Fimmtudagur 11.1.2018 - 09:52 - Rita ummæli

Skipun dómara – hvað má gera betur?

Það má læra mikið af nýlegum skipunum dómara.  Fyrst og síðast hlýtur að vera augljóst að lögunum þarf að breyta. Skipun dómara VERÐUR að vera hafin yfir allan vafa.

Eins og lögin eru í dag, ber dómsmálaráðherra að skipa dómara skv. tilmælum hæfisnefndar.  Fylgi ráðherra mati hæfisnefndar ber honum ekki að leita samþykkis Alþingis. Þannig eru lögin.

 

En EF dómsmálaráðherra ákveður að ganga gegn tillögum hæfisnefndar, verður ráðherra að leggja slíka ráðstöfun fyrir Alþingi sem hefur síðasta orðið. Líklega er hér um varnagla að ræða til að tryggja að dómsmálaráðherra geti ekki skipað dómara af eigin geðþótta án málefnalegra sjónarmiða.

En … …

Dómstólasýslan skipar þrjá menn í nefnd um dómarastörf, einn tilnefndan af dómarafélagi Íslands, annan frá lagadeild íslensks háskóla og þann þriðja án tilnefningar.  Það er réttmæt gagnrýni í mínum huga að þarna sé ákveðin „kreðsa“ að velja í stéttina. Það hefur sýnt sig að mat nefndarinnar er sko alls ekki yfir gagnrýni hafið.  Það er ekki gott.

Það er heldur ekki gott ef dómsmálaráðherra gengur gegn mati nefndarinnar og skipar aðra en nefndin telur hæfasta. Hver svo sem rökin eru fyrir slíku vekur það tortryggni ef Alþingi samþykkir svo slíka ráðstöfun samkvæmt pólitískum línum meirihlutans í þinginu.

Nú höfum við fordæmi fyrir þessu. Dómsmálaráðherra sem gekk gegn áliti hæfisnefndar og lagði breyttar tillögur fyrir Alþingi. Samþykkið fékk ráðherra frá Alþingi þar sem þingmenn samstarfsflokkanna í ríkisstjórn lögðu henni lið.

Ekkert af þessu er gott.  Það er einfaldlega fráleitt að setja dómsmálaráðherra í slíka stöðu. Það er líka fráleitt að skipan dómara fylgi pólitískum línum Alþingis.  Það er líka vont ef ein stétt í landinu hefur allt að segja um það hverjir eru skipaðir dómarar.

Eins og staðan er núna er aðskilnaður framkvæmdavalds og dómsvalds ekki tryggður. En sá aðskilnaður er einn af hornsteinum lýðræðisins.

Það væri skynsamlegt að endurskoða lög um skipan dómara. Fjölga einstaklingum í matsnefndinni og kalla til liðs aðra en lögfræðinga og dómara. Þar gætu t.d. átt sæti tilteknir aðilar úr forystu íslensks samfélags. T.d. forseti ASÍ, Tveir þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu, Umboðsmaður Alþingis, bara svona til að nefna eitthvað. Niðurstaða hæfisnefndar sem er skipuð einstaklingum með breiðan bakgrunn og þekkingu sem skilar samdóma áliti til dómsmálaráðherra hlýtur að njóta meira trausts í samfélaginu. Alþingi ætti svo alltaf að fjalla um niðurstöðuna án sérstakrar aðkomu dómsmálaráðherra.

 

_____________________________________

Ég var í mjög áhugaverðu spjalli á Sprengisandi síðasta sunnudag 7. janúar. Sirrý Hallgrímsdóttir og Smári McCarthy sátu með mér þar sem við fórum yfir fréttir síðustu viku.

