Fimmtudagur 15.3.2018 - 16:21 - Rita ummæli

Ríkisstarfsmenn með 6 milljónir á mánuði?

Það er alltaf gaman að lesa viðtöl við forsvarsmenn atvinnulífsins og sérstaklega þá þeir tjá sig um laun opinberra starfsamanna, en skv. Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanns Samtaka iðnaðarins, getur atvinnulífið ekki ekki keppt við ríkið, þar sem þar eru borguð slík ofurlaun. Þekkir þessi kona laun kennara, leikskólakennara, lögreglumanna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða? Sveiattan er það eina sem heilvita fólki dettur í hug!
Þetta segir hún á sama tíma og upplýst er að forstjóri N1, sem er sjoppufyrirtæki sem selur rjómaís, pylsur, kók, rúðupiss og smurolíu en að auki með nokkrar sjálfvirkar bensíndælur, og er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóðanna líkt nær öll önnur íslensk fyrirtæki, sé með 5.900.000 kr. á mánuð eða um 75 milljónir á ári. Þekkir einhver ríkisstarfsmenn eða jafnvel stjórnmálamenn – jafnvel þá allra launahæstu – með slík ofurlaun?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.3.2018 - 11:11 - 4 ummæli

Þjóðkirkjan orðin deild innan VG eða Pírata?

Hvað er til ráða fyrir mann, sem veit að hann er ósköp eitthvað hvítur og miðaldra, kristinn maður og hugsanlega pínulítið gamaldags, og sem slíkur hefur hann ansi oft hneykslast bæði á framkomu biskups og á einstaka presti? Á maður að ganga úr þjóðkirkjunni, sem manni þykir vænt um og er búinn að tilheyra frá skýrn eða í rúmlega 55 ár? Þetta er stórt mál, því undir merkjum Þjóðkirkjunnar var maður skýrður, fermdur, kvæntist og hefur þar skýrt börn sín og fermt og átti eiginlega von á að vera borinn til grafar innan þessa trúfélags?

Er hugsanlega til einhver annar tiltölulega venjulegur evangelísk-lútherskur söfnuður, þar sem presturinn vill ekki að kirkjan hans sé lánuð til helgihalds fyrir múslimi og að ímam þjóni fyrir altari í húsi Krists? Þar sem maður má ekki eiga von á að lögregla þurfi að leita ólöglegra innflytjenda, sem eru faldir í skrúðhúsi kirkjunnar? Eða að embættismenn ríkiskirkjunnar hamist með ósannindnum og ljótum munnsöfnuði gegn saklausu fólki úti í bæ, sem hefur það eitt til saka unnið að vera á annarri pólitískri skoðun en sumir „þjónar Guðs“?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.1.2018 - 19:01 - 2 ummæli

Samgöngumál – blóðbaðið heldur áfram

VG og Katrín Jakobsdóttir hlýtur að verja vegatolla eins og annað sem kemur úr smiðju Sjálfstæðisflokksins þessa dagana. Svik VG við kjósendur núna trompa sennilega svik Jóhönnu og Steingríms, því aðstæður eru nú aðrar í efnahagsmálum.

Samkvæmt útreikningur FÍB innheimti ríkið árið 2016 um 60 milljarða króna í skatta á bíleigendur, sem með hækkandi skatti á eldsneyti og aukna innheimtu vegna gríðarlegs innflutning á bifreiðum eru væntanlega í dag í það minnsta 80 milljaðar. Aðeins 19,1 milljörðum króna er hins vegar varið til viðhalds og lagningar vega á fjárlögum ársins 2018. Um 9 milljörðum er varið í viðhald vega en nýlega sagði vegamálastjóri að þótt um smá aukningu væri að ræða næðum við ekki að halda í horfinu þegar svo litlir peningar fara í viðhald vega, þ.e. hálfpartinn ónýtt vegakerfi mun halda áfram að versna.

