Fimmtudagur 19.10.2017 - 09:28 - 36 ummæli

Viðreisn er eina von frjálslyndra afla

Ég man þegar ég var í fund hjá Sjálfstæðisflokknum í gamla Stapanum fyrir 12-14 árum og Geir H. Haarde hélt fyrst ræðu og fékk þann þokkalegt klapp, þótt ræðan væri ekkert sérstök og flutningurinn frekar dauflegur. Síðan steig varaformaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttirí pontu og byrjaði og það var eins og rafmagnsstraumur færi í gegnum salinn og allir sperrtu eyrun við vegna frábærrar ræðu og stórkostlegs flutnings.
Viðreisn var heppin þegar Benedikt Jóhannesson tók við flokknum, stofnaði hann og leiddi í fyrstu kosningum til einhvers mesta kosningasigurs sem nokkur nýr stjórnmálaflokkur hefur unnið í þingkosningum. Það er hins vegar ljóst að Þorgerður Katrín er stjórnmálaforingji sem getur fyllt fótspor fyrsta leiðtoga okkar og fært okkur góðan sigur í næstu kosningum. Þjóðin þarf á frjálslyndu afli á miðjunni að halda og Viðreisn er þar eini raunhæfi valkosturinn.
Ágæta frjálslynda miðju- og hægra-fólk, ef þið getið hugsað ykkur að borga 55% af laununum ykkar í skatta og lífeyrissjóð skuluð þið endilega kjósa VG, Samfylkinguna eða Pírata. Að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, sem kominn er í 19,9% fylgi og ekki nokkur stjórnmálaflokkur hefur áhuga á að vinna með, er eins og að kasta atkvæði sínu á glæ, því sá flokkur verður ekki í næstu ríkisstjórn. Eina leið frjálslyndra til að hafa áhrif á framtíðina er að kjósa Viðreisn eða X-C.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.9.2017 - 07:43 - 4 ummæli

Íslandsmet: 23 nýir dómarar Sjálfstæðisflokksins

Ótrúlegt tækifæri hefur verið fyrir Sjálfstæðisflokkinn að endurnýja dómarasveit sína á aðeins nokkrum mánuðum. Í fyrri hálfleik voru skipaðir 15 í Landsrétt og núna í þeim seinni 8 í Héraðsdóm, samtals 23 dómarar. Það er mjög mikilvægt fyrir valdaflokk, sem yfirleitt stjórnar landinu, að hafa töglin og hagldirnar á dóms- og framkvæmdavaldinu, sérstaklega þegar fylgið minnkar og Sjálfstæðisflokkurinn hefur minna taumhald á löggjafarvaldinu.

Ekki er skrítið að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki í ESB, en líklegt er að eitthvað yrði sett út á slíka framkvæmd, sbr. ummæli Merkel um svipaða hluti og verið er gera hér nema þá í Póllandi og sætir framkvæmdin þar gríðarlegri gagnrýni um allan hinn vestræna heim. Sem betur er þó ekki beitt ofbeldi hér á landi, en útkoman er sú sama og í Tyrklandi, Venesúela eða öðrum frumstæðum gerræðisríkjum. Við þurfum nýja stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.8.2017 - 16:30 - 5 ummæli

Bændur, sjálfum sér verstir…

Fallegur ungur hrútur.

Fallegur ungur hrútur.

Á meðan á aðildarferli Evrópusambandsins og Íslands stóð sem hæst á árunum 2009-2013 fluttum við út til sambandsins um 1.850 tonn af lambakjöti tollalaust með tollkvótum. Áður en Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn slitu viðræðum við sambandið  á ótrúlega dónalegan hátt voru hugmyndir um að Íslendingar gætu flutt út til ESB á sama hátt a.m.k. 4.000 tonn af lambakjöti tollalaust, en þetta var hluti af aðlögun að tollabandalagi ESB.

Forsíða Fréttablaðsins 11. maí 2011.

Forsíða Fréttablaðsins 11. maí 2011.

