Miðvikudagur 22.04.2015 - 20:34 - 2 ummæli

Sovétríki atvinnulífsins

Sovétríki Atvinnulífsins datt mér í hug í dag, þegar ég heyrði Þorstein Víglundsson – fyrrverandi frjálshyggjumann – andmæla því að fyrirtæki gætu gert „sjálfstæða“ samninga við sína launþega. Ef fyrirtæki – t.d. í útflutningsgreinum á borð við ferðaþjónustu, sjávarútveg eða stóriðju – geta gert samninga upp á 10-15% hækkun vegna batnandi afkomu, ætti það nú bara að vera „týpísk“ hægri-stefna eins og ég þekkti hana í gamla daga. Ég man að Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Samninganefnd ríkisins reyndu allt hvað þau gátu fyrir nokkrum árum til að afnema heildarkjarasamninga við heildarsamtök launþega eða einstök stéttarfélög og vildu helst færa alla samninga um kaup og kjör yfir í svokallaða „stofnanasamninga“.

Núna vilja bæði ríki og atvinnulífið „sovéska“ heildarsamninga upp á 3-4% á meðan útflutningsgreinarnar – en einnig bankarnir og stærstu fyrirtæki landsins – skila gífurlegum hagnaði, t.d. vegna hagstæðs gengis um árabil. Ríkissjóður virðist hafa rétt úr kútnum, en myndi að sjálfsögðu stórauka tekjur sínar við hærri launatekjur launafólks og þar með aukna veltu í þjóðfélaginu. Viðskiptajöfnuður myndi að vísu líða fyrir aukinn kaupmátt, en hann hefur undanfarin ár verið hagstæður um árabil upp á u.þ.b. 100 milljarða á ári, sem mestmegnis hefur farið í vaxtagreiðslur til erlendra kröfuhafa og afborganir af erlendum lánum.

Átti hagnaður ríkisins vegna afnáms gjaldeyrishafta ekki að lækka skuldir hins opinbera og þar með vaxtagreiðslur ríkisins? Einmitt þetta myndi gera ríkisvaldinu kleyft að lækka skatta á sama tíma og hægt væri að hækka laun opinberra starfsmanna og það án þess að heildarjafnvægi í efnahagslífinu væri raskað. Síðan ætti útstreymi gjaldeyris að minnka af því að vaxtagjöld til útlanda og afborganir af erlendum lánum lækka og það ætti síðan að hafa hagstæð áhrif á viðskiptajöfnuð við útlönd. Hversu mörg ár í viðbót á Ísland að vera þrælaeyja í eigu erlendra kröfuhafa, gráðugra atvinnurekenda, nýrrar bankamafíu og nokkurra ríkistjórna, sem hafa engan áhuga á kjörum almennings í landinu?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

 • Seðlabankastjóri lýsti fyrir stuttu í sjónvarpsviðtali hvaða afleiðingar það hefur fyrir hagkerfið ef farið er að ítrustu kröfum stéttarfélaganna. BHM verkföllin er það sem heitast brennur þessa stundina og hafa víðtæk og lamandi áhrif einkum í heilbrigðisgeiranum.
  Ríkið getur farið einfalda og afgerandi leið sem BHM liðar geta ekki hafnað og miðað við samning grunnskólakennara (1. maí 2014-31.des. 2016).
  Samningurinn gæti verið svohljóðandi: 1. maí 2015 – 6,3%, 1. jan. 2016- 2,0%, 1. maí 2016 – 6,0%, 1. jan. 2017 – 2,5%, 1. maí 2017 – 2,0% og 31. des. 2017 – 2,0%.
  Samtals á samningstímanum hækkun á launaliðum 20,3% og ætti samningur af þessu tagi ekki að koma í veg fyrir eftirsóknarverðan stöðugleika í ríkisbúskapnum.
  Að þessari samningalotu lokinni við BHM er nauðsynlegt að grípa til róttækra aðgerða í launamálum starfsmanna ríkisspítalanna. Það verður ekki hér eftir liðið, að lífsnauðsynleg heilbrigðisþjónusta sé lömuð langtímum saman vegna verkfalla. Finna verður aðrar leiðir og kemur kjaradómur helst upp í hugann.
  Lausnin í kjaradeilu verkalýðsfélaganna er líka tiltölulega auðfundin. Lágmarkslaun verði kr. 300 þúsund við lok 3ja ára samningstíma sem þýðir um ca. 80 þúsunda hækkun. Sama krónutala haldist upp skalann. Samningur sem tryggja mun stöðugleikann.
  Til þess að hrifsa ekki verkefnið alfarið frá ríkissáttasemjara og samninganefndunum er nóg eftir. Það þarf að ræða vinnutímabreytingar, húsnæðismál og fínpússa hitt og þetta en það þarf ekki að taka langan tíma og yfirlýst markmið, að undirskriftir með vöffluáti verði eigi síðar en 15. maí 2015.

 • Når folk venter i kø til å få utdelt mat, når folk ikke har noen sted å bu, når lønna er så lav at folk ikke kan kjøpe mat og klær til barne sine er noe som er galt på Island. Landet likner mer og mer på stater i Afrika, i Soviet var det ikke så ille.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is