Sunnudagur 12.11.2017 - 11:33 - 1 ummæli

Leiftursókn Suðurnesjamanna

Næsta skref sameininga á Suðurnesjum er væntanlega að Reykjanesbær (Njarðvíkurhverfi, Keflavíkurhverfi, Hafnahverfi) sameinist hinum nýju Sand-Görðum og að auki Vogunum og að á næstu árum verði úr því bæjarfélagi eitt það öflugasta eða jafnvel það öflugasta í landinu öllu með um 40-50 þúsund íbúa; öfluga lestar- og hraðbrautartengingu við höfuðborgina, stærsta vinnustað landsins (Keflavíkurflugvöllur), Bláa lónið, fjölda hótela, veitingastaða, bílaleiga, rútufyrirtækja, orkuframleiðslu og orkutengdan iðnað auk stórra fiskveiðihafna.
Á tímabilinu 2008-2015 var hagvöxtur langmestur á Suðurnesjum þegar litið er til landsbyggðarinnar eða um 8%. Á árunum 2013-2015 var árlegur hagvöxtur á Suðurnesjum að jafnaði 7% á ári og hann er að sjálfsögðu enn meiri á árunum 2016-2017 (meiri fjöldi ferðamanna), líklega 10-15% á hvoru ári fyrir sig, sem er meira en t.a.m. í Kína eða öðrum þeim stöðum þar sem hagvöxtur er hvað mestur í heiminum. Segja má að Suðurnesin hafi með þrotlausri vinnu snúið við neikvæðri þróun eftir að kvótinn og varnarliðið yfirgáfu okkur í jafn jákvæða þróun og sást hér þegar blessaður kaninn kom.
Fólksfjölgunin er gríðarleg en 1. janúar 2017 voru á Suðurnesjum um 24 þúsund íbúar (17 þúsund í Reykjanesbæ), en fjölgunin hefur verið um 7% á ári, þannig að þær tölur sem ég nefni hér um 40-50 þúsund íbúa gætu ræst á 10-15 árum með sama áframhaldi. Með auknum hagvexti og auknum fólksfjölda hafa tekjur Reykjanesbæjar aukist um tugi prósenta og „fjárhagslegu hættuástandi“ hefur verið aflýst. Merki velgengninnar má sjá þar sem fólk er aftur byrjað að dytta að húsum sínum, umferð hefur aukist og sveitarfélagið byrjað á uppbyggingu innviða.
Mestu gleðifréttirnar eru þó að við höfum rekið atvinnuleysið á brott frá Suðurnesjunum, en það var hvorki létt verk né löðurmannlegt, þar sem atvinnuleysið var á bilinu 14-16% árið 2009. Núna er atvinnuleysið nánast ekkert eða 1,3% í Grindavík og um 2% í Reykjanesbæ, sem segja má að sé fullt atvinnustig. Máli mínu til stuðnings nægir að nefna skv. upplýsingum frá ISAVIA verða árlega til um 1.500 ný störf á Keflavíkurflugvell, en við þetta bætast störf á hótelum og veitingastöðum í bænum og öðrum orkutengdum iðnaði, líklega um 2.000 störf á ári.
Það er líklega hvergi bjartari framtíð en á Suðurnesjunum þessa dagana!
Skýrsla Íslandsbanka um Suðurnes:

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • stefán benediktsson

    Það sem er jákvæðast við vaxandi eftirspurn eftir vinnuafli á Reykjanesi er að þar er verið að byggja áframhaldandi vinnutækifæri tengd ferðaþjónustinni. Árið 1972, ári fyrir olíukreppuna spáðu amerískir sérfræðingar 60 þúsund manna byggð um aldamótin á Reykjanesi í störfum tengdum flugi. Þetta virðist ætla að rætast um hálfri öld seinna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is