Íslenskir bændur átta sig því miður bara alls ekki á því hverjir eru vinir og óvinir þeirra, því ef Ísland væri fullgilt aðildarríki sambandsins gætum við auðveldlega losað okkur við allar okkar umframbirgðir af lambakjöti á matarborð þeirra 500 milljóna íbúa ESB, sem hreinlega elska íslenskt lambakjöt og það án þess að borga krónu í tolla. Íslenskir bændur eru nú varla það sem maður á þýsku kallar „bauernschlau“ eða „bóndaslóttugir“.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.6.2017 - 21:21 - 4 ummæli

Seðlabankastjóri og fávísir fréttamenn …

Yfirlýsing seðlabankastjóra um að verja skuli núverandi gengi krónunnar, er einhver stærsta frétt undanfarinna ára, þótt að venju átti sig fávísir íslenskir fjölmiðlamenn ekki á þeirri staðreynd. Sennilega eru yfirlýsingar seðlabankastjóra „of flóknar“ fyrir íslensia fréttamenn, líkt og yfirlýsingar gáfumannsins og stjórnsýslufræðingsins Emmanuel Macron virðast vera. Óskandi væri að a.m.k. RÚV hefði fagmönnum á að skipa, sem kunna að leggja réttu spurningarnar fyrir seðlabankastjóra og aðra við slíkar aðstæður.

Í raun er seðlabankastjóri að lýsa því yfir að gengi krónunnar sé í fullkomnu jafnvægi um þessar mundir – miðað við efnahagsástandið. Hann segir í raun að seðlabankastjóri muni nota digra varasjóði sína í gjaldeyri upp á 800 milljarða króna til að verja krónuna gegn allri spámennsku. Ég talaði við ungan starfsmann Tollstjóra fyrir nokkrum dögum, sem segist ekki hafa efni á að kaupa sér íbúð, en hann hafi í gegnum Landsbankann sett sína peninga í bandaríska sjóði til fjármögnunar, sem að hluta til séu settar áhættufjárfestingar. Hann sagðist núna hins vegar vera að kaupa krónur, því þar séu möguleikar á meiri hagnaði en í gegnum ameríska hlutabréfasjóði – bæði til lengri og skemmri tíma.

Nú hefur gjaldeyrishöftum verið aflétt og allir geta í kjölfarið leikið sér að krónunni – jafnvel bólugrafnir íslenskir unglingar – þótt visslega hafi verið settar ákveðnar frumstæðar leikreglur sem gera slíkt erfiðara. En þegar íslenskir krakkar – fæddir um 1990 – eru farnir að taka stöðu gegn krónunni, verður maður kannski að viðurkenna að hugsanlega hefur Maóistinn í Seðlabankanum á réttu að standa, því óneitanlega fær maður hroll eftir að hafa verið fórnalamb eilífrar óðaverðbólgu, kaupmáttarmissis og stökkbreytinga verðtryggðra lána vegna hruns krónunnar síðastliðin 90 ár.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.5.2017 - 11:27 - 34 ummæli

Chicago eða Seltjarnarnes – samanburður á launum

Chicago við Michiganvatn í Illinois-fylki.

Borgarstjórinn í Chicago við Michiganvatn í Illinois fylki í Bandaríkjunum þénar á ári um 216.000 bandarískra dollara eða um 21,5 milljónir íslenskra króna. Íbúar þar í borg eru 2,7 milljónir eða 8 sinnum fleiri en Íslendingar.

Bæjarstjórarnir í Kópavogi (33 þúsund íbúar) og Garðabæ (15 þúsund íbúar) og á Seltjarnarnesi (4 þúsund íbúar) þéna á bilin 23-27 milljónir á ári eða 4-5 milljónum meira en kollegi þeirra í milljónaborginni Chicago.

Eftir því sem ég las um á dögunum eru þetta reyndar bara svipuð laun og millistjórnendur í okkar risavöxnu alþjóðlegu bönkum hafa, en er ekki óhætt að segja að hér sé launaþróun hjá ákveðnum hópum algjörlega út úr korti miðað við umsýslu, ábyrgð og fjölda starfsmanna.

Hér er hægt að sjá laun allra starfsmanna Chicago-borgar á netinu, en laun rannsóknarlögreglumanns (lögregan er þar borgarstofnun) eru um helmingur launa borgarstjórans.

https://www.cityofchicago.org/city/en/depts/dhr/dataset/current_employeenamessalariesandpositiontitles.html

Hér eru laun borgarstjóra stærstu borga Þýsklands, sem liggja á bilinu 1 – 1,5 milljónir króna á mánuði:

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.5.2017 - 07:23 - Rita ummæli

Einkavæðingu – kosti og galla – þarf að ræða!

