Miðvikudagur 03.05.2017 - 07:06 - 8 ummæli

Einsdæmi: Stjórnvöld hata atvinnulífið og launþega

Virðisaukaskattur á ferðþjónustuna tvöfaldaður úr 11% í 22%, sem sennilega fer langt með að ganga af þessari stærstu atvinnugrein landsins dauðri og nú á til viðbótar einnig að leggja auðlindagjöld á ferðaþjónustuna og útgerðina, sem berjast í bökkum vegna hás gengis krónunnar.
Er ekki kominn tími til að nýtt fólk taki við í brúnni, því þessi ríkisstjórn er að slá „vinstri-velferðarstjórninni“ við varðandi skattahækkanir og furðulegar ráðstafanir af öllu tagi, en stjórnvöld eru núna á að koma á „auðlindagjöldum“ til viðbótar. Nær engar opinberar framkvæmdir eru fyrirhugaðar næstu árin, þrátt fyrir að þjóðvegirnir séu í henglum, öryggi ferðamanna og klósettmál óleyst vandamál, spítalinn og allar helstu opinberar byggingar úldnar að innan sem utan og margar opinberar stofnanir farnar að lýsa frá því að fjöldauppsagnir séu framundan.
Maður spyr sig hvort við eigum ekki eitthvað aðeins skárra skilið eftir útreiðina undanfarin 10 ára eða svo, heldur en stjórnvöld sem hatast bæði við atvinnulífið og launþega landsins, en slík ríkisstjórn hlýtur eiginlega að toppa hræðilegustu ríkisstjórnir fortíðarinnar og þarf þó nokkuð til!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Jonas Kr

  Ert þú ekki búinn að lesa stefnuskrá Viðreisnar? Þar segir meðal annars.

  „Markaðstengt afgjald verði tekið upp fyrir nýtingu auðlinda í almannaeigu. Afgjaldið nemi að lágmarki þeim umhverfiskostnaði sem nýtingin veldur. Með því móti verði tryggt að meiri hagsmunum verði aldrei fórnað fyrir minni við ákvarðanir um nýtingu umhverfis og auðlinda.“ og

  „Tekið verði upp afgjald í ferðaþjónustu til að stuðla að ábyrgri aðgangsstýringu, uppbyggingu innviða og vernd náttúru landsins.“ og

  „Tekið verði upp markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi.“

  Sjá: https://www.vidreisn.is/is/malefni/umhverfis-og-audlindamal

 • Kristinn J

  Hárétt, en við getum sjálfum okkur um kennt. Við kusum þennan ófögnuð yfir okkur.

  Eina ráðið við þessu öllu saman er en það er það ráð sem Guðmundur nokkur og fleiri hafa verið að hamra á.

  „Það þarf að skipta út kjósendum á Islandi“

 • Guðbjörn Guðbjörnsson

  Jonas Kr:

  Ekkert mál að taka upp „markaðstengd afgjald“ til að standa undir ýmsum innviðum tengdum ferðaþjónustunni.

  En ég man ekki eftir að Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn eða Björt framtíð hafi talað um tvöföldun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.

  Nú erum við að tala um tvöföldun virðisaukaskatts, þreföldun gistináttagjalds og markaðstengt afgjald og það í kjölfar 30% styrkingar krónunnar.

 • Ásmundur

  Það er réttlætismál að ferðaþjónustan greiði sama vsk og aðrir. Hins vegar er kannski óheppilegt að þessi mikla hækkun komi á sama tíma og gengi krónunnar er í hæstu hæðum.

  Skattahækkanir í góðæri eru í samræmi við almennt viðurkennd hagfræðilögmál. Þess vegna er galið að lækka vsk og aðra skatta á kjörtímabilinu. Það ætti þvert á móti að nota tækifærið til hækka skatta á hæstu tekjur og miklar eignir og koma þannig í veg fyrir hrun innviðanna.

  Hrun innviðanna virðist vera markmið núverandi ríkisstjórnar þó að öllu fögru hafi verið lofað fyrir kosningar. Sem fjármálaráðherra í síðustui ríkisstjórn setti Bjarni Ben lög um þak á eyðslu ríkissjóðs umfram fjárlög þvert gegn ráðum færustu sérfræðinga. Og nú er búið að setja lög sem eiga að halda tekjum ríkissjóðs innan ákveðinna marka. Þess skal vandlega gætt að svigrúm til að þæta innviðina verði ekkert.

  Síðustu ríkisstjórn stjórnuðu tveir auðmenn, báðir kenndir við Panama, og þótti slæmt enda sétrhagsmunagæslan algjör. Núverandi ríkisstjórn er einnig stjórnað af tveim auðmönnum sem eru náfrændur í þokkabót. Annar náfrændi þeirra er svo forstjóri LSH sem virðist þó ekki láta frændhyglina stjórna sér.

  Náfrændurnir tveir hafa svo auðsveipan skósvein til að taka á sig verstu skítverkin. Hann er sagður vera fyrrum Alþýðubandalagsmaður. Geta stjórnmál Í lýðræðisríki sokkið dýpra? Hve lengi ætla menn að láta bjóða sér þetta?

 • Það er reyndar mjög þarft að þessi hækkun komi nú þegar gengið er í hæztu hæðum, því að aðgerðin mun að líkindum valda veikingu krónunnar eða minni framtíðarstyrkingu.

 • Ásmundur

  Úr því sem komið er er þessi hækkun núna líklega rétt þó að erfitt sé að spá fyrir um afleiðingarnar. En það hefði verið betra ef hækkunin hefði komið fyrr.

  Það voru auðvitað alvarleg mistök .þegar Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn ógíltu lög sem vinstri stjórnin setti um 14% skatt á ferðaþjónustuuna.. Þeir milljarðar hefðu nýst vel í nauðsynlega uppbyggingu.

 • Guðbjörn Guðbjörnsson

  Ásmundur:

  Ferðaþjónustan mun í ár líklega sjá ríkissjóði fyrir tekjum upp á 100 milljarða króna. Nægir það ekki til uppbyggingar á innviðum?

  Núverandi spár – miðað við 11% virðisaukaskatt á ferðaþjónustana – gera ráð fyrir tæplega 500 milljarða tekjum fyrir ríkissjóð á næstu 4 árum. Nægir það?

 • Ásmundur

  Guðbjörn, allir innviðir eru sveltir; heilbrigðiskerfið, vegakerfið, menntakerfið, lögregla ofl. Þess vegna verður ríkið að hafa allar klær úti til að afla sér tekna.

  Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki áhuga á því. Þess vegna ætlar hún að nota tekjurnar af auknum vsk á ferðaþjónustu til að lækka almernnan vsk..

  Vilja kjósendur ríkisstjórnarflokkanna veikja innviðina enn frekar með skattalækkunum og frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is