Sunnudagur 4.12.2016 - 11:35 - FB ummæli ()

Lífeyrissjóðir: Allt er æði, eða?

Það er hellings verðbólga á Íslandi, bara ekki í íslenskum krónum. Þó allt sé fullt af góðum fréttum að þá er eiginlega stundum erfiðara að stjórna efnahagsmálum í góðæri en harðæri. Heldur einhver í alvöru að gjaldeyrisskapandi atvinnulíf ráði við verðsveiflur af því tagi sem sjá má á myndinni hér fyrir neðan?
screen-shot-2016-12-04-at-11-38-21
Og eins „counterintuitive“ og það hljómar þá eru skynsamlegustu leiðirnar til að taka á þessu ekki vaxtahækkun, skattalækkun og „ráðdeild“ í ríkisrekstri. Né að moka meira fé í lífeyrissjóði. Nei, það verður að lækka vexti, skattleggja betur, og fjárfesta í framtíðinni í gegnum ríkissjóð í menntun, heilbrigði og innviðauppbyggingu. Og já, svo þarf að hætta að reka hér lífeyrissjóðakerfi sem hrærir saman lífeyrissparnaði, grunntekjutryggingu og almannatryggingum – og sem er í þokkabót ábyrgðarlaust í umgengni sinni um íslenskt atvinnu- og efnahagslíf.
Því er jú stundum slegið fram að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé „bezt í heimi“ þar sem í því felist gríðarleg sjóðsöfnun, og í því felist einhver sérstakur gæðastimpill að með slíku kerfi hafi verið mælt af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum á sínum tíma. Þá er nú kannski gott að hafa í huga að það hafa ekki allar efnahagslegar ráðleggingar þessara stofnanna – sérstaklega ekki frá sjötta og sjöunda áratugnum – staðist tímans tönn. Auk þess ber að hafa í huga að sjóðsöfnunarráðleggingin er frá þeim tíma er tíðkaðist að gjaldmiðlar væru á gullfæti.
Nei, þessi mikla sjóðsöfnun, hrærigrautur hlutverka sjóðanna við það sem með réttu ætti að vera hlutverk almannatrygginga, auk viðtæks skattfrelsis þeirra er efnahagslegt feigðarflan. Eðlilegra væri að skattleggja strax framlög í lífeyrissjóð og sá skatthluti færi til að fjármagna lágmarksframfærslu og almannatryggingahluta núverandi starfsemi sjóðanna.
Í þessu samhengi er líka ágætt að hafa í huga að óinnheimt skattkrafa okkar allra í gegnum ríkissjóð á lífeyrissjóðina er líklega í kringum tólf til fimmtán hundruð milljónir. Það þýðir ósköp einfaldlega að allt tal um slæma skuldastöðu ríkissjóðs er þvættingur. Í fyrsta lagi eru heildarskuldir ríkisins í dag skv. fjárlögum 2016 u.þ.b. 1,171 milljarður. Það gerir skuldahlutfall upp á tæp 53% m.v. landsframleiðslu 2015 (en hún var skv. Hagstofu 2.214 milljarðar það ár). Hrein skuldastaða er hins vegar ekki nema 645 milljarðar, eða tæp 30% af landsframleiðslu 2015. (Sjá hér.)
Næstum 80% eigna lífeyrisjóðanna eru innlendar. Ekki nema 21% eru erlendar þrátt fyrir að heimildir séu fyrir allt að 49% erlendri eign. Innlendar eignir þeirra nema s.s. u.þ.b. 118% landsframleiðslu ársins 2015 (2067 milljarðar). M.v. núverandi viðmiðun sjóðanna um raunávöxtun upp á 3,5% þá þarf ávöxtunin að nema 250 milljónum á dag – hvern einasta dag ársins – og fer alltaf hækkandi með auknum eignum þeirra og auknu innstreymi í sjóðina m.a. vegna SALEK-samkomulagsins. Og af því þetta er bara innlendi hluti eigna þeirra þá erum það við, ég og þú, og íslensk fyrirtæki og atvinnulíf sem þurfum sjálf að standa undir þessari fráleitu ávöxtunarkröfu. Það kemur fram í t.d. uppsprengdu verði húsnæðis, bæði til íbúðar og atvinnu, og þrýstingi til lægri launa og aðhalds sem skilar ávinningi kannski til skamms tíma, en grefur undan hagkvæmni og vexti til framtíðar.
Lág ávöxtun á erlendum mörkuðum gerir það að verkum að áhugi innlendra lífeyrissjóða er takmarkaður á erlendri fjárfestingu. Miklu betra er að versla sín á milli í sýndarviðskiptum sem búa til bókhaldslegan hagnað – sem þó er án raunverulegrar innistæðu. Líkast til þarf að breyta heimildarákvæðum um allt að 49% erlenda eign í skilyrði um ákveðna lágmarkseign.
Eflaust væri sjóðunum – og okkur eigendum þeirra – fyrir bestu að skattleggja þá strax einskiptis um 30 til 40% og skilja að grunnframfærslutryggingu algerlega og séreignasparnað. Einskiptisskattheimtuna mætti síðan nýta beint til gjaldeyriskaupa í stað nýkrónuprentunar eða skuldabréfaútgáfu því tengt. Seðlabankinn fengi þannig nægt fé til þess að spyrna við gengishækkunum, safna risa gjaldeyrisvaraforða, draga úr peningamagni í umferð, draga úr ávöxtunarþrýstingi og peningaprentunaráhrifum lífeyrissparnaðarins o.s.frv.
Það er nefnilega ekki allt æðislegt, en gæti vel verið það. Ef við leggjumst á þær árar að fjárfesta í framtíðinni strax í dag, en geymum það ekki til óræðs morgundags. Nú er lag – við eigum fyrir því – og þannig tryggjum við okkur helst til framtíðar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.9.2016 - 19:15 - FB ummæli ()

Skattkerfisbreytingar

Fyrir helgi skilaði svokölluð „Verkefnisstjórn um breytingar og umbætur á skattkerfinu“ af sér skýrslu í formi rúmlega hundrað síðna glærukynningar. Þarna eru allskyns athyglisverðar vangaveltur, en engu að síður nokkur atriði sem orka verulega tvímælis svo ekki sé meira sagt.