Viðreisn hefur að mínu mati ekkert að gera í þessari ríkisstjórn lengur, nema að flokkurinn sé úlfur í sauðagæru, sem manni er óneitanlega farið að gruna. Reyndar finnst mér minn flokkur, Viðreisn, vera í nær einu og öllu taglhnýtingur Sjálfstæðisflokksins. Stefnan virðist tekin á að halda áfram sömu „ógagnsæju“ einkavinavæðingunni og byrjaði með Borgunarmálinu, en núna því miður með fullum stuðningi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Fyrri ríkisstjórn lagði grunninn að því að draga ríkið fullkomlega út úr almannatryggingum hvað ellilífeyri varðar og eftirláta það hlutverk lífeyrissjóðunum, nema fyrir þá sem aldrei hafa nennt að vinna og greiða í lífeyrissjóð eða þá sem hafa svikið tekjur sínar undan skatti. Að sama skapi hefur almannatryggingum nú verið breytt á þá lund að hámarksútgjöld vegna læknismeðferðar hafa verið sett í 70 þúsund krónur, en reikningnum af því velt yfir á aðra sjúklinga, þannig að nær allir tapa á þessari aðgerð.
Jón Gunnarsson kynnti strax á hveitibrauðsdögum ríkisstjórnarinnar einkavæðingu samgöngukerfis landsins. Óttar Proppé hefur hug á að einkavæða heilbrigðiskerfið í áföngum, sem ætti að ganga hratt með því að kyrkja Landspítalann hvað fjárveitingar varðar. Kristján Þór Júlíusson ætlar sér auðsjáanlega að einkavæða smám saman framhaldsskólastigið og er á sömu vegferð hvað háskólastigið varðar með því að fjársvelta Háskóla Íslands bæði hvað framlög til náms og vísindastarfa varðar.
Ríkisfjármálaáætlun næstu ára sýnir og sannar, að þessi ríkisstjórn ætlar að klára að „koma bákninu burt“, sem var þó næstum slátrað í kreppunni, þegar framlög til allra ríkisstofnana lækkuðu um 20-25%. Ég er ekki talsmaður stórs ríkisbákns eða að allur rekstur þurfi að vera í höndum ríkisins, t.d. heilbrigðis- og menntamál eða jafnvel hluti samgöngumála, öðru nær. Það er hins vegar lágmark að þegar grundvallarbreytingar eru gerðar á kerfinu, séu slík mál kosningamál og um það fari fram djúp umræða og þá ekki aðeins á Alþingi, heldur í öllu samfélaginu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.5.2017 - 21:04 - 5 ummæli

Námskeið lögreglu í „kærleiksorðræðu“

Í Hitersæskunni var ungu fólk innrætt rétt hugsun og tungutak auk hlýðni við yfirvaldið og urðu viljalaus verkfæri nasista.

Í ljósi hatursorðræðunámskeiða lögreglu væri ekki úr vegi að sama stofnun héldi námskeið fyrir almenning um hvað má segja og hvað ekki má segja. Gott væri t.a.m. að setja fram dæmi um hvaða skoðanir eru að mati lögreglu alveg frábært að hafa og allir eru hrifnir af, hvaða skoðanir „ganga svona nokkurn veginn“ og hvaða skoðanir eru alveg forboðnar, hvar og hvenær sem er. Í framhaldi þyrfti kannski að leggja línurnar um hvað fólk má almennt hugsa, því hugsanir eru jú til allra hluta fyrstar. Má fólk hugsa um eitthvað, sem það mætti þó ekki skrifa eða tala um, ef það heldur bara þessum „röngu skoðunum“ fyrir sig? Hvað má fólk segja heima hjá sér og við börnin sín við uppeldi þeirra? Hvað má segja meðal vina sinna? Hvað fólk má segja á kaffistofunni í vinnunni eða í ákveðnum félögum? Eigum við hvetja fólk til láta lögregluna vita af fólki með rangar skoðanir, eins og gert var í hjá nasistum í Þýskalandi og hjá kommúnistum Sovétríkjunum, Austur-Evrópu, Kína og enn þann dag í dag í Norður-Kóreu og Kúbu?