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP59958

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP59959

 

Þessi pistill fæddist í kjölfarið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.12.2017 - 15:02 - Rita ummæli

Biskupinn og íslenska þjóðkirkjan

Ég er ein tæplega 240 þúsund íslendinga sem er skráð í Þjóðkirkjuna. Til viðbótar eru þúsundir aðrir íslendingar sem tilheyra öðrum kristnum samfélögum. Við erum því sannarlega kristin þjóð, að minnsta kosti á blaði.

Við fjölskyldan eigum okkar barnatrú, við leitum til guðs þegar á móti blæs því þá er gott að eiga bakland í æðri mætti.

En þótt við eigum þetta góða samband við guð almáttugan get ég nú ekki sagt að ég sé kirkjurækin. Börnin voru skírð og fermd en utan einstaka brúðkaups og jarðafara mætum við almennt ekki í kirkju.

Þó brá svo við að um þessi jól fórum við tvisvar í messu í kirkjunni okkar, Lindakirkju.

Jólamessan kl 18 á aðfangadag var með hefðbundnu sniði og á annan í jólum mættum við í sveitamessu sem var sannkölluð veisla fyrir hug og hjarta. Þarna sátum við í andakt og hlustuðum á fallega tónlist, hugljúfa hugvekju prestanna okkar og sátum ögn nærri almættinu með hugsunum okkar. Einhvernvegin voru þessar stundir til þess að við fundum það fallega í sálinni, við fundum auðmýktina og þakklætið sem stundum gleymist í öllum látum hversdagsins.

Prestunum okkar í Lindakirkju hefur nefnilega tekist með eindæmum vel að færa kirkjustarfið til unga fólksins, með Óskar Einarsson og kór Lindakirkju sér til stuðnings. Popptónlist miðalda hefur vikið til hliðar fyrir nútímatónum og léttari tónlist sem höfðar frekar til yngra fólks. Og prestarnir okkar í Lindakirkju sinna starfi sínu af alúð, umhyggju og auðmýkt.

Og um allt land er magnað starf í gangi á vegum kirkjunnar þar sem prestarnir leggja sig fram um að laða fólk að kirkjunni, já hreinlega lokka okkur hálfheiðingjana í messu. Stuðningur við syrgjendur, fólk sem glímir við veikindi, erfiðleika og fátækt er mikilvægt hlutverk presta.

En það er svo dapurlegt að allt þetta góða starf gleymist þegar við fáum fréttir af biskipi sem þiggur milljón í dagpeninga fyrir að skrifa eitthvað tveggja blaðsíðna umburðabréf í útlöndum. Biskup sem telur ljótt að “stela gögnum” til að afhjúpa sannleikann. Biskup sem kvartar yfir lélegum launum og biskup sem kvartar yfir því oki sem á hana er lagt að borga 90.000 kr mánaðarleigu fyrir tæplega 500 fm hús á besta stað í miðbænum.

Því miður fækkar í þjóðkirkjunni þegar biskupinn yfir Íslandi hefur upp raust sína.

Árið 2013 var Agnes Sigurðardóttir gagnrýnd harkalega fyrir skort á stuðningi við baráttu hinsegin fólks. Frekar en næra það ófriðarbál með því að tjá mig opinberlega sendi ég henni tölvupóst með hugleiðingum mínum um framgöngu hennar og orðræðu. Minn guð er nefnilega fordómalaus og faðmur míns guðs er öllum opinn.
Agnes sá sér ekki fært að svara annars málefnalegum og réttmætum hugleiðingum mínum og ég var nær því en nokkruntíma að segja mig líka úr þjóðkirkjunni.

Það er svo mikilvægt fyrir kirkju sem á undir högg að sækja að forysta hennar sé hafin yfir allan vafa. Að ásýnd æðsta embættismanns guðs í þessu landi sé auðmýkt og fordómaleysi. Það má vel vera að biskup sé að vinna gott starf innan kirkjunnar sem fer hljótt. En út á við eru það þessi orð og verk sem móta skoðun samfélagsins á embættinu og kirkjunni.