Ef t.d. einföldun og aukið gegnsæi er markmiðið, þá er sérkennilegt að annars ágæt tillaga um útborgun persónuafsláttar sé samhliða eyðilögð með stórundarlegum og flóknum tekjutengingum sem virkar þannig að tekjulaus fær ekki neitt. „Afslátturinn“ (sem varla er lengur afsláttur þegar þetta er orðin útborgun) hækkar svo fram að 970 þús og skerðist svo aftur eftir það. Einföldunin kallar s.s. á flóknar og ógagnsæjar reiknuformúlur sem virðast í þokkabót hafa sérkennileg jaðarskattaáhrif til viðbótar. Þetta er þar fyrir utan hreinn óþarfi þar sem prósentuskattlagning tekjuskatts – tala nú ekki um með hátekjuskatti – felur í sér tekjutengingu vegna þess að hann er prósentuálagning. Því þá að tví-tekjutengja með þessum furðuhætti?

Einföldun virðisaukaskatts hljómar alltaf vel, en líkast til ofmetin sem slík. Öll tölvu- og kassakerfi gera ráð fyrir fjölþrepa virðisaukaskatti, ágætis framkvæmd er á núverandi tveggja þrepa kerfi og flækjustig þess að mínu mati ofmetið. Um það má að sjálfsögðu deila, en tveggja þrepa vsk-kerfi getur stutt ágætlega við önnur markmið, s.s hvað varðar lýðheilsu o.þ.h.

Verðtryggingarvæðing fjármagnstekjuskatts eins og lagt er til í þessum tillögum er síðan einfaldlega fráleit. Flækjustig og gagnsæisskortur er verulegur á þessari tillögu og tæpast hefur tillögur af þessu tagi nokkurs staðar verið að finna í tillögum IMF eða OECD. Nær hefði verið að leggja til að leggja af þann greinarmun sem gerður er á tekjum eftir því hvernig þær verða til. Það á skattleggja allar tekjur eins, sama hvort þær verða til af fjármagni eða vinnuafli. (Og nei, fjármagnstekjuskattur leggst ekki bara á „sparnað“ eins og þarna virðist gefið í skyn).

Tillögur um breytingar á barnabótum til bóta, en af hverju ekki barnabætur með fleiri en 3 börnum? Og er þá átt við bara 3 börnum samtímis undir 18 ára aldri? Ef það er nógu langt á milli þeirra, sleppur þetta þá?

Vaxtabætur inn í persónuafslátt gott mál (og þá húsnæðisbætur í reynd líka, en það er ekki nefnt).

Afnám samsköttunar eins og þarna er lagt til er sérkennileg – skiptir reyndar aðeins minna máli þegar persónuafsláttur er greiddur út, en samt. Í samhengi við skrítnu persónafsláttartillöguna um tekjutengda persónuafsláttinn sem þýðir að tekjulausir fá ekki neitt þá mun hér halla verulega á t.d. barnafjölskyldur með ung börn, eða langveik, þar sem annað foreldrið velur að vera heimavinnandi um lengri eða skemmri tíma.

Tillögur um Tryggingagjöld, þunna eignfjármögnun, skattlagningu eftirgjafa skulda og samlagshlutafélög virðast í lagi, en spyrja má ef persónuafsláttur er lagður af hvort eð er og breytt í útborgaðan ríkisstyrk (borgaralaun eða hvað sem menn vilja kalla það) þá er annar tekjuskattur mestmegnis lagður á brúttó tekjur (engar tillögur hér um lífeyrismál) og af hverju þá ekki fella tryggingagjaldið inn í almennan tekjuskatt?

Tillögur um umhverfis- og auðlindagjöld – og hækkun tekna af þeim líta út fyrir að vera til bóta.

Bætt skil og eftirlit verður einnig til bóta. Tillögur þar virðast samt ekki ganga sérlega langt. Ekki er t.d. lögð til efling handvirks eftirlits, en skattyfirvöld í dag er víst verulega háð foreftirliti tölvukerfa sinna. Líkast til væri full ástæða til að stofna sérstakan vinnuhóp um skatteftirlit og eflingu þess.

Fagna ber hins vegar frumkvæðinu sem er tekið með vinnu sem þessari og hafi þeir sem að þessu stóðu þökk fyrir.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.7.2016 - 07:58 - FB ummæli ()

Köld eru kjararáð…

Fyrir rúmri viku kynnti fjármálaráðherra drög að frumvarpi til laga um breytingar á Kjararáði. Megintilgangur þess er að fækka þeim ríkisstarfsmönnum sem falla undir ráðið, m.a. með þeim hljómfögru rökum „…að fjölga þeim aftur sem taka laun samkvæmt samningum á hefðbundinn hátt og hins vegar að þeir sem ekki geta samið um laun á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna hafi meiri aðkomu að málum þegar ákvarðanir eru teknar um laun og starfskjör þeirra en nú.“

Semsagt, fækka á þeim sem falla undir Kjararáð, en þau áfram munu heyra undir ráðið eiga engu að síður að geta hafa meiri áhrif á úrskurði þess héðan í frá. Aðrir fara undir „hefðbundið“ ferli kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Nú er það svo að Kjararáð hefur helst verið að vekja athygli fyrir rausnarskap þegar kemur að launaákvörðunum fyrir þá sem undir ráðið falla. Í kjölfar úrskurða þess hefjast yfirleitt upp mikil ramakvein yfir rausnarskap ráðsins og að kjör þeirra sem undir það heyra séu of há, en minna fer fyrir því að kvarta yfir því að laun annarra séu of lág. Samt er það svo að Kjararáð hefur tiltölulega skýrar og gegnsæjar vinnureglur að starfa eftir skv. lögum.

Ekki tel ég í eina mínútu að að baki þessum tillögum til breytinga sé ekki m.a. tilgangurinn að draga úr kjarabótum þeirra sem undir ráðið falla – og að takmarka enn frekar kjarabætur til þeirra sem munu falla undan úrskurðarvaldi ráðsins. Reynsla okkar ríkisstarfsmanna sem höfum samningsrétt, en engan verkfallsrétt, er a.m.k. sú að kjarasamningar ganga yfirleitt seint og illa fyrir sig. Samningsaðilinn fyrir hönd ríkissjóðs dregur lappirnar von úr viti – og hefur beinlínis hag af því að draga samninga sem lengst – því sá ósiður hefur tíðkast frá því á níunda áratugnum þegar Ólafur Ragnar og Indriði H. réðu ríkjum í fjármálaráðuneytinu að neita því að greiða umsamdar hækkanir afturvirkt frá því að fyrri kjarasamningur rann út.

