Sunnudagur 29.10.2017 - 17:44 - 19 ummæli

Misvægi atkvæða – landsbyggðin ræður ríkjum

Eftir að hafa sofið á þessu í tvær klukkustundir síðdegis, komst ég að þeirri niðurstöðu, að enn einu sinni hafi misvægi atkvæða haft gríðarleg ólýðræðisleg áhrif og valdið lýðræðishalla, sem er óverjandi árið 2017. Ástandið lagaðist þó aðeins með þingkosningalögunum frá árinu 2000.
Að landsbyggðin – þar á meðal ég hér í Reykjanesbæ – hafi allt að tvöfaldan atkvæðisrétt á við Reykjavík og Suðvesturkjördæmi, skekkir myndina á kostnað ákveðinna stjórnmálaflokka, sem njóta meira fylgis í á Suðvesturhorninu en á landsbyggðinni. Þetta er ólíðandi.
Þannig tapa Samfylkingin, Píratar og Viðreisn á þessu fyrirkomulagi á meðan hinir „landsbyggðarflokkarnir“ stórgræða. Niðurstaðan er auðvitað að Reykjavík og nágrannasveitarfélöginn enda uppi með ríkisstjórn, sem hefur ekki þeirra hagsmuni að leiðarljósi heldur landsbyggðarinnar.
Allar breytingar eru tabú í augum landsbyggðarinnar og hún ræður ferðinni. Hér verður því óbreytt ástand um alla framtíð, hvort sem það lýtur að landbúnaðar- eða sjávarútvegsmálum, ESB aðildarviðræðum, Reykjavíkurflugvelli eða að á höfuðborgarsvæðinu verði einhverjar vegaframkvæmdir.
Höfuðborgarbúar og nágrannasveitarfélögin eru í gíslingu núverandi kosningafyrirkomulags, sem hefur ítrekað verið gagnrýnt af Lýðræðisnefnd Evrópuráðsins (Feneyja-nefndin), sem mælt hefur með því að þetta misvægi færi ekki yfir 15% og frávikið frá meðaltali væri ekki yfir 10%.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

 • Vel mælt, ágæti Guðbjörn!

  Þetta er kjarni málsins og því eru breytingar í þessu landi með öllu ómögulegar.

 • Þóroddur Bjarnason

  Þetta er reyndar ekki alveg rétt. Við erum með stórfurðulegt og alltof flókið kosningakerfi en hagsmuna flokkanna er gætt býsna vel. Þannig felst misvægið í rauninni í því að atkvæði sem greitt er tilteknum flokki á suðvesturhorninu nýtist að hluta til sama flokki í öðrum kördæmum. Ef landið hefði verið eitt kjördæmi hefði einn þingmaður færst frá Framsóknarflokknum til Samfylkingarinnar, það er nú allt og sumt….

 • þórður sverrisson

  Rétt. Mesta hættan sem steðjar að byggð í landinu er byggðastefnan. Að fórna í sífellu meiri hagsmunum fyrri minni , vegna hins pólitíska ávinnings sem af misvægi atkvæða hlýst, er dýrt. Ekkert mun breytast hérlendis eins lengi og kjördæmakerfið breytist ekki , – og það verður ekki á þessari öld.

  Misvægi atkvæða er ekki gott. Ef maður felllst á hugmyndina má alveg eins mismuna eftir , tekjum , aldri eða rúmmáli eins og búsetu.

 • Einar Strand

  Sæll Guðbjörn

  Það er að verða þannig að leið Katalóníu fer að verða mjög freistandi fyrir landabyggðina.

 • Rúnar Geir

  Staðan er reyndar þannig að höfuðborgarsvæðið er með 35 þingmenn gegn 28 þingmönnum landsbyggðarinnar (ef ég man rétt). Það er ósköp eðlilegt að landsbyggðin hafi rödd á við höfuðborgarsvæðins þótt aðeins halli á íbúa höfuðborgarsvæðisins í atkvæðavægi.

 • Guðbjörn Guðbjörnsson

  Þóroddur Bjarnason:

  Ég sé ekki betur en að bæði Samfylkingin og Miðflokkurinn séu með fleiri atkvæði en t.a.m. Framsóknarflokkurinn, þannig að þessi kenning gengur nú ekki alveg upp.

  Hitt sem ég átti við er að óeðlilega margir þingmenn koma af landsbyggðinni eins og Rúnar Geir bendir á hér að ofan eða 28 af 35 þingmönnum.

  Rúnar Geir:

  Úti á landi eru 80 þúsund á kjörskrá en á höfuðborgarsvæðinu um 150 þúsund þannig að það gerir nú meira en að halla aðeins á höfuðborgarsvæðið.

  Líkt og þú bendi á er hins vegar nær helmingur þingmanna af landsbyggðinniu. Þetta skekkir öll valdahlutföll á þinginu og það var það sem ég var að leggja áherslu á.