Stór hluti af „viðhaldspeningunum“ fer – skv. Vegagerðinni – í að auka umferðaröryggi. Þannig á að leggja bundið slitlag á síðasta kafla veg­ar­ins yfir Fróðár­heiði. Auka á um­ferðarör­yggi með því að tvö­falda brýr við Kvíá og við Vatns­nes­veg um Tjarn­ará. Í ljósi þessarar forgangsröðun vekja framkvæmdir sem ráðist er í mikla furðu. Malbika á t.a.m. fáfarna leið um Fróðárheiði á Snæfellsnesi, en flestir taka jú Vatnaleiðina. Samkvæmt talningu á heimasíðu Vegagerðarinnar fóru 64 bifreiðar um bifreiðina á þessum sólarhring. Þegar umferðin var hvað mest á Fróðárheiði í dag milli 15:40-15:50 fóru 5 bílar um heiðina.

Í nýlegu viðtali taldi vegamálastjóri framkvæmdir við Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Selfoss, veginn um Gufudalssveit, Dynjandisheiði, Borgarfjarðarveg og Dettifossveg mjög brýnar, þar sem einn og hálfan milljarð vantar upp á fjárframlög. Þessu mati geta held ég flestir verið sammála. Vegamálastjóri minntist ekki einu orði á að klára þyrfti einfalda kafla Reykjanesbrautarinnar, þar sem um tugir banaslysa og alvarlegra umferðarslysa hafa orðið á liðnum árum. Um Reykjanesbrautina fara að meðaltali um 15.000 ökutæki á dag og stefnir í 20.000 ökutækja umferð á þessu eða næsta ári. Í dag 24. janúar, þ.e. umferðin var mest kl.08:40-08:50, fóru 200 bifreiðar á 10 mínútum um Reykjanesbrautina.

Allt tal Alþingis og vegamálastjóra um forgangsröðun í þágu umferðaröryggis er hlálegt þegar málin eru skoðuð nánar. Stjórnarflokkarnir boðuðu stórsókn í samgöngumálum í kosningabaráttunni í vetur og allir hafa þeir svikið kosningaloforð sín.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.1.2018 - 20:31 - 2 ummæli

Donald Trump og sjálfstraustið…

Sem söngkennari og yfirmaður í tollgæslunni hef ég lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að nemendur og starfsmenn þrói með sér jákvæða sjálfsmynd, sjálfsálit og sjálfstraust.
 
Enginn leikari, hljóðfæraleikari eða söngvari virkar að mínu mati sannfærandi nema að viðkomandi hafi virkilega trú á sjálfum sér og því sem hann hefur fram að færa og það gildir allt fólk hvað sem það starfar við.
 
Oft á tíðum grínast ég með eigið ágæti, en geri ráð fyrir því að flest þokkalega gefið fólk skilji að þarna er ég fíflast, þótt sjálfstraust mitt sé vissulega mikið og ég telji mig þokkalega gefinn mann.
 
Eftir að hafa lesið þessa grein um Trump, sem ég hef aldrei þolað og hef barist gegn í nokkur ár, þá er ég þeirrar skoðunar að kannski þurfi maður að fara varlega í húmornum og yfirlýsingunum.
 
En kannski er þetta röng hugsun hjá mér og það sem við einmitt þurfum í dag er að fólk fái aukið sjálfstraust – konur sem karlar – til að kveða niður vitleysinga eins og Donald Trump og öll hans „fake news“.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.12.2017 - 11:00 - Rita ummæli

Ójöfnuður – hver er við stjórn landsmála?

Það sem hræðir fólk yfirleitt til hægri í stjórnmálum er skattahækkana- og ríkisútþenslustefna vinstri manna og þá jafnan á kostnað millistéttarinnar, sem alltaf er skattpínd í botn hjá þessum flokkum á meðan auðvaldið blómstrar áfram.

Með þessu samsamar millistéttin og efri millistéttin sig oft öfgafullum viðhorfum hægri flokkanna, sem gerðir eru út með ærnum tilkostnaði en frábærum árangri af auðmönnum þessa lands til að berjast fyrir hagsmunum þeirra ríku og máttugu.

