Miðvikudagur 5.4.2017 - 07:10 - 1 ummæli

Drepum helvítis ferðaþjónustuna

Virðisaukaskattur yrði með hækkun úr 11% í 22,5% næsthæstur í Evrópu, en aðeins í Danmörku yrði skattpíningin meiri, þar sem ferðaþjónustan hefur um árabil kvartað sáran undan háum virðisaukaskatti. Mjög hár virðisaukaskattur er ígildi „útflutningstolls“ á ferðaþjónustuna, þar sem í raun um hreina útflutningsgrein er að ræða. Menn voru fyrr á tímum fljótir að átta sig á því að útflutningstollar voru af hinu verra, enda urðu slíkir tollar vanalega til þess að útflutningur dróst saman, arðbærum störfum fækkaði, hagvöxtur minnkar og viðskiptajöfnuður varð óhagstæður. Þegar á heildina er litið felst því enginn þjóðfélagslegur ávinningur af slíkri skattlagningu heldur aðeins skaði. Af þessum sökum eru útflutningstollar vandfundnir í heiminum í dag.

En þessi stærsta útflutningsgrein Íslands á ekki aðeins í bullandi samkeppni við Noreg og Kanada, heldur einnig fjölda annarra ríkja, t.d. Nýja-Sjáland, Rússland og hin Norðurlöndin. Öll eru þessi ríki með ferðaþjónustu í lægra virðisaukaskattsþrepi en við en að auki mun hagstæðara gengi á gjaldmiðlum sínum og því mun samkeppnisfærari. Nú þegar eru afbókanir byrjaðar að streyma inn vegna hás gengis. Orðrómur um um að tvöfalda eigi virðisaukaskatt gæti haft enn verri afleiðingar á þennan eina vaxtarbrodd í íslensku atvinnulífi, sem við höfum upplifað frá hruni. Það er einkennilegt að Sjálfstæðiflokkurinn og minn flokkur Viðreisn skuli vilja feta sömu leið og kommarnir í VG og Samfylkingunni fyrir nokkrum árum síðan og hækka hér skattlagningu á undirstöðuatvinnuveginn.

Öðruvísi mér áður brá.
Aldrei var svona kvatt til fundar.
Krunka hér yfir köldum ná
kommúnistar og aðrir hundar.
Steingrímur Einarsson, læknir

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.4.2017 - 07:32 - 8 ummæli

Gíbraltarstríð Englendinga

Miðað við yfirlýsingar fyrrverandi forsætisráðherra Breta um stríð vegna Gíbraltar, held ég að ráðlegast sé fyrir Evrópusambandið að setja Litla-England í stjórnmálalegt og efnahagslegt „permafrost“, þegar þeir loksins ganga úr sambandinu. Við Íslendingar þekkjum þennan hroka Breta og yfirgang þeirra alveg frá miðöldum og þegar þeir gengu fram af ofbeldi í þorskastríðunum og nú síðast í Icesave málinu, þegar þeir settu á okkur hryðjuverkalög.

Englendingar sýna með þessari hegðun sinni – einu sinni sem oftar -, að þeir eru ribbaldar, sem engu gleymt af sínum „heimsveldishroka“ og „ofbeldisfullum“ viðbrögðum, þótt þeir séu núna – þegar Skotar og Noður-Írar hverfa úr Eyjabandalaginu – aðeins með 50 milljónir íbúa að baki sér og reyndar rúmlega helminginn af lítilli eyju undan ströndum meginlandsins. „Smækkunarverkir“ heimsveldisins eru þeim erfiðir og gætu leitt til fyrstu styrjaldar í Evrópu í 70 ár.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.3.2017 - 07:44 - 3 ummæli

Hinn nýi Kolkrabbi: Hrægammasjóðirnir

Ólíkt öðrum erlendum fjárfestum þekkja erlendir hrægammar íslensku krónuna, verðtrygginguna og okurvextina í „El Paradiso“.