Í fyrra fór það svo að ekki tókst BHM og aðildarfélögum þess að semja við ríkið um launahækkanir. Endaði það fyrir sérstökum gerðardómi og viti menn: niðurstaða gerðardóms var betri en nokkur hafði vonað, mun betra en það sem ríkið hafði nokkurn tíma boðið, eflaust betra en bestu markmið BHM og það allra besta var að í fyrsta sinn í meira en aldarfjórðung voru launahækkanir greiddar afturvirkt.

Þ.a. fyrir þá launþega sem nú falla undir Kjararáð er það eflaust ekkert sérstaklega spennandi tilhugsun að standa frammi fyrir þeirri breytingu að falla undir „hefðbundið“ form kjarasamninga. Kannski ætti markmið ríkisstarfsmanna einmitt að vera þvert á þessa fyrirætlan fjármálaráðherrans og krefjast þess frekar að mun fleiri ríkisstarfsmenn falli undir Kjararáð. A.m.k. er reynslan ekki þannig að það sé eitthvað sérstakt fagnaðarefni að „taka laun samkvæmt samningum á hefðbundinn hátt“.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.7.2016 - 15:46 - FB ummæli ()

Fyrirframgreiddur skattaafsláttur og afnám tekjutenginga

Berast nú þau tíðindi að útborgaðar vaxtabætur og barnabætur fari lækkandi. Þetta er annars vegar gagnrýnt sem enn ein sönnun þess að núverandi stjórnvöld séu nánasarleg í garð þeirra sem standa höllum fæti – í þessu tilfelli skuldara húsnæðislána og barnafólks – eða hins vegar fagnað sem sönnun þess að þar sem fólk hafi nú betri tekjur og eigi meira, m.a. vegna skuldaleiðréttingarinnar, þurfi það ekki eins á bótum þessum að halda. Fólk séu komið yfir þau tekju- og eignamörk sem valdi skerðingum á þessum bótum.

Sjálfum þykir mér bótatitillinn á þessu villandi og eiginlega beinlínis rangur. Bótatitillinn  gefur þessu einhvern ölmusubrag, þegar staðreyndin einfaldlega er sú að það að bæta við barni kostar sitt í upphafi og ekki fær maður sjálfvirkt hvorki launahækkun né skattaafslátt fyrir þá fórnfýsi að færa í þennan heim framtíðar skattgreiðenda og framlegðareiningu til framtíðar hagvaxtar…!

Ekki er heldur veittur neinn skattafsláttur á móti vaxtakostnaði vegna húsnæðiskaupa (eða leigu), sem þó tíðkast í vel flestum okkur nágrannalöndum. Þó eiga þau ekki við viðlíka vaxtaokursumhverfi að eiga og íslendingar.

Nei, bætur skulu þetta heita, og gott ef við eigum ekki að skammast okkar pínu lítið fyrir þurfalingsháttinn.

Þannig að ég er í fyrsta lagi á móti því að kalla þetta „bætur“ og í öðru lagi á móti því að þetta sé tekjutengt. Það er mun skilvirkara, sanngjarnara, gegnsærra og einfaldara að „tekjutenging“ sé afgreidd í gegnum innheimtu þrepaskipts tekjuskatts.

Þessu tengt er hér smá leikur að tölum:

Fjöldi íslendinga 18 ára og eldri 1. janúar sl: 252.974
Ef allir í þeim hópi nýttu fullan persónuafslátt vegna tekjuskatts væri það skattafsláttur upp á 157 milljarða 613 milljónir 426 þúsund 908 krónur, eða 157.613.426.908

Persónuafsláttur á mánuði er 51.920
Hámarks vaxtabætur á mánuði eru 33.333
Samtals eru það 85.253

Ef öllum 18 ára og eldri, óháð tekju- eða eignastöðu, væru greiddar út þessar 85.253 á mánuði sama hvað, þýddi það heildarútgjöld upp á tæpa 259 milljarða (258.801.509.064). Á móti kæmi aflagning umsýslu skattaafsláttar og allar tekjur væru skattlagðar að fullu (með tilheyrandi auknu innstreymi skattfjár). Einnig legðust af bæði kerfi vaxtabóta og húsaleigubóta – nú eða nýtt kerfi húsnæðisbóta. Einnig myndi lækka samsvarandi þörf á námslánum (og ekki væri tilefni til að taka upp nýja styrkjakerfið skv. fyrirliggjandi frumvarpi).

Ef barnabótakerfið væri fellt inn í samsvarandi kerfi er spurning hvernig (til að byrja með amk) 17 ára yngri yrðu verðmetin í svona kerfi. Ef við gerum ráð fyrir helmingi fullrar upphæðar væri það 42.627 krónur á mánuði. 17 ára og yngri voru 1. janúar sl. samtals 79.555. Heildarupphæðin væri því tæpur 41 milljarður, eða 40.694.291.820.

Samtals væru þetta s.s. 300 milljarðar.

Breytingar á innheimtu almennra tekjuskatta vegna kerfisbreytinga af þessu tagi myndi leiða til þess að heildarskattheimta færi yfir 800 milljarða í bókhaldi ríkisins. (Að ógleymdum einhverjum ruðningsáhrifum á aðrar bætur, lífeyri o.s.frv.)

Hér munu eflaust einhverjir súpa hveljur („ÞRJÚHUNDRUÐ MILLJARÐAR!!!“) en hvað með það. Enn og aftur, tekju- og eignatengingar bótakerfisins draga úr skilvirkni þess. Fyrir því má færa rök að skilvirkara sé að ná jöfnunaráhrifum í gegnum innheimtu annars vegar þrepaskiptra tekjuskatta (eins og áður sagði og nú er) og með eigna/auðlegðarskatti.

