Föstudagur 05.05.2017 - 07:23 - Rita ummæli

Einkavæðingu – kosti og galla – þarf að ræða!

Viðreisn hefur að mínu mati ekkert að gera í þessari ríkisstjórn lengur, nema að flokkurinn sé úlfur í sauðagæru, sem manni er óneitanlega farið að gruna. Reyndar finnst mér minn flokkur, Viðreisn, vera í nær einu og öllu taglhnýtingur Sjálfstæðisflokksins. Stefnan virðist tekin á að halda áfram sömu „ógagnsæju“ einkavinavæðingunni og byrjaði með Borgunarmálinu, en núna því miður með fullum stuðningi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Fyrri ríkisstjórn lagði grunninn að því að draga ríkið fullkomlega út úr almannatryggingum hvað ellilífeyri varðar og eftirláta það hlutverk lífeyrissjóðunum, nema fyrir þá sem aldrei hafa nennt að vinna og greiða í lífeyrissjóð eða þá sem hafa svikið tekjur sínar undan skatti. Að sama skapi hefur almannatryggingum nú verið breytt á þá lund að hámarksútgjöld vegna læknismeðferðar hafa verið sett í 70 þúsund krónur, en reikningnum af því velt yfir á aðra sjúklinga, þannig að nær allir tapa á þessari aðgerð.
Jón Gunnarsson kynnti strax á hveitibrauðsdögum ríkisstjórnarinnar einkavæðingu samgöngukerfis landsins. Óttar Proppé hefur hug á að einkavæða heilbrigðiskerfið í áföngum, sem ætti að ganga hratt með því að kyrkja Landspítalann hvað fjárveitingar varðar. Kristján Þór Júlíusson ætlar sér auðsjáanlega að einkavæða smám saman framhaldsskólastigið og er á sömu vegferð hvað háskólastigið varðar með því að fjársvelta Háskóla Íslands bæði hvað framlög til náms og vísindastarfa varðar.
Ríkisfjármálaáætlun næstu ára sýnir og sannar, að þessi ríkisstjórn ætlar að klára að „koma bákninu burt“, sem var þó næstum slátrað í kreppunni, þegar framlög til allra ríkisstofnana lækkuðu um 20-25%. Ég er ekki talsmaður stórs ríkisbákns eða að allur rekstur þurfi að vera í höndum ríkisins, t.d. heilbrigðis- og menntamál eða jafnvel hluti samgöngumála, öðru nær. Það er hins vegar lágmark að þegar grundvallarbreytingar eru gerðar á kerfinu, séu slík mál kosningamál og um það fari fram djúp umræða og þá ekki aðeins á Alþingi, heldur í öllu samfélaginu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is