Það er ekkert einkennilegt við það að erlendir hrægammasjóðir vilji alls ekki yfirgefa Ísland, því hvergi í heiminum hafa þeir fundið aðra eins gullkistu til að ræna og hér á landi. Gullkista hrægammana samanstendur af 340 þúsund viðskiptamönnum, sem taka trygg fasteginaveðlán í verðtryggri mynt með okurvöxtum í blómlegu og vaxandi efnahagslífi með 3-7% hagvöxt. Horfi hrægammarnir fram í tíman sjá þeir ekki fyrir sér að Seðlabankinn muni nokkurn tíma lækka vextina, sem er að sjálfssögðu það mikilvægasta fyrir alla fjármagnseigengur íslenska eða erlenda.

 

 

Kolkrabbinn tapaði að mestu völdum þegar þeir töpuðum stórum hluta eigna sinna í hruninu nú eru þeir og aðrir Íslendingar komnir með samkeppni frá hrægammasjóðunum.

Hrægammasjóðirnir horfa síðan til framtíðar varðandi efnahagsmálin er samningur við Breta líklegur þar sem orkuútflutningur í stórum stíl er í kortunum. Auk þess mun ferðamönnum halda áfram að fjölga um 1-2 milljónir og gefið hefur hefur verið grænt ljós á auknar veiðiheimildir í t.d. þorski á næstu. Þessu til viðbótar er fiskeldið að taka við sér og verður án vafa komið í 100-150 þúsund tonn innan nokkurra ára. Við munum síðan selja þessa banka úr landi í stað þess að lífeyrissjóðirnir eða einhverjir aðrir eigi þá og með þeim fara vextir og þjónustugjöldin okkar.

Kolkrabbinn og framsóknarmafían var treg til að afnema verðtrygginguna og okurvextina en þessir hrægammasjóðir munu sko ekki taka það í mál óska ég þjóðinni til hamingju með nýja höfðinga!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.3.2017 - 10:26 - Rita ummæli

Blandað markaðshagkerfi Þýskalands

Otto von Bismarck, prins af Bismarck og hertogi af Lauenburg, kanslari Þýsklands og einn mesti stjórnmálaskörungur Evrópu fyrr og síðar.

Í framhaldi af athyglisverðri en kannski ekki alveg réttri yfirlýsingu Jóns Baldvins Hanníbalssonar – sem fjölmiðlar lepja að venju gagnrýnislaust upp – er rétt að benda á að blönduð markaðshagkerfi eru ekki einungis skandínavísk hugmynd, heldur einnig mið-evrópsk. Sá hagfræðingur, sem lagði fræðilega að þessu fyrirkomulagi í Þýskalandi, var Alfred August Arnold Müller-Armack og það fyrir stríð eða upp úr 1920. Virkilegu flugi náðu hugmyndir Müller-Armack þó fyrst eftir heimsstyrjöldina síðari árið 1947, þegar bók hans „Wirtschaftslenkung und Marktwirtschaft“ kom út. Þessar hugmyndir og svipaðar voru síðan þróaðar víða í Evrópu, enda má segja að nær öll ríki álfunnar séu með eina eða aðra útgáfu af blönduðu markaðshagkerfi, þótt útfærslan sé vissulega nokkuð ólík landa á milli. Þessi kerfi eru styrkleiki álfunnar en ekki veikleiki hennar, eins og sumir vilja halda fram.

 

Nürnberg (Þýskaland) í rústum vorið 1945 en á næstu 20 árum varð landið að nýju blómstrandi efnahagslegu stórveldi Evrópu.

