Laugardagur 17.03.2012 - 12:16 - FB ummæli ()

Gengisfelling framundan?

Núverandi forsætisráðherra og sá sem vill verða það næst tjá sig bæði um íslensku krónuna í dag. Sá núverandi í grein í Fréttablaðinu og sá næsti, ef mark er tekið á skoðanakönnunum, á flokksráðsfundi flokks síns.

Nálgast þau nú fyrirbærið úr sitt hvorri áttinni eins og við er að búast, en ég staldra þó aðeins við nokkra punkta hjá þeim.

Forsætisráðherra segir m.a. í sinni grein: „Enginn stjórnmálaflokkur getur lokað augunum fyrir því að haldið er uppi fölsku gengi krónunnar og ef engin væru gjaldeyrishöftin þyrfti ekki að spyrja um afleiðingarnar: Aukna verðbólgu, rýrari kaupmátt og aukna skuldsetningu heimila og fyrirtækja.“ Rétt þar á undan segir: „Gjaldeyrishöft, verðtrygging og önnur hjálpartæki krónunnar tala sínu máli og sýna svart á hvítu hvers konar stuðningsumhverfi þarf sífellt að búa henni með ærinni fyrirhöfn… sífellt viðfangsefni stjórnvalda og stofnana [er að] verja dýrmætum tíma, kunnáttu og fé í að leysa viðfangsefni sem beint eða óbeint má rekja til ótryggs gjaldmiðils og yfirvofandi verðbólguskota.“ Og aðeins fyrr segir um fyrirtæki, þó það eigi allt eins við um alla þá aðila, fyrirtæki og einstaklinga, sem hafa gjaldeyris- eða verðtryggð lán, að þau „…sem aðeins hafa tekjur í íslenskum krónum, eru illa í stakk búin til að mæta frekara gengissigi.“

Sá sem vill verða næst segir: „…að það er íslenska krónan, sem er helsta forsenda þess litla hagvaxtar sem hún [núverandi forsætisráðherra] stærir sig af.“ Aðeins síðar: „Ef efnahagsveiflan er ekki tekin út í gengi gjaldmiðilsins þá gerist það á vinnumarkaðinum.  Með fastgengisstefnu er líklegt að atvinnuleysi hér á landi hefði legið á milli 20 og 30 prósent á árinu 2009.“ Og í lok krónumálsgreinar ræðunnar: „Okkar verkefni nú er að treysta stöðu okkar á grundvelli íslensku krónunnar… en það er ekkert sem knýr á um að við köstum frá okkur krónunni.“

Hvað er hér verið að segja okkur?

Forsætisráðherra segir að haldið sé uppi fölsku gengi krónunnar, sem aftur sá sem vill verða næstur segir að sé í reynd forsenda þess hagvaxtar sem þó hefur mælst.

Ef sá hagvöxtur byggist fyrst og fremst á neyslu, sem er gerleg vegna falsað krónugengis, er hagvöxturinn líka falskur.

Ef gengið væri ekki falsað segir núverandi forsætisráðherra að afleiðingarnar yrðu aukin verðbólga, rýrari kaupmáttur og aukin skuldsetning. Gengið er falsað, því gjaldmiðillinn er ótryggur, það eru yfirvofandi verðbólguskot og frekara gengissig.

Sá sem vill verða næsti forsætisráðherra segir okkur að við verðum að „treysta stöðu okkar á grundvelli krónunnar“ en mælir gegn fastgengisstefnu þar sem hún veldur atvinnuleysi.

Setjum þessi ummæli í samhengi við herðingu gjaldeyrishafta fyrr í vikunni og takmarkaðan árangur í því að byggja upp eign gjaldeyrisvaraforða umfram þann skuldsetta.

Er þá rökrétt niðurstaða að fá á tilfinninguna að í loftinu liggi meiriháttar gengifelling?

Í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans hefur gengi Evru verið u.þ.b. 30% hærra en opinbert skráningargengi. Nú er nýtt útboð framundan. Mun niðurstaða þess, sett í samhengi við þau fyrri, kannski gefa okkur vísbendingu um það sem framundan er? Er gengisfelling ekki óhjákvæmilegur undanfari afnáms gjaldeyrishafta?

Eru s.s. grein forsætisráðherra og ræða þess sem vill taka við liður í því að undirbúa okkur hin fyrir það sem koma skal?

Því falskur kaupmáttur og falsaður hagvöxtur byggður á grunni falsaðs gengis, stutt með skuldsettum gjaldeyrisvaraforða, er ekki sjálfbær leið til framtíðar. Eitthvað verður undan að láta, og getur það þá verið annað en gengi krónunnar?

Sett í samhengi við þessa greiningu Arion Banka frá því fyrr í mánuðinum, Krónan – Lognið á undan storminum, virðist lítið tilefni til bjartsýni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is