“Fólk getur sagt þér að halda kjafti, en það getur ekki komið í veg fyrir að þú hafir þínar eigin skoðanir“.

Anna Frank var þýskur Gyðingur fædd 12. júní 1929 og drepin af nasistum í mars 1945. Hún skrifaði endurminningar mínar og var bókin kölluð Dagbók Önnu Frank.

Í Rauða kverinu var allt sem Kínverjar áttu og máttu segja.

Verður hægt að leita sér lækninga ef maður lendir illa í því að vera allt í einu orðinn fullur af „röngum skoðunum“ sem eru á skjön við það sem félagslegur rétttrúnaður krefst og vill af sjálfsdáðum leita sér hjálpar við þessari meinsemd? Yrði slík meðferð til að bæta eða lækna sjúklegar skoðanir og ranghugmyndir niðurgreidd af ríkinu? Gæti SÁÁ séð um slíkar meðferðir fyrir „skoðanabrenglað“ fólk, væri hægt að nota 12 sporakerfið, senda fólk í „víkingakærleiksorðræðumeðferð“ á Melrakkasléttu eða duga AA-fundir? Er um geðsjúkdóm að ræða og á slík meðferð heima á geðdeildinni og Kleppi? Leikfimi Falun Gong er í Kína túlkuð sem geðveiki. Þurfum við kannski í mjög erfiðum tilfellum að setja fólk með rangar skoðanir í fangabúðir, þar sem fólk er skólað til eins og í kínversku Menningarbyltingunni? Þarf í vonlausum tilfellum að beita einangrunarvist til að koma í veg fyrir að ákveðnar skoðanir nái vinsældum og breiðist út eins og faraldur? Við vitum að í gegnum tíðina hafa stjórnvöld í ýmsum ríkjum einmitt beitt slíkum aðferðum við fólk sem hefur þráast við og ekki látið sér segjast og náð ótrúlega góðum árangri!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.5.2017 - 07:06 - 8 ummæli

Einsdæmi: Stjórnvöld hata atvinnulífið og launþega

Virðisaukaskattur á ferðþjónustuna tvöfaldaður úr 11% í 22%, sem sennilega fer langt með að ganga af þessari stærstu atvinnugrein landsins dauðri og nú á til viðbótar einnig að leggja auðlindagjöld á ferðaþjónustuna og útgerðina, sem berjast í bökkum vegna hás gengis krónunnar.
Er ekki kominn tími til að nýtt fólk taki við í brúnni, því þessi ríkisstjórn er að slá „vinstri-velferðarstjórninni“ við varðandi skattahækkanir og furðulegar ráðstafanir af öllu tagi, en stjórnvöld eru núna á að koma á „auðlindagjöldum“ til viðbótar. Nær engar opinberar framkvæmdir eru fyrirhugaðar næstu árin, þrátt fyrir að þjóðvegirnir séu í henglum, öryggi ferðamanna og klósettmál óleyst vandamál, spítalinn og allar helstu opinberar byggingar úldnar að innan sem utan og margar opinberar stofnanir farnar að lýsa frá því að fjöldauppsagnir séu framundan.
Maður spyr sig hvort við eigum ekki eitthvað aðeins skárra skilið eftir útreiðina undanfarin 10 ára eða svo, heldur en stjórnvöld sem hatast bæði við atvinnulífið og launþega landsins, en slík ríkisstjórn hlýtur eiginlega að toppa hræðilegustu ríkisstjórnir fortíðarinnar og þarf þó nokkuð til!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.4.2017 - 21:58 - Rita ummæli

Ferðaþjónustan: Sérhagsmunatengsl óskast

Ferðaþjónustan auglýsir eftir stjórnmálaflokki og einstaklingum, sem sinna hagsmunum hennar af alefli, en miklir tekjumöguleikar eru í boði fyrir rétta einstaklinga og stjórnmálaflokka.