Þetta gerir hægri flokkunum síðan ákaflega auðvelt að höfða til stórs hluta venjulegra kjósenda með sínum öfgasinnaða frjálshyggjukapítalisma, sem nýtist síðan auðvitað aðallega fjármagnseigendum og þeirra handbendum og undirsátum.

Miðjuflokkarnir eiga að höfða til fólks með tekjur u.þ.b. á bilinu 600-1200 þúsund kr. á mánuði með stjórnmálum í þágu almennings í landinu, þ.e. betri þjónustu og lægri almennum sköttum en krefjast um leið hærra framlags frá auðvaldinu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.12.2017 - 15:52 - Rita ummæli

Annar í jólum – rífum kjaft

Líkt og svo oft áður er helmingur þess er birtist í nýlegum pistli Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, rangfærslur, ýkjur eða uppspuni, en afgangurinn af pistlinum hins vegar brúkhæfur og samanstendur af nokkuð vitrænum skrifum. Slíkum svart/hvítum skrifum eigum við yfirleitt að venjast bæði frá SA og ASÍ. Hinn íslenski veruleiki leyfir ekki að skrifað sé í Panavision-litum, heldur þurfa öll skrif um efnahagsmál að vera í svörtu eða hvítu.

Atvinnurekendur syrgja auðsjáanlega að sumu leyti að kreppan sé búin og að þeir geti ekki borgað hér grútarlaun og að krónan hafi styrkst til muna, þannig að ástandið sé svipað og á Norðurlöndunum, en ekki eins og í Kína, Indlandi eða Pakístan. SA er einnig þeirrar skoðunar að ósvífni hafi verið hjá launamönnum að endurheimta þann kaupmátt, sem þeir töpuðu haustið 2008, hvað þá að sækja hlutdeild sína í aukningu þjóðarframleiðslu og framleiðniaukningu liðinna 8 ára, sem hefur verið ævintýralegur.

Því skal þó haldið til haga, að rétt er hjá Halldóri að létt er að glopra niður eða í það minnsta minnka verulega slíkan árangur, ef ekki er haldið skynsamlega á spilunum á næstu misserum. Helsti vandi okkar Íslendinga er hins vegar ekki há laun, heldur líkt og bent var á í McKinsey skýrslunni strax árið 2012 allt of stórt bankakerfi, en einnig okurvextir, verðtrygging, dýrtíð og krónískur húsnæðissskortur, sem leitt hafa til fasteignaverðsbólu og allt of hás leiguverðs sem unga og efnilega fólkið okkar getur ekki greitt.

SA ætti frekar að koma með hugmyndir að lausnum í stað þess að einblína á að koma þjóðinni á laun eins og í Austur-Evrópu. Samtök iðnaðarins, undir stjórn Sigurðar Hannessonar, eiga hins vegar hrós skilið fyrir að benda á og viðurkenna hið augljósa, sem auðvitað er að innviðir landsins (tískuorð sem á fullan rétt á sér) eru í molum. Að mínu mati þurfa Íslendingar minna fjármálakerfi en hins vegar betri húsnæðis-, samgöngu- og heilbrigðiskerfi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.12.2017 - 12:41 - 5 ummæli