En væru þetta borgaralaun? Væri þetta ekki frekar einhvers konar form af fyrirframgreiddum skattaafslætti? Einhver gæti túlkað breytingar í þessa átt sem fyrsta skref í vegferð í att til borgaralauna, en það væri svo sem í lagi. Hvað um það, þessu er hér með varpað fram sem vangaveltu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.6.2016 - 21:05 - FB ummæli ()

Icesave: Rétt að semja og sluppum með skrekkinn

Það er sannarlega athyglisvert að lesa endurskoðað svar Vísindavefsins um hugsanlegan kostnað vegna Icesave. Kostnaðurinn vegna Svavarssamningana kominn niður í mest 140 milljarða, en líkast til frekar 90 milljarðar vegna Ragnars Hall ákvæðisins svokallaða. En jafnvel minna en það. Bucheit-samningurinn hefði kostað í heildina um 66 milljarða, en þar af hefðu 20 milljarðar verið greiddir úr Tryggingasjóði innistæðueigenda (sem var jú greidd út hvort eð er) og mest 46,5 milljarðar fallið á ríkið.

Það sem gleymist hins vegar alltaf í umræðunni um Icesave er hvers vegna verið var að reyna að semja? Jú, einfaldlega til að takmarka áhættu. Hver var áhættan? Hún sneri annars vegar að ríkisábyrgð strax á lágmarkstryggingu, sem hefði þýtt að íslenska ríkið hefði þurft að fjármagna greiðslu lágmarkstryggingar strax 2009 (670 milljarða í erlendum gjaldeyri) á þáverandi lánakjörum á markaði (sem voru í reynd vonlaus – Ísland hefði aldrei getað annað en treyst á lán frá ríkissjóðum Hollands og Bretlands og IMF). Hins vegar sneri áhættan að „mismunun á grundvelli þjóðernis“ og var það í raun mun hættulegra mál en ríkisábyrgðin ein og sér – og það sem velflestir lagasérfræðingar voru hræddastir við.

Ef Icesave-dómurinn hefði fallið þannig að aðferðafræði íslenskra stjórnvalda við 100% innistæðutryggingu innlendra lögaðila hefði falið í sér mismunun á grunvelli þjóðernis voru tæpir 1350 milljarðar í erlendum gjaldeyri í húfi (plús vextir, vaxtavextir og veruleg gengisáhætta). Hugsanlegur heildarreikningur upp á 1700 til 2000 milljarða hefði allur fallið á ríkissjóð. Ríkissjóður hefði hugsanlega getað endurheimt vænan hluta þess engu að síður úr þrotabúi Landsbankans, en áhættan sem hér var staðið frammi fyrir var augljóslega gígantísk. Þess vegna m.a. reyndu menn fram í rauðan dauðan að semja.

Í ljósi þess hversu verulega var búið að takmarka áhættuna í kjölfar Bucheit-samningsins er athyglisvert að bera saman áhættuna sem staðið var frammi fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunum:

Icesave I, II og III: Góður dómur 0 krónur (samt einhverjir milljarðar frá TIF, plús eitthvað fleira); samningar 46, 90 eða140 milljarðar, tap fyrir dómi á mismunum á grundvelli þjóðernis 1350 milljarða fjármögnun strax, vaxtagreiðslur í ofanálag, ríkið í ábyrgð fyrir öllum pakkanum, endurheimtur einhverjar, en endanlegur beinn kostnaður ríkissins líkast til á bilinu 500 – 1000 milljarðar. Þegar Bucheit samningurinn liggur fyrir er vegna 46,5 milljarða fyrirsjáanlegs reiknings í þjóðaratkvæðagreiðslu ákveðið að taka áhættu sem hefði getað endað með 500 -1000 milljarða reikningi á ríkið!

Enn og aftur, þessi áhætta var raunveruleg, og greinilega talin veruleg – líka af þeim sem höfðu talað fyrir dómstólaleið og því að fella samninga í þjóðaratkvæðagreiðslum. Bæði núverandi Forseti Íslands og núverandi forsetaframbjóðandi Davíð Oddsson voru dagana fyrir dómsuppkvaðningu farnir að baktryggja sig fyrir slíkri niðurstöðu með því að tala fjálglega um að Ísland yrði ekkert endilega bundið af niðurstöðu dómsins ef hann yrði óhagstæður. Aldrei heyrðist slíkur málflutningur frá Bretum og Hollendingum, að þeir myndu ekki virða niðurstöðu dómsins, þó þeir hefðu ekki einu sinni beina aðkomu að honum.

Sá misskilningur virðist ríkja – og hafa ríkt – að tap fyrir dómi myndi í versta falli leiða til þess að hægt væri að ganga að fyrri samningum sem vísum á ný. Það var hrein tálsýn.

Enn, sem betur fer vannst málið. Á undraverðan hátt. Með nýstárlegum dómi EFTA-dómstólsins sem m.a. sótti rök fyrir sýknu út fyrir gögn málsins. Því skal ætíð fagna. Það skiptir máli að hafa fengið fyrir alþjóðlegum dómstól þá niðurstöðu að ríki hafi verulegt svigrúm til að tryggja efnahagslega lífsbjörg sína. Tímanum sem fór í samningaviðræður var líka vel varið, því tíminn vann með Íslandi. Samúð og skilningur jókst – og það gaf m.a. líka upphaflega norska dómara EFTA-dómstólsins „svigrúm“ til að tjá sig með þeim hætti að hann varð að víkja sæti (hann vildi að Ísland bæri ábyrgð og borgaði reikninginn ef ég man rétt).

Annar kostnaður vegna tímatapsins var líkast til óumflýjanlegur – Icesave var ekki eina ástæða þess að alþjóðlegur lánamarkaður hélt að sér höndum gagnvart Íslandi lengi vel – væntanleg uppgjör þrotabúa skipti þar líka máli, svo og almenn endurreisn efnahagslífsins. Við sluppum svo sannarlega með skrekkinn.

En að reyna að semja var skynsamlegt og rökrétt. Samningaviðræður voru hvergi á skalanum „óskiljanlegar“ til „landráð“ – sama hvað sumir vilja halda fram. Sérstaklega er mikilvægt að hafa þetta í huga þegar í einhverjum hópum þjóðfélagsins hefur myndast nokkurs konar „berufsverbot“ stemning gagnvart þeim sem studdu það að samningaleið yrði farin og niðurstaða þeirra samþykkt.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.2.2016 - 08:24 - FB ummæli ()

Skattpíning fjármálafyrirtækja

Ágætur föstudagsleiðari Þorbjarnar Þórðarsonar í Fréttablaðinu 26 febrúar, rifjaði upp mér lítinn fésbókarstatus frá því í byrjun árs. Sá var reyndar á útlensku, en lauslega þýddur sagði nokkurn veginn eftirfarandi:

Það er nú svo að tilgangur fjármálamarkaða og –stofnanna (eins og banka) er að greiða fyrir flæði fjármuna frá þeim sem eiga fé og þurfa að „spara“ til þeirra sem skortir fé og þurfa að fá „lánað“. Punktur. Þetta er mjög einfalt og blátt áfram þjónustuhlutverk þar sem milligangan bætir við mjög takmörkuðum virðisauka.