Agnes segir sjálf að hún hafi ekki verið að fá jólabónus og kauphækkun fyrir þessi jól, heldur embættið. En embætti biskups yfir Íslandi verður aldrei stærra en sá einstaklingur sem embættinu sinnir. Og hvers vegna situr Agnes í embætti biskups? Vonandi vegna þess að hún telur kirkjuna betur setta en ekki með hana í embætti. En er umdeildur biskup það besta fyrir þjóðkirkjuna?  Kannski væri rétt af Agnesi að stíga til hliðar og fela öðrum að sinna þessu starfi, leyfa kirkjunni að njóta vafans og byggja að nýju upp traust og trú samfélagsins á þjóðkirkjuna. Það er allavega tilefni fyrir Agnesi að hugleiða núna hvernig hún vinnur kirkjunni okkar mest og best gagn. Með því að vera eða fara? Þar er efinn.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.12.2017 - 09:08 - Rita ummæli

Pilsfaldur Kjararáðs

„Biskupinn bað um launahækkun með bréfi og fékk milljónir afturvirkt“ Kjararáð varð við beiðninni og ákvarðaði launahækkun biskups sem nemur 18 prósenta launahækkun.  Jólabónusinn er 3,3 milljónir.

 

Ég ætla alveg að láta liggja á milli hluta hvort laun biskups séu há eða lág.  Það sem skiptir máli í þessu sambandi er sú móralska niðurstaða að kjararáð hefur úrskurðað launahækkanir til elítu þessa lands langt umfram það sem almenningi býðst innan rammasamkomulags um launaþróun.

Já það er sjálfsagt flestum ljóst að höfrungahlaup á vinnumarkaði mun bara brenna upp ávinning síðustu góðæra. Stöðugleiki á vinnumarkaði skiptir okkur máli sem og öguð vinnubrögð við samningaborðið.

 

En hvernig ætla stjórnvöld að halda því til streitu að laun almennings í landinu hækki ekki nema pínkulítið og smá þegar Alþingi sagði já takk við sambærilegum launaákvörðunum kjararáðs?

Kannski að barátta kennara ætti að snúast um að komast undir pilsfald kjararáðs. Þar er gott að vera, hlýtt og notalegt og ekkert helvítis karp um kaup og kjör.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.12.2017 - 20:26 - Rita ummæli

Dylgjur verðandi formanns KÍ – viðbót

.

Í aðdraganda þess að nýr formaður Kennarasambands Íslands var kosin mátti undirrituð þola frádæma skítkast og óhróður frá stuðningsmönnum nýkjörins verðandi formanns. Ég kaus að láta dylgjum og lygum ósvarað en vann þess í stað að framboði mínu á mínum forsendum, kynnti fyrir félagsmönnum sjálfa mig, áherslur mínar og talaði aldrei til mótframbjóðenda minna. Það hefði líklega ekki þótt smekklegt ef ég hefði farið að ræða gamla ásökun á hendur Ragnari um að misbjóða nemanda sínum enda hafði maðurinn farið mikinn í fjölmiðlum á sínum tíma að bera af sér sakir sem hann sagðist ekki hafa hugmynd um hverjar voru og taldi fullvíst að illa innrættur óvildarmaður bæri sökina.

Ég tapaði, varð fúl í einn dag en svo heldur lífið áfram. Nú aftur á móti berast mér upplýsingar um að á lokuðum spjallvefjum kennara séu þessir sömu aðilar enn við sama heygarðshornið. En núna á það að vera undan mínum rifjum runnið að ungur maður sakar verðandi formann KÍ um misnotkun. Ungur maður sem ég þekki ekki neitt, steig fram og sagði sögu sína. Og nú er því haldið fram af þessum sömu aðilum að slíkt hafi verið gert í þeim tilgangi að hafa áhrif á kosningu varaformanns sem stendur nú yfir en þessir sömu aðilar halda uppteknum hætti og ætla að koma Ásthildi Lóu Þórsdóttur stuðningsmanns og bandamanns Ragnars í sæti varaformanns við hlið hans.

