Laugardagur 25.04.2015 - 11:28 - 1 ummæli

Gagnsætt ráðningarferli óæskilegt

Nýr óperustjóri kemur fram með tímamóta yfirlýsingu í DV þess efnis að „gagnsætt ráðningarferli sé ekki alltaf æskilegast“. Verður maður að álykta að stjórn Óperunnar sé sama sinnis, þar sem hún kaus einmitt að ferlið væri ógagnsætt og lokað. Þarna eru stjórn Óperunnar og Steinunn Birna algjörlega sammála gamla fjórflokknum, sem aðhyllist frændhygli (nepótisma), klíkuráðningar, helmingaskiptaregluna og sérhagsmunagæslu. Maður átti satt best að segja ekki von á slíkum vinnubrögðum frá stjórnarmönnum Óperunnar, sem ég hélt að vildu ekki kenna sig við gömul klíkustjórnmál. Hér hafa skipanir í stóla æðstu manna stjórnsýslunnar og dómstóla svo sem alltaf farið fram í reykfylltum bakherbergjum og séu þetta vinnubrögð þess fólks sem erfa á landið breytist það líklega ekki þótt nýir stjórnmálaflokkar komi fram á sjónarsviðið.

Ógagnsætt ferli við ráðningar er í þessu tilfelli hugsanlega ekki ólöglegt, þar sem stjórnsýslulög eiga sennilega ekki við um Óperuna. Að mínu mati er þetta þó sannarlega algjörlega siðlaust og aldrei hefur nokkrum dottið í hug að viðurkenna réttmæti klíkuráðninga jafn grímulaust í fjölmiðlum eins og nú er gert. Ég hafna því algjörlega að við Íslendingar viljum sætta okkur við slíkt ófremdarástand. Það er að mínu mati algjört skilyrði að ráðningarferli séu opin og gagnsæ við ráðningar í opinber eða hálfopinber störf – t.d. hjá stofnunum eða fyrirtækjum, þar sem stærstur hluti af rekstarfé kemur frá skattborgurum líkt og hjá Íslensku óperunni – og að hæfasti einstaklingurinn sé ævinlega ráðinn. Fjölmiðlar ættu núna kannski að átta sig á að hér er almenna óánægju að ræða með ráðningarferli Óperunnar en ekki uppsteyt nokkurra tapsárra óperusöngvara.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • „…the worst curse of democracy , as we suffer under it today, is that it makes public office a monopoly of a palpably inferior and ignoble group of men …“

    H. L. Mencken

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is