Þeir stjórnmálaflokkar og einstaklingar, sem hafa áhuga á að verða sérhagsmunagæsluaðilar stærstu atvinnugreinar og útflutningsgreinar landsins, sendi netpóst á:

ferdatjonustan@ferdatjonustan.is

Við lofum a.m.k. 300 milljónum í mútur fyrir ráðherrasæti og 30 milljónum fyrir hvert þingsæti, sem okkar aðilar ná á Alþingi. En 300 þúsund krónur eru í boði fyrir þá sem ná langt í prófkjörum.

Öllum umsóknum verður svarað.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.4.2017 - 14:48 - 43 ummæli

Af hverju drepur Íslamska ríkið?

Inngangur

Enginn veit hversu marga Isis hefur afhöfðað á liðnum árum.

Hjartað er rifið úr brjóstholinu á lifandi manni.  Viðbjóður eins og í hryllingssögu; blóðugur, óraunverulegur. Áhrifin eru í reynd svo óútskýranleg á okkur Vesturlandabúa, að erfitt er fyrir okkur að ímynda sér að slíkur óhugnaður geti yfirleitt átt sér stað. Eitthvað sem er í mótsögn við allt það sem okkur er innprentað frá fæðingu. Morðinginn beygir sig yfir fórnarlambið og sker með hnífi rautt kjötstykki úr nær líflausum líkamanum, hjartað. Sigri hrósandi steytir hann hnefann mót himni – færir hjarta fórnarlambsins nær munninum eins og ætli að kyssa það. Síðan kallar hann: „Allahu Akbar! Guð er mikill!“

Myndband með ofangreindum atburði var sett á netið af bardagamönnum Isis, en síðan þeir byrjuðu „heilagt stríð sitt“ hafa þeir verið duglegir að dreifa svipuðu myndefni. Í myndbandinu var það sýrlenskur uppreisnarmaður sem var drepinn: „Ég sver við nafn Allah, að við munum borða hjörtu ykkar og lifur, þið hermenn Baschar!“ Óvíst er hvort hermaðurinn tilheyrir samtökunum Al Nusra eða Isis, þar sem báðar fylkingar berjast gegn Baschar al-Assad forseta Sýrlands, þótt ekki berjist stríðssveitirnar hlið við hlið. Skilaboðin eru skýr: Blóðbaðið á sér stað sem trúarskylda í heilögu stríði viðkomandi vígamanns.

Réttlæting hræðilegra morða

En hvernig réttlætir maður slíkt miskunnarlaust og grimmileg morð? Jú, réttlætinguna má rekja til byrjunar Íslam á 7. öld, þegar Hamsa, frændi Múhameðs spámanns, stóð í stríði gegn heiðingjum í Mekka og lét lífið. Kona af hinum fjandsamlega Quarisch-ættbálki reif hjartað úr líkama Hamsa og át það. Þegar Múhameð sá lík frænda síns, sór hann og sárt við lagði: Ef Allah hjálpar mér að sigra Quarisch, mun ég limlesta 30 lík þeirra manna á sama hátt. Allt það sem Isis gerir núna er aðeins endurtekning á því sem spámaðurinn Múhameð gerði fyrir 1400 árum síðan í óteljandi heilögum stríðum sínum og má þar nefna verknaði á borð við aftökur trúlausra, hneppa fók í þrældóm, skikka konur til vændis, leggja sérstakan skatt á þá sem ekki eru múslimar, afhöfðanir, fjöldaaftökur eða önnur grimmdarverk. Saga ofbeldis er jafn löng sögu Íslam.

Jórdanskur flugmaður brenndur til dauða.

Þetta er baksvið hins heilaga stríðs, jíhad ofbeldisins, sem hefur tröllriðið Írak og Sýrlandi á liðnum árum; trúarlegt dauðastríð. Stríðsmennirnir segja undirmönnum sínum frá því hvað muni gerast við endalok heimsins, hver lokarefsing Allah verði. Sannleikurinn og réttlætið er þeirra megin, því þeir sækja rök fyrir öfgafullum og grimmilegum gjörðum sínum í Kóraninn.

