Þriðjudagur 26.12.2017 - 15:52 - Rita ummæli

Annar í jólum – rífum kjaft

Líkt og svo oft áður er helmingur þess er birtist í nýlegum pistli Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, rangfærslur, ýkjur eða uppspuni, en afgangurinn af pistlinum hins vegar brúkhæfur og samanstendur af nokkuð vitrænum skrifum. Slíkum svart/hvítum skrifum eigum við yfirleitt að venjast bæði frá SA og ASÍ. Hinn íslenski veruleiki leyfir ekki að skrifað sé í Panavision-litum, heldur þurfa öll skrif um efnahagsmál að vera í svörtu eða hvítu.

Atvinnurekendur syrgja auðsjáanlega að sumu leyti að kreppan sé búin og að þeir geti ekki borgað hér grútarlaun og að krónan hafi styrkst til muna, þannig að ástandið sé svipað og á Norðurlöndunum, en ekki eins og í Kína, Indlandi eða Pakístan. SA er einnig þeirrar skoðunar að ósvífni hafi verið hjá launamönnum að endurheimta þann kaupmátt, sem þeir töpuðu haustið 2008, hvað þá að sækja hlutdeild sína í aukningu þjóðarframleiðslu og framleiðniaukningu liðinna 8 ára, sem hefur verið ævintýralegur.

Því skal þó haldið til haga, að rétt er hjá Halldóri að létt er að glopra niður eða í það minnsta minnka verulega slíkan árangur, ef ekki er haldið skynsamlega á spilunum á næstu misserum. Helsti vandi okkar Íslendinga er hins vegar ekki há laun, heldur líkt og bent var á í McKinsey skýrslunni strax árið 2012 allt of stórt bankakerfi, en einnig okurvextir, verðtrygging, dýrtíð og krónískur húsnæðissskortur, sem leitt hafa til fasteignaverðsbólu og allt of hás leiguverðs sem unga og efnilega fólkið okkar getur ekki greitt.

SA ætti frekar að koma með hugmyndir að lausnum í stað þess að einblína á að koma þjóðinni á laun eins og í Austur-Evrópu. Samtök iðnaðarins, undir stjórn Sigurðar Hannessonar, eiga hins vegar hrós skilið fyrir að benda á og viðurkenna hið augljósa, sem auðvitað er að innviðir landsins (tískuorð sem á fullan rétt á sér) eru í molum. Að mínu mati þurfa Íslendingar minna fjármálakerfi en hins vegar betri húsnæðis-, samgöngu- og heilbrigðiskerfi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is