Þriðjudagur 14.11.2017 - 06:57 - 17 ummæli

Leysum umferðarhnútana á höfuðborgarsvæðinu

Það er einkennandi fyrir íslenska blaðamenn – sem nær allir eru sósíalistar, umhverfissinnar og andsnúnir bílum – að það sé álitið sérstakt vandamál að íbúar höfuðborgarsvæðisins noti bíla en ekki almenningssamgöngur. Ekki er talað við Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Bílgreinasambandið eða aðra hagmunagæslumenn þeirra sem aka til vinnu sinnar og annara athafna daglega á bíl, heldur látið nægja að taka viðtal við formann „Samtaka um bíllausan lífstíl“.

Bílar munu innan nokkurra ára ekki verða það mengunarvandamál sem þeir eru í dag, þar sem rafmagnsbílar munu yfirtaka hlutverk bensín- og dísilbíla. Umferðarvandamál höfuðborgarinnar er ekki aukinn bílafjöldi, heldur að engar vegaframkvæmdir hafa átt sér stað í höfuðborginni í 20-30 ár. Reykjavík var því miður byggð og skipulögð eins og bandarísk borg, byggðin afskaplega dreifð og fólk því háð einkabílasamgöngum. Þétting byggðar – sem ég fagna – mun ekki breyta miklu, skipulagið er komið til að vera.

Almenningssamgöngur hafa aldrei og munu aldrei leika það stóra hlutverk sem þær gera í þéttbýlum borgum Evrópu, þar sem þétt net strætisvagna, sporvagna, neðanjarðarlesta og annarra lesta sjá að miklu leyti um samgöngur. Að fara af stað með grundvallarbreytingar á samgöngukerfinu rétt áður en við taka sjálfkeyrandi rafmagnsbílar er fáránleg hugmynd, næstum eins fárán og að reisa risastórt sjúkrahús í miðborginni og fórna plássi þar fyrir flugvöll, þar sem nokkrar einkaflugvélar hefja sig á loft og flugskólanemar spóka sig.

Það sem þarf að gera er að lagfæra samgöngukerfið innan borgarinnar fyrir bíla með fjölgun akreina, mislægum gatnamótum, brú frá Garðabæ yfir Álftanes og og niður í miðbæ auk þess að klára hina langþráðu Sundabraut. Að auki þarf að bora önnur göng í Hvalfirði og leggja hraðbraut alla leið á Borgarnes og alla leið á Jökulárlón auk hraðbrauta á Þingvelli, Geysi og Gullfoss og ekki má gleyma almennilegum malbikuðum vegi yfir Kjöl og góðum vegi yfir Sprengisand auk þess að bæta vegi á Vestfjörðum, Landmannalaugum, Ásbyrgi, Dettifoss og Fjallabaksleið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

 • Hver eru tengslin milli þess að vera „sósíalisti“ og að vera á móti bílum?

 • Helgi Viðar

  Það er fátt eins skaðlegt fyrir sósíalistmann og einkabíllinn. Hann nefnilega gerir fólk sjálfstætt. Menn setjast upp í sinn bíl þegar þeir vilja og keyra þangað sem þeir vilja. Hvað ýtir meira undir einstaklingshyggju en þetta?

 • Guðbjörn Guðbjörnsson

  Gott að þú spyrð, því ég hef aldrei áttað mig á hugmyndafræðinni að baki andstöðu vinstri-flokkana gegn bílum og mislægum gatnamótum.

  Að sama skapi hef ég aldrei skilið að allir „kapítalistar“ elski mislæg gatnamót, hati almenningssamgöngur og vilji risastóran og stórhættulegan flugvöll í miðborginni.

  Þetta er eitthvað mjög „séríslenskt“ fyrirbrigði.