Sá sem ætlar að skilja stríðsmennina, verður að þekkja röksemdir þeirra og tilvísanir. Ritningatilvísanir og réttlætingar eru að hluta til úr Kóraninum, hluta til frá bókstafstrúuðum múslimaklerkum og að hluta til frá hryðjuverkamönnunum sjálfum. Þær virka á okkur sem ævafornar – enda 14 alda gamlar – en eru samt sem áður notaðar enn þann dag í dag til að stjórna fjölmennum alræðisríkjum múslima og stór hluti 1,5 milljarða múslima taka að hluta til undir þessar reglur: Þar sem líf einstaklingsins er einskis virði, þar er svívirðing hins rétta, sanna og göfuga daglegt brauð, þar eru morð ekki bara leyfð, heldur skylda í heilögu stríði.

Sannleikurinn

Múslimar biðja fimm sinnum á dag.

Hjá Íslamistum felst hin sanna trú ekki í fræðimennsku eða í því að biðja til Guðs fimm sinnum á dag, heldur hvaða áþreifanlegu verk þú framkvæmir fyrir Íslam, þetta sagði Sajjid Kutb, hugmyndafræðingur Múslimabræðranna, sem var tekinn af lífi árið 1966 í Egyptalandi. Í fangelsi skrifaði hann bókina Í skugga Kóransins, sem hefur orðið nokkurs konar vegvísir fyrir öfgamúslima nútímans. Bókin snýst í stuttu máli um hvernig Íslam skuli stjórna öllu – stóru sem smáu – í lífi fólks frá fæðingu til dauða. Bók Kutb er ákall til múslima um allan heim, að lausn allra vandamála nútímans, t.a.m. útskúfun múslima á Vesturlöndum, sé aðeins að finna í Allah. Enginn Guð sé til nema Allah, ekkert líf sé þess virði að lifa án Allah. Þetta þýðir m.ö.o. að ekki er hægt að lesa sér til um sannleikann í Íslam, heldur verður maður að berjast fyrir sannleikanum í nafni Allah, í nauð með vopnavaldi. Kutb þróaði hugmyndafræði um trúarlega baráttu í anda uppreisnaranda sem var vinsæll á þessum tíma. Þessar hugmyndir voru ekki langt frá uppreisnarhugmyndum og vopnaðri baráttu vinstri öfgahópa á þessum árum, t.d. Baader Meinhof og Rauðu herdeildarinnar. Áratugum síðar gripu bókstafstrúarmenn í hinum arabíska heimi til þessara hugmynda. Bylting í anda Kutb var ekki skref í átt til frjálslyndari Íslam, heldur átti að hverfa til fortíðarinnar, til 1400 ára gamalla óskeikulla og tímalausra kenninga Múhameðs.

Réttlæti

Í augum múslimska bókstafstrúarmanna tryggja Sharía lög réttlátt samfélag manna. Sá sem ekki beygir sig undir Sharía stendur utan ramma laga og réttar. Á þessu réttlæti Sharía grundvalla múslimskir öfgamenn ekki aðeins rétt sinn til að drepa fjandmenn sína, heldur einnig til að berjast gegn ríkisstjórnun í löndum múslima, sem ekki fara í einu og öllu eftir Sharía lögum. Öll lög skulu grundvallast á skrifum og vilja Allah er birtast í skrifum Múhameðs og þau eru tímalaus og óbreytanleg og þarf hvorki að ræða, túlka eða skilgreina eins og við á Vesturlöndum gerum fyrir dómstólum.

Brot á lögum

Maður grýttur í Sómalíu.

Íslömsk löggjöf, eins og hún er skilgreind af bókstafstrúarmönnum úr Kóraninum og öðrum textum Íslam, þvinga í mörgum tilfellum til þess að beita dauðarefsingu, t.d. vegna guðlasts eða framhjáhalds. Í löndum eins og Afganistan, Súdan eða Algeríu hefur sýnt sig hvaða hættu það hefur í för með sér ef dauðarefsingu er beitt eins og Kóraninn segir til um. Í Afganistan nota talíbanar íþróttaleikvanga til að grýta konur. Aftökur er gerðar af fjölskyldumeðlimum þeirra sem eiga að hafa brotið af sér og það á grófasta móta, með vélbyssum. Þessar opinberu aftökur og morð á heimilum fólks eru gerðar til þess að lækka innbyggðan mótstöðukraft okkar til að drepa hvort annað. Reynt er að gera aftökurnar og morðin eðlileg í augum fólks og hluta af daglegu lífi og menningu, sem auðveldar síðan notkun sömu aðferða í stríði við trúvillingana heima fyrir og á Vesturlöndum.