Hugmyndir Þjóðverja um blandað hagkerfi lögðu áherslu á virka samkeppni, samkeppniseftirlit og að aðalhlutverk ríkisvaldsins væri að skapa fyrirtækjum „hagstætt lagalegt umhverfi“, reka óháðan seðlabanka, auk fullkomins afskiptaleysis hins opinbera af vinnudeilum (þ. Tarifautonomie). Þessar hugmyndir hittu síðan fullkomlega í mark hjá Ludwig Erhard og Konrad Adenauer, sem tilheyrðu systurflokkum Kristilegra Demókrata í Þýskalandi og Bæjaralandi (CDU/CSU/Christliche Demokratische Union/Christlich-Soziale Union). Að sjálfsögðu fylgdi samstarfsaðilinn í ríkisstjórn hinir frjálslyndu Freie Demokratische Partei (FDP/Die Liberalen) sömu efnahagsáætlun og Erhard (CSU) og Adenauer (CDU). Segja má að uppgang og styrkleika Þýskalands eftirstríðsáranna megi rekja til þessa blandaðs markaðshagkerfis en þó ekki síður hugmyndarinnar um Sambandslýðveldið Þýskaland og tiltölulega sjálfstæð ríki (þ. Bundesländer) innan sambandsríkisins, sem og stjórnmálalegs stöðugleika, er klárlega byggir á frábærri stjórnarskrá og góðri stjórnskipan, sem síðan aftur byggir á hugmynd sem aðlöguð var að Þýskalandi og er í anda hins bandaríska kerfis „Checks and Balances“.

 

Dr. Ludwig Erhard fær í hendur fyrsta eintak bókar sinnar „Velmegun fyrir alla“ ( þ. Wohlstand für Alle).

Að auki var að finna í þessari þýsku gerð af blönduðu hagkerfi (þ. Soziale Marktwirtschaft) og stjórnskipan eftirstríðsáranna í Þýskalandi, mikið af hugmyndum sem tengdust frelsi einstaklingsins, t.d. athafna-, viðskipta- neyslufrelsi, samningafrelsi, atvinnu- og samvinnufrelsi. Þá var í þessu markaðshagkerfi gert ráð fyrir blöndu af sterkum almannatryggingum og einkatryggingakerfi. Ef algjör nauðsyn krafðist þess átti ríkið að vera með afskipti af félagslega kerfinu, vinnumarkaðsmálum og efnahagslegum málum á borð við að auka hagvöxt, tryggja stöðugt verðlag og lágt atvinnuleysi. Mikilvægt er að taka fram að í Þýskalandi hafði Bismarck tekið upp sjúkratryggingar og síðar einnig slysa- og lífeyristryggingar, þannig að hugmyndin byggði að þessu leyti á gömlum merg. Sósíaldemókratar voru frekar „skeptískir“ gagnvart þessu markaðshagkerfi og boðuðu eigin útgáfu sem hét „Demokratischer Sozialismus“. Sú hugmyndafræði var mun „sósíalískari“ en nálgun Kristilegra Demókrata og Frjálslyndra, þótt markmiðið hafi verið það sama, þ.e. „velmegun fyrir alla“. Þessi hugmyndafræði sósíalista var síðan prufuð í Austur-Þýskalandi en mistókst hrapalega. Árið 1990 sameinaðist Þýska alþýðulýðveldið (DDR), sem var orðið lýðræðislega og efnahagslega gjaldþrota, Sambandslýðveldinu Þýskalandi (BRD) og blönduðu markaðshagkerfi þess.

 

Konrad Adenauer, kanslari Þýskalands 1949-1963, undirritar nýja tímamóta stjórnarskrá (þ. Grundgesetz) Þýskands 8. maí 1949.

