Mánudagur 03.04.2017 - 07:32 - 8 ummæli

Gíbraltarstríð Englendinga

Miðað við yfirlýsingar fyrrverandi forsætisráðherra Breta um stríð vegna Gíbraltar, held ég að ráðlegast sé fyrir Evrópusambandið að setja Litla-England í stjórnmálalegt og efnahagslegt „permafrost“, þegar þeir loksins ganga úr sambandinu. Við Íslendingar þekkjum þennan hroka Breta og yfirgang þeirra alveg frá miðöldum og þegar þeir gengu fram af ofbeldi í þorskastríðunum og nú síðast í Icesave málinu, þegar þeir settu á okkur hryðjuverkalög.

Englendingar sýna með þessari hegðun sinni – einu sinni sem oftar -, að þeir eru ribbaldar, sem engu gleymt af sínum „heimsveldishroka“ og „ofbeldisfullum“ viðbrögðum, þótt þeir séu núna – þegar Skotar og Noður-Írar hverfa úr Eyjabandalaginu – aðeins með 50 milljónir íbúa að baki sér og reyndar rúmlega helminginn af lítilli eyju undan ströndum meginlandsins. „Smækkunarverkir“ heimsveldisins eru þeim erfiðir og gætu leitt til fyrstu styrjaldar í Evrópu í 70 ár.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Orri Ólafur Magnússon

  Ég játa það fúslega að hafa einungis fylgst afar yfirborðslega með þessari Gibraltardeilu, Guðbjörn, en liggur ekki beinast við að spyrja íbúa þessa kletts, í hvoru landinu þeir kjósa að vera þegnar ?

 • Baldur Ás

  Skömmu eftir að Bretar tóku Gíbraltar 1713 tóku Rússar Krímskagann, ekki síst til að ráða niðurlögum Tartaranna sem lengi höfðu stundað þrælaveiðar í Rússlandi og Póllandi. Síðan hefur Krím verið á forræði Rússa. Ekki alls fyrir löngu voru íbúarnir spurðir hvorum megin hryggjar þeir vildu liggja. Svarið var ótvírætt,

 • Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson

  Það er búið að kjósa niðurstaðan var ótvíræð – 96 % þessa fjölbreytta hóps manna vill vera hluti af UK (í þeirri mynd sem UK verður). Gíbraltarbúar eru skemmtileg blanda fólks af genóískum (þ.e. frá Genóahéraði á Ítalíu), maltverskum, Sefaradískum (spænskir og portúgalskir gyðingar), marókkóskum, spænskum og breskum uppruna. Mjög flott samfélag.

 • Það hefur nú verið barist í Evrópu frá stríðslokum 1945. Nægir þar að nefna Balkanskagan á fyrrihluta 10. áratugarins.

  En það er rétt að UK mun líklega ganga í gegnum einhverja samdráttarverki á næstunni.

 • Guðbjörn Guðbjörnsson

  Herseta Breta á Gíbraltar á Spáni eru leifar af gamalli heimsveldispólitík eða hvað myndum við Íslendingar segja við því ef að Bretar hefðu neitað að yfirgefa Kópavogsbæ árið 1941 og væru þar enn með herstöð?

  Ættu þá 30 þúsund íbúar Kópavogs að geta haldið sjálfstæði sínu inni í miðju Íslandi, bara af því að þeir hagnast þar á fjármálabraski, bresku hermangi og spilavítum?

  Hong Kong hefur verið afhent Kínverjum og á sama hátt og Bretar hverfa eftir 300 ár frá Spáni ættu Spánverjar að afhenda Ceuta og Melilla til Marokkó í Norður-Afríku.

 • Orri Ólafur Magnússon

  „Hong Kong hefur verið afhnt Kínverjum … “ Eftir því að dæma sem ég hef haft spurnir af, var þessi afhending gerð að íbúum Hong Kong forspurðum.

 • Sveinn í Felli

  Gíbraltar hefur mér sýnst vera í meginatriðum ein stór fríhöfn. Skip stinga stefni inn í hafnarkjaftinn, og hókuspókus, farmurinn er allt í einu orðinn með upprunavottorð úr Evrópusambandinu. Þú þarft ekki nema klukkutíma spássitúr þarna til að sjá hverslags smyglaragreni þetta er.
  En mikið óskaplega er þetta samt skemmtilega sérkennileg útgáfa af hlutum sem maður annars sér í hinum ýmsu hverfum í London, bara mikið minna að umfangi.
  Mörg þúsund spánverjar vinna á „Klettinum“ og fara á milli daglega. Fyrirkomulag sígarettu- og áfengissmygls er til fyrirmyndar; agentar bíða Spánarmegin eftir burðardýrunum sínum, sem oftast eru nýlentir innflytjendur eða staurblankir dópistar. Hver aðili má fara 5-6 ferðir í viku og taka með sér 2 karton af rettum og einhvern slatta af búsi. Gíbraltarmegin er meira að segja búið að reisa sérstaka kjörbúð við sjálf landamærin, svo að fólk sé ekki að dröslast með áfengið yfir flugbrautina.
  Hef grun um að það sé ekki síst þetta „fríhafnar“-fyrirkomulag sem pirri spænsk stjórnvöld…

 • Tómas I. Gíslason

  Sveinn í Felli er með þetta, Gíbraltar er notað sem skatta, tolla og skálkaskjól og hefur engan annan tilgang – fyrir utan að svala litlu-Englendingum ódýrum þjóðrembuþorsta.

  Lýsing hans er nákvæmlega eins og mín upplifun var af þessu. Þetta eru ekki einu sinni leifar heimsveldisstefnu, enda væri litlu-Englendingum slétt sama um þetta þá, heldur er þetta tákn um hernaðarlegan sigur Englendinga.

  Það er ekki eins og þeir eigi mörg áþreifanleg merki þess, þarf sennilega að fara til Falklandseyja til þess. Hernaðarlegur máttur Bretlands er ofboðslega veikur miðað við hvað hann var, og sumir einblína heiftúðlega á Gíbraltar til að sannfæra sig um að svo sé sko ekki!

  Gíbraltar tilheyrir Spáni, það er ekkert um annað að ræða, ekki frekar en að Keflavík tilheyri Íslandi. Gíbraltar í þessari mynd er pest fyrir Spán, vegna smygls og skattsvika, og á meðan Gíbraltar er ósjálfbjarga án hjálpar UK og fast við Íberíuskaga, þá getur þetta bara endað á einn hátt.

  Með því að Bretar skili Gíbraltar til Spánar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is