Mánudagur 16.4.2018 - 11:47 - Rita ummæli

Hvernig hefur ’99 árgangnum gengið í námi?

Rúv hefur nú tekið til umfjöllunar áhrif styttingar námstíma til stúdentsprófs og í því sambandi var ég í heillöngu viðtali í gær um málið. Eins og venja er klippti fréttakona úr samtalinu þau atriði sem hún helst vildi koma á framfæri þann tíma sem henni var skammtaður í fréttatímanum.

http://www.ruv.is/frett/okkar-vidvaranir-virdast-hafa-att-rett-a-ser

Þetta er áhugavert efni og ályktaði Kennarasamband Íslands um málið á nýafstöðnu þingi samtakanna.

Nú er fyrsti heili árgangurinn að útskrifast úr 3ja ára kerfinu eftir að öllum skólum var gert að stytta námstíma í framhaldsskólum haustið 2015. Ég reyndar benti á það í viðtalinu (var því miður klippt út) að Kvennaskólinn og fleiri skólar hafi verið með styttri námstíma lengur. Við Kvennaskólann var m.a. gert stérstakt samkomulag um útfærsluna á sínum tíma og ólíkt almennu aðgerðinni haustið 2015 var málið unnið í samráði við Kennarasambandið og kennara skólans.

En það er samt sem áður sérlega áhugavert að skoða nú 1999 árganginn og hvernig honum reiðir af í frekara námi. Þar erum við með þverskurð nemenda á breiðari forsendum en afmarkaðan hóp nemenda eldri 3ja ára skóla eins og Kvennó.  Við gætum aldrei útilokað þá breytu að nemendasamsetning Kvennaskólans væri ekki  lýsandi fyrir þýðið í heild sinni. En nú þegar allur árgangurinn hefur nú farið í gegnum nýtt kerfi ætti sá hópur að endurspegla heildina marktækt.

Hvert hefur brottfall þessa árgangs verið?

Hvernig reiðir þessum einstaklingum af í frekara námi?

Er það mælanleg staðreynd að þau hafi frekar sett til hliðar íþróttaiðkun eða tónlistarnám vegna álags í reglulegu námi?

 

Kennarasamband Íslands hefur skorað á mennta- og menningarmálaráðherra að láta fara fram óháða heildarúttekt á styttingu námstíma til stúdentsprófs og reynist það raunin að nemendum reiðir verr af í nýju kerfi verður að taka málið til endurskoðunar í heild sinni.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.4.2018 - 10:11 - Rita ummæli

Uppgjör að loknu þingi KÍ

Átakaþingi Kennarasambands Íslands er lokið. Þrátt fyrir tilfinningahita á köflum var þingið vinnusamt og voru margar merkilegar ályktanir samþykktar m.a. sterk og á köflum róttæk jafnréttisáætlun.

Þingið samþykkti með miklum meirihluta að taka á dagskrá  áskorun á nýjan formann KÍ að stíga til hliðar og boða til kosninga að nýju.  Fá þannig tækifæri til þess að endurnýja umboð sitt í ljósi þess að upplýsingar úr fortíð hans komu fram eftir að hann var kjörinn í nóvember sl.

Þingstörf töfðust og þegar loksins kom að því að afgreiða tillöguna voru fjölmargir þingfulltrúar farnir og þá aðallega landsbyggðarfólk sem átti að mæta í flug. Þannig var samþykkt á endanum að vísa tillögunni frá þótt sama þing hefði stuttu áður í tveimur atkvæðagreiðslum lýst yfir skýrum vilja til að afgreiða málið.

Þótt efinn standi eftir – að niðurstaðan hefði verið önnur ef ályktunin hefði verið afgreidd fyrr af stærri hópi – verður ekki deilt um niðurstöðuna. Svona er lýðræðið og það ber að virða.