Til þess að gegna þessu hlutverki hins vegar hafa fjármalastofnanir komið á flóknu rentukerfi til þess að auðvelda, hvetja til og reyndar einoka stjórnun á flæði fjármagns á milli sparifjáreigenda og lántakenda. Staðreyndin er sú að fjármálastofnanir hafa verið svo snjallar í útfærslu og hönnun „fjármálakerfisins“ að mest allt peningamagn í umferð eru „peningar úr engu“ – búnir til úr lausu lofti á efnahagsreikningum sömu fjármálastofnanna.

Kerfið virkar eins lengi og á meðan enginn skoðar það of grannt, eða spyr of margra spurninga – eða á meðan við einfaldlega sættum okkur við að verðmæti peninga er einföld sálfræðileg spegilmynd af því sem „við“ sem samfélag trúum, eða höfum verið sannfærð um, að endurspegli virði þeirra.

Alþjóðlegar fjármálastofnanir eru yfirleitt einkafyrirtæki, þótt einhver þeirra séu í eigu eða undir stjórn stjórnvalda einstakra ríkja. Veltum því hins vegar fyrir okkur ef núverandi fjármálastofnanir væru alfarið ríkisreknar. (Ekki flókið í íslensku bankaumhverfi þar sem þorri bankakerfisins er nú í beinni eigu hins opinbera.) Tökum það svo skrefinu lengra og horfum á rentur þeirra – vextina, þjónustugjöldin, seðilgjöldin og vextina m.a – sem jafngildi skatta. Vissulega er smávegis af þeim rentum deilt með þeim sem “spara”, en að lang stærstum hluta eru meintir “sparifjáreigendur” einungis mismunandi holdgerving fjármálastofnananna sjálfra.

Já, tökum okkur smá stund til þess að íhuga hinar stjarnfræðilegu tölur um hagnað, laun, bónusa, íburð, lúxus og annað bull sem viðgengst á alþjóðlegum fjármálamörkuðum (og hinum íslenska) og horfið nú á allt þetta fé einfaldlega sem peninga skattborgarana. Því það eru þeir. Peningar eru almanna gæði, baktryggðir af opinberum seðlabönkum og opinberum fjársjóðum, og – eins og fjármálakreppan 2008 sýndi svo greinilega – þegar hriktir í stoðum fjármálakerfisins lenda afleiðingarnar og kostnaðurinn á þér og mér – en afskaplega lítið á “þeim” (þ.e. fjármálastofnununum og eigendum þeirra). Og já, mest megnið af þeim „raunverulegu peningum“ sem fjármálastofnanir byggja sína margfaldara á – gjöld og aðrar barbabrellur – koma í raun beint frá þér og mér, m.a. í gegnum lífeyrissjóði okkar (sem eru að mestu leyti meðsekir í öllu bullinu).

Nú er ég ekki andsnúin einkarekstri né tel ég að fjármálastofnanir eigi að vera alfarið ríkisreknar, en ég tel þörfina á auknu og öflugra regluvirki, hömlum á útbreiðslu „fjármálagerninga“ og já, hærri alvöru skatta á fjármagns “iðnaðinn” í heild algerlega nauðsynlega til þess að tryggja sanngjarnara framlag af hálfu þeirra til raunhagkerfisins. Sá takmarkaði virðisauki sem fjármálastofnanir bæta við réttlætir í engu þann hagnaði sem þær uppskera. Í sannleika sagt, þá er mun meiri virðisauki í nútíð og til framtíðar falin í og búin til af fjölda opinberra stofnanna, langt umfram fjármálastofnanirnar. Mennta- og heilsugæslustofnanir er t.d. gott dæmi um það. Já skólar og spítalar eru hagkerfinu mikilvægari en bankar.

Og getið þið ímyndað ykkur það ramakvein sem myndi heyrast ef einhverjar opinberar stofnanir og embættismenn leyfðu sér þvílíka of- og sjálftöku launa og bónusa, íburð og lúxus með peninga almennings eins og fjármálastofnanir leyfa sér? Það er hvorki flókið né erfitt, því það hefur jú gerst – og gerist – því miður, en ekkert viðlíka sambærilegt við það sem þekkist hjá fjármálastofnunum. Og þegar slíkt gerist hjá hinu opinbera þá eru yfirleitt undantekningarlaust alvarlegar afleiðingar. Opinberir embættismenn komast yfirleitt ekki upp með slíkt og þurfa að taka afleiðingunum. Sögulega hefur slíkt m.a.s. orðið tilefni byltinga.

—————-

Svo mörg voru þau orð.

Í hinu íslenska samhengi blasir þetta við enn á ný þegar birtar eru 7 árið eftir hrun tölur um stjarnfræðilegan hagnað bankanna. Það að tveir af þremur stóru bönkunum séu nú meira og minna í ríkiseigu og “arðurinn” renni mestmegnis í ríkissjóð gerir ástandið ekkert betra. Það endurspeglar enn frekar hvað öll umgjörð peningamála er fársjúk á landinu fagra. Bankarnir og lífeyrissjóðirnir sjúga úr okkur lífsþróttinn og getuna til að byggja, spara, njóta og lifa.

Fyrir nákvæmlega ári síðan skrifaði ég smávegis um ofurhagnað bankanna og ári síðar hefur lítið breyst – heldur gefið í ef eitthvað.

Nei, þessari skattpíningu fjármálastofnanna verður að linna. Róttækra breytinga er þörf.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.2.2016 - 10:37 - FB ummæli ()

Haftajól í júní

Eftir samninga við kröfuhafa og öllu því sem því fylgdi féll í skuggann það sem lengi í upphafi var talinn vandamál númer eitt: aflandskrónurnar, eða snjóhengjan fræga. Þær voru það sem mikið snerist um í kjölfar hrunsins. Lengi vel voru allar hinar snjóhengjurnar virtar að vettugi þó þær væru mun stærri vandi. Smátt og smátt rann þó upp fyrir mönnum að stærsta snjóhengjan væri líkast til krónueign erlendra aðila í þrotabúum gömlu bankanna, auk uppsafnaðrar fjárfestingaþarfar lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. Á þessum hengjum var tekið á með einum eða örðum hætti í samningum við þrotabúin og áætlun stjórnvalda um afnám hafta.