Ég er nú búin að bíta í tunguna á mér undanfarna daga vitandi það að allt sem ég segi verður lesið í ljósi þess að ég tapaði fyrir Ragnari Þór. En það er ekki hægt að sitja undir þessu rugli lengur. Ragnar Þór og hans helstu stuðningsmenn reyna að klína þessu ömurlega máli á mig og stjórn KÍ.

Í pistli sínum frá 4. Desember segir hann því ósatt í málsvörn sinni.

https://stundin.is/blogg/maurildi/formannsstaan-i-ki/

A) Ragnar tjáir sig fyrst um þetta mál 14. Október þegar fyrrverandi starfsmaður Norðlingaskóla kemur fram í tengslum við metoo byltingu á Facebook. Þar kom í fyrsta sinn fram að á sínum tíma var ekki um nafnlausa ábendingu að ræða heldur kæru til lögreglu. Ragnar Þór lýsti yfir framboði sínu 2. Október. Svo það er ekki rétt sem Ragnar fullyrðir að hann hafi sett þetta allt upp á borð í upphafi síns framboðs.

B) Ragnar Þór tilkynnti aldrei stjórn KÍ um þetta mál þegar það kom upp á sínum tíma árið 2013. Hvorki til formanns KÍ eða stjórnar. Ekkert var fjallað um þetta mál á stjórnarfundum KÍ – það er ekki flóknara en fletta upp fundargerðum til að sjá það.

C) Þannig að þegar Ragnar fullyrðir að þetta mál hafi legið á borðinu í þeirri mynd sem það er í dag er það ósatt.

Ragnar talar um að hann hafi verið “hrottalega heiðarlegur” já það er líklega satt því kannski er óheiðarleikinn einmitt hrottalegur heiðarleiki. Ragnar Þór hikaði alla vega ekki við að bera á mig dylgjur og ósannindi.

Ég bið þá kennara sem þetta lesa að deila þessu á spjallþræði kennara af öllum skólastigum, okkur í stjórn KÍ er nefnilega meinaður aðgangur að flestum þeim síðum og okkur þar með ekki gefin kostur á að bera af okkur sakir.

 

Viðbót vegna viðbragða Ragnar þórs Péturssonar 8. desember:

https://stundin.is/blogg/maurildi/i-tilefni-af-fullyringum-guriar-arnardottir-formanns-ff/

Eins og kemur fram í bréfinu sem Ragnar birtir er það stimplað trúnaðarmál og beint til Félags Grunnskólakennara. Þar með auðvitað er innihald þess undir trúnaði og var ekki lagt fram í stjórn KÍ. Formaður FG fór hins vegar yfir beiðni um fjárstuðning á fundi stjórnar KÍ 17. október 2014 sem var efni bréfsins. Það var því enginn í stjórn KÍ sem var upplýstur um innihald bréfsins umfram það sem hafði verið fjallað um í fjölmiðlum af Ragnari sjálfum. Ragnari er auðvitað kunnugt um að erindum sem er beint til tiltekins aðildarfélags undir trúnaði er ekki vísað annað, hvorki til stjórnar eða annara aðildarfélaga. Svo annað hvort talar hann gegn betri vitund eða af vanþekkingu um uppbyggingu Kennarasambands Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.11.2017 - 13:49 - Rita ummæli

Desemberuppbót elítunnar.

Desemberuppbótin er að einhverju leyti hugsuð með jólin í huga. Desember er fyrir flesta dýr mánuður, þá gera flestir betur við sig en alla jafna.

 

Desember uppbót ríkisstarfsmanna og almennt á vinnumarkaði er 86 þúsund krónur í ár. Auðvitað dregst frá því skattur eins og af öðrum launum.

 

Þeir hópar sem falla undir kjararáð fá aftur á móti ríflega tvöfalda þá upphæð og um og yfir 200 þúsund krónur.

