Laugardagur 18.11.2017 - 09:41 - 2 ummæli

Næsta ríkisstjórn Íslands

Næsta ríkisstjórn landsins sem hér segir:

Vinstri hreyfingin – grænt framboð:

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra

Lilja Rafney Magnúsdóttir, velferðarráðherra

Framsókn:

Sigurður Ingi Jóhannsson, utanríkisráðherra

Ásmundur Einar Daðason, landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra

Lilja Alfreðsdóttir, samgöngu- og sveitastjórnaráðherra

Sjálfstæðisflokkurinn:

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar­ráð­herra

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.11.2017 - 06:57 - 17 ummæli

Leysum umferðarhnútana á höfuðborgarsvæðinu

Það er einkennandi fyrir íslenska blaðamenn – sem nær allir eru sósíalistar, umhverfissinnar og andsnúnir bílum – að það sé álitið sérstakt vandamál að íbúar höfuðborgarsvæðisins noti bíla en ekki almenningssamgöngur. Ekki er talað við Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Bílgreinasambandið eða aðra hagmunagæslumenn þeirra sem aka til vinnu sinnar og annara athafna daglega á bíl, heldur látið nægja að taka viðtal við formann „Samtaka um bíllausan lífstíl“.

Bílar munu innan nokkurra ára ekki verða það mengunarvandamál sem þeir eru í dag, þar sem rafmagnsbílar munu yfirtaka hlutverk bensín- og dísilbíla. Umferðarvandamál höfuðborgarinnar er ekki aukinn bílafjöldi, heldur að engar vegaframkvæmdir hafa átt sér stað í höfuðborginni í 20-30 ár. Reykjavík var því miður byggð og skipulögð eins og bandarísk borg, byggðin afskaplega dreifð og fólk því háð einkabílasamgöngum. Þétting byggðar – sem ég fagna – mun ekki breyta miklu, skipulagið er komið til að vera.

Almenningssamgöngur hafa aldrei og munu aldrei leika það stóra hlutverk sem þær gera í þéttbýlum borgum Evrópu, þar sem þétt net strætisvagna, sporvagna, neðanjarðarlesta og annarra lesta sjá að miklu leyti um samgöngur. Að fara af stað með grundvallarbreytingar á samgöngukerfinu rétt áður en við taka sjálfkeyrandi rafmagnsbílar er fáránleg hugmynd, næstum eins fárán og að reisa risastórt sjúkrahús í miðborginni og fórna plássi þar fyrir flugvöll, þar sem nokkrar einkaflugvélar hefja sig á loft og flugskólanemar spóka sig.

Það sem þarf að gera er að lagfæra samgöngukerfið innan borgarinnar fyrir bíla með fjölgun akreina, mislægum gatnamótum, brú frá Garðabæ yfir Álftanes og og niður í miðbæ auk þess að klára hina langþráðu Sundabraut. Að auki þarf að bora önnur göng í Hvalfirði og leggja hraðbraut alla leið á Borgarnes og alla leið á Jökulárlón auk hraðbrauta á Þingvelli, Geysi og Gullfoss og ekki má gleyma almennilegum malbikuðum vegi yfir Kjöl og góðum vegi yfir Sprengisand auk þess að bæta vegi á Vestfjörðum, Landmannalaugum, Ásbyrgi, Dettifoss og Fjallabaksleið.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.11.2017 - 11:33 - 1 ummæli

