Föstudagur 18.08.2017 - 13:56 - Rita ummæli

Starfsaðstæður kennara

 

Það er margt athyglisvert við þær sláandi niðurstöður að of mikið álag í starfi kennara valdi kulnun og vaxandi langtíma veikindum meðal stéttarinnar. Af háskólamenntuðum einstaklingum sem leita þjónustu Virk starfsendurhæfingar eru langflestir kennarar.

Og við nánari skoðun kemur í ljós að alvarlegust er staðan meðal leikskólakennara. Þeir eru langstærsti hópur kennara sem hrökklast úr starfi vegna álags eða lenda í langtímaveikindum. Næstir þar á eftir eru grunnskólakennarar og þá framhaldsskólakennarar.

Og hvað veldur? Það hefur komið fram að mikið álag í starfi, óviðunandi vinnuaðstæður og lítill stuðningur meðal yfirstjórnar séu helstu orsakavaldar langtímaveikinda og kulnunar í starfi. Skortur á sveigjanleika hefur líka verið nefndur og vaxandi álag vegna sífellt aukinna verkefna.

Rannsóknir sýna að það er beint samband milli álags og sveigjanleika í starfi. Aukin sveigjanleiki virðist draga úr streituvöldum í starfi. Það er gömul saga og ný að leikskólakennarar hafa allt of lítið svigrúm innan dagvinnumarka til þess að skipuleggja kennslu í leikskólum. Á þeirra herðum hvílir skipulagning á faglegu starfi í leikskólanum, stjórnun og mannaforráð og hafa þeir ekki haft nægilegt ráðrúm innan vinnutímarammans til þess að sinna því starfi. Oftlega eru þetta því verkefni sem bætast við daglega kennslu í skólunum.

Sótt hefur verið að grunnskólakennurum með kröfum um viðveru, alls kyns teymisfundir og önnur viðbótar verkefni hafa bæst við aðrar kennsluskyldur á undanförnum árum.
Framhaldsskólakennarar hafa í sífellt meira mæli sinnt umsjón með ólögráða nemendum, samskipti við foreldra og stuðningsnet nemenda fer vaxandi, allt tekur þetta tíma frá kennslunni og undirbúningi hennar.
Það er óumdeilt að það þarf að bæta starfsaðstæður kennara á öllum skólastigum. Það þarf að veita kennurum nægjanlegt rými innan dagvinnumarka til að sinna þeim ótal kennslutengdu verkefnum sem þeir sinna og gefa þeim rými til að sinna skyldum sínum. Það þarf að auka sveigjanleika í starfi kennara á öllum skólastigum samhliða því að gera laun þeirra samkeppnishæf.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is