 

Einhverjir hafa verið að gagnrýna kjararáð fyrir þessa ráðstöfun. Á sama tíma og almenningi í landinu er ætlað að axla efnahagslega ábyrgð með hófstilltum launahækkunum og jafnvel engum launahækkunum tryggir kjararáð æðstu embættismönnum íslenska ríkisins ágæta afkomu með myndarlegum launahækkunum.

 

2007 er nefnilega komið aftur.

 

Og ég skil það bara mæta vel að fólk sem er vant því að vera með eina og hálfa milljón á mánuði nenni ekki að taka við þessu lítilræði sem almenna desember uppbótin er.

 

 

Það reyndar tekur því varla að taka við tvöhundruðþúsund kallinum sem rétt dugar fyrir hreindýralundum og sæmilegu kampavíni á aðfangadag.

 

 

Þeir sem eru vanir því að eiga nógan pening vilja líka gera vel við sig í mat og drykk. Og ef þú ert vanur því að borða nautasteik á sunnudögum með góðu rauðvíni þá dugar nú ekkert minna en hreindýr og humar til hátíðarbrigða. Og það kostar.

 

(og þetta er kaldhæðni hafi einhver ekki áttað sig á því)

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.11.2017 - 11:33 - Rita ummæli

Leik – grunn – og tónlistarskóli í nýjum stjórnarsáttmála

Allir flokkarnir sem buðu fram í aðdraganda nýafstaðinna kosninga til Alþingis voru sammála því að það þyrfti að styrkja menntakerfið og voru öll skólastig nefnd í því sambandi.

Nú þegar Katrín Jakobsdóttir leiðir stjórnarmyndunarviðræður flokka sem töluðu sérstaklega fyrir menntamálum við ég minna á eftirfarandi:

Sveitarfélögin í landinu reka leik- grunn- og tónlistarskóla. Verulega skortir á að kjör og starfsaðstæður þessara kennarahópa séu viðundandi.

Álag á kennara er óhóflegt og sýna gögn að kulnun í starfi og langtímaveikindi eru mest meðal kennara borið saman við aðrar háskólamenntaðar stéttir. Mestur er vandinn meðal leikskólakennara. Börn á leikskólum eru of mörg í hverju rými og of fáir kennarar starfa innan leikskólanna.

Kjarasamningar grunnskólakennara eru nú lausir og losna samningar tónlistarskólakennara næsta vor. Það liggur fyrir að ekki mun nást sátt um kjör þeirra og starfsaðstæður nema talsverð viðbót verði lögð til rekstrarins. Þá er ljóst að bættar aðstæður kennara og barna á leikskólum þolir enga bið.

Nú þegar ný ríkisstjórn er mögulega í fæðingu vil ég beina orðum mínum til þeirra sem skrifa nú nýjan stjórnarsáttmála.
Það er lykilatriði og hreinlega nauðsynlegt ef einhver sátt á að skapast um íslenskan vinnumarkað að sveitarfélögum í landinu verði gert kleyft að bæta kjör og starfsaðstæður kennara. Til þess verða þau að fá stuðning Alþingis til að rýmka tekjustofna sína.

Sveitarfélögunum er sniðinn þröngur stakkur þar sem Alþingi setur ramma um heimildir þeirra til að afla sér tekna. Framundan eru kjarasamningar við alla starfandi kennara sveitarfélaganna og eigi að skapast sátt um þá samninga þurfa sveitarfélögin að leggja meira fjármagn í rekstur leik- grunn- og tónlistarskóla.