Að þessu sögðu er tómt mál fyrir Jón Baldvin Hannibalsson að tala um að norrænir jafnaðarmenn hafi verið þeir einu sem börðust fyrir blönduðu markaðshagkerfi í heiminum og nú sé bara engin þörf fyrir þá lengur, þar sem öllum markmiðum hafi verið náð! Þótt ekki sé hægt að líkja kommúnískum Sovétríkjunum og ríkjum Austur-Evrópu við velferðarkerfi Skandinavíku, má þó segja að útþensla félagslegra kerfa og forræðishyggjan í norræna módelið hafi á Norðulöndunum leitt til  nokkurra efnahagsþrenginga upp úr 1980 og til 2000. Á þessum árum var norræna velferðarríkið minnkað eftir óhóflega þenslu félagslega kerfisins allt frá stríðslokum, sem hafði leitt til þess að útgjöld ríkisins voru orðin allt of mikil, skattlagning of há og bætur allt of háar, þannig að það borgaði sig ekki fyrir fólk að vinna lengur. Í dag stendur því norræna módelið styrkum fótum og það sama má segja um svipuð kerfi í Þýskaland, Hollandi og Austurríki. Verr stendur um önnur svipuð kerfi í Frakklandi, Ítalíu og á Spáni.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.3.2017 - 19:07 - 6 ummæli

Líf Suðurnesjamanna lítils virði

Vegakerfi landsins hefur valdið fjölda dauðaslysa og örkumlun hjá enn fleiri.

Líf okkar Suðurnesjamanna er auðsjáanlega mikið minna virði í augum þingmanna allra og ráðherra en líf fólks í öllum öðrum landshlutum. Þetta sést ekki aðeins á ótal dauðaslysum á Grindavíkurveginum, heldur einnig mörgum dauðaslysum á Reykjanesbrautinni, þar sem hún hefur enn ekki verið tvöfölduð með aðskildum og mislægum gatnamótum. Mikilvægt er að fólk átti sig á að síðastliðin 8-9 árum hefur ekki orðið eitt einasta dauðaslys á tvöfalda kaflanum.

Á sama tíma og ekki er hægt að eyða „smáaurum“ í að laga dauðagildrur, þar sem þúsundir aka um daglega, er hægt að bora göng fyrir 10 milljarða fyrir nokkrar hræður annarsstaðar á landinu. En það er svo sem lítið hægt að segja, þegar kjósendur í Suðurkjördæmi kjósa aftur og aftur yfir sig sömu stjórnmálaflokkana – Sjálfstæðisflokk & Framsóknarflokk – sem hafa fjársvelt allar framkvæmdir á Suðurnesjum og Suðurlandi um áratuga skeið.

Veldur hver á heldur, því það eru þeir sem forgangsraða í samgöngumálum, sem eru þingmenn Alþingis allir, sem bera beina ábyrgð á þessum dauðsföllum, sem leikur einn er að koma í veg fyrir ef vilji væri fyrir hendi. Ábyrgð okkar kjósenda er hins vegar einnig mikil að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum í samgönguráðuneytinu, þannig að dauðaslysunum á Suðurnesjum fari loksins að fækka og vegirnir um land allt lagist.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.3.2017 - 12:09 - 2 ummæli

Hallar á konur hvað evrópsk óperutónskáld varðar

Giuseppe Verdi (einhverjar breytingar þyrfti væntanlega að gera á styttunum).

Ég er sammála Kolbrúnu Halldórsdóttur að verulega halla á hlut kvenna varðandi styttur af frægum listamönnum sögunnar. Þannig er t.a.m. einnig um fræg óperutónskáld á 18. og 19. öldinni. Það er þó öngvum erfiðleikum háð í raun að breyta slíku í ljósi nýlegrar umræðu um valkvæðar staðreyndir (alternative facts). Velti ég því fyrir mér – að sjálfsögðu í fullkominni alvöru – hvort ekki mætti breyta nöfnum helstu gerenda mannkynssögunnar og „kvengera“ þá, líkt og Kvenkirkjan gerði við Guð almáttugan skapara himins og jarðar. Í jafnréttisbaráttunni eru öll meðul leyfð og staðreyndir mega ekki flækjast þar fyrir frekar en hjá Trump: „Make America Great Again“

