Miðvikudagur 05.04.2017 - 07:10 - 1 ummæli

Drepum helvítis ferðaþjónustuna

Virðisaukaskattur yrði með hækkun úr 11% í 22,5% næsthæstur í Evrópu, en aðeins í Danmörku yrði skattpíningin meiri, þar sem ferðaþjónustan hefur um árabil kvartað sáran undan háum virðisaukaskatti. Mjög hár virðisaukaskattur er ígildi „útflutningstolls“ á ferðaþjónustuna, þar sem í raun um hreina útflutningsgrein er að ræða. Menn voru fyrr á tímum fljótir að átta sig á því að útflutningstollar voru af hinu verra, enda urðu slíkir tollar vanalega til þess að útflutningur dróst saman, arðbærum störfum fækkaði, hagvöxtur minnkar og viðskiptajöfnuður varð óhagstæður. Þegar á heildina er litið felst því enginn þjóðfélagslegur ávinningur af slíkri skattlagningu heldur aðeins skaði. Af þessum sökum eru útflutningstollar vandfundnir í heiminum í dag.

En þessi stærsta útflutningsgrein Íslands á ekki aðeins í bullandi samkeppni við Noreg og Kanada, heldur einnig fjölda annarra ríkja, t.d. Nýja-Sjáland, Rússland og hin Norðurlöndin. Öll eru þessi ríki með ferðaþjónustu í lægra virðisaukaskattsþrepi en við en að auki mun hagstæðara gengi á gjaldmiðlum sínum og því mun samkeppnisfærari. Nú þegar eru afbókanir byrjaðar að streyma inn vegna hás gengis. Orðrómur um um að tvöfalda eigi virðisaukaskatt gæti haft enn verri afleiðingar á þennan eina vaxtarbrodd í íslensku atvinnulífi, sem við höfum upplifað frá hruni. Það er einkennilegt að Sjálfstæðiflokkurinn og minn flokkur Viðreisn skuli vilja feta sömu leið og kommarnir í VG og Samfylkingunni fyrir nokkrum árum síðan og hækka hér skattlagningu á undirstöðuatvinnuveginn.

Öðruvísi mér áður brá.
Aldrei var svona kvatt til fundar.
Krunka hér yfir köldum ná
kommúnistar og aðrir hundar.
Steingrímur Einarsson, læknir

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Orri Ólafur Magnússon

    „Nú þegar eru afbókanir byrjaðar að streyma inn vegna hás gengis“
    Mér hefur skilist á þeim sem til þekkja að það séu fyrst og fremst ferðir frá Evrópu / evrusvæðinu sem verið er að afbókaða. Við þessu mátti reyndar búast, enda allur varningur og þjónusta á tvöföldu verði hér á landi saman borið við dýrustu staði í Evrópu. ( 0,3 L Pils á barnum í Hilton am Tucherpark Muenchen : € 4,70 = ISK 560,- / í Reykjavik : kr. 1000,- ) Das „Preis – Leistungsverhaeltnis“ – það sem ferðamennirnir fá fyrir peningana, €-urnar, sínar er ekki lengur hægt að „út-skýra“ með neinum gildum rökum. Sem betur fer fyrir íslenska okrara(sam)félagið hlaupa Kínverjar ( samtals 1,3 ma ) í skarðið og þar sem þeir, sem og Ameríkanar, staldra ekki nema við nema i 2 – 4 daga, skiptir þá virðisaukaskattur og svimhátt íslenskt verðlag engu máli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is