Hafnarfjörður: Umferðaröngþveiti 5 klukkustundir á dag

Á sama tíma og borað er í fjöll á landsbyggðinni, svo hún er farin að líkjast svissneskum osti, hefur Reykjanesbrautinni varla verið haldið við frá árinu 2008. Þrátt fyrir gríðarlega aukningu á um­ferðarþunga, m.a. við Set­berg í Hafnar­f­irði, þar sem umferðin nálg­ast nú óðfluga um­ferðar­magn í Ártúns­brekku, gengur hvorki né rekur hvað varðar tvöföldun brautarinnar frá álverinu. Við Set­berg reyna samgönguráðherra og vegamálastjóri sameiginlega að troða 50 þúsund ökutækjum á sólarhring í gegnum eitt lítið hring­torg með tveim­ur ak­rein­um. Umferðin á „hraðbrautinni“ til Keflavíkurflugvallar, Grindavíkur, Voga Reykjanesbæjar, Sandgerðis og í Garðinn nálgast 20 þúsund ökutæki á dag.
Íbú­ar í Hafnarfirði hafa fyrir löngu gefist upp á flöskuhálsinum, sem hring­torgið svo sannarlega er, og aka til vinnu sinnar í gegnum íbúðahverfi bæjarins með tilheyrandi óþægindum og slysahættu. Íbúar á Suðurnesjum hafa ekkert val nema umferðaröngþveitið í nágrannasveitarfélaginu. Algjört neyðarástand ríkir margar klukkustundir á dag bæði við gatnamótin hjá Kaplakrika og við gatnamót við gatnamót Reykjavíkurvegar, Álfta­nes­vegar, Fjarðarhrauns og Hafnarfjarðarvegar, sem er neyðarástand er á sér reyndaar a.m.k. 40 ára sögu. Allar töl­ur yfir slysatíðni og um­ferðarþunga sýna glöggt að þessi gatnamót eru öll löngu sprung­in eins og reyndar á öllu höfuðborgarsvæðinu og víða úti á landi.
Tölfræðin í nýlegri skýrslu sýnir okkur að á 3,5 kíló­metra vegakafla frá Kaldár­sels­vegi að Krýsu­vík­ur­vegi eru árlega rúm­lega 100 slys, sem þýðir að um 28 slys eiga sér þar stað á hverjum kíló­metra. Væntanlega lagast þetta ástand eitthvað nú þegar nýju mislægu gatnamótin við Krýsuvíkurveg eru komin í notkun. Þrátt fyrir hægfara framfarir er ljóst að vandamálið er stærra og að finna þarf á því strax heildstæða lausn á. Vandamálið nær í raun frá einfalda kaflanum við álverið í Straumsvík alla leið að gatnamótum Hafnarfjarðar- og Álftanesvegar. Sveitastjórnir á Suðurnesjunum og í Hafnarfirði verða sameiginlega að þrýsta á fjárveitingarvaldið að leysa þessa vandamál á næstu tveimur árum eða svo.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.12.2017 - 07:54 - 9 ummæli

RÚV – endalausar neikvæðar furðufréttir

Sjónvarpsfréttirnar á RÚV í gær voru einu sinni sem oftar eins konar blanda af allskyns furðulegum og neikvæðum félagsmálafréttum um hversu gríðarlega voðalega vond stjórnvöld væru við alla Íslendinga sem eiga um sárt að binda og mikilli mannvonsku okkar í garð útlendinga. Í einu skiptin sem fréttastofa RÚV er að standa sig er þegar við fáum almennilegt eldgos líkt og t.a.m. við Holuhrun, þá fara þeir hamförum. Við þurfum nýjan fréttastjóra á RÚV eða leggja stofnunina hreinlega niður, enda fréttir það eina sem stór hluti þjóðarinna sækir til þessa fjölmiðils.

Við – ég sjálfur ekki undanskilinn – erum orðin þjóð sem sjáum bara það neikvæða en aldrei það jákvæða og þurfum að fara að koma okkur upp úr þeim hjólförum. Við verðum þó að halda áfram málefnalegri gagnrýni bæði á áralangt og endalaust verkleysi stjórnvalda og sjálftökuna, skattsvikin og græðgisvæðinguna allt í kringum okkur. Þegar horft er til nýrra fjárlaga er í raun ekki að sjá að ný ríkisstjórn sé að standa við stóru orðin, sem gefin voru í kosningabaráttunni og því þurfa almenningur og fjölmiðlar að sýna ríkisstjórninni gott aðhald næstu fjögur árin.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.12.2017 - 19:48 - 5 ummæli

Auðmýking Litla-Bretlands

Auðmýking Litla-Bretlands er mikil – ef ekki algjör – ef marka má fréttir dagsins. Þetta er virkilega í fyrsta skipti sem ég er algjörlega sammála Nigel Farage, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokks Litla-Bretlands. Auðmýkingin á eftir að aukast eftir að hið raunverulega BREXIT virkilega hefst, en fyrstu áhrifin má sjá á flótta fjármálafyrirtækja úr City of London og flótta alþjóðlegra fyrirtækja frá Bretlandi.

