sem sátu í minnihluta þetta kjörtímabil og hvernig þeir hafa hagað málflutningi sínum á Alþingi tengdum málefnum framhaldsskólans.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is