Hefndin

Heilagt stríð (jíhad) var lengi vel misskilið á Vesturlöndum. Með árás Al-Kaida á World Trade Center 11. september 2001 byrjaði þessi misskilingur að grassera meir en nokkru sinni fyrr. Heilaga stríðið beinist nefnilega ekki bara gegn Vesturlöndum, heldur gegn öllum fjendum Allah og hverjir þeir eru ákveða jíhadistarnir sjálfir. Mikið er t.a.m. um myndbönd þar sem jíhadistar drepa aðra múslimi. Öfgamennirnir vitna þá gjarna í Múhameð: „Ég er kominn til ykkar sem slátrari.“ Einnig má heyra þá nota Súra 47,2: „Ef þið hittið þá, sem ekki trúa á Allah, höggvið þá með sverði á hnakkann! Það liggur síðan í hlutarins eðli að jíhad eða heilagt stríð þjónar þeim tilgangi að breiða út Islam, hefur engan annan tilgang.

Múslimskir trúarflokkar

Gróf dreifing á Súnnítum og Sjítum um hinn múslimska heim.

Súnnítar (80-85% múslima) sem há heilagt stríð líta á alla þá múslima sem ekki fylgja þeirra trúarflokki innan Íslam sem villutrúarmenn og þar með réttdræpa. Isis barðist þannig í Írak aðallega gegn Sjítum (15-20% múslima) en í Írak eru blönduð byggð arabískra Sjíta og Súnníta en einnig súnnískra Kúrda. Þennan klofning múslima í Sjíta og Súnníta má rekja aftur til 7. aldar. Á þeim tíma börðust kalífinn Ali, tengdasonur og frændi Múhameðs, og Muawija um völdin meðal múslima, en sá fyrrnefndi lét lífið í þeim átökum. Allir jíhadistar vísa í stríðum sínum til þessara 1400 ára gömlu deilna og hafa haldið því stríði áfram til þessa dags. Síðan stríðið milli Íran og Íraks átti sér stað árið 1979 hafa þessar andstæðu fylkingar Sjíta og Súnníta barist um völdin í Miðausturlöndum.

Endalaust heilagt stríð

Skærurnar halda áfram og Isis (Súnnítar) hefur það að markmiði að drepa eins marga Sjíta (aðallega í Íran, hluta af Írak auk nokkurra annarra ríkja t.d. Jemen, Sádí-Arabíu en í raun á víð og dreif) og mögulegt er. Síðasta kalífat tyrkja (Ottóman-veldið/aðallega súnnítar) leystist upp árið 1924. Síðan þá eiga Súnnítar í raun erfitt með að halda því fram að þeir séu æðsta vald Allah í veraldlegum sem andlegum efnum, þótt þeir séu mörgum sinnum fjölmennari en Sjítar. Jíhadistar notfæra sér þessar trúardeildur milli Sjíta og Súnníta til hins ýtrasta. Þeir vísa til frumskyldu hvers múslima og í því sambandi til fyrstu forfeðra þeirra, sem þeir segja hafa verið strangtrúaða og ekki kært sig um veraldleg mál, sem er ekki alls kostar rétt. Eitt af því sem jíhadistar berjast hvað harðast gegn er tónlist, myndlist, kvikmyndir, hefðir einstakra landa og að ógiftar konur og karlar deili sama húsnæði nema um náin skyldmenni sé að ræða – allt á þetta að banna. Á þeim svæðum þar sem Isis ræður lofum og ríkjum er fólki refsað fyrir þetta háttalag með aftökum.

Þeir sem ganga af trúnni

Aðeins ein refsing kemur til greina hjá öfgamönnum fyrir þá sem ganga af trúnni – þ.e. hætta að trúa á Allah – og það er dauðarefsingin. Það ber þó að taka fram að oft á tíðum er þessi glæpur aðeins yfirskin eða tylliástæða til að geta drepið fólk. Þekktasta dæmi um þetta er líklega þegar kristin kona í Súdan, sem hafði verið dæmd til hengingar en var síðan náðuð. Konan var dóttir múslima, en móðir hennar var kristin og hjá henni ólst hún upp. Þegar hún giftist kristnum manni var hún meðhöndluð eins og hún hefði gengið af múslimstrú, sem hún hafði þó ekki gert. Isis notar orðið murtad um sjíta múslima, þ.e. þann sem genginn er af trúnni.