 • …og valdið valdið valdið lýðræðishalla

 • Rúnar Geir

  Hversu stór hluti vegakerfisins er á landsbyggðinni? Hversu stór hluti landbúnaðarins er á landsbygðinni? Sjávarþorpin, þjóðgarðarðarnir, fiskimiðin, laxeldin, stóriðjan, náttúruverndin? Megnið af því sem skiptir virkilegu máli er á landsbyggðinni, og í raun ætti landsbyggðin að fá fleiri þingmenn ef eitthvað er.

 • Rúnar Geir

  Það eina sem höfuðborgarsvæðið er „ríkt“ af eru fræðingarnir.

 • Einar Karl

  Rúnar Geir:
  Allir Íslendingar borga jafnt fyrir vegina með sköttum, hvar svo sem vegirnir liggja. Sama gildir um t.d. þjóðgarða. Svo er nú Reykjavík stærsta verstöð landsins þó það gleymist oft. M.a.s. staðsett í 101 Reykjavík!

  Annars er svona „við erum betri en þið“ rembingur óttalega hallærislegur og lélegur rökstuðningur fyrir því að þú eigir að ráða meira um það en ég, hverjir sitji á Alþingi.

 • Finnst þér Rúnar, að fjöldi þingmanna eftir kjördæmum eigi að fara eftir lengd vegakerfisins, eða einhverju öðru? Og eiga þá allir vegir að vega jafnt, eða bara þeir sem eru á forræði Vegagerðarinnar?

 • Brynjúlfur Óli Valsson

  Guðbjörn, landsbyggðin ræður ekki öllu.
  Reykjavíkurvaldið ræður öllu og er efnahagslega og félagslega í mun sterakari stöðu en landsbyggðin.

  Þú telur þó að Reykjavík ætti að falla í skaut
  fleiri þingsæti, þá er það engu að síður skoðun flestra að í Reykjavík sem
  höfuðborg landsins hafi fólk mjög greitt aðgengi að hinu pólitíska
  valdi í landinu í krafti setu þingsins í borginni. Sem aðsetur allra
  stærstu fjölmiðla landsins, allra höfuðstöðva stjórnmálaflokka,
  allra megin hagsmunasamtaka, sem og aðal fjármála- og
  stjórnsýslustofnana, sem og helstu stærstu fyrirtækja landsins, hefur borgin svo afgerandi stöðu að ekki ermeð nokkru móti hægt að krefjast sama vægis atkvæða og önnurkjördæmi hafa.

  Með því sem kallað er jafnt vægi atkvæða, þá fengi höfuðborgarsvæðið 44 þingmenn, en landsbyggðarkjördæmin, sem eru landfræðilega margfalt víðfeðmari, einungis 19 þingmenn.
  Fólk getur rétt ímyndað sér hvor tað þessir 44 þingmenn höfuborgarsvæðisins ber hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti?

  Svarið er klárt NEI, nema þegar gera á landsbyggðina að einum allsherjar þjóðgarði.

  Með svokölluðu jöfnu vægi atkvæða yrði efnahagsleg og félagsleg staða landsbyggðarinnar enn verri en hún er í dag.

  Það er með ólíkindum að þessi svokölluðu jafnaðarmannaflokkar, ESB-flokkarnir og Reykjavíkurflokkarnir vilji gera stöðu landsbyggðarinnar svona slæma.
  Hvers vegna, Guðbjörn?

  Þetta er kannski skýringin á því að þessum svokölluðum jafnaðarmannaflokkum og ESB-Reykjavíkurflokkum vegnar svona illa í kosningum.
  Þessi óbeit ykkar á landsbyggðinni er ekkert annað en menningarlegur rasismi.

  Þessi skýrsla hér bendir á það að áhrif þess að jafna atkvæði muni gera samfélagslega stöðu landsbyggðarinnar enn verri, en það er einmitt það sem þið sem viljið jöfnun atkvæði viljið:

  https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/stjornarskra/Skyrsla_stjornlaganefndar_fyrra_bindi_Ad_jafna_atkvaedi.pdf

 • Einar Karl

  Brynjólfur Óli,

  ef landfræðilegt víðfemni á að ráða þingmannatölu þá ætti hálendið að vera með alla vega 12 þingmenn. Og Hornstrandir kannski tvo?

  Þetta er bara bull, þingmenn eru fulltrúar FÓLKS en ekki landflæmis.

  Annars eiga auðvitað þingmenn að bera hag ÞJÓÐARINNAR ALLRAR fyrir brjósti, en ekki bara síns kjördæmis. Margir þingmenn höfuðborgarsvæðisins eiga líka heilmikil tengsl út á land, hafa sumir fæðst þar og búið hluta ævinnar, eiga þær ættingja og vini og rætur.