Fimm ótrúlega sterkar konur sem ég hef verið samferða í forystu félagsins undanfarin ár lögðu fram tillöguna. Hún var hófstillt og ætlað að skapa sátt um nýjan formann KÍ. Engir dómar voru felldir og í henni var ekki tekin afstaða til mála formannsins. Þessar konur eru heiðarlegar og ekki er til í þeim illt bein.  Tillagan var ekki hluti einhverrar valdabaráttu innan KÍ – slíkri orðræðu er líklega ætlað að beina sjónum fólks frá kjarna málsins.  KÍ er lýðræðislega upp byggt og aldrei hef ég orðið vör við annað en nýliðum sé vel tekið og þeir studdir af stað í störfum sínum. Það á líka við um nýjan formann KÍ sem hefur mætt á vikulega fundi með fyrrverandi forystu og leiddur í gegnum innivði  félagsins til að auðvelda honum að taka við nýju starfi.

Ragnar Þór Pétursson hefur verið einn harðasti gagnrýnandi á störf Kennarasambands Íslands og forystu þess undanfarin ár.

Verkefni Ragnars verður að fara fyrir nýrri stjórn KÍ sem er jú skipuð að mestu þeim fulltrúum sem hann áður hefur gagnrýnt fyrir störf sín.

Það er áskorun fyrir nýjan formann að vinna sér traust þeirra sem hann mun starfa með á komandi árum, það þarf hann að gera svo stjórnin hans verði starfhæf.

Nýr formaður Kennarasambands Íslands verður nú talsmaður kennara á öllum skólastigum. Ásýnd hans og orðræða skiptir nú máli.  Hann þarf að vanda orð sín, ekki bara í garð verðandi samstarfsfélaga sinna heldur líka í garð stjórnvalda, bæði kjörinna fulltrúa og starfsmanna stjórnsýslunnar.

Gott fólk í öllum flokkum innan sveitarstjórna og á Alþingi vill samfélaginu vel. Launastaða kennara er ekki eins og raunin er af illvilja þeirra sem eru í forystu samfélagsins. Skýringarnar eru margir samverkandi þættir sem samfélagið allt þarf að glíma við.

Þótt okkur greini á verðum við að gæta orða okkar.

 

Nú er bara að horfa fram á veginn. Gomma og glás af verkefnum framundan sem vinna sig ekki sjálf.

Þau sem nú hverfa af vettvangi stéttarbaráttu kennara hafa kennt mér gríðarlega margt. Öll hafa þau auðvitað galla eins og allir en líka mikla mannkosti hvert á sinn hátt. Styrkleikar þeirra eru mismunandi en öll hafa þau staðið í brúnni fyrir okkur, tekið slagina fyrir okkur og andvökunæturnar þegar á móti hefur blásið.

Ég hef alveg bakið og beinin til að bera þá gagnrýni sem á mig hefur verið borin, er í grunninn kjaftfor og hvatvís (eins og Gunnar Birgisson lýsti mér einhverntímann) og get verið óvægin ef mér misbýður. En eftir áralanga reynslu í forystustörfum hef ég lært gríðarlega margt og er oft ósammála sjálfri mér frá fyrri tíð, það er svo margt dásamlegt við þetta líf – eitt af því er læra af reynslunni.

Gangi okkur öllum vel – við förum þetta ekki á hnefanum og reiðinni – við förum þetta á skynseminni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.4.2018 - 14:11 - Rita ummæli

Er þöggun í Kennarasambandinu?

 Ég hef alltaf staðið með sjálfri mér og sannfæringu minni. Að líta ekki undan.

Þessvegna hef ég óhrædd gagnrýnt málflutning verðandi formanns KÍ, Ragnar Þór Pétursson, sem hefur á köflum farið mikinn í fjölmiðlum, farið með rangfærslur og ósannindi ef því er að skipta.

Ragnar fullyrðir að ég sé hluti af valdaelítu félagsins og gagnrýni mín beinist að því að koma í veg fyrir að hann taki sæti sitt.