Reyndar hefur lítið farið fyrir því að Íslendingum og íslenskum Sjálfstæðismönnum sé kynnt að Íslenski Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú yfirgefið Samband íhaldsmanna í Evrópu – samtök sem þau voru í um áratuga skeið með norrænu íhaldsflokkunum, hinum breska og Kristilegum demókrötum um alla Evrópu. Þetta eru mjög virt samtök hægri manna um gjörvalla Vestur-Evrópu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú skipt yfir í tiltölulega nýstofnuð öfgasamtök hægri-manna, sem Farage er einmitt hluti af. Skiptin byggjast – eftir því sem mér er sagt – á persónulegri vináttu ákveðinna forystumanna Sjálfstæðiflokksins og BREXIT sinna. Í raun eru íslenskir sjálfstæðismenn komnir á ysta hægri væng stjórnamála innan Evrópu – svona á pari við Fremskrittspartiet í Noregi, Det Liberale Folkepartiet í Danmörku eða Sverigedemokraterna í Svíþjóð.

Aðrir stjórnmálaflokkar, sem eru í þessum öfgasamtökum, eru m.a. öfgasinnaðir þjóðernisflokkar í Póllandi, Ungverjalandi og öðrum löndum Austur- og Vestur-Evrópu. Skrítið að RÚV og 365 hafi eiginlega aldrei skýrt frá þessu. Sennilega hafa þessir fjölmiððar ekki þorað því, vegna stjórnmála og fjárhagslegra tengsla. Þeim sem þora segja sannleikann hér á landi er yfirleitt refsað. Það er því gott að vera kominn á þann aldur að geta sagt sannleikann umbúðalaust.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.12.2017 - 06:30 - 3 ummæli

Pólitískar ráðningar, Klíkuráðningar eða frændhygli

Ég veit ekki hvað er ógeðfelldast; klíkuráðningar starfsbræðra á vinum sínum eins og þegar kardínálar kjósa sér nýjan Páfa, pólitískar ráðningar dómara eða ráðuneytisstjóra líkt og þegar óhæfu fólki var sópað inn í stjórnsýsluna úr Eimreiðahópnum eða skipanir á grundvelli frændhygli er tengjast t.a.m. fyrrverandi forsætisráðherra, t.d. þegar sonur „aðal“ var skipaður í Héraðsdóm Norðurlands (dómarastaða), frænka „aðal“ skipuð í Landsrétt eða frændi „aðal“ í stöðu dómara við Hæstarétt. Flestum bitastæðum opinberum stöðum – upp úr og niður úr í stjórnkerfinu – er meira og minna ráðstafað til fólks, sem kemur inn „bakdyramegin“ í skjóli stjórnmála, frændsemi eða klíkuskapar. Traust þarf að ávinna sér og það snýst um heilindi fólks.

Val dómara verður ávalt umdeilt mál og það á við víðar en hér á Íslandi. Það hljóta hins vegar að vera til aðrar og betri aðferðir, sem skapa aðeins meiri sátt en þær sem okkur hefur auðnast að finna. Þjóðin öll, ný ríkisstjórn, Alþingi og nú nýlega einnig Dómarafélag Íslands, talar um að skapa þurfi sátt og vinnufrið á Alþingi og að auka virðingu löggjafarvaldsins, dómsvalds og framkvæmdarvalds. Satt er það, en þá þurfum við öll að snúa frá einkavinavæðingarkúltúr okkar (Borgun o.fl.), mútum til stjórnmálaflokka og skipunum óverðugra kandídata í opinber embætti. Traustið kemur þegar við förum að byggja skipanir embættismanna og dómara á verðleikum fólks og selja eignir ríkisins í gagnsæju ferli á raunvirði. Það er ekki lengur hægt að sópa öllu undir teppið eins og í gamla daga.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is