Ég treysti mér ekki til að halda því að Giocomina Puccini, Giuseppina Verdi eða Gioachina Rossini hafi verið mjög óvissar, hvað kynvitund þeirra varðaði – alla vega ekki svona alla jafna. Og ekki sá ég þessar ágætu konur í vandræðum fyrir framan klósett, hvort þær ættu að fara á „karla- eða „kvenna-pissúarið“.  Eftir því sem ég man voru þetta upp til hópa kvennabósar og karlrembusvín, en þessi megna karllæga hegðun gæti þó bara hafa verið „cover up“, enda vitum við að tilfinningalegt sálarástand frægra listamanna er flókið og margslungið.

Fáránleiki umræðunnar er á stundum orðinn slíkur, að manni finnst maður staddur í „leihúsi fáránleikans“:

Einkenni á leikhúsi fáránleikans eru persónur sem eru fastar í aðstæðum sem þær ráða ekki við og skilja ekki sjálfar, endurtekningar sem virðast tilgangslausar, samræður sem einkennast af misskilningi, þar sem persónur tala í kross og notast við merkingarlitlar klisjur. (Wikipedia)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.2.2017 - 09:29 - 2 ummæli

Verklausar borgar- og ríkisstjórnir

Ég nú kannski enginn sérfræðingur í þýskri sögu, en ég kom fyrst til landsins sem unglingur og flutti síðan þangað 24 ára og bjó þar í 12 ár. Að því loknu dreif ég mig í Háskóla Íslands og kláraði BA-próf í þýskum fræðum. Þegar ég kom til Þýskalands 1977 átti ég erfitt með að ímynda mér að allur infra-strúktúr og öll hús hefðu verið meira og minna ónýt 30 árum fyrr, þ.e. árið 1945. Og þegar ég hugsa til þessa finnast manni vandamálin hér á Íslandi í samanburði smávaxin. Ákvarðanafælni virðist einkenna alla ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar og það sama má segja um borgarstjórann í Reykjavík og bæjarstjóra nágrannasveitarfélaganna. Í samanburði við fyrri kynslóðir íslenska stjórnmálamanna eru þetta hálfgerðir vesalingar og afskaplega verklitlir og huglausir. Það er síðan ógjörningur að gera samanburð á eftirstríðs stjórnmálamönnum Þýsklands og eftirkreppu stjórnamálamönnum okkar Íslendinga, því verkefnunum er í raun ekki saman að líkja.

Þegar ég talaði við fólk sem upplifði Þýskaland árið 1945 í rústum, sagði það mér að það hefði eiginleg aldrei átt von á að sjá landið sitt í blóma á meðan það sjálft lifði og allra síst að slíkt gæti gerst á 10-15 árum, þ.e. á árunum 1945-1960. Við Íslendingar þyrftum að fá hugumstóra og hugrakka stjórnmálamenn, sem þora að setja upp 10 punkta NEYÐARPLAN til að byggja hér upp inniviðina að nýju. Í raun snýst þessi svokallaða „neyð“ þó aðeins um að lappa upp á Landspítalanna og byggja þar nokkrar byggingar, byggja nokkur þúsund íbúðir, klára smá vegarspotta á Reykjanesbrautinni og ljúka við að tvöfalda hálfkláraða Suðurlandsbrautina. Þá þarf að endurnýja nokkur hundruð einbreiðar brýr, bora nokkur göng og breikka og malbika nokkur hundruð kílómetra af vegum. Reykjavíkurborg þyrfti síðan að malbika nokkra kílómetra og setja asfalt í stærstu holurnar. Það er létt verk og löðurmannlegt fyrir hugrakka og duglega stjórnmálamenn og segja má að 5-6 þúsund duglegir Pólverjar gætu klárað þetta verk á 4-8 árum.