Heiðingjar

Íslamistar líta á sjálfa sig sem umkringda af fjandsamlegum heiðingjum, sem af þeim sökum þarf að sjálfsögðu að útrýma. Kristnir og Gyðingar eru í fyrsta sæti þegar kemur að óvinum djíhadistana, ekki bara af því að þeir trúa ekki á Allah, heldur einnig af því að samkvæmt þeirra skoðun eiga kristnir og gyðingar að vilja útrýma Íslam í heiminum. Í Kóraninum segir í einni Súra: „Hvorki Gyðingar eða Kristnir verða ánægðir með þig, fyrr en þú tilheyrir þeirra trúarbrögðum.“

Hnignun

Abdullah bin Abdulaziz heitinn, konungur Sádí-Arabíu.

Konungafjöldskyldurnar við Gólf-flóanna, frá Kúvæt til Riad og þaðan til Sameinuðu furstadæmanna, eru í augum djíhadistanna svívirðilegustu skepnur. Þeir verstu eru að sjálfsögðu Sádí-Arabíska konungsfjölskyldan, helsta vígi arabísku höfðingjanna. Djíhadistarnir, sem ekki sjaldan koma frá fátækum og illa menntuðum fjölskylum – þótt undantekningar séu á þessu – segja þetta eðalborna fólk gorta sig af ríkidæmi sínu; höllum, lúxusveislum, lúxus-límósíum, gullnum húsþökum og endalausum girðingum um landareignir sínar. Allt sé þetta ekki í anda Íslam. Sérstakt hatur er lagt á konung Sádí-Arabíu, sem sérstaklega á að vera til fyrirmyndar enda verndari hina heilögu borga Medína og Mekka. Frá árinu 2003 eru djíhadistar í heilögu stríði gegn Sádí-Arabíu og röð sprengjutilræða sendu á sínum tíma ráðamönnum þar skýr skilaboð. Al-Kaída, sem reyndar er ættað af Arabíuskaganum, er sprottið af sömu rótum og Isis. Það einkennilega og mótsagnakennda við Isis er að á sama tíma reyna þeir að lokka til sín unga stríðsmenn með loforðum um ríkidæmi.

Paradís

Hið eilífa loforð upphafsmann a Heilagra stríða til stríðsmanna sinna, og þó sérstaklega sjálfsmorðs-stríðsmanna, er tvíþætt; annars vegar gætir þú unnið þann stóra í lottóinu og orðið ríkur á meðan þú ert á lífi, en annars bjóðast þó 70 hreinar meyjar, 70 eiginkonur og eilíf hamingja ef maður fellur í heilögu stríði við heiðingjana. Þá lokka Isis unga menn til sín með því að bjóða „tímabundin hjónabönd“ við ungar stelpur frá fátækustu héruðum Afríku. Stelpunum er lofað eitthvað annað til berjast með Isis sem „sex-djíhadistar“.

Lækning

Heilagt stríð er að sjálfsögðu ekki bara háð fyrir stríðsmennina sjálfa, heldur á það að lokum einnig að vera lækning fyrir alla þá sem ekki eiga hlut að máli og deyja jafnvel saklausir. Al-Kaída bendi strax frá byrjun að réttlæta mætti morð heiðarlegra múslima sem ekki tækju þátt í heilögu stríði en létu lífið í sjálfsmorðsárásum á einfaldan hátt: Það væri reyndar ein stærsta synd Múslima að drepa trúarbræður sína, en ef það væri liður í því að sigra óvinninn og ekki hægt að komast hjá því ætti samt að myrða. Eftirmaður Osama bin Ladens sem leiðtogi Al-Kaída, öfgamaðurinn Aiman al-Sawahiri, orðaði þetta sem svo: „Fjandmennirnir fara til helvítis en bræður okkar í Paradís.“

(Lausleg þýðing blaðagreinar úr hinu virta tímariti Die Zeit, 26. júní 2014, eftir Evelyn Finger, Thilo Guschas og Michael Thumann).

 

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is