Það gengur ekki að formaður Kennarasambandsins  hafi ekki óskorað umboð. Ragnar Þór fékk góða kosningu en það var áður en ungur drengur steig fram og ásakaði hann um blygðunarsemisbrot. Ragnar hefur auk þess ítrekað farið með ósannindi í tengslum við málið.

Ekki skulum við hengja saklausan mann – en við megum heldur ekki líta undan.

Rétt í þessu kom fram tillaga um að endurtaka kosningu til formanns KÍ. Hófstillt yfirveguð og málefnaleg tillaga sem gefur Ragnari tækifæri til að styrkja umboð sitt í nýrri kosningu verði tillagan samþykkt.

Auðvitað er ekkert af þessu undan mínum rótum runnið og ekki mun ég bjóða mig fram gegn Ragnari nýti hann það tækifæri sem honum stendur til boða að endurnýja umboð sitt.

Það er því dapurlegt að stuðningsmenn Ragnars fari nú mikinn á þinginu í tilraun til að koma í veg fyrir að tillagan verði borin upp og um hana greidd atkvæði í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Það er lítill lýðræðisbragur á því og ekki til að styrkja stöðu verðandi formanns.

Við hvað eru stuðningsmenn Ragnars hræddir?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.3.2018 - 08:45 - Rita ummæli

Til hamingju með daginn strákar.

Ég er alin upp við það að ekkert fjall er ókleift. Engin þraut óleysanleg og mér eru allir vegir færir. Samt alin upp af foreldrum fæddum á fyrsta þriðjungi síðustu aldar þar sem verkaskipting var skýr. Þeim tókst samt sem áður að steypa mig í eitthvað allt annað mót en skóp þau sjálf.

Pabbi minn, af gamla skólanum hvatti mig alltaf til allra verka. Þegar þau byggðu húsið sitt í Garðabænum fylgdi ég pabba mínum eins og skugginn. Ég hjálpaði honum að draga í rafmagnið, naglhreinsa, slá frá, einangra, leggja pípulagnir, glerja …

Og með pabba lærði ég til þessara verka sem áður voru karllæg. Þetta gerði það að verkum að ég lærði að munda borvél, sög og skrúfjárn, er þannig sjálfbjarga með flest smáverk á heimilinu.

Mamma mín, hvers hlutverk var annað á heimili gamla skólans, sagði alltaf við mig „Guðríður mín, vertu alltaf sjálfstæð. Búðu svo um hnútana í þínu lífi að þú getir tekið allar ákvarðanir á þínum forsendum og verðir engum háð, fjárhagslega“ Ef þú ert fjárhagslega sjálfstæð ertu leiðtogi eigin lífs.

Að morgni alþjóða baráttudags kvenna leiddi ég hugann að þeim mömmu og pabba sem kenndu mér margt mikilvægt hvort á sinn hátt. Trúna á sjálfa mig innrættu þau mér frá mismunandi sjónarhornum. Að standa á rétti mínum og ráða för í eign lífi var mér innrætt frá barnsaldri. Hvorki pabbi eða mamma settu á mig kynjastaðal.

Og það kannski kristallar þá staðreynd að baráttan fyrir réttindum kvenna er ekki kvennabarátta. Hún er mannréttindabarátta, okkar allra og þar er hlutverk karla ekki síður mikilvægt.

Það er okkar allra að byggja samfélag og breyta viðhorfum sem gera öll fjöll kleif fyrir alla óháð kyni.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.2.2018 - 10:15 - Rita ummæli

Hlutverk menntakerfisins í #metoo byltingunni

Stundum er sagt að ein kynslóð þurfi að fæðast og deyja til að breyta samfélagi. Erfitt getur reynst að breyta gömlum rótgrónum viðhorfum en það er alls ekki vonlaust. Meðvitað og ekki síður ómeðvitað hefur konum verið ætlað ákveðið hlutverk í öllum samfélögum heimsins og settar skör lægra en karlar. Staðalmyndir kynjanna eru þrálátir vegatálmar á leið okkar til jafnréttis. Nú síðast hefur kastljósinu verið beint að niðrandi orðræðu í garð kvenna ásamt kynferðislegri áreitni og ofbeldi í ýmsum myndum, meðal annars ómeðvitaðri smættun undir myllumerkinu #MeToo