 • En þrátt fyrir vöntun á öllum þessum samgönguleiðum, hvort sem við tölum um fyrir almenna bílaumferð eða stórauknar almenningssamgönur og Borgarlínu (einhvern tímann í framtíðinni), er þegar byrjað á þveröfugum enda í skipulagningunni hjá borginni. Stórauknum byggingaframkvæmdum í miðborginni og sem er nú þegar sprungin og síðan til að toppa allt, enn frekari á þröngu Hringbrautarlóðinni með byggingaframkvæmdum Nýs Landspítala upp á 66.000 fm í fyrsta áfanga (og lesa má m.a. betur um í mogganum í morgun. Flestar þjóðir byrja nefnilega á réttum enda, tryggja samgöngur á mikilvægustu þéttbýlissvæðin, ekki síst þar sem um er að ræða þjóðarsjúkrahús og aðal bráðasjúkrahús landsins, Sjá menn og stjórnvöld virkilega ekki ljósið í hvaða óefni stefnir hvað varðar aðgengið, þjóðarhagkvæmni og jafnvel sjálft þjóðaröryggið (ekki síst er varðar alla sjúkraflutninga). https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10204226866869400&set=p.10204226866869400&type=3

 • Og sjá menn virkilega ekki fölsku forsendurnar (forsendurbrestina) í megin forsendum upphaflegs staðarvals Nýs Lnadspítala á Hringbraut sem byggðist fyrst og fremst á miklum samgöngubótum og sjá mátti í eldra aðalskipulagi Reykjavíkurborgar til árisins 2013. (forsendum sem öllum var kippt út með þá AR2013-2030 og jafnvel flugvellinum líka. Ekki má heldur gleyma stórhættulegu aðgengi fyrir sjúkraþyrluflug að þyrlupalli 5 hæðar við nýjan meðferðarkjarna nýs Landspítala eins og hann er skipulagður, ekki síst ef búið verður að loka hringnum með byggingaframkvæmdum á Valslóð sem þegar eru hafnar og síðar jafnvel Vatnsmýrarinnar. Þjóðin kaus um allt annað og endurskoðun framkvæmda á Hringbraut, m.a. í síðustu Alþingiskosningum en sem núverandi stjórnvöld hafa ÞAGGAÐ niður meðal annars hjá RÚV sl. ár http://blog.pressan.is/arkitektur/2017/11/03/stadarval-lsh-forsendur/

 • Einar Karl

  Ég held að umferðarvandi höfuðborgarinnar verði ekki leystur með fleiri akreinum og mislægum gatnamótum, slíkt myndi bara hnika til vandanum. Vandinn liggur ekki fyrst og fremst í afkastagetu helstu stofnbrauta heldur líka og ekki síður að það þrengir að þessari umferð þegar hún kemur af stofnbrautum s.s. Suðurlandsbraut, Borgartún, Skeifan, HÍ svæðið, HR-svæðið o.fl.

 • Helgi: Ég get því miður ekki séð hlutina sömu augum. Mér finnst ég sjaldnar ósjálfstæðari og ófrjálsari en þegar ég sest undir stýri í Reykjavík. En kannski er það bara ég.

 • Guðbjörn: Nei, ég sé ekki tengslin sjálfur.

  En mér finnst engu að síður augljóst að stefna núverandi meirihluta í umferðarmálum og borgarskipulagsmálum er skynsamleg og mun leiða til betri og hagkvæmari borgar til lengri tíma. Ég hefði haldið að hægri menn myndu vilja hagkvæmni og sparnað, en svo virðist ekki vera.

 • Hvaða umferðarhnúta ertu að tala um? Þessa 5 mínútna töf sem Garðbæingar verða fyrir þegar þeir koma til vinnu í Reykjavík á morgnana? Er það vandamál Reykvíkinga? Eða ertu að tala um þessar 3 mínútna tafir á Miklubrautinni um kl 16 á daginn þegar allir eru á leið heim?

  Ef þú byggir í alvöru borg væru þetta ekki taldar umferðartafir. Það er nákvæmlega engin ástæða til að fara í einhverjar sérstakar aðgerðir til að breikka vegi eða búa til mislæg gatnamót til að svara þessum smá-töfum í umferðinni. Auðveldasta lækningin á þessu eru almenningssamgöngur og almenn skynsemi varðandi ferðir í og úr vinnu.

  Hrekkur

 • Helgi Viðar

  Gatamót með umferðaljósum á stofnbrautum í Reykjavík eru of mörg og dregur það flutningsgetu þeirra verulega niður. Gatnamót eins og Hamrahlíð/Kringlumýrarbraut og Bústaðarvegur/Breiðholtsbraut eru algjörar tímaskekkjur. Spölkort frá þessum gatnamótum koma önnur sem ættu taka þessa umferð.