Upprunalega snjóhengjan situr þó enn og bíður að mestu. Vegna hennar átti að fara fram sérstakt útboð sl. haust sem síðan var frestað – og frestað. Við bíðum enn. Á meðan hefur hlaðist í nýja aflandskrónuhengju vaxtamunarviðskipta á síðustu árum upp á a.m.k. 75 milljarða skv. nýlegum fréttum.

Upphafleg haftaáætlun gerði ráð fyrir losun hafta m.a. í gegnum útboð Seðlabanka Íslands. Til boða stóð sérstök afsláttarleið fyrir þá sem vildu koma inn með gjaldeyri og skipta honum í ríkisskuldabréf eða fjárfestingar innanlands (sem í reynd urðu mestmegnis fasteignafjárfestingar). Mikið hefur verið gert úr því að með þessu móti var upphaflegi aflandskrónuvandinn minnkaður verulega. Eins og sá sem hér skrifar og aðrir hafa ítrekað gagnrýnt og bent á þá minnkaði þessi aflandskrónuvandi í reynd lítið sem ekki neitt, heldur færðist aðeins til í tíma og rúmi. Ef eitthvað, er þessi aðferðarfræði að byrja að koma í bakið á okkur á þessu ári þegar fyrstu skuldabréfin sem keypt voru samkvæmt útboðsleið losna undan fimm ára binditíma sínum. Það eru tæpir 13 milljarðar íslenskra króna sem notaðir voru til að kaupa tæpar 62 milljónir Evra (sem fóru beint úr landi aftur). 13 milljarðar fóru s.s. úr því að vera óvirkar aflandskrónur í það að vera bundin fjárfesting í ríkisskuldabréfum. Þessi bréf eru verðtryggð með 3,25% vöxtum.

Þessar 62 milljónir Evra urðu s.s. að tæpum 13 milljörðum íslenskum vegna hins sérstaka afsláttargengis upp á 210 krónur fyrir hverja Evru sem í boði var í þessu útboði.

Ávöxtun 13 milljarðanna á þessum 5 árum gerir það að verkum að í júní nk. – þegar fjárfestarnir sem komu inn með Evrurnar í skiptum fyrir íslenskar afsláttarkrónur mega selja bréfin og skipta þeim íslensku krónum yfir í Evrur á skráðu gengi – verður heildar upphæðin líkast til um 17,7 milljarðar króna.

M.v. skráð dagsgengi sl. föstudag (og ef það helst nokkurn veginn fram í júní) þá munu fást fyrir þá 17,7 milljarða rúmlega 124 milljónir Evra. Yfir 100% ávöxtun í Evrum á fimm árum.

Hagnaður þeirra sem komu inn og versluðu sér fasteignir í miðbæ Reykjavíkur án efa lítið síðri.

Galið.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.11.2015 - 10:43 - FB ummæli ()

Voffar og vín

Enn er flutt á þingi tilllaga um breytingu á lögum þ.a. heimilt verði að selja léttvín og bjór í matvöruverslunum. Í þeim efnum hef ég enga sérstaka hagsmuni, enda er í sjálfu sér lítið mál að versla á Íslandi allt það bús sem manni sýnist. Undirliggjandi prinsippspurningin er hins vegar hvort að áfengisverslun sé eitthvað sem þurfi að vera á forræði ríkisins.

Reyndar mega einkaaðilar selja áfengi á Íslandi án mikilla takmarkanna. Þeir verða bara að hafa vínveitingaleyfi og kalla sig öldurhús eða veitingastað og helst þá í glasavís eða alltént í opnu íláti, eða hvað?

Ég hef hins vegar ákveðin skilning á því að einhverjir gjaldi varhug við því að færa áfengið beint úr ÁTVR yfir í matvöruverslanir. Sjálfir virðast frumvarpshöfundar hafa ákveðnar áhyggjur af þessu líka því að skv. frumvarpinu eru engu að síður alls kyns takmarkanir á sölu áfengis þrátt fyrir þessa frelsisvæðingu, en t.d. á skv. frumvarpinu ekki að leyfa sölu á áfengi í söluturnum, sterkara búsið á að vera sér og ekki eiga Bæjarins beztu að fá leyfi til að selja bjór með pulsunum. Pulsa og bjór er náttúrulega sérdeilis óíslenskt fyrirbæri…!

Ég sé hins vegar enga sérstaka ástæðu fyrir því að sala áfengis sé á forræði ríkisins og velti því fyrir mér hvort frelsisvæðing í áfengissölumálum ætti ekki frekar von ef ekki væri stokkið beint úr ÁTVR yfir í Bónus eða 10/11 með framboðið? Hví ekki að slaka aðeins á metnaðinum og láta duga að færa áfengissöluna í a.m.k. fyrstu umferð yfir í einkareknar áfengisverslanir og sérverslanir? Miklu nær t.d. að bóka- og blómabúðir fái heimild til að selja rautt og hvítt.

——–

Í óskyldu máli hefur verið reynt nú í all nokkur ár að fá ríkið til að slaka aðeins á klónni, en það er varðandi innflutning gæludýra til landsins. Reynt var fyrir nokkrum árum að koma í gegn frumvarpi um gæludýravegabréf að evrópskum hætti sem hefði leyft óhindraðar ferðir gæludýra til og frá landinu að vissum skilyrðum uppfylltum, en ekki komst það í gegn. Hér hef ég sem hundaeigandi tímabundið í útlöndum beina hagsmuni og þá afdráttarlausu skoðun – og hef sett hana fram hér áður –  að engin smithætta sé af innfluttum gæludýrum sem eru bólusett með fullnægjandi hætti. Enda er það jú svo að aldrei í sögu gæludýrainnflutnings til Íslands hefur komið upp smit í sóttkví sem kallað hefur á það að dýrunum þar hafi verið lógað.

En, eins og með búsið, hef ég ákveðin skilning á því að einhverjum finnist það full bratt að fara úr mánaðareingrun í ekki neitt, og mikli fyrir sér hugsanlega áhættu. Væri þá ekki reynandi að vinna a.m.k. í því að stytta þessa einangrunarvist dýranna frá því sem nú er? Allt eða ekkert aðferðin sem farin var með gæludýravegabréfafrumvarpinu augljóslega tapaðist, en kannski væri stytting kostur.