Langar núverandi ríkisstjórn ekki að komast í sögubækurnar fyrir að hafa endurbyggt Ísland, eða vilja þeir að við að minnust þeirra á svipaðan hátt og verklausu „Vinstri velferðarstjórnarinnar“ eða gjörsamlega spilltu „Panama-stjórnarinnar“. Ég skil ekki vandamálið, því það eru nógur gjaldeyrir til að kaupa inn vinnuafl, skuldir ríkisins eru hverfandi og lítið annað að gera en láta hendur standa fram úr ermum. Annað hvort eru allir þessir þingmenn og ráðherrar latir, verkkvíðnir eða hreinlega ekki nógu hugrakkir. Hvað sem öðru líður þá finnst mér að við eigum betri stjórnmálamenn skilið en við höfum verið með undanfarna áratugi. Eitthvað þarf að verða til þess að stjórnmálamennirnir yfirgefi fílabeinsturnana og heimsæki þjóðina sína – hlusti!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.2.2017 - 19:26 - 1 ummæli

Verndum borgfirsku naglana…

Ótrúleg menningarverðmæti virðast vera að tapast, þegar naglaframleiðsla verður lögð niður á Borgarnesi í vor eða næsta sumar, en samkeppnin frá Kína hefur verið erfið.

Nú þarf löggjafarvaldið að bregðast hratt við og banna notkun á skrúfum, sem iðnaðarmenn halda reyndar fram að séu bæði hagkvæmari, ódýrari og þægilegri í notkun.

Við, sem erum sannir Íslendingar, hljótum að kæra okkur kollótt um það sem iðnaðarmenn, verkfræðingar og aðrir sérfræðingar segja, því aðalatriðið er allt sé óbreytt um aldir alda.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.2.2017 - 18:08 - Rita ummæli

Lögum innviðina strax!

Það er engu líkara en ekki sé hægt að mæta aukinni eftirspurn eftir vinnuafli og minnka þenslu á vinnumarkaði með innflutningi á fólki frá EES svæðinu, þ.e. Austur-Evrópu, eins og við höfum reyndar gert í langan tíma vegna skorts á vinnuafli hér á landi. Ef vextir lækkuðu væri enginn vandi að ráðast í byggingu nokkur þúsund íbúða og það sem meira er, almenningur gæti borgað leigukostnaðinn eða keypt íbúðirnar vegna lægri vaxtakostnaðar. Þetta er í raun hraðleið út úr hryllilegum húsnæðisvanda þjóðarinnar og gæti komið í veg fyrir að heil kynslóð Íslendinga flytti úr landi.

Einnig er í raun enginn vandi að efla aðra innviði hraðar en innlent framboð á vinnuafli býður upp á. Þannig væri bæði hægt að byggja spítalann hraðar og koma vegakerfinu í lag með því að flytja inn vinnuafl eða hreinlega fá erlend verktakafyrirtæki til að taka að sér verkin frá upphafi til enda (flytja inn vinnuafl, vinnutæki og bráðabirgðahúsnæði). Útlendingar kunna nefnilega alveg að byggja hús og hafa gert það í nokkur hundruð ár með sæmd á meðan við bjuggum í moldarkofum. Þeir kunna einnig að gera mun betri vegakerfi en kollegar þeirra hér á Íslandi virðast geta gert, en þetta vita allir sem prufað hafa erlendar hraðbrautir. Þeir sem bera þessi ósköp sem Reykjanesbrautin er saman við hraðbrautir, verða viðurkenna að þetta eru eins og verstu sveitastræti í Úkraínu, þar sem bíllinn flýgur í loftköstum meira og minna alla leiðina frá Reykjavík og á Suðunesin.