Nú verður ný ríkisstjórn að standa við fyrirheit um stórsókn í menntamálum. Til þess að svo megi verða má ekki gleyma hlut sveitarfélaganna í menntakerfi landsins og verður Alþingi að tryggja sveitarfélögunum í landinu auknar heimildir til að afla sér tekna. Þar er brýnt að tryggja sveitarfélögum hlut í fjármagnstekjuskatti og veita þeim heimildir til að hækka útsvar. Það vil ég meðal annars sjá í nýjum stjórnarsáttmála.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.10.2017 - 22:27 - Lokað fyrir ummæli

Af launamálum kennara og annara opinberra starfsmanna

Það fór ekki hátt samkomulag BHM við samtök atvinnulífsins. Þar var skrifað undir samkomulag um allskonar réttindi þeirra félagsmanna BHM sem vinna fyrir almenna markaðinn.

 
„Kjarasamningur aðildarfélaga BHM og SA er ólíkur ýmsum öðrum kjarasamningum að því leyti að í honum er ekki samið um laun fyrir einstök störf eða starfsmenn. Launakjör eru hins vegar ákvörðuð í ráðningarsamningi milli vinnuveitanda og viðkomandi háskólamanns, og getur starfsmaður óskað árlega eftir viðtali við sinn yfirmann um breytingar á starfskjörum“

 
Þetta er auðvitað hið besta mál og fagna ég öllum kjara og réttindabótum launþega á atvinnumarkaði, sama hvert stéttarfélagið er og sama hver vinnuveitandinn er.

 
En það sem er eftirtektarvert við þetta samkomulag er hins vegar sú staðreynd að þegar samið er á almennum markaði má binda í samninga ýmis miðlæg réttindi er varðar orlof, veikindarétt, uppsagnarákvæði og fleira, en launaliðurinn er samkomulag hvers og eins við vinnuveitanda.

 
Með þessu almenna samkomulagi Bandalags háskólamanna blasir við sá aðstöðumunur sem er milli opinberra starfsmanna og launþega á almennum markaði.

 
Á almennum markaði fer minna fyrir miðlægri launasetningu og taxtar hafa ekkert gildi nema fyrir fáa. Laun eru allskonar og einhvernvegin og ráðast ekkert endilega af menntun og fyrri störfum.

 
Raunveruleiki opinberra starfsmanna er allt annar. Kjarasamningar opinberra starfsmanna ráða launasetningu þeirra og er lítið sem ekkert svigrúm til hækkana umfram lágsmarkstaxta.

 
Nú liggur fyrir að stórar stéttir opinberra starfsmanna eru alvarlega undirlaunaðar. Það er þess vegna sem Kennarasamband Íslands stóð ekki að rammasamkomulagi um launaþróun sem flestir aðilar hins almenna og opinbera markaðar skrifuðu undir haustið 2016.
Það er heilmikil skynsemi í því að setja ramma um launaþróun, ramma sem miðast við framleiðslugetu og hagvöxt samfélagsins á hverjum tíma.

 
En slíkur rammi mun aldrei halda ef stórir hópar háskólamenntaðra stétta eru innan hans kolrangt launasettir. Það er glórulaust að ætla að slíkur rammi haldi ef það á að raða td. kennurum, með 5 ára háskólamenntun að baki í neðstu sætin. Kennarasamband Íslands er til í að skoða það að taka far með SALEK vagninum ef okkur er úthlutað sæti á réttum stað. Það sæti þarf að vera miklu ofar en okkur var ætlað.

 
Nú hefur heilmikið verið rætt um menntamál og kjör kennara í yfirstandandi kosningabaráttu. Það er ágætis byrjun. En þeir flokkar sem taka við keflinu verða að skilja að forsenda þess að ná sátt á vinnumarkaði verður bætt launasetning opinberra starfsmanna og það verður þeirra að tjónka við ASÍ og standa með okkur sem fáum engu ráðið um okkar kjör umfram þau lágmörk sem samið er um í miðlægum kjarasamningi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.10.2017 - 11:50 - Rita ummæli

Áfram stelpur

Dagur kvenna er 24. október. Þennan dag árið 1975 lögðu konur niður störf og kom þá skýrt og greinilega í ljós að hlutur kvenna á vinnumarkaði var af þeirri stærðargráðu að þegar þær viku af sínum venjulega stað í einn dag lamaðist atvinnulíf landsmanna.