Leiftursókn Suðurnesjamanna

Næsta skref sameininga á Suðurnesjum er væntanlega að Reykjanesbær (Njarðvíkurhverfi, Keflavíkurhverfi, Hafnahverfi) sameinist hinum nýju Sand-Görðum og að auki Vogunum og að á næstu árum verði úr því bæjarfélagi eitt það öflugasta eða jafnvel það öflugasta í landinu öllu með um 40-50 þúsund íbúa; öfluga lestar- og hraðbrautartengingu við höfuðborgina, stærsta vinnustað landsins (Keflavíkurflugvöllur), Bláa lónið, fjölda hótela, veitingastaða, bílaleiga, rútufyrirtækja, orkuframleiðslu og orkutengdan iðnað auk stórra fiskveiðihafna.
Á tímabilinu 2008-2015 var hagvöxtur langmestur á Suðurnesjum þegar litið er til landsbyggðarinnar eða um 8%. Á árunum 2013-2015 var árlegur hagvöxtur á Suðurnesjum að jafnaði 7% á ári og hann er að sjálfsögðu enn meiri á árunum 2016-2017 (meiri fjöldi ferðamanna), líklega 10-15% á hvoru ári fyrir sig, sem er meira en t.a.m. í Kína eða öðrum þeim stöðum þar sem hagvöxtur er hvað mestur í heiminum. Segja má að Suðurnesin hafi með þrotlausri vinnu snúið við neikvæðri þróun eftir að kvótinn og varnarliðið yfirgáfu okkur í jafn jákvæða þróun og sást hér þegar blessaður kaninn kom.
Fólksfjölgunin er gríðarleg en 1. janúar 2017 voru á Suðurnesjum um 24 þúsund íbúar (17 þúsund í Reykjanesbæ), en fjölgunin hefur verið um 7% á ári, þannig að þær tölur sem ég nefni hér um 40-50 þúsund íbúa gætu ræst á 10-15 árum með sama áframhaldi. Með auknum hagvexti og auknum fólksfjölda hafa tekjur Reykjanesbæjar aukist um tugi prósenta og „fjárhagslegu hættuástandi“ hefur verið aflýst. Merki velgengninnar má sjá þar sem fólk er aftur byrjað að dytta að húsum sínum, umferð hefur aukist og sveitarfélagið byrjað á uppbyggingu innviða.
Mestu gleðifréttirnar eru þó að við höfum rekið atvinnuleysið á brott frá Suðurnesjunum, en það var hvorki létt verk né löðurmannlegt, þar sem atvinnuleysið var á bilinu 14-16% árið 2009. Núna er atvinnuleysið nánast ekkert eða 1,3% í Grindavík og um 2% í Reykjanesbæ, sem segja má að sé fullt atvinnustig. Máli mínu til stuðnings nægir að nefna skv. upplýsingum frá ISAVIA verða árlega til um 1.500 ný störf á Keflavíkurflugvell, en við þetta bætast störf á hótelum og veitingastöðum í bænum og öðrum orkutengdum iðnaði, líklega um 2.000 störf á ári.
Það er líklega hvergi bjartari framtíð en á Suðurnesjunum þessa dagana!
Skýrsla Íslandsbanka um Suðurnes:

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.11.2017 - 07:40 - 3 ummæli

Ný ríkisstjórn og Víkingahúsdýragarðurinn þeirra

Auðvitað verður fyrsta verk nýrrar bænda- og útgerðarmannaríkisstjórnar Framsóknarflokks, VG og Sjálfstæðisflokks að byggja nýjar fjárréttir við þjóðveginn, endurnýja fjárhús og fjós íslenskra kotbænda og byggja ný sláturhús í öllum landsfjórðungum, fjölga síðan til muna rollum og beljum í landinu og auka niðurgreiðslur til bænda svo um munar.

Skattar á útgerðina lækka en minna verður um byggingu nýs sjúkrahúss, nýrra íbúða fyrir unga fólkið eða að peningar verði settir í nýtt sjúkrahús, vegakerfið eða menntun og rannsóknir, því þessir flokkar elska agnarsmá landnámshænsni, smáar landnámsgeitur, íslenska hunda, litlar og krúttlegar landnámsbeljur auk landnámsrollna. Landbúnaður hér er einn risastór víkingahúsdýragarður en ekki alvöru búskapur.

Landnámsþjóðin fær afturhaldskommatitta ríkisstjórnina, sem hún kaus yfir sig og þá þjóðlegu ríkisstjórnarstefnu sem þessir stjórnmálaflokkar vilja, sem er afturhvarf til Íslands eins og það var á 19. og fyrri hluta 20. aldarinnar og skulum við allavega vona að vistarbandið verði ekki endurvakið og togararnir hverfi ekki í stað áttræringa og handfæra.

Einkennilegt nokk er Sjálfstæðisflokknum, VG og Framsókn hins vegar ekki sérstaklega hlýtt til afkomenda landnámsmannana.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.11.2017 - 07:08 - 8 ummæli

Framsókn: Bættir innviðir fyrir rolluna

Ég hef góðar heimildir fyrir því að Framsóknarflokkurinn vilji ekki samstarf við Viðreisn vegna þess hvernig við komum fram við rollurnar þeirra varðandi niðurgreiðslur og við hið heilaga útflutningsbóta-kjötfjall, sem færa átti til Bandaríkjanna á kostnað skattgreiðenda.