Fyrir u.þ.b. 15 árum síðan var reglum um gæludýraeinangrun breytt þannig að í stað þess að dýrin þyrftu að sæta einangrum í 6 – 8 vikur var tímabilið stytt í mánuð að skilyrðum uppfylltum um undirbúning í aðdraganda komu. Það hefur gefist ágætlega og spurning hvort ekki sé full ástæða til að sækja það til atvinnuvegaráðuneytisins í ljósi fenginnar reynslu að stytta einagrunarvistina niður um a.m.k. helming, og jafnvel niður í viku. Vika væri yfirdrifið nægur tími til að kanna heilsufar viðkomandi dýrs, endurtaka blóð-, þvag- og saurprufur (sem gerðar eru áður en heimild er fengin til innflutings hvort eð er og prófunin eftir að til Íslands er komið eru í reynd til staðfestingar á fyrri prófunum) og til að kanna almennt heilsufar dýrsins. Styttri tími yrði bæði dýrum og eigendum mun léttbærar, en áfram yrðu virtar áhyggjur af hugsanlegri smithættu.

——–

Þ.a. hér legg ég til í þessum tveimur allsendis óskyldu málum aðeins minni metnað, sem hugsanlega gæti skilað okkur aðeins áfram í átt til meiri sáttar milli andstæðra sjónarmiða. Málamiðlun heitir þetta víst og hefur stundum verið ágæt til síns brúks.

Gleðilegan nóvember. 🙂

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.10.2015 - 11:48 - FB ummæli ()

Ríkið reddar…

Árið 2001 hófst mikil efnahagsleg frjálshyggjutilraun. Tekin var upp ný peningastefna, gefið í botn í einkavæðingu fjármálakerfisins,  slakað á aðhaldi og eftirliti á mörkuðum, sungið lof hinnar ósýnilegu handar og hæðst að hlutverki hins opinbera. Ruglið úr Reagan um skelfilegasta orðasamband enskrar tungu – „I’m from the Government and I’m here to help…!“ varð mantra nýaldar Íslands.

Sjö árum síðar var allt farið í strand.

Kom þá í ljós að blessað prívatið hafði nú sína galla líka, tala nú ekki um þegar frelsið og ósýnileiki handarinnar byggðust á baktryggingu frelsins beint í vasa ótýnds almúgans. Ósýnilega höndin reyndist vera ósýnilegir ábyrgðarpappírar, sem snögglega urðu sýnilegir við hrunið. Frjálshyggjan kafsigldi land og þjóð, og allt í einu var það ríkið sem kom til bjargar.

Sjö árum síðar er landið komið að því er virðist á réttan kjöl. Ekki af því að prívatið lagaði til eftir sig óreiðuna (þó það hafi vissulega haft sitt hlutverk líka) heldur vegna þess að ríkið – Hið Opinbera – hefur staðið sína pligt. Hið Opinbera hefur leitt endurreisnina og í því starfi gefið því atvinnulífi sem þó lifði af hörmungarnar fyrir sjö árum rúm og færi til að vaxa og dafna. Hið Opinbera hefur tryggt velferðina, menntunina, atvinnuna og þannig mætti lengi telja.

Það er Hið Opinbera sem leiddi fyrst samninga um Icesave – og síðar málarekstur vegna Icesave – og skilaði sigri í Icesave.

Það er Hið Opinbera sem höndlaði samninga við kröfuhafa, stýrði atvinnu-, efnahags og uppreisnarpólitík þannig að tjón varð þó ekki meira en varð, að atvinnuleysi varð ekki meira en það varð, að uppbygging og uppreisn hefur verið jafn mikil og raun ber vitni.

Voru mistök gerð? Ó já. Hefði þetta getað verið skárra? Án efa. Verra? Gvöð minn almáttugur já. Hugsið ykkur t.d. hvernig hefði farið ef Hið Opinbera hefði ekkert að gert og efnahagslegur Darwinismi hefði verið látin ráða för og fylgt t.d. efnhagslegum trúarkennisetningum kenndum við Austurríki og ferskvatnsskóla.

Þegar hyglir undir endalok þeirrar þrautargöngu í kjölfar hrunsins sem endurspeglast í líklegu lokasamkomulagi við kröfuhafa þrotabúa gömlu bankanna getum við þrátt fyrir allt – og alveg andstætt ríkjandi rétthugsun – verið þakklát fyrir þá pólitíkusa og opinberu starfsmenn sem höfðu þor og dug til að takast á við þá miklu áskorun sem land og þjóð stóð frammi fyrir í upphafi október 2008.

Og já, þá tel ég með ríkisstjórn Sjáfstæðisflokks og Samfylkingar sem var við völd við hrunið, ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur sem tóku við vorið 2009, og núverandi ríkisstjórn. Þó deila megi um aðferðir og leiðir – eitt hefði betur verið gert en annað – var aldrei valkostur að gefast upp. Og þá er rétt að hafa í huga að vilji til samninga er ekki uppgjöf. Það átti ekki við í Icesave, og á heldur ekki við í uppgjöri við kröfuhafa nú. Samningaleið er ein leið, dómstólaleið önnur – en í hvorugri þarf að felast uppgjöf.

Hið Opinbera. Það hefur sitt hlutverk og augljósa kosti, enda í sjálfu sér ekki annað en endurspeglun samtakamáttar, samkenndar og samstöðu okkar allra. Felst í Hinu Opinbera allsherjarlausn? Nei, en það hefur sitt hlutverk, sinn tilgang, sinn tilverurétt og sína nauðsyn – fyrir okkur öll.

Nú þegar hlutverki Hins Opinbera í endurreisninni fer að verða lokið er hins vegar tímabært að velta fyrir sér hlutverki þess í framhaldi – og ekki síst hlutverki prívatsins í stóru myndinni.

Því ef ætlunin er að nýtt upphaf feli í sér að lagt verði af stað frá sama stað og 2001 – sömu peningatefnu, sömu verðtryggingu, sömu baktryggingu fjármálamarkaðarins, sömu einkavæðingarnar, sama ósjálfbæra og þurftarfreka lífeyrisskerfið, sama ábyrgðar- og afskiptaleysið og svo framvegis – er kannski ekki ástæðulaust að hafa áhyggjur af framhaldinu.