Með því að hraða uppbyggingu á samgöngum værum við betur búin til að taka á móti þeim aukna fjölda ferðamanna sem hingað koma og dauðaslysum myndi fækka á vegum landsins. Með því að klára spítalann með erlendu vinnuafli væri starfsfólk spítalans ánægðara, biðlistar myndu hverfa og Íslendingar væru heilbrigðari þjóð. Að auki myndi þetta slá aðeins á þensluna og stöðva hækkun krónunnar, því aukið útstreymi á gjaldeyri til erlends verkafólks og verktaka myndi sjá til þess. Allir græða á þessu nema kannski bankarnir sem yrðu að sætta sig við lægri hagnað.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.2.2017 - 12:27 - 6 ummæli

Bönnum vínveitingar á miðvikudögum og sjónvarp á fimmtudögum

Það væri gaman ef MMR legði eftirtaldar spurningar fyrir landsmenn:

1) Telur þú ekki skynsamlegt að leggja af frjálst útvarp og sjónvarp og allar netveitur á Íslandi og leyfa einungis útvarp Rás 1 og sjónvarp RÚV en á sama tíma tækjum við Íslendingar aftur upp bann við sjónvarpi á fimmtudögum.

2) Væri ekki viturlegt að banna aftur bjór á Íslandi?

3) Þarf ekki að takmarka aðgengi að mjólk og mjólkurafurðum (ostar, skyr o.fl.) vegna laktósaóþols þúsunda Íslendinga og færa verslun með þessar hættulegu afurðir í sérstakar mjólkurverslanir líkt og áður tíðkaðist?

4) Eigum við Íslendinga ekki að hætta við afnám gjaldeyrishafta og lækka upphæð ferðamannagjaldeyris um a.m.k. 50% og banna um leið notkun krítarkorta erlendis, en augljóst er að þúsundir Íslendinga kunna ekki að fara með gjaldeyri þegar þeir eru í útlöndum og eyða um efni fram?

5) Í ljósi ofbeldisglæpa í miðborginni og óhóflegar drykkju og sukks, væri ekki við hæfi að breyta opnunartíma vínveitingarstaða til þess horfs sem það var í kringum 1950 og taka upp fyrra bann við skemmtanahaldi á miðvikudögum?

6) Væri ekki ráð að koma böndum á gríðarlega neyslufíkn og óhóflega eyðslu á verðmætum gjaldeyri, sem fylgt opnunum erlendra verslunarkeðja á borð við Bauhaus, IKEA og mun enn aukast með opnun Costco og H & M með því að banna erlendum verslunum að opna hér útibú?

7) Þurfum við Íslendingar ekki að endurvekja sútunar- og skóverksmiðjur landsins; Tóverksmiðjuna á Akureyri, Vinnufatadeild Heklu, Ullarverksmiðjuna Gefjun, Skóverksmiðjuna Iðun að ógleymdu Sambandi íslenskra samvinnufélaga og Kaupfélögum um land allt?

8) Þarf ekki að takmarka aðgang að gosdrykkjum, flatbökum (pítsum) og hamborgurum og frönskum, sem löngu er sannað að hafa slæm áhrif á lýðheilsuna, en um leið innleiða drykkju á mysu í grunnskólum landsins?

9) Ber ekki brýna nauðsyn til að banna óhóflega kryddnotkun í landinu, enda hafa erlend krydd nær útrýmt þjóðlegri matargerð og stórskemmt bragðlauka landsmanna.

10) Þarf ekki að banna eða í það minnsta takmarka notkun farsíma við neyðartilfelli, enda eyddu landsmenn nógum tíma í skvaldur á gömlu landlínunni, sem því miður var flutt til landsins gegn vilja bænda.

11) Er ekki rökrétt að hefta aðgang að Internetinu, enda er það gróðastía kláms og eykur aðgengi almennings að óþarfa upplýsingum, sem fólk getur aflað sér ókeypis og hefur orðið til þess að enginn les lengur gömlu flokksblöðin, sem hefur haft grafalveg áhrif á lýðræðið í landinu og m.a. orðið til þess að fólk er farið að kjósa allskyns stjórnleysingja og byltingamenn til Alþingis.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is