Hér kemst sem sagt einungis ríkisstjórn á koppinn nema að rollurnar fá nægilega margar trilljónir og að útflutningsbætur flæði og markaðssetningu erlendis; skítt og lagó með aldraða, öryrkja, sjúkrahúsuppbyggingu, menntamál, vegasamgöngur og annan bölvaðan lúxus.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.11.2017 - 07:48 - 5 ummæli

Stjórnarskrárbreytingar í ríkistjórnarsáttmála

Að mínu mati ætti ný ríkisstjórn að minnsta kosti að geta sæst á ákveðnar breytingar á stjórnarskránni núna, þegar ljóst ert meirihluti á Alþingi er fyrir þeim. Framsókn var ekki algjörlega þversum í því máli líkt og Sjálfstæðisflokkurinn, þótt þeir vilji kannski ekki ganga alla leið.
Þá ætti þessi ríkisstjórn að geta ráðist í nauðsynlega uppbyggingu á innviðum, sem Sjálfstæðisflokkurinn stöðvaði að mestu fyrir hrun og legið hafa niðri í 12-14 ár. Þarna á ég t.a.m. við ýmsar vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Aust- og Vestfjörðum og Norðausturlandi.
Einhverjar hófsamar hækkanir þarf að gera á elli- og örorkulífeyri, stíga fyrstu skrefin í átt að uppbyggingu Landspítalans og marka leiðina að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn. ESB-málin er allt í lagi að láta bíða þar til fleiri landsmenn kjósa að ljúka þessum viðræðum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.10.2017 - 17:44 - 19 ummæli

Misvægi atkvæða – landsbyggðin ræður ríkjum

Eftir að hafa sofið á þessu í tvær klukkustundir síðdegis, komst ég að þeirri niðurstöðu, að enn einu sinni hafi misvægi atkvæða haft gríðarleg ólýðræðisleg áhrif og valdið lýðræðishalla, sem er óverjandi árið 2017. Ástandið lagaðist þó aðeins með þingkosningalögunum frá árinu 2000.
Að landsbyggðin – þar á meðal ég hér í Reykjanesbæ – hafi allt að tvöfaldan atkvæðisrétt á við Reykjavík og Suðvesturkjördæmi, skekkir myndina á kostnað ákveðinna stjórnmálaflokka, sem njóta meira fylgis í á Suðvesturhorninu en á landsbyggðinni. Þetta er ólíðandi.
Þannig tapa Samfylkingin, Píratar og Viðreisn á þessu fyrirkomulagi á meðan hinir „landsbyggðarflokkarnir“ stórgræða. Niðurstaðan er auðvitað að Reykjavík og nágrannasveitarfélöginn enda uppi með ríkisstjórn, sem hefur ekki þeirra hagsmuni að leiðarljósi heldur landsbyggðarinnar.
Allar breytingar eru tabú í augum landsbyggðarinnar og hún ræður ferðinni. Hér verður því óbreytt ástand um alla framtíð, hvort sem það lýtur að landbúnaðar- eða sjávarútvegsmálum, ESB aðildarviðræðum, Reykjavíkurflugvelli eða að á höfuðborgarsvæðinu verði einhverjar vegaframkvæmdir.
Höfuðborgarbúar og nágrannasveitarfélögin eru í gíslingu núverandi kosningafyrirkomulags, sem hefur ítrekað verið gagnrýnt af Lýðræðisnefnd Evrópuráðsins (Feneyja-nefndin), sem mælt hefur með því að þetta misvægi færi ekki yfir 15% og frávikið frá meðaltali væri ekki yfir 10%.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.10.2017 - 09:29 - 3 ummæli

Selja stjórnmálamenn skrattanum sál sína?

Hafi verið erfitt að mynda ríkisstjórn fyrir ári síðan, er það að mínu mati nær ógjörningur núna. Ég sé t.a.m. ekki hvernig nokkur flokkur nema Miðflokkurinn hafi áhuga á að gefa hlutabréf í Arion banka. Eða að sumir stjórnmálaflokkar samþykki mörg hundruð milljarða kosningaloforð Samfylkingarinnar, VG og Flokks fólksins. Hvað þá að fullkomin stöðnun Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sé aðlaðandi fyrir umbótasinna innan vinstri flokkanna og á miðjunni.