Alvara málsins er mismikil á heimsvísu. Staða kvenna er víða skelfileg. Konur eru víða beittar skelfilegu ofbeldi, bæði likamlega og andlega.  Hér á Íslandi hafa verið stigin mikilvæg skref til að styðja jafnréttisbaráttu kvenna. Lög um kynjajöfnun í nefndum og ráðum hins opinbera hafa verið sett sem og ákvæði um kynjajöfnun í stjórnum fyrirtækja. Þegar þessi skref voru stigin var það ekki gagnrýnislaust. En það hefur sýnt sig að á meðan við erum að vinna gegn rótgrónum viðhorfum samfélagsins um staðalmyndir og kynjahlutverk verðum við að setja kvóta og staðla því til stuðnings.

En kynjakvótar og lagabálkar breyta ekki rótgrónum viðhorfum sem við höfum fengið í arf frá forfeðrum okkar. Viðhorf um hlutverk kynjanna, staðalmyndir, hegðun og orðræða er á margan hátt ómeðvituð. Og því ætlum við sem samfélag að fylgja #metoo-byltingunni eftir af fullum þunga. Þessi bylgja mun ekki brotna við ströndina og verða að engu. Þennan öldufald ætlum við að nýta til að breyta samfélaginu varanlega.

Og þetta er ekki einkamál okkar kvenna. Þetta er mál samfélagsins alls. Við erum saman í liði og ætlum að breyta samfélaginu. Konur og karlar. Af því þetta er verkefni okkar allra. Og er þá hlutverk skólasamfélagsins líklega mikilvægast af öllu. Kennarar á öllum skólastigum gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að móta einstaklingana sem byggja þetta samfélag.
Við þurfum skipulega og markvissa kynjafræðslu á öllum skólastigum, frá leikskóla til loka framhaldsskóla. Líkt og við erum öll íslenskukennarar, erum við öll kynjafræðikennarar. Ungir drengir eiga að alast upp við það að það eru mörk í samskiptum kynjanna. Ungar stúlkur eiga að geta treyst því að þeirra mörk séu virt. Öll eiga þau að vera meðvituð um að kyn á ekki að setja okkur ramma eða reisa girðingar.

Og skólar, vinnustaðir og stéttarfélög þurfa að koma sér upp aðgerðaáætlun og verklagsreglum sem tryggja að allir sem hafa #metoo-sögu að segja geti komið henni frá sér. Hlutverk okkar kennara er því ekkert smáræði. Það er í okkar höndum að breyta samfélaginu. Allt byrjar og endar með góðum kennara og sterku menntakerfi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.1.2018 - 09:52 - Rita ummæli

Skipun dómara – hvað má gera betur?

Það má læra mikið af nýlegum skipunum dómara.  Fyrst og síðast hlýtur að vera augljóst að lögunum þarf að breyta. Skipun dómara VERÐUR að vera hafin yfir allan vafa.

Eins og lögin eru í dag, ber dómsmálaráðherra að skipa dómara skv. tilmælum hæfisnefndar.  Fylgi ráðherra mati hæfisnefndar ber honum ekki að leita samþykkis Alþingis. Þannig eru lögin.

 

En EF dómsmálaráðherra ákveður að ganga gegn tillögum hæfisnefndar, verður ráðherra að leggja slíka ráðstöfun fyrir Alþingi sem hefur síðasta orðið. Líklega er hér um varnagla að ræða til að tryggja að dómsmálaráðherra geti ekki skipað dómara af eigin geðþótta án málefnalegra sjónarmiða.

