Mánudagur 06.02.2017 - 16:19 - FB ummæli ()

Borgin byggir ekki 300 stúdentaíbúðir

Fyrirsagnir geta oft verið mjög villandi sem er miður því margir lesa eingöngu fyrirsagnir og telja þær réttar.  Á ruv.is birtist frétt 12. janúar síðastliðinn með fyrirsögninni. „Borgin byggir 300 stúdentaíbúðir á næstu árum“. Á myndinni sem birtist með fréttinni mátti sjá borgarstjóra úti á túni sitjandi við borð um hávetur á snæviþakinni jörð skrifa undir viljayfirlýsingu við Byggingarfélag námsmanna.

Lóðunum úthlutað á 10 ára tímabili
Í fréttinni kom hvorki fram að borgin ætlar að úthluta Byggingarfélagi námsmanna þessum lóðum fyrir 300 stúdentaíbúðir á allt að 10 ára tímabili né að Byggingarfélag námsmanna ber bæði að greiða gatnagerðargjald og byggingarréttargjald fyrir lóðirnar. Í viljayfirlýsingunni segir að verð byggingarréttar fari „eftir mati á markaðsverði, sbr. lög um stofnframlög.“

Reykjavíkurborg hefur hingað til ekki innheimt byggingarréttargjald af lóðum fyrir stúdentaíbúðir heldur einungis gatnagerðargjald. Þessi nýja gjaldtaka kemur til vegna nýrra laga sem kveða á um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga.

Snúningurinn á stofnframlaginu
Samkvæmt lögunum sem bera heitið lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016, er meginreglan sú að stofnframlag ríkisins skal nema 18% af stofnvirði almennrar íbúðar og stofnframlag sveitarfélags skal nema 12% af stofnvirði almennrar íbúðar. Samkvæmt lögunum getur stofnframlag sveitarfélaga falist í beinu framlagi, úthlutun lóðar eða lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda ber að standa skil á til sveitarfélagsins vegna íbúðanna.

Fyrir gildistöku laganna var lóðum úthlutað undir stúdentaíbúðir gegn greiðslu gatnagerðargjalds. Nú ætlar borgin hins vegar einnig að leggja byggingarréttargjald á lóðir fyrir stúdenta sem verður þá framlag borgarinnar á grundvelli laganna, þ.e. lagt verður á byggingarréttargjald og það fellt niður enda nemi það 12% af stofnvirði íbúðar.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 2. febrúar 2017)

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is