Það skýtur alltént skökku við að það sem helst ber til tíðinda eru áætlanir um nýjar og fleiri ósýnilegar hendur og að auka eigi sjálfvirknivæðingu í stjórn efnahagsmála. Sjálfvirknivistarbönd verðtryggingar virðast ekki eiga að fara neitt, boðuð eru sjálfvirk viðmið í fjármálastjórn ríkisins varðandi hvorutveggja skuldsetningu og hallarekstur – óháð undirliggjandi efnahag og í trássi við reynsluna strax eftir hrun, og nú er svokallaður SALEK-hópur að boða einskonar sjálfvirknivæðingu í gerð kjarasamninga. Áfram virðist gert ráð fyrir sjálfvirkni peningastefnunnar þar sem vaxtahækkun virðist nánast alltaf valkostur númer eitt, sama hvað. Í öllu þessu leynist svo lítt dulin flótti frá afstöðu og ábyrgð.

Og söngurinn um Hið Opinbera og hversu afleitt það er hefur hafist á .

Göngum því hægt um gleðinnar dyr og höfum eilítið varann á.

Og munum að Hið Opinbera er ekki svo afleitt í reynd.

Hið Opinbera erum við.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.8.2015 - 10:15 - FB ummæli ()

Skrýtin skattlagning leigutekna?

Í öllu angistartalinu um ömurlegt ástand á leigumarkaði hefur lítið verið fjallað um hvað  skattlagning tekna vegna leiguhúsnæðis í eigu einstaklinga sýnist frekar sérkennileg.

Gefum skattinum orðið:

Leigutekjur af íbúðarhúsnæði utan atvinnurekstrar færast til tekna í skattframtali og er ekki heimilt að færa kostnað vegna húsnæðisins til frádráttar…

Ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af 30% af tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis. Þetta frítekjumark er ákvarðað í álagningu á grundvelli skattframtals og færast því einungis til skattskyldra tekna 70% af fenginni leigu þótt gera eigi grein fyrir heildartekjunum.

Setjum þetta upp í nokkur lítil dæmi.

1:

Stúdíóíbúð sem leigð er fyrir 100 þúsund á mánuði, 1200 þúsund fyrir árið, greiðir 20% fjármagnstekjuskatt af 70% leigutekna (af 840 þúsundum) sem gerir 168 þúsund.

Tekjur af íbúðinni eftir skatt eru þá orðnar ein milljón og 32 þúsund.

Gerum ráð fyrir einungis 8% nafnvaxtaávöxtunarkröfu (sem á að dekka ávöxtun eiginfjár, fjármagnskostnað, tengigjald OR, afskriftir og viðhald). Þá fáum við út að íbúðin má ekki vera dýrari að markaðsvirði en 12,9 milljónir. Fann eina slíka eign til sölu á fasteignavef mbl.is. Er einhver til í að kaupa hana og leigja fyrir ekki meira en 100 þúsund kall?

2:

Keypt er 30 milljóna króna íbúð á höfuðborgarsvæðinu til útleigu. Tekið er 80% lán til 25 ára og lagðar fram 6 milljónir í eigið fé. Íbúðin er leigð á 200 þúsund krónur á mánuði, eða 2,4 milljónir yfir árið. Fjármagnstekjuskatturinn af útleigunni er 336 þúsund, og nettótekjurnar fyrir annan kostnað þ.a.l. komnar niður í 2 milljónir og 64 þúsund. Afborganir lánsins eru hins vegar u.þ.b 130 þúsund á mánuði, eða 1560 þúsund yfir árið. Nettótekjurnar eftir skatt og fjármagnskostnað þ.a.l. komnar niður í 504 þúsund. Þá á eftir að taka tillit til afskrifta, viðhalds, fasteignagjalda og tengigjalds orkuveitunnar. Nafnávöxtun eiginfjárins – 6 milljónir – er fyrir þennan kostnað um 8,4%.

Fasteignagjöld í Reykjavík eru 0,2%. Gefum okkur að fasteignamat sé sama og markaðsvirði í dæminu hér fyrir ofan og þá eru fasteignagjöldin 60 þúsund fyrir árið. Árgjald orkuveitunnar líklega 120 þúsund og dragast því samtals 180 þúsund frá 504 þúsundunum. Nettótekjur eru komnar niður í 324 þúsund, sem gerir 5,4% nafnávöxtun eiginfjár. Enn er ekki farið að taka tillit til afskrifta eða viðhalds. Einn stór viðhaldsreikningur þurrkar upp þá littlu arðsemi eiginfjár sem eftir er á augabragði.

3.

Ef einstaklingur fengi að gera upp húsaleigu eins og leigufélag/fyrirtæki myndi fjármagnstekjuskattur einungis greiðast af nettótekjum að frátöldum kostnaði. M.v. dæmið hér að ofan færi þá skattheimta fjármagnstekjuskatts úr 336 þúsundum niður í 64,800, ef ekki kæmi til stór viðhaldreikningur – og enn tökum við ekki tillit til afskrifta – og ávöxtun eiginfjár tæki kipp upp á við (eða svigrúm myndast til að lækka leiguverðið eða a.m.k tempra frekari hækkun þess).

Við núverandi fyrirkomulag skattheimtu af leigutekjum einstaklinga liggur öll kostnaðaráhættan hjá leigusalanum  sem hlýtur að hafa áhrif á leiguverð. Reyndar er kerfið þannig byggt upp að það letur frekar en hvetur fólk til að stunda útleigu húsnæðis nema leigan sé því hærri (og ef út í það er farið, hvetur til svartrar leigu). Þá er væntanlega þægilegra, öruggara og einfaldara að fjárfesta 6 milljónirnar bara í ríkisskuldabréfi.

Má því velta því fyrir sér hvort að breytt fyrirkomulag skattheimtu á leigutekjum einstaklinga þ.a. í stað 70/30 reglunnar verði heimilt að kostnaðarfæra að fullu á móti tekjunum gæti ekki haft jákvæð áhrif á framboð og verðlagningu á leigumarkaði.

———-

(PS – Þar sem þetta eru allt svona aftan-á-servíettu pælingar hjá mér á meðan ég úða í mig hádegissamlokunni væri voða vel þegið ef einhver með meira vit á þessu en ég gerði athugasemdir við þetta.)

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is