En … …

Dómstólasýslan skipar þrjá menn í nefnd um dómarastörf, einn tilnefndan af dómarafélagi Íslands, annan frá lagadeild íslensks háskóla og þann þriðja án tilnefningar.  Það er réttmæt gagnrýni í mínum huga að þarna sé ákveðin „kreðsa“ að velja í stéttina. Það hefur sýnt sig að mat nefndarinnar er sko alls ekki yfir gagnrýni hafið.  Það er ekki gott.

Það er heldur ekki gott ef dómsmálaráðherra gengur gegn mati nefndarinnar og skipar aðra en nefndin telur hæfasta. Hver svo sem rökin eru fyrir slíku vekur það tortryggni ef Alþingi samþykkir svo slíka ráðstöfun samkvæmt pólitískum línum meirihlutans í þinginu.

Nú höfum við fordæmi fyrir þessu. Dómsmálaráðherra sem gekk gegn áliti hæfisnefndar og lagði breyttar tillögur fyrir Alþingi. Samþykkið fékk ráðherra frá Alþingi þar sem þingmenn samstarfsflokkanna í ríkisstjórn lögðu henni lið.

Ekkert af þessu er gott.  Það er einfaldlega fráleitt að setja dómsmálaráðherra í slíka stöðu. Það er líka fráleitt að skipan dómara fylgi pólitískum línum Alþingis.  Það er líka vont ef ein stétt í landinu hefur allt að segja um það hverjir eru skipaðir dómarar.

Eins og staðan er núna er aðskilnaður framkvæmdavalds og dómsvalds ekki tryggður. En sá aðskilnaður er einn af hornsteinum lýðræðisins.

Það væri skynsamlegt að endurskoða lög um skipan dómara. Fjölga einstaklingum í matsnefndinni og kalla til liðs aðra en lögfræðinga og dómara. Þar gætu t.d. átt sæti tilteknir aðilar úr forystu íslensks samfélags. T.d. forseti ASÍ, Tveir þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu, Umboðsmaður Alþingis, bara svona til að nefna eitthvað. Niðurstaða hæfisnefndar sem er skipuð einstaklingum með breiðan bakgrunn og þekkingu sem skilar samdóma áliti til dómsmálaráðherra hlýtur að njóta meira trausts í samfélaginu. Alþingi ætti svo alltaf að fjalla um niðurstöðuna án sérstakrar aðkomu dómsmálaráðherra.

 

_____________________________________

Ég var í mjög áhugaverðu spjalli á Sprengisandi síðasta sunnudag 7. janúar. Sirrý Hallgrímsdóttir og Smári McCarthy sátu með mér þar sem við fórum yfir fréttir síðustu viku.

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP59958

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP59959

 

Þessi pistill fæddist í kjölfarið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.12.2017 - 15:02 - Rita ummæli

Biskupinn og íslenska þjóðkirkjan

Ég er ein tæplega 240 þúsund íslendinga sem er skráð í Þjóðkirkjuna. Til viðbótar eru þúsundir aðrir íslendingar sem tilheyra öðrum kristnum samfélögum. Við erum því sannarlega kristin þjóð, að minnsta kosti á blaði.

Við fjölskyldan eigum okkar barnatrú, við leitum til guðs þegar á móti blæs því þá er gott að eiga bakland í æðri mætti.

En þótt við eigum þetta góða samband við guð almáttugan get ég nú ekki sagt að ég sé kirkjurækin. Börnin voru skírð og fermd en utan einstaka brúðkaups og jarðafara mætum við almennt ekki í kirkju.

Þó brá svo við að um þessi jól fórum við tvisvar í messu í kirkjunni okkar, Lindakirkju.

Jólamessan kl 18 á aðfangadag var með hefðbundnu sniði og á annan í jólum mættum við í sveitamessu sem var sannkölluð veisla fyrir hug og hjarta. Þarna sátum við í andakt og hlustuðum á fallega tónlist, hugljúfa hugvekju prestanna okkar og sátum ögn nærri almættinu með hugsunum okkar. Einhvernvegin voru þessar stundir til þess að við fundum það fallega í sálinni, við fundum auðmýktina og þakklætið sem stundum gleymist í öllum látum hversdagsins.