Líklega hafa heldur ekki nógu margir flokkar áhuga á að fara aftur í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, til hægt sé að mynda starfhæfa ríkisstjórn, en þurfi síðan að horfa upp á hrun flokka sinna í næstu kosningum. Kannski verður minnihlutaríkisstjórn skipuð til bráðabirgða. Líklegast væri best að kjósa aftur næsta vor, þar sem að niðurstöður þessara kosninga hafa úthlutað þjóðinni Alþingi sem vegna samsetningar sinnar er ókleift að stjórna landinu nema að allir stjórnmálaflokkar selji skrattanum sálu sína.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.10.2017 - 10:57 - 28 ummæli

Miðflokkurinn: Sovésk ólígarkavæðing

Íslendingar eru afskaplega fáfróðir um mörg mál og skrítið að enginn blaðamaður skuli hafa bent á að þessar hugmyndir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Miðflokksins er endurnýting á gömlum hugmyndum Boris Jelzin við einkavæðinguna í Sovétríkjunum (Rússlandi) rétt eftir hrun Járntjaldsins fyrir um 25 árum síðan.

Á árunum 1992-1994 var hin svo nefnda „úttektarseðla einkavæðing“ (e. Voucher privatization) í gangi víða í Austur-Evrópu, þar sem almenningi var gefið tækifæri til að breytast yfir nóttu úr kommúnistum yfir í últra-kapítalista. Flestir voru fátækir og seldu sína „vouchera“ fyrir slikk. Aðeins liðu nokkur ár þangað til almenningur sá ríkidæmi olígarkanna og að allir höfðu verið blekktir.

Stjórnendur fyrirtækjanna, snjallir KGB menn en síðar erlendir auðjöfrar og auðhringir gátu þannig sölsað undir sig þau ótrúlegu auðæfi, sem fólust í hinum gríðarlegu náttúruauðlindum stærsta ríkis veraldar, Rússlands, og verksmiðjum, sem þurfti reyndar að endurbyggja að mestu að ógleymdum mörg hundruð milljóna markaði.

Ég lærði í Austur-Þýskalandi 1986-1990 og hafði því alltaf áhuga á þessum heimshluta. Ég var svo heppinn að fá í jólagjöf í fyrra bókina Eftirlýstur (Red Notice) eftir Bill Browder, sem gefin var út af Almenna bókafélaginu árið 2015, þar sem þessu er öllu saman mjög vel lýst. Fólk þyrfti að lesa þessa bók eða í það minnsta kynna sér á netinu hvernig svona kerfi virkar í raun.

https://en.wikipedia.org/wiki/Privatization_in_Russia

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=72731

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.10.2017 - 09:19 - 36 ummæli

Breytingar og lægri skatta

Gallinn við vinstristjórnir er að þegar þeir tala um sækja peninga til hinna ofurríku til að jafna þeim síðan út, svo lífskjör allra séu þau sömu, þá eru þeir fjármunir alltaf að mestu leyti sóttir til ósköp venjulegra sístritandi launþega en ekki til þeirra ríku, máttugu og spilltu.

Fögur fyrirheit um að ætla að skattleggja fólk yfir 2 milljónir breytast eftir kosningar. Þá viðurkenna vinstri menn staðreyndir, þ.e. að sú fjárhæð nægi ekki og að einnig þurfi að hækka skatta á verkakonur, kennara, hjúkrunarfræðinga, sjómenn, lögreglumenn og verslunarmanninn. Að auki höfum við í Reykjavíkurborg, Hafnarfirði, Átanesi og víðar skýr dæmi um hvernig raunveruleg fjármögnun gæluverkefna villta vinstursins snýst upp í ofurskuldsetningu sveitarfélaganna.

Ég skil mæta vel að fólk vilji ekki kjósa spillingaröflin, forneskjulega útnesja-pólitík eða hrein og klár stjórnmál vitfirringa og stjórnleysinga. En þá er einn hálfkratískur og hálfkapítalískur stjórnmálaflokkur skynsemi og yfirvegunar í boði og hann heitir Viðreisn.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is