Þegar litið er til baka þessi rúmlega 40 ár hefur sem betur fer gríðarlega margt unnist í baráttu okkar fyrir jafnrétti kynjanna á öllum sviðum. Ömmur okkar og mömmur ruddu leiðina fyrir okkur sem yngri erum – það voru konurnar sem skoruðu samfélagið á hólm og fóru þetta á hnefanum.

Við kennarar tilheyrum kvennastétt. Rúmlega 80% okkar félagsmanna í KÍ eru konur. Meðal leikskólakennara er hlutfall kvenna hæst eða 96% og tæp 60% meðal framhaldsskólakennara og hefur farið vaxandi síðustu áratugi. Það er eins og karlar velji sér síður kennslu sem ævistarf en konur. Það hefur gengið betur að fjölga konum innan hefðbundinna karlastétta en fjölga körlum í kvennastéttum. Það gæti auðvitað átt sér margar orsakir en karlar sækja síður í lægra launuð störf og því miður eru kvennastéttirnar, umönnunarstéttirnar, enn sem komið er metnar lægra til launa. Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt með öllu og einnig að öll mótunarár barna og ungmenna séu það aðallega konur sem koma að kennslu þeirra og þar með félagsmótun.

Og jafnrétti er ekki bara í orði, það verður líka að vera á borði. Það er ekki bara sömu laun fyrir sömu vinnu, það er miklu meira en það. Jafnrétti er líka glíman við staðalímyndir og viðhorf, eða norm samfélagsins.

Jafnréttisbaráttan á sér svo ótal marga anga, suma erum við minna meðvituð um en aðra. Vakningin #metoo, #höfumhátt, #freethenipple er sprottin frá róttækum ungum konum sem skora gamaldags gildi á hólm. Því það er meira en að segja það að slíta sig lausa frá þeim gildum sem manni eru innrætt frá blautu barnsbeini. Og þegar einhver hefur stigið fram og haft hátt, er það einhvern veginn svo augljóst hvað er rétt og hvað er rangt.

Í dag ætla ég að minnast allra þeirra frábæru karla sem hafa lagt okkur stelpunum lið og sem hafa tekið slagina með okkur. Þeim fer fjölgandi sem betur fer enda er þetta þeirra barátta líka.

En í dag tala ég til kvenna í kennarastéttinni. Af því það er dagurinn okkar í dag. Í dag heiðra ég minningu allra þeirra kvenna, lífs og liðinna, sem ruddu veginn fyrir okkur hinar. Í dag skulum við líka minnast þess að það eru við sem höldum á keflinu og það er okkar að koma dætrum okkar í mark.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.10.2017 - 17:35 - Rita ummæli

Hvernig búum við að börnum okkar?

Algengi þunglyndis meðal unglinga hefur aukist mikið síðustu ár. Íslenskar stúlkur á aldrinum 15 til 24 ára taka ríflega fjórum sinnum meira af þunglyndislyfjum en jafnaldrar þeirra í Danmörku. Sjálfsmorðstíðni drengja á aldrinum 10 til 19 ára er hvergi hærri á Norðurlöndunum en á Íslandi. Enginn hópur tekur eins mikið af ADHD-lyfjum og íslenskir drengir á aldrinum 10 til 14 ára.

Íslendingar slá líka öll met í notkun róandi lyfja og svefnlyfja og taka Íslendingar inn fimm sinnum meira af slíkum lyfjum en Danir.

Og það er þrefalt algengara að börn á leikskólaaldri fái tauga- og geðlyf en hinum norðurlöndunum.

Það er eitthvað að!

Það eru einhverjir samfélagslegir þættir sem velda þessum alvarlega vanda sem börn og ungmenni glíma við í dag. Það þarf auðvitað að leita orsakanna en nærtækast er að líta til þeirra aðstæðna sem börnin alast upp við.