Prestunum okkar í Lindakirkju hefur nefnilega tekist með eindæmum vel að færa kirkjustarfið til unga fólksins, með Óskar Einarsson og kór Lindakirkju sér til stuðnings. Popptónlist miðalda hefur vikið til hliðar fyrir nútímatónum og léttari tónlist sem höfðar frekar til yngra fólks. Og prestarnir okkar í Lindakirkju sinna starfi sínu af alúð, umhyggju og auðmýkt.

Og um allt land er magnað starf í gangi á vegum kirkjunnar þar sem prestarnir leggja sig fram um að laða fólk að kirkjunni, já hreinlega lokka okkur hálfheiðingjana í messu. Stuðningur við syrgjendur, fólk sem glímir við veikindi, erfiðleika og fátækt er mikilvægt hlutverk presta.

En það er svo dapurlegt að allt þetta góða starf gleymist þegar við fáum fréttir af biskipi sem þiggur milljón í dagpeninga fyrir að skrifa eitthvað tveggja blaðsíðna umburðabréf í útlöndum. Biskup sem telur ljótt að “stela gögnum” til að afhjúpa sannleikann. Biskup sem kvartar yfir lélegum launum og biskup sem kvartar yfir því oki sem á hana er lagt að borga 90.000 kr mánaðarleigu fyrir tæplega 500 fm hús á besta stað í miðbænum.

Því miður fækkar í þjóðkirkjunni þegar biskupinn yfir Íslandi hefur upp raust sína.

Árið 2013 var Agnes Sigurðardóttir gagnrýnd harkalega fyrir skort á stuðningi við baráttu hinsegin fólks. Frekar en næra það ófriðarbál með því að tjá mig opinberlega sendi ég henni tölvupóst með hugleiðingum mínum um framgöngu hennar og orðræðu. Minn guð er nefnilega fordómalaus og faðmur míns guðs er öllum opinn.
Agnes sá sér ekki fært að svara annars málefnalegum og réttmætum hugleiðingum mínum og ég var nær því en nokkruntíma að segja mig líka úr þjóðkirkjunni.

Það er svo mikilvægt fyrir kirkju sem á undir högg að sækja að forysta hennar sé hafin yfir allan vafa. Að ásýnd æðsta embættismanns guðs í þessu landi sé auðmýkt og fordómaleysi. Það má vel vera að biskup sé að vinna gott starf innan kirkjunnar sem fer hljótt. En út á við eru það þessi orð og verk sem móta skoðun samfélagsins á embættinu og kirkjunni.

Agnes segir sjálf að hún hafi ekki verið að fá jólabónus og kauphækkun fyrir þessi jól, heldur embættið. En embætti biskups yfir Íslandi verður aldrei stærra en sá einstaklingur sem embættinu sinnir. Og hvers vegna situr Agnes í embætti biskups? Vonandi vegna þess að hún telur kirkjuna betur setta en ekki með hana í embætti. En er umdeildur biskup það besta fyrir þjóðkirkjuna?  Kannski væri rétt af Agnesi að stíga til hliðar og fela öðrum að sinna þessu starfi, leyfa kirkjunni að njóta vafans og byggja að nýju upp traust og trú samfélagsins á þjóðkirkjuna. Það er allavega tilefni fyrir Agnesi að hugleiða núna hvernig hún vinnur kirkjunni okkar mest og best gagn. Með því að vera eða fara? Þar er efinn.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.12.2017 - 09:08 - Rita ummæli

Pilsfaldur Kjararáðs

„Biskupinn bað um launahækkun með bréfi og fékk milljónir afturvirkt“ Kjararáð varð við beiðninni og ákvarðaði launahækkun biskups sem nemur 18 prósenta launahækkun.  Jólabónusinn er 3,3 milljónir.