  Alveg eins og sumir núverandi þingmenn landsbyggðarinnar eiga heilmikil tengsl við höfuðborgarsvæðið, eins og t.d. formaður Miðflokksins og þingmaður Norðausturkjördæmis, sem er fæddur og uppalin í Reykjavík, veit ekki til þess að hann hafi nokkurn tímann búið úti á landi. Sama gildir um fleiri þingmenn sem stillt er upp í landsbyggðarkjördæmum, en búa þar ekki og hafa aldrei gert.

 • Brynjúlfur Óli Valsson

  Einar Karl.

  Mikið af hálendissvæðunum falla undir landsbyggðakjördæmin svo, já, í þeirra hlut falla þessir fáu þingmenn sem landsbyggðin fær í sinn hlut.

  Þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna hugsa fyrst og síðast um sitt nærumhverfi, nefnilega Reykjavík.

  Það eru nefnilega ólík viðhort til landsbyggðar hjá Reykjavíkurþingmönnum heldur en hjá þingmönnum af landsbyggðinni.

  Þannig er það að þegar fólk á landsbyggðinni óskar eftir að ráðist verði í atvinnuupbyggingu á landsbyggðini, þá kemur þingmönnum Reykjavíkurkjördæmanna til hugar þjóðgarður og náttúruvernd, en ekki t.d. uppbygging iðnaðar og staðsetning opinberra stofnanna þ.e. nákvæmlega það sem fólk úti á landi er að leita eftir og óska sér.

  Vegna gífurlegrar pólitískrar, félagslegrar og efnahagslegrar stöðu Reykjavíkur, auk stórs hlutdeildar í sameiginlegum gæðum landsmanna, þá ætti Reykjavík ekki að þurfa að hafa neina þingmenn.
  Þannig er þetta víða um heim þar sem höfuðborgir hafa sterka stöðu vegna staðsetningar stjórnsýlsu þar t.d. Washington í Bandaríkjunum.

 • Einar Karl

  Æi óttalegar alhæfingar eru þetta, og ég myndi segja minnimáttarkennd hjá þér Brynjólfur Óli.

 • Ingi Gunnar Jóhannsson

  Það er ekkert nýtt að íslensk þjóð sé hundtrygg við kvalara sína, og lætur óréttlætið jafnan yfir sig ganga.
  Ennþá er hér allt fast í hlekkjum hugarfarsins, og þeir sem mesta hagsmuni hafa af núverandi misvægi atkvæða berjast með kjafti og klóm gegn breytingum á því kerfi.
  Þjóðin er einfaldlega ennþá undirokuð og kann ekki að breyta hér neinum grunngildum samfélagsins til batnaðar. Því miður, Íslands ógæfu verður jafnan allt að vopni.

 • Brynjúlfur Óli Valsson

  Einar Karl, þú skrifar hér gegn betri vitund.

  Ný stjórnarskrá mun MISMUNA landsbyggðinni hið grófasta og gera fólk á landsbyggðinni að „Untermensch“ enda er það tilgangur nýrrar stjórnarskrár og því alveg augljóst að þeir sem skrifuðu drög að nýrri stjórnarskrá voru ekki að hafa landsyggðina í huga.
  Þetta undirstrikast í því að af þeim 24 „vitringum“ sem sátu á stjórnlagaráði, var 21 af Höfuðborgarsvæðinu og ekki er þetta sérlega viðsýnt fólk ef það skrifar stjórnarskrá með þarfi Höfuðborgarbúa eingöngu að leiðarljósi.

  Það má því ætla að sömu hlutföll af fólki af landsbyggðinni á stjórnlagaráði verði á Alþingi framtíðarinnar verði stjórnarskrá sérvitringanna sem skrifuðu stjórnarskrána höfð að leiðarljósi.

  Svona afstaða gagnvart landsbyggðinni er ekkert annað en menningarlegur rasismi.

 • Jens Jónsson

  Ég vill endilega að landið verið allt eitt kjördæmi og þingmenn verði að skila dagbók um heimsóknir þeirra í hvert einasta sveitarfélag á hverju ári sem þeir gegna þingmennsku.

 • Að landið verði allt eitt kjördæmi leysir nokkur vandamál í senn:
  1) það jafnar þennan núverandi ójafna hlut á atkvæðavægi manna eftir heimilisstað þeirra,
  2) það afnemur múra Fjórflokksins gamla (kjördæmaskipinguna og 5%-múrinn) sem ætlaðir eru sem fyrirstaða fyrir nýja flokka að ná kjöri inn á Alþingi, já, afnemur líka sérpantað ranglæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn: að skipta Reykjavík (einu lögsagnarumdæmi) upp í tvö kjördæmi, alveg að ástæðulausu nema til að hagnast þeim flokki með því að reisa smáflokkum nýja múra!),
  3) það dregur þar með úr fákeppnisvaldi stóru flokkanna, sem var nú ærið fyrir vegna sterkrar aðstöðu þeirra til að ausa úr ríkissjóði í flokksskrifstofur sínar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is