Nemendur í leikskóla eru í allt of litlum rýmum. Börnin eru einfaldlega of mörg miðað við það rými sem þeim er ætlað. Það er heldur ekkert óalgengt að börn séu í leikskóla á milli 8 og 9 klukkustundir á dag. Yngstu nemendurnir í leikskólanum hafa þannig lengsta viðveru á hverjum degi og lengstan árlegan skólatíma af öllum OECD löndunum. Þetta hafa stjórnendur í leikskólum bent á í mörg ár en nú þegar við horfum á þessar hrópandi staðreyndir er ljóst að aðgerða er þörf.

Og skammtímasjónarmið ráða því miður allt of oft för. Fjárfesting í sterku menntakerfi er svo mikill sparnaður til framtíðar. Við þurfum að búa betur að börnunum okkar m.a. draga úr álagi vegna hávaða og stytta skóladaginn. Við þurfum að fækka börnum á hverri leikskóladeild og við eigum að efla stuðningsnet barna og ungmenna í grunn og framhaldsskólum. Efla náms og starfsráðgjöf og ekki síður tryggja félagslegan stuðning og sálfræðiráðgjöf á öllum skólastigum. Baráttan gegn brottfalli úr framhaldsskóla byrjar í leikskólanum. Þar má byrja að skima fyrir nemendum í brottfallshættu á seinni skólastigum.

Við þurfum að stytta vinnuvikuna og um leið vinnuviku allra barna og ungmenna. Við þurfum að fjölga samverustundunum heima við, allar rannsóknir sýna að styttri vinnuvika leiðir til meiri framlegðar í vinnu og bætir líðan allra.

Og þótt það kosti auðvitað að byggja fleiri leikskólabyggingar, fjölga menntuðum kennurum og fjölga sérfræðingum í stuðningsneti skólanna er það fjárfesting til framtíðar, álag á heilbrigðiskerfið mun til lengri tíma minnka, og sterkari heilbrigðari einstaklingar leggja meira til samfélagsins.

Þetta er ekki flókið sko.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.10.2017 - 11:58 - Rita ummæli

Lögbindum leikskólann

Það eru ekki allir sem átta sig á því að leikskóli er ekki lögbundið verkefni sveitarfélaganna. Það eru í sjálfu sér engar lagalegar hindranir gegn því að sveitarfélög hreinlega loki fyrsta skólastiginu. Sem betur fer dytti ekki nokkrum slík firra í hug en þrátt fyrir allt er mikilvægt að binda í lög skylduna til að reka fyrsta skólastigið. Það er mér til efs að allir frambjóðendur til Alþingis átti sig á þessu.

Þetta er prinsippmál og þetta er sjálfsagt mál – skólaganga barnanna okkar hefst í leikskóla. Hann er fyrsta skólastigið. Allar rannsóknir sýna að það skiptir máli hvernig við búum að börnunum fyrstu skólaárin, það hefur áhrif á velgengni þeirra síðar. Í leikskóla getum við t.d. byrjað að vinna gegn brottfalli úr námi á seinni skólastigum.

Það á auðvitað að vera bundin í lög sú skylda sveitarfélaganna að reka leikskóla. Og það þarf að tryggja sveitarfélögunum næga  tekjustofna til þess að reka skólana svo sómi sé af.

Hversu lengi ætlar samfélagið að láta fyrsta skólastigið vera olnbogabarn í menntakerfinu? Hvenær mun samfélagið átta sig á því hversu gríðarlega mikilvægt er að búa vel að börnum og kennurum í leikskólanum?

Í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur Kennarasamband Íslands ákveðið að bjóða til opins fundar um menntamál miðvikudaginn 18. október kl 16:30 í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Ég vænti þess að framboðin hafi svör á reiðum höndum. En þeim hefur verið boðin þátttaka í fundinum.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is