 

Ég ætla alveg að láta liggja á milli hluta hvort laun biskups séu há eða lág.  Það sem skiptir máli í þessu sambandi er sú móralska niðurstaða að kjararáð hefur úrskurðað launahækkanir til elítu þessa lands langt umfram það sem almenningi býðst innan rammasamkomulags um launaþróun.

Já það er sjálfsagt flestum ljóst að höfrungahlaup á vinnumarkaði mun bara brenna upp ávinning síðustu góðæra. Stöðugleiki á vinnumarkaði skiptir okkur máli sem og öguð vinnubrögð við samningaborðið.

 

En hvernig ætla stjórnvöld að halda því til streitu að laun almennings í landinu hækki ekki nema pínkulítið og smá þegar Alþingi sagði já takk við sambærilegum launaákvörðunum kjararáðs?

Kannski að barátta kennara ætti að snúast um að komast undir pilsfald kjararáðs. Þar er gott að vera, hlýtt og notalegt og ekkert helvítis karp um kaup og kjör.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.12.2017 - 20:26 - Rita ummæli

Dylgjur verðandi formanns KÍ – viðbót

.

Í aðdraganda þess að nýr formaður Kennarasambands Íslands var kosin mátti undirrituð þola frádæma skítkast og óhróður frá stuðningsmönnum nýkjörins verðandi formanns. Ég kaus að láta dylgjum og lygum ósvarað en vann þess í stað að framboði mínu á mínum forsendum, kynnti fyrir félagsmönnum sjálfa mig, áherslur mínar og talaði aldrei til mótframbjóðenda minna. Það hefði líklega ekki þótt smekklegt ef ég hefði farið að ræða gamla ásökun á hendur Ragnari um að misbjóða nemanda sínum enda hafði maðurinn farið mikinn í fjölmiðlum á sínum tíma að bera af sér sakir sem hann sagðist ekki hafa hugmynd um hverjar voru og taldi fullvíst að illa innrættur óvildarmaður bæri sökina.

Ég tapaði, varð fúl í einn dag en svo heldur lífið áfram. Nú aftur á móti berast mér upplýsingar um að á lokuðum spjallvefjum kennara séu þessir sömu aðilar enn við sama heygarðshornið. En núna á það að vera undan mínum rifjum runnið að ungur maður sakar verðandi formann KÍ um misnotkun. Ungur maður sem ég þekki ekki neitt, steig fram og sagði sögu sína. Og nú er því haldið fram af þessum sömu aðilum að slíkt hafi verið gert í þeim tilgangi að hafa áhrif á kosningu varaformanns sem stendur nú yfir en þessir sömu aðilar halda uppteknum hætti og ætla að koma Ásthildi Lóu Þórsdóttur stuðningsmanns og bandamanns Ragnars í sæti varaformanns við hlið hans.

Ég er nú búin að bíta í tunguna á mér undanfarna daga vitandi það að allt sem ég segi verður lesið í ljósi þess að ég tapaði fyrir Ragnari Þór. En það er ekki hægt að sitja undir þessu rugli lengur. Ragnar Þór og hans helstu stuðningsmenn reyna að klína þessu ömurlega máli á mig og stjórn KÍ.

Í pistli sínum frá 4. Desember segir hann því ósatt í málsvörn sinni.

https://stundin.is/blogg/maurildi/formannsstaan-i-ki/

A) Ragnar tjáir sig fyrst um þetta mál 14. Október þegar fyrrverandi starfsmaður Norðlingaskóla kemur fram í tengslum við metoo byltingu á Facebook. Þar kom í fyrsta sinn fram að á sínum tíma var ekki um nafnlausa ábendingu að ræða heldur kæru til lögreglu. Ragnar Þór lýsti yfir framboði sínu 2. Október. Svo það er ekki rétt sem Ragnar fullyrðir að hann hafi sett þetta allt upp á borð í upphafi síns framboðs.