 • Ástvaldur Tryggvason

  Það er þrengt að einkabílum í flestum eða öllum borgum í nágrannalöndunum, og hefur það ekkert að gera með vinstri eða hægri.

  Í Reykjavík fara 48% borgarlandsins undir umferðarmannvirki og því hæpið að lausnin sé að fórna enn meira plássi í þessa hít.

  Lausnin er þvert á móti miklu meiri þétting byggðar, sem er reyndar óhjákvæmileg þar sem byggingarlandið er víða uppurið, og svo að aðrir samgöngumátar, eins og hjólreiðar og almenningssamgöngur, verði gerðir að raunhæfum valkostum. Þar gegnir fjárfesting í hjólastígum og borgarlínu lykilhlutverki.

 • Guðbjörn Guðbjörnsson

  Einar Karl:

  Vandræðin eru bara á nokkrum stöðum, t.d. í hringtorgunum í Hafnarfirði við Reykjanesbraut í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Fossvogur, þ.e. næstum allan Reykjavíkurveginn. Reykjanesbrautin frá Mjódd og inn í Vogahverfi auk Ártúnsbrekku.

 • Ásmundur

  Vinstri menn eru auðvitað ekkert á móti bílum enda eiga þeir flestir bíl og vilja ekki án hans vera. Þeir vilja hins vegar bæta almenningssamgöngur meðal annars til að fá annan valkost eða til að minnka bílaumferð svo að þeir komist fyrr leiðar sinnar.

  Á sama hátt og leiguíbúð ætti að vera valkostur en ekki ill nauðsyn ættu almenningssamgöngur að vera valkostur ekki síður fyrir þá sem eiga bíl og ætla sér að eiga hann áfram.

  Með góðum almenningssamgöngum á sér akreinum komast menn leiðar sinnar mun hraðar en á bíl á mestu álagstímum sem er úr og í vinnu og losna við vandræðin við að finna bílastæði. Almenningssamgöngur eru þá valkostur fyrir bíleigendur. Við það myndi draga úr umferð og þörfin á bílastæðum minnka.

  Ég skil ekki hvernig mönnum dettur í hug að almenningssamgöngur verði úr sögunni með tilkomu sjálfkeyrandi bíla. Hvers vegna ætti þörfin á þeim að hverfa?

 • Að kalla það 5 mín. töf að vera 20 mín. úr Holtagörðum í Mjódd sökum skorts á mislægum gatnamótum við Bústaðaveg ættu að halda sig við strætó. Nema hann sé fullur af fólki sem er búið að losa sig við bílana sína…

 • Halldór Jónsson verkfræðingur átti fínan pistil um þessi umferðarteppumál hér fyrir nokkrum dögum: http://halldorjonsson.blog.is/blog/halldorjonsson/entry/2206470/ = Nærri klukkutíma (var ég í bílnum frá Boðaþingi í Vatnsendahverfi niður á Landspítala og koma bílnum fyrir í örtröðinni þar…)

  Ég tek undir málflutning Guðbjörns um þetta mál, en ekki flugvallarmálið!

 • Helgi Björgvins

  Mér finnst það alltaf hálf absúrd hugmynd að ætla að byggja gatnakerfi sem annar því að allir keyri til og frá vinnu á sama tíma á morgnana og í eftirmiðdaginn.

  Það er svo margt annað hægt að gera, ekki bara að byggja upp aðra samgöngumáta (sem þó verður vitanlega að gera), heldur ekki síður að stuðla að því að það séu ekki allir á götunni á sama tíma. Fyrir verulegan hluta fólks er lítið mál að vinna heima eins og tvo daga í viku, byrja daginn heima og koma á skrifstofuna t.d. kl. 10 þegar engin umferð er á götunum o.s.frv.

 • Rúnar Ingi Guðjónsson

  Allt sem er frítt, er notað í óhófi-

  Setjum upp sjálfvirka innheimtu á veggjöldum innan höfðuborgarsvæðisins og við munum sjá umferðina minnka um 20%

  Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=CX_Krxq5eUI

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is