B) Ragnar Þór tilkynnti aldrei stjórn KÍ um þetta mál þegar það kom upp á sínum tíma árið 2013. Hvorki til formanns KÍ eða stjórnar. Ekkert var fjallað um þetta mál á stjórnarfundum KÍ – það er ekki flóknara en fletta upp fundargerðum til að sjá það.

C) Þannig að þegar Ragnar fullyrðir að þetta mál hafi legið á borðinu í þeirri mynd sem það er í dag er það ósatt.

Ragnar talar um að hann hafi verið “hrottalega heiðarlegur” já það er líklega satt því kannski er óheiðarleikinn einmitt hrottalegur heiðarleiki. Ragnar Þór hikaði alla vega ekki við að bera á mig dylgjur og ósannindi.

Ég bið þá kennara sem þetta lesa að deila þessu á spjallþræði kennara af öllum skólastigum, okkur í stjórn KÍ er nefnilega meinaður aðgangur að flestum þeim síðum og okkur þar með ekki gefin kostur á að bera af okkur sakir.

 

Viðbót vegna viðbragða Ragnar þórs Péturssonar 8. desember:

https://stundin.is/blogg/maurildi/i-tilefni-af-fullyringum-guriar-arnardottir-formanns-ff/

Eins og kemur fram í bréfinu sem Ragnar birtir er það stimplað trúnaðarmál og beint til Félags Grunnskólakennara. Þar með auðvitað er innihald þess undir trúnaði og var ekki lagt fram í stjórn KÍ. Formaður FG fór hins vegar yfir beiðni um fjárstuðning á fundi stjórnar KÍ 17. október 2014 sem var efni bréfsins. Það var því enginn í stjórn KÍ sem var upplýstur um innihald bréfsins umfram það sem hafði verið fjallað um í fjölmiðlum af Ragnari sjálfum. Ragnari er auðvitað kunnugt um að erindum sem er beint til tiltekins aðildarfélags undir trúnaði er ekki vísað annað, hvorki til stjórnar eða annara aðildarfélaga. Svo annað hvort talar hann gegn betri vitund eða af vanþekkingu um uppbyggingu Kennarasambands Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.11.2017 - 13:49 - Rita ummæli

Desemberuppbót elítunnar.

Desemberuppbótin er að einhverju leyti hugsuð með jólin í huga. Desember er fyrir flesta dýr mánuður, þá gera flestir betur við sig en alla jafna.

 

Desember uppbót ríkisstarfsmanna og almennt á vinnumarkaði er 86 þúsund krónur í ár. Auðvitað dregst frá því skattur eins og af öðrum launum.

 

Þeir hópar sem falla undir kjararáð fá aftur á móti ríflega tvöfalda þá upphæð og um og yfir 200 þúsund krónur.

 

Einhverjir hafa verið að gagnrýna kjararáð fyrir þessa ráðstöfun. Á sama tíma og almenningi í landinu er ætlað að axla efnahagslega ábyrgð með hófstilltum launahækkunum og jafnvel engum launahækkunum tryggir kjararáð æðstu embættismönnum íslenska ríkisins ágæta afkomu með myndarlegum launahækkunum.

 

2007 er nefnilega komið aftur.

 

Og ég skil það bara mæta vel að fólk sem er vant því að vera með eina og hálfa milljón á mánuði nenni ekki að taka við þessu lítilræði sem almenna desember uppbótin er.

 

 

Það reyndar tekur því varla að taka við tvöhundruðþúsund kallinum sem rétt dugar fyrir hreindýralundum og sæmilegu kampavíni á aðfangadag.

 

 

Þeir sem eru vanir því að eiga nógan pening vilja líka gera vel við sig í mat og drykk. Og ef þú ert vanur því að borða nautasteik á sunnudögum með góðu rauðvíni þá dugar nú ekkert minna en hreindýr og humar til hátíðarbrigða. Og það kostar.

 

(og þetta er kaldhæðni hafi einhver ekki áttað sig á því)

 

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is